Tuesday, November 30, 2004

Mér finnst alltaf jafn hjákátlegt þegar hægrimenn opinbera vanþekkingu sína á George Orwell með því að vísa til 1984 sem "lýsingar hans á sósíalismanum". 1984 er lýsing hans á stalínismanum. Orwell var nefnilega róttækur vinstrimaður. Hann barðist meira að segja í spænsku borgarastyrjöldinni, var með anarkistum í Katalóníu. Nýjasta dæmið um svona vanþekkingar-opinberun er hjá Guðmundi Arnari Guðmundssyni, ritstjóra Ósýnilegu handarinnar, málgagns Andatrúarfélags Íslands.

~*~*~*~*~*~*~*~*~



Mótmælastöður við Alþingishúsið eru orðnar daglegt brauð. Hver sem vill leggja lið er velkominn. Mótmælastaða fer yfirleitt fram milli 12 og 14. Í dag voru a.m.k. tveir stjórnarþingmenn sem æstu sig vegna sannleikans sem stóð á skilti: Hvað hefurðu drepið mörg arababörn, Dóri? Ég mæli með hlýjum fötum.

~~~



Í dag voru utandagskrárumsræður á Alþingi, um Íraqsstríðið. Málshefjandi var gamall afturhaldskommatittur, Össur Skarphéðinsson. Umræðurnar má lesa hér ef einhver hefur áhuga.

~~~



Ef einhver á eftir að skrá sig á Fólkið er upplagt að gera það núna. Þarna er allt að gerast. Brennipunktur íslenskra stjórnmála.

Af tveim þjóðarhreyfingum: Með og móti lýðræði



Klukkan 14:00 á morgun (miðvikudag) heldur Þjóðarhreyfingin - með lýðræði blaðamannafund á Hótel Borg. Það stendur til að safna fé til að kaupa stóra auglýsingu í New York Times, þar sem heimsbyggðinni verður gert ljóst að stuðningur íslensku ríkisstjórnarinnar við Íraqsstríðið sé ekki með samþykki íslensku þjóðarinnar. Sjá nánar um fundinn hér.

Ég held að það sé ástæða til að mæta og sýna með því stuðning við birtingu þessarar auglýsingar.

~*~*~*~*~*~*~*~*~

...og þá að því sem mætti kalla „þjóðarhreyfingu gegn lýðræði“...



Davíð Oddsson kallaði Samfylkinguna "gamlan afturhaldskommatittaflokk" í þinginu í gær. (Mér heyrðist hann reyndar fyrst segja „..hommatitta..“ og sperrti eyrun!) Nú ætla ég ekki að fara að heyja skylmingar fyrir hönd Samfylkingarinnar, hún er fullfær um það sjálf, og í sjálfu sér er ... tja ... sumt í þessari nafngift sem ég get í sjálfu sér verið sammála ... en úff, hvaða hundur er hlaupinn í karlinn? Honum ferst, að úthúða öðrum fyrir afturhald. Ég sem hélt að geðvonskan hefði verið skorin úr honum hér um daginn?

~*~*~*~*~*~*~*~*~



Annað af Sjálfstæðismönnum: Heimdallur leggur til að ríkisútgjöld verði skorin niður um 118.000 kr. per mannsbarn. Ýmis ríkisútgjöld er besta mál að séu skorin niður en einu velti ég fyrir mér. Ætli hvert mannsbarn fái þá þennan 118.000-kall í vasann? Ef þessu væri skipt jafnt milli fólks væri það nú eitt (og spurning hvort þeim væri þá ekki allt eins vel komið í samneyslunni) -- en skyldi það vera hugmyndin? Ætli þetta mundi ekki aðallega fara til efnaðri hluta þjóðfélagsins? Mér er spurn.

Snarrót, tónleikar, fólkið, Úkraína o.fl.



Félags- og þjónustumiðstöð grasrótarhreyfinga, Snarrót, hefur nú starfað í nokkra mánuði og starfsemin verið hin líflegasta. Kvikmyndasýningar, fundir, almennt spjall ... það hefur verið mikið um að vera og gaman að taka þátt í því. Ef svo heldur áfram sem horfir, þá er þarna að verða til athvarf, vettvangur, gróðrarstöð fyrir grasrótina. Ég vil því hvetja þá sem enn hafa ekki heimsótt Snarrót að gera það sem fyrst og vera með.



Annað kvöld eru útgáfutónleikar geisladisksins Frjálsrar Palestínu á Gauki á Stöng. Rétt að minna á það.



Eitt enn sem er um að vera er Fólkið. Það er póstlisti og umræðuvettvangur fyrir fólk sem hefur fengið nóg af stríðsþátttöku Íslendinga og langar að gera eitthvað í málunum. Á póstlistanum er hægt að fá sendar tilkynningar um væntanlega atburði, senda sjálfur tilkynningar, og ræða málin, hvað sé rétt að gera, hvernig skuli gera það og svo framvegis.



Úkraína

gefnu tilefni hlýtur maður að spyrja sig hvor sé betri kostur, mafíustuddi Rússaleppurinn eða imperíalistastuddi Kanaleppurinn. Eða, ætti maður kannski frekar að spyrja hvor sé verri? Hvor heimsvaldastefnan er betri, sú rússneska eða sú bandaríska? Hvorum heimsvaldasinnunum viljum við fyglja að málum?

Þarna er á ferðinni false dilemma. Valið stendur milli tveggja slæmra kosta. Jústsénkó var alveg kosinn forseti Úkraínu og auðvitað á hann bara að verða forseti. En sú lausn mála er ekkert góð fyrir því. Jústsénkó er líka fulltrúi valdastéttarinnar, bara annars anga af henni.

Monday, November 29, 2004

Ævintýraköttur í svaðilför



Enn verður kötturinn mér að umtalsefni. Til hvers að eiga ketti ef maður hefur ekkert um þá að segja? Alla vega, eins og sumir vita eru tveir kettir á mínu heimili, rígfullorðnar mæðgur. Móðirin heitir Pamína og er lesendum Fréttablaðsins að góðu kunn, enda fastagestur á síðum þess. Hún er á fimmtánda ári. Væri sennilega farin að grána ef hún væri ekki grá-og-hvít-skjöldótt fyrir. Á yngri árum var hún oft í tígrisdýraleik en hefur með árunum orðið meira eins og ástleitið og snuðrandi, rígfullorðið tígrisdýr.

Nú nenni ég ekki að hafa þennan formála lengri. Áðan sat ég í kjallara með mínum bróður og með ástleitinn köttinn snuðrandi og troðandi framlöngu og tófulegu trýninu í handarkrikann á mér (!). Síðan fór hún eitthvað í burtu. Í horninu fyrir aftan mig voru gamlar, veggfastar bókahillur og upp við þær dýna, liggjandi á langhlið, en eitthvað rusl ofan á dýnunni og nokkur gömul málverk sem stóðu upp við hana. Nú renndi kötturinn sér fimlega upp málverkin og upp á dýnuna. Gekk dýnuna endilanga og ætlaði að smeygja sér upp í bókahillu (semsagt þar sem var pláss í hillunni fyrir einn kött í digrara lagi). Hún steig á draslhrúguna -- sem rann undan henni og hún sjálf með. Rígfullorðinn köttur, rennandi sér "lipurlega" niður dýnu, sitjandi í tómum skókassa eins og sleða. Hlussaðist í gólfið með brambolti. Ég hló mig máttlausan.

Kötturinn reis skjótt á fætur og dustaði af sér rykið. Renndi sér aftur upp málverkin, upp á dýnuna og ætlaði að fara aðra leið í þetta sinn: Upp á tóman pitsukassa sem stóð hálfur út úr hillu og blaðahrúga á honum. "Plísplísplís" hugsaði ég, hnippti í bróður minn og benti honum á salibununa sem var í vændum: Að kötturinn mundi stíga á tóman pitsukassann, sem þá mundi sporðreisast í flasið á kettinum, blaðahrúgan detta beint í fangið á honum og allt heila klabbið húrra í gólfið. Við fylgdumst átekta með.

Kötturinn hafði vit á því í þetta sinn að prófa undirstöðuna. Hún fann að kassinn var ekki sem traustastur og tróð sér framhjá honum, smaug inn í skotið sem hún hafði augastað á. Liggur þar enn.
Gullmoli dagsins: Allir menn eru jafnir og allir hafa jöfn réttindi. En ekki eru allir menn jafnskemmtilegir.

Sunday, November 28, 2004

Fólkið, Íraqsstríðið, aðgerðir, fleira



Ég er alveg bit yfir stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar við stríðið í Íraq. Svo er um fleiri. Nú er svo komið að við getum ekki setið lengur með hendur í skauti; við getum ekki látið bjóða okkur að þessi hryllingur haldi áfram í okkar nafni. Það er á okkar ábyrgð að segja „hingað og ekki lengra!“ -- og vei okkur ef við gerum það ekki.

Hvaða rétt höfum við Vesturlandabúar til friðar ef við neitum öðrum um hann? En til frelsis? En öryggis? En lífs? Ef við, með breytni okkar, setjum reglurnar, höfum við þá rétt til að kvarta þegar herskáir andspyrnumenn fara bara eftir þeim? Ef við setjum boðorð dagsins og boðorðið er ofbeldi, við hverju getum við þá búist? Mér er spurn.

Fólkið hefur fengið nóg. Það ehfur verið settur saman samskiptagrundvöllur, tengslanet, fyrir fólk sem er búið að fá nóg og vill gera eitthvað í málunum. Þetta net gengur svona fyrir sig: Farið á www.folkid.net og sjáið hvað þessi hópur á sameiginlegt. Ef þið eruð meira og minna samþykk því getið þið skráð ykkur á póstlista þar sem málin eru rædd. Þegar einhver vill grípa til aðgerða segir hann/hún frá því á póstlistanum og þeir sem sjá það þar senda SMS til félaga sinna sem þeir hafa rætt við áður og þannig fer orðsendingin eins og eldur um sinu. Þeir sem vilja boða skyndiaðgerðir geta þannig gert það. Þeir sem vilja taka þátt í þeim geta það einnig. Þarna er semsagt kominn vettvangur, fyrir þá sem hafa fengið nóg, til að samræma og manna aðgerðir. Hér með hvet ég áhugasama til að taka þátt. Þetta er rétt að byrja og enginn hefur misst af neinu.



Einn þeirra sem hefur skrifað nokkuð um þetta er Birgir Baldursson. Annar er Björn Darri. Bróðir minn líka. Og nú ég. Af gefnu tilefni vil ég taka fram að þennan hóp mynda ekki tómir atvinnumótmælendur eða erkikommar og þetta eru ekki samtök eða félag. Við ætlum að gera allt sem við getum til að stöðva þátttöku Íslands í stríðsrekstri. Já, það eru fleiri mál sem bíða úrlausnar og nei, við ætlum ekki að missa sjónar á þeim. En þetta er málið sem brennur á okkur núna. Það er verið að fjöldamyrða saklaust fólk í okkar nafni, brytja það niður og misþyrma því. Ég sé ekki að önnur mál geti verið mikilvægari. Ég hef áhuga á bæði friði, frelsi, öryggi og lífi. Ég vil ekki að fólk sé svipt því. Ef ég vil geta notið sæmilegra lífskjara og öryggis, er það þá ekki skylda mín að stuðla að því að annað fólk geti það líka?



Ef við andmælum ekki árásum í Íraq, eða Afghanistan, eða Júgóslavíu, eða Palestínu, hver mun þá andmæla þegar röðin kemur að okkur?

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Meðal annars:

Í tilefni af útgáfu geisladisksins Frjálsrar Palestínu eru tónleikar á miðvikudagskvöld á Gauki á Stöng. Sjá allt um þá hér.



Hjálmar segir það koma til greina að Ísland verði tekið af lista hinna herskáu. Vonandi satt. Þetta er ekki nóg til þess að ég sé ánægður með hann samt, ef einhverjum skyldi detta það í hug.

Friday, November 26, 2004

Frjálslyndur marxismi



Það er kominn tími til að ég geri grein fyrir útlínum þeirrar stefnu, sem ég aðhyllist í pólítík. Þegar ég hef verið spurður hvar ég standi á hinu pólítíska landakorti, hef ég hingað til sagst vera frjálslyndur marxisti, yfirleitt án þess að útlista nánar hvað felst í orðunum. Það ætla ég að leitast við að gera núna.



Ég er marxisti



Ég tel að fræðin sem Karl Marx lagði grunninn að, og fleiri hafa síðar bætt og aukið við, séu í senn grundvöllur, vinnubrögð og sýn sem gagnast í meginatriðum betur en önnur við að skýra samfélagið og hafa áhrif á það. Söguleg og díalektísk efnishyggja og stéttabaráttan eru hornsteinar í söguskýringunni, og gagnast um leið til að sjá fyrir, í grófum dráttum, hvað mun gerast í framtíðinni. Greining Marx á kapítalismanum er sú besta sem ég þekki og stendur óhrakin eftir meira en aldarlangar árásir. Tímans tönn hefur ekki unnið á greiningunni sjálfri, þótt vitanlega þurfi að staðfæra hana eins og hvern 120 ára texta sem notaður er til að skýra nútímann!



Ég er frjálslyndur



Lýðræði er bæði nauðsynlegt og það eru réttindi okkar að búa við það. Um þessar mundir búum við ekki nema við málamyndalýðræði. Borgaralegt fulltrúalýðræði er ekki nema málamyndalýðræði. Án þess að ég ætli mér að útlista alla galla þess í svo stuttu máli, þá þarfnast stjórnarfar okkar og þjóðskipulag mikilla breytinga í átt til lýðræðis og meira frelsis. Á ég þá bæði við frelsi einstaklinga og frelsi samfélags.

Það þarf að minnka umsvif ríkisvalds og auðvalds. Þau umsvif þurfa að færast í hendur fólksins sjálfs, milliliðalaust, hvernig svo sem það er útfært.

Hvað frjálslyndi varðar mætti kannski nefna anarkisma í þessu samhengi. Ég er ekki anarkisti, en það er ýmislegt sem anarkistar hafa fram að færa sem vert er að athuga, svosem andúð á yfirvaldi eða kennivaldi; sterk frelsisást og hugmyndir um ábyrgð okkar á sjálfum okkur og umhverfinu.



Byltingin



Bylting er það ferli að breyta frá einu þjóðskipulagi til annars. Þar sem ég tel núverandi þjóðskipulag meingallað, ósanngjarnt, ómannúðlegt og ólýðræðislegt, þá gengst ég fúslega við því að vera kallaður byltingarsinni. Þrátt fyrir galla núverandi þjóðskipulags tel ég að það bjóði upp á möguleika til friðsamlegra valdaskipta eða valdaafsals, og því sé ég ekki ástæðu til annars en að breytingin færi þannig fram: Friðsamlega og lýðræðislega. Gandhi var líka byltingarmaður.

Þegar skipt er um þjóðskipulag þarf, eðli málsins samkvæmt, að vanda mjög til verks. Bæði þarf sjálf breytingin að taka mið af aðstæðum, og hið nýja þjóðskipulag að vera sýnu betra og þróaðra en það gamla. Ég sé fyrir mér að til verði róttækt og framsækið stjórnmálaafl, sem beiti sér fyrir afnámi hinna gömlu valdatækja og efnahagskerfis, en búi þess í stað í haginn fyrir þjóðskipulag sem einkennist af frelsi án lausungar og reglu án kúgunar. Slíkt stjórnmálaafl þarf sjálft að vera til fyrirmyndar ef það á að vera trúverðugt. Það þarf að vera lýðræðislegt, heilsteypt, sjálfu sér samkvæmt ... og auðvitað þarf það að hafa á réttu að standa! Flokkagi, flokkslína, kennivald, persónudýrkun, „óskeikulleiki“ eða baktjaldamakk eru því nokkuð sem þyrfti að forðast.

Stjórnmálaaflið, sem ætlar sér að koma í kring friðsamlegri og lýðræðislegri þjóðbyltingu, þarf að eiga stuðning þeirra sem málið varðar: Þjóðarinnar, fólksins. Því skiptir öllu að hreyfingin sé heiðarleg og trúverðug, en um leið harðskeytt, beinskeytt og skefjalaus í málflutningi sínum. Stjórnmálahreyfing sem slík kemur litlu til leiðar. Hún er aðeins farvegur fyrir hið sanna afl breytinganna, en það er fjöldafylgið. Fjöldafylgi meðal vinnandi fólks er m.ö.o. það afl sem eitt gæti gert friðsamlega og lýðræðislega þjóðbyltingu.



Nokkrar spurningar og svör



Er ég kommúnisti?



Tja, ég býst við að það megi kalla mig það. Allavega tek ég því ekki illa. Nú hefur þetta orð fleiri en eina merkingu. Ég boða ekki þúsundáraríki með flokkseinræði, verksmiðjur með 300 metra háa skorsteina og eilífa sólarupprás og ég lít ekki til Búlgaríu 1970 sem draumalandsins. Það má kannski segja að ég geti kallast kommúnisti í hinni víðari merkingu orðsins, þeirri merkingu sem innifelur bæði marxista, anarkista og ýmsa smærri hópa. Kommúnismi sem þjóðskipulag einkennist af því, að þar er engin stéttaskipting og aðstaða manna er jöfn. Lýðræði, lýðfrelsi og framleiðsla sem miðar að því að fullnægja þörfum almennings en ekki græðgi fjármagnseigenda. Kommúnismi sem stjórnmálastefna er sú stefna sem miðar í þessa átt.



Tilbið ég Stalín? Hvað finnst mér um [nafn á frægum marxista]?



Ég tilbið engan en djöfulgeri reyndar heldur engan. Alvöru djöflar og dýrlingar eru ekki til nema í ævintýrum og ég trúi ekki á einræðisherra. Þegar metnir eru fræðimenn, þjóðarleiðtogar, stjórnmálamenn eða aðrir þarf að líta yfirvegað á málin. Það sem menn kunna að hafa lagt gott til málanna má ekki týnast í moldviðri áróðurs, samhengisleysis, ranghugmynda, rökvillna eða fordóma. Það gerir engum gagn. Tilbið ég þá Stalín eða tilbið ég hann ekki? Ég tilbið hann ekki. Hvað sem gjörðum hans leið, þá liggur samt ýmislegt eftir hann sem ástæðulaust er að henda beint á haugana þótt hann sé höfundurinn.



Voru Marx eða Lenín óskeikulir?



Nei. Enginn maður er óskeikull. Marx setti fram fræðikenningu sem er ákaflega merkileg og gagnleg. Það gerir hann vitanlega ekki óskeikulan og eins og gildir um aðrar fræðikenningar er sjálfsagt og nauðsynlegt að gagnrýna og vinsa úr það sem er rangt. Lenín lagði mikið til málanna um sömu fræðikenningu, bætti hana og jók við hana. Það verður ekki af honum tekið, hvað sem mönnum kann að finnast um rússnesku byltinguna eða einstaka þætti hennar. Lenín var ekki óskeikull heldur.



Hvað finnst mér um þjóðnýtingu?



Út af fyrir sig held ég að hún sé góð og blessuð í ýmsum tilfellum. Eins og um byltinguna, þá sé ég fyrir mér að þjóðnýtingu sé best að framkvæma lýðræðislega og friðsamlega. Ég held að það sé ekki bara hægt, heldur sé það langbesta leiðin og kannski sú eina sem væri vænlegt að framkvæma. Sé ég fyrir mér þjóðnýtingu sem væri bara ríkisvæðing í dulargerfi? Nei, ég vísa til þess sem ég sagði fyrr í þessum texta: „Það þarf að minnka umsvif ríkisvalds og auðvalds. Þau umsvif þurfa að færast í hendur fólksins sjálfs, milliliðalaust, hvernig svo sem það er útfært.“



Ímynda ég mér virkilega að það sé hægt að þröngva fullkomnu kerfi upp á ófullkomið fólk?



Fólk er ekki fullkomið en það tekur sönsum. Ég játa að ég veit ekki hvað „fullkomið kerfi“ er í mannlegu samfélagi. Hitt veit ég, að núverandi kerfi er meingallað og suma af stærstu göllunum þarf að lagfæra. Efstur á þeim lista er kapítalisminn. Stundum er sagt að mikilvægara sé að þekkja það sem er rangt en það sem er rétt.

Gallar við samfélagið gera erfiðara að lifa í því og hafa slæm áhrif á fólk. Mörgum virðist fólk vera alvarlega gallað sjálft, en ég held að það sé bölsýni. Ég held að fólk sé vanmetið. Ef fólk væri jafn gallað og heimskt og margir fullyrða, þá væri samfélagið mun verr statt en það er. Ég held að það sé engin ástæða til annars en bjartsýni.

Þannig að, í stuttu máli, þá ímynda ég mér ekki að fullkomnu kerfi verði þröngvað upp á ófullkomið fólk. Hins vegar held ég að róttækum endurbótum á meingölluðu kerfinu verði tekið fagnandi af flestum, þegar gott plan hefur verið sett fram, og að þegar nokkrir alvarlegir annmarkar á kerfinu hafa verið lagfærðir, þá verði frekar hlúð að hinu „góða“ í manninum, til almennra hagsbóta fyrir samfélag og einstaklinga.



Ég vil að fólki sé búinn góður jarðvegur til að það geti blómstrað óáreitt.







*****

Wednesday, November 24, 2004

Þráinn Bertelsson misstígur sig illa aftan á Fréttablaðinu í dag. Hvað á þessi vitleysa að þýða? Ég tek undir með Matta Á. um þennan pistil.

Tuesday, November 23, 2004

Lýðræði: Að geta og gera



Þrennt: Að geta eitthvað ekki, að geta það og gera það ekki, og að geta það og gera það. Sá sem er læs en les ekki er í sjálfu sér ekki betur settur en sá sem er ekki læs. Hann hefur val, má segja, en með því að notfæra sér ekki kunnáttuna fer hann á mis við hana. Auðvitað má hann það alveg, en hvaða tilgang hefur kunnátta sem er aldrei notuð?

Svipað gildir um lýðræði. Við kvörtum og kvörtum en alltaf teljum við okkur hafa val. Við getum breytt einhverju. Hvers vegna gerum við það ekki? Hversu erfitt eða auðvelt væri það og hvers vegna eru ekki fleiri að reyna það?

Ef við getum breytt einhverju en gerum það ekki, eigum við þá eitthvað tilkall til lýðræðis? Höfum við einhvern rétt til að kvarta yfir vandamálum ef við kærum okkur kollótt um lausnirnar? Ef við búum við lýðræði felst í því að við, lýðurinn, getum komið fram breytingum innan rammans sem okkur er settur. Við gerum það ekki. Er það vegna þess að við getum það ekki, eða vantar okkur bara framtak? Eða erum við ekki nógu örvæntingarfull til að nenna því?

Frelsi og hæfileikum fylgir ábyrgð. Því frjálsari sem við erum, þess ábyrgari erum við gjörða okkar, og því meiri hæfileika sem við höfum, þess meiri ábyrgð berum við að við notum þá skynsamlega.

Íslendingar búa við ríkisstjórn sem ber ábyrgð á alvarlegum stríðsglæpum. Það er ekki bara Fallujah, heldur Íraqsstríðið sem slíkt, Afghanistanstríðið, loftárásirnar á Júgóslavíu, viðskiptabannið á Íraq og stríðið í Kosovo, svo eitthvað sé nefnt. Hvers vegna hefur þessari ríkisstjórn ekki fyrir löngu verið komið frá völdum? Ærið hefur hún unnið til þess.



Það er athyglisvert að velta því fyrir sér, hvernig valdastéttin hagar valdatæki sínu, ríkisstjórninni. Meðan við, fólkið, látum stjórnmálamennina hafa ábyrgð og vit fyrir okkur, í staðinn fyrir að gera það sjálf, er allt í lagi og hægt að hafa frjálslegt stjórnarfar að nafninu til. En hvað ef við færum að láta okkur varða landsins gagn og nauðsynjar? Hvað ef við færum að skipta okkur af hinum háu herrum, meintum þjónum okkar? Ég hugsa að það yrði reynt að draga saman segl lýðræðisins þegar færi að blása í þau. Það er auðvitað engin ástæða til þess meðan það er logn í veðurfari íslenskra stjórnmála. Meðan við skiptum okkur ekki af því sem kemur okkur við.

Ef lýðræðið væri skyndilega afnumið af einhverjum ástæðum á Íslandi, væri það þá missir? Já, auðvitað væri það það. Það væri hins vegar ekki jafn mikil breyting á daglegum högum flestra og menn gætu látið sér detta í hug. Nokkur þúsund mundu mótmæla, en ætli mótmælin mundu svo ekki bara fjara út? Sumir spyrja sig hvort maður hafi rétt á einhverju sem maður notar aldrei eða notar á óábyrgan hátt. Ef við nýtum ekki lýðræðið eða nýtum það ekki til góðs ... höfum við þá ennþá rétt á því?

Já, reyndar höfum við það. En sá réttur kemur ekki af sjálfu sér. Til að verðskulda hann verðum við að gæta hans sjálf og við verðum að nota hann skynsamlega. Þegar og ef við förum að nota réttinn skynsamlega, þá er víst að okkur verði settur stóllinn fyrir dyrnar af hagsmunaaðilunum sem núna „annast“ þennan rétt „fyrir okkur“: Þá kemur til okkar kasta að gæta réttarins og vera hans verðug.



Við þurfum að bretta upp ermarnar. Við getum ekki látið bjóða okkur það, að hendur okkar séu blóðgaðar, að við lendum á sakaskrá. Höfum við gert eitthvað til að eiga það skilið? Nei. En við höfum ekki gert neitt til að hindra það.

Thursday, November 18, 2004

Ég fór í gærkvöldi á The Fall í Austurbæ. Við bróðir minn eru ekki stundvísustu menn í heimi og strætókerfið var auk þess í einhverju rugli, þannig að við misstum af Vonbrigðum en sáum þó síðustu lögin með Dr. Gunna. Síðan stigu The Fall á stokk.

Ég get ekki sagt að ég hafi verið hrifinn. Ekki það, að ég vissi ekkert við hverju ég ætti að búast, en úff! Fyrir utan að hljóðið var ömurlegt, þá fannst mér lítið til hljómsveitarinnar sjálfrar koma. Ég færi reyndar aftur á þá á grand rokk í kvöld ef ég kæmist, en kemst því miður ekki. Ætli það séu ekki mín reikningsskil við þessa hljómsveit? Ég býst við að ég eftirláti öðrum að kunna að meta hana.



En kvöldið reddaðist þó. Eftir tónleikana í Austurbæ kom ég við á Næsta bar þar sem var Torbjörn Egner-kvöld. Þar var semsé verið að flytja búta úr Ræningjunum í Kardimommubæ (og smá úr Dýrunum í Hálsaskógi) fyrir fullorðna. Alveg frábært. Egill Ólafsson tók sig vel út sem bæjarfógetinn Bastían. Þessi uppákoma reddaði kvöldinu alveg.
Það er af nægum vandamálum að tala í stjórnmálum fyrir þá sem hafa áhuga á slíku. Eitt sem er mér ofarlega í huga um þessar mundir er niðingsskapur Bandaríkjamanna í Fallujah. Lesið þessa grein þar sem ástandið er krufið og fyrirslætti og lygaþvælu heimsvaldasinna splundrað. Í Fallujah erum við að fremja glæp gegn mannkyninu. Við erum ábyrg fyrir íslenskum stjórnvöldum og íslensk stjórnvöld gangast í ábyrgð fyrir glæpum gegn mannkyni í Fallujah. Það er undir okkur komið að gera eitthvað í málunum. Fyrsta skref: Mótmæli og krafa um að atlögunni verði hætt og stuðningur við stríðið dreginn til baka. Ef það tekst ekki verður að koma þessari ríkisstjórn frá völdum. Við getum ekki látið hana blóða hendur okkar og setið hjá með hendur í skauti. Þá erum við samsek með aðgerðaleysinu.

Innan skamms verður fundur um þetta mál og mögulegar aðgerðir. Þeim sem hafa áhuga á þátttöku er hér með boðið að vera með. Hafið samband: vangaveltur@yahoo.com til að fá nánari upplýsingar.

Wednesday, November 17, 2004

MÍR, Fallujah, kennarar



Sýningin í gær í MÍR-salnum heppnaðist alveg ljómandi vel. Eins og vant er dregur maður lærdóm af henni. Starf er gagnlegt, starfsins vegna. Lærdómur og reynsla nýtast manni vel þótt síðar sé.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Það virðist sem eitthvað standi til. Það er eins og æ fleira fólki sé að ofbjóða. Það er eins og fréttirnar af óhemjulegum glæpum heimsvaldasinna í Fallujah séu að ganga fram af fólki. Þráinn Bertelsson skrifaði síðan greinarstúfinn „Ég ákæri“ á baksíðu Fréttablaðs um daginn. Það er eins og fleiri séu að verða varir við óhugnaðinn sem viðgengst í okkar nafni. Á okkar ábyrgð.



Hver er annars okkar ábyrgð? Við berum ábyrgð á ríkisstjórn Íslands. Hvort sem okkur líkar betur eða verr. Seta hennar á valdastóli er undir okkur komin og meðan hún situr erum við ábyrg fyrir henni. Okkar ábyrgð er að gera það sem við getum til að blóðbaðinu í Fallujah linni. Hvað getum við gert? Það nærtækasta er að fá ríkisstjórnina ofan af stuðningi sínum við blóðbaðið. Við getum m.ö.o. hætt að styðja það. Það væri góð byrjun. Skref 2 væri þá að reyna að fá ríkisstjórnina til að fordæma blóðbaðið og skora á Bandaríkjamenn að draga her sinn út úr Fallujah hið snarasta -- og reyndar út úr Íraq, ef út í það er farið.

Er óraunhæft að tala um svona? Mun ríkisstjórnin hlusta? Munu værukærir Íslendingar einu sinni nenna að standa upp af rassgatinu til að bjarga mannslífum? Ég veit það ekki, en ég vona það. Í öllu falli ber okkur skylda til að láta á það reyna. Ef þetta virkar ekki er næsta skref nefnilega erfiðara.

Ef sýnt er að allur þorri Íslendinga sé alfarið á móti stuðningi Íslands við Íraqsstríðið, en ríkisstjórnin vill ekkert með þá andúð gera, þá hefur hún fyrirgert rétti sínum til að sitja á friðarstóli. Í lýðræði er ríkisstjórn þjónn fólksins og ef þjónninn þjónar húsbóndanum ekki, þá er hann rekinn. Það á alveg eins við um ríkisstjórnina og aðra þjóna. Halldór Ásgrímsson er þjónn. Hann á að vera auðmjúkur við yfirboðara sína, íslensku þjóðina.

Annars rekum við hann.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Ég, Vésteinn Valgarðsson, íslenskur og reykvískur borgari, lýsi hér með yfir vilja mínum til að borga hærra útsvar eða skatta.

Ég tel að eina leiðin til að leysa deilu kennara og sveitarfélaga sé að sveitarfélögin komi til móts við réttmætar kröfur kennara og greiði þeim hærri laun, sem þeir eiga fyllilega skilið.

Ég geri mér grein fyrir kostnaðinum sem af því hlýst og lýsi mig því samþykkan því að skattar séu hækkaðir sem því nemur. Ég lýsi stuðningi við baráttu kennara, um leið og ég harma það óyndisúrræði sem þeir hafa verið hraktir til að grípa til, sem er það langa og stranga verkfall sem hefur verið undanfarið. Um leið lýsi ég andúð minni á lögum ríkisstjórnarinnar um verkfallið og stuðningi við þá kennara sem grípa til skæruverkfalla eða annarra óformlegra leiða til að leggja niður vinnu.



Vésteinn Valgarðsson

Tuesday, November 16, 2004

RÚV.is fer ekki mikinn í lýsingum á ástandinu í Fallujah. WSWS virðast koma ástandinum betur til skila í góðri grein. Það setur að mér óhug, að þessi glæpur gegn mannkyninu, sem árásin á Fallujah er, skuli vera látinn viðgangast. Með vitund og vilja íslenskra ráðamanna. Halldór og Davíð, blóð þessa fólks er á ykkar höndum.





~*~*~*~*~*~*~*~

Af byltingunni í Nepal er það að frétta að átök eru hafin aftur eftir 9 daga vopnahlé um daginn. Prachanda formaður CPN(M) segir maóista reiðubúna til friðarviðræðna þá og því aðeins að trausts verður þriðji aðili miðli málum milli þeirra og gamla konungveldisins. Aðili á borð við Sameinuðu þjóðirnar, til dæmis. Maóistar munu vera fúsir að hætta vopnuðum átökum ef fulltrúaþing landsins verður að alvöru þingi í stað strengjabrúðusamkundu fyrir krúnuna. Það þykir mér réttmæt krafa, held ég.

Monday, November 15, 2004

Ég var að koma af ansi vel heppnuðum fundi Félagsins Íslands-Palestínu í Borgarleikhúsinu. Hann gekk vel og var almenn ánægja með hann að flestu leyti. Eins og seint verður endurtekið, þá er starf lærdómsríkt og af þessum fundi lærði maður ýmislegt, jákvætt og neikvætt. Félagsstarf er gott.

Á morgun, þriðjudag, er kvikmyndasýning um kvöldið. Sýnd verður myndin Gaza Strip eftir James Langley, sem fjallar um lífið á Gazaströndinni. Hún er frá 2002, 74 mínútur að lengd og aðgangur verður ókeypis. Sýningin hefst klukkan 20:15 og eftir hana verða umræður um hana og um málefni Palestínu. Fólk er hér með hvatt til að mæta.



~*~*~*~*~*~*~*~



Stundum hef ég tekið eftir einkennilegu orðalagi hjá fréttamönnum, orðalagi sem virðist koma ósjálfrátt. Það minnir mig á skilyrt viðbragð, eins og hund Pavlovs, sem tókst að láta slefa þegar hann heyrði bjöllu hringt. Málið er, að fréttamenn verða skilyrtir og heilaþvegnir rétt eins og við hin, og ef eitthvað er, þá ekki minna. Sömu frasarnir eru endurteknir æ ofan í æ til að hamra því inn í hausinn á okkur sem okkur á að finnast.

Oftast þegar stórfelld ofbeldisverk eru framin úti í heimi, af einhverjum herskáum hópum, þá er sagt að þar hafi verið að verki hópur "sem talinn er tengjast al-Qaeda" -- og það er yfirleitt innistæðulaust bull.

Einu sinni, þegar Íraqsstríðið var frekar nýlega hafið, þá var ég á næturvakt á Kleppi og um morguninn heyrði ég í Íslandi í bítið talað um "al-Qaeda, hryðjuverkasamtök Saddams Husseins" -- mismæli, sem fréttaþulan leiðrétti ekki og hefur augljóslega ekki einu sinni orðið vör við. Sýnir þetta eitthvað? Tja, mér er nærri að álykta að fólk hafi verið heilaþvegið til að trúa því ómeðvitað, að al-Qaeda og Saddam Hussein tengdust á einhvern hátt. Sem er innistæðulaust bull.

Það þriðja sem mér er í huga heyrði ég nýlega. Eða, réttara sagt, las. Talað var um "the radical Shi'ite cleric Ayatollah Sistani". Gallinn er að ayatollah Sistani er einmitt ekki radical heldur moderate. Það er búið að spyrða orðinu "radical" framan við "Shi'ite cleric" eftir að Moqtada al-Sadr gerði sína uppreisn nýverið! Innistæðulaust bull!
Mér verður illt af að sjá fréttirnar frá Fallujah, þvílíkur viðbjóður. Bandaríkjsher segir 1200 andspyrnumenn fallna -- það eru 1200 píslarvottar fyrir frjálst Íraq -- en ef maður drepur óbreyttan borgara, segir maður þá ekki að það hafi verið hættulegur og þrælvopnaður andspyrnumaður og maður hafi drepið hann í sjálfsvörn? Hvað ætli margir óvopnaðir, óbreyttir borgarar hafi verið í hópi hinna 1200? Hvað varðar þá tölu að 38 Bandaríkjamenn hafi fallið -- þá efast ég um að hún sé svo lág. Þegar Bandaríkjaher gefur upp fjölda fallinna hermanna eru yfirleitt aðeins taldir þeir sem sem láta lífið á vígvellinum. Þeir sem látast af sárum sínum í sjúkraskýli flokkast undir "særða" -- og annar hópur telst ekki með, sem eru hermenn sem ekki hafa bandarískan ríkisborgararétt, en þeir eru allmargir. Hvað ætli hin raunverulega tala sé há? 50? 75? Maður veit ekki.

~~~~~~~~~~~~



Gleymið ekki fundinum í kvöld:

Þjóð í þrengingum

- samstöðufundur með Palestínu í Borgarleikhúsinu mánudagskvöldið 15. nóvember kl. 20:00



Vegna fráfalls Yassers Arafat, forseta Palestínu, gengst Félagið

Ísland-Palestína fyrir samkomu í Borgarleikhúsinu mánudagskvöld 15.

nóvember. Þann dag eru 16 ár liðin frá því Arafat var kjörinn forseti af þjóðþingi Palestínu um leið og lýst var yfir sjálfstæði Palestínu. Samstöðufundurinn ber heitið Þjóð í þrenginum og hefst kl. 20:00 með ávarpi Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra.



Ávarp:

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra



Stuttar ræður:

Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsætisráðherra

Jóhanna Kristjónsdóttir blaðamaður

Ögmundur Jónasson, formaður BSRB

Sr. Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur

Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Félagsins Ísland-Palestína



Fundarstjóri:

Katrín Fjeldsted læknir



Ljóð og tónlist:

Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú)

Steinunn Birna Ragnarsdóttir

Vilborg Dagbjartsdóttir

KK

Ellen Kristjánsdóttir



Að fundinum stendur Félagið Ísland-Palestína í samvinnu við samtök

launafólks o.fl.



Fjölmennum og reynum að kynna þennan samstöðufund sem víðast!

Thursday, November 11, 2004



Sjáið minningargreinar eftir Arafat á MIFTAH.org

og grein Uri Avnery á Gush Shalom.org.






Minngarbók um Yasser Arafat forseta Palestínu,

sem lést í dag 11. nóvember, mun liggja frammi í

Ráðhúsi Reykjavíkur frá og með morgundeginum 12. nóvember.










~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~

Í öðrum fréttum: Mordechai Vanunu handtekinn aftur og sakaður um að hafa ljóstrað upp um hernaðarleyndarmál. Vanunu var látinn laus í vor eftir fáheyrða meðferð: 18 ára fangelsi, þar af 12 í einangrun, fyrir þá sök að ljóstra upp um kjarnorkuáætlun Ísraela á 9. áratugnum. Vanunu er píslarvottur fyrir baráttuna gegn kjarnorkuvígbúnaði. Hann var í raun „grafinn lifandi“ og síðan látinn „laus“ með þvílíkum og öðrum eins skilyrðum að menn göptu. Mátti ekki fara úr landi (Ísrael), koma nálægt landamærum eða flugvöllum, höfnum eða erlendum sendiráðum. Ekki tala við erlenda fréttamenn eða útlendinga, ekki tala um störf sín í Dimona-kjarnorkuverinu, ekki umgangast fósturforeldra sína (bandarísk hjón), ekki hafa síma nema hleraðan, ekki farsíma, internet eða email. Til að byrja með. Ekki mátti hann fara út úr bænum án þess að láta lögreglu vita með 24 klst. fyrirvara.

Ákveðinn í að láta ekki kúga sig hefur Vanunu veitt nokkur viðtöl síðan, við erlenda fjölmiðla, t.a.m. BBC. Þá er hann sakaður um að hafa ljóstrað upp leyndarmálum sem hann komst á snoðir um í vinnu sinni fyrir 20 árum(!).
Arafat er þá fallinn. Mér er harmur í huga, að palestínska þjóðin hafi misst leiðtoga sinn, manninn sem kom frelsisbaráttu Palestínumanna og þeim sjálfum á kortið. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvað gerist í Palestínu næstu mánuði og misseri.

~*~*~*~*~*~*~*~*~



Í Perú er byrjað að rétta yfir Abimael Guzman, 'Presidente Gonzalo', heimspekiprófessornum sem stofnaði skæruliðahreyfinguna Skínandi stíg. Hann var tekinn fastur 1992 og nú fyrst er réttað. Þegar hann kom fyrir rétt er sagt að "hann hafi sýnt engin merki eftirsjár".

~*~*~*~*~*~*~*~*~



Í Nepal er vopnahléinu lokið og átök hafin á ný. Samtök sem annast fórnarlömb pyndinga "said most victims were poor and often wrongly accused by the authorities of being Maoists" (*).

Fallujah, Arafat, Chernobyl o.fl.



Í Fallujah hamast heimsvaldasinnar að írösqu andspyrnunni. Það er með megnustu gremju sem ég les fréttir þaðan. Það er sagt að þarna séu á ferðinni "Sveitir bandaríkjamanna og íraska þjóðvarðliðsins"* -- en réttara væri að segja að þarna eru á ferðinni ólöglegt og ruddalegt bandarískt innrásarlið, og með í för málaliðar leppstjórnar quislingsins Allawis.



~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~

Ég vil benda á þessa afbragðsgóðu grein Sveins Rúnars Haukssonar á heimasíðu Félagsins Íslands-Palestínu: Arafat - sigur um síðir.

Ég vil í leiðinni benda fólki á að taka frá mánudagskvöldið 15. nóvember -- þá verður dagskrá Félagsins Íslands-Palestínu, sem nánar verður auglýst innan skamms.



~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~

Chernobyl er hér með komið á topp-5 lista yfir áfangastaði sem ég stefni á að heimsækja. Sjá nánar hér.



~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~

Um sellur og sellufyrirkomulag



Sellur eru grunneining í róttækri hreyfingu. Hvað er sella? Sella er hópur fólks sem gjarnan á sameiginlegan vinnustað og hittist reglulega og ræður ráðum sínum. Hver einstaklingur í sellunni á, sem slíkur, aðild að henni, og sellan á aðild að hreyfingunni sjálfri (á landsvísu). Í hverju kjördæmi er flokksdeild, sem er vettvangur þar sem allar sellur í viðkomandi kjördæmi koma saman og vinna að sameiginlegum verkefnum. Þegar hreyfingin hefur náð ákveðinni stærð er einfaldast að hver sella sendi fulltrúa á flokksdeildarþing eða ráðstefnu. Fulltrúinn talar þá fyrir selluna og svarar til hennar. Skipulag, ákvarðanataka o.þ.h. – hvort sem er innan sellu, innan flokksdeildar eða innan hreyfingarinnar í heild – fer eftir því sem félagarnir vilja sjálfir og koma sér saman um. Æskilegt er að lýðræði sé sem mest og sem beinast. Það er einn stærsti kosturinn við sellufyrirkomulag, að beint lýðræði er einfalt í sniðum og í sjálfu sér ekkert sem kemur í veg fyrir það. Annar stór kostur er að eðli málsins samkvæmt tekur mjög hátt hlutfall félaga virkan þátt í starfi hreyfingarinnar, vitanlega eins mikinn og hver kærir sig um, en það er mikið um að vera og nóg að gera fyrir áhugasama.

Tuesday, November 9, 2004

Gúttóslagurinn



Í dag er níundi nóvember, einn merkilegasti dagur í sögu íslenskrar stéttabaráttu. Dagur gúttóslagsins. Það var 9. nóvember 1932, að það sauð upp úr milli verkalýðs Reykjavíkur og vandsveina yfirvalda. Þetta átti sér aðdraganda: Kreppan var í algleymingi og það stóð til að lækka kaupgjaldið í atvinnubótavinnu borgarinnar. Verkamenn, sem margir hverjir löptu dauðann úr skel og áttu allt sitt undir atvinnubótavinnunni, máttu ekki við að missa spón úr aski sínum, og gerðu aðsúg að borgarráði, sem þá fundaði í húsinu Þórshamri.



Lögregla og kylfusveinar hvítliða (les: ungir Sjálfstæðismenn) voru til varnar, en eftir stuttar ryskingar voru kylfurnar snúnar úr höndum þeim, vandsveinarnir hraktir á óskipulegan flótta og nokkrir lúbarðir. Héðinn Valdimarsson var í borgarráði og stóð fyrir innan glugga. Braut þar sundur stóla og rétti stólfætur út til verkamannanna til að nota sem kylfur. Þegar vandsveinaliðið var brotið á bak aftur stormuðu verkamennirnir Þórshamar og neyddu borgarráð til að afturkalla ákvörðunina um að lækka kaupgjaldið.



Hvað svo? Að lögreglunni gersigraðri átti nú íslensk alþýða skyndilega alls kostar við ríkisvaldið. Kúgunartæki þess voru sigruð. Hvað tók við?



Kommúnistaflokkur Íslands hafði verið í fararbroddi í Gúttóslagnum; Einar Olgeirsson m.a.s. hafið slaginn á herhvöt þar sem hann hvatti menn sína til dáða. Nú stóð K.F.Í. með pálmann í höndunum. Þarna var tækifærið til að láta byltinguna rætast á Íslandi. En allt kom fyrir ekki. Rauðliðar réðu götunum í nokkra klukkutíma og á meðan ráðvilltur kommúnistaflokkurinn vissi ekki sitt rjúkandi ráð söfnuðu hvítliðar liði sínu á nýjan leik og endurskipulögðu og höfðu daginn eftir tekið bæinn aftur. Byltingin var skammvinn sú.



Þegar andófið hafði verið kæft niður voru Einar Olgeirsson og fleiri kærðir og dæmdir. Hins vegar sáu menn að sá dómur mundi hleypa öllu í bál og brand aftur, og frekar en að takast á við annan slag -- þegar K.F.Í. tæki kannski af skarið -- var dómnum ekki framfylgt og loks voru kommúnistunum gefnar upp sakir. Almenningsálit mun auk þess hafa verið með verkamönnunum, þar sem þeir voru, má segja, að berjast í örvæntingu og fyrir lífi sínu og fjölskyldna sinna.



Það má draga lærdóm af Gúttóslagnum. Þar mun koma að aftur slái í brýnu milli vandsveina valdastéttarinnar og íslenskrar alþýðu. Þá má það ekki endurtaka sig, að forystuflokkurinn bregðist skyldu sinni þegar á reynir. Í forystu verður, m.ö.o., að vera flokkur sem er reiðubúinn að axla ábyrgð og leiða alþýðuna. Slíkur flokkur verður vitanlega að vera til, til að byrja með.

Monday, November 8, 2004

Stór atlaga gegn borgurum Fallujah er hafin í Íraq. Svo er greint frá í Ríkisútvarpinu:
hafa Bandaríkjamenn beitt stórkotaliði og gert loftárásir á borgina, en andspyrnumenn eru sagðir veita harða mótspyrnu. Síðdegis sáust bandarískir skriðdrekar halda inn í borgina. Allawi, forsætisráðherra, fyrirskipaði innrás í borgina í morgun og sagði markmiðið að flæma hryðjuverkamenn þaðan burt, en hann og bandaríska herstjórnin í Írak telja, að auk vopnaðra sveita heimamanna hafi erlendir vígamenn undir forystu Jórdanans Abu Musabs al-Zarqawis þar bækistöðvar.
Í Fallujah veita írasqir borgarar hetjulegt vopnað viðnám gegn glæpsamlegu og ruddafengnu hernámi heimsvaldasinna. Þeir eru með öðrum orðum í þjóðfrelsisstríði. Vopnuðum borgurum í sjálfsvörn er slátrað með stórvirkum vinnuvélum og quislingshundurinn Allawi, þessi morðingi og ljóta strengjabrúða sem engu ræður, lætur eins og þeim sé slátrað í nafni Íraqa. Hann hefur stuðning innan við 5% Íraqa. Hans umboð kemur frá Bandaríkjamönnum og engum öðrum. Hann og heimsvaldasinnarnir sem toga í spottana á honum eru hryðjuverkamennirnir sem eru að kafsigla Íraq. Þeir geta, allir með tölu, étið skít og farið til andskotans mín vegna.
Útgöngubann gekk í gildi í Falluja í dag og hefur drengjum og körlum frá 15 ára til fimmtugs verið meinað að koma til borgarinnar eða fara þaðan.
Þarna er ekki tekið fram að karlar á aldrinum 15-55 ára verða "umsvifalaust skotnir" ef þeir sjást utandyra næstu 60 dagana.
Markmiðið með aðgerðunum í Falluja og boðuðum aðgerðum annars staðar í landinu er að ná helstu svæðum úr höndum andspyrnumanna svo hægt verði að kjósa þar í janúar
M.ö.o. svo hægt verði að gefa hernáminu "lögmætt" yfirbragð. Svo hægt verði að setja upp leppstjórn sem hægt verði að láta sem sé lögleg og hafi "umboð þjóðarinnar". Auðvitað verður leppstjórnin ekki lýðræðisleg. Ef það væri lýðræði í Íraq væri fyrsta mál á dagskrá að reka Bandaríkjaher heim til sín, svo og aðra heimsvaldasinna, og síðan yrði olíuauðurinn þjóðnýttur á nýjan leik (stærsti "glæpur" Saddams) og Íraq stýrt með hagsmuni Íraqa efst í huga, en ekki hagsmuni Bandaríkjanna. Þá hefði þessi innrás verið til lítils. Það er ekki hægt að láta þessa innrás fara til spillis með því að afsala völdum í Íraq til Íraqa í alvörunni, eða hvað?
Þeim, sem hafa áhuga á að taka þátt í undirbúningsstarfi að stofnun róttækrar hreyfingar, er hérmeð boðið að hafa samband (vangaveltur@yahoo.com) í dag (mán.) eða fyrripartinn á morgun (þri.) og fá nánari upplýsingar.





Hugleiðing sem ég var að skrifa á Vantrú sem komment og á erindi hingað:

Eitt af því litla sem ég veit um skammtafræði er að rafeind er, tæknilega séð, alls staðar á sínu hvolfi samtímis. Þannig er hún víða á sama tíma, þannig séð. (Leiðréttið mig ef ég náði þessu vitlaust.) Síðan ef rafeind er skotið að fyrirstöðu þar sem eru tvö göt, fer hún þá ekki tæknilega séð í gegn um bæði götin?

Um hvort gat má þá segja að hún bæði fari í gegn um það og ekki ... og ef við skoðum guð í sama ljósi, þá mætti etv. leiða að því rökum að hann væri bæði til og ekki. Eða, réttara sagt, að það væri hugsanlegt að hann væri bæði til og ekki.

En "possibility" er ekki það sama og "probability". Það má örugglega velta umm 3.333 (eða fleiri) þungum spurningum um eðli guðs, um það hvort hann er almáttugur o.s.frv. ef hann er skoðaður skammtafræðilega ...

Kannski að skammtafræðilega séð megi helst segja að hann sé "hvorki til né til"?

Sunday, November 7, 2004

Líðan Arafats er óbreytt, er sagt. Reuters hafa það eftir „ónafngreindum embættismanni“ að lifrin í honum hafi gefið sig. Sumir segja að honum hafi verið byrlað eitur. Nú hefur Arafat oft komið heiminum á óvart með því að vera lífsseigari en búist var við. Hann hefur lifað af ótal morðtilræði og meira að segja flugslys. Mun hann þrauka í þetta skiptið?



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Á Fílabeinsströndinni eru voveiflegir atburðir að gerast. Fyrst drepur stjórnarherinn 9 franska hermenn, síðan rústar franski flugherinn fílabeinsstrenska flughernum -- æstur múgur gerir aðsúg að „friðargæsluliðum“, sem hefna sín með því að drepa 30 óvopnaða menn.

Ég veit of lítið um ástandið á Fílabeinsströndinni til að geta fullyrt nokkuð um það, og ég hef litla ástæðu til að treysta fílabeinsstrenskum embættismönnum betur en frönskum, bandarískum eða íslenskum embættismönnum. En hins vegar þekki ég frönsk og önnur vestræn heimsvaldaríki nægilega vel til þess að taka með fyrirvara því sem þau segja um svona átök.

Eru Frakkar ekki bara með heimsvaldatilburði í fátæku Afríkuríki? Fílabeinsströndin er eitt mesta ræktarland fyrir kakó, kaffi o.fl. í heiminum -- dæmigerð nýlenda þar sem hráefni er ræktað, selt óunnið úr landi og gjaldeyririnn notaður til að kaupa vopn og greiða niður erlendar skuldir sem fara samt vaxandi.

Það er hrein hending ef frönskum stjórnvöldum er treystandi þarna. Þau ekki frekar „honest brokers“ en önnur stjórnvöld.

Í það minnsta eru íbúar Fílabeinsstrandarinnar reiðir út í Frakka. Ég held að það hljóti að eiga sér skýringar.

Thousands of angry pro-Gbagbo supporters poured onto the streets of the main city Abidjan and French troops fired teargas and warning shots from a helicopter to disperse the mobs.*


Minnir mig nú bara á æskulýð suðurafrískra svertingja gegn morðtólum hvítra apartheid-stjórnvalda í Soweto, forðum daga.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Það er varla sá Íslendingur sem ekki vill að forstjórar olíufélaganna verði látnir sæta ábyrgð. Ef maður þekkir mörlanda sína rétt verðru þetta mál samt bara þæft þangað til allir hafa gleymt því og þá taka olíufélögin óðar til við verðsamráð á nýjan leik. Eða hvað, bjarmar af nýrri dögin í íslensku viðskiptasiðferði? Líklegt...



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Ég vil svo benda á nýja grein á Gagnauga um svokallaða „friðargæsluliða“.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Refaveiðar hafnar í Bretlandi. Það er ekkert smá sem aktivistar hafa barist fyrir því að þessum grimmúðlega sið verði hætt. Aristókratar á hestbaki að leika sér að því að murka lífið úr refum á sársaukafullan hátt. Hversu myndrænt verður það?

Saturday, November 6, 2004

Arafat og eftirleikurinn í Palestínu



Arafat virðist loks vera að lúta í lægra haldi.



Hvað gerist þegar þessi svipmikli leiðtogi hverfur á braut eftir margra áratuga forystu? Arafat er og hefur verið andlit Palestínumanna útávið. Hann hefur verið óskoraður leiðtogi meðal þeirra; sannkallað mikilmenni. Útsjónasamur, klókur en auðvitað umdeildur eins og títt er um sterka leiðtoga. Eins og svo margir sterkir leiðtogar hefur Arafat í mörg ár haft alla þræði í hendi sér. Mikilvægi hans fór því ekki milli mála. En tókst honum að gera sjálfan sig ómissandi? Það kemur í ljós núna.



Það er ekki hlaupið að því að fylla í skarðið fyrir skildi þegar maður eins og Arafat fellur frá. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Margir um hituna en fáir sem hafa til að bera vinsældir eða leiðtogahæfileika sem duga. Marwan Barghouti væri líklega sá sem Palestínumönnum væri auðveldast að sameinast um -- en hann situr í dýflissu í Ísrael, vegna meintrar aðildar að vopnaðri andspyrnu gegn ólögmætu hernáminu. Píslarvottur, með öðrum orðum. Hvort hann er sekur veit ég ekki; það er nefnilega nóg að vera pólítískur leiðtogi hjá hersetinni þjóð til að baka sér óvinsældir hernámsliðsins. Það eru pólítískir leiðtogar sem standa í fylkingarbrjósti og leiða fjöldann í þjóðfrelsisbaráttu. Annar er sá sem kæmi til greina sem arftaki, en það er Mustafa Barghouti (já, sama eftirnafn), læknir, sem hefur komið hingað til Íslands og talað á fundum hjá Félaginu Íslandi-Palestínu. Hann hefur getið sér gott orð fyrir djarfmannlega framkomu og fórnfúst hjálparstarf þegar mikið hefur legið við.



En hvað ef valdaskiptin fara ekki friðsamlega fram?



Það er, því miður, vel mögulegt. Fullyrt er að Fatah, flokkur Arafats, sé sterkasti flokkur Palestínumanna og ætti í fullu tré við næststerkasta flokkinn, Hamas, ef til þess kæmi. Til þess hefur ekki komið hingað til vegna þess að allir vita hvað það þýðir: Innbyrðis erjur og bræðravíg eru til þess eins fallin að kljúfa samstöðu Palestínumanna, sem síst má við því, og skara þannig eld að köku zíonista. Slíkt uppgjör yrði í senn of sársaukafullt og of dýru verði keypt til að nokkur vilji leggja út í það. Auk þess er það mál manna að á Gazaströnd séu Hamasmenn með meira fylgi en Fatah -- það gæti þá þýtt ennþá frekari klofning.



Hvernig verður tekið á málum? Verður Hamassamtökunum boðin aðild að Palestínsku heimastjórninni? Þau hafa hingað til ekki átt aðild að henni, en hljóta að eiga tilkall til aðildar sökum vægis síns í palestínskum stjórnmálum. Mundu Ísraelar samþykkja slíkt? Miðað við syndaregistur Hamassamtakanna (eða, réttara sagt, hins vopnaða arms þeirra, al-Qassam herdeildanna), má telja það ólíklegt.



Mun þetta -- þrýstingur frá Hamas úr annarri áttinni en frá Ísraelum úr hinni -- sprengja Palestínsku heimastjórnina? Hver veit, það gætu orðið málalyktirnar.



Kannski að fráfall Arafats verði uppbrotið í þjóðfrelsisbaráttunni, sem margir hafa beðið eftir? Kannski að það verði katalýsatorinn sem knýr Palestínumenn til að hugsa sína þjóðfrelsisbaráttu alveg frá grunni?



Gleymum svo ekki hinum leikmönnunum. Hvað gera Ísraelar og stuðningsmenn þeirra? Hvað gerir Sharon? Hvað sem hann kann að segja, þá mega menn aldrei gleyma því að það eina sem verulegu máli skiptir er hvað hann gerir. Hvernig mun hann nýta sér ástandið? Verða kröfugöngur eða uppþot ekki barin niður með ægilegu valdi? Drekkt í blóði, jafnvel? Mun hann ekki gera allt sem hann getur til að stía Palestínumönnum sundur? Og hvað með heitustu stuðningsmenn hans á Íslandi, kristna bókstafstrúarzíonista? Munu þeir fagna dauða forsetans eða munu þeir biðja fyrir honum?



Ég get víst setið hér uppi á Íslandi og velt vöngum yfir þessu. Úrslitin hljóta samt að ráðast í borgum og flóttamannabúðum Palestínu. Og í hallarsölum í Washington og Vestur-Jerúsalem.

Thursday, November 4, 2004

Einhver hefur komið í nótt og sett fullt af snjó í garðinn minn. Ekki nógu mikið til að ég geti búið til snjókarl, en þó nógu mikið til að ég geti runnið á raskatið og meitt mig alvarlega.







Þessi mynd:





...hefur nú birst nokkrum sinnum í tengslum við veikindi Arafats.

Hún var tekin 11. september 2001 og sýnir þegar Arafat gaf blóð til fórnarlamba árásanna á World Trade Center. Hún tengist, með öðrum orðum, ekki veikindum hans nú. Nema hann hafi gefið svo mikið blóð að hann sé ennþá að jafna sig - sem ég efa stórlega.

Ein fjölmiðill birtir þessa mynd og hinir taka hana hver eftir öðrum, en það gleymist að hún er ótengd þessu máli að öðru leyti en því, að það er sami karlinn á þeim báðum. Þetta þykir mér ekki príma fréttamennska.

Vantar okkur fleiri fanatíkera?



Núna er hægt að horfa á Ómega í Íran. Kerfið þeirra er komið á einhvern ísraelskan gerfihnött og spannar allt frá Grænlandi til Kína. Núna geta sakleysingjar sirka 70 landa látið heilaþvo sig með lýðskrumi og smita sig með andlegri kerfisvillu.

Ef sósíalistar hefðu til að bera helminginn af framtaksseminni sem Ómegamenn hafa, þá væri öðruvísi um að litast í heiminum, held ég. Mín ágiskun er að þriðjungur heimsins væri undir sósíalískri stjórn, þriðjungur væri enn undir stjórn heimsvaldasinna, en í þriðjungi heimsins væri byltingin það vel á veg komin að hún ætti alls kostar við ríkisvaldið. Mín ágiskun. Á hverju byggi ég hana? Engu sérstöku. Hún er út í bláinn.



Allavega, það mega trúarnöttarar eiga, að þá skortir ekki eldmóðinn. Það er stundum eins og vinstri róttæklinga vanti eldmóðinn. Eða bara að þeir séu ekki nógu margir. Það er kannski hinn almenni borgari sem vantar eldmóðinn? Eða eru róttæklingarnir kannski bara ekki nógu margir? Hvernig ætli standi á því?



Ég átti einu sinni framhaldsrökræður við Votta Éhóva úti í Ungverjalandi, eins og lesendur mína til lengri tíma kann að ráma í. Fyrst þegar þær bönkuðu upp á áttum við langar (heillangar) rökræður um allan fjandann. Ég hafði þá legið í Rauða kverinu eftir Maó formann og var með á takteinum ótal dæmi um díalektíska efnishyggju, sem þær féllust á – en samþykktu svo ekki þegar í ljós kom að niðurstaðan var að guð væri óþarfur!



Næst þegar þær komu -- nokkrum dögum seinna -- voru þær með Varðturninn handa mér. Á íslensku. Ég varð dolfallinn. Hvernig í andskotanum gátu þær verið komnar með íslenska Varðturninn strax?? (Ég hafði að vísu lesið þetta tiltekna tölublað áður en ég var ekkert að svekkja þær með því...) Allavega rann upp fyrir mér ljós þarna. Þótt maður sé ósammála trúarnötturum um flest, þá má samt læra af þeim. Sama má segja um aðra sem eru ósammála manni, það má læra af þeim. Vottar Éhóva, til dæmis, eru ótrúlega vel skipulagðir og geta hrist fram úr erminni Varðturninn á íslensku á nó tæm. Það, í sjálfu sér, er til fyrirmyndar. Til eftirbreytni.



Þá vík ég aftur að upphaflega umræðuefninu. Hvernig stendur á því að öfgatrúaðir rugludallar geti komið sínum boðskap til milljóna í gegn um gerfihnött og fjármagnað ófögnuðarerindi sitt með gjafafé misvesælla sauða, meðan heimsvaldasinnuð ríkisstjórn Íslands ólmast eins og naut í flagi en íslenskur almenningur situr lúpulegur hjá og borar í nefið? Hvar er eldmóðurinn? Þurfum við fleiri fanatíkera í okkar hóp, svo við verðum eins og trúarnöttararnir? Getur verið að það sé málið?







Ég hef ekki svarið við því á takteinum. Ég vona að meiri fanatík sé ekki það sem þarf. Ég er samt hræddur um að það sem í rauninni þarf sé ekkert skárra. Það er nefnilega örvæntingin. Íslendingar eru feitir og værukærir. Latir og sjálfsánægðir. Friðþægður verkalýðsaðall, upp til hópa. Innlendu valdastéttinni hefur undanfarna áratugi gengið bærilega vel að láta undirstéttirnar halda sér saman með því að eiga nægar dúsur í handraðanum til að stinga upp í hana. Það var hiti í mönnum, eins og sagt er, þegar skórinn kreppti. Í kreppunni eða eftir stríð eða í verkföllum 6. áratugarins, svo dæmi séu tekin. Þá var ekki nóg til af dúsum, fólk var svangt og það var flogist á. Götubardagar í Reykjavík. Hvað er langt síðan slíkt henti síðast? Tilhugsunin er næstum því hlægileg í dag. Eða fjarlæg. Kannski viljum við að hún sé fjarlæg.



Vinstrisinnaðasti flokkur Íslands höfðar kannski hvað mest til menntamanna í þéttbýli, frekar en til verkalýðsins. Skömm frá því að segja, en ég býst við að maður verði nú samt að segja það. Hvers vegna er hann ekki verkalýðsflokkur? Það er allt í lagi að kalla flokkinn sinn feminískan umhverfisverndarflokk, en þótt þau mál fengju meira brautargengi væri björninn samt langt frá því að vera unninn. Borgaralegir vinstriflokkar eru ógjarnan áfram um að vinna björninn -- það er að segja, afnema auðvaldið.



Ansi er ég hræddur um að viðleitni til að afnema kapítalisma, og eitthvað þannig, hér á Íslandi, eigi eftir að stoða lítið meðan valdhafar hafa enn tök á að fróa skilningarvitum fólks og láta það halda að allt sé í stakasta lagi. Það er það ekki, en meðan fólk lætur ljúga því að sér að það sé það, er þá ekki allt í stakasta lagi fyrir valdhafa?



Nú gæti tundrið verið að styttast, í að næsta alvarlega kreppa skelli á. Þess eru reyndar strax farin að sjá merki. Þegar olíuverð fer stórhækkandi á næstu árum (jafnvel næstu mánuðum eða misserum ... hækkunin hingað til er réttsvo toppurinn á ísjakanum), þá harðnar á dalnum. Þá fer að ískra alvarlega í hjólum atvinnulífsins og hvort tveggja hrynur í senn, laun og framboð á lífsnauðsynjum (það verður minna til af vörum, þær verða dýrari og við með minna fé milli handanna). Þetta eru alvarleg tíðindi (tíðindi?) og óljúf á að heyra. Það verður erfitt að lifa -- og afætur illa séðar.



En þá verður jörðin frjó fyrir byltingu.



Hvernig hún verður háð veit ég ekki. Hitt veit ég, að til þess að hún gangi að óskum verður að vera til hreyfing sem getur axlað forystuhlutverk í henni. Hreyfing sem getur tekið af skarið þegar þess þarf, metið aðstæður, leitt fjöldann.



Nú um þessar mundir er enginn fjöldi til að leiða. Boðorð dagsins hlýtur því að vera að undirbúa þann dag og hafa hreyfinguna tilbúna þegar hennar verður þörf. Hvernig tilbúna? Þannig tilbúna, að hún eigi sér stjórnkerfi og boðleiðir, málgögn, bækistöðvar, mannafla. Sé þekkt í samfélaginu og vitað fyrir hvað hún stendur. Sé rekin á þann hátt sem við viljum að samfélagið verði rekið í framtíðinni = lýðræðislega. Sé vel búin fólki með góða þekkingu á vandamálum og lausnum.



Bylting gerir sig ekki sjálf. Innri aðstæður og ytri aðstæður þurfa að vera passlegar svo hún verði. Hún verður heldur ekki farsæl af sjálfsdáðum, öðru nær. Það er enginn hörgull á auðvaldssinnum, gagnbyltingarmönnum eða mannkynslausnurum sem vilja glaðir taka forystuna. Þess vegna verður vinnandi fólk að eiga sér sinn eigin, sjálfstæða, óháða málsvara. Það getur ekki verið upp á önnur pólítískt öfl komin. Framfarir verða ekki með afturhaldsöfl við stjórnvölinn.



Verkefni dagsins er að leggja undirstöður að hreyfingu sem getur axlað ábyrgð þegar þess þarf. Við vitum ekki hvenær það verður nákvæmlega, en sennilega er þess ekki langt að bíða. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Undirbúningsvinna þarf að hefjast tafarlaust.



Áhugasamir mega hafa samband: vangaveltur@yahoo.com



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Í dag hefði Jóhannes úr Kötlum orðið 105 ára. Hann var gott skáld.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Hér getur að líta bréf sem mér var sent. Margir munu hafa séð þetta bréf, en ég læt það fljóta með. Sniðgöngum olíufélögin eins og við getum, þau eiga það skilið, bannsett.



BARA BENSÍN!



Olíufélögin stálu af okkur peningum í mörg ár. Það liggur skýrt fyrir í niðurstöðum Samkeppnisstofnunar.



Þeir viðurkenna það - en segja að málið sé fyrnt. Þeir vilja ekki borga sektir eða skaðabætur- vegna þess að það er svo langt síðan þeir stálu frá okkur!



Við getum svarað fyrir okkur. Það þýðir ekkert að hafa bensínlausan dag. Það er bara rugl því þá verslum við bara meira á morgun. Við refsum þeim með buddunni og kaupum BARA BENSÍN!



Alveg þangað til þeir hætta að röfla og borga sínar sektir og skammast sín - þá kaupum við BARA BENSÍN!



Ekki sígarettur, ekki pylsur, ekki hreinsiefni, leikföng, nammi, mat, hanska, grill né neitt annað, Við kaupum allt slíkt annars staðar.



Hjá olíufélögunum kaupum við BARA BENSÍN! EKKERT ANNAÐ! Þeir finna fyrir því.



Dreifðu þessu á þína vini - og stattu við það að kaupa BARA BENSÍN!



Næst þegar þú freistast til þess að kaupa eitthvað annað á bensínstöð en BARA BENSÍN þá sannar þú orð markaðsstjóra OLÍS sem sagði í samráðinu "Fólk er fífl".



Vilt þú láta hafa þig af fífli? Ef ekki þá kaupir þú BARA BENSÍN!



Almenningur



Félögin sem um ræðir eru: Skeljungur, OLÍS og ESSO

Tuesday, November 2, 2004

Bandaríkjamenn undirbúa stórárás á Fallujah. Ætli hún falli ekki í skuggann á málaferlum vegna kosninganna eða eitthvað?



"Ethnic clash" virðist vera orðið sem á að nota um óeirðirnar í Kína. Ætli það séu í alvöru eþnískar ástæður að baki þessum óeirðum?

IMF, BNA, DPRK



Ef ég þekki Alþjóðagjaldeyrissjóðinn rétt, og miðað við reynsluna af honum, þá eru þessi ráð hreinasta feigðarflan. Þessi glæpahringur hefur feiknaleg áhrif á efnahagsstefnu íslenskra stjórnvalda -- en samskiptin þar á milli eru leyndarmál. Okkur er úthlutað möppu með efnahagsstefnu og við kjósendur fáum ekki svo mikið sem að sjá hana. Fæstir vita einu sinni af henni.



Nú hefjast þessar kosningar í Bandaríkjunum. Raunverulegar breytingar sem þær hafa í för með sér verða svo gott sem engar. Ég býst við að Bush vinni með óheiðarlegum hætti, en ég styð Bill Van Auken, frambjóðanda Socialist Equality Party. Hvers vegna styð ég mann sem ég veit að tapar? Forsetaframbjóðandi sósíalista í BNA í byrjun 20. aldar, Eugene V. Debs, sagði, og ég geri hans orð að mínum: I would rather vote for something I want and not get it than vote for something I don't want and get it.



Áhugasömum vil ég svo benda á áhaflega áhugaverða síðu, sem ég held að sé nýlega til komin. Það er Chosun Expo -- en Chosun er betur þekkt sem Norður Kórea. Án þess að ég sé stuðningsmaður Kim Jong-il, þá finnst mér Norður-Kórea afar áhugavert land og á Chosun Expo er vefverslun með vörur þaðan. Mat og drykk, áfengi, heilsuvörur, listmuni, meira að segja hugbúnað (!) -- allt saman Made in Democratic People's Republic of Korea.

Monday, November 1, 2004

Óeirðir í Kína kosta nokkra menn lífið. "...in clashes between minority Muslims and Han Chinese, officials said on Monday." John Chan, sem skrifar á World Socialist Web Site, hefur aðra sögu að segja. Ég átta mig vel á því að þeir sem standa fyrir svona óeirðum eiga sér oft engan sérstakan málsvara eða þannig, en er ekki eitthvað óeðlilegt við að vitna stöðugt í opinbera embættismenn, og helst enga aðra? Eins og í deilum Ísraela og Palestínumanna, ísraelski herinn er iðulega tekinn sem einhverskonar hlutlaus heimild. Hann er það ekki. Opinberir starfsmenn eru ekki hlutlausir. Hvorki kínverskir, ísraelskir né íslenskir.

Reuters og WSWS ber þó saman um að "tension, exacerbated by a widening wealth gap, has on occasion erupted in violence" -- og það er kannski það fréttnæmasta við þetta.







Og á meðan heldur Bandaríkjaher áfram að níðast á íbúum Fallujah.

Átthagar mínir og ég



Ég er hæstánægður með þær breytingar sem hafa orðið undanfarið á ásýnd hverfisins míns, sem eru mörk miðbæjar og vesturbæjar Reykjavíkur. Lesendum mínum til ánægju ætla ég að telja nokkrar upp:

1. Stórfelldar endurbætur á Suðurgötu milli Túngötu og Hringbrautar. Gangstéttin hefur verið breikkuð til muna og hraðahindranir settar upp -- meira að segja þannig úr garði gerðar að þær þjóna einnig sem gangstétt. Þetta var þörf breyting og góð og borgaryfirvöld fá plús í kladdann hjá mér, hinum gangandi vegfaranda, fyrir þetta. Auk þess er akbrautin orðin mjórri (sem nemur breikkun gangstéttarinnar) svo umferðin verður enn hægari og -- takið nú eftir -- strætó mun ekki ganga nema aðra leiðina eftir Suðurgötu þegar hún opnar aftur og nýtt leiðakerfi tekur gildi. Þetta þýðir minni umferð, rólegri umferð, minni hávaði, minni mengun, minni hætta. Í einu orði sagt frábært. Ég hlýt að nefna líka það sem er að þessari framkvæmd: Gangstéttarhellurnar eru óþarflega lausar og dúa sumar þegar á þær er stigið. Nú hef ég ekki mikið vit á hellulagningum, en þetta líst mér illa á.



2. Fegrun lóða í nágrenninu. Það er magnað að sjá hvað margir nágrannar hafa gert garðana sína glæsilega. Hvar sem maður drepur niður fæti sjást nosturslegir garðar, lagðir fallegum hellum og sjáanlegt að það er hugsað um þá. Það er af sem áður var, þegar garðarnir hér í hverfinu voru einkum fíflabreiður og skriðsóley, kerfill og úr sér vaxnar jurtir sem voru fallegar einhvern tímann í fyrndinni. Þessum görðum fer nú fækkandi og í staðinn koma flottir garðar. Það er nú skemmtilegt. Sólvallagötu og Garðastræti vil ég sérstaklega nefna. Kínverjarnir í fyrrum húsi Ólafs Thors hafa komið upp tennisvelli. Fólkið í húsinu "Hólatorgi" við Garðastræti tók duglega til hendinni fyrir nokkrum árum og gerbreytti ljótu porti í snoturt port. Rússarnir eru meira að segja búnir að fegra hjá sér -- þótt auðvitað sé ennþá allt forljótt hjá þeim. Bara ekki eins forljótt og það áður var. Semsagt framför. Geðhjálp er til húsa í nágrenninu líka, og þar er sko garðurinn að verða glæsilegur. Eftir áralanga óhirðu er lóðin loksins að verða samboðin stórglæsilegu húsinu, sem samtökunum var nýlega gefið. Síðan er áreiðanlega tylft íbúðarhúsa til viðbótar - ef ekki tvær tylftir - sem hafa tekið stakka skiptum. Húsin gerð upp, garðarnir teknir ærlega í gegn af fagmönnum ... í stuttu máli sagt, þá er hverfið mitt farið að vera sjálfu sér til prýði.



3. Nýbyggingar. Ég hef áður tjáð mig um hótelið sem verið er að leggja lokahönd á í Aðalstrætinu. Ég ítreka að ég er hæstánægður með það. Það hlýtur náð fyrir vandfýsnum augum mínum. Fyrir utan hvað þetta hótel lítur hundrað sinnum betur út en ruslið sem var þar áður, þá er stóreflis hótel á þessum stað um leið vítamínsprauta fyrir miðbæinn, og ekki er nú vanþörf á því. Sem miðbæingi og Reykvíkingi er mér hlýtt til gamla miðbæjarins og vil sjá veg hans sem mestan. Þetta hótel er lóð á þá vogarskál. Fyrir utan hótelið má nefna stórhýsi sem verið er að reisa á horni Geirsgötu og Ægisgötu. Beint andspænis því, hafnarmegin, hefur svo Kaffi Skeifan gengið í endurnýjun lífdaga sem Hamborgarabúllan -- þar sem fást einhverjir þeir bestu handborgarar sem eg hefi etið. Ekki amalegt að hafa eftirlætisveitingastaðinn sinn örskotslengd frá heimili sínu.

Það stendur til að gamli Slippurinn verði rifinn. Það verður nú missir að honum, en kannski er bara kominn tími á hann. Sem velunnari skipasmíða á Íslandi vona ég innilega að þetta þýði ekki frekari hnignun þessarar iðngreinar samt. Slíkt veit ekki á gott. En það veit hins vegar á gott sem í staðinn á að koma: Íbúðarhúsnæði fyrir fjölda fólks plús húsnæði fyrir listaháskóla og fleiri vinnustaði/stofnanir. Besta leiðin til að styrkja borgarhverfi eins og miðbæinn er að fjölga í honum fólkinu. Þetta hnígur einmitt í þá átt.



4. Kirkjugarðurinn. Þessari perlu Reykjav´kur var gert h´tt undir höfði fyrir nokkrum árum og ráðist í stórfelldar endurbætur sem nú sér loksins fyrir endann á, nokkrum árum síðar. Hellulagðir gangstígar, uppgerð eliði, almennileg og hlý lýsing, bætt aðgengi .... það er með velþóknun sem ég fylgist með þegar þessum garði er gert til góða. Hann á það skilið. Eða, eins og einnig mætti orða það: Nágrenið á það skilið.



Og gleðilegan nóvember.