Friday, May 29, 2009

Af okkur

Eldey Gígja dafnar vel, verður mannalegri og mannalegri með hverjum deginum. Hún er nú rétt orðin fjögurra mánaða og er mjög efnileg. Ég er kannski svolítið hlutdrægur. Æi, ætli manni fyrirgefist það ekki.
~~~ ~~~ ~~~
Ég hef ekki farið mikinn á netinu undanfarið, hvorki á bloggi né annars staðar. Barnastúss tekur náttúrlega tíma, en frítími hefur aðallega farið í garðvinnu. Ég er búinn að sá og planta mjög miklu af matjurtum, búa til matjurtagarða þar sem áður voru grasblettir í garðinum, og næst á dagskrá er að hlaða grjóti. Hef gripið stein og stein á ferðum mínum um bæinn, en fór áðan við þriðja mann og við sóttum á að giska eitt og hálft tonn af grjóti kerru. Það er samt bara brot af því sem þarf áður en yfir lýkur. Ég hlakka vægast sagt mikið til að fara að hlaða af alvöru.
~~~ ~~~ ~~~
Eftir púl í garðinum er fátt betra en að fá sér einn ískaldan. Ég hef undanfarið lagt mig eftir því að smakka nýjar og nýlegar íslenskar bjórtegundir. Brugghúsið í Ölvisholti kemur sterkt inn; Mungát er hreint sælgæti, Móri hinn ljúffengasti líka og Skjálfti sömuleiðis. Lava er ekki eins fyrir minn smekk; imperial stout höfðar ekki svo til mín. Meðal annarra sem verðskulda meðmæli eru Jökull og Skriðjökull frá Stykkishólmi, og svo sá sem trónir á toppi íslenskra lagera: El Grillo. Öll þessi nýju brugghús eru þörf og tímabær viðbót við ölmenningu Íslands.

No comments:

Post a Comment