Friday, February 29, 2008

Ingibjörg Sólrún í gær...

Það er ekki það að mér finnist Kosovo-Albanir eiga eitthvað minni rétt í prinsippinu heldur en aðrar þjóðir til að eiga sitt eigið ríki. Ef það væri spurningin, þá væri þetta engin spurning. Nei, spurningin er praktísk: Hvernig dregur maður landamæri eftir þjóðerni á Balkanskaga? Það er ekki hægt. Tilraunir hingað til hafa kostað blóðbað og þjóðernishreinsanir og hafa samt ekki skilað tilætlaðri niðurstöðu. Alþjóðastjórnmál Balkanskaga löðra í hræsni og skinhelgi. Bandarískir heimsvaldahagsmunir í samstarfi við albanska mansals- og heróínmafíu, hvernig hljómar það? Vel í eyrum utanríkisráðherra. Nei, það er aðeins ein lausn, og hún heitir fjölþjóðaríki. Hafa íbúar frv. Júgóslavíu einhvern tímann haft það jafn gott á heildina litið eins og þegar Júgóslavía var og hét?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Utanríkisráðherra lét sér ekki nægja að troða einu sinni í spínatinu í gær. Í hitt skiptið má varla á milli sjá hver talar, Ingibjörg Sólrún eða Anders Fogh Rasmussen: „Utanríkisráðherra telur ekki efni til að koma á fót rannsóknarnefnd til að rannsaka fangaflug í íslenskri lofthelgi. Steingrímur J. Sigfússon, vinstri grænum, spurði á Alþingi í dag hvort ekki væri tilefni að láta fara fram óháða rannsókn.“ Er þetta eitthvert grín? Hún sér ekki ástæðu til að láta rannsaka málið! Hvað heldur hún að hafi verið um borð í flugvélunum? Hefilspænir?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það dregur úr hagvexti í Danmörku. Umhugsunarvert.

Thursday, February 28, 2008

Þjóðkirkjan og Ungdómshúsið

Hér um bil eitt prósent landsmanna breytti trúfélagsskráningu sinni árið 2007. Það segir sitt, er það ekki? Íslendingar eru trúleysingjar, heiðingjar, algyðistrúarmenn, únitarar og aðhyllast alls konar ókristilega hjátrú. Ef Þjóðkirkjan væri heiðarleg ætti hún að setja skilyrði: Stundið lútherstrú eða drullið ykkur út. Hún gerir það hins vegar ekki, vegna þess að þá mundi hún verða af tekjum. Að einhver skuli nenna að vera í þessu trúfélagi. Ég hvet fólk til þess að leiðrétta trúfélagsskráningu sína hið snarasta, þá sem þess þurfa.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á fimmtudaginn fyrir viku fór ég til Kaupmannahafnar og tók þar þátt í Ungdomshuset-mótmælum. Það var athyglisvert. Það hafði verið boðað umsátur um Rådhuset, en því var frestað. Í staðinn var liðinu safnað á Gammeltorv á Strikinu, þaðan sem þrjár mismunandi göngur héldu, hver sína leið, um það bil hálftíma krók og safnaðist svo saman á Vesterbrotorv. Nokkur hundruð svartklædd ungmenni, mörg með grímur fyrir andlitinu. Ég var í mínum Ungdomshuset-bol (sjá mótífið á mynd til hægri) frá KP. Að frátöldu veggjakroti fór gangan vel fram -- köll gerð að Valdinu, en ekkert umfram það. Þið sem eruð stödd í Kaupmannahöfn einhvern fimmtudaginn: því ekki að skella sér á Gammaltorv á Strikinu og taka þátt í að styðja góðan málstað?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það var grein eftir mig á Vantrú á dögunum: Kirkjan og afstæðishyggjan.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Helgi Guðmundsson skrifar á Eggina: Vindgangur kapítalismans.

Wednesday, February 20, 2008

Í fréttum er þetta helst...

Þegar Geir Haarde segir að kjarasamningar séu "mjög ábyrgir", þá leyfi ég mér að hafa efasemdir um að þeir séu það fyrir launafólk. Samdi ASÍ af sér eða vann það stórsigur? Ég hef ekki verið í aðstöðu til að fylgjast nógu vel með, en sem ég segi, þá hef ég mínar efasemdir. Þeir töluðu um að "krefjast" 150.000 kr lágmarkslauna. Er von á stórsigri ef það er hið stóra takmark? Leiðréttið mig endilega ef ég fer með fleipur, en ég hef ekki ennþá séð ástæðu til að æpa af gleði.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Áhugafólk um borgarmál"? Ég get ekki skilið það öðruvísi en sem annað hvort "Hanna Birna og stuðningsmenn" eða "Sjálfstæðismenn sem hafa fengið nóg af Vilhjálmi". Það er líka athyglisvert að 45,4% segjast hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn síðast -- en í síðustu kosningum fékk flokkurinn 42,1%. 30,4% segjast hafa kosið Samfylkingu, en hún fékk ekki nema 26,9%! Hvaða bull er þetta? Á þetta sér einhverja augljósa skýringu eða er þessi könnun bara vitleysa?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í síðustu færslu skrifaði ég um reykingabann. Mér finnst að það eigi að fara eftir atvikum. Af vinnuverndarástæðum finnst mér að hver sá staður sem hefur fólk í vinnu eigi að vera reyklaus. Ef hópur fólks á stað saman og rekur hann saman og vinnur þar saman, þá kemur engum við hvort þar er reykt eða ekki. Ef staður er í eigi eins og þar vinna fleiri, þá finnst mér að það eigi að vera hægt að veita leyfi til að heimila reykingar (sbr. vínveitingaleyfi), ef staðurinn uppfyllir ströng skilyrði og borgar fyrir leyfið. Æskilegt gjald fyrir leyfið væri nákvæmalega sú upphæð sem staðurinn mundi græða brúttó á að hafa það, þannig að það væri ekki efnahagslegur hvati fyrir því, eða sem minnstur. Hins vegar væri athugandi að leyfa fólki ekki að reykja annað tóbak en það sem það keypti á staðnum. Ekki get ég komið með bjór inn á skemmtistað, er það?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég sá í dönskum fréttum (finn ekki linkinn) að tveir Íslendingar hefðu ferðast 2500 km leið til Danmerkur til að lemja einhvern sem þeir töldu sig eiga eitthvað sökótt við. Ég hef heyrt þannig um fólk frá S-Evrópu, sem hinir þjóðrembusinnaðri vilja síður bera okkur saman við, en ég man ekki eftir að hafa heyrt það um Íslendinga áður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það segir sitt um hvað er á bak við Kosovo-málið, að í fréttamyndum flökta iðulega hlið við hlið fánar Albaníu og Bandaríkjanna. Kannast einhver við Camp Bondsteel? Lesið grein Jóns Karls frá því um daginn: Kósóvó og önnur aðskilnaðarhéröð á Balkanskaganum. Ég held að það kunni ekki góðri lukku að stýra að taka þátt í þessu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er ekki allt sem sýnist í kosningunum í Pakistan.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvað gerir það til að ástunda ekki gagnrýna hugsun? Já, hvað gerir það til?

Monday, February 11, 2008

Á mánudaginn var syfjaði mig svo þegar leið á kvöldið, að ég ákvað að sleppa því að fara á krá til að brjóta lög. Hins vegar fór ég á krá í Danmörku nýlega, og þar braut ég reykingalögin, eins og flestir aðrir sem voru þar inni. Skemmtilegt var það, á sinn hátt, en hins vegar var það ennþá meira fróðlegt en skemmtilegt. Það súrnaði í augum og föt mín þörfnuðust hreinsunar daginn eftir, og ég sjálfur reyndar líka. Ég er með öðrum orðum ennþá staðfastari í stuðningi mínum við reykingalögin núna, heldur en ég var síðast þegar ég tjáði mig um þau. Ég átta mig á því að mín reynsla, sem kúnna, hefur ekkert að gera með forsendur laganna, og að mér var auk þess nær að sitja sjálfur þarna inni og reykja eins og skorsteinn ... en samt: Reykingar á skemmtistöðum eru beisikallí off í mínum huga. Þær ættu ekki að vera leyfðar nema í undantekningartilvikum. Jamm.

(Leiðrétting 20. febrúar: "andstöðu minni" breytt í "stuðningi mínum" -- afsakið prentvilluna...)