Wednesday, November 23, 2016

Grunnskólakennarar: óþolandi staða

Það var í gær haft eftir Láru V. Júlíusdóttur lögfræðingi að grunnskólakennarar hefðu líkast til brotið lög með því að ganga út í gær. Næsta spurning hlýtur að vera: Og hvað með það? Hvað ætlar sveitarfélögin að gera í því þegar starfsstéttin er að hruni komin, örvæntingarfull og byrjuð að segja upp í massavís -- og auk þess ómissandi?

Sveitarfélögin verða að stórhækka laun grunnskólakennara. Það er svo einfalt. Og þó fyrr hefði verið. Ef námskröfur eru stórauknar án þess að laun séu stórhækkuð, hvað heldur fólk að gerist? Kemur það í alvörunni á óvart að hrun blasi við í grunnskólum landsins?

Við hin þurfum að sýna því skilning þótt grunnskólakennarar neyðist til að grípa til óyndisúrræða í kjarabaráttunni. Meira en skilning, við þurfum að sýna þeim samstöðu. Það er hagur allra að grunnskólakennarar séu vel haldnir og að það sé eftirsótt að vera grunnskólakennari.

Við eigum hins vegar ekki að sýna því skilning ef sveitarfélögin ríghalda í sultarólina á þeim. Ábyrgð þeirra er mikil, sem standa í brúnni og stranda grunnskólakerfinu í landinu.

Friday, November 18, 2016

DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju

Ég tilkynni stoltur að DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju hefur verið samþykkt og skráð hjá yfirvöldum sem lífsskoðunarfélag. Það þýðir að fólk sem aðhyllist díalektíska  efnishyggju á sitt eigið félag, sinn eigin vettvang, til að ræða og stunda lífsskoðun sína og framkvæma sínar eigin athafnir og til að taka við sínum eigin sóknargjöldum og ráðstafa þeim í samræmi við sína eigin lífsskoðun.

Ef þú aðhyllist díalektíska efnishyggju hvet ég þig til að skrá þig strax í félagið. Langeinfaldasta leiðin til þess er að fara á Ísland.is, skrá sig þar inn með kennitölu og íslykli, fara í "trúfélagsskráningu" og velja þar af lista: "Díamat". Það þarf ekki að taka meira en mínútu og þá eruð þið skráð hjá Þjóðskrá í flottasta lífsskoðunarfélagið.

Saturday, October 29, 2016

Þess vegna eigið þið að fara og kjósa Alþýðufylkinguna í dag

Alþýðufylkingin boðar jöfnuð og félagslegt réttlæti, fullveldi og velferð og hefur skýra sýn á hvernig þessum markmiðum verði náð: Með félagsvæðingu. Með því að félagsvæða fjármálakerfið (banka, lífeyrissjóði og tryggingafélög) og reka það sem samfélagslega þjónustu en ekki í gróðaskyni, getum við sem samfélag sleppt því að borga nokkur hundruð milljarða á ári í vexti. Og með því að félagsvæða aðra innviði samfélagsins, þannig að enginn geti makað krókinn með dýrum einkarekstri sem ríkið borgar að mestu fyrir, getum við nýtt peningana betur í velferð, í heilbrigðisþjónustu, í sjálf markmiðin með innviðunum.

En þetta er ekki allt: Þessi markmið munu því aðeins nást, að fólkið í landinu berjist fyrir þeim með virkum hætti. Við verðum í þeirri baráttu, hvort sem við verðum innan eða utan Alþingis. Við eigum ekki að trúa stjórnmálamönnum sem lofa okkur öllu fögru, að gera allt fyrir okkur. Það er ekki hægt að stytta sér leið. Framfarir kosta baráttu. Þá baráttu boðum við.

Þið eigið ekki bara að kjósa Alþýðufylkinguna, það er góð byrjun en ekki nóg. Þið eigið að ganga til liðs við hana og gera ykkur gildandi í baráttunni fyrir framtíð okkar allra.
Vsteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar
(Þessi pistill hefur áður birst í DV.)

Monday, October 24, 2016

Hverjum treystir þú?

Auglýsingaherferð VG "Hverjum treystir þú?" byggist greinilega á einhverri markaðskönnun á trausti og kjörþokka. Hún er ómálefnaleg, eins og reyndar auglýsingaherferðir VG hafa oft verið áður. Nægir þar að rifja upp slagorðið, ef slagorð skyldi kalla: "VG - vegur til framtíðar" sem flokkurinn var með 2007 og sá ekki ástæðu til að endurskoða, frekar en nokkuð annað, fyrir kosningarnar 2009, þótt efnahagshrun hefði orðið í millitíðinni.

"Við eigum bara að minna á það", sagði Katrín Jakobsdóttir þá, "að við berum ekki ábyrgð á hruninu!" Forystunni þótti Hrunið ekki vera ástæða til að endurskoða stefnu flokksins, sem gekk til kosninga sem pólitísk jómfrú.

Pólitíska jómfrú er samt ekki beint hægt að kalla það VG sem var í ríkisstjórn 2009-2013. Listi vonbrigða og svika er svo langur að ég óttast helst að hafa gleymt einhverju stórmálinu, það var ESB-umsóknin, IceSave, Magma-málið, einkavæðing bankanna. Það var úrræðaleysi í húsnæðismálum, eða réttara sagt bankarnir látnir um að útfæra húsnæðisstefnuna, sem VG gat þá þvegið hendur sínar af. Það var áframhaldandi stóriðjustefna. Það var efnahagsstefnan, mótuð af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég reifaði þetta allt saman árið 2012 þegar ég sagði mig úr VG og fór að undirbúa stofnun Alþýðufylkingarinnar.

"En dokaðu við," segið þið kannski, "það var Steingrímur sem bar ábyrgð á þessu öllu!" Hann bar kannski mesta ábyrgð sem formaður flokksins, en Katrín var varaformaður og hefur sjálf margsagt að það hafi ekki gengið hnífurinn á milli þeirra Steingríms. Ekki hnífurinn á milli. Og meirihluti flokksins, sjúkur af tækifærisstefnu og meðvirkni, tók fullan þátt. Ég man meira að segja að aðstoðarmenn ráðherra VG voru farnir að skrifa greinar þar sem þeir réðust á ESB-andstöðuna, sjálfir flæktir inn í svikin upp á herðablöð.

Fylgisaukningin bendir til þess að þessi ný-stalíníska persónudýrkun: innihaldslaust slagorðaskrum og brosandi andlit - virki kannski. Það er svosem ekkert við því að segja. En þó vil ég segja þetta: Ég treysti ekki Vinstri-grænum. Ég treysti ekki þeim sem hafa svikið sína eigin stefnuskrá og sína eigin kjósendur í heilt kjörtímabil. Ég treysti ekki þeim sem hafa látið flokkseigendafélag VG draga sig á asnaeyrunum, gera það enn og eru staðráðnir í að gera það líka í framtíðinni.
Þegar ég sagði mig úr VG árið 2012 skrifaði ég m.a. þetta:

Ég segi skilið við VG vegna þess að ég er sósíalisti og VG er því miður ekki sósíalískur flokkur, heldur kratískur. Íslenskir kratar hafa undanfarin ár haft fordæmalaust tækifæri til að sýna hvað í þeim býr – eða, réttara sagt, að í þeim býr hvorki vilji né geta til að ganga gegn auðvaldsskipulaginu.
Ísland sárvantar sósíalískan flokk. Hann mun aldrei fæðast upp úr vopnahlésályktunum eða skilyrðislausri samstöðu með krötum og tækifærissinnum. Hið nýja verkefni er því að safna liði og stofna þennan flokk.

Þennan flokk sárvantar ekki lengur, hann er til. Hann heitir Alþýðufylkingin. Það ber ekki að skilja þessa færslu svo, að baráttan okkar snúist eitthvað sérstaklega um VG. Hún gerir það ekki. En fólk þarf að vita hvers vegna við stofnuðum Alþýðufylkinguna. Það var vegna þess að VG voru (og eru) rúin trúverðugleika eftir síðasta kjörtímabil og hafa ekki einu sinni reynt að afsaka sig heldur stefna ótrauð í sama farið. Verði þeim að góðu sem kýs þau.

Tuesday, October 11, 2016

Íslenska þjóðfylkingin afneitar hlýnun af mannavöldum

Á Rás2 í gærkvöldi mættust oddvitar allra framboðanna í Reykjavíkurkjördæmi norður í útvarpssal. Ég var talsmaður Alþýðufylkingarinnar. Harla ánægður með þáttinn.

Eftirtekt vakti -- já, hlátur í salnum -- að talsmaður Íslensku þjóðfylkingarinnar sagðist ekki trúa því að hlýnun jarðar væri af mannavöldum heldur væri hún einhvers konar samsæri runnið undan rifjum vinstriróttækra vísindamanna.

Þetta er skondin viðbót við útlendingaandúðina og hómófóbíuna! Nú spyr maður sig, hvað næst? Afneitar Íslenska þjóðfylkingin líka þróunarkenningunni?

Offramboð á hægriflokkum

Í útvarpssal í gær voru viðstaddir, sem sjálfir álitu sig talsmenn vinstriflokkar, spurðir út í muninn á sínum flokki og hinum vinstriflokkunum. Þar svöruðu talsmenn beggja flokkanna sem kenna sig við vinstri: Katrín Jakobsdóttir fyrir VG og ég fyrir Alþýðufylkinguna.

Einnig svaraði Sigríður Ingibjörg fyrir Samfylkingu, sem nýkjörinn formaðurinn hefur sagt að sé hvorki hægri né vinstri. Björn Leví svaraði fyrir Pírata og sagði að þeir væru bæði hægri og vinstri. Laggó. Magnús Þór svaraði fyrir Flokk fólksins, sem hvorki kallar sig hægri né vinstri en allir sjá samt að er almennt með vinstrisinnaðar áherslur. Björt svaraði fyrir Bjarta framtíð, og ef maður gefur sér að þar sé ekki málefnaágreiningur við Samfylkinguna hlýtur það að teljast sanngjarnt.

Athygli vakti að sá ágæti maður Hólmsteinn Brekkan tók ekki til máls fyrir Dögun. Dögun hefur hafnað því að kalla sig vinstriflokk, þótt flestir mundi líklega segja að stefnumálin þeirra séu mjög til vinstri. En það er ákveðið integritet hjá Hólmsteini að taka ekki til máls þótt honum byðist það.

Nú, svo var spurt: En hver er munurinn á öllum þessum hægriflokkum? Það er góð spurning og skondið að hún heyrist ekki oftar. Fjöldi hægriflokkar er kannski eðlilegri heldur en fjöldi vinstriflokka. Hægriflokkar boða leynt og ljóst hagsmuni auðvaldsins, og þeir hagsmunir eru miklu fjölbreyttari heldur en hagsmunir alþýðunnar.

(Frá bæjardyrum Alþýðufylkingarinnar eru auðvitað allir hinir flokkarnir hægriflokkar.)

Saturday, October 8, 2016

Friðarverðlaun hvað?

Santos Kólumbíuforseti fær friðarverðlaun Nóbels fyrir friðarsamninginn við FARC. FARC-menn fá ekki friðarverðlaun. Hvað er málið?

Þegar Arafat fékk verðlaunin fékk Peres þau líka. Og þegar Mandela fékk þau, fékk de Klerk þau líka. Hvar er jafnræðisreglan?

Wednesday, September 7, 2016

4 ára áætlun Alþýðufylkingarinnar

Undanfarna mánuði hefur Alþýðufylkingin unnið að viðamikilli kosningastefnuskrá. Nú er hún komin á netið:

Friday, July 1, 2016

Vesturblokk og Sýrlandsstríð: grein

Þórarinn Hjartarson skrifar á vef Alþýðufylkingarinnar: Vesturblokkin og Sýrlandsstríðið.

Thursday, June 16, 2016

Leggja mannanafnanefnd niður

Það er verið að undirbúa mikla losun á lögum um mannanöfn og hefði mátt gerast fyrr. Þessi lög og nefnd eru ekki bara óréttlát og kjánaleg, heldur ná þau ekki einu sinni yfirlýstum tilgangi sínum. Að nafnið megi t.d. ekki vera nafnbera til ama -- það er kannski göfugur tilgangur þegar börn eiga í hlut, en (a) fullorðið fólk á að geta borið sjálft ábyrgð á því hvað það vill heita og (b) fjöldinn allur af samþykktum nöfnum geta svo sannarlega verið til ama, bæði þau sem verða hlægileg þegar tvö standa saman og þau sem mörgum finnst bara asnaleg -- og vel að merkja, þá er mjög fjölbreytt hvað fólki finnst asnalegt.

En að krefjast þess að nafn sé nafnorð -- hvað er það? Bjartur, Svartur, Ljótur, Kristinn, Sighvatur, Vigfús, Ársæll -- eru þetta ekki allt lýsingarorð?

Monday, June 6, 2016

Samfylkingin ekki vinstriflokkur

 „Jafnaðarmenn skilgreina sig ekki til hægri eða vinstri.“

Það var nefnilega það. Það er nú langt síðan ég áttaði mig á því að kratar hefðu fjarlægst upprunann svo mikið að þeir væru hættir að geta kallast vinstrimenn, en ágætt að fá þessa staðfestingu á því frá nýkjörnum formanninum.

Friday, June 3, 2016

Alþýðufylking á Akureyri á morgun

Alþýðufylkingin heldur opinn kynningarfun á Café Amour á Akureyri kl. 14 á morgun, laugardag.

Nánar hér: Alþýðufylkingin fundar á Akureyri á laugardag

Wednesday, June 1, 2016

Stríð um heimsyfirráð ... og mistök mín

Hér á þessu bloggi póstaði ég í fljótfærni grein á mánudaginn, þar sem nafn höfundar kom ekki fram. Ég var ekki höfundurinn (því miður, þetta er mjög góð grein), heldur var það Þórarinn Hjartarson. Greinin hefur nú birst þar sem henni var upphaflega ætlað að birtast, á heimasíðu Alþýðufylkingarinnar. Lesið hana, þið verðið betri manneskjur eftir það:

Stríð um heimsyfirráð: Hnattræn auðvaldselíta þolir ekki sjálfstæð ríki





Tuesday, May 24, 2016

Alþýðufylkingin annað kvöld: Opinn fundur um þingkosningarnar

Á morgun miðvikudag kl. 20 heldur Alþýðufylkingin opinn fund í Friðarhúsi um Alþingiskosningarnar framundan. Þorvaldur Þorvaldsson kynnir drög að kosningastefnuskrá. Umræður um kosningaundirbúning. Sjá hér.

Friday, May 20, 2016

Þorvaldur í sjónvarpsviðtali á Hringbraut

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, var í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í fyrrakvöld og ræddi þar starf og stefnu flokksins.

Tuesday, May 17, 2016

Endurnýjun Samfylkingarinnar?

Ég fullyrði að nafn eða merki Samfylkingarinnar er ekki ástæðan fyrir því að fólk nennir ekki að styðja hana. Það mundi hvorki duga Samfylkingunni að skipta á þeim, né að leggja sig niður og stofna sig upp á nýtt með sömu stefnuskrána. Krítískur massi í forystuliði Samfylkingarinnar er ótrúverðugur og nýtur ekki trausts. Fólk er dæmt af verkum sínum á síðasta kjörtímabili. Því kann sjálfu að þykja það ósanngjarnt, en það er staðreynd að síðasta ríkisstjórn brást vonum mikils fjölda fólks sem trúði á hana. Hún þjónaði auðvaldinu af trúmennsku, undir nafninu "vinstristjórn". Með því ruddi hún brautina fyrir hægristjórnina sem nú ríkir. Þetta geta allir séð sem kæra sig um það.

Árni Páll var reyndar merkilega glöggskyggn í gagnrýnis-og-sjálfgagnrýnis-bréfi sínu til flokksmanna sinna fyrir nokkrum mánuðum. Sumpart glámskyggn að vísu, en það er efni í aðra grein.

Ég held satt að segja að sameining Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og VG væri lífvænleg leið og gæti skilað þeim sameinaða flokki dálaglegum þingflokki. Ekki ætti málefnaágreiningurinn að þvælast fyrir núna, eftir að vinstriarmurinn í VG hraktist meira og minna burt í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Reyndar er hjákátlegt að sjá þetta fólk í þremur flokkum, sem gæti vel rúmast í einum.

(Það er fyndið að sjá menn fabúlera um að Píratar gætu verið með í þessari sameiningu. Hvers vegna ættu þeir að vilja það?)

Óttarr Proppé reifaði það í viðtali fyrir nokkrum vikum, að einhverjir væru spenntir fyrir R-listaævintýri. Framboð í anda Reykjavíkurlistans væri kannski ekki galið, en listabókstafurinn R er reyndar frátekinn fyrir Alþýðufylkinguna. Það hefur enginn haft samband við okkur enn um að sameinast krötum, og ég sýti það svosem ekki.

Sameinið ykkur, kratar, það skýrir línurnar.

Friday, May 13, 2016

ESB-aðild: Kjarni málsins

"Að sjálfsögðu á að skoða aðild" segja menn stundum.

Það er að sjálfsögðu rétt.
Að sjálfsögðu á að skoða ESB-aðild, vel og vandlega, og síðan á að hafna henni.

- - - -

Menn segja stundum 'skoða aðild' þegar þeir meina að sækja um aðild, semja um aðild og ganga svo frá aðild. Það er röng meðferð á orðinu "skoða". Það orð þýðir að kynna sér eitthvað. Jæja, ég skal að vísu játa að það væri alveg hægt að ganga í ESB og skoða hvernig aðildin hefur áhrif á landið okkar og hvað gerist og þannig ... næstu áratugina ... ef það er það sem einhver meinar.

En svo er líka hægt að skoða aðild 28 ríkja sem þegar eru með samning -- og þá sér í lagi samning þeirra sem nýjust eru í sambandinu. Þar fær maður meira en nægar upplýsingar til að mynda sér skoðun.

Monday, May 9, 2016

Fyrsta maí-ávarp

Fyrsta maí-ávarp Alþýðufylkingarinnar er komið á heimasíðu flokksins. Lesið það:

1. maí ávarp Alþýðufylkingarinnar 2016

Wednesday, May 4, 2016

1. maí-ræða Björgvins

Björgvin R. Leifsson flutti ræðu á baráttufundi Stefnu á Akureyri á fyrsta maí. Alveg hreint helvíti fína ræðu. Lesið hana hér:

Ræða á baráttufundi Stefnu 1. maí 2016




Tuesday, May 3, 2016

Rótgrónu sérverslanirnar og minjagripabúðirnar

Sú var tíðin að maður heyrði oft áhyggjur af framtíð verslunar í miðbænum. Það tal hef ég ekki heyrt nú um nokkurra ára skeið -- a.m.k. ekki af framtíð verslunar almennt -- en áhyggjurnar af gömlu verslununum hafa skotið upp kollinum í staðinn. Þið þekki þetta: Gamalgrónar búðir, sem Reykvíkingar hafa verið vanir í áratugi, týna tölunni. Búðir sem okkur þykir/þótti vænt um. Einsleitar minjagripabúðir spretta í staðinn upp eins og gorkúlur. Vísir er hættur, Litur og föndur er farin, ýmsar fleiri sem ég ætla ekki að telja upp. Verslanir með hönnunarvarning sem túristum finnst kúl en velta samt kannski ekki miklu. Aðrar hafa túristabóluna hangandi yfir sér eins og sverð.

Í pistlinum "Rótgrónar sérverslanir kveðja miðborgina" (RÚV 29. apríl) er fjallað um þetta. Ég ætla ekki að endurtaka þann pistil. En ég hnaut um orð Hjálmars Sveinssonar. Hann „segir það sorglegt að rótgrónar sérverslanir hverfi úr miðbænum. En hann telur ekki rétt að setja kvóta á minjagripabúðir almennt.“ -- Ef rétt er eftir haft, takið þá eftir orðalaginu: hann telur.

Þá kemur rökstuðningur Hjálmars:

„Borgin er þegar búin að vera með mjög mikil inngrip, inn á þetta svæði og inn í ráðstöfunarrétt þeirra sem eiga fasteign við Laugaveginn með því að banna fólki að opna veitingastað ef það uppfyllir ekki kvóta, þú ert að grípa inn í þennan ráðstöfunarrétt og eignaréttinn en það hefur gefist vel svo ég segi það enn og aftur. Svarið hefur verið að það sé ekki hlutverk borgarinnar að stjórna því hverju kaupmenn raða í hillurnar. Kaupmenn verða sjálfir að finna út hvað selst best og það er eðli verslunar. Keðjutakmarkanir eru hins vegar til umræðu, að setja takmörk á hversu margar verslanir eitt fyrirtæki má eiga.“

Aftur, takið eftir orðalaginu þarna í miðjum textanum: „Svarið hefur verið að það sé ekki hlutverk borgarinnar...“ -- svar hvers er það? Ég man eftir svipuðu orðalagi, þegar var verið að reyna að fá borgina til að stofna borgarbanka. Tilgangur hans hefði í stuttu máli verið að veita borginni sjálfri fjármálaþjónustu, og spara henni þannig fjármagnskostnað. Svar Dags Eggertssonar var að það væri „ekki hlutverk borgarinnar að reka banka“. Engin frekari rök þar. En er það „hlutverk borgarinnar“ að borga vexti?

Þetta er auðvitað bara bull. Hlutverk borgarinnar er, þegar öllu er á botninn hvolft, það sem við viljum að það sé. Við, sem búum í borginni. Eins og Hjálmar segir sjálfur, þá gerir borgin nú þegar mikil inngrip. Það er kvóti á því hve víða má selja tilbúinn mat eða drykki í glösum. Og hann talar líka um takmarkanir á verslunarkeðjur. Gott og vel. En hvers vegna þá ekki minjagripabúðir?

Sko: Laugavegurinn er ekki eign þeirra sem eiga fasteign við hann. Hann er sameign okkar allra. Ef þar er ekki hægt að kaupa annað en lunda og flíspeysur, þá er búið að eyðileggja hann. Ekki bara fyrir heimamönnum, -- meira að segja líka fyrir túristum. Hver nennir að koma og skoða eintómar minjagripabúðir?

Það er hlutverk borgarinnar að hlú að menningu og mannlífi í borginni. Því hlutverki bregst hún ef ferðamennskufarsóttin fær að þurrka út miðbæinn.

Þess vegna á borgin að setja skorður við því hvað má hafa minjagripabúðir í mörgum húsum við Laugaveg eða í miðbænum. Og hún á líka að stöðva þetta vitskerta hótelæði, sem tröllríður miðbænum.

Við verðum að hafa stefnu til þess að ferðamannastraumurinn drekki okkur ekki. Við þurfum að geta tekið á móti fólki á okkar forsendum, án þess að það skaði okkur sjálf.

Svo þurfum við auðvitað líka að muna að þetta gullæði mun taka enda þegar næsta kreppa kemur í löndunum sem túristarnir koma frá. Bólan mun svo sannarlega springa. Hver á þá að sofa á öllum þessum hótelum, og kaupa alla þessa lunda?

Friday, April 29, 2016

Rauður fyrsti maí

Rauður fyrsti maí 2016 verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, sunnudaginn 1. maí kl. 20:00. Gleði og glaumur í anda stéttabaráttunnar!

Fjölbreytt menningardagskrá. Fram koma m.a.: G. Rósa Eyvindardóttir, Ísak Harðarson, Kristian Guttesen, Sigvarður Ari Huldarsson, Sólveig Anna Jóndóttir, Vésteinn Valgarðsson, Þorvaldur Þorvaldsson o.fl.

Allir velkomnir, nema þá helst auðvaldið!

Fyrir kvöldinu standa Alþýðufylkingin og Menningar- og friðarsamtökin MFÍK.

Sunday, April 24, 2016

Málþing um marxisma á miðvikudag 27/4

Ég vek athygli á þessu málþingi Rauðs vettvangs nk. miðvikudag (27/4):

Kienthal 1916 - Reykjavík 2016
-- Verkefni marxista á vorum dögum 
Málþing Rauðs vettvangs, haldið í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá Kienthal-ráðstefnunni, þar sem kommúnistar gerðu upp við meðvirkni sósíaldemókratahreyfingarinnar.

Framsögumenn:
Árni Daníel Júlíusson: „Útsýnið til kommúnismans. Er þokunni að létta?“
Sólveig Anna Jónsdóttir: „Hvað þýðir hægri og vinstri í dag?“
Þorvaldur Þorvaldsson: „Lærdómar frá Kienthal“

Heitt á könnunni -- allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Staður: Friðarhús, Njálsgötu 87.
Stund: Miðvikukvöldið 27. apríl kl. 20:00.

Tuesday, April 19, 2016

Árni Páll: Vafningar eða verðmætasköpun?

Árni Páll Árnason skrifar á Kjarnann: Vafningar eða verðmætasköpun?
Það er margt gott í þessari grein. Um hana vil ég þó segja:


Að því sögðu er ánægjulegt að dropinn sé farinn að hola steininn. Að formaður Samfylkingarinnar sé farinn að taka undir málflutning Alþýðufylkingarinnar veit vonandi á gott. Ætli félagar hans í flokknum séu samt ekki ennþá of „frjálslyndir“ og „nútímalegir“ til að veita félagsvæðingu fjármálakerfisins brautargengi?

Monday, April 11, 2016

Samsæri og Panamaskjölin

Egill Helgason bloggaði í gær um samsæriskenningar um Panamaskjölin. Hann tekur ekki beint afstöðu til þeirra sjálfur, en sumir sem skrifa athugasemdir tala um þær eins og þær séu hreinræktað kjaftæði. Bara eins og bandaríska leyniþjónustan eða öfl henni tengd mundu aldrei taka þátt í einhverju svona endemi. Og ef Rússar andmæla og koma með aðrar skýringar en vestræn hagsmunaöfl -- þá er það áróður Rússa -- en eins og samsæri, þá mundu hetjur frelsisins aldrei nota áróður. Áróður og samsæri -- það er eitthvað sem hinir nota bara. Ekki við. Ekki fólk eins og við.

Þórarinn Hjartarson skrifar athyglisverða grein um Panamaskjölin á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar. Kíkið á hana:

Panamasprengjan. Til hvers?

Sunday, April 10, 2016

Fleiri ráð fyrir friðsama mótmælendur

* Takið strætó á mótmælin ef þið búið ekki í göngufæri. Stór mótmæli = erfitt að finna bílastæði!

* Rúlla af einangrunarlímbandi tekur lítið pláss en getur gbjargað miklu ef skiltið eða fánastöngin laskast.

* Vertu edrú. Það er ekki kúl að vera kenndur eða drukkinn að mótmæla!

Saturday, April 9, 2016

Mótmæli og krúttlegt augnablik

Það þarf eindreginn brotavilja til að skilja ekki hvers vegna ætti að boða til kosninga. Úr því Alþingi felldi vantraustið í gær, þá kæmi ekki á óvart að mótmælin færðust í aukana. Ef ríkisstjórnin velur það sjálf, að láta bola sér frá völdum með illu, frekar en að verða við kröfunni um kosningar strax, -- þá er það bæði óábyrgt val og getur orðið dýrkeypt. Að ríkisstjórnin óttist kosningar -- það er í sjálfu sér næg ástæða til að halda kosningar, er það ekki?

Skoðanakannanirnar eru líka athyglisverðar. Bæði að Píratar sýnast dala smá og að Samfylkingin virðist ekki njóta óánægjunnar með stjórnina. En fylgisskot VG er þó skrítnara.

Ráð fyrir fólk sem ætlar á friðsöm mótmæli: * Klæðið ykkur eftir veðri; * ef þið eruð með skilti, verið þá viss um að spjaldið sé vel fest á stöngina svo það fjúki ekki af; * bylgjupappi virkar illa í mótmælaspjald nema í blíðasta veðri; * hafið með ykkur nesti og vatnsbrúsa; * farið á klóið áður en þið farið af stað; * ef þið viljið berja í járn til að gera hávaða, verið þá með vinnuvettlinga svo þið fáið ekki blöðrur í lófana; * dómaraflauta tekur lítið pláss en gerir mikið gagn; * hafið með ykkur eyrnatappa, að minnsta kosti fyrir börnin ykkar.

Vísir greinir frá krútt-mómenti þegar vingjarnlegur lögreglumaður gaf barni órigamí-fugl. Eldey dóttir mín var einmitt svo heppin að fá líka svona fugl frá þessum sama manni, þegar hún kom með mér á miðvikudaginn var. Sú var ánægð.

Thursday, April 7, 2016

Þorvaldur svarar Ögmundi

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu í fyrradag. Þar svaraði hann grein Ögmundar Jónassonar, frá síðasta föstudegi. Lesið greinina á heimasíðu Alþýðufylkingarinnar:

Hvað þykistu vera að reyna að segja, Ögmundur?

Wednesday, April 6, 2016

Díalektísk messa á sunnudag

Lífsskoðunarfélagið DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju heldur opna díalektíska messu næstkomandi sunnudag: 10. apríl, klukkan 11:00. Hún verður haldin í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. 
Díalektísk messa fer fram líkt og málfundur: hefst með framsögu og svo taka við almennar umræður sem hafa þann tilgang að allir viðstaddir skilji viðfangsefnið aðeins betur. 
Framsögumaður á sunnudaginn verður Þorvaldur Þorvaldsson og umfjöllunarefnið: Hugmyndaþróun og sambúð ólíkra lífsskoðana. 
Heitt verður á könnunni og allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Aðgengi fyrir fatlaða er ekki auðvelt en þó mögulegt 
DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju er veraldlegt lífsskoðunarfélag sem stofnað var árið 2015. Það er í umsóknarferli til að verða opinberlega skráð hjá innanríkisráðuneytinu sem lífsskoðunarfélag.

Thursday, March 31, 2016

"Hæfi" er marklaust orð

Ef fjármál maka eru manni óviðkomandi vegna þess að maðurinn er með aðra kennitölu en makinn, þá er "hæfi" ógegnsær orðaleppur sem villir um fyrir fólki.

Svipað og fyrir hrun (og kannski ennþá?) þegar t.d. feðgar töldust ekki vera "tengdir aðilar".

Friday, March 11, 2016

Píratar eru borgaralegur flokkur

Það er í raun ekkert skrítið við það að Píratar sópi svona að sér fylginu eins og undanfarið. Það er eins og þeir hafi á sér áru sem margir túlka sem eitthvað annað en gamla dótið á Alþingi. Og þeir eru vissulega eitthvað annað, að sumu leyti, -- en ekki eins ólíkir því gamla eins og fólk heldur líklega.

Þeir hafa á sér áru róttækni, áru rökfestu og heiðarleika, jafnvel óttaleysis frammi fyrir gamla kerfinu. Ætli það lýsi ekki ágætlega útbreiddum hugmyndum um þá? -- Nú ætla ég ekki að efa heiðarleika þeirra og óttaleysi. Rökfestan ætla ég hins vegar að sé ofmetin og róttæknin frekar lítil.

Það er tiltölulega lítill vandi að vera rökfastur þegar maður er í stjórnarandstöðu og það þýðir ekki endilega að maður verði það líka í stjórn. Saga Vinstri-grænna sýnir það nokkuð vel. Það er kannski ekki að marka þegar um er að ræða annan flokk -- en afstaða Pírata til ESB afhjúpar einkennilega órökrétta stefnu: þeir segja að það sé ekki hlutverk stjórnmálamanna að hafa afstöðu til ESB, heldur fyrst og fremst að tryggja kosningar og að "hlutlausar" upplýsingar liggi fyrir. Hvílík firra. Til að byrja með, þá er það einmitt hlutverk stjórnmálamanna að boða stefnu og reyna að fá fólk til fylgis við hana. En ekki hvað? Í tilfelli ESB eru bara tvær stefnur: með og móti. Það liggja þegar fyrir meira en nægar upplýsingar til að velja þar á milli. Fyrir utan þetta, eru "hlutlausar" upplýsingar ekki til í stjórnmálum, heldur draga þær alltaf dám af þeim farvegum sem þær hafa runnið eftir. Og það er bara lýðskrum að tala um kosningar eins og þær séu heilagur gral, eins og það sé lýðræðislegt að kjósa um loðnar spurningar, eða þá að kjósa um að afnema lýðræðið. Kosningar geta nefnilega vel verið ólýðræðislegar.

Þá er það hin meinta róttækni. Um síðustu helgi héldu Píratar einhvers konar vinnufund um efnahagsmál. Án þess að ég ætli mér að gerast einhver ráðgjafi þeirra, þá hefði þeir átt að halda þannig fund áður en þeir stofnuðu flokkinn. Efnahagsmálin eru burðarbitinn í alvöru stefnuskrá. Flokkur sem er ekki með efnahagsstefnu er bara tækifærissinnaður. Fyrir utan stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar eru ekki nema einn eða tveir flokkar á Íslandi sem ná því máli að vera með alvöru efnahagsstefnu -- það eru Samfylkingin og líklega Sjálfstæðisflokkurinn. Stefnuleysi Pírata í efnahagsmálum sést best á því að þeir rúma anarkista og sósíalista jafnt og krata og jafnvel frjálshyggjufífl. Þessir hópar eru ósamrýmanlegir, nema þeir komi sér saman um eitthvað sem er ekki neitt. Það verður skrítið bragð af grautnum sem þau kokka saman úr því.

Á Íslandi hefur stéttarvitund alþýðunnar hnignað áratugum saman, sem er að því leyti eðlilegt, að hér hefur alþýðan ekki átt nothæfan stéttabaráttuflokk síðan um miðja 20. öld. Það sem lifir af íslensku vinstrihreyfingunni er flest komið á eftirlaun, fyrir utan auðvitað Alþýðufylkinguna. Gagnrýni á kapítalismann er og hefur lengi verið jaðarskoðun á Íslandi. Hana hefur vantað hjá mest áberandi talsmönnum hinna svokölluðu vinstriflokka.

Á þessum tíma hefur áróður borgaralegra og smáborgaralegra hugmynda vaðið uppi og markað djúp, borgaraleg spor í stéttarvitund mjög stórs hluta þjóðarinnar. Sáð eitruðum fræjum. Haldið fast að fólki ranghugmyndum um kapítalisma og um sósíalisma. Sáð einstaklingshyggju, græðgi, smásálarlegri spillingu ... að þessi gildi séu ekki allsráðandi í þjóðfélaginu gæti virst skrítið, en er auðvitað vegna þess að þau eru flestu eðlilegu fólki óeðlileg.

Það hlaut að koma að því að fólk gæfist í massavís upp á annars vegar purrkunarlausum boðberum auðvaldsins, öflunum sem núna eru í ríkisstjórn, og hins vegar á gagnslausri, borgaralegri stjórnarandstöðu sem kallar sig "vinstri" en meinar ekkert með því og hefur ekki upp á neitt annað að bjóða en áframhald kapítalismans, -- og nægir þá að minna á síðasta kjörtímabil.

Það hlaut að koma að því. Og Píratar eru þá í þessari sérstöku stöðu: pólitísk jómfrú, óspillt af valdastólum; eiga skörulega talsmenn sem koma vel fyrir í fjölmiðlum -- og svo með þessa hipp og kúl áru, sem minnir á pönk eða einhvers konar uppreisn. En boðskapurinn, stefnan, kjarninn í stefnuskránni: efnahagsstefnan ... lætur á sér standa. Með öðrum orðum: Píratar bjóða ekki upp á neitt annað en áframhaldandi kapítalisma, alveg eins og hinir flokkarnir á Alþingi.

Þeir eiga örugglega eftir að fá marga menn kjörna á næsta ári. Og þeir munu örugglega taka til í einhverjum úreltum lögum og reglugerðum og margir munu fagna. Þeir munu örugglega koma mörgu góðu til leiðar. Eins og hinir flokkarnir hafa gert þegar þeir hafa verið í stjórn. En þeir munu ekki valda hér þeim nauðsynlegu vatnaskilum í efnahagsstjórn að brjóta auðvaldið á bak aftur, né einu sinni reyna það. Áran er bara ára. Hún er ímynd, meira í ætt við markaðssetningu heldur en pólitík. Hún virðist virka vel, en eftir nokkur ár er ég hræddur um að margir hafi orðið fyrir vonbrigðum. Og margir aðrir halda örugglega áfram að klappa fyrir þeim eins og fótboltaliði. Eins og er hjá hinum flokkunum.

Á meðan munum við í Alþýðufylkingunni halda áfram að sækja í okkur veðrið með stefnu okkar, sem ein íslenskra stefnuskráa sker sig úr borgaralegu flokkunum með skýrri sýn og efnahagsstefnu, sem vísar veginn út úr kapítalismanum og kreppunni og í átt til jöfnuðar og félagslegs réttlætis. Öfugt við alla hina flokkana.

Tuesday, March 8, 2016

Áttundi mars

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti er í dag. Af því tilefni er baráttufundur í Iðnó, sem meðal annars má lesa um hér, sem ég hvet fólk til að mæta á þótt ég komist ekki sjálfur.

Ingen klassekamp uden kvindekamp!
Ingen kvindekamp uden klassekamp!

Thursday, March 3, 2016

Ekki mannvonska, aðallega heimska

Flestir rasistar eru ekki "vont fólk" heldur virðulegir, sómakærir og illa upplýstir.

Það er feilskot að saka Ásmund Friðriksson um mannvonsku. Hann er aðallega hálfviti sem óábyrgt fólk hefur komið til of mikilla metorða.

Það þarf að taka það til alvarlegrar skoðunar, hvort Ásmundur þurfi ekki að læra að halda kjafti.

Wednesday, March 2, 2016

DíaMat: umsókn farin af stað

DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju var stofnað í fyrra. Ég er formaður þess. Í gær póstlagði ég formlega umsókn um að það fái skráningu sem lífsskoðunarfélag. Áhugasamir geta lesið greinarstúf um það hér og geta líka gefið sig fram í tölvupósti: vangaveltur@yahoo.com

SA, lífeyrissjóðir og hagsmunir almennings

SA segja: „Líf­eyr­is­sjóðirn­ir gæta hags­muna al­menn­ings í land­inu“ - nú skal ég ekki efa það, að fólk í SA og fólk sem er á launum hjá lífeyrissjóðum eða öðrum fjármálafyrirtækjum trúi þessu sjálft. En ég held að þessi fullyrðing hljómi hlægilega í eyrum margra, ef ekki flestra annarra.

(Til samanburðar lýsa SA sjálfum sér svona: „Samtök atvinnulífsins eru í forystu um samkeppnishæft rekstrarumhverfi sem stuðlar að arðbæru fjölbreyttu og ábyrgu atvinnulífi sem bætir lífskjör allra.“ - má ekki líka skilja þetta sem „gæta hagsmuna almennings í landinu“?)

Staðreynd: Beinir fulltrúar auðvaldsins eiga urmul fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóða.
Spurning: Ætli þeir gæti ekki hagsmuna umbjóðenda sinna?

Staðreynd: Lífeyrissjóðirnir hafa tapað gríðarlegu fé í verkefnum sem „einhverjir“hafa grætt gríðarlega á, og á að kaupa ónýt verðbréf sem „einhverjir“ hafa þá sloppið undan.
Spurning: Er hægt að útskýra það allt með klaufaskap?

Fullyrðing: Uppsöfnunarsjóðir með ávöxtunarkröfu eru ekki bjarghringur heldur myllusteinn fyrir almenning í landinu. Ávöxtunarkrafan þýðir annars vegar brask, þ.e. umsvif sem annað hvort tapa peningum eða græða á okurvöxtum eða arðráni. Hins vegar þýðir hún kröfu um síaukinn hagvöxt, sem getur ekki gengið upp vegna þess að kapítalisminn er ekki eilífðarvél heldur háður eigin tortímingu í formi kreppu. Kreppa kemur nokkrum sinnum á hverri starfsævi og í hvert skipti tapast verulegur hluti uppsöfnunarsjóða.

Þegar maður leggur saman iðgjaldið og peningana sem við borgum í vexti af lífeyrissjóðslánunum - hvað ætli gegnumstreymiskerfi mundi þá kosta í samanburðinum? Það væri áhugavert að vita það.

Og talandi um áhugavert: lesið ályktun Alþýðufylkingarinnar um lífeyrismál. Hún er áhugaverð!

Tuesday, March 1, 2016

Túristablaðran: Hvar endar þetta eiginlega?

Isavia var að uppfæra spá um fjölgun ferðamanna, úr 22% aukningu í 37% aukningu - miðað við í fyrra. Til stendur að nota 20 milljarða í viðbyggingar við Leifsstöð á árinu. Hvar endar þetta eiginlega? Hvað getur þetta land tekið við mörgum?

Og: Ef það gefur á bátinn í efnahagskerfi landanna sem ferðamennirnir koma frá, er þá flúðasiglingaferðin til Íslands ekki eitt af því fyrsta sem fólk hættir við að fá sér?

Spádómur: Í næstu kreppu (sem er kannski ekki langt undan) mun ferðamönnum til Íslands fækka um helming miðað við árið á undan. Hvað verður þá um öll nýju, fínu hótelin sem nú eru í byggingu?

Fordæmið er ekki langt undan: Spánn er ekki ennþá búinn að rétta úr kútnum eftir að þýskir ellilífeyrisþegar hættu að kaupa sér annað heimili í sólinni fyrir 7-8 árum síðan. Það er ekki nóg að byggja bara meira og meira upp af gistirýmum og öðrum innviðum. Það þarf líka að segja stopp á einhverjum tímapunkti. Stjórnvöld þurfa að gera það. Annað væri óábyrgt.

Friday, February 19, 2016

Á morgun: Alþýðufylkingin kynnir sig

Alþýðufylkingin heldur opinn kynningar- og umræðufund á morgun (20. febrúar) kl. 13, í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Skoðið fréttatilkynninguna:


...og mætið svo þangað og takið gesti með ykkur.

Tuesday, February 9, 2016

TISA og lýðræði á undanhaldi

Þórarinn Hjartarson skrifar á heimasíðu Alþýðufylkingarinnar:

TISA og lýðræði á undanhaldi

Friday, February 5, 2016

Bréfaskipti Þorvalds og Katrínar um Rússland og Úkraínu

Þorvaldur Þorvaldsson skrifaði um daginn opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur, og kallaði eftir því hvaða aftöðu Vinstri-græn hefðu til fasistavaldaránsins í Úkraínu og til viðskiptaþvingananna gegn Rússum. Lesið greinina. Katrín Jakobsdóttir brást svo við fáum dögum seinna, lesið líka: bréf til Þorvalds.

Athugið að ég skrifa „brást við“ en ekki „svaraði“ vegna þess að ég sé ekki að hún svari einföldum, beinum spurningum sem til hennar var beint. Vill einhver sjá skýra og beinskeytta afstöðu til málsins? Lesið þá ályktun Alþýðufylkingarinnar.

Tuesday, January 26, 2016

Hvaðan kemur allt þetta flóttafólk?

Flest flóttafólkið sem streymir nú til Evrópu er að flýja frá löndum sem eru í rúst eftir hernað heimsveldanna, ekki síst NATÓ (með þátttöku Íslands, ef einhver var búinn að gleyma því). Flóttamannastraumi fylgja vitanlega margvísleg vandamál -- en þeim vandamálum er tæpast hægt að líkja við vandamálin sem fólkið er að flýja. Flóttamenn koma, eðli málsins samkvæmt, ekki af því að þá langi bara til að koma, heldur eru þeir á flótta.

Ef fólk vill ekki flóttamannastraum -- og auðvitað vill hann enginn -- þá væri góð byrjun að hætta að taka þátt í að drepa fólk í öðrum löndum og rústa heimkynnum þess. Þið sem studduð Íraksstríðið og Afganistanstríðið eða loftárásirnar á Líbíu og Júgóslavíu -- munið það næst þegar á að fara í stríð og landsfeðurnir og spunarokkarnir fara að tala um hvað þessi eða hinn forsetinn sé mikill skúrkur.

Óvinurinn heitir: Heimsvaldastefnan. Hún er aflið sem sundrar friði og rekur fólk á flótta. Hún er skúrkurinn sem þarf að knésetja.

Thursday, January 21, 2016

Nýlendufranki

Fyrir 10 dögum bloggaði ég og spurði hvort franski frankinn lifði enn, en fréttamaður RÚV hafði þá skrifað eins og hann væri í notkun í Afríki, eða hefði verið það til skamms tíma.

Þetta var víst ekki alls kostar rangt hjá RÚV. Þótt það sé að vísu ekki franski frankinn, þá er CFA-frankinn mikið notaður í mörgum löndum Mið- og Vestur-Afríku. CFA stendur fyrir "Nýlendur Frakka í Afríku". Gjaldmiðillinn var með fast gengi við franska frankann og eftir að evran var tekin upp er hann með fast gengi við hana.

Þúsund CFA-frankar. Mynd: Wikipedia
Gagnrýnendur segja gjaldmiðilinn gera þessi fátæku lönd háð Frökkum, sínum gömlu nýlenduherrum, og gera þeim erfitt fyrir í efnahagsmálum. Málsvarar nútíma nýlendustefnu sjá hins vegar mikla kosti við þetta fyrirkomulag.

Þess má geta að Líbýustjórn undir Muammar Gaddhafi sáluga var með plön um nýjan, sam-afrískan gjaldmiðil sem ætti að leysa CFA-franka af hólmi og minnka þannig ítök Frakka í efnahagsmálum álfunnar. Voru Líbýumenn meðal annars búnir að safna hátt í 200 tonna gullforða til að standa að baki sínum gjaldmiðli. Þessi hættulegu áform voru ein af aðalástæðunum fyrir því að NATÓ hleypti öllu í bál og brand í Líbýu árið 2011, með stuðningi norrænu velferðarstjórnarinnar íslensku.


Monday, January 18, 2016

Brask með eignir almennings

Norski olíusjóðurinn er útópía sem m.a. borgaralegir vinstrimenn trúa á. Trúa á, að það sé hægt að þjóna langtímahagsmunum alþýðunnar með sjóðssöfnun og fjármálabraski, þótt allur hugsanlegur gróði af slíku komi alltaf á endanum úr vösum alþýðunnar sjálfrar. Þetta er sama hugsunarvillan og trúin á íslensku lífeyrissjóðina byggist á. Trúin á kapítalismann.

Í kapítalisma koma kreppur nokkrum sinnum á hverri meðalstarfsævi. Það er staðreynd. Mundi einhverjum detta í hug að safna matarforða til elliáranna og geyma hann svo í geymslu sem væri vitað að ætti eftir að brenna a.m.k. tvisvar eða þrisvar áður en ætti að éta hann?

Það getur ekkert vaxið endalaust. Það er staðreynd. Hagkerfið getur heldur ekki vaxið endalaust. Þegar af þeirri ástæðu er gróðahlutfallið dæmt til að minnka strax og menn fara að nálgast endimörk vaxtarins. Burtséð frá því krefjast þróaðri atvinnuhættir sífellt meiri fjárfestingar, sem aftur ber fjármagnskostnað, þannig að á þeim enda lækkar gróðahlutfallið líka.

Í tilfelli íslensku lífeyrissjóðanna, þá ávaxta þeir sig að miklu leyti með húsnæðislánum til sjóðsfélaga, á markaðskjörum. Meira en helmingurinn af húsnæðiskostnaði er vextir. Mundi einhver með öllum mjalla borga 100 milljónir fyrir hús sem kostar 40 milljónir? Það hljómar kannski klikkað, en margir gera það samt.

Saturday, January 16, 2016

Síðasta nýlenda Afríku

Vestur-Sahara er stundum kallað síðasta nýlendan í Afríku. Ekki höfðu spænsku nýlenduherrarnir fyrr yfirgefið svæðið, en marokkóski herinn kom og lagði það undir sig og innlimaði í Marokkó. Þeir hafa síðan farið með rányrkju um auðlindirnar - einkum auðugar fosfatnámur (fosföt eru einkum notuð í kemískan áburð fyrir landbúnað) og fiskimið, þar sem m.a. íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa fagnandi tekið þátt í að ryksuga upp þjófstolinn hestamakríl.

Til að styrkja hernám sitt í sessi hafa marokkóskir landnemar svo verið fengnir til að setjast að í Vestur-Sahara.

Þess má geta að Vestur-Saharamenn (Sahrawi-þjóðin) eru innan við milljón talsins og Marokkómenn 33 milljónir.

Tuesday, January 12, 2016

Albaníu-Ásdís og ungbarnadauðinn í Albaníu

Undanfarið hefur verið nokkur umræða um heilbrigðiskerfið í Albaníu -- væntanlega í sambandi við langveiku börnin -- og þá hafa menn rifjað upp ummæli Albaníu-Ásdísar Höllu Bragadóttur um að heilbrigðiskerfi Albaníu væri "ljósárum á undan" Íslandi í samkeppni í heilbrigðisþjónustu. Egill Helgason benti á að á meðan ungbarnadauði á Íslandi væri 2 af 1000, væri hann 13 af þúsund í Albaníu, -- skuggaleg tala fyrir Evrópuland. Ásdís varðist þessu tali og sagði að ungbarnadauðinn hefði verið þrisvar sinnum hærri 1989.

Það er rétt að halda því til haga hér, að valdatöku kommúnista í Albaníu 1945 fylgdi sannkölluð bylting í heilbrigðismálum -- eins og fylgir reyndar oft valdatöku kommúnista. Á fyrstu átta árum valdatíma þeirra meira þrefaldaðist t.d. fjöldi spítalarúma, úr 1765 í 5500 (sem var samt of lítið) og ungbarnadauðinn lækkaði úr 112,2 af 1000 árið 1945 niður í 99,5 af 1000 árið 1953. Á þessum 8 árum lærði meira en hálf þjóðin að lesa (ólæsi fór úr 85% niður fyrir 30%) og mýrar voru ræstar fram og malaríu þannig útrýmt. Það munar víst um það líka. Og árið 1970 var ungbarnadauðinn kominn niður í 75 af 1000 og niður í 40 af 1000 árið 1989.

Á árunum 1945 til 1990 fjölgaði fólki úr rúmri 1,1 milljón í 3,3 milljónir, vegna þess að fólk lifði miklu lengur. Frá 1990 hefur því fækkað aftur niður í rétt rúmar 3 milljónir.

Þessar tölur tala sínu máli, er það ekki?

Monday, January 11, 2016

Lifir franski frankinn enn?

Af vef RÚV:
Auk þess höfðu [Frakkar] miklar áhyggjur af því að Gaddafi ætlaði að minnka áhrif Frakka með því að koma á fót eigin gjaldmiðli, sem yrði notaður víðar í álfunni, til þess að koma í stað franska frankans sem er útbreiddur í Afríku. Gaddafi lá á gríðarlegum gull- og silfurforða sem hann ætlaði að nota til þess að styðja við gjaldmiðilinn. 
Frakkar tóku þátt í Líbýustríði til að standa vörð um franska frankann. Þetta hefur RÚv eftir Simon Blumenthal, ráðgjafa Hillary Clinton. Franska frankann? Hafa Afríkumenn ekki frétt af evrunni?