Thursday, July 29, 2010

Egill: „Samsæri útlendinga“

Egill Helgason bloggaði um daginn um hvað það væri fáránlegt að til sé fólk sem heldur „að það sé í gangi samsæri útlendinga um að hirða allt af Íslendingum“. Í hans augum er það auðvitað til marks um heimóttarskap og útlendingahræðslu að halda að útlendingum sé ekki sama um Ísland. En viti menn, ætli erlendir kapítalistar hafi ekki áhuga á því að græða á Íslandi eins og öðru? Ætli þeim sé svo sama um Ísland að þeir hirði ekki um að arðræna það eins og önnur lönd? Prófið að segja það við áliðnaðinn, Ross Beaty eða spönsk útgerðarfyrirtæki. Nei, þetta er hreinræktuð óskhyggja í Agli. Heimsvaldaauðvald sækir sér arð hvert sem hann er að finna. Lönd eru ekki undanþegin þótt þau séu lítil eða fátæk. Það er nefnilega hægt að þéna furðulega mikið á því að arðræna fólk, þótt það líti ekki út fyrir að vera ríkt. Salómonseyjar, Fijieyjar, Falklandseyjar, Haítí og Ísland eru engar undantekningar. Þetta snýst ekki um það hvort húsmóðir í Kanada man eftir eldgosi eða hruni þegar hún heyrir minnst á Ísland, heldur hvort það gefur eitthvað í aðra hönd að kaupa upp brunarústirnar. Evrópusambandinu líst alla vega vel á siglingaleiðir og fiskimið og aðrar auðlindir. Það er líka ekki skrítið: Ef íslenska auðvaldið getur auðgast á þeim, þá getur hvaða auðvald sem er líka hagnast á því ef það fær tækifæri til þess.

Það er svo laukrétt sem hann segir, að bankamennirnir og sægreifarnir sem settu Ísland á hausinn eru upp til hópa alíslenskir. Hvaða lærdóm má draga af því? Að íslenskt auðvald sé varasamt en erlent auðvald sé aufúsugestur? Ég hefði haldið að auðvaldið sem slíkt væri frekar varasamt og það sé ekki aðalatriði hvaða ríkisfang það hefur. En Egill er að eigin sögn ekki-marxisti þannig hann það má ganga út frá því að hann skilji ekki stéttabaráttuna og sé fyrirmunað að skilja að stéttaskipting gengur þvert á þjóðernislínur og ríki. Hann sér þetta bara í Íslendingum og útlendingum og finnst hjákátlegt að einhver óttist fjárfesta bara vegna þess að þeir séu útlendingar. Og þetta er mest metni fjölmiðlamaður Íslands. En hughreystandi.

Wednesday, July 28, 2010

Hvað er það sem Ásgeir skilur ekki?

Ásgeir Margeirsson er forstjóri Magma á Íslandi. Hann þykist ekki skilja hvernig ríkið ætti að geta stöðvað kaup Magma á HS Orku. Hvað með þetta: Ríkið áréttar lög um að auðlindir megi ekki vera í eigu erlendra aðila. Þannig reglu hlýtur fullvalda ríki að geta sett, ekki satt?

Hvers vegna voru kaupin ekki stöðvuð fyrr? Ja, annars vegar finnst Samfylkingunni bara frábært að erlent auðvald kaupi upp auðlindir landsins. Hins vegar er ekki hægt að keppa við kúlulán eins og Magma fékk. Ef það er í lagi að borga bara seinna, þá getur Magma boðið hvað sem er. Ef fjárfestingin skilar arði, þá er hann (kannski) notaður til að borga en ef hún skilar ekki tilskildum arði, þá lýsir fyrirtækið sig bara gjaldþrota og Ross Beaty og Ásgeir Margeirsson dansa áhyggjulausir í burtu og snúa sér að öðrum fjárfestingum. Ég er hræddur um að ríkið ætti erfitt með að leika það eftir.

Skjalaleki og mannslíf í hættu

Bandarísk stjórnvöld hafa gagnrýnt skjalalekann mikla á Wikileaks m.a. fyrir að hann geti stofnað lífi bandarískra hermanna í hættu. Kallið mig harðbrjósta -- en hvað með það? Hermenn hernámsveldis í herteknu landi -- eins og vestrænir hermenn í Afganistan -- eru lögmæt skotmörk fyrir andspyrnuna. Þeir eru hernaðarleg skotmörk og réttdræpir sem slíkir. Öfugt við óbreyttu borgarana sem þeir sjálfir keppast við að drepa. Setur lekinn líf bandarískra hermanna í hættu? Það getur verið. En þeir eru líka réttdræpir. Það er bandaríski herinn sem setur líf hermannanna í hættu með því að senda þá til Afganistan. En bandaríski herinn setur líf afganskra borgara í enn meiri hættu með glæpsamlegum hernaði sínum. Það eru ekki Afganar heldur bandaríski herinn sem er í órétti í Afganistan. Því fyrr sem afgönsku andspyrnunni tekst að hrekja hernámsliðið af höndum sér, þess betra. Andspyrna gegn hernámsliði er réttmætur málstaður. Herkostnaðurinn og mannfórnirnar eru á ábyrgð hernámsliðsins.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um hernað og Afganistan: Mogginn birti á sunnudaginn eitt af þessum reglulegu viðtölum sínum við "íslenska hermanninn" -- í þetta skipti strák í danska lífverðinum, sem hefur verið að berjast í Írak og Afganistan. Það er best að halda tvennu til haga: (1) Ekkert persónulegt, en þótt hann sé Íslendingur, þá er hann jafn réttdræpur í Afganistan, og jafn réttmætt skotmark fyrir andspyrnuna eins og hver annar böðull heimsvaldastefnunnar; (2) Það er siðlaust að setja hermennsku fram sem eðlilegt starf eða eðlilegan lífsstíl. Það er ekki eðlilegt starf eða lífsstíll að fást við það að drepa fólk, sama þótt það sé réttlætt með því að þetta sé jú vont, brúnt fólk og eigi bara skilið að vera drepið.

Tuesday, July 27, 2010

Opið veiðileyfi á Norður-Kóreu

Ríkisstjórn Norður-Kóreu er einn af þeim aðilum sem vestræn orðræða hefur gert að svo hreinræktuðum skúrkum að það þarf ekki að efast um ásakanir gegn þeim. Það er hægt að halda því fram opinberlega að þeir drýgi hvaða glæp sem er, í trausti þess að enginn efist, spyrji spurninga eða gagnrýni.

En ég ætla samt að leyfa mér að gagnrýna. Ekki vegna þess að ég trúi því að norður-kóresk stjórnvöld séu æðisleg, heldur vegna þess að þau njóta ekki sannmælis -- eða, réttara sagt, það er römm slagsíða á fjölmiðlaumræðunni. Hér eru tvær staðreyndir sem aldrei má gleyma þegar menn hugsa um Kóreu: (1) Norður-Kórea er höfuðsetin af umsvifamesta heimsvaldaríki sögunnar, sem hefur tugþúsundir hermanna og vígvéla við suður-landamærin. (2) Það er auðvelt fyrir okkur Vesturlandabúa að gleyma Kóreustríðinu, en fyrir Kóreumenn er það allt annað en auðvelt.

Ætli Norður-Kórea sé svona hervædd vegna þess að geðbiluðum einræðisherra finnist bara svona gaman að horfa á hersýningar? Ætli það. Það er ekkert grín fyrir lítið land að halda heimsvaldastefnu og hernaðarmætti Bandaríkjanna í skefjum.

Þegar verða átök eða skærur í kring um Kóreu, þá er alltaf sjálfgefið að Norður-Kórea eigi upptökin. Af hverju er það svona sjálfsagt? Er ekki augljóst að Norður-Kórea hefur enga hagsmuni af nýju stríði? Er ekki augljóst að kokhreysti erlendra talsmanna hennar er til þess ætluð, að hræða andstæðingana frá því að ráðast á þá? Hvers vegna er orðræðan þannig að á Vesturlöndum séu það "öryggis- og varnarmál" þegar talað er um sprengjuflugvélar og eldflaugar, en að Norður-Kórea hljóti að ætla sér til árása með sömu tækjum? Er það ekki bara vegna þess að við erum góð en þau eru vond?

Í fréttum er sagt frá 8000 manna heræfingu Bandaríkjamanna og leppa þeirra í Suður-Kóreu, á og við Kóreuskaga. Svo er sagt að það sé Norður-Kórea sem hafi í hótunum. Fyrirgefið, en er hægt að hóta öðru ríki með meira afgerandi hætti en að halda stóra heræfingu við landamæri þess? Vel að merkja eru þessar heræfingar fastir liðir; við tökum sjaldan eftir því í fréttum að Bandaríkjamenn séu að flexa sig þarna sunnan við landamærin, en því skal alltaf haldið til haga að Norður-Kórea skuli bregðast við því, og er tilefnið þá oft ekki látið fylgja með. Við megum hóta þeim, en vei þeim ef þeir svara í sömu mynt.

Ef 99% fólks trúir hverju sem er upp á óvininn, og óvinurinn ýtir undir það með digurbarka og kokhreysti, er þá ekki freistandi að "hjálpa" atburðarásinni til að sveigjast í rétta átt? Nýjasta dæmið er þetta suður-kóreska herskip sem sökk undan ströndum Norður-Kóreu. Látum það vera, hvað það var að gera þar til að byrja með, en hver segir að Norður-Kórea hafi sökkt því? Bandarísk og suður-kóresk stjórnvöld? Er það bara þar með útrætt?

Tanaka Sakai spyr spurninga á vef Japan Focus. Var bandarískur kafbátur í felum neðansjávar á Kóreuhafi, án vitundar suður-kóreska hersins, sökkti suður-kóreska herskipinu því hann hélt að það væri norður-kóreskt, og svo var Norður-Kóreumönnum kennt um til að fela skandal og láta þá líta illa út? Ja, hvað ef?

Monday, July 26, 2010

Kortin í Símaskránni

Þegar ég var drengur var ég alltaf vonsvikinn yfir því að gatan sem ég bjó við, Hólatorg í vesturbæ Reykjavíkur, væri ekki höfð með á gatnakorti Símaskrárinnar. Ástæðan er sú að við Hólatorg eru ekki nema fjögur hús, og gatan stutt eftir því, en austan við hana er önnur gata, svipað stutt, sem ber hið langa nafn Kirkjugarðsstígur. Eftir mörgum gömlum Símaskrám að dæma er Sólvallagata því beint framhald af Kirkjugarðsstíg, en litla Hólatorg bara ekki til. Núorðið fær Hólatorg að fljóta með, en er alltaf eins og troðið inn á milli og sést ekki nógu vel. Þessi galli kveikti áhuga minn á gatnakortum Símaskrárinnar.

Þegar byggðin í Grafarholti var reist fyrir nokkrum árum, rak ég svo augun í annað Hólatorg þar, á mótum Þúsaldar, Kristnibrautar og Ólafsgeisla. Það var þá eina götunafnið í borginni sem var til á tveim stöðum, þótt reyndar standi engin hús við nýja torgið. Mig minnir að ég hafi sent borgaryfirvöldum athugasemd, en kannski ætlaði ég bara að gera það. Símaskráin segir að torgið heiti ennþá Hólatorg, en síðast þegar ég ók þarna hjá sá ég skilti þar sem stóð Sólartorg. Mér létti.

Breytingar á byggðinni á höfuðborgarsvæðinu hafa verið hraðar undanfarin ár. Breytingarnar á gatnakortum símaskrár hafa ekki alltaf verið á sama tempói. Sólar/Hólatorg í Grafarholti er dæmi um að kortið sé einhverjum árum á eftir sinni samtíð. Kortið af Kópavoginum er hins vegar töluvert á undan henni. Við fjölskyldan fórum um daginn í heimsókn í Kórahverfi. Þar sem leiðir okkar liggja sjaldan um þær slóðir, höfðum við Símaskrána góðu meðferðis og fórum eftir kortinu. Það var allt annað en auðvelt.

Þar sem Arnarnesvegur sker Reykjanesbraut segir kortið að sé mislægt hringtorg. Fínt, við fundum það. Kortið sagði að stysta leiðin fyrir okkur væri út úr hringtorginu í austurátt. Þar var vegatálmi úr steypuklumpum og handan við þá var hesthúsahverfi, þar sem ætti að vera þjóðbrautin inn í Lindahverfi og þaðan áfram í Sali og Kóra. Við snerum því til baka, suður Reykjanesbraut, og ætluðum krókaleið sem kortið sagði að við gætum farið, eftir Hnoðraholtsbraut og svo inn á Arnarnesveg. Nú, Hnoðraholtsbraut er blindgata. Gott ef hún heitir ekki meira að segja eitthvað annað. Við enduðum með að fara norður á Fífuhvammsveg og þá leiðina. Stærðarinnar krókur og verulegar tafir. Þökk sé snillingunum sem skipuleggja Kópavog og láta kortagerðarmanni Símaskrár upplýsingar í té. Mér var skapi næst að senda Gunnari Birgissyni gangstéttarhellu í pósti og gefa honum til að nota sem hornstein að nýjum bæjarskipulagi.

En kortið getur líka verið á undan sinni samtíð í miðbæ Reykjavíkur. Á kortinu í Símaskrá 2009 var komin gata upp að tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu, og torg með: Reykjavegur og Reykjatorg, áttu herlegheitin að heita. Þar sem þessi ágæti vegur og torg voru, samkvæmt kortinu, var í reyndinni gríðarlega stór afgirt gryfja með vinnuvélum og drasli. Hvers vegna voru þá torgið og vegurinn komin inn á kortið? Þau eru altént horfinn aftur út núna. Í staðinn er kortagerðarmaðurinn búinn að þróa Mýrargötureit og byggja þar hús, sem ég sá ekki síðast þegar ég átti leið hjá.

Eðli málsins samkvæmt sé ég aðallega þær villur sem varða mitt eigið hverfi, miðbæinn. Gaman væri að vita hvort eitthvað svipað er í öðrum hverfum. Það er pirrandi að geta ekki treyst kortinu.

Hugvit, sannkallað hugvit

Það er ekki hægt að kalla það annað en hugvitssamlegt, hvernig vestrænir heimsvaldasinnar hafa leyst þann langvarandi og flókna vanda sem förgun geislavirks úrgangs er. Jú, maður steypir bara úr honum kúlur og skýtur þeim í óvini sína! Tær snilld!

Friday, July 16, 2010

Mótmælum ESB kl. 17 á Lækjartorgi

Nú er rúmur klukkutími þar til mótmælafundur Rauðs vettvangs gegn ESB-aðild Íslands hefst. Ég ítreka að ég hvet fólk til að mæta og láta í sér heyra.

Mótmæli gegn ESB kl. 17 á Lækjartorgi

Rauður vettvangur boðar til útifundar á Lækjartorgi klukkan 17 í dag. Yfirskriftin er einföld: Höfnum ESB. Látum ekki kratana draga okkur inn í þetta óhræsis samband. Ræðumenn: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Rakel Sigurgeirsdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson. Fundarstjóri: Vésteinn Valgarðsson. Sjálfboðaliðar mæti a.m.k. hálftíma fyrr.
Látið orðið berast.

Tuesday, July 13, 2010

Atli, Magma, VG og ríkisstjórnin

„Vinstri grænir hafa brugðist í Magma málinu“ hefur RÚV eftir Atla Gíslasyni. Ég get ekki andmælt því, og ekki í fyrsta sinn sem VG bregst vonum. Ég skal ekki gera lítið úr því sem VG hefur náð fram í ríkisstjórn, en það bliknar samt í samanburðinum við það sem VG hefur ekki náð fram. Hvert vígið hefur fallið á fætur öðru. Ég verð þó að viðurkenna að frammistaðan hefur ekki beinlínis valdið mér vonbrigðum. Ástæðan fyrir því er einföld: Ég gerði mér aldrei nema mjög jarðbundnar vonir um hana. Ég sé ekki hvaða gagn er í því að styðja ríkisstjórn sem er svona bersýnilega hægrisinnuð. Þau rök að „annars komist íhaldið til valda“ eru ekki beysin. Það væri svosem súrt ef íhaldið kæmist aftur til valda, ekki neita ég því, en ég kaupi ekki það bull að við verðum að gera þetta-og-þetta vegna þess að annars muni íhaldið gera það. Aðalatriðið er hvað er gert, ekki hver gerir það. Að framfylgja harðlínu-hægristefnu er ekki hlutverk vinstrimanna heldur hægrimanna.

Thursday, July 8, 2010

Stjórnlagaþing og stjórnarskrá

Það efast víst fáir um að það skipti máli hvernig stjórnarskráin lítur út. En margir ofmeta það hins vegar. Hún skiptir alveg máli, heilmiklu meira að segja, en aðalatriðið er samt hver fer með völdin í landinu. Þá á ég við hin raunverulegu völd, ekki hin formlegu völd.

Hvers vegna ætli frammistaða ríkisstjórnarinnar sé ekki betri en hún er? Kannski vantar viljann til að ganga gegn sérhagsmunum auðvaldsins -- en svo mikið er víst að getuna til þess skortir. Borgarastéttin stjórnar ríkisstjórninni nefnilega meira en ríkisstjórnin stjórnar borgarastéttinni. Það er borgarastéttin sem heldur uppi hinu borgaralega ríkisvaldi, og borgaralegt ríkisvald býður ekki upp á róttækar breytingar innan frá. Í mesta lagi svo miklar breytingar sem þarf til þess að það þurfi ekki að gera róttækar breytingar.

Að því sögðu er ekki sama hvernig borgaralega ríkisvaldið er rekið þangað til því verður steypt. Maður þarf að nota það sem maður hefur, og minnast þess að byltingin slær ekki kapítalismann niður og reisir upp sósíalískt þjóðfélag í einu höggi, heldur fer hún fram í þróun og stökkum, stundum hægt en stundum hratt, og á flestum vígstöðvum. Maður gerir ekki byltingu með því að breyta stjórnarskránni, en breytingarnar geta þó verið í rétta átt.

Íslenska stjórnarskráin og ríkið eru skondin fyrirbæri, byggð á Danmörku nítjándu aldar, sem var bæði tæknilega frumstæðari og mun fjölmennari en Ísland tuttugustu og fyrstu aldar, og konungsríki ofan í kaupið. Semsagt hannað fyrir þjóðfélag gerólíkt því sem við búum í. Umræðan skautar líka framhjá aðalatriðinu, völdunum í landinu. Til dæmis er þrískipting valdsins bara blaður. Það er auðvaldið sem ræður. Eða óháður Seðlabanki eða óháð Fjármálaeftirlit? Ekki óháð auðvaldinu, svo mikið er víst.

En með breytingum á stjórnarskrá (og öðrum lögum) má styrkja mannréttindi, styrkja lýðræði, þar með talið fullveldi ríkisins og yfirráð ríkisins yfir auðlindum og öðrum grunnstoðum hagkerfisins og þar með samfélagsins.

Nýja Ísland fæðist hins vegar ekki á fundum stjórnlagaþings.
Hættulegt fordæmi. Er þá nokkuð því til fyrirstöðu að hvaða erlenda fyrirtæki sem er kaupi hvað sem er?