Friday, October 26, 2012

Slök útkoma íhaldsins í þjóðaratkvæðagreiðslunni

Bjarni Benediktsson og föruneyti hans hafa gert mikið úr því að kosningaþátttakan hafi verið slök í þjóðaratkvæðagreiðslunni um síðustu helgi og að þau 66,9% sem sögðu já við fyrstu spurningunni séu í raun bara helmingur þeirrar tölu, þar sem helmingur kjósenda hafi setið heima og séu þar af leiðandi andvíg nýju stjórnarskránni. En hvað boðaði Bjarni sjálfur? Ekki hjásetu, hann boðaði að fólk ætti að mæta á kjörstað og segja nei. Það gerðu 33,1% þeirra sem kusu. Eða með öðrum orðum, hálft sautjánda prósent landsmanna. Ef það er hlutfallið sem fylgir Bjarna að málum, þá er eitthvað að þokast í rétta átt í þessu landi.

Ég verð að segja að tölurnar um kirkjuna eru ekki bara vonbrigði, heldur koma þær á óvart, enda á skjön við það trend undanfarinna ára að um það bil tveir þriðju hlutar landsmanna vilji aðskilja ríki og kirkju. Hins vegar þekki ég bæði fólk sem er trúlaust og skilaði auðu í þeirri spurningu, og fólk sem vill aðskilnað, misskildi spurninguna og merkti við "já" þegar það meinti "nei". Það hljóta að vera fleiri. Kannski skekkti það niðurstöðuna að spurningin hafi verið gölluð. Eða kannski að kirkjan hafi gengið í gegn um "rebranding" með nýjum biskupi og snaraukið viðskiptavildina í einum hvelli.

Ég og Zippo-kveikjarinn minn

Ég byrjaði að ganga með Zippo-kveikjara áður en ég byrjaði að reykja. Þeir eru ekki bara svalir, heldur gætu þeir líka hugsanlega stöðvað byssukúlu sem væri skotið að manni.

Nú, þegar ég hafði reykt pípu um hríð, fékk ég mér pípu-Zippó. Eldhólfið er lokað að ofan en opið á hliðunum, þannig að maður geti lagt hann láréttan ofan á pípuna og sogið logann ofan í tóbakið. Eldurinn hefur vitanlega ekki alveg eins gott skjól og í venjulegum Zippó, en feykinóg samt, enda þarf meiri gust til að slökkva bensínloga.

Jæja, veikleikinn við pípuzippóinn er að lokið ofan á eldhólfinu er laust, eða, réttara sagt, það er klemmt ofan í hólfið, og ekki beinlínis fast við neitt. Það er kannski ekki hægt að kalla það hönnunargalla, þar sem það þarf að vera hægt að losa það af ef þarf að skipta um kveik -- en það er engu að síður veikleiki á annars pottþéttu tæki.

Ég var í teiti um daginn, þar sem félagi minn missti zippóinn góða úr höndunum, lokið datt af eldhólfinu og niður á milli borða í palli úti í garði, þar sem það hefði kostað verulega mikið umstang að ná því upp aftur. Sökudólgurinn tók strax að sér að redda málunum og fór með kveikjarann í umboðið, en þessi lok voru ekki til á lager þar. Þeir voru hins vegar allir af vilja gerðir -- enda ævilöng ábyrgð á Zippókveikjurum -- og sendu kveikjarann alla leið til Þýskalands, þar sem nýtt lok var sett á hann. Í leiðinni var þolinmóðurinn í hjörunum hertur, skipt um bómullarinnvolsið og alltsaman fægt upp og var eins og nýtt þegar ég fékk hann til baka, miklu fyrr en ég átti von á. Auk þess fékk ég heilan brúsa af kveikjarabensíni í kaupbæti, og umboðið ku vera komið með svona lok, eins og mig vantaði, á lager, þannig að næsti kúnni með sama erindi fái jafnvel ennþá greiðari afgreiðslu.

Þetta kalla ég þjónustu. Það eru til ýmsar ástæður fyrir því að reykja tóbak -- misgóðar auðvitað -- en að hafa ástæðu til að ganga með zippókveikjara á sér, það er tvímælalaust ein af betri ástæðunum.

Thursday, October 25, 2012

Hommanýlendan í Hálsaskógi

Það þarf ekki skyggnigáfu til að átta sig á því, hvers vegna það eru eintómir strákar í Dýrunum í Hálsaskógi, ekki frekar en í Strumpalandi.

Vísa um Guðmund og Róbert

Ég orti þessa um daginn, í vikunni þegar Róbert Marshall gekk til liðs við Guðmund Steingrímsson á Alþingi:

Að hann hrósi sigri senn
síst ég tel, né inni
fái Gvendur marga menn
með Marshallaðstoðinni.

Evran svínvirkar -- í alvörunni

Í sumar las ég alveg dúndurgóða grein um evruna, eftir kanadíska rannsóknarblaðamanninn Greg Palast. Svo góða, að ég bað um og fékk leyfi til að þýða hana og birta á Egginni. Lesið hana:

Evran er mjög árangursrík – án gríns

Wednesday, October 10, 2012

Umræður um nýju stjórnarskrána

Það er kominn ágætur umræðuvefur um nýju stjórnarskrána: http://stjornarskra.yrpri.org/

Lenín um Evrópusambandið

Lesið grein Leníns á Egginni: Slagorðið um Bandaríki Evrópu.

Friday, October 5, 2012

Fundur á morgun um framtíð íslenskrar vinstrihreyfingar


Það er best að ítreka þetta fundarboð:

Rauður vettvangur boðar til fundar í Iðnó laugardaginn 6. október kl. 13. Framsögumenn verða Andrés Magnússon geðlæknir, Guðbergur Egill Eyjólfsson bóndi og háskólanemi, Sigurlaug Gunnlaugsdóttir sagnfræðingur og Þorvaldur Þorvaldsson trésmiður.

Nú þegar æ fleiri vinstrimenn þykjast sviknir af stefnu núverandi ríkisstjórnar vaknar umræðan um þörf fyrir nýjan, trúverðugan vinstriflokk fyrir næstu kosningar. Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að bjarga einkareknum bönkum og viðhalda aðstöðu þeirra til að féfletta almenning, eða að taka fjármálastofnanir í þjónustu fólksins? Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að binda íslenskt samfélag á klafa evrópsks auðvalds til frambúðar, eða styrkja fullveldið þjóðinni til hagsbóta? Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að auka ítök auðvaldsins á auðlindum lands og sjávar, eða efla félagsleg yfirráð þjóðarinnar yfir þeim? Þessar og fleiri spurningar þurfa vinstrimenn að ræða af alvöru og finna niðurstöðunni farveg við hæfi.

Thursday, October 4, 2012

Framtíð íslenskrar vinstrihreyfingar

Rauður vettvangur boðar til fundar í Iðnó laugardaginn 6. október kl. 13. Framsögumenn verða Andrés Magnússon geðlæknir, Guðbergur Egill Eyjólfsson bóndi og háskólanemi, Sigurlaug Gunnlaugsdóttir sagnfræðingur og Þorvaldur Þorvaldsson trésmiður.

Nú þegar æ fleiri vinstrimenn þykjast sviknir af stefnu núverandi ríkisstjórnar vaknar umræðan um þörf fyrir nýjan, trúverðugan vinstriflokk fyrir næstu kosningar. Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að bjarga einkareknum bönkum og viðhalda aðstöðu þeirra til að féfletta almenning, eða að taka fjármálastofnanir í þjónustu fólksins? Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að binda íslenskt samfélag á klafa evrópsks auðvalds til frambúðar, eða styrkja fullveldið þjóðinni til hagsbóta? Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að auka ítök auðvaldsins á auðlindum lands og sjávar, eða efla félagsleg yfirráð þjóðarinnar yfir þeim? Þessar og fleiri spurningar þurfa vinstrimenn að ræða af alvöru og finna niðurstöðunni farveg við hæfi.

Wednesday, October 3, 2012

Skiptir kirkjuspurningin ekki máli?

Í kosningunni 20. október er ekki spurt hvort fólk vilji hafa þjóðkirkju eða ekki, en það er spurt hvort fólk vilji hafa þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá eða ekki. Kirkjunnar menn skrifa sumir, þessa dagana, um að spurningin sé þess vegna ekki svo merkileg. En þeir ætla nú samt að kjósa að hafa ákvæðið kyrrt. En ef spurningin er svona ómerkileg, þá ættu þeir (með sömu rökum) varla að amast við því heldur, að fólk hafni ákvæðinu.
Stjórnarskráin ætti auðvitað að áskilja fullt trúfrelsi fyrir alla, að trú sé einkamál hvers og eins og að ríkið skipti sé ekki af henni. En það er ekki kosið um það, bara hvort eigi að vera þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskránni. Ef menn vilja yfirhöfuð hafa þjóðkirkju, þá duga venjuleg lög alveg til þess. Eða, duga þau ekki fyrir flestar aðrar stofnanir ríkisins?
Stjórnarskrárákvæðið, eins og það er nú, er ákveðin hindrun í veginum fyrir aðskilnaði (þó tekið sé fram að "þessu megi breyta með lögum"). Það er fráleitt að hafa ákvæðið áfram "nokkra áratugi í viðbót" eins og einhver stakk upp á. Frestur er á illu bestur. Kirkjan verður látin róa, það er bara tímaspursmál, og auðvitað vill hún draga það eins og hægt er, að verða tekin af spenanum.