Sunday, October 31, 2004

Áðan var Snarrót í Garðastræti opnuð með viðhöfn. Ég kom seint á seramóníuna og sat lengi eftir að henni lauk formlega. Kontrabassaleikarinn Dean Farrell spilaði og félagi hans, sem ég veit því miður ekki hvað heitir, flutti ljóð. Fleiri tónlistarmenn komu nú fram, en ég missti af þeim. Farrell og félagi hans voru afar góðir. Ég hafði einu sinni séð þá áður -- það var á síðustu opnun Snarrótar. Það var við hæfi, þegar þeir voru að fara, að Farrell sagði "Just call me next time you open." ....



Á eftir leit ég niður í Suðurgötu þar sem Reykjavíkurdeild Ungra Vinstri-grænna stóð fyrir tónleikum. Höfuðstöðvar VG að Suðurgötu 3 verða framvegis ekki kallaðar annað en "Vinstra-grenið" af mér. Öðrum er að sjálfsögðu frjálst að nota þessa nafngift líka, ég ehf ekki einkaleyfi á henni. A.m.k. ekki ennþá.





Á forsíðu Fréttablaðsins 30. október er mynd af þrem íslenskum málaliðum að koma heim frá Afghanistan. Þessir menn, og félagar þeirra í Málaliði Íslands eiga náttúrulega eftir að fá fálkaorðuna og slá endanlega botninn úr þeirri forneskju. Ég er ekki viss hvað þeim var í huga á myndinni, en klæddir voru þeir bolum og á bringunni stóð: Chicken Street - "Shit Happens". Það er nú gott að einhver skuli hafa húmor fyrir sjálfsmorðsárásum þar sem fólk týnir lífi. Ég er ekki í þeim hópi.





Ég bíð eftir því að kunnugir sýni fram á að þetta nýjasta myndband af (meintum) Ósama bin Laden sé fölsun. Annars vil ég benda fólki á að lesa sjálft hvað hann hefur að segja í myndbandinu og taka sjálft afstöðu til þess.

Saturday, October 30, 2004

Hversu trúverðugt skyldi fólki þykja þetta myndband með meintum hryðjuverkaleiðtoga? Ég vil vísa í umfjöllun Prpoaganda Matrix um þetta myndband. Í stuttu máli, þá tek ég öllu með fyrirvara sem sagt er tengjast al-Qaeda, Osama bin Laden eða öðru slíku. Það eru nokkur orð sem kveikja á rauðum viðvörunarljósum hjá mér. Það er mjög mikið af lygum og áróðri í fréttum og áróðurinn hamrar gjarnan á nokkrum lykilhugtökum sem fólk er heilaþvegið með. T.d. "weapons of mass destruction", "Osama bin Laden's al-Qaeda", svo dæmi séu nefnd.

Maður kemur fram í myndbandi, segist vera Osama bin Laden, segir Bandaríkjamönnum að kjósa ekki Bush því hann standi sig svo vel í stríði gegn hryðjuverkum. Þótt maður samþykki opinberu sögurnar að öðru leyti, þá efast ég um að alvöru bin Laden væri svo heimskur að segja þetta og meina það --- nema auðvitað að það sé satt sem er reyndar líklegast, að bin Laden vilji einmitt að Bush vinni. Aðfarir Bush undanfarin ár hafa óneitanlega spilað mjög upp í hendurnar á íslömsku öfgamönnum.

Maður hlýtur samt að velta fyrir sér, ætli það sé í alvörunni margt fólk sem gleypir við þessu? Ég held, því miður, að það sé það. Á Íslandi? Ekki svo margt. Skoðanir Íslensinga skipta heldur ekki máli. Það sem skiptir máli fyrir bandarísk stjórnvöld er að glepja bandarískan almenning á sitt band. Það er auðvelt að ljúga að fólki, en auðveldast er það þegar fólk tekur sjálft þátt í lyginni og vill láta ljúga að sér.

Þá er spurningin, koma bandarískir hægriöfgamenn með tromp núna rétt fyrir kosningar? Verður hryðjuverkaárás? "Finnst" bin Laden? Var þetta myndband kannski trompið? Ég býst við að það komi í ljós. Ég hugsa að Bush vinni þessar kosningar´. Hann er með nóg forskot til að þurfa ekki nema hóflegt kosningasvindl til að geta unnið heiðarlega. (Hvað voru margar þversagnir í þessu?)

Ef Bush vinnur ekki heiðarlega á þriðjudaginn, þá vinnur hann óheiðarlega. Ég sé ekki fyrir mér að hann sé að fara að afsala sér völdum í janúar.





~~~~~~~~~~~~~~~~~

Það ku staðfest að Arafat sé ekki með hvítblæði. Það er nú gott.

Friday, October 29, 2004

Í dag eru 74 ár frá stofnun Kommúnistaflokks Íslands. Einnig eru liðin 75 ár frá svarta fimmtudegi, upphafi kreppunnar miklu, eins og fram kom í Fréttablaðinu. Talandi um Fréttablaðið, þá er "spurningin" í dag hvort brotthvarf ísraelska hersins frá Gazaströndinni muni flýta fyrir friðarferlinu.



Ha?



Hvaða friðarferli?

Það eru nokkur ár síðan þetta svokallaða friðarferli tók endi. Núna er ekkert ferli, það er bara samfelld atlaga Ísraela að mannréttindum, eignum, lífi og limum Palestínumanna. Það er ekkert friðarferli, þökk sé Sharon.





Annars eru hér nokkrir atburðir sem eru á næstunni í Snarrót (Garðastræti 2) og víðar, fyrir þá sem hafa áhuga:

Laugard. 30. október: Húllumhæ í tilefni formlegrar opnunar Snarrótar. Stendur yfir mestallt síðdegið. Léttar veitingar og rugl. Látið sjá ykkur og takið fleiri með ykkur.

Sama kvöld kl. 20:00 halda Ungir Vinstri-grænir tónleika í Suðurgötu 3. Tvær flugur í einu höggi.

Þriðjud. 2. nóvember: Forsetakosningar í Bandaríkjunum. Líklega kosningavaka í Snarrót. Látið sjá ykkur (ef hún verður) - og takið fleiri með ykkur.

Fimmtud. 4. nóvember: Fundur í Snarrót vegna Buy Nothing Day. BND er 26. nóvember í ár og það stendur til að gera eitthvað. Hvað? Það verður rætt á fundinum. Látið sjá ykkur og takið fleiri með ykkur.

Föstud. 5. nóvember: Fjáröflunarkvöldverður í Snarrót -- borð svigna af krásum gegn symbólskri upphæð sem öll rennur til rekstrar Snarrótar. Göfugur málstaður, gott fólk, göfugur málstaður! Látið sjá ykkur og takið fleiri með ykkur!

Laugard. 6. nóvember: Aðalfundur Samtaka herstöðvaandstæðinga á horni Garðastrætis og Vesturgötu.

Þriðjud. 9. nóvember - þriðjud. 16. nóvember: Alþjóðleg baráttuvika gegn apartheid-múrnum í Palestínu. Tónleikar, fundir o.fl. auglýst síðar.

Thursday, October 28, 2004

Ég er ennþá að klóra mér í höfðinu vegna hans Ed Seitz. Mikið finnst mér þetta merkilegt. Það er sjaldan sem maður hefur "þekkt til" fólks sem síðan fellur í bardaga eða þannig. Seitz þessi, svo einn georgískur málfræðingur sem ég kynntist lítillega, sem síðan féll í bardaga. Þá var ísraelskur hermaður sem skoðaði vegabréfið mitt og ég er nokkuð viss um að hafi fallið í sjálfsmorðsárás skömmu síðar. Ég veit ekki með þá Palestínumenn sem ég kynntist úti; ég veit um afdrif svo fárra þeirra að ég bara hreinlega veit ekki. Einn þekki ég reyndar, sjúkraflutningamann, sem ísraelskir hermenn börðu í klessu ekki löngu eftir ða ég kom heim, en reyndar án þess að drepa hann.









~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Þökk sé Óla Gneista er ég með "Klavier" með Rammstein á heilanum. Ég þoli ekki að vera með lög á heilanum. Þetta er þó skárra en lútersku sálmarnir sem ég er venjulega með.... (Bíðandi eftir strætó, blístrandi "Allt eins og blómstrið eina" og þannig...)
Meðan "friðardúfan" Sharon talar fjálglega um að draga ísraelska herinn út af Gazaströnd, hvað er þá verið að gera þar á meðan? 17 drepnir og 80 særðir (sem vitað er um) í Khan Younis flóttamannabúðnuum. Ég minni á hollráð Uris Avnery, driffjaðrar í Gush Shalom: Hlustið ekki á það sem Sharon segir heldur fylgist með því sem hann gerir.

Talandi um Palestínu, þá er Arafat fárveikur. Það er skiljanlegt að hann hiki við að leita sér læknishjálpar út fyrir Ramallah, þar sem óvíst er að hann eigi afturkvæmt þangað ef hann fer þaðan. Þetta hlýtur að vekja með manni vangaveltur. Arafat er hinn óumdeildi leiðtogi Palestínumanna. Hvað mundi gerast ef hann félli frá? Ég vil varla hugsa þá hugsun til enda, en óneitanlega kemur fljótt upp í hugann innbyrðis borgarastríð meðal Palestínumanna. Það er nú það eina sem vantar. Fyrir alla spillingu Palestínsku heimastjórnarinnar, þá er frekar líklegt að ennþá afturhaldssamari öfl yrðu sigursæl í slíku borgarastríði. Vonandi væri hægt að afstýra því.

Palestínumenn vantar öfluga fjöldafylkingu með skýra marxíska sýn á ástandið. Það vantar Ísraela líka. Reyndar vantar þá þessa fylkingu sameiginlega og hún yrði að vera samsett úr fólki af öllum þjóðernum og trúflokkum á svæðinu.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Lítið á Gagnauga: Áhugaverðar fréttir og ný grein um 11. september.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Í gær lenti ég í nokkru sem ekki hendir mann oft. Ég var að lesa greinina "Guerilla attacks increase as US forces continue air raids against Fallujah" á World Socialist Web Site, þar sem segir: "On Sunday, “Camp Victory”, a major US base near the airport, was mortared. Ed Seitz, an agent with the US Bureau of Diplomatic Security, was killed and an unspecified number of people wounded." "Ed Seitz," hugsaði ég, "Seitz ... hvar hef ég heyrt þetta nafn áður." Allt í einu rann upp fyrir mér: Í febrúar síðastliðnum las ég grein í blaðinu Global Outlook, "Interrogation at the US Border" eftir John nokkurn Clarke. Hann er Kanadamaður og var að fara til Bandaríkjanna til að halda fyrirlestur, en var vísað til baka eftir margra klukkutíma yfirheyrslu (greinin er annars stórmerkileg og ég mæli með að fólk lesi hana). Þar segir [leturbreyting mín]:
After about an hour and a half, a man entered the 'controlled reception' area that I was being kept in and passed by me into the inner offices. He was carrying a big folder and a pile of files. It struck me that he carried them the way a highly skilled worker might carry his or her precision tools. He spent some time in discussion with the local officers and then I was brought into an interrogation room to deal with him. He introduced himself and gave me his card. His name was Edward J. Seitz of the State Department of the United States Diplomatic Security Service and his rank was Special Agent. I found him to be an impressive and fascinating character.


Ég hafði séð þetta nafn áður, þetta er þessi sami Seitz!! Það var mjög einkennileg tilfinning þegar þetta rann upp fyrir mér. (Hin opinbera tilkynning um dauða þessa Seitz er hér.)



(Ég vil svo benda fólki á að lesa aftur tilkynningarnar tvær hér beint að neðan; þetta eru merkisviðburðir sem fólk ætti ekki að láta sig vanta á.)
Ein af betri tilfinningum sem ég þekki er sú, þegar manni tekst að rifja upp vísu sem maður kann/kunni en hefur gleymt. Best er að liggja yfir henni heilan dag og svo allt í einu muna hana. Ein sem ég rifjaði upp með ærnum erfiðismunum er þessi:

Öslaði gnoðin, beljaði boðinn,

bungaði voðin, Kári söng.

Stýrið gelti, aldan elti,

inn sér hellti um borðin löng.


Það varð mér náttúrulega til happs hvað innrímið er mikið.

Mér tókst að rifja eina upp í gær, hún er svona:

Frá Eyrarbakka í Selvog

er það mældur vegur:

Átján hundruð áratog,

áttatíu og fjegur.


...frábær vísa, alveg frábær.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



Ég vil óska Arngrími Vídalín til hamingju með að hafa öðlast hlutdeild í fagnaðarerindinu Reykjavik Times -- og í tilefni dagsins bæti ég við link hjá sjálfum mér á þennan merkilega font sem allir ættu að hafa -- það er að segja, allir áhugamenn um forneskjulega stafsetningu.

Wednesday, October 27, 2004

Hér eru tvær tilkynningar: Skeptíkus, hreyfing ótrúaðra stúdenta, heldur stofnfund sinn annað kvöld og eru trúlausir háskólanemar eindregið hvattir til að mæta og taka þátt í þessu göfuga félagi. Í öðru lagi verður þjónustu- og félagsmiðstöðin Snarrót opnuð með pompi og prakt á laugardaginn, og eru landsmenn allir velkomnir. Hér eru tilkynningarnar:



Skeptíkus

Ertu kominn með nóg af kjaftæðinu? Kominn með upp í háls af biskupnum? Prestunum? Þórhalli og öllum hinum miðlunum? Skottulæknunum? Fullorðnu fólk sem trúir á álfa?

Ef svo er komdu þá á kynningarfund hjá Skeptíkusi, félagi efahyggjumanna og trúleysingja í Háskóla Íslands.

Fundurinn fer fram í stofu 131 í Öskju fimmtudaginn 28. október klukkan 19:30.






Snarrót

Laugardaginn 30. október, kl. 15.00, mun grasrótarmiðstöðin Snarrót spretta upp að Garðastræti 2, 101 Reykjavík. Tilgangur félagsins er að vinna að friði, mannréttindum, umhverfisvernd og félagslegu réttlæti með því að efla fræðslu- og félagsstarf einstaklinga og samtaka sem aðhyllast slíkar hugsjónir. Félagið leggur til aðstöðu til funda, menningaratburða og námskeiða í formi húsnæðis, tækjakosts og bókasafns. Ennfremur stendur félagið sjálft að menningarviðburðum, námskeiðum og kvikmyndasýningum.

Á opnunarhátíðinni munu koma fram: Erpur Eyvindsson, Eyvindur Eíríksson, Dean Farrell, Birgitta Jónsdóttir, Jón frá Pálmholti, Þórdís Björnsdóttir.

Léttar veitingar á boðstólnum

www.snarrot.net
Koizumi getur gert sig breiðan, enda er hans ájætta lítil. Er það ekki það sem kallast heigulsháttur, að etja öðrum fram í lífshættu, en sitja sjálfur heima og tala digurbarkalega? Það er eins og mig minni það. Annars er Koizumi kannski bara að fylgja hinu karlmannlega fordæmi starfsbræðra sinna Halldórs og Davíðs.



Fréttir frá Palestínu: "Ísraelska þingið samþykkti á sögulegum fundi í kvöld áætlun Ariels Sharons forsætisráðherra um brottflutning ísraelsks herliðs frá Gazasvæðinu og að ísraelskar landnemabyggðir þar og á hluta Vesturbakkans verði lagðar niður."

Gleðitíðindi? Því miður er ekki svo. Þótt auðvitað eigi Ísraelar að snáfa út af Gazaströndinni tafarlaust, þá er þetta ekki svo einfalt. Landtökubyggðir verða ekki einfaldlega lagðar niður -- landtökumennirnir gufa ekki upp. Þeir verða fluttir um set yfir í landtökubyggðir á Vesturbakkanum í staðinn, sem aftur þarf að stækka til að búa til pláss fyrir þá. Búseta þeirra verður alveg jafn ólögleg að alþjóðalögum. Ef þessar landtökubyggðir sem um ræðir á annað borð verða lagðar niður (sem kæmi mér á óvart) þá er um að ræða skipulegt undanhald; Ísraelar væru bara að sleppa landi sem borgaði sig ekki fyrir þá að verja, en í staðinn treysta þeir tökin á landræningjabyggðunum á Vesturbakkanum. Hér er komið að kjarna málsins: Svo lengi sem Sharon, Perez eða aðrir zíonistar ráða ríkjum í ógæfuríkinu Ísrael, þá verða ólöglegar landránsbyggðir ekki teknar niður og Palestínuríki ekki gert að veruleika. Það þarf að koma þessum skörfum frá völdum og áhrifum og búa svo um hnútana að þeir verði hættulausir, og til valda þarf að komast framsækið stjórnmálaafl sem gerir sér grein fyrir mikilvægi alþjóðasamstöðu vinnandi fólks og hikar ekki við að leggja til atlögu við afturhaldsöfl á borð við bókstafstrúarþjóðernissinnana. Ég er hins vegar hræddur um að þetta verkefni sé útlendingi eins og mér ofaukið; það hlýtur að þurfa að eiga uppsprettu sína meðal Ísraela sjálfra.

Tuesday, October 26, 2004

Ögn um ábyrgð á fjölmiðlum



Gjarnan birtist efni í fjölmiðlum án þess að tilgreint sé hverjir eru höfundar eða hvaða heimildir er stuðst við. Hver er að tala til okkar? Ef við lesum grein eða frétt í blaði, hver er það þá sem er að tjá sig? Hvaða tengsl búa að baki? Hvaða hagsmuni hefur sá sem setur textann saman? Hvað gengur honum til?

Ef fjölmiðill fer með rangt mál eða birtir texta sem er hlutdrægur, ærumeiðandi, rætinn, eða á annan hátt athugaverður, við hvern er þá að sakast? Segjum að fjölmiðill flytji frétt sem misbýður mér gróflega. Á ég þá að gagnrýna fjölmiðilinn fyrir að hafa sagt eitthvað? Hann segir ekki neitt! Hann er miðill! Hann er sápukassi, megafónn, vettvangur fyrir einhvern til að koma áleiðis sínum skoðunum, sínum túlkunum, sinni afstöðu og svo framvegis. Um leið og málfrelsi verður að vera tryggt, þá verður og að vera tryggt að menn séu ábyrgir orða sinna. Frelsi án ábyrgðar, hvað er það? Ef á annað borð er hægt að tala um slíkt, þá er maður kominn á hálan ís.

Höfundar aðsendra greina skrifa undir nafni og standa þannig við skrif sín. Hvers vegna er það ekki almenn regla á fjölmiðlum? Hvaða heimild hafa menn til að flytja nafn- og ábyrgðarlaust mál?

Hér eftir stefni ég að því að vitna ekki í mállausa, dauða hluti. Að baki orði er manneskja. En ef sá sem segir orðið dylst bak við grímu firrts bákns, þá er sá ábyrgur sem leggur honum til miðilinn. Ef blað flytur nafnlausa frétt hlýtur maður að líta svo á að það sé ritstjórinn sem flytur hana -- og þá skal líka til hans vitnað.



~~~~~~~~~~~~~



Í fréttum: Ef Ísraelar hleypa Arafat frá Ramallah til að leita læknis, hverjar eru þá líkurnar á að hann eigi afturkvæmt þangað? Ansi er ég hræddur um að þær séu ekki miklar. Ætli hann sé ekki annars búinn að fá algjört ógeð á al-Muqata húsaþyrpingunni þar sem hann hefur dvalið undanfarin fjögur ár?

Hvað ætli sé hægt að drepa marga menn með 350-400 tonnum af sprengiefni? Ófáa, býst ég við.

Gott hjá Framsóknarmönnum í Dalasýslu. Flokksforystuelítu á ekki að haldast uppi að beita ólýðræðislegum vinnubrögðum, hvorki innan flokks né utan og best að aðhaldið innan flokks komi frá óbreyttum flokksmönnum.

Er þetta trúverðugt? Ef maður heyrði ekki frá öðrum heimildum en Bandaríkjaher, þá gæti maður haldið að þetta Íraqsstríð líktist meira skurðaðgerð en stríði.

Sharon segir meintan fyrirhugaðan brottflutning landtökumanna frá Gaza munu "styrkja Ísrael". Ef maður lítur á málin í samhengi sést að það er bara verið að tala um að þessir landtökumenn verði færðir um set (og fái ríflegar "skaða"bætur) og verði plantað niður aftur í öðrum landtökubyggðum, bara á Vesturbakkanum. Með öðrum orðum, umræðan snýst um hvort eigi að gera skipulegt undanhald á einum vígstöðvum til þess að geta einbeitt sér 100% að hinum vígstöðvunum. Á þetta að heita framsækið? Hugsa sér að vestrænir ráðamenn (á borð við ónefnda Íslendinga) standa eins og glópar og þykjast ekki skilja neitt í neinu. Svei!

Margit Sandemo segir sér hafa verið nauðgað sem barni en hún hafi orðið nauðgaranum að bana og huslað hann síðan í síki. Var það ekki bara vel af sér vikið hjá henni?



Áhugaverð grein: „Spinning Iraqi Opinion at Taxpayer Expense“ eftir Juan Cole á Anti War. Cole skrifar þarfa grein um írasqa skoðanakönnun og hvernig fréttum af niðurstöðum hennar er hagrætt með orðalagi og áherslum til að það líti betur út fyrir Bush.

Monday, October 25, 2004

Það er góð tilfinning að átta sig á að maður hafi haft rangt fyrir sér og skipta um skoðun í kjölfarið. Þeir sem hafa rangt fyrir sér ættu að gera það oftar; þeir sæju ekki eftir því. Í gærkvöldi skildist mér að ég hafði rangt fyrir mér um atriði nokkurt, sem leiddi til þess að ég er núna að endurskoða ansi margt við mínar skoðanir á hlutunum. Ýmislegt sem ég tel mig skilja betur núna en ég gerði fyrir sólarhring síðan. Það er góð tilfinning.



~~~~~~~~~~~~~~~~~

Gvendur Svansson er hættur að blogga. Sumir eiga nú eftir að sakna hans, þar á meðal ég.
Það er talað um að heilsa Arafats sé ekki góð. Hver er hissa? Karlgreyið hefur verið í stofufangelsi í 4 ár. Hvernig ætli það fari með heilsu venjulegs fólks að koma ekki út úr húsi heldur sitja inni í daun og ryki í 4 ár?? (Verðlaun, 50 krónur, í boði handa þeim sem fyrstur segir hver ber ábyrgð á þessu heilsutjóni.)
Halldór Ásgrímsson talar digurbarkalega um þátttöku Íslands í ógeðfelldu hernámi Afghanistans. Það er búið að stofna íslenska málahersveit og senda hana á átakasvæði, einkennisklædda og vopnaða, og svo eru menn hissa á að það sé ráðist á hana. Halldór segir að "við Íslendingar" höfum tekið þessa ákvörðun og að "við Íslendingar" munum ekki láta slá okkur út af laginu. Ég Íslendingur var aldrei spurður, né heldur yfirgnæfandi meirihluti annarra Íslendinga. Það voru sjálfumglöðu hægrimennirnir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson -- kannski í samráði við einhverja útlendinga, ég veit það ekki -- sem ákváðu það sjálfir. Þeir geta trútt um talað, hvaða ábyrgð bera þeir? Ég veit það ekki, en ekki ætla ég að deila henni með þeim.

Hernám Afghanistans er herfilegt og íslensku málaliðana ætti að draga heim á stundinni. Halldór og Davíð ættu að skammast sín. Ég mundi ekki sýta það heldur þótt þeir segðu af sér í leiðinni. Þeir láta eins og þeir séu óhræddir við að taka áhættu -- en það geta þeir ekki sagt nema vegna þess að þeir eru einmitt ekki að taka neina áhættu! Eru þeir í Kabúl með byssukúlur fljúgandi yfir hausamótunum?

Ég verð nú samt að slá einn varnagla við. Þessir málaliðar í Kabúl (sem eru m.a. að gæta einnar stærstu uppskipunarflughafnar ópíums í veröldinni) fá 1.000.000 kr. á mánuði í laun. Strákum boðið í tindátaleik á bankastjóralaunum. Hver mundi hafna slíku gylliboði? Svo koma þeir heim ... ætli þeir verði ánægðir með 150.000 á mánuði í byggingarvinnu eftir að hafa fengið milljón á mánuði fyrir tindátaleik?

En árásin á þá? Hún er auðvitað fréttnæm, en er í alvöru hægt að býsnast yfir því að ráðist sé á málaliða í herteknu landi? Málaliða sem koma fúsir og frjálsir í þeim tilgangi að beina skotvopnum að heimamönnum? Ég bara spyr.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Flæmskur hægriöfgaflokkur mælist með mest fylgi í Belgíu.* "Flokkurinn vill að Flæmingjaland fái sjálfstæði," segir á vef Morgunblaðsins. Fyrst ástæða er til að taka fram að flokkurinn sé yst á hægri brún stjórnmálanna, ætli hann sé þá ekki að áforma eitthvað ljótara en sjálfstætt Flæmingjaland? Annars stendur mér ekki á sama um þennan aukna byr sem hægriöfgamenn hefa verið að fá í seglin. Þetta er ávísun á vandræði og borgaralegir pólítíkusar vestrænna auðvaldsríkja virðast ekki hafa miklar áhyggjur af þessu, né hafa mikil tök á að snúa dæminu við.

Hvers vegna? Vegna þess að þetta er eðlileg afleiðing kapítalisma. Þegar harðnar á dalnum er fólki stíað sundur svo það taki ekki höndum saman um að halda sínu gagnvart valdastétt og auðvaldi. Því er meðal annars stíað sundur með rasisma. Svarið við nationalisma er internationalismi: Alþjóðleg samstaða vinnandi fólks gegn kúgurum sínum. Þetta svar mun seint koma frá borgaralegum atvinnupólítíkusum Vesturlanda, og því mun þjóðernishyggjan halda áfram að vega þungt, svo lengi sem auðvaldið ræður ríkjum.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~

11 menn drepnir á Gazaströndinni og ekki heyrist múkk í umheiminum.

Sunday, October 24, 2004

Á Pólitík.is er grein Hildar Eddu Einarsdóttur um fjölmenningarsamfélag á Íslandi. Í umræðunni um innflytjendur er ýmislegt sem mér þykir ekki viðfeldið. (Ég tek fram að ég er að tala um umræðuna almennt, frekar en þessa tilteknu grein.) Fyrir það fyrsta: Það eru miklir fordómar í gangi. Ekki bara meðal rasista. Jákvæðir fordómar - mér liggur við að segja jákvæður rasismi - eru líka til. Eins og neikvæðir fordómar einblína á, sannar og lognar, neikvæðar hliðar innflytjenda einblína jákvæðir fordómar á, sannar og lognar, jákvæðar hliðar þeirra. Mikið heyrist frá öðrum herbúðunum en miklu minna úr hinum (ekki það að ég sakni þess....).

Við vitum að það er þónokkur andúð á innflytjendum. Hvers vegna heyrum við þá ekki af henni? Er hún þögguð niður? Þarf að bíða eftir að það verði stofnaður nasistaflokkur, til þess að þessi umræða komi upp á yfirborðið?

Þögn er ekki antitesa við fordóma, fáfræði eða hatur. Antitesan er upplýsing, fræðsla og hlýja. Þessa fræðslu og upplýsingu finnst mér vanta og hlýjan mætti vel vera meiri.



Að þessum formála viðhöfðum sný ég aftur að grein Hildar Eddu. Hún segir: „Í þessarri grein ætla ég að fjalla um jákvæðu hliðar fjölmenningarlegs samfélags en ekki hinar neikvæðu, sem því miður allt of margir einblína á.“ Ég sakna ekki neikvæða umtalsins, en þar sem ég veit af því finnst mér einkennilegt að það heyrist ekki meira. Ég vil frekar ræða málin út núna en að sæta ofsóknum eða standa í götubardögum vegna þeirra seinna.

Er verið að þagga eina tegund af fordómum og hampa annarri tegund af fordómum, meðan gagnrýnin umræða ber skarðan hlut frá borði? Hvernig ætli skoðanir landans mótist?

Nækvæðu hliðarnar eru til, svo mikið er víst. Auðvitað þarf að ræða þær líka. Meðal þeirra sem ættu ekki að verða útundan er hvernig stéttir blandast inn í þetta: Næstum allir innflytjendur eru vinnandi fólk. Þeir keppa á vinnumarkaði við innfætt vinnandi fólk -- sem sumt hvert fær þá andúð á samkeppninni, sem þýðir lægri laun -- en keppa innflytjendur við valdastéttina? Nei, það gera þeir ekki. Ætli rasismi sé stéttbundinn? Það væri fróðlegt að vita.

Rasismi er neikvæð hlið á búferlaflutningum milli landa. Nú er ég ekki viss um hvernig best er að takast á við hann. Röksemdafærsla dugir oft ekki, því rasismi, eins og trúarbrögð, byggist ekki á rökum heldur tilfinningum. Þannig að það þarf kannski að hugsa strategíuna upp á nýtt svo baráttan sé sem áhrifaríkust. Ég veit um eitt sem ekki er mikið talað um en vinnur beint gegn rasisma: Alþjóðleg samstaða vinnandi fólks gegn auðvaldinu: Hin raunverulega átakalína er ekki milli fólk sem er mismunandi á litinn heldur fólk sem hefur mismunandi hagsmuni. Valdastéttin hefur hagsmuni af auðvaldi því þá getur hún arðrænt vinnandi fólk. Vinnandi fólk hefur hagsmuni af afnámi auðvaldsins því þá hættir valdastéttin að geta arðrænt það. Þetta er átakalínan sem höfð var í huga með lokaorðum Kommúnistaávarpsins: Öreigar allra landa, sameinist! ...og þessi orð eiga alveg jafn vel við nú og 1848 - betur ef eitthvað er.

Að lokum geri ég athugasemd við orðið „fjölmenning“. Þessa athugasemd gerði ég á Skoðun um daginn:
Ég verð nú að viðurkenna að orðið „fjölmenningarsamfélag“ lætur illa í eyrum mínum. Ekki vegna þess að ég hafi neitt á móti fólki, heldur vegna þess að hugmyndin um „margar menningar“ í einu samfélagi hljómar eins og hálfgerð þversögn í mínum eyrum. Ég sé fyrir mér samfélag með fjölbreyttu fólki, en einni menningu: menningu lýðræðis, umburðarlyndis, manngildis og mannlegrar reisnar. Ég held reyndar að það sé ósköp svipað þeim skilningi sem þeir sem þú kallar „fjölmenningarsinna“ (en ég mundi frekar kalla umburðarlynda) leggja í orðið „fjölmenning“...


~~~~~~~~~~~~~

Í Ástralíu er verið að rannsaka hvort bóluefni gegn bólusótt, sem bólusett var með á 6. áratugnum, hafi verið krabbameinsvaldandi. Þetta vekur upp ýmsar spurningar. Óvönduð vinnubrögð? Þöggun? Hagsmunir stórfyrirtækja? Lyfjamafían lætur víst ekki að sér hæða.

~~~~~~~~~~~~~

Ólafur Hannibalsson ritar stórgóða grein í Fréttablaðið í dag: „Kosningar án lýðræðis“ nefnist sú. Það er tvennt annað í Fréttablaðinu sem vakti sérstaka eftirtekt mína: Tímabær fréttaskýring Sigríðar D. Auðunsdóttur um handrukkarafárið. Eins alvarlegt og þetta mál er, þá er nú best að láta það ekki breytast í hysteríu. Þjóðsögurnar eru fljótar að spinnast og lifa sjálfstæðu lífi....

Loks er viðtal við Arrin Hawkins, varaforsetaframbjóðanda Socialist Workers Party í Bandaríkjunum. Mér hefði nú þótt áhugavert að komast á fund með henni eða eitthvað -- eða jafnvel bjóða henni niður í Snarrót í spjall um málefni. Það kann að hafa farið fram hjá mér, en ég sá ekki fara mikið fyrir auglýsingum um þessa heimsókn. Reglulegir lesendur þessa bloggs vita hvern ég styð í forsetakosningunum í Bandaríkjunum -- en engu að síður hefði nú verið fróðlegt að spjalla við þessa konu. Gott hjá Kommúnistabandalaginu/Ungum sósíalistum að koma henni í viðtal hjá Fréttablaðinu.

Árni Bergmann skrifar einnig mjög góða grein í helgarblaði DV um hinn meinta „heimskommúnisma“ og samanburð við „hryðjuverk“ nú á dögum. Ansvíti er ég ánægður með þá grein.

~~~~~~~~~~~~~

Derren Brown heitir maður sem setti upp sjónvarpsþátt, þar sem hann sagði fólki að það stæði í sambandi við framliðna í gegn um andaglas. Fólkið gleypti við þessu og eftir þáttinn ljóstraði hann því upp, hvernig hann hefði blekkt það með brellum. BBC fékk meira en 700 kvörtunarbréf vegna þessa uppátækis! Þennan þátt hefði ég viljað sjá! (Sjá frétt.)

Saturday, October 23, 2004

Í Maine í Bandaríkjunum er sósíalistinn Carl Cooley í framboði til þings. Hann er fyrsti sósíalistinn sem býður sig fram til þings í Maine - nokkurntímann. Um daginn var hann með í rökræðum við fulltrúa Demókrata og Repúblíkana í University of Maine og sagt að góður rómur hafi verið gerður að máli hans. Um það má lesa hér. Hann virðist vera ágætasti kostur.

Friday, October 22, 2004

Ætli sé verið að brjóta stjórnarskrárbundin mannréttindi á æskulýð Íslands? Í Netmogganum segir: „Starfsfólk Reykjavíkurborgar gengur svonefndar leitarvaktir í hverfum borgarinnar þessa vikuna til að ná sambandi við unglinga og koma í veg fyrir óæskilega hópamyndun, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.“ Stjórnarskráin segir hins vegar í 74. grein: „Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir.“ Hvernig ætli sé „komið í veg fyrir óæskilega hópamyndun“? Og hver ætli skilgreini hvaða hópamyndun er „óæskileg“ og hvaða hópamyndun er það ekki?

~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Frá Palestínu er m.a. þetta að frétta: Háttsettur Hamas-leiðtogi drepinn. Það er ekki sterkur leikur að drepa pólítíska forystu Palestínumanna, hvorki forystu herskárra né sáttfúsra. Fyrir utan að þetta er gert utan dóms og laga og er í raun morð, þá er annað: Hver á að taka forystu og leiða Palestínumenn til friðar ef einhvern tímann kemur að því? Hver á nógu mikla pólítíska innistæðu til að geta tekið þátt í samningum og verið trúverðugur í augum annarra Palestínumanna, ef það er búið að drepa alla leiðtogana? Þetta mundu margir kalla glapræði og heimskupar hjá Ísraelum. En er það svo? Tja, miðað við stefnu þeirra er það reyndar alls ekki heimskulegt að drepa háttsetta leiðtoga Palestínumanna. Níðingsverk þýða áframhaldandi ófrið, sem er stefna harðlínuzíonistanna sem stýra Ísrael. Eins truflandi og það hljómar er það samt alveg satt, því miður. Sharon, Mofaz, Shalom og þessir gaurar allir, eru ekki að sækjast eftir friði. Þeir vilja ekki frið.

675 manns eru heimilislausir eftir atganginn á Gazaströndinni undanfarið og meira en 130 fallnir - þar af næstum 30 börn. Ég bendi aftur á góða yfirlitsgrein um þessa fólskulegu atlögu að óbreyttum borgurum.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Morgunblaðið hefur uppi órökstuddar fullyrðingar: „Al-Qaeda stóðu að árásunum á Bandaríkin 11. september 2001.“ Þessu halda stjórnvöld fram, já, en þetta er ennþá ósannað. Hins vegar er þetta orðið að viðteknum „sannindum“ vegna þess að a)stjórnvöld segja það og b)stjórnvöld hamra á því. Fréttastofur éta gagnrýnislaust upp eftir stjórnvöldum, efasemdaraddir eru þaggaðar niður. Sannleikanum er ekki leyft að koma í ljós. Ef þessi fullyrðing er sönn, hvers vegna eru þá ekki lögð fram sönnunargögn?

Tuesday, October 19, 2004

Bush undirritar lög sem greiða fyrir mannúðaraðstoð til Norður-Kóreu -- og ég er viss um að það hangir eitthvað á spýtunni. N-Kórea á kjarnorkuvopn. Hvernig sigrar maður óvin sem á kjarnorkuvopn? Innanfrá. Hvernig kemst maður innfyrir borgarmúra sjúklega tortryggins óvinar sem er með augun hjá sér og skjöldinn á lofti? Með Trójuhesti. Ég sé fyrir mér hallarbyltingu í N-Kóreu, þar sem hershöfðingjar - sem Bandaríkjamenn hafa styrkt - taki völdin, drepi Kim Chong-il og boði svo "þíðu" í samskiptum við Vesturlönd. Mannúðaraðstoðin gæti þá virkað sem dulbúningur utan um stuðning Bandaríkjamanna við væntanlega valdaræningja.

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Stóri bróðir boðar stafræn fingraför 2006. Ég er ánægður með að hafa látið endurnýja vegabréfið mitt nýlega þannig að ég er með "hreint" vegabréf í mörg ár enn...

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Department of Homeland Security í BNA er sammála mér um hættuna á "hryðjuverkaárás" í Bandaríkjunum.

Fyrst er fullyrt að Ósama bin Laden vilji engan síður á forsetastóli en George W. Bush. Síðan er fullyrt að þess vegna muni bin Laden reyna árás rétt fyrir kosningar til að spilla kosningunum. Hins vegar þarf ekki félagsfræðing eða múg-sálfræðing til að segja fyrir um hvað gerist ef mannskæð árás er gerð á Bandaríkin: Það verður lýst yfir neyðarástandi, Bush "gengur skörulega til verks" og lætur "hryðjuverkamennina" hafa það óþvegið (t.d. með loftárás á Sýrland?) og bandarískur almúginn kýs hann aftur í hrifningu sinni (eða, réttara sagt, kýs hann í fyrsta sinn).

Ósama er sagður útsmoginn og klár. Hann getur reiknað þetta dæmi eins og ég og aðrir. M.ö.o. það gengur ekki allt upp við þetta. Einhver er að ljúga. Mannskæð árás mundi auka sigurlíkur Bush. Bush og kónar hans hafa sýnt það í verki hvernig þeir er innrættir. Þeir eru til alls líklegir.

Talandi um Bush, þá sá ég þessa frétt. Þetta sem stóð út úr bakinu á Bush í kappræðunum við Kerry og talsmenn hans sögðu að væri bara brot í jakkanum, það sést líka á mynd með þessari frétt, þar sem Bush er í stuttermabol! Hvað er karlinn með á bakinu??? (Ég veit það ekki, en David Icke kom upp í hugann og kenningar um að Bush og fleiri séu í raun eðlumenn sem fari hamförum og dulbúist sem fólk til að ráða heiminum....)

Monday, October 18, 2004

Í Snarrót, Garðastræti 2, verður sýnd mynd um uppruna kristindómsins og tengsl hans við aðra sólguðadýrkun, stjörnuguðfræði og neyslu vímuefna: Pharmacratic Inquisition - Christianitys Darkest Secrets Revealed

Miðvikudaginn 20. október í Garðastræti 2, kl. 20:00, ókeypis aðgangur.




~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



Terroristarnir í Beslan voru ekki bara terrorista, þeir voru einnig dópistar skv. þessari frétt. Ég tek því með fyrirvara þegar er talað um terrorista eða dópista. Það eru til ofbeldismenn og það eru til fíklar, en þessi hugtök, terroristi og dópisti eru stimplar sem eru settir á menn til að auðkenna þá sem óvini. Sem menn sem hafa fyrirgert rétti sínum til að teljast venjulegir menn. Svona stimplun er hættuleg og svo auðvelt að láta hana stjórna orðræðunni - og hugsuninni - að ég tel fulla ástæðu til að forðast hana. "Terroristi" er bara grýlu-nafngift stjórnvalda fyrir ofbeldismenn sem berjast gegn þeim, "dópisti" er grýlu-nafngift áhyggjufullra foreldra, lögreglu og annarra fyrir fólk sem er svo ólánssamt að ánetjast fíkniefnum. Ofvirkum eða þunglyndum manni er kannski gefið rítalín og þá á það að heita allt í lagi af því hann er "veikur". Ef fíkill tekur rítalín, er þá nokkuð eins mikill munur og af er látið? Fíkillinn er líka sjúklingur. Hvers vegna er farið með hann eins og glæpamann?

Þriðji stimpillinn sem má muna eftir er stimpillinn "einræðisherra". Hvers vegna er Lukasjenko í Hvíta-Rússlandi ekki kallaður einræðisherra heldur forseti? Hvers vegna er Musharraf hershöfðingi í Pakistan kallaður forseti en ekki einræðisherra? Hvers vegna voru Milesovic eða Saddam Hussein kallaðir einræðisherrar en ekki forsetar? Er einræðisherra = þjóðhöfðingi í óvinaríki?



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



Ég vildi að ég hefði komist á European Social Forum í London. Komst því miður ekki.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



"Markaðsvirði KB banka 330 milljarðar króna" -- það er meira en milljón á haus fyrir allt Ísland. Hvernig getur íslenskur banki átt svona ofboðslega mikið? Er þetta bara einhver "útrás" til nágrannalanda sem skilar svona óhemjumiklum hagnaði? Mér finnst vera skítalykt af þessu. (Annars vil ég benda fólki á að kynna sér hvernig bankakerfið virkar -- þ.e. kynna sér þær hliðar þess sem sjaldan eru í sviðsljósinu. Það er m.a. hægt í þessari grein og þessari á heimasíðu Jóhannesar Bjarnar, Vald.org.) Kannski er ekki allt sem sýnist.

Sunday, October 17, 2004

Líkurnar á hryðjuverkaárás í Bandaríkjunum eru örlítið minni núna en fyrir fáum dögum síðan skv. þessari frétt. Hvað segir fréttin um líkurnar á hryðjuverkaárás? Ekkert berum orðum, en ég dreg eftirfarandi ályktun: Meðan Bush hefur forskot í skoðanakönnunum og virðist munu sigra, þá munu hann og kónar hans ekki grípa til skítlegra svindl-aðferða til að tryggja sér áframhaldandi völd. Ekki af því að þeir séu siðferðislega yfir það hafnir, aðeins vegna þess að þeir þurfa þess ekki ef sigurinn er samt þeirra.

Saturday, October 16, 2004

Á þennan fyrirlestur held ég að ég fari á mánudaginn! Sannarlega áhugavert efni.



~~~~~~~~~~~~~~~~~



Í Íraq er sagt að þessi Zarqawi boði árásir á eldsneytisinnflutning til landsins. Ég segi það enn og aftur, að ég hristi bara hausinn yfir þessu. Ég legg ekki trúnað á að þessi gaur sé ekta. Ég er viss um að hann er á snærum CIA og notaður sem slíkur til að gera árásir sem aftur réttlæta hörkulegar árásir, eins og á Fallujah eða Sadr City. Ég held að svipað gildi um meint samtök hans og al-Qaeda, að CIA hafi meiri ítök þar inn en almennt er látið uppi.



~~~~~~~~~~~~~~~~~



Ríkisstjórn Nepal flýtir sér ekki að taka afstöðu til vopnahlésins sem Prachanda, formaður skæruliða maóista, boðaði einhliða til í gær. Á það að standa frá 20.-28. október, eða í níu daga.

Friday, October 15, 2004

Ísraelar virðast hafa myrt nægju sína í bili. Vonandi að satt sé. Vel yfir hundrað Palestínumenn hafa fallið í þessari árás. Ekki er annað að sjá en að Davíð og Halldór líti til þessa fjöldamorðs með velþóknun. Að minnsta kosti hafa þeir hvorki hreyft legg né lið til að svo mikið sem mótmæla því. Þögn er sama og samþykki, er sagt. Þetta er svosem ekki í fyrsta skipti sem hendur þessara manna blóðgast. Og, því miður, varla það síðasta heldur.
Jæja, kötturinn kominn heim. Það kom á daginn að þetta var bara góðkynja fituæxli. Það var fjarlægt og nú er hún uppdópuð að reyna að jafna sig. Ekki líður henni nú vel, greyinu, skjögrar eins og hún væri dauðadrukkin. Hún er samt fljót að braggast ef ég þekki hana rétt.
Í DV um daginn var viðtal við Ásgeir Hannes Eiríksson, frv. þingmann Borgaraflokksins, og, að því er best verður séð af þessu viðtali, rasista. Hann kveðst ætla að stofna stjórnmálaflokk og bjóða fram til þings (og, að mig minnir, í sveitarstjórnarkosningum líka) -- með það að aðalaugnamiði að "taka á málum nýbúa" og eitthvað þannig. Það þarf ekki að orðlengja það, hvað mér finnst um svona plön. Ég bendi á grein Sigurðar Hólm og umræður eftir hana.

Alla vega, við hlið viðtalsins var mynd af Ásgreiri. Hann var með derhúfu á höfðinu og trefil um háls, hvort tveggja appalesínugult og merkt knattspyrnufélaginu Fylki. Skyldi Fylkir ætla sér að sitja þegjandi undir þessu? Ef Fylkir vill ekki láta þenna karl bendla sig við rasisma, þá hlýtur hann að gefa út fréttatilkynningu þar sem þessum hugmyndum er afneitað og skjöldur félagsins þveginn. Ég efast um að stjórn Fylkis hafi verið spurð álits. Hún hlýtur að sverja þetta af sér ef hún vill ekki að slyðruorðið festist við hana.







Haha, tékkið á þessu.



Indymedia er komið upp aftur. Hægt er að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu þar sem aðförin að þeim er fordæmt og þess krafist að málið verði útskýrt.



Af suður-asískum maóistum:

People's War Group Andhra Pradesh sækja fram og reyna að ná undir sig landsvæði sem mundi tengja þeirra yfirráðasvæði við Nepal - þannig að samstarf við nepalska maóista verði auðveldara og skilvirkara.*

Svei mér þá, það lítur út fyrir að í Nepal vinni Prachanda-maóistarnir langþráðan sigur. Byrjuðu borgarastríð 1996. Vopnabúr þeirra samanstóð þá af einni haglabyssu, sem var í notkun allan sólarhringinn. Vegna þess að þeir áttu stuðning fólksins vísan gekk þeim allvel og nú, 8 árum síðar, er talið að þeir eigi alls kostar við Gyanendra konung, þann afturhaldsfausk og harðstjóra, og málaliða hans. Giskið svo á hverjir styðja Gyanendra. Bandaríkjamenn, Bretar, Belgar, Ástralar, Indverjar og fleiri. BNA hafa meira að segja lýst því yfir að Communist Party of Nepal-Maoist séu hryðjuverkasamtök! Þeir eru skæruliðasamtök, já, en hryðjuverkasamtök? Onei. Áður en Bandaríkjastjórn (og taglhnýtingar hennar, svo sem ríkisstjórn Íslands) notast við þetta hugtak, "hryðjuverkamenn" -- þá væri góð byrjun að hafa reiðubúna skilgreiningu á því hvað er að vera hryðjuverkamaður. Eða vilja menn frekar hafa svona loðið orð sem er hægt að klína á hvaða óvin sinn sem er til að sverta ímynd hans og réttlæta árásir á hann og pyndingar eða dráp án dóms og laga?

Fleiri fréttir frá Nepal hér.



En talandi um maóista í Suður-Asíu: Tvær stærstu maóistahreyfingar Indlands hafa sameinast. MCC PWG eru nú Communist Party of India (Maoist).

Thursday, October 14, 2004

Jæja, þá er maður orðinn áskrifandi að einum fjórum blöðum, róttækum kommablöðum frá Bretlandi.



Ég minni annars á kenningu mína: Ef Kerry heldur forskotinu á Bush er líklegt að Osama bin Laden komi í leitirnar á næstu 10 dögum. Ef það dugir ekki til að hossa Bush uppfyrir Kerry í skoðanakönnunum, þá óttast ég að stór hryðjuverkaárás verði gerð á Bandaríkin (þá sviðsett, væntanlega). Þá yrðu, í nafni öryggisins, sett herlög og stjórnað með tilskipunum -- herlögunum yrði aflétt við fyrsta "örugga" tækifæri ef fylgi Bush ykist, en annars væri sagt að það væri ekki óhætt, og áfram yrði stjórnað með tilskipunum.

Með öðrum orðum, ég er vantrúaður á að Bush láti valdataumana af hendi með góðu. Ég get ekki sagt að mér lítist á blikuna...



Verkalýðsfélagið Vaka styrkir kennara í deilu sinni -- helvíti er það gott hjá þeim! (Fyrst hélt ég að það væri stúdentaklúbburinn Vaka, og þótti hljóma einkennilega!) Vonandi fara fleiri launþegasamtök að góðu fordæmi Vöku á Siglufirði.



Þjóðarhreyfingin lætur loks í sér heyra eftir nokkra bið. Ég get nú ekki séð að orðið verði við kröfum hennar, þótt þær séu réttmætar í sjálfu sér. Ég styð þessa kröfu, en er því miður svartsýnn á að hún skili nokkru. Það eru fleiri í svipuðum þönkum, en róttækari, en Þjóðarhreyfingin. Kemur nánar í ljós seinna.

Wednesday, October 13, 2004

Ísraelar eru hvergi nærri af baki dottnir, heldur myrða á báða bóga á Gazaströndinni. Mbl. segir að 114 Palestínumenn séu fallnir. Mér er spurn, hvenær ætlar þetta utanríkisráðuneyti okkar að láta í sér heyra!? Ber að túlka þögn þess sem samþykki fyrir þessum fjöldamorðum!?



~~~~~~~~~~~~~~~~~



FBI lokar a.m.k. 20 heimasíðum í aðför að málfrelsi á internetinu. Grein hér um þennan alvarlega atburð.
Í gær fór ég í bankann og ætlaði að kaupa þar nokkrar ávísanir í erlendum gjaldmiðli til að greiða fyrir áskrift að nokkrum kommablöðum sem mig langar í. Ólukkans ávísanaprentarinn tók upp á því að vera ekki tengdur vegna breytinga, svo lítið varð úr því að sinni. Kaupi þessar ávísanir í staðinn í dag, og verð von bráðar orðinn stoltur áksrifandi að nokkrum ágætis blöðum.



~~~~~~~~~~~~~~~~



Í gærkvöldi var fundur í Norræna húsinu þar sem Sveinn Rúnar Hauksson og Arna Ösp Magnúsardóttir sögðu frá ferðum sínum í Palestínu í sumar. Þá las Einar Már Guðmundsson úr bók sinni, Bítlaávarpinu. Fundurinn var ekki auglýstur sem skyldi, en var þó þokkalega sóttur. Hann var vel heppnaður, held ég að megi segja. Hins vegar held ég að FÍP mætti alveg standa fyrir nokkrum fundum í viðbót í haust, það væri engin skömm að því.



Talandi um Palestínu: Reynt að drepa Moussa Arafat. Moussa Arafat þessi var tekinn sem gísl fyrir nokkrum mánuðum af herskáum, palestínskum gagnrýnendum palestínsku heimastjórnarinnar. Krafa þeirra var að Moussa Arafat yrði rekinn úr stöðu sinni sem yfirmaður öryggismála -- ellegar yrði hann drepinn. Frændi hans, Yasser Arafat, sá ekki annan kost í stöðunni en að verða við kröfum mannræningjanna. En hver er þessi Moussa Arafat? Hann er sagður vera einn af spilltustu embættismönnum palestínsku heimastjórnarinnar, en halda stöðu sinni eingöngu vegna skyldleika við forsetann. Hann hefur áunnið sér óvild margra Palestínumanna vegna spillingarinnar, en einnig vegna mikillar hörku þegar andstæðingar hans eru annars vegar. Þar sem hann er óvinsæll meðal Palestínumanna sjálfra - og af mörgum álitinn veikja mjög stöðu heimastjórnarinnar - skyldi mann ekki undra að þessi árás hafi verið skipulögð af öðrum Palestínumönnum. (Eða, að hann hafi sviðsett hana sjálfur til að styrkja stöðu sína og réttlæta atlögu gegn óvinum sínum.)
Fór í fyrradag með köttinn til dýralæknis. Kom í ljós að hnúturinn á kviðnum á henni er æxli. Mér brá í brún: Er kötturinn minn með krabbamein? Æxlið er vonandi (og sennilega) góðkynja, og ku þá ekki flokkast undir krabbamein. Það verður fjarlægt á föstudaginn með skurðaðgerð. Mikið voru það undarlegar fréttir að kötturinn væri með æxli. Vonandi jafnar hún sig eftir aðgerðina og verður eins og ný.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



Á léttari nótum: Ég á afmæli eftir sirka mánuð. Flestum vinum mínum held ég að ég hafi bent á steðjann sem mig langar í í afmælisgjöf, en nú hef ég fundið annað. Ef einhvern húmorista langar til að gefa mér gjöf sem lætur mig draga augað í pung, þá er hana að finna hér.

Annað sem kæmi til greina væri Doctor Doom gríma, t.d. þessi (samt vitanlega flottust úr málmi). Donald Rumsfeld-gríma væri líka skemmtileg.

Tuesday, October 12, 2004

Bill Van Auken, forsetaframbjóðandi S.E.P. í Bandaríkjunum, talar í London um næstu helgi, á European Social Forum. Fjandinn að komast ekki að sjá hann. Ef ég hefði kosningarétt í Bandaríkjunum fengi hann mitt atkvæði. Vilji einhver kynna sér framboð þessa heiðursmanns má gera það hér. Í bjartsýni minni athugaði ég hvort hann mundi nokkuð millilenda á Íslandi. Það gerir hann ekki. Jæja, kannski næst þá...
Ég er að verða svartsýnni á að ég hafi það á þennan Frjálshyggjufélagsfund um verkföll.



Tékkið á þessu flotta myndbandi!



Ég held mér hafi farist ágætlega orð á Töflunni áðan. Læt það fljóta hér líka, til gamans:

Aðalgallinn við þjóðernishyggju er þessi: Fólk notar hana til að láta eins og það sé öðruvísi og merkilegra en annað fólk, þegar það er það ekki í alvörunni. Þessi hugsunarháttur á rót sína að rekja til þess að fólk á í vandræðum með sína eigin sjálfsmynd og finnst það vanta hóp til að tilheyra og til að finna "sense of belonging". Þessi þörf, að tilheyra einhvejrum hóp, er manninum eðlileg sem samfélagsveru. Þjóðernishyggja er hins vegar skrumskæling á þessari náttúrulegu þörf, og lætur fólki finnast annað fólk vera öðruvísi - yfirleitt hættulegt eða óæðra. Þegar fólk er farið að nota þetta til að skerða mannréttindi annars fólks er komið í óefni og þá er kominn tími til að segja stopp.

Þjóðernishyggjan er ennfremur notuð af valdastéttinni til þess að láta okkur horfa á stéttarbræður og -systur sem óvini. Vinnandi menn tilheyra sömu stétt, sama hvaða þjóð þeir tilheyra eða hvernig þeir eru á litinn. Stéttin ákvarðar hagsmuni þeirra í stéttaþjóðfélaginu. Þegar fólk skilur að hagsmunir þess liggja með stéttarsystkinum hvar sem er í heiminum, þá er fólk komið á bragðið með stéttarvitundina. Hún er byggist að miklu leyti á sömu samheyrileikakenndinni, en í stað þess að sameina náttúrulega andstæðinga (atvinnurekendur og launamenn) þá sameinar hún náttúrulega bandamenn og er framsækin vegna þess að hún stuðlar þannig að framvindu stéttabaráttunnar og þar með mannkynssögunnar.

Ef maður rýnir á bak við orðskrúðið, órökin, tilfinningasemina, innrætinguna, smásálarskapinn og fyrirlitninguna, sést að þjóðernishyggja er fjarskalega innantóm stefna. Svörin sem hún veitir við áleitnum spurningum ungra róttækra manna eru röng svör, svör sem þeir vilja heyra frekar en svör sem eru rétt. Þjóðernishyggja fróar hégómagirnd manna með því að láta eins og þeir séu merkilegri en þeir eru vegna þess að þeir tilheyri einhverri merkilegri þjóð. Það er vitanlega fjarstæða. Þjóðernishyggja byggist á fjarstæðu.

Monday, October 11, 2004

Jóhannes Björn Lúðvíksson, höfundur bóka á borð við Falið vald og Falið vald eiturlyfjakolkrabbans heldur úti heimasíðunni Vald.org þar sem hann birtir reglulega mjög góðar greinar með hvassri greiningu á ýmislegt sem margir skilja ekki vel. Um þessar mundir beinir hann kastljósinu að efnahagskerfi Bandaríkjanna eða, réttara sagt, hagkerfi jarðarinnar. Nýjasta grein hans heitir einmitt Hvert stefnir hagkerfi jarðarinnar? -- og þar rekur hann spennuna sem er í bandaríska hagkerfinu og hvernig hún stofnar hagkerfi alls heims í stórhættu. Það er vel mögulegt að það stefni í skell hjá bandaríska hagkerfinu. Slíkur skellur, segir Jóhannes, „yrði allt að því rothögg á hagkerfi heimsins.“ Það er mál sem enginn hefur efni á að láta fram hjá sér fara. Hér er alvara á ferðum. Lesið þessa grein.

~~~~~~~~~~~~~~

Aðra grein vil ég benda á, en að er samantekt Elíasar Davíðssonar á nokkrum spurningum varðandi ellefta september, sem enn hefur ekki verið svarað. Ögmundur Jónasson birtir samantekt Elíasar á heimasíðu sinni og er það vel. Þetta eru áleitnar spurningar sem eiga erindi upp á yfirborðið. Það er verið að ljúga okkur full, gott fólk, til þess að auðveldara sé að stjórna okkur.

~~~~~~~~~~~~~~

Bandaríkjamenn loka Indymedia.org í Bretlandi með lögregluvaldi. Ha?? Hvernig geta þeir það?
Mér finnst rétt að þessi tilkynning komi fram:

Félagið Ísland-Palestína heldur opinn félagsfund í Norræna húsinu þriðjudagskvöld 12. okt. kl 20 - 22

Dagskrá:

* Skýrslur sjónarvotta í máli og myndum.

* Sveinn Rúnar Hauksson og Arna Ösp Magnúsardóttir dvöldu í Palestínu í sumar sem sjálfboðalilðar og munu skýra frá því sem þau upplifðu.

* Einar Már Guðmundsson les ljóð.

* E.t.v. sýnd stutt kvikmynd.

* Fyrirspurnir og umræður um hið alvarlega ástand mála og hvað við getum gert.

Bolir og margs konar merki til sölu á staðnum.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta og bjóða með sér gestum.


...ég hvet fólk að sjálfsögðu til að mæta!



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Þýskir hægriöfgamenn mynda kosningabandalag fyrir kosningar 2006. Ekki er ég undrandi á því. Þeim hefur verið gert erfitt fyrir hingað til, en ekki stöðvaðir, né hafa borgaralegir stjórnmálamenn boðið upp á neitt í staðinn. Með öðrum orðum, þessu hefur verið leyft að dafna, hvað sem því líður sem kristilegir demókratar eða græningjar segja á hátíðisdögum. Þetta er varhugaverð þróun. Vantar Þýskaland kannski nýjan Hitler?

Hver veit, auðvaldinu finnst kannski öruggara að eiga þessa gaura í bakhöndinni ef það stéttabaráttan skyldi fara að ræskja sig aftur. Miðað við hvað atvinnuleysið er orðið mikið í Þýskalandi skyldi maður ætla að jarðvegurinn sé að vera frjórri fyrir róttækt þenkjandi stjórnmálastefnur. Þær eru því miður líka til hægra megin í litrófinu. Oft var þörf, en nú er nauðsyn, að róttækir þýskir vinstrimenn komi sér saman um áætlun til að stemma stigu við þessum ófögnuði og komast sjálfir til áhrifa svo þeir geti gert gott.
Ég bendi áhugasömum á mjög góða grein MIFTAH, "Delaying Tactics", um stefnu Ísraelsstjórnar. Dov Weisglass, æðsti ráðgjafi Sharons, hefur upplýst í viðtali við blaðið Ha'aretz, að stofnun Palestínuríkis er ekki á dagskrá og það er bara verið að tefja hið svonefnda friðarferli. Ekkert sem maður vissi ekki fyrir, en maður bjóst kannski ekki við að þetta væri sagt berum orðum. Um sama efni skrifar Uri Avnery mjög góða grein, "Don't Believe a Word", sem einnig er þess virði að lesa hana.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Bandaríkjamenn segja að kosningarnar í Afghanistan séu lögmætar (=að Hamid Karzai sé réttkjörinn forseti). Kemur á óvart. Condoleezza Rice lætur eins og hún hafi einhvern rétt til að segja til um það. Bandaríkjamenn eiga mikilla hagsmuna að gæta í þessum kosningum og þeir segja að þeirra maður sé réttkjörinn! Ég væri hissa ef ég héldi að hún væri að reyna að blekkja einhvern, því blekkingin er ótrúverðug. Hinsvegar er ég farinn að hallast að því að ráðamönnum sé alveg sama. Þeir treysta því að við gerum ekkert í málunum. Það er líka iðulega raunin. Við gerum sjaldan nokkuð í málunum.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Bráðabirgðaþing Sómalíu hefur kjörið bráðabirgðaforseta, sem vill svo til að er atvinnuhermaður að uppruna. Ég veit nú bara ekki hvað mér á að finnast. Ég er tortrygginn, en vísa þessu samt ekki alveg á bug. Í öllu falli er þarna að ganga úr greipum tækifæri sem varla nokkur hefði nýtt hvort sem er (né getað nýtt) þannig að ... ætli maður voni ekki bara það besta?

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Frjálshyggjufélagið boðar til fundar um verkföll í Iðnó á morgun, þriðjudag:

Hádegisfundur um verkföll

12. október 2004

Í ljósi atburða síðustu daga og vikna efnir Frjálshyggjufélagið til málfundar um verkföll.

Fundurinn verður haldinn í Iðnó, þriðjudaginn 12. október kl. 12.00 - 13.00.

Ræðumenn verða:

1. Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

2. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.

3. Gunnlaugur Jónsson, formaður Frjálshyggjufélagsins.

Búast má við líflegum umræðum og er fólk hvatt til að mæta á fundinn.




Ég hef nú öðrum hnöppum að hneppa, en það væri ekkert endilega leiðinlegt að mæta. Hef einu sinni mætt á myndbandakvöld hjá þeim og þótt ég sé ósammála þeim um grundvallaratriði, þá hef ég lengi stefnt að því að fara á fleiri fundi. Ég hef þá kenningu að "frjáls"hyggja jafngildi fasisma í praxís. Ég veit ekkert hvort ég kemst, en hugsa að ég reyni.

Sunday, October 10, 2004

John Kerry er að auka fylgi sitt verulega. Það gæti þýtt að líkurnar á sviðsettu hryðjuverki aukist til muna líka. Þessu á ég von á: Ósama bin Laden kemur í leitirnar (eða tvífari hans) á næstu 2-3 vikum (ég held að hann sé núna á hótelsvítu í Dubai í góðu yfirlæti og á kostnað CIA) og Bush eykur fylgi sitt verulega. Ef það dugir ekki til gæti ég best trúað því að hroðaleg hryðjuverkaárás verði gerð (=sviðsett) fljótlega (t.d. "hefnd" fyrir handtöku Ósama) -- og herlög sett af "öryggisástæðum". Þetta er kannski bara hugarburður í mér. Ég vona það allavega. En því miður fer því fjarri að hægt sé að útiloka þetta.

Plan a .. Ósama "finnst" - Bush verður vinsælli og nær endurkjöri;

Plan b .. Hryðjuverkaárás gerð og kosningum frestað í skjóli herlaga - Bush tekur hörkulega afstöðu, sópar til sín fylgi hefndarþyrsts almennings, kosningarnar fara fram og hann nær endurkjöri;

Plan c .. Ef svo ólíklega færi að plan a gengi ekki upp og fylgi Bush ykist ekki við plan c, þá yrði herlögunum hreinlega ekki aflétt, alla vega ekki í bráð. Tommy Franks, yfirhershöfðingi í Bandaríkjaher, hefur þegar lýst því að hann búist við að herstjórn kæmist á í Bandaríkjunum ef önnur stór hryðjuverkaárás yrði gerð. Hann gæti reynst sannspár.

Þetta er það sem ég óttast að gæti gerst á næstu vikum.









Bastarðurinn Howard vann stórsigur í kosningunum í Ástralíu og hefur nú hafði sitt fjórða kjörtímabil sem forsætisráðherra. Þessi íhaldsskröggur mun nú halda áfram atlögu sinni að áströlskum almenningi, frumbyggjum, innflytjendum, konum, atvinnulausum, öryrkjum og öðrum hópum sem hallar á í samfélaginu. Það er ólán fyrir Ástrali að hafa valið þennan mann til áframhaldandi stjórnar - eða réttara sagt óstjórnar - yfir sér.

Saturday, October 9, 2004

Bigley og Peak Oil



Bigley



Þá er búið að gera Bigley höfðinu styttri, virðist vera. Ljóta helvítis villimennskan og grimmdin. Hverju halda þessir asnar að þetta skili þeim? Eru þetta vinnubrögðin til að byggja upp draumasamfélagið? Ofbeldi í líkingu við þetta hefur mikla tilhneigingu til að vinna gegn tilætluðu markmiði sínu. Að vísu er sennilega mikið til í því sem fréttaskýrendur segja, að almenningur í Bretlandi muni kenna Bliar um þetta og þannig veikist staða hans. Það má auðvitað segja það, að hann ber hluta af ábyrgðinni. Það er samt ömurlegt, alveg ömurlegt, að þetta skuli vera svona. Breti er drepinn og allir trompast. Hvað með alla Íraqana sem hafa verið drepnir? Hvers vegna hafa glæpir gegn mannkyninu, sem Bliar og aðrir vestrænir leiðtogar hafa framið, s.s. með viðskiptabanninu á Íraq, hvers vegna hafa þeir glæpir ekki vakið óhug og hrylling almennings svo hann sópaði glæpamönnunum úr valdasessi?

Hvers vegna hefur glæpamönnunum ekki verið sópað úr valdasessi Íslands? Erum við að bíða eftir að íslenskur "friðargæsluliði" í Kabúl verði afhöfðaður? Munu Íslendingar þá verða slegnir óhug?





Peak Oil



Á olíumörkuðum Nýjujórvíkurborgar komst hráolían upp í 53,31 dal tunnan í gær. Það er nýtt met.

Við skulum horfast í augu við að þetta er enginn tímabundinn öldutoppur. Olíuverð mun ekki lækka til muna. Þetta háa verð er komið til að vera.

Menn eru að bera fyrir sig ástandið í Íraq, í Nígeríu, í Venezúela og eitthvað, en þetta er bara fyrirsláttur. Fyrirsláttur til að villa um fyrir okkur, almennum borgurum. Hvað er að gerast? Svar: Birgðir jarðarinnar af olíu eru ekki óþrjótandi og við erum komin að þeim vendipunkti, að framboð á olíu annar ekki eftirspurninni lengur. Olía er ekki framleidd, það er borað eftir henni. Þegar olíulind er hætt að skila mönnum olíu þarf að finna nýja.

Klárast olían? Nei, það verður bara svo dýrt að vinna hana að það hættir að borga sig. En hærra olíuverð hlýtur að gera fleiri olíulindir hagkvæmari? Já, til að byrja með, en það flýtir bara hruninu; olían eykst ekki, og það kemur að því að það er spurning um orku: Um leið og það þarf meiri orku til að ná olíunni upp úr jörðinni en við fáum með því að brenna hana, þá borgar það sig ekki lengur. Því hraðar sem við klárum birgðirnar, þess fyrr verða þær búnar. Í rauninni má segja að til lengri tíma litið sé hátt olíuverð gott fyrir heimsbyggðina. Það þýðir vonandi að það er minna notað af henni. Það er stærsta vandamál minnar kynslóðar, að takast á við Peak Oil -- ekki bara stærsta vandamál minnar kynslóðar, heldur kannski stærsta vandamál sem mannkynið hefur tekist á við. Siðmenningin, eins og við þekkjum hana, nálgast kannski endalok sín. Lesið nánar um Peak Oil hér -- þótt það sé það eina sem þið lesið þetta árið, þá er það vel þess virði.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



Sólbaksmálið umdeilda snýst að miklu leyti um það, hvort hásetarnir á Sólbaki séu neyddir til að lúta samningaumboði stéttarfélagsins sín. Hvort þeir hafi félagafrelsi eða ekki, og hver eigi að semja um þeirra kjör, þeir sjálfir eða félag sem áskilur sér rétt til þess. Hafa menn ekki félagafrelsi? Eiga stéttarfélögin að vera eins og handjárn á mönnum? Óljúf kvöð sem menn reyna að sleppa undan? Þetta er merki um að það er eitthvað að. Ef menn sjá sér ekki hag í því sjálfir að vera í stéttarfélagi er það vísbending um að eitthvað sé að. Að stéttarfélaginu. Hvers vegna geta hásetar á sólbaki náð betri samningum en stéttarfélagið? Getur verið að stjórn stéttarfélagsins sé of upptekin af að spila bridds við auðvaldið, til að sinna skyldum sínum? Getur verið að þarna sé á feðrinni félag sem er hvorki stéttvíst né harðskeytt (nema kannski gagnvart félagsmönnum sínum) heldur svikult? Ég spyr. Getur það verið? Ég get sagt það um mitt stéttarfélag, Eflingu, að ég er ákaflega óánægður með hvernig það stendur sig. Ákaflega óánægður. Ef ég mætti velja væri ég í SFR (Starfsmannafélagi ríkisins), en mér og vinnufélögum er hótað illu ef við svo mikið sem látum okkur detta það í hug. Það var þá félagafrelsið. Ef stéttarfélag vill hafa ánægða félagsmenn þarf það að ávinna sér þá ánægju. Það er ekki hægt að sitja á rassinum og láta eins og mðaur eigi hrós skilið. Þannig virkar stéttabaráttan ekki, og það er varasamt að hafa slíka forystu fyrir verkalýðnum.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



Egill Helgason vitnar í þessi ummæli mín á Skoðun um daginn:

Ég verð nú að viðurkenna að orðið „fjölmenningarsamfélag“ lætur illa í eyrum mínum. Ekki vegna þess að ég hafi neitt á móti fólki, heldur vegna þess að hugmyndin um „margar menningar“ í einu samfélagi hljómar eins og hálfgerð þversögn í mínum eyrum. Ég sé fyrir mér samfélag með fjölbreyttu fólki, en einni menningu: menningu lýðræðis, umburðarlyndis, manngildis og mannlegrar reisnar. Ég held reyndar að það sé ósköp svipað þeim skilningi sem þeir sem þú kallar „fjölmenningarsinna“ (en ég mundi frekar kalla umburðarlynda) leggja í orðið „fjölmenning“...

Friday, October 8, 2004

Óhugnanlegar fréttir frá Egyptalandi! Ekki færri en 23 Ísraelar myrtir í sprengingu ... það setur að manni óhug.





Ayatollah Sistani hvetur fylgismenn sína til að taka þátt í kosningunum í janúar. Það hlýtur að þýða að hann viðurkenni quislingastjórn Íraqs með einhverjum hætti? Eða ætli hann sé bara svona praktískur? Það gæti svosem verið.



Fór í gærmorgun á fund við dr. Joseph Gerson, sem hélt fyrirlestur í Reykjavíkurakademíunni í hittifyrrakvöld. Sá fundur var í Snarrót í Garðastrætinu og var um margt fróðlegur. Karlinn er áhugaverður að ræða við, þótt ég sé ekki sammála honum um allt, en hann virðist hafa einhverja tilhneigingu til að misskilja mig. Nema þá að ég oftreysti sjálfum mér svona í talaðri ensku?

~~~~~~~~~~~~~~~~~



Lesið svo hvernig Bandaríkin nota Ísrael sem lepp til að hóta Sýrlendingum og hvernig stalínistaflokkur Indlands styður Congress-flokkinn og afvegaleiðir alþýðuna.
Um daginn heyrði eg af töff kofabyggð uppi í Skammadal. Skammidalur er dalverpi austan við Helgafell, sem er austan við Mosfellsbæ. Liggur norður í Mosfellsdal. Þegar eg var barn kom eg þangað a.m.k. einu sinni og man ekkert eftir því annað en rigningu og mold undir nöglum. Í Skammadal voru kartöflugarðar áhugafólks um kartöflurækt.



Í dag ók eg við annan mann upp eftir til að skoða þessa töff kofabyggð. Þ.e.a.s. skúra eða hjalla sem téðir kartöfluáhugamenn hrófluðu upp til að geyma áhöld og hita sér kaffi. Við ókum veg sem hlýtur að vera sá versti í öllum landsfjórðungnum, sunnan að dalnum. Sá vegur sem er venjulega farinn liggur norðan að honum. Jæja, við stöðvuðum bílinn við gil eitt, og gengum síðustu 50 metrana inn í kofabyggðina. Skammidalur ber nafn með rentu. Kofarnir voru alltöff. Allir pínulitlir, nokkrir algerlega niðurníddir, nokkrir sem var vel við haldið og nokkrir sem voru málaðir og skrautlegir en þó hin verstu hrófatildur. Gamlar vinnuvélar mátti sjá, hálffallna skurði, og sölnuð kartöflugrös. Það eru ennþá ræktaðar þarna kartöflur, en ekki eins mikið og mig minnir að hafi verið þegar ég var krakki. Við gengum í gegn um kofabyggðina, ca. 50-60 hús allt í allt. Urðum lítið varir við mannaferðir, en sáum þó konu eina og roskin hjón. Eða systkini.

Það var hem á pollum og ekki hlýtt í veðri. Við vorum ekki meira en kílómeter frá efstu húsum í Mosfellsbæ, og í hina áttina kílómeter frá efstu húsum í Mosfellsdal. Í afskekktri sveit, sem var töff í afkáraleik sínum. Skammidalur var þess virði að heimsækja hann. Man bara að koma úr norðri næst.

Thursday, October 7, 2004

Frábær fyrirlestur + fréttir



Fyrri fyrirlesturinn sem ég fór á sl. þriðjudag var fyrirlestur Jóns Ólafssonar heimspekings, „Vald og stýring“ -- um lygar í stjórnmálum. Þessi hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands var í hæsta máta áhugaverður. Jón talaði um kenningar Rorty, Arendt o.fl. um lygar í stjórnmálum, hvernig þær eru notaðar til að koma einhverju til framkvæmda eða til að auka vinsældir. Þegar sannleikanum er haldið fram er það oftar en ekki merki um hræsni frekar en sannleiksást. Kerfisbundinn lygavefur vindur upp á sig og bindur hendur þeirra sem eru háðir honum. Ef hann kemst upp er sjaldan gert veður út af því; sama sagan endurtekur sig því aftur og aftur og alltaf erum við jafn ginnkeypt. Bregðast þá ekki fjölmiðlar skyldum sínum? (Hafa fjölmiðlar ekki annars skyldur gv. lesendum?)

Stjórnmálamenn tala yfirleitt fyrir einhverri hugmyndafræði. Þar sem þeir reyna að hafa áhrifa á veruleikann reyna þeir að skýra hann, þ.e.a.s. skapa mynd af honum. Kerfi eða líkan. Þeir sem mest völd hafa njóta mestrar ráðleggingar frá sérfræðingum, sem allir halda fram sinni túlkun á veruleikanum. Því verður ráðgjöfin æ flóknari og heimsmynd valdamannsins hefur tilhneigingu til að skekkjast sem því nemur. „Blöff“ er eitt, bein lygi annað.

Ef sannleikurinn er ekki tilgangur í sjálfu sér, verður hann þá ekki merkingarlaus? „Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi“ - þarna er á ferðinni hin gamla góða valkvæma hugsun eða, réttara sagt, valkvæm orðræða: Sá hluti sannleikans sem gagnast sögumanni er sagður, restinni sleppt. Er brotið á einstaklingum með þessu? Það er kannski ekki spurning um að hlutlægar staðreyndir séu ekki aðgengilegar, heldur frekar, að frelsi manna til að mynda sér upplýstar skoðanir er þar með skert. Það er alvarlegt mál. Menn eru sviptir „frelsi til að treysta fréttum“ - og er það ekki komið inn á svið skoðana- og tjáningarfrelsis?

Þrenns konar algengar lygar:

* Menn taka þann kost að blöffa til að koma einhverju fram.

* Ímynd haldið fram, sem getur verið alvarlega á skjön við veruleikann.

* Tilbúinn veruleiki eða veruleiki sem er felldur inn í tilbúið kerfi eða líkan (aðlagaður).

Þegar lygi er haldið fram af stjórn er flokksaga beitt til að láta alla halda fram sömu lyginni. Sá sem ekki tekur þátt (stjórnarmaður eður ei) er stimplaður stjórnarandstæðingur eða stillt upp sem slíkum. Því kjósa ýmsir frekar að taka ekki afstöðu en að mótmæla (berum) lygum stjórnvalda, af því þeir eru kannski ekki stjórnarandstæðingar eða geta, stöðu sinnar vegna, ekki látið stilla sér þannig upp.

Hvernig eldist orðræðan sem við höldum fram? Styrkist hún með tímanum? Staðfestir reynslan að okkar túlkun eða okkar orðræða sé rétt?



Vonandi að einhverjum þyki þetta fróðlegt, hmm?





~~~~~~~~~~~~~

Sjómannasambandið stendur í stappi. Sex menn handteknir eftir að hafa haldið uppi sólarhrings löndunarbanni. Sex menn?? Hvar eru fjöldahreyfingin? Hvernig ætla þeir að halda uppi löndunarbanni með sex mönnum? Frjálslyndi flokkurinn styður þá í þessu ströggli. Hvar eru Vinstri-grænir? Ættu þeir ekki að standa þétt að baki þeim líka? Sem róttækur vinstriflokkur ættu þeir nú að styðja við bakið á launamönnum. Hvar eru þeir? (Mættu líka veita grunnskólakennurunum, blessuðum, meiri stuðning.) Að vísu hafa þeir ámálgað aðbúnað þrælanna við Kárahnjúka. (Ég verð að viðurkenna að það hvarflar að mér að á bak við það búi etv. annað en þeir láta uppi. Þ.e. ekki atkvæði launþegahreyfingarinnar heldur umhverfisverndarsinna sem eru á móti Kárahnjúkavirkjun. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.)

~~~~~~~~~~~~~

Nú gengur þetta ekki lengur hjá þessum Þjóðverjum. Rasistar sækja í sig veðrið og borgaralegir spikbelgir sitja lúpulegir hjá og halda að þeir geti bannað fólki að hata. Þeir geta ekki bannað fólki að hata. Skoðanalögga er fyrirbæri sem mér býður við. Asnar hljóta að hafa rétt til að vera asnar, eða hvað? Ef forystumenn borgaralegra afla í Þýskalandi eru á annað borð ósammála rasistunum ættu þeir að reyna að útskýra fyrir þeim hvers vegna þeir hafa rangt fyrir sér. Ef þeir ráða ekki við vandamálin ættu þeir að víkja og hleypa framsæknari og skynsamari stjórnmálaöflum að í staðinn.

~~~~~~~~~~~~~

Matti Á. tók eftir þessari frétt sem fór framhjá mér. Þarna bætist eitt atriði á minn 17 m lista yfir ástæður fyrir að kjósa ekki Samfylkinguna. Svei!

~~~~~~~~~~~~~

Áðan sá ég brot af Þórhalli miðli á Stöð 2. Lífsauganu. Hafði aldrei séð það áður. Alveg var magnað að fylgjast með karlsmáninni blekkja sjálfan sig. Mér finnst hann eiginlega bara brjóstumkennanlegur. Og grey fólkið sem dýrkar hann og vill að hann sé eitthvað annað en illa heppnaður loddari. Ljóta þruglið.

Notast við cold reading og rennir hálf-blint í sjóinn með sjálfsagða og ómerkilega hluti. Spyr miðaldra konu hvort pabbi hennar sé ekki orðinn heilsulaus. Konu með glóðarauga hvort það sé eitthvað að á heimilinu.

Gullkorn:

„já, svo var eitthvað með handfangið á balanum“ „ha? nee.. ?“ „uu.. ja, það var handfang á þessum bala, er það ekki?“ „jajújú, eitt hvoru megin“ „takk fyrir það, takk fyrir“ [eru ekki handföng á bölum, svona almennt séð?]

„þekkirðu einhvern Magnús?“ [hver þekkir ekki einhvern Magnús?]

„það er steinhús hús sem fjölskylda þín bjó mjög lengi í“ „já“ „það eru miklar minningar tengdar þessu húsi“ „já“ [hver hefur búið mjög lengi í húsi án þess að miklar minningar tengist því?]




Ég held að ég gæti vel gert þetta. Byrja á að segja að „hér sé einhver Fjóla“. Miðaldra kona segir strax, „já, það var amma mín“. Ég gríp hana: „amma þín var mjög gestrisin kona“ „jújú“ „það var alltaf heitt á könnunni hjá henni“ „jújú“ „...og ekki sviku pönnsurnar?“ „nei, amma bakaði bestu pönnsur í heimi“ „takk fyrir, takk takk“ -- hljómar þetta ekki vel?



„Amma þín afturgengin segir þér að taka til í sokkaskúffunni.“

„Langalangamma þín er hér. Hún er með skotthúfu.“

„Áttirðu afa sem var bóndi? Hann ók þér í Willy's jeppanum.“




...og svo framvegis. Frábær skemmtun. Toppgaur.
Það gleður mig að sjá athyglina sem jaðrakaninn er að fá. Jaðrakan er meðal minna uppáhalds fugla og all-algengur í sumarbústað þeim sem ég varði hálfri bernsku minni í. Fyrir þá sem ekki vita, eru hljóð hans skemmtileg og auðþekkjanleg. Hann talar nefnilega mannamál. Fyrir utan ýlfur sem hann gefur oft frá sér segir hann þrennt:

„Vadd'útí“ (Vaddu út í)

„Vatvotur“ (Varðstu votur?)

„Vittúðér“ (Vittu úr þér)

Þvílíkur snillingur, jaðrakaninn. Svo er hann fallegur líka.



Talandi um fallega fugla, þá var ansvíti fallegur haförn í fréttum Sjónvarpsins. Það er ekki laust við að hann sé glæsilegur...





Við Ragnarök er sagt að gali „sótrauður hani fyr sölum Heljar“ -- í allt kvöld var ég að reyna að muna hvað sá hani hét. Kemur það ekki örugglega fram einhvers staðar? Í öllu falli verð ég afar ánægður ef einhver getur sagt mér nafn hans.



Úgghh... ég held annars að ég hafi drukkið hálfri koníaksflösku of mikið í gærkvöldi ... er ennþá með í maganum, auk þess sem mig svimar...

Wednesday, October 6, 2004

Ég hef ekkert svar fengið frá utanríkisráðuneytinu ennþá, og er það þó oftast ekki lengi að svara. Af hryðjuverkum Ísraela í Jabaliya-flóttamannabúðunum er það annars að frétta að um 80 munu vera fallnir þegar þetta er skrifað - og Bandaríkjamenn voru að enda við að beita neitunarvaldi í öryggisráði SÞ, þar sem stóð til að krefjast þess að Ísraelar drægju her sinn út úr Gaza. Það mátti svosem búast við því. Að hugsa sér að þessir menn, bandarísku heimsvaldasinnarnir, skuli ennþá voga sér að láta eins og þeir séu einhvers konar "honest broker" í málefnum Ísraela og Palestínumanna. Það eru þeir sko ekki. Og kjölturakkar þeirra, íslensku heimsvaldasinnarnir, elta þægir þennan ófögnuð í von um að biti hrökkvi af borðinu.



Talandi um Ísrael, ætli Ísraelar fari ekki að gera loftárás á Íran í ljósi þessara frétta?

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Ég fór á tvo fyrirlestra í gær, einn í hádeginu í Norræna húsinu og annan í Reykjavíkurakademíunni um kvöldið. Ég hef ýmislegt um þá að segja, en verð að geyma það til morguns eða svo.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Linkurinn á fréttatilkynningu Ástþórs Magnússonar held ég að sé kominn í lag.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Þá bendi ég á fróðlega grein Sverris Jakobssonar á Múrnum, þar sem hann fjallar um Kambódíu. Ansi hreint er þessi grein fróðleg.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Edwards og Cheney áttu víst kappræður í gærkvöldi. Ég missti af þeim, en hér má lesa um þær. Eins og í Bush/Kerry kappræðunum um daginn var það bandaríska auðvaldið sem hafði sigur.

Tuesday, October 5, 2004

Fréttablaðið í gær (mánudag) birti mynd frá mótmælunum á föstudaginn. Þar er Helgi Hóseasson í fyrirrúmi, ég í forgrunni og Darri á Vantrú í bakgrunni. Sést á bls. 49 í vef-útgáfunni.
Fundurinn í Norræna húsinu áðan var stórfróðlegur og hyggst ég skrifa nokkur vel valin orð um hann, en hef því miður ekki tíma til þess í augnablikinu. Talandi um fundi, þá er annar fundur í kvöld, ekki síður merkilegur. Úr fréttabréfi SHA:

Minnt er á áður boðaðan fyrirlestur Dr. Josephs Gersons í ReykjavíkurAkademíunni annað kvöld kl. 20, "Arrangements for the 21st Century: U.S. Empire, Full Spectrum Dominance, and Common Security" eða “Viðbúnaður á nýrri öld: Heimsveldið Bandaríki Norður-Ameríku, yfirráð á öllum sviðum - og öryggi almennings”.

Áhugafólk um utanríkismál, friðarmál og sér í lagi það fólk sem vill fræðast um andófið í Bandaríkjunum gegn hernaðar- og yfirgangsstefnu Bushstjórnarinnar ættu ekki að láta þennan fyrirlestur framhjá sér fara.

Nánari upplýsingar má nálgast á Friðarvefnum, www.fridur.is, sem er með virkara móti um þessar mundir.




Lítið á þessi merki:



"Guð er ekki til" merkið var gert að frumkvæði undirritaðs. Ég get núna stoltur skartað svona merki. Kosta symbólskan 50-kall hjá Vantrú.net (pokinn er í mínum fórum sem stendur).



Ég held ég panti nokkrar vel valdar bækur í nokkrum eintökum til að dreifa þeim. Já, það gæti verið sniðugt.



Keypti áðan nokkur hundruð metra af snæri. Ætla að vera við öllu búinn þegar Peak Oil dynur á.

Monday, October 4, 2004

Morðin í Jabaliya flóttamannabúðunum á Gaza halda áfram. Fjögurra ára barn drepið, fjöldi fallinna nálgast sjötíu. Ætli heimsbyggðin hyggist gera eitthvað til að stöðva þetta blóðbað?



Rétt í þessu var ég að senda utanríkisráðuneytinu bréf sem hljómaði svona:

Ég vek athygli ráðuneytisins á að fjöldamorð standa yfir í Jabaliya flóttamannabúðunum á Gazaströndinni. Ísraelski herinn hefur, þegar þetta er skrifað, drepið á sjöunda tug manna, mest óbreytta borgara, og er fjöldi barna og kvenna meðal fallinna. Á þetta að auka líkur á friði milli Ísraela og Palestínumanna? Ætlar íslenska utanríkisþjónustan að mótmæla þessu skelfilega blóðbaði eða láta það óátalið?



Kveðja frá borgara sem er ekki sama,



Vésteinn Valgarðsson


...ég verð að játa að ég er alls ekki bjartsýnn á að viðbrögðin verði þau sem þau þyrftu að vera. Glæpamennirnir sem stjórna ísraelska hernum eiga sér volduga bandamenn sem ólíklegt er að íslenskir hægrimenn vilji komast upp á kant við.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



WSWS er með góða og greinandi umfjöllun um ástandið í Níger-ósum í Nígeríu.

Sunday, October 3, 2004

Þeir sem ekki eru orðnir fastagestir í Snarrót í Garðastræti 2 ættu að drífa í því hið snarasta. Opið hús á sunnudögum og á föstudagskvöldum, en kvikmyndasýningar á miðvikudögum. Aðra daga opið eftir atvikum, ef húsið er ekki upptekið.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Enn eitt risa-innleggið af minni hálfu á Töflunni á Dordingli. Ég þarf að fara að minnka þetta; það á að heita að ég sé að skrifa BA ritgerð! Alla vega finnst mér þetta innlegg vera í glæsilegri kantinum..... Var annars að taka öryggisafrit af ýmsu sem ég hef skrifað á Töfluna undanfarið ár eða svo. Sumt tímir maður einfaldlega ekki að eyðist út...

~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Einhver heiðursmaðurinn hefur tilnefnt Georg Bush og Tony Bliar til friðarverðlauna Nóbels. Það stendur yfir undirskriftasöfnun til að mótmæla þessari hneisu. Þeir sem vilja skrifa undir fari hingað, skrifi undir, og láti vini og ættingja vita líka. (Ekki það, að ég hef voða litla trú á að þessir labbakútar fái verðlaunin.....)





GUÐLAST - GLÆPUR ÁN FÓRNARLAMBS







Saturday, October 2, 2004

Það er komin ný grein á Gagnauga, tékkið á þessu helvíti.





Kommúnistaflokkur Bandaríkjanna styður John Kerry. Hver fjandinn! Að þeir skuli dirfast að kalla sig kommúnistaflokk! Kommúnistaflokkur Íraqs á aðild að quislingastjórn Allawis. Kommúnistaflokkur Nepal -- þ.e. CPN (M-L) eða Communist Party of Nepal (Marxist-Leninist) styður Gyanendra konung í afturhaldsstríði hans gegn byltingu Communist Party of Nepal (Maoist). Bylting CPN (Maoist) gengur annars vel og allt, og þeir ráða víst sveitum landsins meira og minna. Harðstjóra-einvaldurinn og fjölskyldumorðinginn Gyanendra nýtur stuðnings Indlands og Bandaríkjanna, auk fleiri heimsvaldaríkja, en á samt í vök að verjast.

Friday, October 1, 2004

Fjórir alþingismenn þágu skyr af Vantrúarmönnum áðan. Ein forsetafrú reyndi en vaskur lögregluþræll stöðvaði hana. Þessi mótmæli voru í meðallagi fjölmenn, kannski aðeins yfir meðallagi, og þokkalega vel heppnuð, held ég bara. Skemmtilegt að sjá þessa trúða ganga gæsagang eins og hálfvita. Ég byrjaði að klappa fyrir þeim í tvígang og allur skarinn klappaði með, þegar þeir marseruðu og röðuðu sér í röð. Þrælar.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að gerast málkunnugur Helga Hóseassyni. Við á Vantrú fengum hjá honum skilti og hann kom sjálfur niður á Austurvöll. Aufúsugestur, sannur aufúsugestur. Ég hafði látið hann verða mér að innblæstri og föndraði í gær krysstan bangsa með standpínu, sem ég var með í skiltis stað. Það voru teknar svo amrgar myndir af listavekrinu að það kæmi mér ekki á óvart þótt einhverjar birtust einhvers staðar. Alla vega, mál Helga Hóseassonar er ekki gleymt. Við getum ekki látið það líðast að níðst sé á þessum góða öldungi, hann rægður, skjöl um hann fölsuð og mannréttindi brotin. Þjófkirkjan hefur unnið sér til vanhelgi með meðferð sinni á honum. Henni er hollast að bæta ráð sitt.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Fréttir: Erdogan lýgur. Gott hjá Spánverjum! Vinstri rasskinn bandaríska auðvaldsins flengdi hægri rasskinnina í gær. Halldór þó!

Lyddur, mannfórnir og þrælslund



Já, ég er að tala um þingflokk Framsóknarflokksins. Þingmennirnir í þingflokknum sitja ýmist þegjandi hjá meðan Kristni er slátrað, meðan einum úr þeirra röðum er fórnað. Gott hjá Kristni að standa við sína sannfæringu, það mættu fleiri gera. Hugsa sér, hvað er það annað en lydduskapur, að sitja þegjandi meðan samverkamaður manns er hýddur saklaus? Árni Magnússon, Birkir J. Jónsson, Dagný Jónsdóttir, Guðni Ágústsson, Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, Hjálmar Árnason, Jón Kristjánsson, Jónína Bjartmarz, Magnús Stefánsson, Siv Friðleifsdóttir og Valgerður frænka mín Sverrisdóttir fá öll risastóran mínus í kladdann. Sum þeirra hafa svo marga mínusa fyrir að það er orðið vandasamt að koma fleirum fyrir! Þetta mál sýnir þeirra innræti. Þetta er sama sagan og þegar krakki er lagður í einelti og allir sitja þegjandi hjá af ótta við að vera lagðir í einelti sjálfir. Minnir líka á mennina sem fyrir stríðsglæpadómstól segjast "bara hafa verið að hlýða fyrirmælum". Lydduskapur. Hvers vegna nýtur ríkisstjórnin ennþá stuðnings Kristins, Sivjar og Jónínu? Þau gætu, þrjú í sameiningu, fellt ríkisstjórnina og myndað nýja stjórn með stjórnarandstöðunni. Hvers vegna gera þau það ekki? Hvers vegna heldur Kristinn ennþá tryggð við þennan fúna afturhaldsflokk sem er búinn að sýna innræti sitt í verki og bregðast Kristni sjálfum þegar hann gerði ekki annað en reyna að vera maður orða sinna? Fari Framsóknarflokkurinn og veri. Þegar flokkshollustan yfirgengur svona sans manna er illt í efni. Kristinn segir sjálfur, í Fréttablaðinu í dag: „Menn verða að vera frjálsir í skoðunum sínum til þess að stjórnmálaflokkur sé í raun lýðræðisleg hreyfing“ -- og nú hefur Framsóknarflokkurinn, enn eina ferðina, sýnt að hann er það ekki. Eftir hverju er Kristinn að bíða? Hvað skuldar hann þessum spilltu hrokagikkjum sem hafa hædjakkað flokknum hans? Hvers vegna geir hann ekki annað hvort, að gera hallarbyltingu og fá almenna flokksmenn í lið með sér og taka flokkinn aftur, eða, ef þeir vilja það ekki, fylgja þá orðum sínum eftir með því að hætta í flokknum og hætta stuðningi við ríkisstjórnina? Þingflokkur Framsóknarflokksins samanstendur hér um bil af tómum lyddum. Þingmenn flokksins geta rekið af sér slyðruorðið með því að standa á sínu og láta ekki fámenna klíku pólítískra búllía ráðskast með sig.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Mogginn stendur með sínum eins og endranær. Gott fyrir eigendur hans að vita að hann muni aldrei æmta né skræmta gagnvart hægrimönnum, svo lengi sem þeir eru nógu hægrisinnaðir. Er ekki óforskammað hvað þetta blað, sem þykist vera svo virðulegt og ráðvant, sýnir sig trekk í trekk fyrir að vera það afturhaldsafl sem það er? að þetta blessaða fólk skuli ekki kunna að skammast sín.....

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Horfði á forsetaframbjóðendadebattið í nótt. Annar hausinn á þursinum rassskellt hinn hausinn. Kerry skylmdist fimlega og kom vel fyrir, end a segja menn að hann hafi unnið þessa viðureign. Með öðrum orðum, bandaríska valdastéttin vann þessa viðureign.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Geir Haarde er spilltur og ætti að skammast sín. Hann er bara dóni! Hvernig hvarflar það að honum að bjóða Íslendingum upp á svona bersýnilega flokkspólítíska skipun í hæstarétt - enn eina ferðina?? Ég segi fyrir mitt leyti, að ég sé ekki hvernig ég get álitið mig bundinn af dómum dómstóls sem ég get ekki viðurkennt vegna pólítískrar litunar. Ég bara sé það ekki. Ekki að það skipti neinu máli; ef ég léti á það reyna að hlíta ekki dómum hæstaréttar kæmi bara lögga með kylfu og lemdi mig í hausinn.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Ísraelar fara mikinn í morðum á Gazaströndinni. Hvað ætli þeir geti gengið langt áður en Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson stynja upp athugasemdum fyrir hönd íslensku þjóðarinnar? Ég spái því að þeir geti gengið alla leið til helvítis. Hvort þeir ættu afturkvæmt þaðan veit ég ekki, en þangað stefna þeir alla vega.