Tuesday, April 27, 2021

"List" hins mögulega? Bismarck rangþýddur

Það er stundum vitnað í hinn orðsnjalla Otto von Bismarck og haft eftir honum að stjórnmál séu "list hins mögulega", þegar fólk vill hljóma klárt. Þetta sagði Bismarck aldrei. Hann sagði Politik ist die Lehre des Möglichen. Lehre þýðir fræðigrein og þær eru (eða voru) kallaðar arts á ensku, náttúrlega sama orð og fyrir listir. Þannig að "Art of the possible" er í sjálfu sér rétt ensk þýðing, en "list" er það ekki á íslensku. Munið þetta, krakkar, þetta verður til prófs.

Bismarck var annars í nöp við lækna, er sagt, og leitaði helst ekki til þeirra. En einu sinni var hann svo veikur að það var samt kallaður til læknir, sem fór að skoða hann og spyrja hvernig honum liði. Karlinum leiddist þetta og sagði lækninum að hætta þessum spurningum og finna bara hvert meinið væri. Læknirinn svaraði þá: "Ef þér viljið lækni sem spyr ekki spurninga, ættuð þér að fá yður dýralækni." Bismarck þótti svarið svo snjallt að hann gerði þennan lækni að líflækni sínum.

Tuesday, April 20, 2021

Búktalari í útvarpinu

Allir muna eftir Baldri og Konna. Baldur Georgsson var búktalari og Konni brúðan hans. Það eru um þrjátíu ár síðan Baldur lést, en þið getið séð Konna á Þjóðminjasafninu. Ég hafði mikið gaman af að lesa Galdra- og brandarabók Baldurs og Konna þegar ég var lítill og hlæ enn dátt að bröndurunum sem hún kenndi mér. Eins og: "Hún var með svo framstæðar tennur að hún gat borðað epli í gegn um tennisspaða." Hahaha, gott á hana!

Sagt er að Baldur hafi einhvern tímann verið að skemmta í Hafnarfirði og reytt af sér hafnfirðingabrandara, og lét Konna alltaf segja lokaorðin, þar til einn maður stóð upp, öskureiður, og sagði að það væri hneisa að hæðast svona að venjulegu, heiðvirðu fólki. Baldur fór að afsaka sig, en maðurinn greip fram í: "Ég er ekki að tala við þig, ég er að tala við þetta litla fífl sem situr á hnénu á þér!"

Það eru til hljóðupptökur af Baldri og Konna, og af Konna að syngja dægurlög með Alfreð Clausen. Þetta kom út á plötum, og var eitthvað spilað í útvarpi líka. Búktal í útvarpi.

Tuesday, April 13, 2021

Húsasnotra Þorfinns karlsefnis

Og er hann var albúinn og skip hans lá til byrjar fyrir bryggjunum þá kom þar að honum Suðurmaður einn, ættaður af Brimum úr Saxlandi. Hann falar af Karlsefni húsasnotru hans.

"Eg vil eigi selja," sagði hann.

"Eg mun gefa þér við hálfa mörk gulls," segir Suðurmaður.

Karlsefni þótti vel við boðið og keyptu síðan. Fór Suðurmaður í burt með húsasnotruna en Karlsefni vissi eigi hvað tré var. En það var mösur kominn af Vínlandi. 

Grænlendinga saga, 8. kafli 

Ég er ekki sá eini sem hefur hnotið um þessar línur í Grænlendinga sögu. En smá orðskýringar, áður en lengra er haldið. Íslensk orðabók (2007) skýrir: húsasnotra: ... verðmætur smíðisgripur úr tré (skraut eða siglingatæki?); mörk: ... hálfpund ... 214 eða 217 grömm; mösur: ... 1 ... hlynur ... 2 ... hnúður, vaxinn sem meinsemd á tré [þ.e. viðarnýra].

Þjóðverjinn gefur Þorfinni karlsefni hálfa mörk gulls, það eru yfir hundrað grömm og mundi kosta yfir 5000 bandaríkjadali að núvirði. Fyrir smíðisgrip úr tré. Hvað í fjandanum var þetta?

Páll Bergþórsson hefur skrifað það fróðlegasta sem ég hef séð um húsasnotru Karlsefnis og ég hef svo sem engu við þann fróðleik að bæta. Nema því að ég skil vel að Karlsefni hafi þótt vel boðið, að fá fyrir smíðisgrip úr tré kannski þyngdar virði í gulli.

(Viðurnefnið Karlsefni er líka skrítið.)

Tuesday, April 6, 2021

Tilboð á moldvörpugildrum

Þegar Bauhaus opnaði á Íslandi, var stillt upp einhverju stöðluðu úrvali af vörum sem kom í gámum frá meginlandinu. Þar á meðal voru moldvörpugildrur. Þær þykja víst mesta þing í öðrum löndum. Verklagið sagði að þær ættu að vera á boðstólum. Skrítið var, að þær seldust ekki. Barasta ekki.

Það var haft samband við móðurstöðina á meginlandinu og spurt hvort mætti ekki bara taka þær úr sölu. Nei, var víst svarið, byrjið á að bjóða þær með helmings afslætti. En þær seldust samt ekki.