Friday, October 30, 2009

RÚV greinir frá því að tengsl séu milli næturvinnu og brjóstakrabba. Þessu þarf að halda til haga. Næturvaktastarfsfólk lifir að meðaltali mun skemur en fólk sem vinnur á daginn, þarna er kannski komin ein af ástæðunum fyrir því.

Af Gylfa Arnbjörnssyni og eineltinu

Gylfi þjónar auðnum enn,
eins og ljón í flagi.
Geri því skóna góðir menn
grenjar dóninn "æi".

Gylfi Arnbjörnsson leggur íslenska alþýðu í einelti

Gylfi Arnbjörnsson er einn versti verkalýðsleiðtogi á Vesturlöndum. Hann er gott dæmi um að það kann ekki góðri lukku að stýra að ráða „sérfræðing“ til þess að sjá um pólitík. Hann berst fyrir stóriðjuauðhringunum, fyrir fjármálaauðvaldinu, stendur á bremsunni í kjaramálum alþýðunnar, boðar að Evrópusambandið sé lausnin á vandamálum okkar og bítur höfuðið af skömminni með því að lýsa yfir stuðningi við svipu- og sultarólaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þegar hin fyrirsjáanlegu spjót réttmætrar gagnrýni standa svo á honum, hvað gerir hann þá? Jú: Fer í fórnarlambshlutverk og lætur eins og hann sé lagður í einelti.

Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort Gylfi sé bara svona heimskur. Það er nú einu sinni gagnleg þumalputtaregla að ætla mönnum ekki illan ásetning þar sem heimska eða klaufaskapur duga sem útskýringar. En é get ekki séð að þetta verði skrifað á heimsku, eða a.m.k. ekki heimskuna eina. Hann er ekki heimskari en það að hann hefur lokið háskólaprófi í hagfræði og einhver hefur treyst honum til að vera first hagfræðingur ASÍ og svo forseti ASÍ. Ýmsir menn geta komist í slíkar stöður, en sjaldan heimskingjar.

Heyrt hef ég sagt að Gylfi Arnbjörnsson sé kirfilega flæktur í margs kyns brask persónulega. Ég ætla ekki að dylgja frekar um það, þar sem ég hef ekki nákvæmar heimildir til að vitna í, en spyr mig: Eru nokkrar reglur um að menn verði að gefa upp persónuleg hagsmunatengsl til þess að geta gegnt háttsettum trúnaðarstöðum innan ASÍ? Það gæti verið fróðlegt að sjá slíkt yfirlit, það gæti kannski skýrt ýmislegt.

Ef við strikum heimsku og klaufaskap út af listanum yfir mögulegar orsakir fyrir augljósri vanhæfni Gylfa, hvað stendur þá eftir? Frjálshyggjuheilaþvottur. Valdafíkn. Hroki og dramb. Og svo auðvitað spilling.

Er ég að gleyma einhverju?

Wednesday, October 28, 2009

Hvar er Davíð þegar við þörfnumst hans?

Flestir hafa trú á Davíð Oddssyni til að leiða Ísland út úr kröggum sínum.

Ég er ekki einn af þessum "flestum". En það er áhyggjuefni að svona margir skuli láta það hvarfla að sér að þessi... þessi.. freki karl sé lausnin á vandamálum okkar. KOMMON! Díses kræst!

Að því sögðu, þá á ég ennþá eftir að sjá að núverandi ríkisstjórn hafi lausnirnar. Gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Gylfa Arnbjörnssyni, Samfylkingunni, ál-auðhringunum og öðrum óvinum fólksins er klárlega þörf fyrir einhvern sem getur sett hnefann í borðið þegar það á við. Davíð gæti svosem líklega gert það. En það dugir skammt eitt og sér.

Ég veit ekki hvort er verra, að ríkisstjórnin "meini vel" en láti í sífellu undan öflum spillingar, mannfjandskapar og heimsku, eða að hún meini bara illa á gamla mátann. Það kemur víst í sama stað niður.

Bakúnín lifir enn

Bakúnín sagði að fólk væri ekkert betur sett ef það væri barið með priki, þótt prikið væri kallað "prik alþýðunnar". Á Íslandi í dag mætti kannski kalla það "norræna velferðarprikið".

Villifé eða villimenn?

Útiganga sauðfjár á vetrum er bönnuð af "mannúðarástæðum" ef ég skil það rétt. Þess vegna má villifé á Tálkna ekki ganga frjálst eins og það hefur gert í hálfa öld. Í staðinn er það hrakið fyrir björg -- af mannúðarástæðum, væntanlega, eða handsamað sturlað af hræðslu áður en það er drepið. Ef útiganga sauðfjár er óforsvaranleg, hvað þá með útigöngu hreindýra, hafarna, hrafna eða sela? Er ekki rétt að taka öll villidýr á landinu í hús ef útigangan er svona ómannúðleg? Eða skjóta þau að öðrum kosti? Eða getur verið að þetta sé misskilin mannúð, mistúlkuð og slitin úr samhengi? Væri of mikið að kalla þetta villimennsku?

Skorið út í pappa

Gunnar Tómasson skrifar alþingismönnum um samræður sínar við James Galbraith hagfræðing, og er Galbraith ómyrkur í máli:

„Það segir sig sjálft: það er fáránlegt að ímynda sér að Ísland eða eitthvað annað land geti tekið á sig gjaldeyrisskuldir sem jafngilda 300 eða 400 prósentum af vergri landsframleiðslu (VLF) og forðast greiðsluþrot,“ segir Galbraith. „Ef stjórnvöld reyndu að axla slíka skuldabyrði myndu vinnufærir einstaklingar flytja af landi brott.“

Flytja af landi brott, eða gera byltingu. Nema hvort tveggja sé. Sá, sem ímyndar sér að í þessu samfélagi verði nokkurn tímann friður um að borga þessar skuldir, með öllu sem þeim tilheyrir, ætti að láta athuga á sér höfuðið. Ef við komumst ekki undan þessum skuldum með góðu, þá verður hér annað hvort landflótti eða bylting. Ég segi það fyrir mitt leyti, að ég er tilbúinn til að gera ýmislegt áður en ég læt flæma mig úr landi vegna þjónkunar við óreiðuauðvald.

Skuldirnar verða ekki borgaðar, það er nokkuð öruggt, jafnvel þótt við fegin vildum, þá gætum við það ekki. Það er ekki mögulegt. Það er ekki hægt að neyða okkur til þess, a.m.k. ekki án þess að loka landamærunum fyrst. Loka þeim s.s. fyrir Íslendingum sem vilja úr landi. Þetta verður ekki borgað, það á bara að lýsa því yfir strax og taka slaginn. Að öðrum kosti eigum við í það minnsta eina byltingu eftir.

Tuesday, October 27, 2009

Styðja ríkisstjórnina?

Ber vinstrimönnum að styðja ríkisstjórn vegna þess eins að hún kallar sig vinstrisinnaða?

Mín afstaða er sú að ég get stutt núverandi stjórn til góðra verka en að öðru leyti geri ég það ekki.

Með öðrum orðum, þá geri ég það almennt séð ekki. Ég styð ekki ríkisstjórn sem þjónar fyrst og fremst auðvaldinu, lætur almenning mæta afgangi, sækir um aðild að ESB, heldur áfram stóriðjustefnu, samþykkir IceSave, hlýðir AGS eða sendir íraska flóttamenn út í dauðann.

Ég geng út frá því að ríkisstjórnin samanstandi af fullorðnu fólki og að því sé sjálfrátt. Enn fremur geng ég út frá því að það sé sæmilega gefið. Því finnst mér eðlilegt að dæma það af verkum sínum. Ríkisstjórnin sannar það á hverjum degi fyrir hverja hún starfar. Það er aum afsökun að aðrir valkostir séu verri.

Monday, October 26, 2009

McDonalds og fjöldamorð

Þótt ekki komi til af góðu, er lokun McDonalds fagnaðarefni. Megi þetta ógeðslega fyrirtæki fara á hausinn með braki og brestum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ríkisstjórn Íraks segir að risasprengjurnar séu annað hvort "öfgafullum súnnítum, félögum í al-Qaida eða fyrrum stuðningsmönnum Saddams Husseins" að kenna. Er hægt að orða það skýrar að þeir hafi ekki hugmynd um hverjir voru að verki?

Þorsteinn Pálsson og lýðræðið

Um daginn skrifaði Þorsteinn Pálsson "af kögunarhóli" sínum, að Steingrímur J. Sigfússon ætti erfitt með að hemja flokkinn sinn, og það væri til marks um veikleika VG sem flokks að formaðurinn gæti ekki tekið U-beygju frá stefnu flokksins í meiriháttar málum án þess að það ólgaði allt af óánægju. Þessi hugsunarlausu orð -- eða, ég vona að þau hafi verið skrifuð í hugsunarleysi -- koma upp um ólýðræðislega hugsun Þorsteins sjálfs.

Flokkur vs. formaður
Ef formaðurinn er relatíft sterkur gagnvart flokknum, þá ræður hann bara og flokkurinn samþykkir. Þannig var Davíð, en þannig tókst Þorsteini aldrei sjálfum að verða. Ef flokkurinn er sjálfur sterkur, þá getur formaðurinn ekki ráðskast með hann, heldur veitir flokkurinn formanninum eðlilegt aðhald ef þarf. Nú, það er svo annar handleggur hvort aðhaldið hefur verið eðlilegt í þessu tilfelli. Að mínu mati hefur það alls ekki verið nóg, hvorki að magni né gæðum. Ómöguleg ríkisstjórn á ekki að sitja á friðarstóli og það á ekki að láta hægrimönnum, fasistum, tækifærissinnum eða hræsnurum völlinn eftir til þess að einoka gagnrýnina, og þar með stjórnarandstöðuna, og þar með næstu uppreisn. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

1001 og forsetinn

Frétt dagsins er tvímælalaust Þúsundasta trúfélagsleiðrétting Vantrúar. Síðasta föstudagshádegi var eitt af ánægjulegri föstudagshádegjum mínum í seinni tíð.
~~~ ~~~ ~~~
Fáránlegt finnst mér þegar hægrimenn rukka vinstrimenn um andúð á forsetanum. Segir það sig ekki sjálft? Getur einhver bent mér á vinstrimann sem er ánægður með forsetann?
~~~ ~~~ ~~~
Grein dagsins á Egginni er einmitt um forsetann: "...en orðstír deyr aldei..." Höfundur: yðar einlægur.

Stöðugleikasáttmálinn

Það lítur út eins og það sé allt í stáli með þennan stöðugleikasáttmála. Hafa fleiri en ég það á tilfinningunni að þetta sé bara blöff og skúespil og hótanir eins lélegasta verkalýðsleiðtoga í heimi séu innantómt blaður? Ég spái því að þetta fari svona: Ríkisstjórnin efnir ekki sitt. SAÍ hótar að slíta samningnum en "gefur eftir" á síðustu stundu. Semja við ríkisstjórnina um að halda áfram að "reyna að ná stöðugleika" til að kaupa tíma. Svo klikkar ríkisstjórnin aftur, Gylfi Arnbjörnsson sakar hana um að "fylgja ekki hollráðum" AGS nógu vel, en gefur samt aftur eftir þegar á reynir. Svona mun þetta halda áfram þangað til við fáum stéttvís forysta tekur yfir annað hvort Alþýðusambandið eða ríkið. Af Jóhönnu, Steingrími, Gylfa Arnbjörnssyni og Vilhjálmi Egilssyni, þá treysti ég þeim síðastnefnda eiginlega best. Þau eru öll talsmenn auðvaldsins en Vilhjálmur þykist þó ekki vera eitthvað annað.

Saturday, October 24, 2009

Spurning um fjölda

Í greininni "Mansal - þrælahald án hlekkja" á DV.is hnaut ég um eftirfarandi orð framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands, Guðrúnar Daggar Guðmundsdóttur: ,,Um þrjú þúsund konur hafa leitað sér hjálpar í Kvennaathvarfi frá stofnun þess og til Stígamóta hafa komið 4500 konur eða um 2.8 % íslensku þjóðarinnar. Ofbeldismennirnir voru rúmlega fimm þúsund”. Voru um 7.500 konur fórnarlömb rúmlega 5000 ofbeldismanna? Beitti hver ofbeldismaður semsagt að meðaltali eina til tvær konur ofbeldi? Eða getur verið að fjöldi ofbeldismannanna sé töluvert minni og margir þeirra hafi haft fleiri fórnarlömb?

Friday, October 23, 2009

AGS og rasisminn

Ég held að það sé óskhyggja að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé rasískur og fari eitthvað betur með Íslendinga heldur en útlendinga. Hvers vegna ætti hann að gera það? Ég held að auðvaldið sé í sjálfu sér miklu frekar raunsætt (að vísu með úrkynjuðum formerkjum) heldur en rasískt. Raunsætt og, á sinn hátt, jafnréttissinnað. Ég meina, hvers vegna ætti þeim ekki að vera sama hvern það rænir? Hverju skiptir hvort maður er svartur eða hvítur ef það er hægt að hafa af manni peninga?

Hinn ógurlegi harðstjóri hnýsist í einkamál

Ef það er skortur á einhvejru, þá er eðlilegt að fólk sé hvatt til að fara sparlega með það, er það ekki? Það muna allir eftir óskum íslenskra yfirvalda í hittifyrrasumar, um að garðaeigendur væru ekki að vökva garðinn daglega, til að spara vatn, er það ekki? En ef það er heitt vatn sem skortir? Er þá ekki eðlilegt að hvetja fólk til að spara það líka? Til dæmis með því að vera ekki óþarflega lengi í sturtu? Nei, það er ekki eðlilegt -- alla vega ekki ef maður heitir Hugo Chavez. Þá er fréttnæmt að maður sé sérvitur harðstjóri og fyrirsögnin: Chavez bannar þjóðinni að syngja í sturtu.

Thursday, October 22, 2009

Til AGS

Ort í dag:

Stöndum saman, stöndum vörð,
stendur á landið bylur.
Alþjóðagjaldeyrissjóður svörð
sviðinn eftir skilur.
Einn lélegasti verkalýðsleiðtogi heims hótar að segja upp kjarasamningum. Í gær ávarpaði hann 42. þing BSRB, þar sem ég er einn þingfulltrúa. Ég gekk út þegar hann kom í ræðustól.

Þessi varð annars til um daginn:

Ástandið er dapurt, dimmt,
og dægrin ekki fögur.
Bítur seint þó gelti grimmt
Gylfi Arnbjörnsmögur.

Byltingarvísa

Ort í gær:

Gætum þess að gera rétt,
glímu að stíga af réttu tagi:
Höldum saman, stétt gegn stétt,
og steypum auðvaldsskipulagi.

Wednesday, October 21, 2009

Fundur Rauðs vettvangs á föstudagskvöld

Á föstudagskvöldið kemur verða fjáröflunarkvöldverður og fundur Rauðs vettvangs í Friðarhúsi, við Njálsgötu 87.

Borðhald hefst klukkan 18:30 og stendur til tæplega 20:00. Réttur kvöldsins er ekki ákveðinn ennþá en verður eflaust mjög ljúffengur! Hann mun aðeins kosta 1500 krónur.

Sjálfur fundurinn hefst klukkan 20:00 stundvíslega. Efni hans er tiltölulega einfalt: Starfið framundan. Hver er niðurstaðan eftir vel heppnaða ráðstefnuna 10.-11. október? Hver verða næstu skref? Hvernig styrkjum við hreyfinguna? Hver eru helstu verkefni framundan? Hvernig heyjum við baráttuna fyrir vörn heimilanna og gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum?

Fundurinn er opinn öllum áhugasömum og við vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Tuesday, October 20, 2009

Landflótti eða bylting

Ef 216 milljarðar falla á þjóðarbúið er það u.þ.b. milljón á hvern vinnandi Íslending, er það ekki? Það er bjartsýnasta spá, sem erir ráð fyrir 90% heimtum úr flaki Landsbankans. Ég sé nákvæmlega enga ástæðu til að taka þessa 90%-tölu trúanlega. Mér finnst hún lykta af almannatengslum, lykta af sykurmola sem við fáum til að auðveldara sé að renna niður beisku meðali, eða, í þessu tilfelli, beiskri ólyfjan. Ef talan er 90%, þá er þetta milljón á hvern vinnandi mann. Ef hún er 80% eru það tvær milljónir. Og svo framvegis. Hver halda þau að láti bjóða sér þetta? Ekki ég, svo mikið er víst. Hér eru plan A, B og C: (A) Íslenskir skattborgarar komast undan IceSave með friðsamlegum hætti, (B) Íslenskir skattborgarar komast undan IceSave með ófriðsamlegum hætti, (C) stór hluti ungu kynslóðarinnar flytur úr landi í kring um 1. janúar 2016, ég sjálfur meðtalinn. Ég hugsa að það sé ennþá of snemmt að fullyrða að leið A sé lokuð, en ég veit ekki hvað hún verður opin lengi.

Pétur vs. Atli -- eða Jóhannes??

Á sunnudaginn heyrði ég ekki betur, í útvarpsþætti á RÚV, en að Pétur Blöndal væri að ræða við Atla Gíslason. Nema þetta hafi verið Jóhannes eftirherma, að herma eftir Atla. Það gæti útskýrt ýmislegt, til dæmis hvað sumar lausnirnar sem Atli stakk upp á voru innihaldsrýrar. Hvað ættu íslenskur almenningur að gera í efnahagsmálum? Jú: „Stöndum saman, verum bjartsýn.“ Og hvert var ráð Atla til garðyrkjubænda sem eru að gefast upp vegna hás rafmagnsverðs? Jú: „Haldið haus, verið bjartsýn.“ Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Ef þetta var Jóhannes eftirherma, þá var þetta drepfyndið. Ef þetta var ekki hann, þá var það dapurlegt.

Monday, October 19, 2009

Ragna þrjótur.....

Brottvísun flóttamanns er morð. Ragna Árnadóttir ber ábyrgð á því ef eitthvað kemur fyrir Nour Al-Azzawi. Ef hann endar einhvers staðar þar sem fer sæmilega um hann, þá er það ekki Rögnu Árnadóttur að þakka. Hún ákvað að senda hann úr landi vegna þess að henni var það heimilt, hún var ekki neydd til þess. Kennir svo dómsmálaráðuneytið við mannréttindi, góður þessi.
Hvað sem Ragna segir, þá er þessi ákvörðun auðvitað jafn rammpólitísk og hún er ísköld og raunveruleg. Er ég ósanngjarn ef ég velti því fyrir mér hvort Ragna sé lituð af bakgrunni sínum í lögfræðilegri akademíu og skoði þetta sem lögfræðilegt álitamál, þegar það er í raun pólitískt? Hún er sérfræðingur í lögum, ekki í stjórnmálum. Hver mundi ráða lögfræðing til þess að taka pólitískar ákvarðanir?

Sunday, October 18, 2009

Sverrir Jakobsson og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Til gamans, þá fletti ég upp greinum á gamla góða Múrnum, til að sjá hvort Sverrir Jakobsson hefði ekki skrifað eitthvað þar um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég fann nokkrar þar sem höfundur kemur inn á sjóðinn og afrekaskrá hans. Dæmi: Frjáls viðskipti (25.5.01), Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Argentína (6.1.02), Tíu misheppnuðustu hugmyndir samtímans (14.9.04), Dreggjar nýlendutímans í alþjóðaviðskiptum (10.1.05) og Leikvöllur nýfrjálshyggjunnar (12.2.05). Af lestri þessara greina fer ekki milli mála að höfundur hefur mikla andúð á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Eða, að minnsta kosti, að hann hafi haft það þegar greinarnar voru skrifaðar. Ég hlýt að draga í land með þannig ályktun í ljósi greinar Sverris í Fréttablaðinu miðvikudaginn 7. október sl. Þar mátti nefnilega greina einhvers konar sáttatón, eða í það minnsta að svona væri þetta nú bara, sjóðurinn væri ekki alslæmur við okkur og betra að vinna sig út úr þessu en að vera að einhverju væli. (Mín umorðun.) Greininni var ekki síst beint til Ögmundar Jónassonar, sem hafði þá verið að tjá efasemdir sínar um ýmislegt af því auðvaldsþjónkaðasta í fari ríkisstjórnarinnar. Sverrir valdi honum skrautleg orð.

Það væri gaman að vita hvað hefur breyst frá því Sverrir skrifaði þessar ágætu greinar hér fyrr á öldinni. Ætli Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi, að mati hans, breyst til hins betra? Eða ætli Sverrir hafi breyst sjálfur? Eða ætli valdahlutföllin í landinu hafi bara breyst, Sverrir lent réttu megin og þess vegna sæst við kerfið?

Saturday, October 17, 2009

Pakistanskir talibanar

Talibanar gera árás á lögreglustöð í Peshawar, pakistanski herinn talar digurbarkalega en á ekki séns. Ég endurtek: Pakistanski herinn á ekki séns í pakistanska talibana. Þeir eru sprottnir upp úr jarðvegi bláfátækra bænda og eru bændur sjálfir. Þeir eru að berjast gegn raunverulega spilltu og óréttlátu valdi og hafa litlu að tapa. Þeir eru frekar vinsælir á athafnasvæði sínu. Pakistanski herinn er rotin stofnun, og þó sú stofnun sem virkar einna best í Pakistan. Pakistan er misheppnað ríki, það er bara tímaspursmál hvenær það missir dampinn og talibanarnir taka yfir. Hver ætli sé bjartasta vonin í pakistönskum stjórnmálum? Vandi er um slíkt að spá. Ég er enginn sérfræðingur í þeim, en hef fylgst nokkuð með byltingarhreyfingum Suður-Asíu og veit ekki um neitt pakistanskt stjórnmálaafl sem ég mundi álíta framsækið.

Friday, October 16, 2009

Gylfi Arnbjörnsson barst hér í tal á dögunum. Nú treður hann aftur upp með opinskáum yfirlýsingum um stuðning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn! Kommon, díses kræst! Getur Alþýðusambandið ekki farið að skipta um formann!? Gylfi hlýtur að vera eini formaður verkalýðshreyfingar í heiminum sem styður þennan fáránlega glæpasjóð. Enda fáránlegur formaður, alveg hrikalegur.

Wednesday, October 14, 2009

Góðar fréttir

Karadzic fær ekki friðhelgi fyrir Alþjóðastríðsglæpadómstóli. Það er gott, stríðsglæpi á ekki að fyrirgefa. Vonandi að dómstóllinn verði jafn prinsippfastur þegar sá dagur kemur að framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar og ritstjóri Morgunblaðsins verða dregnir fyrir hann.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
90% af IceSave-draslinu borgast upp af sjálfu sér, ef marka má fréttir. Mjög góðar fréttir, ef marka má fréttir. Verst að ég efast. Ég trúi þessu ekki fyrr en það er frágengið. Ég hef nefnilega heyrt að þessi 90%-tala sé byggð á grófu ofmati. Nú, segjum að þetta sé satt. Þá hljóta Bretar og Hollendingar að sýna því meiri skilning ef við neitum að borga þetta. Á hvorn veginn sem sannleikurinn er, þá ættum við að neita að borga.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég legg til að Geir Haarde verði gerður persónulega ábyrgur fyrir neyðarlögunum svokölluðu, eða að minnsta kosti fyrir að hafa mismunað innistæðueigendum eftir þjóðerni. Ef einhverjir erlendir innistæðueigendur hafa eitthvað upp á hann að klaga, þá ættu þeir bara að snúa sér til hans.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er ógeðfellt að sjá hvernig ríkisstjórnin og helstu stuðningsmenn hennar berjast fyrir því að Ísland fái að taka á sig IceSave-ábyrgð og vera áfram á teininum hjá Alþýðugjaldþrotasóðanum. Við sem efumst erum kölluð óraunsæir nytsamir veifiskatar Sjálfstæðisflokksins, sem eru fastir í 2007. Á meðan dansandi halarófan á eftir Steingrími er ábyrg og raunsæ. Ég meina, Steingrímur hlýtur nú að hafa rétt fyrir sér. Hann er nú ráðherrann, ha.
Ef Íslandi verður ekki stýrt undan fjárhagslegri og pólitískri úrbeiningu og roðflettingu, þá verður það á ábyrgð sitjandi ríkisstjórnar og það verður ekki með mínum stuðningi. Sumir segja að hin endanlega ábyrgð sé íslensks almennings. Þetta er bull, þótt strangt til tekið sé það kannski rétt, en þá má líka halda rökleiðslunni áfram: Ábyrgð almennings er þá núna sú að gera byltingu og koma hér á réttlátara, sjálfbærara og lýðræðislegra samfélagi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það eru afturámóti góðar fréttir í alvörunni, að mál Íslands verðist enn tefjast fyrir Alþýðugjaldþrotasóðanum. Megi það tefjast sem lengst.

Thursday, October 8, 2009

...á forsendum hverra?

Starfsgreinasamband Íslands þingar nú á Selfossi. Yfirskrift þingsins er "Atvinnulíf á okkar forsendum!" Ætli ég sé einn um að koma þetta spánskt fyrir sjónir? Annar hátíðarræðumaðurinn var enginn annar en hægrikratinn Árni Páll Árnason. Hann kenndi auðmönnum og fyrri stjórnvöldum um vandamál landsins og kom svo með lausnirnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið. Klykkti út með því að gefa í skyn að innganga í Evrópusambandið mundi barasta útkljá stéttabaráttuna á Íslandi! Skreytti sig svo með þessum stolnu fjöðrum úr lokaorðum Kommúnistaávarpsins: "Við höfum engu að tapa – nema hlekkjunum." Æðislegt, ekki satt? Væri ósanngjarnt að segja að hann hafi þarna skipað sér á bekk með hinum ofsalega róttæka Antonio Negri?
Hinn hátíðarræðumaðurinn var, guess what, annar hægrikrati: Gylfi Arnbjörnsson. Sá notaði tækifærið til að taka stórt upp í sig með því að hálf-hóta atvinnurekendum stríði. "Ef þið viljið stríð, þá munuð þið fá stríð," sagði hann. Trúir einhver því að hugur fylgi máli? Trúir einhver því að raunsæi og ábyrgi hægrikratinn fari að rugga bátnum frekar og setja allt í uppnám? Gylfi segist finna fyrir væntingum til þess að verkalýðshreyfingin standi vaktina. Gylfi bendir á að enginn þingmaður hafi lýst áhyggjum af "stöðugleikasáttmála" í eldhúsdagsumræðum. Ætli það segi ekki sitt um hvað þeir hafa miklar áhyggjur? (Hverjir ætli það séu annars, sem vænta þess að Gylfi standi vaktina?)
Gylfi lýsir áhyggjum af því að þátttaka atvinnulausra í verkalýðsfélögum hafi fallið úr um 90% niður í um 50%. Ætli það sé vísbending um væntingar almennings til þeirra?
Lausnir Gylfa fela meðal annars í sér "nýtt siðferðismat" í stjórnun fyrirtækja og að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fari um okkur mildum höndum sínum. Það var nefnilega það.

Læt þetta duga að sinni, en lesið þessi fyrri samskipti mín við SGS: Af ný-auðvaldi og ný-misskilningi.

Öfugsnúin umræða

Í landinu er stjórn sem sumir kalla "vinstristjórn" en stundar nógu mikinn niðurskurð og þjónkun við auðvaldið til þess að verðskulda eitthvað annað nafn. Sagt er að nýjum herrum fylgi nýir siðir, en það vantar sitthvað upp á það nú. Getur verið að rassaför hægrimanna við kjötkatlana séu orðin svo djúp að fáir komist upp úr þeim? Það skyldi þó aldrei vera. Forsætisráðherrann ætlast ekki bara til þess að samráðherrar sitji og standi eins og hún vill, heldur hugsi þannig líka. Meira að segja helstu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar virðast apa eftir stuðningsmönnum fyrri ríkisstjórna.

Steingrímur J. Sigfússon segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði ekki deginum lengur í landinu heldur en þörf sé á. Þörfin fyrir þann ólánssjóð er álíka mikil og þörfin fyrir drepsótt, svo ég vona að Steingrímur meini að landstjórinn sé kominn út á flugvöll og sé að tékka sig inn í þessum töluðum orðum. En ég óttast að það sé ekki það sem Steingrímur meinar. Maður eins og ég, sem er vanur að líta á samfélagið sem stéttskipt, spyr þegar svona er sagt: Lengur en hver hefur þörf á? Úr þessari Tyrklandsheimsókn, þar sem þurfti óeirðalögreglu til þess að Steingrímur gæti fundað í friði fyrir múgnum, færir hann okkur svo þessar innihaldsríku og merku fréttir: "Við verðum að ná tökum á efnahagsástandinu svo það þoli endurskoðun og Icesave verður að ljúka.
Fyrr berst ekki fjárhagsaðstoð frá alþjóðasamfélaginu."

Nú, Sverrir Jakobsson sendir svo Ögmundi Jónassyni einkennilegan tón í Fréttablaðinu í gær. Hann lætur sem "þjóðrembumálflutningur" hægrimanna og framsóknarpopúlismi hafi glapið Ögmund. Þetta segir hann þegar hann hefur rétt sleppt orðinu, að gera grín að Bjarna Ben. fyrir að vera að fatta það núna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé innheimtustofnun fyrir lánadrottna og hafi verið það í 60 ár. Maður hlýtur að ætla að formaður hreinskilnasta auðvaldsflokksins sé innrættur eftir því, og með því að Sverrir þekkir eðli AGS skýtur þetta skökku við og er þar af leiðandi fyndið. Nú má svosem segja ýmislegt um Ögmund Jónasson, en er ekki fulllangsótt að kalla hann framsóknarginnkeyptan þjóðrembulýðskrumara sem talar gegn handrukkarasjóði alþjóðafjármálaauðvaldsins en elskar hann innst inni? Heldur Sverrir það kannski og finnst þetta þess vegna skrítið?

Ég ímynda mér að ef maður leitar í ritsafni Sverris sjálfs, t.d. á Múrnum gamla, eða þá bara í einhverjum skrifum frá því fyrir búsáhaldauppreisn, þá geti maður fundið þar einhverja gagnrýni á Alþjóðahandrukkarasjóðinn. Ímynda mér það, án þess að hafa athugað það sérstaklega. Ætli Sverri finnist ekkert skrítið hvað Steingrímur er allt í einu orðinn jákvæður í garð sjóðsins? Getur verið að það hafi einhver annar en Ögmundur látið plata sig?

Sverrir segir annars í grein sinni: "Enn hefur sjóðurinn ekki sett Íslandi [neina afarkosti]". Ég velti því nú fyrir mér hvernig Sverrir viti það, og hvað hann viti. Ég veit nefnilega að sjóðurinn setur mikinn þrýsting á um niðurskurð og er a.m.k. með Landspítalann undir smásjá og lætur þýða fyrir sig stjórnunargögn þaðan. Ég veit líka að sjóðurinn hefur reynt að bæta ímynd sína með því að setja fá og tiltölulega aðgengileg skilyrði í byrjun, en hækka slána þegar kemur að afhendingu á næsta hluta lánsins. Þannig að ef það eru ekki komin fram nægileg skilyrði til þess að geta kallast "afarkostir", þá eiga þau sjálfsagt eftir að koma á daginn áður en langt um líður.

En það er fleira eftirtektarvert heldur en það sem Sverrir skrifar. Hjörleifur Guttormsson skrifar t.a.m. þungskeytta grein á Smuguna og "Icesave-málið og afsögn Ögmundar" heitir hún. Ég ætla nú ekki að fara að endursegja ágæta grein, en umræðurnar í athugasemdakerfinu eru merkilegar. Þar skrifar hver á fætur öðrum um að Ögmundur sé svona-og-svona, að gera verði fleira en gott þyki og að þetta-og-þetta sé nú ill nauðsyn og þurfi kjark til. Einhver Pétur segir t.d. að Ögmund hafi skort "kjark til að skera niður". En sú vitleysa. Ögmundur hafði kjark til þess að skera EKKI niður og til þess að standa með sannfæringu sinni þótt á honum stæðu spjótin úr krataátt. Hvað hefði hann átt að gera til þess að þóknast þessum Pétri og öðrum IceSave-sinnum? Það var um fernt að velja: Skipta um skoðun; Skrökva um skoðun sína; Grjóthalda kjafti; Hunskast út. Ögmundur valdi síðasta kostinn. Hvað hefðu gagnrýnendur hans gert í stöðunni?

IceSave-ábyrgðir eru eitthvert mesta endemi sem ég hef vitað. Hvernig dettur fólki í hug að ætla að samþykkja þær? Þær verða nefnilega aldrei borgaðar. Ef íslenska ríkið ber ekki gæfu til að koma sér undan þeim, þá munu landsmenn gera það sjálfir, með fótunum. Það er ekki hægt að pína fólk til að borga ef það á undankomu auðið. Ég skal hér með segja það fyrir sjálfan mig, að ég ætla ekki að taka þátt í að borga IceSave. Ef þetta leysist ekki á þægilegri hátt, þá stendur valið milli landflótta og byltingar.

Steiktast af öllu er samt hvernig höfð eru endaskipti á umræðunni. Það er Samfylkingin sem dregur forystu VG á asnaeyrum í ógæfuátt. Stór hluti flokksmanna og kjósenda VG, sem og flestir aðrir landsmenn, gapa af undrun og vonbrigðum. Þegar nokkrir þingmenn sýna þá staðfestu að spyrna við fótum og segja: nei, þetta gengur ekki -- þá eru þau hin sömu kölluð illum nöfnum, gungur og þjóðrembupopúlistar og óstjórntæk og framsóknarmenn og þaðan af verra.

Hvaða rugl er þetta eiginlega?

Monday, October 5, 2009

Baráttudagar í október – ár frá hruni

Helgina 10.-11. október heldur Rauður vettvangur ráðstefnuna "Baráttudaga í október - ár frá hruni". Á henni verður farið yfir stöðuna í þjóðfélaginu í fjórum málstofum. "Bankahrunið og reynslan af fyrsta ári kreppunnar", "Hver fer með völdin á Íslandi?" og "Átök og verkefni framundan" verða á laugardeginum og sameiginlegur kvöldverður um kvöldið. Á sunnudeginum verður fjórða málstofan, "Ný stefna fyrir Ísland", og eftir hana opinn umræðufundur um skipulag nýrrar byltingarhreyfingar. Frummælendur eru Andrea Ólafsdóttir, Gunnar Skúli Ármannsson, Helga Þórðardóttir, Herbert Sveinbjörnsson, Héðinn Björnsson, Jakobína Ólafsdóttir, Kolbeinn Stefánsson, Lilja Mósesdóttir, Vésteinn Valgarðsson, Þorleifur Gunnlaugsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Þórarinn Hjartarson og Þórður Björn Sigurðsson.

Rauður vettvangur er félag sósíalista. Það var stofnað árið 2008 og hefur haldið reglulega og óreglulega fundi, Rauðan fyrsta maí og Rauða daga í Reykjavík í júlí sl. Tilgangur félagsins er að leggja sitt af mörkum í endurskipulagningu íslensks þjóðfélags út úr og upp úr kreppu.

Nánari upplýsingar:
www.raudurvettvangur.blog.is
Vésteinn Valgarðsson - 8629067 - vangaveltur@yahoo.com
Þorvaldur Þorvaldsson - 8959564 - vivaldi@simnet.is

Erfðasynd VG?

Þegar ég sé talað um klofninginn í þingflokki VG þykir mér það ríma við það sem mætti kannski kalla erfðasynd flokksins, að hafa aldrei gert upp við sig afstöðuna til auðvaldsskipulagsins. Með því að skilja þá spurningu eftir óútkljáða hefur verið hægt að sameina sósíalista og krata í einum flokki, -- en getur sú sameining staðið lengur en spurningin er óútkljáð? Á þetta reynir þegar flokkurinn er kominn til valda. Það er undansláttur að láta eins og spurningin skipti ekki máli.

Spurningin er þessi: Erum við sameinuð til þess að mynda gott og réttlátt samfélag eða til þess að betrumbæta kapítalismann? Þetta eru tvö aðskilin og ósamrýmanleg markmið. Til þess að skapa gott og réttlátt samfélag er höfuðverkefnið að losa það við helstu uppsprettu spillingar og ranglætis, sem er kapítalisminn. En með því að betrumbæta kapítalismann eru lífdagar hans framlengdir og með þeim ranglætið og spillingin.

Ef flokkurinn skorast undan því að svara spurningunni opinskátt og heiðarlega -- og ætlar þannig að komast hjá því að gera upp á milli sinna eigin félaga -- þá sýnir hann svarið í staðinn af verkum sínum. Hingað til er ferillinn ekki beysinn, verður að segjast. Það er greinilegt að kratar fara með völdin í þessari ríkisstjórn.

Ég er sósíalisti og ég verð ekki ánægður með þjóðskipulagið á meðan það er kapítalískt. Ég hef engan áhuga á sýndarmennsku í þessum efnum og er að því leyti hrifnari af heiðarlegum auðvaldsseggjum heldur en krötum sem látast bera hag fólksins fyrir brjósti en reynast svo vera höfuðstoð auðvaldsins þegar á reynir og hafa ekkert að bjóða annað en IceSave-skuldir, Alþjóðagjaldeyrissjóð og samband evrópskra auðhringa. Hver þarf hægristjórn þegar maður hefur svona vinstristjórn?

Ítarefni: Grein mín VG og sósíalisminn, skrifuð eftir landsfund VG í vor.

Sunday, October 4, 2009

IceSave og afsögn Ögmundar

Írar létu plata sig til að samþykkja Lissabon-sáttmálann og eru það mikil vonbrigði. Þeir felldu hann um árið, en fengu nú annað tækifæri til þess að samþykkja hann. Hvenær ætli þeir fái annað tækifæri til þess að fella hann? Svar: Aldrei. Lýðræðishalli ESB birtist greinilega í því hvernig svona málum er troðið í gegn. Lesið: Lissabon-bókunin: Hvað er nú það?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Guðfríður Lilja vill að Ögmundur verði aftur ráðherra. Ég get alveg tekið undir það, þótt það kæmi mér á óvart ef svo yrði. Maður lætur ekki stilla sér upp við vegg, hvorki í ESB né IceSave. Yfirgangur innan ríkisstjórnar á ekki að líðast, hvorki að fólk stundi hann né láti bjóða sér hann. Lesið hvað Hjörleifur Guttormsson skrifar um Icesave-málið og afsögn Ögmundar.

Í IceSave-málinu er aðalatriðið það að íslenskir skattborgarar stofnuðu ekki til þessara skulda og allar niðurstöður sem fela í sér að þær lendi á herðunum á okkur eru því óásættanlegar. Þetta er aðalatriðið. Það er aukaatriði hvað "lögmæt stjórnvöld" (les: vanhæfir, spilltir klaufar) álpuðust til að gera. Það er makalaus málflutningur, að ætla að selja land og þjóð í hendurnar á handrukkurum alþjóðlegs fjármálaauðvalds, og kalla það ábyrgðarleysi að vilja það ekki. Það er líka makalaus málflutningur að segja að Ögmund hafi skort "kjark til að skera niður". Nei, Ögmundur hafði kjark til að skera EKKI niður.

Það eru örugglega margir fylgismenn og félagar í VG sem telja Steingrím J. vera að gera góða hluti og finnst Ögmundur vera úti í móa. Við þessa félaga segi ég: Opnið á ykkur augun! Ríkisstjórnin er að útfæra hægristefnu, lætur hagsmuni fjármagnsins ganga fyrir hagsmunum fólksins, ætlar sér að skera niður í því sem okkur er mikilvægast til þess að þóknast Alþjóðagjaldeyrismafíunni! Við eigum ekki að láta teyma okkur á asnaeyrum. Ögmundur gerði það eina rétta í stöðunni, og ég fullyrði að hann hefur víðtækan stuðning félaga og flokksmanna. Hægriarmurinn hefur auðvitað líka marga fylgismenn, en ég hygg að þeir fylgismenn séu ennþá fleiri meðal Samfylkingarfólks heldur en Vinstri-grænna.