Tuesday, January 26, 2016

Hvaðan kemur allt þetta flóttafólk?

Flest flóttafólkið sem streymir nú til Evrópu er að flýja frá löndum sem eru í rúst eftir hernað heimsveldanna, ekki síst NATÓ (með þátttöku Íslands, ef einhver var búinn að gleyma því). Flóttamannastraumi fylgja vitanlega margvísleg vandamál -- en þeim vandamálum er tæpast hægt að líkja við vandamálin sem fólkið er að flýja. Flóttamenn koma, eðli málsins samkvæmt, ekki af því að þá langi bara til að koma, heldur eru þeir á flótta.

Ef fólk vill ekki flóttamannastraum -- og auðvitað vill hann enginn -- þá væri góð byrjun að hætta að taka þátt í að drepa fólk í öðrum löndum og rústa heimkynnum þess. Þið sem studduð Íraksstríðið og Afganistanstríðið eða loftárásirnar á Líbíu og Júgóslavíu -- munið það næst þegar á að fara í stríð og landsfeðurnir og spunarokkarnir fara að tala um hvað þessi eða hinn forsetinn sé mikill skúrkur.

Óvinurinn heitir: Heimsvaldastefnan. Hún er aflið sem sundrar friði og rekur fólk á flótta. Hún er skúrkurinn sem þarf að knésetja.

Thursday, January 21, 2016

Nýlendufranki

Fyrir 10 dögum bloggaði ég og spurði hvort franski frankinn lifði enn, en fréttamaður RÚV hafði þá skrifað eins og hann væri í notkun í Afríki, eða hefði verið það til skamms tíma.

Þetta var víst ekki alls kostar rangt hjá RÚV. Þótt það sé að vísu ekki franski frankinn, þá er CFA-frankinn mikið notaður í mörgum löndum Mið- og Vestur-Afríku. CFA stendur fyrir "Nýlendur Frakka í Afríku". Gjaldmiðillinn var með fast gengi við franska frankann og eftir að evran var tekin upp er hann með fast gengi við hana.

Þúsund CFA-frankar. Mynd: Wikipedia
Gagnrýnendur segja gjaldmiðilinn gera þessi fátæku lönd háð Frökkum, sínum gömlu nýlenduherrum, og gera þeim erfitt fyrir í efnahagsmálum. Málsvarar nútíma nýlendustefnu sjá hins vegar mikla kosti við þetta fyrirkomulag.

Þess má geta að Líbýustjórn undir Muammar Gaddhafi sáluga var með plön um nýjan, sam-afrískan gjaldmiðil sem ætti að leysa CFA-franka af hólmi og minnka þannig ítök Frakka í efnahagsmálum álfunnar. Voru Líbýumenn meðal annars búnir að safna hátt í 200 tonna gullforða til að standa að baki sínum gjaldmiðli. Þessi hættulegu áform voru ein af aðalástæðunum fyrir því að NATÓ hleypti öllu í bál og brand í Líbýu árið 2011, með stuðningi norrænu velferðarstjórnarinnar íslensku.


Monday, January 18, 2016

Brask með eignir almennings

Norski olíusjóðurinn er útópía sem m.a. borgaralegir vinstrimenn trúa á. Trúa á, að það sé hægt að þjóna langtímahagsmunum alþýðunnar með sjóðssöfnun og fjármálabraski, þótt allur hugsanlegur gróði af slíku komi alltaf á endanum úr vösum alþýðunnar sjálfrar. Þetta er sama hugsunarvillan og trúin á íslensku lífeyrissjóðina byggist á. Trúin á kapítalismann.

Í kapítalisma koma kreppur nokkrum sinnum á hverri meðalstarfsævi. Það er staðreynd. Mundi einhverjum detta í hug að safna matarforða til elliáranna og geyma hann svo í geymslu sem væri vitað að ætti eftir að brenna a.m.k. tvisvar eða þrisvar áður en ætti að éta hann?

Það getur ekkert vaxið endalaust. Það er staðreynd. Hagkerfið getur heldur ekki vaxið endalaust. Þegar af þeirri ástæðu er gróðahlutfallið dæmt til að minnka strax og menn fara að nálgast endimörk vaxtarins. Burtséð frá því krefjast þróaðri atvinnuhættir sífellt meiri fjárfestingar, sem aftur ber fjármagnskostnað, þannig að á þeim enda lækkar gróðahlutfallið líka.

Í tilfelli íslensku lífeyrissjóðanna, þá ávaxta þeir sig að miklu leyti með húsnæðislánum til sjóðsfélaga, á markaðskjörum. Meira en helmingurinn af húsnæðiskostnaði er vextir. Mundi einhver með öllum mjalla borga 100 milljónir fyrir hús sem kostar 40 milljónir? Það hljómar kannski klikkað, en margir gera það samt.

Saturday, January 16, 2016

Síðasta nýlenda Afríku

Vestur-Sahara er stundum kallað síðasta nýlendan í Afríku. Ekki höfðu spænsku nýlenduherrarnir fyrr yfirgefið svæðið, en marokkóski herinn kom og lagði það undir sig og innlimaði í Marokkó. Þeir hafa síðan farið með rányrkju um auðlindirnar - einkum auðugar fosfatnámur (fosföt eru einkum notuð í kemískan áburð fyrir landbúnað) og fiskimið, þar sem m.a. íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa fagnandi tekið þátt í að ryksuga upp þjófstolinn hestamakríl.

Til að styrkja hernám sitt í sessi hafa marokkóskir landnemar svo verið fengnir til að setjast að í Vestur-Sahara.

Þess má geta að Vestur-Saharamenn (Sahrawi-þjóðin) eru innan við milljón talsins og Marokkómenn 33 milljónir.

Tuesday, January 12, 2016

Albaníu-Ásdís og ungbarnadauðinn í Albaníu

Undanfarið hefur verið nokkur umræða um heilbrigðiskerfið í Albaníu -- væntanlega í sambandi við langveiku börnin -- og þá hafa menn rifjað upp ummæli Albaníu-Ásdísar Höllu Bragadóttur um að heilbrigðiskerfi Albaníu væri "ljósárum á undan" Íslandi í samkeppni í heilbrigðisþjónustu. Egill Helgason benti á að á meðan ungbarnadauði á Íslandi væri 2 af 1000, væri hann 13 af þúsund í Albaníu, -- skuggaleg tala fyrir Evrópuland. Ásdís varðist þessu tali og sagði að ungbarnadauðinn hefði verið þrisvar sinnum hærri 1989.

Það er rétt að halda því til haga hér, að valdatöku kommúnista í Albaníu 1945 fylgdi sannkölluð bylting í heilbrigðismálum -- eins og fylgir reyndar oft valdatöku kommúnista. Á fyrstu átta árum valdatíma þeirra meira þrefaldaðist t.d. fjöldi spítalarúma, úr 1765 í 5500 (sem var samt of lítið) og ungbarnadauðinn lækkaði úr 112,2 af 1000 árið 1945 niður í 99,5 af 1000 árið 1953. Á þessum 8 árum lærði meira en hálf þjóðin að lesa (ólæsi fór úr 85% niður fyrir 30%) og mýrar voru ræstar fram og malaríu þannig útrýmt. Það munar víst um það líka. Og árið 1970 var ungbarnadauðinn kominn niður í 75 af 1000 og niður í 40 af 1000 árið 1989.

Á árunum 1945 til 1990 fjölgaði fólki úr rúmri 1,1 milljón í 3,3 milljónir, vegna þess að fólk lifði miklu lengur. Frá 1990 hefur því fækkað aftur niður í rétt rúmar 3 milljónir.

Þessar tölur tala sínu máli, er það ekki?

Monday, January 11, 2016

Lifir franski frankinn enn?

Af vef RÚV:
Auk þess höfðu [Frakkar] miklar áhyggjur af því að Gaddafi ætlaði að minnka áhrif Frakka með því að koma á fót eigin gjaldmiðli, sem yrði notaður víðar í álfunni, til þess að koma í stað franska frankans sem er útbreiddur í Afríku. Gaddafi lá á gríðarlegum gull- og silfurforða sem hann ætlaði að nota til þess að styðja við gjaldmiðilinn. 
Frakkar tóku þátt í Líbýustríði til að standa vörð um franska frankann. Þetta hefur RÚv eftir Simon Blumenthal, ráðgjafa Hillary Clinton. Franska frankann? Hafa Afríkumenn ekki frétt af evrunni?