Monday, February 28, 2005

Charles Featherstone skrifar um markaðslausnir á Peak Oil. Dæmigerður málflutningur manns sem trúir því að markaðslögmál geti leyst jarðfræðileg vandamál. Ódýr olía er af skornum skammti, þess er ekki langt að bíða að hún verði á þrotum. Olíuþurrð blasir við okkur. Afkastageta nútíma iðnaðar byggir næstum því eingöngu á olíu, og þar með sjálft efnahagskerfið. Eina leiðin til að draga úr skellinum er að minnka eftirspurn eftir olíu eins mikið og mögulegt er, eins hratt og mögulegt er. Þegar olía er orðin of dýr fyrir almenning, þá kann að vera of seint að bregðast við. Eftir því sem eftirspurnin eykst hækkar bara verðið. Framboðið mun ekki aukast mikið úr þessu.
Það getur verið að við séum komin yfir þröskuldinn nú þegar. Það getur verið að Ghawar, stærsta olíulindin í Sádi-Arabíu, hafi verið í hámarki svo snemma sem vorið 2003. Eftirspurnin eykst, framboðið ekki. Í fyllingu tímans þverr framboðið. 5 ár? 15 ár? Varla meira en það. Gætu verið 2 ár þess vegna. Vegna þess hvað efnahagskerfi heimsins er gírað inn á fullkomlega hugsunarlaust bruðl með olíu, þá er mannkynið ánetjað henni. Ekki eins og heróíni. Frekar eins og vatni. Eða mat. Olíuknúnar vélar gera okkur kleift að framfleyta meira en 6 milljörðum manna. Ef þeirra nyti ekki við væri það hægara sagt en gert.
Mannkynið mun laga sig að breyttum aðstæðum. Ef aðstæðurnar breytast á þann veg að fæðuframboð minnkar mjög mikið og mjög hratt, þá lagar mannkynið sig að breytingunni með því að fækka munnunum sem þarf að metta. Mjög mikið. Mjög hratt.
Sú aðgerð, að gíra efnahagskerfi heimsins inn á afköst án olíu, er ekkert sem menn gera á seinustu stundu. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Ef allt gengur á besta hátt er það samt margra ára verk að breyta þessu. Það er enginn hægðarleikur að stíga á hemlana í þessari eimreið. Lesið Life After the Oil Crash. Þið sjáið ekki eftir því.

Saturday, February 26, 2005

Mér finnst utanríkisráðherra vera eins og rati og sjálfum sér líkur þegar hann efnir til ráðstefnu um þau "tækifæri" sem Íslendingum gefast þegar loftslag á jörðinni fer hlýnandi. Að sjá þennan mann halda sínu striki, neitandi að viðurkenna bersjáanlega hættu þótt hún sé skorin út í pappa fyrir hann, finnst mér ekki vera til marks um stefnufestu heldur tregðu, þrjósku og hroka.
Í sjálfu sér má vel segja að það opnist einskonar tækifæri fyrir Íslendinga þegar hafís minnkar og norðaustur-leiðin verður betur skipafær. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Hlýnandi loftslag á jörðinni, mengun og öfgafyllra veðurfar eru meðal áþreifanlegra vandamála sem við höfum býsna vel rökstuddan grun um að séu að verulegu leyti af manna völdum. Við vitum að þetta er byrjað. Hitinn fer hækkandi, og við vitum ekki hversu mikið hann hækkar né hvernig þetta fer. Ef maður krukkar í úrverk án þess að hafa vit á því má maður teljast heppinn ef það gengur áfram. Sama má segja um vistkerfi jarðarinnar. Við erum að krukka í það og það er enginn "stopp"-takki. Það er óhugnanlegt að sjá hvernig Davíð Oddsson virðist ekki vilja átta sig á þessu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Saraya Iraqna heita nýstofnuð vígasamtök í Írak. Þau samtök eru ólík öðrum vopnuðum hópum að því leytinu til að þau styðja hernámið. Í síðasta mánuði spurðist út að Pentagon væri að íhuga að heimfæra upp á Írak dauðasveitir af sama tagi og Bandaríkjastjórn hefur starfrækt í Mið- og Suður-Ameríku. Ekki leið á löngu þar til Saraya Iraqna skaut upp kollinum og byrjaði að setja fé (bandaríska dollara) til höfuðs uppreisnarmönnum. Allt að 50.000 dollarar fyrir höfuðleðrið, var sagt í íraska dagblaðinu Al Ittihad. Haft var eftir þeim að þeir ætluðu sér ekki að vera vandfýsnir. Gefa bara út skotleyfi á alla sem eru álitnir óvinir.

Friday, February 25, 2005

Á deiglunni er stungið upp á því, að opnað verði fyrir þann möguleika að vera skráður í fleiri en eitt trúfélag. Því ekki það? Ég sé ekki hvers vegna trúfélög ættu ekki að hafa sömu réttarstöðu og önnur frjáls félagasamtök. Er skráning í þau ekki bara nokkuð sem þau eiga sjálf við félaga sína?
~~~ ~~~ ~~~

Ísraelar heimila verulega útþenslu landtökubyggða á Vesturbakkanum.
~~~ ~~~ ~~~

Athyglisverð greinargerð um "Bush-kenninguna".
~~~ ~~~ ~~~

Jónína Guðmundsdóttir, skólastjóri Holtaskóla, ætti að mínu mati að snúa sér að öðru en skólastjórn. Í þessari frétt segir hún um kristniboðið í skólanum: "Við munum ekki hætta nema okkur verði skipað að gera svo og ég skil ekki með hvaða rökum ætti að gera það."
Í alvöru talað, manneskja sem skilur ekki rökin fyrir því að halda trúboði utan við grunnskóla, og skilur ekki muninn á trúboði og færðslu um trú, er á rangri hillu í lífinu ef hún vinnur sem skólastjóri.
~~~ ~~~ ~~~

Þetta hugsa ég að ég kíki á:
Eigum við erindi í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna?
Samtök um vestræna samvinnu (SVS) og Varðberg, félag ungs áhugafólks um vestræna samvinnu, standa fyrir opnum fundi um þá stefnu stjórnvalda að Ísland taki sæti í öryggisráði SÞ árið 2007 þ.e.a.s. ef við hljótum fylgi til þess. Fundurinn verður haldinn þriðjudaginn 1. mars 2005 kl. 17:00 í Skála á II. hæð Hótels Sögu. Umræðuefnið er hvort Íslendingar eigi erindi í öryggisráðið, en það er spurning sem brennur á þjóðinni um þessar mundir.

Meðal spurninga, sem velt verður upp á fundinum eru: Getur smáþjóð eins og Ísland haft hlutverki að gegna innan öryggisráðs SÞ? Eigum við að taka þátt í að greiða atkvæði í öryggisráðinu um óvinsælar hernaðaraðgerðir SÞ í ríkjum sem ógna heimsfriði? Getur vopnlaus og friðsæl þjóð eins og Ísland leyft sér að forðast að taka örlagaríkar ákvarðanir í flóknum deilum í fjarlægum löndum eða heimsálfum? Er ávinningurinn þess virði? Hvað fengjum við jákvætt út úr setu okkar í öryggisráðinu?

...
Framsögumenn:
· Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
· Jónína Bjartmarz, þingmaður Framsóknarflokksins.
· Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður og formaður Vinstri grænna.

Thursday, February 24, 2005

Trúboðsskandallinn heldur áfram. Siðmennt hvetur menntmálayfirvöld til að sjá til þess að trúboði verði hætt strax. Vil líka benda á þetta.

Þeim, sem vilja eyða peningunum sínum í rusl, vil ég benda á að kaupa sér svona græju.

Sýrlendingar segjast ætla að verða samstarfsfúsir við Líbani og draga her út úr Líbanon og hjálpa við rannsóknina á morðinu á Hariri um daginn. Í Fréttablaðinu í gær var stórgóð grein um Sýrland eftir Jón Orm Halldórson.

Ný ríkisstjórn samþykkt í Palestínu. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn á að það takist að koma upp vísi að borgaralegu ríki í Palestínu. Frjálst, fullvalda réttarríki er ekki á næsta leiti, en vísir að borgaralegu ríki gæti verið það. Það væri skömminni skárra en það sem nú er, en ennþá mun þurfa gríðarlegar breytingar. Það er t.d. tómt mál að tala um frið ef ekkert er réttlætið, og hvar er réttlætið meðan landtakan er í algleymingi og múrinn rænir risastórum skákum af Vesturbakkanum? Áætlunin um að leggja niður landtökubyggðir á Gaza er réttara sagt áætlunin um að styrkja landtökubyggðir á Vesturbakkanum í sessi!

Wednesday, February 23, 2005

Allir muna eftir óhugnaðinum þegar Fallujah-borg í Írak var lögð í eyði og íbúarnir brytjaðir niður með stórvirkum vinnuvélum. Núna stendur til að endurtaka leikinn í súnnítaborginni Ramadi, til að hefna fyrir árásir sem eru eignaðar meintum hópi manna sem sagt er að meintur Jórdani sé í forsvari fyrir. Það kæmi mér reyndar ekki á óvart þótt þessar árásir væru framdar að undirlagi vestrænna leyniþjónusta; spila enda beint upp í hendurnar á hagsmunum Bandóðríkjahers.

Saklausum börnum spillt í skólanum


Ég er alveg bit yfir þessari frétt! Jónína Guðmundsdóttir, skólastjóri í Holtaskóla, sér ekkert athugavert við að boða börnum trú í skólanum, innræta þeim ranghugmynd, menga huga þeirra áður en þau koma sér upp gagnrýninni hugsun til að taka afstöðu til trúarbragða. Hvernig ætli henni þætti að hefja skóladaginn á íslamskri bæn?
Úff, mig sundlar beinlínis af því að sjá þessum krökkum spillt svona. Ef skólastjórinn Jónína sér ekki trúboðið í þessu og skilur ekki hvað er að því, þá hefur hún ekki burði til að gegna þeirri ábyrgðarstöðu að vera skólastjóri. Annars vísa ég í grein um þetta á Vantrú og tek undir með Matta Á. og Óla Gneista.

Monday, February 21, 2005

Ég ætla að horfa á Kastljósið í kvöld. Þar verður rætt um trúboð í grunnskólum og mun Sigurður Hólm Gunnarsson mæla gegn því. Ég þarf að taka fram eina athugasemd varðandi mín eigin ummæli í gær, um Sigurð og hans málflutning. Hann segir að kristið trúboð eigi ekki heima í fjölmenningarsamfélagi. Ég er í sjálfu sér sammála því, þótt mér finnist hugmyndin um "fjölmenningarsamfélag" asnaleg. Ég lít einfaldlega svo á að kristið (eða annað) trúboð eigi einfaldlega ekki að vera í verkahring hins opinbera. Alls ekki. Aldrei nokkurn tímann. Hreint ekki. Nixen bixen. Foreldrar og söfnuðir geta vel séð um það sjálfir ef þeim finnst það skipta máli. Ríkisvaldið á að vera algjörlega sekúlar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Steingrímur J. Sigfússon stingur upp á að stjórnarskrá Íslands kveði á um að það verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Heyr heyr, segi ég!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Eftir viku frost er Vantrú komin á kreik aftur. Því ber að fagna!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Eftir mánaðar þögn ræskir Gagnauga sig aftur og er komið með glæsilegt nýtt útlit. Það er nú flott hjá þeim, en ég vona að það komi fleiri greinar. Ég hef meiri áhuga á innihaldinu en útlitinu. Tékkið annars á heimildamyndahátíð Gagnauga sem stendur yfir í Snarrót um þessar mundir. Ýmislegt áhugavert þar á ferð. Talandi um Gagnauga, þá getur hér að líta athyglisverða úttekt á því sem efasemdarmenn um 11. september halda fram, þar sem sett eru fram mótrök. Mér þætti fróðlegt að sjá þeim svarað.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Þrítugasti hver jarðarbúi er þrælkað barn, skv. þessari frétt. Þrítugasti hver. Það er hægt að skrapa saman milljörðum fyrir stríðstólum, en til að leysa barnaánauð, hungur eða drepsóttir? Sorrí, ekki til neinir peningar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Ísraelar sleppa palestínskum föngum sem flestir voru næstum búnir að afplána hvort sem er. Í fréttinni segir:

Ísraelsstjórna sleppir föngunum til að styrkja Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna, í sessi og auka líkur á friðarviðræðum.
...
Þetta er samkvæmt vopnahléssamkomulagi Abbas og Sharons, forsætisráðherra Ísraels, fyrr í mánuðinum sem á að binda enda á uppreisn Palestínumanna sem hefur staðið í í fjögur ár. 8.000 Palestínumenn eru í ísraelskum fangelsum og fangabúðum margir án þess nokkru sinni að hafa verið ákærðir eða dæmdir.

Abbas er mikið í mun að friðmælast við Ísraela. Í viðtali við þýska vikuritið Der Spiegel segist hann reiðubúinn að semja um eina af helstu kröfum Palestínumanna fyrr og síðar, rétt palestínskra flóttamanna til að snúa heim. Miljónir Palestínumanna voru hraktir frá heimkynnum sínum þegar Ísraelsríki var stofnað 1948, margir búa enn í flóttamannabúðum.


Sharon reynir að styrkja Abbas í sessi. Kallið mig svartsýnan, en mér þykir það satt að segja ills viti. Flestum þessara fanga ætti að sleppa tafarlaust. Styrkja í sessi? Hvers vegna ekki að leyfa bara palestínsku þjóðinni að lifa í friði?

Vinnandi Palestínumaður er yfirleitt fyrirvinna stórrar fjölskyldu. Fyrir hvern af þessum 8000, sem margir eða flestir sitja inni saklausir, er fjölskylda sem er ekki bara hnuggin heldur svöng.

Ef Abbas segir að til greina komi að "semja" um rétt flóttamanna til að snúa heim, þá er hann að gera alvarleg mistök. Það er óásættanleg niðurstaða að flóttamenn séu sviptir réttinum til að snúa heim. Fyrir utan að Abbas getur það ekki einu sinni. Réttur flóttafólks til að snúa heim er einstaklingsbundinn og það er ekki hægt að svipta mann réttinum til að fara heim til sín.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Bush lofar betri heimi. Bush er lygari.
Um hver jól kemur út jólateskeið úr silfri, sem seld er hjá gullsmiðum. Það vill svo til að ég á mér uppáhalds jólateskeið. Það er skeiðin frá 1977. Hún er látlaus og smekkleg en þó sígild í hönnun. Löguð eins og gamaldags spónn. Sígild skeið.

Friday, February 18, 2005

Fasistinn John Negroponte, einnig þekktur sem Dauðasveita-Djonn, er nýr yfirmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna, allra 15. Um leið og hann er hreint afleitur kostur, þegar annars vegar er embætti með mikla ábyrgð og mörg tækifæri til að láta illt af sér leiða, verður að viðurkennast að Bandaríkjastjórn er sjálfri sér samkvæm og lætur ekki slá sig út af laginu. Til fasistaríkis skal stefnt og engar refjar!

Frétt: Fangar Bandaríkjamanna í Afghanistan sæta hrikalega illri meðferð. En sú frétt. Fyrir utan að þetta segir sig sjálft og er bara í stíl við vinnubrögð Bandaríkjastjórnar, þá hefur þetta verið vitað lengi. Ég hef vitað þetta lengi. Mig minnir að það hafi verið sirka í desember 2001 sem ég frétti fyrst af illri meðferð Bandaríkjahers á föngum í Afghanistan.
Ísraelar fyrirhuga að treysta tök sín á landtökusvæðum á Vesturbakkanum á næstunni. Ef þeir gera alvöru úr því að draga landtökumenn út af Gazasvæðinu verður því fagnað sem stórsigri á Vesturlöndum en reynt að breiða yfir að á sama tíma er landránið háð sem fyrr á Vesturbakkanum, þar sem a.m.k. 55% landsins verða innlimuð í Ísrael. Reyndar held ég að Sharoni muni leggjast eitthvað til, til að blása af eftirgjöf Gazasvæðisins. Ef málið er skoðað í samhengi megum við ekki einskorða okkur við Gazasvæðið. Það skiptir máli að sjá hvað Ísraelar eru að gera með hinni hendinni. Það sem er á dagskrá er ekki að landtökubyggðirnar verði lagðar niður, heldur skipulegt undanhald á einni vígstöð til þess að treysta til muna stöðuna á hinum vígstöðvunum.


Rússar staðfesta að þeir ætli að selja Sýrlendingum nýtt, skammdrægt eldflaugavarnakerfi. Ekki er langt síðan Ísraelar kynntu til sögunnar nýjan Markava-skriðdreka, fjórðu kynslóð, sérstaklega útbúinn til átaka í þéttbýli. Munu Ísraelar og Sýrlendingar lenda í stríði innan skamms? Ég veit það ekki, en hvorir tveggju búa sig af kappi undir þann möguleika og að Rafiq Hariri drepnum má segja að óveðursskýin hrannist upp.

Núna á laugardaginn hefst heimildamyndavika Gagnauga.is, og stendur hún til 27. febrúar. Að þessu sinni sýnum við 47 heimildarmyndir um alþjóðamál, trúarbrögð, grín og ýmiss konar fræðsluefni. Sýningarnar fara fram í húsakynnum Snarrótar að Garðastræti 2, 101 Reykjavík. Aðgangseyrir er 300 krónur fyrir hverja mynd, en passi sem gildir á allar myndirnar kostar 1.500 krónur. Dagskrá heimildarmyndavikunnar og umfjöllun um myndirnar er að finna á Gagnauga.is.
Í DV í gær sá ég minnst á nýlega hugvekju mína á Vantrú, "Mamma þín er komin af öpum". Ný"frelsuðum" útvarpsmanni hafði runnið þetta svo til rifja, að hann sá ástæðu til að skýra frá því í útvarpinu, að hann væri sko ekki kominn af öpum. Sú yfirlýsing vekur satt að segja fleiri spurningar en svör.

Thursday, February 17, 2005

Andskotinn sjálfur, þetta er ekkert annað en óhugnanleg framtíðarsýn. Vélhermenn. Í apríl er fyrirhugað að vopnuð útgáfa af sprengjuleitarvélmenni komi á stræti Baghdadborgar. Getur skotið 1000 kúlum á mínútu. Ekki vildi ég falla fyrir kúlu frá vélmenni. Ekki vildi ég vera kúgaður af vélmenni. Ef það eru vélmenni sem eru á vígvellinum þurfa herskáir stjórnmálamenn ekki lengur að hafa áhyggjur af mannfalli í eigin röðum, og ekki heldur af minni áhuga almennings af að munstra sig í herþjónustu. Hömlur á stríðsrekstri verða miklu minni -- sem þýðir að stríðsrekstur verður miklu meiri. Auðveldari og áhættuminni stríð = meiri stríð. Algjört ógeð.
Rafiq Hariri var myrtur og hver fjölmiðillinn étur upp eftir öðrum að nú "berist böndin að Sýrlendingum". Segir hver? Meðan þeir segja þetta með annarri tungunni segir hin að það sé "óljóst" hver hafi framið morðið.
Getur hvort tveggja verið rétt? Er þversögn að segja að "það sé óljóst hver framdi morðið, en böndin berist að Sýrlendingum"? Ég er sannast sagna ekki viss. Allavega þykist ég kenna þekkta tilhneigingu til að gefa hlutina í skyn í staðinn fyrir að segja þá fullum fetum. Ef þeir eru sagðir fullum fetum og síðan sannast hið gagnstæða, þá er auðveldara að húkka menn fyrir óvandaðan málflutning.
Í gær bloggaði ég um þetta sama morð og vísaði þá - og vísa hér með aftur - í þessa ágætu grein um pólitískar hliðar á því. Í dag birtist önnur ágæt grein sama efnis. Ég er mjög efins um að Sýrlendingar hafi gert þetta. Nautaskítslyktin af málflutningnum er of sterk.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Efnavopna-Alí verður flengdur. Skemmtilegt að láta þetta viðurnefni festast svona við hann. Við þurfum að finna góð viðurnefni á vestræna stjórnmálamenn, Efnavopna-Halldór og félaga. Bandaríkjaforseti gæti verið Guantanamo-Georg eða Abu Ghreog. Halldór Ásgrímsson ... hmm ... Halldór herskái? Það þarf að leggjast yfir þetta.
~~~ ~~~
Stormsveit stórlandeigenda í Para í Brasilíu myrðir forkólfa í verkalýðsbaráttunni. Á ykkur sem hafið ekki séð The Burning Seasons með Raul Julia skora ég að sjá hana. Í Suður-Ameríku er ólga í stéttabaráttunni. Á Íslandi láta menn eins og stéttabaráttan sé áróðursbragð úr kalda stríðinu og verkalýðsforystan spilar bridds við auðvaldið.
~~~ ~~~
Talandi um auðvald, þá skrifar Ögmundur Jónasson beinskeytta grein í Morgunblaðið í dag, miðopnu. Þar kallar hann þá menn, réttilega, aunokunarauðvald, sem eru að rísa upp hér á Íslandi. Einokunarauðvald er þetta, einokunarauðvald skal það heita.
~~~ ~~~
Hér er ágæt grein um það hvernig sömu Repúblíkanarnir og ærðust yfir einkalífi Bill Clinton og einhverju fjármálahneyksli, berjast nú á hæl og hnakka fyrir Bush, sem hefur ekki bara kostað bandarísku þjóðina hundruð milljarða dollara og orðstírinn í þokkabót, heldur einnig logið blákalt aftur og aftur. Fjölmiðlarnir taka gagnrýnislítinn þátt í skrípaleiknum. Hvert stefnir þetta eiginlega?

Wednesday, February 16, 2005

Á næstu mánuðum verða haldin þemakvöld á ensku í Snarrót, með framsögum og umræðum sem fara fram á ensku. Kvöldin verða öllum opin, en sérstaklega hugsuð fyrir þá sem eru ekki sleipir í íslensku. Dagskrá verður auglýst síðar, en dagsetningarnar verða þessar: 1. mars, 15. mars, 5. apríl, 19. apríl, 3. maí og 17. maí.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Aðalfundur Félagsins Ísland-Palestína verður haldinn í Norræna húsinu sunnudaginn 20. febrúar klukkan 16:00.

Dagskrá:
1. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir í máli og myndum frá nýlegri ferð sinni til hertekinnar Palestínu.
2. Venjuleg aðalfundarstörf.

Allir velkomnir.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Frétt: Kristinn H. Gunnarsson fer í þrjár nefndir og er tekinn í sátt af þingflokki Framsóknarflokksins. Vonir standa til að hann verði ekki til vandræða á landsfundi flokksins síðar í mánuðinum. Ég held að ég hefði brugðist verr við en Kristinn gerði, ef ég hefði lent í því sama. Mér finnst hann samt koma út úr þessu sem meiri maður. Ég var annars að komast að því að Kristinn er með heimasíðu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Þetta morð í Beirút, þar sem Rafiq al-Hariri var myrtur, hefur vakið athygli. Risastór sprengja, ítarleg skipulagning, nákvæmar upplýsingar .. þarna var leyniþjónusta á ferðinni. Meðan margir fingur benda á Sýrlendinga, þá bendir ýmislegt til að verið sé að gera þá að blóraböggli. Hér er kenning: Leyniþjónusta Bandaríkjanna eða Ísraels framdi morðið til þess að réttlæta herta afstöðu gegn Sýrlendingum, þar á meðal að settur verði þrýstingur á þá að draga herinn út úr Líbanon, og að búa í haginn fyrir efnahagsþvinganir eða stríðsæsingar gegn þeim. Annars vil ég benda á þessa ágætu grein um morðið.

Monday, February 14, 2005

Palestína, N-Kórea, Nepal, um stjórnarandstöðu og Zimbabwe


Palestína


From now on, I have a partner, segir Abbas um Sharon. Mér finnst það hljóma eins og Abbas sé í vondum félagsskap. Ég sé ekki fyrir mér að Sharon sé maðurinn sem stillir til friðar. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég efast um að Abbas sé sá heldur. Þótt það sé kannskí út úr karakter af minni hálfu, þá held ég að ég geri orð spámannsins Jesaja að mínum: Ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. (Jesaja 32:17) Jesaja gamli hittir þarna naglann á höfuðið: Friður er ávöxtur réttlætis. Án réttlætis er tómt mál að tala um frið.
Á orðum Sharons er ekki mark takandi. Hvað gerir hann? Mun hann hefja niðurrif aðskilnaðarmúrsins? Mun hann hefja brottflutning landtökumanna? Mun hann hætta við að innlima meira en helming Vesturbakkans inn í Ísrael? Mun hann hleypa flóttamönnunum heim? Augabrúnirnar á mér munu lyftast þann dag sem einhverri þessara spurninga verður hægt að svara játandi. Þangað til er ég tortrygginn.

N-Kórea


Suður-Kórverjar segjast efast um að Norður-Kórverjar eigi kjarnorkuvopn. Ég held að Kim Jong-il og félagar séu búnir að vinna þessa skák. Hvað sem um þá má segja að öðru leyti, þá virðist leikfléttan hafa gengið upp. Norður-Kórea komst fyrir löngu í hóp óárennilegustu ríkja að ráðast á, en það kæmi vægast sagt á óvart ef það yrði ráðist á hana úr þessu. Ég held að hallarbylting í Pyongyang sé sterkasti leikurinn fyrir óvini Norður-Kóreustjórnar.

Nepal


Valdaráni konungsins um daginn svöruðu maóistar með því að lýsa allsherjarbanni á ferðir og flutninga í landinu. Það hefur gengið nokkurn veginn eftir.* Sumir fylgja því af stuðningi við maóista, aðrir af ótta við hefnd þeirra.

Lagt fram frumvarp um "frelsun" Írans.

Um stjórnarandstöðu og Zimbabwe


Það er mikill misskilningur að þar sem ríkisstjórn er afturhaldssöm hljóti stjórnarandstaðan að vera framsækin. Algengara er að ríkisstjórn sé afturhaldssöm og stjórnarandstaðan sé það líka. Satt best að segja held ég að sú regla hafi ekki margar undantekningar, að minnsta kosti ekki um þessar mundir. Í löndum á borð við Júgóslavíu og Georgíu, og nú síðast Úkraínu, höfum við horft upp á valdaskipti sem vestrænir fjölmiðlar hafa kallað byltingar en eiga í raun lítið skylt við byltingar. Í öllu falli hafa nýju valdhafarnir ekki verið neitt betri en þeir gömlu; eini munurinn sá að þeir eru hallari undir vestræna hagsmuni en þeir gömlu.
Nú í mars standa fyrir dyrum kosningar í Zimbabwe. ZANU-PF, hreyfingu Mugabe forseta, er spáð stórsigri með kosningasvindli. Sterkasta hreyfingin í stjórnarandstöðunni er Movement for Democratic Change. Mugabe er vondur svo þeir hljóta að vera góðir, ekki satt? Ég leyfi mér að efast. Meðan Mugabe hefur ótvírætt gert margt sem hann hefði betur sleppt, þá eru MDC hreint engir englar heldur. Suður-Afríkumenn eiga mikla hagsmuni í hreyfingunni, svo og ýmis lönd breska samveldisins. Með þeim í liði er sjálfur Ian Smith. Þess má geta að í gamla daga, þegar Mugabe kallaði sig marxista, þá var það ZANU, sem þá barðist gegn apartheid-stjórn Ians Smith, sem var framsækna stjórnmálaaflið. Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Smith tapaði fyrir Mugabi 1980, Rhódesíu var breytt í Zimbabwe, og Mugabe fór að hlaða undir sjálfan sig og fylgismenn sína. Sjálfur hallast ég að því að Chimurenga III, landa-uppskiptaáætlun Mugabes, þar sem land hefur veriðt ekið af hvítum búgarðaeigendum og fengið fátækum svörtum bændum, sé kannski ekki alveg eins slæmt og látið er hljóma í vestrænum fjölmiðlum.

Sunday, February 13, 2005

19. mars eru stór mótmæli gegn Íraksstríðinu. Hvað varðar hversdagsmótmælin í Lækjargötu og á Austurvelli, þá held ég að það muni ekki fara mikið fyrir mér í þeim. Ég er orðinn hundleiður á mótmælum. Þótt maður fái góða samvisku af að standa á Lækjartorgi í klukkutíma, spjalla, veifa skilti og fá kvef, þá er því miður lítið upp úr því að hafa. Spjallið getur eins vel farið fram á kaffihúsi. Hans hávelborinheit geta eins vel tekið við mótmælum í umslagi. Já, mótmæli eru ansi vinsæl en bera ekki árangur að sama skapi. Orku manns og tíma er betur varið í annað, er ég hræddur um.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Í dag er hugvekja eftir mig á Vantrú. Mamma þín er komin af öpum nefnist sú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Styrmir Gunnarsson segir í leiðara Morgunblaðsins í gær, 12. febrúar:
Það er tímabært að alvöru umræður hefjist hér um utanríkisstefnu Íslands á 21. öldinni. Sá skotgrafahernaður, sem stjórnarandstaðan og sumir fjölmiðlar hafa haldið uppi gegn Halldóri Ásgrímssyni, forsætisráðherra, undanfarnar vikur vegna Íraksstríðsins skiptir engu máli og þjónar engum tilgangi.
Þá vitum við það, Styrmi Gunnarssyni finnst það ekki þjóna neinum tilgangi að menn séu ábyrgir gjörða sinna eða sannsöglir um embættisfærslu sína. Á sömu miðopnu ritar Steingrímur J. Sigfússon góða grein um sama mál.
Ríkisstjórnin og þeir sem halda uppi vörnum fyrir hana vilja ekki að þetta mál sé rætt. Það er skiljanlegt, þar sem skammarlisti þeirra er langur og fjölbreyttur. Halldór og Davíð vilja ekki bera ábyrgð á gjörðum sínum og það vilja stuðningsmenn þeirra ekki heldur að þeir geri eða séu látnir gera.
Þegar fylgismenn árásarstríðsins gegn Írak tala um að andstæðingar þess eigi að hætta að "velta sér upp úr fortíðinni og snúa sér að uppbyggingu í Írak" eru þeir einfaldlega eins og krakkar sem bregðast hinir verstu við þegar er komið að þeim með hendina ofan í kökukrúsinni: "ég má þetta alveg" "hættessu".. Ef ég dræpi mann, hversu góð málsvörn væri það þá fyrir rétti, að segja yfirvöldum að láta mig í friði og einbeita sér frekar að því að hugga ekkjuna?

Saturday, February 12, 2005

Nú höfum við staðið við Stjórnarráðið í hverju hádegi þessa viku og mótmælt. Næstu viku ætlum við að vera á Austurvelli í hádeginu alla virka daga.
Hér með skora ég á fólk að mæta á mótmælin. Skilti eru velkomin; þeir sem ekki eiga skilti geta nálgast þau í Snarrót í Garðastræti 2. Þeir sem vilja hringja á undan sér geta gert það: 5518927 er síminn.
Þessi hádegismótmæli eru ekki bara mótmæli. Þau eru líka fundir. Við stöndum ekki þögul og mótmælum, heldur ræðum við okkar á milli og við vegfarendur. Þannig eru þetta frjóir fundir, þar sem hugmyndir og aðgerðir eru ræddar. Ég hvet fólk til að koma í hádeginu á mánudaginn og taka þátt.
Var að koma út fyrstu vettvangsferð Hins íslenska tröllavinafélags. Gengum fjögur upp að Tröllafossi í Mosfellssveit. Ferðin gekk að flestu leyti, en veðrið var vægast sagt hryssingslegt. Hífandi norðanrok, allmikil ofankoma og mjög mikill skafrenningur. Við vorum öll kyrfilega klædd, og veitti sko ekki af. Gengum upp að Tröllafossi og átum nokkuð af nesti þar, en gengum svo til baka og átum súrmat og fleira í jeppabifreið formannsins. Sérstaklega var ánægjulegt hvernig maturinn var að mestu leyti gaddfreðinn. Harðfiskurinn stóð undir nafni; ég hef tuggið skósóla sem voru mýkri undir tönn. Já, þessi ferð gekk frekar vel. Hið íslenska tröllavinafélag getur vel við unað.

Friday, February 11, 2005

Meirihluti Vöku er fallinn! Hvað nú? Munu Vaka og Röskva mynda samsteypustjórn? Mun önnur hvor hreyfingin bjóða Háskólalistanum samstarf? Hver sem niðurstaðan verður, þá er þetta stórsigur fyrir Háskólalistann. Ef Stúdentaráð kemst nálægt því að vera heilt og óklofið út á við, þá er það stór áfangasigur fyrir H-listann. Glæsilegt, glæsilegt!

25 hús verða rifin við Laugarveg. Ég tek heils hugar undir með Ólafi F. Magnússyni í að mótmæla því. Mér rennur til rifja að sjá grisjuð burt rótgrónustu hús borgarinnar. Það getur verið að það sé rétt að rýma til fyrir nýjum húsum; ekki skal ég útiloka það. Ef sú er raunin, þá vildi ég frekar sjá þessa öldnu höfðingja flutta en rifna.

Þessa frétt, um barnaþrælkun í kakóframleiðslu í Vestur-Afríku, er ástæða til að benda á.

Þessa líka. CIA og fleiri vissu vel að árás á WTC væri yfirvofandi. Það, að þeir skyldu ekki grípa í taumana, er vægast sagt tortryggilegt. Fyrst þeir gerðu það ekki liggur næst við að ætla að einhverjir séu með óhreint mjöl í pokahorninu. Sjá einnig hér.

Thursday, February 10, 2005

Ég gekk Skothúsveg úr austri fyrr í dag. Nokkuð bar fyrir augu mín: Vestast í Hljómskálagarðinum, eða meðfram Bjarkargötu, vestast í trjálundinum sem myndar vestur-hluta Hljómskálagarðsins, hefur verið tekin heljarmikil fjöldagröf. Hún gín þarna, tveir faðmar á breidd, 40 eða 50 faðmar á lengd og 2,5-3 faðmar á dýptina. Hverja skyldi eiga að fjöldamyrða? Ætli kínverskur erindreki sé á leiðinni og Njarðvíkurskóli dugi ekki lengur fyrir Falun Gong-menn?

Doddi bendir á, og ég tek undir, að Bush og Bliar eru rúnir trausti og trúverðugleika. Traust og trúverðugleiki eru eins og heiður og virðing; það er fljótgert að brjóta niður en tekur ærinn tíma og fyrirhöfn að byggja upp. Nú virðast þeir vera að hvetja kutana í stríð gegn Íran. Ef þeir vilja fara í stríð við Íran, þá gera þeir það bara. Þeir hafa herjum og gereyðingarvopnum á að skipa og Bush getur ekki boðið sig fram til endurkjörs aftur. Ég efast um að Bliar muni þrauka yfir næstu kosningar heldur. Það stöðvar samt náttúrlega ekki stríðsherra með einbeittan brotavilja. Það verða engar þjóðaratkvæðagreiðslur um stríð gegn Íran. Það verður ákveðið á tveggja manna tali. Lifi lýðræðið. Látum frelsinu rigna yfir þessa skítugu handklæðahausa.



Halldór Ásgrímsson stynur því upp að Bandaríkjamenn hafi sett "mikinn þrýsting" á Íslendinga og hótað að taka burt elsku þoturnar ef Ísland styddi ekki stríðið. Þetta grunaði nú flesta, en færri sem sögðu það upphátt. Það kemur hins vegar á óvart að Halldór skuli þora að viðurkenna það. Kannski að Steingrímur Hermannsson hafi tekið hann á eintal? Hugsa sér. Sendiherra Bandaríkjanna hringir í Davíð og segir til hvers er ætlast af honum. Ekki ræða þetta við utanríkismálanefnd, það flækir bara málið. Þrjóskist við og étið frasana upp eftir okkur. Þetta reddast allt. Þoturnar fara samt, þegar stríðið er búið. Ég mundi kenna í brjósti um Halldór ef þetta væri ekki sjálfsskaparvíti hjá honum.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson og þingmannalið þeirra standa eins og asnar. Eins og krakki sem er gripinn með lúkuna í kökukrúsinni. Vita upp á sig skömmina, allir vita hvernig í pottinn er búið og þeir sjálfir ekki síst. Á þessum tímapunkti mundi maður með snefil af sjálfsvirðingu segja af sér. Ef maður með snefil af sjálfsvirðingu hefði nokkurn tímann komist í þessa aðstöðu.

Á Mbl.is er ágæt samantekt um umræðurnar í þinginu í dag, þar sem stjórnarmenn virðast hafa þau svör helst, að stjórnarandstaðan eigi að láta þá í friði og hætta að velta sér upp úr aðild þeirra að árásarstríði og tilheyrandi brotum á alþjóðalögum og mannréttindum. Þetta vakti athygli mína:
Vegna ummæla Ingibjargar Sólrúnar um stefnubreytingu, þá sagði Halldór að það lægi alveg ljóst fyrir, varðandi árásir vestrænna herja á Kosovo-hérað í Júgóslavíu, að öryggisráð SÞ hafi ekki samþykkt þær. Sagðist Halldór ekki muna betur en að Samfylkingin hafi stutt á sínum tíma þegar íslensk stjórnvöld veittu þeim aðgerðum stuðning.
Athyglisvert að Halldór skuli vilja rifja upp þátt sinn í Júgóslavíustríðinu, þar sem hann og Davíð studdu m.a. þá ákvörðun Nató, að fréttastofa serbneska sjónvarpsins væri löglegt skotmark, sem aftur skilaði sér í morðum á júgóslavneskum fréttamönnum. Ef ég væri Halldór mundi ég frekar reyna að gleyma Júgóslavíustríðinu.

Davíð skýrir frá framlagi Íslendinga til vopnaflutninga til Íraks. Þarna er ein hernaðaraðgerðin sem Íslendingar taka þátt í.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~



Norður-Kóreumenn segjast eiga kjarnorkuvopn. Kemur ekki á óvart. Ef þetta væri eltingaleikur, þá væru Norður-Kóreumenn núna komnir í "stikk" -- það böggar nefnilega enginn mann sem á kjarnorkusprengjur. Norður-Kórea er svosem fyrir löngu búin að koma sér upp nægum herafla og vopnum til að fæla frá sér hvaða árásaraðila sem er, en þetta er kirsuberið á rjómatertuna.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~



Og talandi um kjarnorkusprengjur, þá er nú gott að hugsa til þess að við Evrópumenn höfum okkar skerf tilbúinn.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~



Fór í dag og mótmælti í hádeginu hjá Stjórnarráðinu. Þar verða aftur mótmæli í hádeginu á morgun. Fólk er velkomið, við bítum ekki. Ekki einu sinni þá sem eiga skilið að vera bitnir...

~~~ ~~~ ~~~ ~~~



Fór annars líka í gærkvöldi á bíó í boði SUS. Fahrenhype 9/11 var myndin. Ég fór eftir á að giska hálftíma. Það getur hugsast að ég eigi eftir að gera aðra tilraun til að sjá þessa mynd, en hún var ekki bara léleg, heldur leiðinleg líka. Ann Coulter og David Frum að segja hvað þeim þætti Bill Clinton vera mikill bjáni. Og Michael Moore vitlaus. Og George Bush frábær. Ég skil ekki hvað ungir sjálfstæðismenn telja sig vera að gera með því að skipa sér í lið með öfgakristnum, herskáum neo-conservative repúblíkanadelum. Ef þeir halda að þetta sé sterkur leikur, pólitískt séð, þá lýsi ég því hér með yfir að ég held að það sé ekki svo. Ef þeim gengur hreinskilnin ein til, að þeir séu að draga línurnar og þeir séu í þessum félagsskap og skammist sín ekki fyrir það, þá tek ég ofan fyrir þeim.

Tuesday, February 8, 2005

Vettvangsferð Hins íslenska tröllavinafélags





Fyrsta vettvangsferð/þorrablót starfsársins verður laugardaginn 12. febrúar. Áfangastaðurinn er Tröllafoss í Mosfellssveit og ferðatilhögun verður sem hér segir:

Tekinn verður strætó upp að Laxnesi. Leið 25 gengur þangað og fer frá Ártúni. Hann gengur 5 sinnum á dag, við tökum vagninn sem fer frá Ártúni 11:56 og verðum þá komin að Laxnesi klukkan 12:23.

Fólk er hvatt til að mæta tímanlega í Ártún til að missa örugglega ekki af þessum vagni!

Þeir sem vilja koma sér sjálfir í Laxnes mega það að sjálfsögðu!

Í Laxnesi söfnum við liðinu og leggjum í hann um 12:30. Við göngum sem leið liggur, nokkurra kílómetra leið, norður að Tröllafossi, sem er í Haukafjöllum norðanmegin í Mosfellsdalnum. Þegar þangað kemur svipumst við um eftir tröllum og étum súrmat og annað nesti áður en við göngum til baka að Laxnesi, þaðan sem við tökum strætó í bæinn sem fer frá Laxnesi 18:23.

Þar sem þetta er 6 klukkutíma ganga, þá er rík ástæða til að klæða sig vel. Hið íslenska tröllavinafélag vill ekki að félagar þess verði úti! Hlý föt, góðir skór, þurrir sokkar. Nesti. Annað sem fólki finnst ómissandi í útivist. Það er ekki skemmtilegt að vera svangur og kaldur í 6 tíma!

Fararstjórar eru Davíð Arnar Runólfsson og Vésteinn Valgarðsson. Verð er 600 krónur fyrir borgandi meðlimi, 800 fyrir aðra. Innifalinn í verði er súrmatur, og einhver lögur til að skola honum niður. Ath. fargjald með strætisvagni (220 kr.) er ekki innifalið. Hægt verður að borga félagsgjald á staðnum (1500 kr.) og jafnvel ganga í félagið, þeir sem það vilja. Tekið skal fram að þeir sem ekki eru skráðir félagsmenn eru velkomnir með líka. (Einnig skal tekið fram að vel getur verið að semja megi við gjaldkera ef fólk hefur séróskir um greiðslu...)

Þeir sem ætla með í ferðina eru beðnir að tilkynna þátttöku sína eigi síðar en á hádegi á föstudag, 11. febrúar, í netfang félagsins: trollavinafelag@gmail.com. (Það er til þess að það verði örugglega til nægur súrmatur!)



Fjölmennum nú í þessa skemmtilegu ferð!
Vopnahléi lýst yfir í Palestínu. Ég held ég leyfi mér bara að vera vongóður, þótt bjartsýni mín sé af skornum skammti.



Samkvæmt þessari könnun mundi ríkisstjórnin falla naumlega ef kosið væri nú og stjórnarandstaðan gæti myndað stjórn með mjög naumum meirihluta. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn gætu myndað stjórn með vænum meirihluta. Maður á nú von á að sú verði raunin eftir næstu kosningar. Viðeyjarstjórnin II. Hvað ætti Samfylkingin að vera að púkka upp á VG og Frjálslynda flokkinn?

~~~~ ~~~~ ~~~~ ~~~~



Ég stóð í dag frá því upp úr 11 þangað til rétt fyrir 12 fyrir framan Stjórnarráðið við annan mann, með skilti. Á morgun er mótmælastaða milli 12 og 13, og þá vonar maður að mætingin verði aðeins betri. Áletrun dagsins í dag var: "Sprengidagur á Íslandi - sprengidagur í Írak".

~~~~ ~~~~ ~~~~ ~~~~



Ég þarf að fara að uppfæra linkalistann hér til hliðar. Geri það á morgun.

Monday, February 7, 2005

Afrek dagsins, Kviksaga, háskólapólitík, fréttir



Ég fór áðan og stóð í klukkutíma fyrir framan Stjórnarráðið með skilti. Ætla aftur á morgun.



Það hefur verið opnað nýtt vefrit um sagnfræði, Kviksaga. Lítið á þessa stórglæsilegu síðu!



Önnur stórglæsileg síða sem fólk (einkum þeir sem hafa kosningarétt í kosningunum í Stúdentaráð) ætti að kíkja á er heimasíða Háskólalistans, framsækna og málefnalega listans í háskólapólitíkinni. Röskvaka er pólitískur leikskóli sem gerir ekki annað en spilla fyrir hagsmunabaráttu stúdenta. Háskólalistinn, já takk!



(Gleymið heldur ekki Alþýðulistanum!)

~~~~~~~~~~~~~~~~



Úr fréttum:

* Samtök herstöðvaandstæðinga fóru í óvissuferð á sama tíma og Bandaríkjaher hélt heræfingu á Íslandi. Nú heldur Bandaríkjaher heræfingu á Filippseyjum og New People's Army tekur heldur dýpra í árinni.

* Á meðan filippeyskir maóistar hóta Bandaríkjaher hóta nepalskir maóistar harðstjóranum Gyanendra. Prachanda formaður ráðleggur Nepölum að birgja sig upp af nauðsynjum; ef harðstjórinn dragi ekki andlýðræðis-ráðstafanir sínar frá því um daginn til baka, þá verði hart látið mæta hörðu.

* Hér er greinarstúfur um umsátursástandið í Nepal. Stjórnarherinn situr í virkjum sínum, maóistar fara sínu fram.

* Kim Jong-il er byrjaður að auka veg sona sinna, væntanlega til að einn þeirra muni taka við eftir hans dag, en Kim er 63ja ára. Ef arftakinn heitir Kim Jong-Ill, þá splæsi ég umgang!

Saturday, February 5, 2005

Bill Van Auken skrifar um kosningarnar í Írak og ber saman við kosningarnar í Víetnam 1967. Sá samanburður er vægast sagt áhugaverður: Báðar kosningarnar eru skrípaleikur, til þess ætlaður að réttlæta heimsvaldastríð. Lesið greinina; hann hefur mikið til síns máls. Það er ástæðulaust að vera bjartsýnn um framhaldið í Írak.

~~~~~~~~~~~~~

Ég var loksins að sjá Super Size Me, sem er ansi áhugaverð mynd. Þeir sem hafa ekki nú þegar tekið meðvitaða ákvörðun um að sniðganga McDonald's og ámóta rusl-keðjur (já, líka KFC og Burger King!) ættu að horfa á þessa mynd og lesa síðan Fast Food Nation eftir Eric Schlosser. Málefni skyndibitaiðnaðarins reifað og tekið á flestum hliðum þess.

~~~~~~~~~~~~~

Hópur Belga reynir hópsjálfsmorð með blásýru. Mistekst. Hvers vegna? Aðferðin sem þeir notuðu - sama aðferð og hómópatar nota til að útbúa "lyf" - virkar ekki.

~~~~~~~~~~~~~

Bandaríkin: Gangavarða-löggur í skólum útbúnir með taser-rafbyssur. Óhugnanlegt.

~~~~~~~~~~~~~

Hér er áhugaverð grein um vímuefni, vandamál og bönn.

Friday, February 4, 2005

Naumast er það fylgið hjá Framsókn, heil 8%! Ég vona að þessi glæsilegi árangur eigi eftir að skila sér í næstu kosningum.

Talandi um næstu kosningar, þá sé ég fyrir mér Samfylkingu-Sjálfstæðisflokk sem samsteypustjórn. Ég verð bara að játa, að ég sé ekki hvers vegna Samfylkingin ætti að nenna að leita til VG eða F eftir samstarfi þegar samstarf við Sjálfstæðisflokkinn skilaði svona miklu sterkari stjórn.
Úff, á laugardag eftir viku er fyrsta vettvangsferð Hins íslenska tröllavinafélags. Helvíti líst mér vel á þetta. Þið sem þetta lesið, og eruð skráðir félagsmenn, eigið von á fréttabréfi félagsins eftir helgi. Þið sem þetta lesið, og eruð ekki skráðir félagsmenn, megið samt koma. Farið verður upp að Tröllafossi í Mosfellssveit. Áhugasamir geta haft samband: vangaveltur@yahoo.com eða trollavinafelag@gmail.com til að fá nánari upplýsingar.

Thursday, February 3, 2005

Fyrir nokkru lýsti ég ánægju minni með framkvæmdirnar í Suðurgötu. Ánægju með að gangstéttin skyldi breikkuð um hálfan metra, gangbrautum fjölgað o.s.frv. Ég hef einu að bæta við þann lista, sem er þetta: Þar sem til skamms tíma var gangstétt í norður frá Suðurgötu 29 og endaði í engu fyrir ofan Ráðherrabústaðinn, þar er ekki lengur gangstétt heldur komin beð sem mér sýndist hafa verið plantað víði í. Það er gott.



Nú er komið að því sem ég er óánægður með:

1. Á horni Skothússvegar og Suðurgötu er niðurfall fyrir rigningarvatn. Frá því er aflíðandi vegarkanturinn í norður, svo að fyrir norðan niðurfallið kemur allstór pollur. Þetta er afkáraleg mistök sem auðvelt hefði verið að sneiða hjá.

2. Nýja beðið, sem ég áður gat um, austan götunnar og norður frá Suðurgötu 29, er óvarið. Einhver snillingur hefur keyrt ofan í það svo djúpt hjólfar eftir jeppa sker nú beðið og hefur kramið a.m.k. 1 eða 2 víðisprota. Ef ætlunin er að hafa þarna beð, þá þarf að búa þannig um að menn séu ekki spólandi í því.

3. Gangstéttin er gljúp og sumsstaðar sígur regnvatn milli hellna, étur burt sand undan þeim svo svoglar í þegar á þær er stigið í rigningu. Ég á nú von á að þetta verði lagað, og að stéttin þéttist eftir því sem sandurinn trampast ofan í hana.

4. Nyrðra hornið á Suðurgötu og Kirkjugarðsstíg er ennþá slysagildra. Þegar maður fer niður Kirkjugarðsstíg í hálku og kemur á þetta horn er hallinn þannig að hornið er ekki "með manni í liði" ef svo má segja: Það hallar út á götuna á sjálfu bláhorninu svo ef maður gengur niður og beygir þarna til vinstri á hálku er auðvelt að renna á raskatið út á götu og steindrepast. Þarna mætti vera handrið, í líkingu við handriðin þar sem Spítalastígur kemur niður á Þingholtsstræti.

5. Það hefði verið meinalaust af minni hálfu, hefðu hraðahindranir verið fleiri. Suðurgata er ekki bara tengibraut, hún er líka húsagata. Þarna búa börn og veruleg umferð gangandi vegfarenda, fullorðinna og barnungra, og umferðin bæði hröð, hávær og mengandi.




...og hananú!
Það stendur til að selja gullnámuna Símann. Fyrir lítið fé. Erlend fyrirtæki sýna áhuga. Það á að selja þessa gullnámu úr landi. Byggja nýtt hátæknisjúkrahús fyrir söluandvirðið. Gulrót. Á þeim tíma sem sjúkrahús það væri í byggingu mundi Síminn skila nægum arði til að borga fyrir það, ef hann væri ekki seldur. Maður andvarpar bara. Svo álasa hægrimenn vinstrimönnum fyrir ábyrgðarleysi í fjármálum!
Vopnahlé í vændum í Palestínu? Ég vona það. Vona að það verði meira en bara stund milli stríða, þótt hitt sé óneitanlega líklegra. Vísa hér með aftur á góða grein meistara Avnerys um þetta mál og tilfinningar mann um þessar mundir.

~~~~~~~~~~~~



Sagt að það sé að hitna undir Gyanendra Nepalskonungi, sem var að skipa nýja ríkisstjórn með sjálfan sig í forsæti og segist ætla að ríkja sjálfur næstu þrjú árin. Hefur kóngur m.a. sagt að á þessum þremur árum muni hann "koma lýðræðinu aftur í samt lag" í landinu. Ekki líkleg niðurstaða. Ef maóistarnir verða ekki búnir að steypa honum eftir þrjú ár verð ég hissa. Talandi um maóistana, þá fordæmir Prachanda formaður þessar gjörðir konungs, kallar hann einsræðissinna og landráðamann. Ég sé ekki betur en að hann hitti naglann á höfuðið. Um leið hafa maóistar lýst yfir þriggja daga allsherjarverkfalli frá og með morgundeginum. Ég veit ekki hvort það er óskhyggja í mér, en í útliti minnir Gyanendra konungur mig aðeins á dómsmálaráðherra ónefndrar eyju í N-Atlantshafi...

Wednesday, February 2, 2005

Hann Doddi hefur bloggað heilmikið upp á síðkastið og ég tel ástæðu til að benda fólki á að líta í heimsókn til hans. Skrifar m.a. um stríð og frið, lýðræði, olíu, umhverfismál og fleira. Drengur góður, hann Doddi. Þar sem ég talaði um þennan "al-Zarqawi", þá benti Doddi á þessa grein sem ég bendi hér með á. Í þessari grein reifar William Bowles málið með "Zarqawi" býsna vel. Ég hvet fólk til að lesa hana.

~~~~~~~~~~~~~~~~

Kommenterað var:
ég hef ekkert við þetta að bæta, nema það að ég hef enga trú á að unnt sé að snúa hagkerfinu til betri vegar.

Hins vegar er smá smuga að brjóta það niður og byggja nýtt.
Það er nú einmitt það sem ég vildi sjá gerast. Nýtt hagkerfi vex upp innan þess gamla eins og ungi inni í eggi. Þegar unginn er orðinn nógu stálpaður brýtur hann skurnina utan af sér. Það er best og árangursríkast að brjóta gamla kerfið niður jafnóðum og það er mögulegt, með því að grafa undan stoðum þess. Þ.e. með því að byrja á uppbyggingu nýja kerfisins, sem með yfirburðum sínum mundi veita gamla kerfinu skeinuhætta samkeppni.

~~~~~~~~~~~~~~~~

Lesið grein Aiwazar á Vantrú um Jesú og Kertasníki. Mögnuð grein, alveg hreint.

~~~~~~~~~~~~~~~~

Íslensk grein á CorporateWatch: Nobody can afford to allow the divine Icelandic dragon of flowers and ice to be devastated by corporate greed.

~~~~~~~~~~~~~~~~

Forseti Íraks segir það fráleitt að biðja innrásarherinn að fara heim.
American officials have so far resisted setting a deadline for withdrawal, fearing it would provide a boost to Iraq's insurgency.
Einmitt, það er ástæðan. Nei.

~~~~~~~~~~~~~~~~

NYT eru með ágæta grein um ástandið í Nepal. Gyanendra konungur var, í stuttu máli sagt, að gera vont verra með því að taka völdin formlega sjálfur. Og þó. Kannski hraðar þetta falli hans.

~~~~~~~~~~~~~~~~

Var annars að lagfæra linkana hér til hliðar, og bætti í leiðinni inn link á RIM: Revolutionary International Movement, en það eru alþjóðasamtök maóista, sem m.a. nepalski maóistaflokkurinn er í. Á síðunni eru þeir svo með linka á fjöldan allan af maóistaflokkum, sem fróðlegt að að skoða.

~~~~~~~~~~~~~~~~

Spurt var:
Hvernig ber að skilja þá staðhæfingu að BNA hafi staðið fyrir stríði Sóvétmanna í Afganistan?



Og áttu við að CIA hafi smíðað Al Queda til að viðhalda ógn sem engin er, svo að stöðugt megi ráðast inn í ný og ný lönd með stuðningi eigin þjóðar?
Mitt svar: CIA stunduðu áróðurs- og undirróðursstarfsemi í Afghanistan áður en átök brutust út. Þeir grófu undan stjórn sovét-leppsins Najibullah og hjálpuðu til við að skipuleggja og þjálfa mujahedeen-skæruliðana. Minnugir þess, hvernig Víetnam-stríðið þrengdi að Bandaríkjunum, þá sáu hugmyndafræðingar að svipað stríð sem Sovétmenn lentu í gæti haft vægast sagt alvarlegar afleiðingar fyrir Sovétríkin. Svo þeir bjuggu í haginn fyrir stríð í Afghanistan. CIA og Brzesinsky þjóðaröryggisráðgjafi hlutu samþykki Carters forseta fyrir því að styðja skæruliðana gegn Sovétmönnum hálfu ári áður en innrásin átti sér stað. Ávinningurinn af því að veikja Sovétríkin í Kalda stríðinu er auðvitað augljós, en reyndar tengist þessu líka smygl á heróíni, sem hefur verið mikilvæg tekjulind fyrir CIA.

Hin spurningin var hvort CIA hefðu smíðað al-Qaeda sem tæki til að réttlæta innrásir. Ég treysti mér ekki til að fullyrða að áætlanagerðin hafi sú, en hitt er annað mál, að (a) CIA áttu mjög stóran þátt í tilurð mujahedeen-skæruliðanna, sem al-Qaeda samtökin spruttu upp úr, (b) það voru/eru bakdyra-tengsl milli CIA og al-Qaeda allar götur síðan og enn í dag, (c) bin Laden fjölskyldan og aðrir hlutar saúdi-arabísku elítunnar eiga mjög mikilla hagsmuna að gæta í Bandaríkjunum og bandaríska elítan í Saúdi-Arabíu og (d) þegar al-Qaeda gera eitthvað reglulega alvarlegt, þá á Bandaríkjastjórn iðulega einkennilega auðvelt með að nýta sér það í eigin þágu.

Ég held, satt að segja, að al-Qaeda hafi ekki verið skipulagt á 8. áratugnum, en hins vegar þarf engan snilling til að sjá hvernig vinnandi fólk og æskulýður í arabalöndunum hefur orðið róttækari og róttækari og þar með frjór jarðvegur fyrir róttæka pólitík. Þá var um a.m.k. tvennt að velja, (a) að sósíalistar næðu undirtökunum, byltingar fylgdu í kjölfarið, og bandaríska heimsveldið missti löndin úr greipum sér eitt af öðru og jafnvel fyrir fullt og allt, og hin gerspillta elíta arabalandanna yrði hengd upp á hálsinum öðrum til viðvörunar eða (b) að róttækir íslamistar næðu undirtökunum - kostur: hyggjast a.m.k. ekki afnema stéttaskiptingu eða slátra valdastéttinni, heldur getur valdastétt arabalandanna þvert á móti fært sér afturhaldspólitík íslamista í nyt, þótt hún sé beggja handa járn, þótt ekki væri nema með því að veita reiðinni útrás í hatri á Bandaríkjunum í stað haturs á valdastéttinni heima fyrir.

Nú væri barnaskapur að ætla að hreyfing íslamista væri eitthvað þjált verkfæri í höndunum á CIA. Hún er það að sjálfsögðu ekki. Engu að síður hafa CIA leynileg ítök innan hreyfingarinnar (samanber Mossad og herská samtök Palestínumanna) og geta komið ýmsu til leiðar, og hafa oft gert.

Tuesday, February 1, 2005

Alvarlegar fréttir frá Nepal



Einræðisherrann Gyanendra í Nepal tekur öll völd í landinu og lýsir yfir neyðarástandi! Sviptir "forsætisráðherrann" (kanslarann) umboði sínu, og þá kemur í ljós hver það er sem öllu ræður: Gyanendra sjálfur. Þennan mann sögðust Bandaríkjamenn styðja vegna þess að þeir styddu "lýðræðið" ... að mínu mati ein afkáralegasta stuðningsyfirlýsing sem ég hef heyrt. Gyanendra er í hæsta máta ólýðræðislegur. Í fréttum RÚV segir að ráðherrar séu í stofufangelsi og að þingið hafi ekki komið saman frá 2002. Birendra, kóngurinn sem var myrtur, átti í viðræðum við maóistana og hafði gefið tilslakanir í lýðræðisátt 1990, m.a. að þingið væri stofnað. Nú eiga maóistarnir eftir að færast í aukana.

Þjóðkirkjan, 1st Amendment, Venezuela og bin Laden



Úr fréttum:
Forsætisráðuneytið, Þjóðkirkjan og Velferðarsjóður barna hafa tekið höndum saman um átak í uppeldismálum undir heitinu Verndum bernskuna.
Hvað í skrambanum er Þjóðkirkjan að gera þarna?
Bandarískir menntaskólakrakkar kæra sig kollótta um málfrelsi og taka því sem gefnu.
Alvarlegar fréttir fyrir unnendur málfrelsis. Krakkarnir kæra sig kollótta um það sem þeir kunna ekki að meta og kunna ekki að meta það sem þeir hafa aldrei fengið tækifæri til að láta reyna á.
Bandaríkin að undirbúa innrás í Venezuela?
Ég er með lista upp á 7 lönd sem mér þykja líkleg sem næsta skotmark bandarísku heimsvaldastefnunnar: Venezuela, Kólumbía, Kúba, Norður-Kórea, Nepal, Sýrland, Íran. Það eru svosem fleiri lönd sem koma til greina, en þessi eru efst á listanum. Það var núna að bætast eitt líkinda-prik við Venezuela.
Kerry kennir Bin Laden um ósigurinn.
Bush gat treyst á fjölskylduvininn og viðskiptafélagann. Bin Laden er karakter sem mér finnst ekki trúverðugur. Í mínum huga leikur lítill vafi á tengslum hans við CIA. Pælið í því: Bin Laden höfðar til valda-baklands sem eru róttækir ungir arabar og múslimar. Þetta valdabakland er ekki hægt að láta ónotað; ef Bandaríkjamenn nota það ekki verður bara einhver annar til þess. T.d. marxistar, sem yrðu bandarísku heimsvaldastefnunni mun þyngri í skauti en bókstafstrúarmenn. Bókstafstrúarmennirnir ætla sér a.m.k. ekki að afnema stéttaskiptinguna. Auðvitað reynir bandaríska valdastéttin að komast í þetta valda-bakland. Auðvitað. Fyrst mér hér á Íslandi dettur þetta í hug, þá skal enginn segja mér að Zbigniew Brzezinzky eða öðrum hugmyndafræðingum ný-heimsvaldastefnu BNA hafi ekki dottið það í hug. Að vísu er sá hængur á, að kristnir Bandaríkjamenn geta ekki höfðað til róttækra múslima sem hafa fengið að kenna á heimsvaldastefnunni. Í staðinn setja þeir upp karakter - karismatískan og efnaðan, sviphreinan og hugprúðan leiðtoga - sem ungu íslömsku róttæklingarnir falla í stafi fyrir: Ósama bin Laden. Fyrst í stríði Sovétmanna í Afghanistan (sem CIA stóð reyndar fyrir) - og síðan í tengslum við 11. september.