Wednesday, September 30, 2009

Ráðvillt Samfylking

Jóhanna segist vera hissa á að Ögmundur hafi sagt af sér. Segir afsögnina hafa komið sér á óvart, talar jafnvel um að fallast ekki á afsögnina. Hún er þá grænni en ég hélt. Hvað hélt hún eiginlega að hún gæti notað úrslitakosta-taktíkina oft?

Af þingmönnum Samfylkingarinnar sem RÚV talaði við, segja flestir að „Vinstri grænir hljóti að átta sig á alvöru málsins“ -- semsé að þetta ágæta fólk hljóti nú að átta sig á mikilvægi þess að landsmenn taki á sig ábyrgðina á IceSave-hneykslinu. Hvernig er þetta, hver þarf að fara að átta sig á alvöru hvers hérna?

Um svipaðar mundir er svo Hannesi Hólmsteini boðið á kappræðu gegn Kristrúnu Heimisdóttur á landsþingi Ungra jafnaðarmanna. Anna Pála Sverrisdóttir, fráfarandi formaður þeirra, og hefur ekki fyrr sagt, svo réttilega, að „hugmyndafræðin sem við endurreisum Ísland á skiptir öllu máli“, fyrr en hún skýrir byltingarkennda uppgötvun, jú, að „þar standa Hannes og Kristrún fyrir gjörólíka nálgun.“ Hér er frétt: Samfylkingin á sér ekki hugmyndafræði. Hún er hentistefnusinnaður, tækifærissinnaður hægrikratískur ESB-sleikjandi valdapotsflokkur sem á sér þann draum heitastan að taka við hlutverki Sjálfstæðisflokksins sem aðal varðhundur auðvaldsins á Íslandi.

Hannes Hólmsteinn á sér hugmyndafræði, sem er að fjármagnið ráði alltaf og fólk mæti afgangi. Ég er ekki sammála þeirri hugmyndafræði, en hugmyndafræði er hún. „Gjörólík nálgun“ væri væntanlega að fólk sitji alltaf í fyrirrúmi en fjármagnið mæti afgangi, er það ekki? Það var ekki nálgun Samfylkingarinnar síðast þegar ég vissi, enda mundi slík nálgun útheimta byltingu og nýtt þjóðskipulag.

Ekki nóg með þetta, heldur talar Össur Skarphéðinsson um sömu mundir hjá Sameinuðu þjóðunum, segir það vera „útslitaatriði að þjóðir heims samein[ist] um að ná bindandi samkomulagi um takmörkun gróðurhúsalofttegunda í Kaupmannahöfn í desember“ og lýsti frekari áhyggjum sínum af umhverfismálum, stóriðjusinninn sjálfur. Ætli hann trúi því sjálfur, að þessi Kaupmannahafnarfundur verði eitthvað annað en sýndarmennska?

Afsögn Ögmundar og ríkisstjórnarsamstarfið

Ég rak upp stór augu í morgun þegar ég las Fréttablaðið. Þar er haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur að ef ekki náist "samstaða um lyktir Icesave-málsins innan ríkisstjórnarflokkanna í vikunni [sé] ríkisstjórnarsamstarfinu sjálfhætt". Svo er sagt að Jóhanna hafi misst alla þolinmæði.

Ekki er ég hissa á að Ögmundur hafi misst þolinmæðina. Þetta er hvorki meira né minna en fjórða skiptið á innan við tólf mánuðum sem Samfylkingin spilar þessu últimati. Fyrst Ingibjörg Sólrún gegn Sjálfstæðisflokknum um Evrópusambandið síðasta vetur. Svo Jóhanna við VG vegna Evrópusambandsins. Svo vegna IceSave, nú aftur vegna IceSave.

Það sagði mér kona, að ef hún yrði einhvern tímann fyrir heimilisofbeldi mundi hún slíta sambúðinni strax og ekki gefa annan séns. Sama gildir um stjórnarsamstarf. Það kallast ekki samstarf ef annar aðilinn lætur svínbeygja sig í hverju málinu á fætur öðru. Ég reifaði það í stuttu máli á flokksráðsfundi VG fyrir mánuði, í Átta tesum. Síðasta tesan endaði svona: "Hugsjónir eru ekki skiptimynt fyrir ráðherrastóla og hótanir um stjórnarslit koma ekki í stað endurgjalds fyrir eðlilegar málamiðlanir."

Ég rak upp stór augu í morgun vegna þess að ég hélt að Jóhanna væri diplómatískari en svo að halda að það sé hægt að brýna deigt járn án þess að það bíti á endanum. Ég veit ekki hvort hún er fær um að vera forsætisráðherra, en hitt veit ég að hún er ekki fær um að leiða vinstristjórn.

Þótt þessi svokallaða vinstristjórn hafi ekki verið vinstrimönnum að skapi og hafi framfylgt hægristefnu í flestum aðalatriðum, þá skulum við ekki láta eins og hún hafi verið gagnslaus. Nei, þvert á móti hefur hún verið dýr og um leið dýrmæt lexía, með því að skilja hafrana frá sauðunum. Því hefur til dæmis (nýlega) verið haldið fram að flokksmenn VG geti stólað á þingmenn flokksins til að standa gegn Evrópusambandinu. En hvað sýnir reynslan?

Svari hver fyrir sig -- en ef þingmenn VG eru með múður út af ESB eða einhvejru öðru mikilvægu, hótar þá ekki Jóhanna bara að samstarfinu sé sjálfhætt?

Tuesday, September 29, 2009

Réttur er settur

Ég lýsi þetta blogg formlega tekið í notkun. Fólki sem linkar á mig er vinsamlegast bent á að nú er viðeigandi að breyta linkunum. Hér eftir verður þetta aðalvettvangur minn fyrir blogg. Ég hef hvorki í hyggju að blogga aftur á Vangaveltu-blogginuHversdagsamsturs-blogginu. (Um Moggabloggið hef ég ekkert ákveðið, en það er á ís í bili.) Satt að segja voru þau dálítið vanhugsuð frá upphafi. Ég hugsaði með mér að best væri að halda persónulegu málum á einu bloggi og pólitískum á öðru. En til hvers? Hvers vegna ætli flestir láti sér nægja að vera með eitt blogg með hvoru tveggja? Líka: Þegar maður er farinn að skrifa nokkuð reglulega á vefmiðla eins og Eggina eða Vantrú, þá fjölgar óneitanlega hornunum sem maður hefur að líta í og þá verður það eins og kvöð að hafa mörgum bloggum að sinna. Ég skil ekki heldur, btw., hvers vegna ér stend í því að halda úti mörgum netföngum. Það þriðja með gömlu bloggin mín tvö sem var vanhugsað, var slóðin. Allt of löng, á þeim báðum. Á þessu nýja bloggi hefði ég sleppt bandstrikinu og haft slóðina bara vest1, en Blogger býður ekki upp á það. Stutt og snyrtilegt, það er betra þannig. Já, ekki má gleyma: Glöggir gestir sjá að tenglasafnið á spássíunni er mun styttra en það var. Maóistaflokkur Afganistans er t.d. ekki lengur, heldur ekki Neturei Karta o.fl. Einfaldara er betra. Jamm.

Skoðið annars blogg Rauðs vettvangs og dagskrá ráðstefnunnar Baráttudaga 10.-11. október. Glæsileg dagskrá sem enginn alvöru vinstrimaður vill missa af.

Friday, September 25, 2009

Nýtt blogg

Áðan stofnaði ég þetta nýja blogg og flutti yfir á það allt efni af gömlu bloggunum, Vangaveltum og Hversdagsamstri, tæpar 3000 færslur frá haustinu 2003 til þessa dags. Eftir helgi verður þetta nýja bloggið mitt og frá og með komandi mánudegi mun ég fyrst og fremst blogga hér. Gömlu bloggunum ætla ég að leyfa að hanga uppi um hríð en eyðing þeirra er samt komin á dagskrá. Ég veit ekki hvað ég geri við Moggabloggið mitt. Ætla alla vega ekki að eyða því, a.m.k. ekki strax, en efast um að ég muni nota það mikið. Ég er a.m.k. búinn að eyða mbl.is úr flýtivali á vafranum mínum.

Fólk sem er með tengil í bloggið mitt má gjarnan breyta honum í samræmi við nýja vefslóð.

Þessi helgi

Þessa helgi missi ég af mörgu merkilegu. Dæmi:
Landsfundur UVG á Hvolsvelli, þar sem eflaust verður tekist á um frammistöðu ríkisstjórnarinnar, flokksforystunnar og flokksins almennt. Það er synd að láta sig vanta á hann, nú veitir forystunni ekki af aðhaldi frá vinstriarminum.
Málfundurinn "Þörf á rauðu stjórnmálaafli?" á Akureyri á laugardaginn, sem Stefna stendur fyrir. Vinstrimenn á Akureyri og þar í grennd eiga fullt erindi á þann fund. (Þar verður meðal annars kynnt ráðstefnan Baráttudagar í október, sem ég vek hér með athygli á líka.)
Á sunnudaginn halda svo VG á Héraði fund á Egilsstöðum (býlinu, ekki kaupstaðnum).

Moggabloggið og það allt...

Ég er einn af þeim sem finnst að Davíð Oddsson ætti að verja tíma sínum í að gróðursetja tré og gefa flækingsköttum mjólk, en ég ætla að spara stóru orðin að sinni. Ég hef ekki gert upp við mig hvort ég fylgist með Morgunblaðinu og mbl.is í framtíðinni eða ekki. Ég hef heldur ekki gert upp við mig hvort ég held áfram að Moggablogga. Ég hef hingað til álitið Morgunblaðið pólitískt hlutdrægan fjölmiðil og það mun ég gera áfram. Ástæðan fyrir því að ég byrjaði að blogga þar var í senn praktísk og hégómleg: Að ná til fleiri lesenda.

Nú hafa margir bloggvinir og aðrir hætt Moggabloggi og sagt upp áskrift að Mogganum. Hafi einhverjum þótt lítið til Moggabloggsins koma -- og ég hef fullan skilning á því -- þá verður það sýnu snautlegra núna. Ég ætla ekki að loka blogginu í bili, en hef tekið öryggisafrit af því, bara til að vera viss. Á næstunni mun ég lesa meira af öðrum vefmiðlum, sem ég hef reyndar gott af hvort sem er. Það er engum manni hollt að fá flestar sínar fréttir úr Morgunblaðinu.

Talandi um hollan uppruna upplýsinga, þá má ég til með að benda á þann ágæta vef Eggin.is. Þar er einmitt að finna þessa grein eftir sjálfan mig:

30,1% landsmanna segjast til í greiðsluverkfall. Þótt það væri ekki nema helmingur þeirra er það samt nóg til að knésetja bankana. Stór hluti landsmanna til viðbótar er fús til að beita annars konar þrýstingi, til dæmis að greiða aðeins af lánum skv. upphaflegum áætlunum eða taka út sparifé sitt. Þetta er ekkert annað en reiðarslag fyrir bankana, fjármálaauðvaldið og auðvaldið í heild. Ef Hagsmunasamtök heimilanna fá 15% með sér í verkfallið, þá getur ríkisvaldið ekki annað en gefist upp og samið.

Tuesday, September 22, 2009

VG og skuldir heimilanna

30,1% landsmanna segjast til í greiðsluverkfall. Þótt það væri ekki nema helmingur þeirra er það samt nóg til að knésetja bankana. Stór hluti landsmanna til viðbótar er fús til að beita annars konar þrýstingi, til dæmis að greiða aðeins af lánum skv. upphaflegum áætlunum eða taka út sparifé sitt. Þetta er ekkert annað en reiðarslag fyrir bankana, fjármálaauðvaldið og auðvaldið í heild. Ef Hagsmunasamtök heimilanna fá 15% með sér í verkfallið, þá getur ríkisvaldið ekki annað en gefist upp og samið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Skuldavandi heimilanna er eitthvert skýrasta dæmið um hvað er í gangi. Ríkisvaldið munar ekki um að snara út milljörðum á milljarða ofan til að redda fjármálaauðvaldinu, en þegar kemur að heimilunum, þá er eins og ekkert sé hægt. Það er ekki eins og fólk sé að biðja ríkið að gefa sér peninga. Leiðrétting á höfuðstóli er bara viðurkenning á því að með hruninu hefur orðið algjör forsendubrestur. Nú, og afskriftir eru afskriftir á peningum sem eru ekki til -- ógreiddum afborgunum sem aldrei var reiknað með til að byrja með. Þessar skuldir eru uppskáldaðar og það á bara að stinga á þær. Það er eina leiðin.
Hagsmunasamtök heimilanna eru að verða að afli sem er ekki hægt að hunsa. Ríkisstjórnin hefur þráast við, en er á undanhaldi og sífellt meiri brestir koma í vörnina. Fleiri og fleiri koma fram og eru meðmæltir einhvers konar niðurfærslu eða leiðréttingu. Það mun líka enda þannig, og eins gott að játa það bara strax. Ef þriðjungur landsmanna verður keyrður í gjaldþrot, þá er úti um friðinn í landinu. Ef 15% landsmanna fara í greiðsluverkfall, þá verður samið við þá.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Við þá vinstrimenn, sem hafa bitið það í sig að skuldaleiðrétting sé óréttlát, við ég segja: (a) Hækkanir á höfuðstóli eru óréttlátar og mér er sama hvort fólk "getur" borgað eða ekki. Maður borgar ekki skuldir sem maður hefur ekki unnið til. (b) Þetta snýst ekki um að sleppa þeim ríku á kostnað hinna fátæku. Ef einhverjir ríkir sleppa í leiðinni, þá verður bara að hafa það, en að sjálfsögðu á að hafa eitthvert hámark. (c) Aðalástæðan fyrir tregðu stjórnvalda að leiðrétta skuldirnar er ekki sú að það sé svo ósanngjarnt. Nei, þessar húsnæðisskuldir eru verðmætustu eignir bankanna og uppistaðan í eiginfé þeirra, er það ekki? Leiðrétting á þeim þýðir afskrift á stórum hluta eiginfjár bankanna. Það eru m.ö.o. hagsmunir auðmagnsins að halda fólki í skuldafjötrunum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Áður en einhver fer að barma sér yfir lífeyrissjóðunum: Það á að þjóðnýta þá og endurskipuleggja lífeyriskerfið allt saman sem hreint gegnumstreymiskerfi, jafna lífeyrisgreiðslur í áföngum og hætta að safna upp sjóðum sem nýtast hvort sem er aðallega auðvaldinu og binda hagsmuni okkar við hagsmuni þess. Kauphöllin hrynur a.m.k. einu sinni á hverri meðalstarfsævi og það er ekkert nema heimska að safna heyi í hlöðu sem maður veit að mun brenna. Auk þess borðum við ekki peningana, heldur það sem við fáum fyrir þá þegar við tökum þá út. Með öðrum orðum: Þegar við komumst á lífeyri, þá lifum við áfram á hagkerfinu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Á flokksráðsfundi VG á dögunum, lagði ég fram ályktunartillögu sem hljóðaði svo:

Flokksráðsfundur VG á Hvolsvelli í ágúst 2009 lýsir áhyggjum af skuldastöðu heimilanna í landinu. Þar eð til stendur að efna til greiðsluverkfalls frá og með 1. október nk., lýsir fundurinn samúð [eða samstöðu] með þeim heimilum sem sjá fram á óbærilegan skuldabagga.
Heimilin í landinu hljóta að ganga fyrir bönkunum. Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að leysa málið með því að leiðrétta óverðskuldaða eignaupptöku sem heimilin hafa orðið fyrir en eiga enga sök á, til dæmi með því að færa niður höfuðstól húsnæðislána.
Vegna þess að knappur tími gafst til umræðna á flokksráðsfundinum, lagði ég sjálfur til að tillögu minni yrði vísað til stjórnar flokksins, og bauðst jafnframt til að taka sjálfur þátt í umræðu þar. Það var samþykkt með lófataki. Fyrir hálfum mánuði var hún svo afgreidd og mér tilkynnt um það að VG mundu halda "áfram þeirri vinnu sem er í gangi til að létta á skuldastöðu heimilanna frekar en að lýsa samúð með fólki í erfiðri stöðu [leturbreyting VV]".

Dagurinn sem allir eru jafnir

Á jafndægri á hausti skín sólin nákvæmlega 12 klukkutíma alls staðar á jörðinni.

Til hamingju með daginn!

Thursday, September 17, 2009

Fundur um greiðsluverkfall í kvöld

Bendi fólki á fundinn í kvöld þar sem fjallað verður um yfirvofandi greiðsluverkfall sem byrjar 1. október.

Framsögur munu halda Þorvaldur Þorvaldsson, Aldís Baldvinsdóttir og Einar Árnason hagfræðingur og auk þeirra verða í panel Ólafur Arnarson, Björn Þorri Viktorsson og greiðsluverkfallsstjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.

Wednesday, September 16, 2009

Af okkur

Eldey er alveg við það að byrja að skríða. Það er eiginlega skilgreiningaratriði hvort hún byrjaði á því í gær eða hvort það verður á morgun. Hún er nýbyrjuð í ungbarnasundi fyrir lengra komna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Var að senda þetta til Tryggingamiðlunar Íslands:
Góða kvöldið.
Áðan var hringt í mig og mér boðin "tryggingamiðlun". Fyrir utan það að ég er fullfær um það sjálfur að afla mér upplýsinga og setja mig í samband við fyrirtæki ef ég kæri mig um tryggingar, þá var hringt klukkan 19:08. Á þeim tíma er flest heiðarlegt fólk að borða kvöldmat. Rímar þetta við það sem þið segið á forsíðunni, um "góða þjónustu"? Þið megið bóka það að ef ég kæri mig einhvern tímann um ráðleggingar í tryggingamálum, þá mun ég snúa mér til keppinautarins.
Kveðja, Vésteinn Valgarðsson
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í dag og í gær fór Vantrú í Háskóla Íslands og skráði 35 manns úr ríkiskirkjunni. Við verðum aftur á morgun og hinn!

Sunday, September 6, 2009

Að Helga Hóseassyni látnum

Það hryggir mig að Helgi Hóseasson sé dáinn án þess að hafa fengið bót sinna mála. Hann var maður með hjartað á réttum stað, ofvaxna réttlætiskennd og ótrúlegt baráttuþrek. Málstaður hans var réttur og það var ríkiskirkjan sem beitti hann ranglæti, les: Sigurbjörn Einarsson. Þótt Helgi sé loksins hættur, þá heldur baráttan áfram og henni linnir ekki fyrr en með fullum sigri og aðskilnaði ríkisins frá hjátrú, kreddum og forneskju.

Wednesday, September 2, 2009

Átta tesur

Ríkisstjórnarseta skiptir miklu, en til eru mál sem veg of þungt til að eftirgjöf sé ásættanleg.

1. Sá sem vill ekki ganga í Evrópusambandið sækir hvorki um aðild að því né kýs flokk sem gerir það.

2. Sá sem vill stöðva stóriðjustefnu lætur hvorki álversframkvæmdir í Helguvík halda áfram óáreittar né kýs flokk sem gerir það.

Lesa rest á Egginni: Átta tesur.