Tuesday, January 31, 2006

Af sigri Hamas

Abbas segir Palestínumenn standa við gerða samninga“. Gott og vel. Hvenær kemur röðin að Ísraelum að standa við gerða samninga? Og annað: „Hamas-samtökin neita [skiljanlega] að afvopnast“, en „Evrópusambandið sagðist í dag tilbúið að halda áfram að styðja efnahagsuppbyggingu Palestínumanna og nýja ríkisstjórn Palestínumanna undir stjórn Hamas ef samtök snúa baki við ofbeldi og breyti afstöðu sinni til Ísraels.“ Ef þau snúa baki við ofbeldi, já. Hvers vegna eru Ísraelar ekki krafðir um að snúa baki við ofbeldi?
Hvers vegna er ekki lögð sama mælistika á Ísraela og Palestínumenn!?

Amira Hass skrifar: „PA citizens complain at checkpoints: `We`re sick of thieves stealing our money`“. Í þessari grein kemur fram það sem ég held að sé aðalástæðan fyrir sigri Hamas í Palestínu:
`I`m not religious,` he said. `I don`t pray. I don`t fast. But I`ll vote Hamas, because we`re sick of the thieves, we`re sick of them stealing our money. We`ve received billions of dollars from the world, and where are they?`
[...]
In public interviews, senior Hamas officials reject the theory that their victory was due to a mass protest vote against Fatah. They insist they won because people have adopted their ideology. But in private, one Hamas activist from Gaza who is close to the movement`s leadership rejected this view.
`It`s clear the reason is disgust at Fatah,` he said. `Most of the Palestinian public doesn`t belong to anyone, doesn`t support anyone. We have 1.34 million voters. At major demonstrations - how many people can each organization bring? That`s our way of measuring. How many can Hamas bring? 80,000? Fatah - 50,000? So let`s say 200,000 are ideologically identified with the various parties. More than 1 million aren`t politically affiliated, and they decided: We`re sick of Fatah, and Hamas provides an example of a different type of leadership.`

Hugmyndafræði Hamas er ekki það sem heillar, heldur sú ímynd Hamas-manna að þeir séu ekki spilltir og geri ekki málamiðlanir -- það er að segja, séu ekki landráðamenn. Þetta -- að hugmyndafræði þeirra sé ekki það sem heillar -- er m.a. stutt af skoðanakönnun sem sýnir að yfirgnæfandi meirihluti Palestínumanna vilji friðarsamninga við Ísraela.
Þá er annað sem vert er að veita athygli: Hamas-menn eru fúsir að semja um vopnahlé. Það er nú öll óbilgirnin. Annars vegar er það gott og blessað að þeir séu fúsir til þess, en á hinn bóginn gæti það hæglega orðið skálkaskjól til að gerast sellát og hlaupast undan merkjum þjóðfrelsisbaráttunnar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nú, þessi Al-Zawahri virðist vera lifandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Saddam gekk úr réttarsal sem frægt er orðið. Það fylgir ekki fréttinni sem ég vísa í, en var sagt í sjónvarpsfréttinni, að hálfbróðir hans, Barzan al-Tikriti, hefði (réttilega) hafnað dómstólnum, kallað hann skrípaleik og neitað að viðurkenna hann. Auk þess sagði hann að þessi dómstóll væri eins og dóttir hóru. Hvað sem segja má um þessa karla, þá kunna þeir að koma fyrir sig orði.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Kanada: Námamönnum bjargað“. Í Bandaríkjunum köfnuðu þeir. Velkist einhver í vafa um mikilvægi þess mannréttindamáls að fólk fái að vinna í sem öruggustu umhverfi?

Monday, January 30, 2006

Sigur Hamas-samtakanna í Palestínu

Hvað sýnir sigur Hamas í Palestínu? Umfram annað að palestínskur almenningur er orðinn þreyttur á spilltum embættismönnum Fatah, og að stefna Fatah hefur fallið um sjálfa sig vegna þess að hana skortir strategíu. Spilling er hvimleið, ég held að því verði ekki neitað, og því verður heldur ekki neitað að hún hefur verið landlæg meðal borgaralegrar forystu Palestínumanna. Hamas hafa hingað til getið sér orð fyrir að vera ekki spilltir, og fyrir að láta ekki deigan síga frammi fyrir kjarnorkuveldinu Ísrael.
Hvers má vænta af Hamas á næstu misserum? Um það er vandi að spá, en þeir hafa tvo kosti og báða slæma: Annað hvort að halda uppteknum hætti með herskáum yfirlýsingum og árásum, sem mundi þýða að yfirgangur Ísraela gangi í endurnýjun lífdaga og færist í aukana, eða þá að þeir slaka á klónni og leita einhvers samkomulags við Ísraela og stuðningsmenn þeirra.
Fatah skortir strategíu, og það sama á við um Hamas. Annars vegar viðurkenna þeir Ísrael og Oslóarsamkomulagið de facto með þátttöku í kosningunum, og þar með hugmyndina um tveggja ríkja lausn, en hins vegar tala þeir um eyðingu Ísraels. Fyrir utan að eyðing Ísraels er ekki möguleg, hvað ætla þeir sér þá að gera við milljónir ísraelskra borgara?
Hvað sem á eftir að gerast á næstu mánuðum, þá er ekki við öðru að búast en að Hamas reynist jafn ófærir um að ná markmiðum sínum og Fatah hafa verið. Ef Hamas tekst að halda völdum verður það vegna þess að þeir gerast sellát og gera málamiðlanir frá óraunhæfri stefnu sinni. Til valda munu komast Hamasleiðtogar sem er hægt að kaupa og einhverjir imamar munu finna ritningarstaði í Kóraninum til að réttlæta friðþægingu.
Það kemur betur og betur í ljós að það er ekki borgaraleg lausn á vandamálum Palestínumanna. Palestínska borgarastéttin er ekkert betri en borgarastéttir annarra þjóða. Lausnir sem byggjast á þjóðerni, trú eða öðru ídentíteti eru jafn vonlausar. Þá líst mér betur á stéttabaráttu, þar sem almenningur berst fyrir almennum mannréttindum -- barátta vinnandi fólks fyrir rétti sínum.
Svipað á eftir að koma á daginn annars staðar þar sem íslamistar ná völdum: Þeir eiga ekki eftir að skila almenningi niðurstöðum sem sátt mun ríkja um. Þótt þeir séu við valdatökuna ekki eins spilltir og forverarnir, þá er íslam ekki betri en önnur trúarbrögð til að byggja stjórnmálastefnu á.

Saturday, January 28, 2006

Chavez sakar Bandaríkjastjórn um njósnir. Neei, Bandaríkjastjórn? Eru það ekki góðu gæjarnir?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mikið um að vera í Palestínu. Ég held ég tjái mig meira um það eftir helgi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég fór á álráðstefnu í gær. Tjái mig líka meira um hana eftir helgi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þangað til: Eigið ykkur.

Thursday, January 26, 2006

Snarrót er komin með nýja heimasíðu!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hér getur að líta lista yfir 148 lönd, raðað eftir því sem mér sýnist vera greiðsluhalli. Noregur kemur best út, Qatar í öðru sæti, Sviss í þriðja og svo koll af kolli, alls 148 lönd. Bandaríkin reka lestina með mikinn greiðsluhalla -- og þétt þeim við hlið standa engir aðrir en ... Íslendingar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nú, það styttist í kosningar í Bandaríkjunum. SEP bjóða fram, að sjálfsögðu. Ef ég hefði kosningarétt í Bandaríkjunum býst ég við að þeir hlyti stuðning minn. Ég skil samt ekki þessa trú sem þeir hafa á þingræðinu. Fulltrúalýðræði og kosningakerfi Bandaríkjanna eru hönnuð með hagsmuni valdastéttarinnar í huga -- og valdastéttin hefur fyrir löngu lagað sig og baráttu sína eftir kerfinu -- þannig að hvernig ætti sósíalismi að eiga nokkuð uppdráttar sem lagafrumvarp? Ef það væru sett lög um að einkaeignarréttur á framleiðslutækjum væri afnuminn, til dæmis, mundu kapítalistar þá bara dæsa og sætta sig við að partíið væri búið?
Ætli það?

Tuesday, January 24, 2006

Trotskíistar í NYC; Hugo Chavez situr ekki á friðarstóli

Trotskíistar dreifðu Workers' Vanguard (ágætt blað en uppsetningin er ekki aðgengileg) meðal verkfallsmanna í New York í desember. Jarrett Murphy skrifar í Village Voice: „Socialists, Scabs, and the "Union Soul"“ af því þegar fulltrúar verkalýðsfélaganna reyndu að stugga þeim í burtu: „While most strikers seemed on the same page at picket sites in the Bronx and Manhattan visited over the past two days, there were signs at 207th Street of fissures appearing. "There's a lot of internal divisions," Rivera said, although reluctant to describe them to the media. He did say the problem included, "People coming here to talk about the president, and it divides us."“ Er þetta eitthvað grín? Menn koma, dreifa blöðum og bæklingum þar sem verkfallið er sett í samhengi við stéttabaráttuna að öðru leyti, og verkalýðsforystan segir þeim að hypja sig?? Sko: Ég get fallist á að í sumum -- eða mörgum -- málum skipti málefnaleg og þverpólitísk samstaða meira máli en flokkadrættir. En kallast það að „kljúfa verkfallsmenn“, að gagnrýna sömu stjórnvöldin, sömu yfirstéttina og þeir eru að berjast gegn? Hvaða della er þetta eiginlega??
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Húgó Chavez er valinn maður ársins á Kúbu. Ég held að það sé verðskuldað. Á sama tíma mótmæla andstæðingar hans honum á götum Caracas og krefjast „sanngjarnra kosninga“ í staðinn fyrir kosningarnar sem þeir ákváðu sjálfir, í samráði við bandaríska baktjaldamakkara, að sniðganga frekar en að skíttapa þeim! Andstæðingar Chavez hafa trekk í trekk haft rangt við, án þess að hafa sigur á höfuðandstæðingi sínum -- almenningi í Venezuela.

Monday, January 23, 2006

Ég hef verið ansi aktífur á Vantrú að undanförnu. Í dag birtist greinin Athyglisverð köpuryrði frá Agli Helgasyni eftir mig, sem er svar við nýlegri grein Egils Helgasonar, "Um fordóma og fáfræði". Í fyrradag átti ég greinarkorn um rökvilluna "Sök vegna tengsla" og 18. þ.m. aðra um rökvilluna "Árás á persónu vegna aðstæðna". Daginn áður skrifaði ég um "Völvuspá og talnaspeki í Vikunni". 9. janúar birtist "Blóðskömm eða hór? Valkvæmt ritningarminni biskups eða ritningarleg afstæðishyggja?" og 5. janúar birtist "Biskup Þjóðkirkjunnar, óvæntur bandamaður". 28. desember birtist svo "Dómstóll úrskurðar að kennsla í vitrænni hönnun í opinberum skólum brjóti gegn stjórnarskrá" eftir Joe Kay en þýdd af mér. Hvað ætli maður haldi þessum dampi lengi?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lewis Welshofer Jr., háttsettur maður í bandaríska hernum hefur verið dæmdur fyrir að drepa íraska herforingjann Abed Hamed Mowhoush með illri meðferð -- réttara sagt, pyndingum -- árið 2003. Hann mun hafa kæft hann með svefnpoka. Setjið mann í aðstöðu til að hafa líf og limi einhvers annars í hendi sér, og þá er bara tímaspursmál hvenær svona nokkuð hendir. Eftirlitslausir ójafnaðarmenn með varnarlausa fanga undir járnhæl. Óhugnaður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„Nígerskir gíslatökumenn segjast geta haldið föngum sínum í áraraðir“ hermir Mbl.is. Eins og fréttin er orðuð mætti halda að gíslatökumennirnir séu vondu gæjarnir. Það er ekki svo. Shell og Nígeríustjórn hafa farið sínu fram gagnvart íbúum svæðisins af hrottaskap, stundað rányrkju, spillt umhverfinu og farið illa með heimamenn sem hér greinir. Ég get ekki áfellst samfélag sem rís upp gegn kúgurum sínum, frekar en ég get áfellst dýr sem bítur frá sér þegar það er króað af í horni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
20 manns létust í Nepal“ hefur Mbl.is eftir nepölskum embættismönnum. Það þýðir að fjöldinn er talsvert meiri. 6 lögreglumenn féllu og 14 maóistar „fundust látnir“ eftir átökin. Blaðamaður Morgunblaðsins er greinilega ekki með Nepal á heilanum eins og sumir, fyrst hann hefur þetta eftir. Það er alkunna að þegar vopnaðar sveitir konungsins -- hvort sem það eru hermenn eða lögreglumenn (einu orði vandsveinar) -- „finna“ menn dauða eða ganga af þeim dauðir sjálfir, þá segja talsmenn ríkisstjórnarinnar vanalega annað hvort að fólkið hafi verið maóistar, eða þá fórnarlömb þeirra. Með öðrum orðum er ekki mark takandi á opinberum nepölsum heimildum um mannfall eða í hvaða liði hinir föllnu voru. (Ég þarf varla að taka fram að heimildum frá maóistum þarf líka að taka með fyrirvara.)
Ég hef reyndar fleira að athuga við þessa frétt -- þótt það sé kannski ekki sanngjarnt að vera of harður þegar venjulegur blaðamaður skrifar stutta frétt um mál sem er eitt af mínum helstu áhugamálum. Allavega, í greininni er sagt: „Madhav Kumar, háttsettur meðlimur nepalska kommúnistaflokksins segir að lýðræðislegir stjórnarhættir verði ekki teknir upp í landinu.“ Það kemur ekki fram að nepalski kommúnistaflokkurinn (þetta eru ekki maóistar heldur sameinaðir marx-lenínistar, næststærsti þingræðisflokkurinn) er fremstur í flokki stjórnarandstöðunnar sem stendur að þessum mótmælum. Flokkar þeir eru sjö talsins („sjöflokkana“ hef ég kallað þá) og þar af er Congressflokkurinn stærstur en CPN(UML) næststærstur. Kumar var, m.ö.o., að tala fyrir hönd mótmælendanna og gagnrýna kónginn fyrir að ríghalda í völd sín. Það er ljóst að hann mun ekki gefa þau upp fyrr en í fulla hnefana. Þar sannast hið fornkveðna: Mannréttindi og lýðræði hljótast ekki fyrir náð valdhafa heldur fyrir baráttu hinna kúguðu.

En þetta er ekki búið: „Að sögn lögreglunnar var gripið til þess ráðs að handataka fólk eftir að upplýsingar bárust um að uppreisnarmenn úr röðum maóista hefðu blandað sér í hóp mótmælenda og hafi þeir ætlað að hvetja til þess að ofbeldi yrði beitt. [leturbreytingar V.V.]“ Þarna er komin fram ástæðan sem einræðisherrann gaf fyrir útgöngubanninu alræmda. Það á að vera til þess að vernda stjórnarandstöðuna ef ske kynni að agents provocateurs úr liði maóista ætluðu sér að sá misklíð! Hafa menn heyrt annan eins rakalausan þvætting?? „Ég svipti þig frelsinu vegna þess að það er þér fyrir bestu.“

En það fer semsé ekki milli mála að það er allt komið í bál og brand aftur í Nepal. Þegar átökin eru hörðust eru breytingarnar hraðastar og baráttunni fleygir fram. Fyrir hvern dag sem landið logar í ófriði styttist kveikiþráðurinn undir tundrinu sem hans hágöfgi, ruddinn og fanturinn Gyanendra, situr á. Með öðrum orðum, þá styttist í að nepalskur almenningur komist áleiðis um eitt stig í stéttabaráttunni.

Sunday, January 22, 2006

Flatneskjulegasta örnefni Íslands

Til skamms tíma hélt ég að það væri hið reykvíska Miklatún.

Það gladdi því mitt reykvíska hjarta að til er annað ennþá ljótara. Í Borgarfirði er nefnilega til Stórafjall.

Nepal. Sýrland.

Mbl.is greinir frá atlögu lögreglu á mótmælendur í Katmandú í Nepal. Þeir kröfðust lýðræðis og afsagnar Gyanendra harðstjóradruslu. Lögreglan veittist að þeim með kylfum og táragasi, eins og sést á Reuters-myndbandi sem fylgir fréttinni. Þetta einræðisfyrirkomulag getur ekki átt langt eftir.
Það er allt logandi. Maóistar ráða meira en hálfu landinu, þingræðisflokkarnir, studdir Indlandi og Vesturveldunum, sameinaðir gegn krúnunni og í taktísku samstarfi við maóista (sem Bandaríkjastjórn getur ekki lengur -- af pólitískum ástæðum -- kallað „hryðjuverkamenn“). Maóistar farnir að gera árásir í úthverfum Katmandú. Þetta er skák og mát -- í orðsins fyllstu merkingu („kóngurinn er umsetinn“ á persnesku...) -- aðeins tímaspursmál hvenær völd hans heyra sögunni til.
Þá verður einu ljóninu færra í veginum, lénskerfið úr sögunni.
Þingræðisflokkarnir og maóistarnir eiga þá ennþá eftir að útkljá næsta stig stéttabaráttunnar, milli borgara og öreiga. Í landi eins og Nepal er borgarastéttin varla til. Aðalástæðan fyrir því að maóistar eru ekki löngu búnir að sigra eru líklega andlegir fjötrar hindúatrúar, sem stór hluti þjóðarinnar býr ennþá við. Það, annars vegar, og hins vegar auðvitað skiljanleg tortryggni fólks sem tengir þá við menningarbyltinguna í Kína eða Gúlagið í Sovétríkjunum.
Ég held að það sé of snemmt að spá hörmungum í rauðu Nepal. Helstu hörmungarnar yrðu líklega í formi brjálaðra heimsvaldaríkja -- með Indland, Bandaríkin og Bretland fremst í flokki (hvað mun Halldór Ásgrímsson segja þá?) -- sem munu án efa ólmast á alþýðulýðveldinu um leið og það verður til, eins og mýmörg dæmi eru um úr sögu tuttugustu aldar (og reyndar þeirrar nítjándu líka). Auk þess er Nepal eitt fátækasta land heims svo róðurinn verður þungur hvernig sem fer. En dr. Baburam Bhattarai, næstráðandi maóistaflokksins, komst best að orði þegar byltingunni var lýst yfir 1996: Hamar og sigð munu blakta yfir Everestfjalli.
=== === === ===
Sýrlandsforseti -- sem er eilíft fórnarlamb slæmrar pressu á Vesturlöndum -- sakar Ísraela um að hafa drepið Arafat. Ísraelar segjast ekki kannast við neitt. Hér er spurning: Ef margra ára innilokun í herkví, þar sem maður getur ekki hætt sér út fyrir hússins dyr, telst ekki heilsuspillandi meðferð, hvað telst það þá?

Friday, January 20, 2006

Óvænt umfjöllun

Lifandi vísindi voru að berast inn um bréfalúguna. Það blað getur verið æði misjafnt; vísindi fara ekki vel saman við ærifréttamennsku ef vel á að vera. En í þessu tölublaði er grein sem ég tek ofan fyrir. Á blaðsíðum 50-57 er hún, upp á fjórar opnur, og fjallar um byltinguna í Nepal, einkum með tilliti til stöðu kvenna. Þessi grein er mjög fín og Lifandi vísindi fá hér með plús í kladdann!

Margt athyglisvert......

Ósama býður BNA frið. Hvað skal segja? Ósama er annaðhvort skammsýnn og illa haldinn af óhóflegri bjartsýni, eða útsmoginn, hagsýnn og handbendi illa spilltra elementa í bandaríska stjórnkerfinu. Ég tel síðari kostinn líklegri. Heimskur er hann nefnilega ekki, hvað sem öllu líður.
=== === === ===
Sjálfskipaðir siðgæðisverðir Íslands mótmæla áformum um að heimila kirkjublessun blóðskammar. Hvað getur maður sagt? Ætli þetta dæmi sig ekki bara sjálft?
=== === === ===
Ef þessar tölur er að marka, þá gætu horfur í kúgun Ísraela á Palestínumönnum verið að fara batnandi.
=== === === ===
Mike Whitney skrifar um Sharon og hvernig Thomas Friedman reynir að fegra minningu hans.
=== === === ===
Andrew Cockburn skrifar: „How Many Iraqis Have Died Since the US Invasion in 2003? -- 30,000? No. 100,000? No.“ -- í henni fjallar hann um vel rökstuddar niðurstöður rannsókna á mannfalli í Írak frá upphafi innrásarinnar, þar sem í ljós kom að mannfallið er mun meira en sagt hefur verið frá í fréttum -- og margföld talan (um 30.000) sem George W. Bush nefndi sem ágiskun í ræðu á dögunum.
=== === === ===
Eftir árás í Níger-ósum, sem kostaði 17 manns lífið, íhuguðu Shell-menn að draga sig út úr umsvifum í olíuvinnslu á svæðinu. Í ósum Níger hafa Shell og Nígeríustjórn farið fram með miklum ruddaskap og ofbeldi undanfarin ár, og heimamenn skiljanlega brugðist við -- með því að grípa til vopna. Viðbrögð þeirra eru greinilega ekki árangurslaus!
=== === === ===
Ég vil að lokum benda fólki á að skoða það góða framtak sem Hallveigarbrunnur.is er. Þar gefast Reykvíkingum tækifæri til að koma með uppástungur um umhverfis- og skipulagsmál borgarinnar. Ég er hæstánægður með þetta! Á [frekar frumstæðum] umræðuvettvangi síðunnar var ég t.a.m. að hefja máls á tvennu: Göngustígum sem liggja í gegn um græn svæði og ólestri sem maður á ekki að verða var við í hundahaldi. Bæði málin hafa brunnið á mér lengi og ég er feginn að koma þeim frá mér. Ég varð auk þess feginn því að sjá að ég er ekki einu áhugamaðurinn um að það verði frítt í strætó.
Vitiði hvað, ég er svo ánægður með þetta að ég bæti mynd í hausinn á blogginu!

Thursday, January 19, 2006

Fréttir af gangi mála í Nepal, auk annars

Ef einhver er á ferðinni á háskólasvæðinu í hádeginu, þá held ég að þetta gæti verið fróðlegur fyrirlestur (Askja kl. 12:15).
=== === === ===
Haldið þið ekki að Egill Helgason taki upp hanskann fyrir Karl biskup og hendi í leiðinni hnútum í Vantrú? Þessi grein hans er svo frábært safn af rökvillum að það virðist næstum því vera með ráði gert!
=== === === ===
Það er rétt að benda á þetta:
Skeptíkus kynnir:
= One Nation Under God =
Stofa 132 í Öskju :: Fimmtudaginn 19. janúar :: Kl: 20:00 :: Aðgangur ókeypis
One Nation Under God er 85 mínútna löng heimildarmynd um aðferðir samtaka heittrúaðra kristinna manna í Bandaríkjunu til þess að "lækna" samkynhneigð. Aðferðirnar eru allt frá því að láta "fyrrverandi homma" spila ruðning, til þess að vera heilaþvottur í líkingu við Clockwork Orange. Myndin er á köflum fyndin en ætti líka að vekja fólk til umhugsunar.
=== === === ===
Ágústínusarverðlaun Vantrúar 2005 hafa verið veitt fyrir „framúrskarandi“ frammistöðu í guðvísindum á árinu 2005. Tíu prestar og guðfræðingar tilnefndir. Lesið þetta!
=== === === ===
Ísrael: Áætlun um eyðingu 24 gyðingabyggða
=== === === ===
Á SketchyThoughts hafa blogg um uppreisnina í Frakklandi í haust verið tekin saman í tímaröð.
=== === === ===
Rússar eru búnir að þróa ofureldflaug sem kallast Topol RS 12. Í þessari grein er sagt frá henni og þeim hernaðarlegu yfirburðum sem hún hefur. Þarna hafa Rússar stigið umtalsvert skref til þess að minnka bilið milli sín og Bandaríkjamanna í vígbúnaðarkapphlaupinu.
=== === === ===
Á Samudaya er grein eftir Sarahana sem nefnist „Out-manuevering the Maoists socialistically“. Sarahana segir að nepölsku maóistarnir búi við tvö vandamál sem skæruliðahreyfingar eigi venjulega ekki við að etja:
1. The recruitment that is essential to the growth and sustainability of the movement has been significantly reliant on coercion of some form. ...
2. A significant number of voluntary recruits are not politically or ideologically disciplined.
...og rekur síðan hvaða þýðingu þetta hefur fyrir gang mála í Nepal. Athyglisverð lesning, þykir mér.
Af nepölsku byltingunni er það annars nýjast að frétta, að frá því einhliða vopnahlé maóista rann út um daginn hafa átök blossað upp og farið vaxandi, ef eitthvað er. Á laugardaginn gerðu maóistar árásir á tvær lögreglustöðvar og a.m.k. 12 lögreglumenn féllu. Í kjölfarið var sett á útgöngubann í Kathmandu og úthverfinu Lalitpur. Mannréttindanefnd Asíu hefur fordæmt útgöngubannið og aðrar ráðstafanir sem hún segir vera mun harðneskjulegra en aðstæður gefi tilefni til -- en þeir sem brjóta bannið eiga yfir höfði sér mánaðar fangelsi og ef þeir reyna að komast hjá handtöku hafa vandsveinar konungsins heimild til að skjóta til að drepa. Í trássi við bannið hafa námsmenn og aðrir íbúar Kathmandú mótmælt konungdæminu á útifundum. Það er óhætt að minna á eðli nepölsku ríkisstjórnarinnar, sem er ólýðræðisleg í meira lagi. Konungurinn hrifsaði öll völd 1. febrúar síðastliðinn og stjórnar síðan með valdboðinu einu.
Loks vil ég benda á greinargerð á Samudaya: „Target: Kathmandu“ þar sem sést yfirlit yfir atburði síðustu mánaða. Skemmst er frá því að segja, að ekki verður betur séð en maóistar ætli sé að taka Kathmandú áður en langt um líður. Spáð er „rauðum febrúar“ í Nepal. Ég, fyrir mitt leyti, held að nepalska konungdæmið endist ekki út árið.

Wednesday, January 18, 2006

Friðrik Sophusson er rökvillingur

Eftir sigur umhverfisverndarsinna í gær leit ég á heimasíðu Landsvirkjunar til að gá hvort þar væri einhver viðbrögð að sjá. Á forsíðunni eru fróðleiksmolar. Fróðleiksmolinn sem var uppi þegar ég kíkti bar titilinn „Hverjir eru ókostir jarðvarmavirkjana?“. Rétt er að taka fram að það er fullt af öðrum fróðleiksmolum, en var þetta merkileg tilviljun eða bara ósköp venjuleg, ómerkileg tilviljun?
Friðrik Sophusson finnst mér annast vera ómálefnalegur og sjálfum sér líkur þegar hann grípur til ódýrrar Circumstantial Ad Hominem-rökvillu. Hans rökvilla er að fyrst Reykjavík eigi jarðvarmavirkjun, þá hljóti það að vera skýringin á andstöðu borgarstjórnar við vatnsaflsvirkjun í Norðlingaöldu.
Friðrik Sophusson, þú ert rökvillingur!
=== === === ===
Derbez, utanríkisráðherra Mexíkó, gagnrýnir það harðlega að Evo Morales hafi boðið Zapatistum frá Chiapas til athafnarinnar þegar hann tekur við forsetaembættinu.
=== === === ===
Næringu er þvingað ofan í Guantanamo-fanga í hungurverkfalli. Óhugnaðurinn í Guantanamo virðist engan endi ætla að taka.
=== === === ===
Gullverð hefur hækkað um eina 70 dollara únsan frá því fyrir jól. Það hækkar ekki að ástæðulausu.
=== === === ===
Bandaríkjastjórn vísar á bug ásökunum Hugo Chavez um að þeir séu að plotta gegn Evo Morales. Segir það sig ekki sjálft að Chavez hefur rétt fyrir sér? Hvað segir reynslan okkur til dæmis um algeng afdrif vinstriróttækra stjórnmálamanna sem ná kjöri í Suður-Ameríku? Hefur Bandaríkjastjórn einhvern tímann plottað eitthvað gegn slíkum mönnum? Morales telur sjálfur -- skiljanlega -- að eitthvað sé verið að plotta, en réttir sáttahönd og segist vera fús til fyrirgefningar og viðræðna.
=== === === ===
Greinin „The Zapatistas’ New Direction: Institution Building and Other Campaigns“ eftir Chris Arsenault er athyglisverð.

Tuesday, January 17, 2006

Ráðhús Reykjavíkur klukkan 14 + fleira mikilvægt

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans, mun í dag leggja til í borgarstjórn að Reykjavíkurborg leggist gegn öllum frekari virkjunarframkvæmdum í Þjórsárverum og að fallið verði frá gerð Norðlingaölduveitu. Reykjavíkurborg á 45% í Landsvirkjun.*
Þetta verður klukkan 14 og umhverfisverndarsinnar ætla að sýna stuðning sinn með því að safnast fyrir utan Ráðhús Reykjavíkur!
Ég skora á fólk að mæta!
=== === === ===
Ný grein á Gagnauga: Dauðasveitir Coca Cola
=== === === ===
Fáheyrð hækkun á matarkörfunni undanfarna 8 mánuði! Fjandakornið, meira en 30%!
=== === === ===
Það var verið að myrða 76 áragamlan morðingja í Bandaríkjunum. Í fyrri frétt sagði: „Hann fékk hjartastopp í september sl., en læknar komu honum til bjargar og hann var fluttur aftur á dauðadeildina í San Quentin-ríkisfangelsinu í Kaliforníu.“ Með öðrum orðum: Hann dó en var lífgaður við svo að hægt væri að taka hann af lífi.
Kaldhæðnislegt?
Gálgahúmor, kannski?
=== === === ===
Shell-menn ætla hvergi að hvika frá olíulindunum í óshólmum í Nígeríu, þar sem þeir hafa starfað með vægast sagt ógeðfelldum hætti. Heitir þetta ekki að vera staðfastur?
=== === === ===
Kommadistró Íslands fer stækkandi, tékkið á því!
=== === === ===
Framsóknarflokkurinn og Hjálmar Árnason boxhanska frá Múrnum.
=== === === ===
Það er grein eftir mig á Vantrú í dag.
=== === === ===
Guðmundur Svansson skrifar um DV og umræðu um hallarekstur og arðsemi. Ég sé ekki betur en að honum yfirsjáist sá augljósi ávinningur sem eigendur DV hafa af að eiga það, sem er einfaldlega sá að fjölmiðli fylgja völd. Völd eru hin hliðin á peningum og vice versa. Þarf eigandinn sjálfur að hafa puttana í fjölmiðlinum til þess að njóta góðs af völdunum? Nei, auðvitað ekki. Ritstjórinn dettur ekki af himnum ofan, hann er vitaskuld valinn af stjórnendunum. Hafa eigendur 365 miðla notið góðs af DV-völdunum? Já, ég býst við að maður hljóti að segja það. Alla vega hafa DV-menn komið þónokkrum þungum höggum á ríkisstjórnina. En eins og Gvendur bendir réttilega á, þá er það „vel þekkt að menn séu tilbúnir að reka fyrirtæki með tapi ef þeir hafa trú á því að reksturinn geti orðið arðsamur í framtíðinni.“ Þessi orð eiga ekki bara við peninga, heldur líka völd.
=== === === ===
Svo er hér spurning sem má velta fyrir sér: Ættu þeir sem fylgjast ekki með stjórnmálum og hafa engan áhuga á þeim að kjósa?

Friday, January 13, 2006

Frétt dagsins?

Mannfjöldi 1. desember 2005 eftir trúfélögum og sóknum
Undanfarin áratug hefur sóknarbörnum í þjóðkirkjunni fækkað hlutfallslega. Hinn 1. desember 2005 voru 84,1% landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna en fyrir áratug var þetta hlutfall 91,5%. [leturbr. VV]

Friday, January 6, 2006

Úr fréttum

Sharon berst fyrir lífi sínu og það er að verða lýðum ljóst að stjórnmálaferill hans er á enda runninn. Ekki þykist ég vita hvað tekur við, en er bærilega bjartsýnn á að þetta gefi Amir Peretz breik til að stýra Verkamannaflokknum til valda og láta gott af sér leiða.
=== === === ===
Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, hvetur landa sína til að sniðganga vörur frá Ísrael. Heyr heyr!
=== === === ===
Jæja, þá er hafinn gamli jarmkórinn um andsemítisma. Í þetta sinn er það Hugo Chavez sem á að vera andsemíti.
=== === === ===
Ahmadinejad óskar Morales til hamingju, Morales lýsir yfir áhuga á samræðum við Ahmadinejad sem fyrst.* Er þetta ekki háll ís? Annars vegar kann Ahmadinejad að vera vafasamur bandamaður, hins vegar gæti svo farið að Morales veiti ekki af pólitískum stuðningi.
=== === === ===
Gorkhapatra, nepölsk síða sem er hliðholl konunginum, greinir frá því að nepalskir maóistar og indverskir Naxalbari-maóistar ætli að framlengja "Red Corridor of Armed Struggle" alla leið suður til Andra Pradesh. RAOnline greinir líka frá þessu og hjá þeim er líka birt kort sem setur fréttina í landfræðilegt samhengi. Þetta er nefnilega metnaðarfullt verkefni. Tekst þeim þetta? Tja, það er nú það.
Talandi um nepalska maóista, þá hvet ég áhugasama til að taka frá mánudagskvöldið 13. febrúar nk. Nánari upplýsingar er nær dregur.
=== === === ===
Írakar hefja nýja árið með hroðalegu mannfalli.

Thursday, January 5, 2006

Nepal, Sharon o.fl.

Átökin eru hafin aftur í Nepal. Mogginn greinir frá „fjárkúgun“ í þorpi einu afskekktu. Ætli það hafi ekki bara verið innheimta byltingarskattsins? Er það nokkuð meiri fjárkúgun en önnur skattheimta? Maóistar hafa jú byggt upp paralell ríkisvald á svæðunum sem þeir ráða yfir.
=== === === ===
Í dag er grein eftir mig á Vantrú.
=== === === ===
Sharon hefur fengið alvarlega heilablæðingu. Eins og einhver komst að orði, þá er það ekki kræsilegt hlutskipti að vera maðurinn sem mestallur heimurinn bíður eftir að deyi.
=== === === ===
Á heimasíðu Vináttufélags Íslands og Kúbu er merkisfrétt: „Dagana 14.-16. febrúar næstkomandi verður Aleida Guevara March, gestur frá Kúbu, stödd hér á landi.“ Millinafnið Aleidu er vísbending um hverra manna hún er.
=== === === ===
Í dag eru 55 ár frá því sósíalistar dreifðu dreifibréfi meðal verkamanna í Bretavinnunni til að hvetja þá til verkfalla -- ef þess þyrfti -- til að geta verið í stéttarfélagi. Dreifing bréfsins varð kveikjan að Dreifibréfsmálinu svokallaða, sem kostaði Einar Olgeirsson og félaga hans fangelsinsvist á Bretlandi.

Wednesday, January 4, 2006

Frá Nepal; úr fréttum

Evrópusambandið kallar á tvíhliða vopnahlé í Nepal. Já ... það er hægt að kalla á, en hvernig ætla menn að fylgja því eftir? Hvað býr að baki þessari ósk? Hvers virði er samþykkt eða ályktun eða áskorun sem ekkert hefur á bak við sig?
National Human Right Commission í Nepal harmar það að maóistar hafi ekki framlengt einhliða vopnahlé sitt. Ég harma það líka, en skil samt ástæðuna; þeir voru tilneyddir. Hversu lengi er hægt að halda einhliða vopnahlé og sitja um leið undir árásum stjórnarhersins? Er hægt að ætlast til þess? Nei -- þetta pólitíska örþrifaráð kóngsins (sem ég rakti í gær) knúði maóista til að verjast. Ég hef annars tekið eftir því að fjölmiðlar orða fréttir gjarnan maóistum í óhag -- hlutdrægt, með öðrum orðum. BBC, til dæmis: „Nepal Maoists abandon ceasefire“ -- auðvitað skilja þetta á hvorn veginn sem er, en fyrir lesanda sem ekki hefur bakgrunninn hljómar þetta eins og vopnahléð hafi verið tvíhliða –- sem það var ekki -- og maóistar hafi þannig átt frumkvæði í því að hefja átök á nýjan leik. Það er einfaldlega rangt.
=== === === ===
Morales í Bólivíu og Castro á Kúbu heita samstarfi í mennta- og heilbrigðismálum. Það er ekkert nema gott um það að segja. Annars skiptast Kúbustjórn og Bandaríkjastjórn á skeytum.
Á WSWS eru menn fullir efasemda um Morales.
=== === === ===
Verri fréttir frá Perú: Í forsetakosningum í apríl nk. þykir líklegt að hægriöfgasinnaður fyrrum herforingi, Ollanta Humala að nafni, verði sigursæll. Keppinautur hans er Lourdes Flores, frv. þingkona fyrir kristinn hægriflokk. Á meðan rotnar Abimael Guzmán í fangelsi.
=== === === ===
Íbúar borgarinnar Tel Afar í Írak krefjast óháðrar rannsóknar á stríðsglæpum Bandaríkjamanna, sem m.a. eru sakaðir um að hafa notað hvítan fosfór og örbylgjuvopn gegn óbreyttum borgurum.
=== === === ===
Eru Bandaríkjamenn að undirbúa árásir á Íran?

Tuesday, January 3, 2006

Nepalskir maóistar taka aftur upp vopn

Eins og Morgunblaðið greinir frá hafa nepalskir maóistar bundið endi á einhliða vopnahlé sitt, eða, réttara sagt, þeir framlengja það ekki lengur. Vopnahléð settu þeir einhliða á 2. september síðastliðinn og stóð það þá í þrjá mánuði, en var framlengt um einn mánuð. Allan tímann var þetta vopnahlé einhliða, m.ö.o. ríkisstjórn konungsins leit ekki svo á að hún væri bundin af því. Maóistar segjast reiðubúnir að endurskoða þetta, og hefja vopnahlé að nýju, svo fremi að her konungsins hætti að ráðast á þá.
Haft er eftir Prachanda formanni að sveitir maóista séu í varnar- og viðbragðsstöðu. Árásir konungshersins fari vaxandi, svo maóistar séu tilneyddir að svara fyrir sig og hefja gagnsókn, til varnar sjálfum sér og lýðræðinu. Sveitarstjórnarkosningarnar 8. febrúar nálgast -- eða, réttara sagt, sýndar-kosningar -- og maóistar, jafnsem þingræðisflokkar -- hafa einsett sér að hindra framkvæmd þeirra.
Tröllasögur eru hafðar eftir talsmanni nepalska hersins. 4000 felldir? Lygi!
Eins og ég skrifaði um á annan í jólum þykir sumum orðin „Skák og mát“ best lýsa stöðunni sem Prachanda og félagar komu Gyanendra og kónum hans í, með því að lýsa yfir einhliða vopnahléi. Með því að bjóða vopnahlé -- og hefja það sjálfir -- réttu þeir krúnunni ólífugrein. Gat kóngsi tekið við henni? Damned if you do, damned if you don't. Með því að gera það hefði hann viðurkennt frumkvæði þeirra og pólitískt vald. Með því að gera það ekki (sem hann kaus) var hann afhjúpaður sem aðalþröskuldurinn á vegi Nepals til friðar. Snilldarútspil hjá maóistum. Styrkja stöðu sína og afhjúpa hið sanna eðli andstæðingsins í senn. Já, þetta var snilldarútspil. Hvað gat kóngsi gert? Hvað gat hann gert? Það sem hann gerði var sennilega aþð skásta í stöðunni fyrir hann sjálfan. Halda uppi „low profile“ hernaði gegn maóistum og brýna þá þannig til að svara fyrir sig, í von um að hann gæti látið það líta illa út fyrir þá þegar þeir tækju upp vopn að nýju. Þeir hafa jú miklu verri aðgang að fjölmiðlum en hann.
Accusing Government of continuing its military operations even during the ceasefire period, the top Maoist leader Prachanda, said the Maoists were "compelled" to break the ceasefire. Maoists are annoyed that during their unilateral ceasefire, the government mounted a massive offensive against the Maoists in the western Nepal district of Rolpa, said to be a Maoist stronghold, adding that "When this happens, the Maoists have no option but to resort to confrontation".[*]
Indverjar, Bandaríkjamenn, Kínverjar, Sameinuðu þjóðirnar og aðrir hafa varla haft annað um málið að segja en einhverja lúpulega tvístígandi. „Það er slæmt að átök hefjist að nýju“ er eiginlega innihlaidð í því, varla meira. Bandaríkjamenn geta, af pólitískum ástæðum, hvorki stutt Gyanendra né fordæmt maóista. Sama má segja um Pakistana og Kínverja, sem þó eru helstu stuðningsmenn kóngsa. Allt hið vandræðalegasta fyrir heimsvaldaríkin. En ég er bjartsýnn. Ég held að eftir ár verði öðruvísi um að litast í Nepal: Ég held að það hilli undir lýðveldisstofnun, eða, að minnsta kosti, stofnun lýðræðisríkis með konungdæmi sem ekki er nema táknrænt. Nepalir munu þá geta andað léttar. En eins og staðan er núna er ekki um annað að ræða fyrir þjóðir Nepals en að berjast fyrir frelsi sínu, taka á öllu sem þær eiga.
Eitt var ég að uppgötva um Nepal og maóistana, frétt sem fór framhjá mér í febrúar þegar hún var flutt:
Chinese Foreign Ministry spokesman Kong Quan ... expressed indignation at foreign media who call Nepal's anti-government rebels "Maoists", which stains the memory of the great leader of the Chinese revolution, Chairman Mao Zedong.
Það var nefnilega það! Kínastjórn opinberar enn og aftur gagnbyltingareðli sitt! Var Maó hinn fullkomni, mesti og frábærasti byltingarmaður allra tíma? Nei, það var hann ekki. Kínastjórn hefur hins vegar færst öll í afturhalds- og gagnbyltingarátt undanfarinn aldarfjórðung eða svo (og var reyndar löngu byrjuð á því áður). Það er hneyksli að þessir heimsvaldasinnuðu ríkiskapítalistar skuli kalla sig kommúnista. Þeim væri nær að líta til Prachanda og félaga eftir fyrirmynd.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á nýjársdag var grein eftir Madeleine Albrigt í Morgunblaðinu. Sú grein var alveg stórkostleg samsuða af rökvillum, staðleysum og útúrsnúningum. Ég ætla ekki að fjölyrða um innihald hennar; veit ekki einu sinni hvar ég ætti að byrja.
Það skal enginn segja mér að hún trúi þessu sjálf. Svona rökvillukokteill verður varla til af sjálfu sér.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég vil benda á að Gagnauga hefur að undanförnu flutt hverja merkisfréttina á fætur annarri. Sjáið með eigin augum, meðal annars „150+ 9/11 'Smoking Guns' Found in the Mainstream Media“, „WHY ISN’T SADDAM BEING TRIED FOR GENOCIDE?“, „2005 in Review: Power, Politics and Resistance“ og „Pupils Being Given 'Patriotism' Tests in Washington State Schools“ -- allt saman merkisfréttir, sem fæstar rata á síður Morgunblaðsins.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á nokkrum stöðum í heiminum heyr alþýða manna hetjulega frelsisbaráttu. Ég hef á þessu bloggi tjáð mig um nokkra vettvanga slíkrar baráttu, en einni hef ég lítinn gaum gefið. Á því gæti orðið breyting. Þjóðfrelsishreyfing Zapatista í Chiapas í Mexíkó hefur komist í Moggann. Þeir hafa hafið kynningarferðalag um landið, eins konar Bylgjulest.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
71 hryðjuverkamaður? -- Ég efast ekki um það, ef þið spyrjið talsmann valdsins.