Tuesday, February 23, 2021

Offramboð á húsnæði: Ráð í tíma tekið

Ég hata stundum þegar ég hef rétt fyrir mér. Í kosningabaráttunni fyrir borgarstjórnarkosningar 2018 var eitt af baráttumálum Alþýðufylkingarinnar að borgin ætti að byggja íbúðarhúsnæði umfram það sem þarf í rauntíma, þ.e. að það yrði viljandi skapað eins konar offramboð. Eins konar, segi ég, vegna þess að í raun væri bara verið að gera ráðstafanir í tæka tíð, byggja fram í tímann.

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu er, held ég, stærsta geðheilbrigðisvandamál íslensku þjóðarinnar. Áhyggjur og kvíði fólks sem rétt svo nær endum saman vegna þess hvað húsnæði er dýrt, eru raunverulegar áhyggjur og kvíði. Fólk neyðist til að vinna meira og verja þannig minni tíma með börnunum sínum. Ætli börnin finni ekki fyrir því?

Offramboð þurrkar út spekúlatífar verðhækkanir, sem stafa af alvarlegum og áralöngum skorti. Það er fyrsta og fremsta ástæðan fyrir að það væri til bóta. En aðrar góðar ástæður mæla líka með því: Segjum að það kæmi kreppa og byggingariðnaðurinn gengi i stå eins og eftir Hrun. Þá væri til forði af húsnæði. Nú, segjum að við vildum taka við þúsund flóttamannafjölskyldum. Það væri auðveldara ef það væri þegar til húsnæði handa þeim öllum.

Segjum að flóttamennirnir kæmu ekki einu sinni frá útlöndum. Í því samhengi nefndi ég eldgosið í Heimaey. Segjum að það endurtæki sig. Mér brá nú samt þegar spáin rættist næstum því, þegar fór að skjálfa í Grindavík. Eða aurskriðurnar að renna á Seyðisfirði. Það kemur auðvitað að því fyrr eða síðar í þessu landi, að það þarf að rýma heilt byggðarlag og koma þúsundum fyrir annars staðar. Þegar það gerist, þá væri gott að hafa í hús að venda.

Ekki draugaborg heldur hverfi sem er ekki
enn búið að flytja inn í (Wikipedia)
Það sannfærðust ekki nógu margir af málflutningi okkar til þess að áformin næðu fram að ganga. Að minnsta kosti ekki enn. Iss, hver nennir að hlusta á varnaðarorð?

En það er til land þar sem ráðstafanir eru gerðar. Munið þið eftir því sem maður sá annað slagið í fréttum
fyrir ekki svo löngu síðan, að í Kína stæðu draugaborgir fullbyggðar, gætu tekið hundruð þúsunda manns en það byggi enginn í þeim? Getið hvað, þær voru og eru byggðar samkvæmt plani. Þar eru byggð heilu hverfin -- hundruð þúsunda geta búið í einu hverfi í milljónaborg -- heilu hverfin, tilbúin fyrir fólksfjölgun í borgum, sem er vitað að kemur. Og hún kemur. Þessi hverfi eru reist, síðan er flutt inn í þau. Þau eru tilbúin þegar þarf að nota þau. Og við Vesturlandabúar, við getum aldeilis hlegið að þessum Kínverjum, sem gera ráðstafanir og byggja upp innviði áður en þarf að nota þá. Hí á þá.

Tuesday, February 16, 2021

Brennu-Njáls saga á hljóðbók

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á Brennu-Njáls sögu. Það eru nokkur ár síðan mér var bent á að hlusta á hljóðbókina þar sem Hallmar Sigurðsson les hana; sjálfur lesturinn, var mér sagt, væri svo góður að það væri næg ástæða til að hlusta á hana. Og því var ekki logið. Lestur Hallmars er skýr, laus við öll tilþrif og leyfir textanum sjálfum að njóta sín til hins ítrasta.

Mynd: Eldsveitir.is

Nú um daginn keypti ég svo aðra hljóðbók með Njálu, tíu segulbandssnældur með upplestri Einars Ól. Sveinssonar frá 1973. Ég var spenntur að hlusta á hana og bera saman, því ég átti von á góðu þar sem EÓS var en bjóst ekki við að hann næði að skáka Hallmari. Og hann gerir það satt að segja ekki. Lestur EÓS er að vísu lýtalaus. En lestur Hallmars er bara ennþá lýtalausari. (Er ekki annars hægt að stigbreyta þessu orði?)

Að Höskuldi Þráinssyni drepnum er gengið langt til að reyna að ná sáttum. Þingheimur skýtur saman silfri til að borga hæstu manngjöld sem höfðu þekkst: sex hundruð silfurs. Svo fjúka óvífin orð milli Flosa og Skarphéðins og allt fer út um þúfur.

Og ég fæ skrítna tilfinningu. Þótt ég hafi bæði lesið bókina og hlustað á hana nokkrum sinnum, er ég samt alltaf að vona að nú takist þetta, að nú náist sættir og brennunni verði afstýrt. Og verð alltaf fyrir vonbrigðum þegar allt kemur fyrir ekki. Og þegar Njáll er brenndur ... enn einu sinni ... sakna ég hans og líður nánast eins og ég hafi misst vin.

Monday, February 15, 2021

Miklabraut í stokk

Nú er ég alveg hlynntur því að leggja Miklubraut í stokk. En hvers vegna var það ekki gert hér um árið þegar henni var gerbreytt? Það var hvorki lítið rask né kostnaður, og verkinu var varla lokið þegar var farið að tala að breyta henni aftur. Þetta var kallað tvíverknaður í minni heimasveit, og þótti ekki til marks um mikið verksvit.

Tuesday, February 9, 2021

Sundabraut

Ef Sundabraut væri lögð, mundi byrja nærri Kleppi, fara yfir á Gufunes, þaðan í Geldinganes, þaðan í Gunnunes og frá Álfsnesi yfir á Kjalarnes mundi vegalengdin fráElliðaárósum upp á Kjalarnes styttast um ca. 7 kílómetra, eða sem nemur allir leiðinni frá Elliðaárósum í Garðabæ. Öll vegalengdin yrði eins og frá miðbæ Reykjavíkur suður í Straumsvík. Það mundi þýða að Grundarhverfi á Kjalarnesi, með gríðarmiklu mögulegu byggingarlandi, yrði komið í seilingarfjarlægð frá Reykjavík. Að ótöldu landinu sem brautin færi um; þótt ekki sé gert ráð fyrir landfyllingum með miklu flatarmáli, bætast við a.m.k. tveir ferkílómetrar á Geldinganesi og nokkrir til á Gunnunesi, Álfsnesi og jafnvel Þerney, og það þótt hafður sé góður radíus í kring um ruslahaugana.

Þá mundi Sundabraut verða möguleg flóttaleið út úr borginni. Mér þætti alveg sæmilega skynsamlegt að gera ráð fyrir því að einhvern tímann gæti þurft að rýma borgina í skyndi og að einhverjar leiðir út úr henni gætu lokast. Eða er alveg galið að hugsa sér slíkt ástand?

Í myndbandi um mögulega Sundabraut sem einhvern tímann birtist í fréttum, sást að ein möguleg lega hennar væri í gegn um göngudeildina á Kleppi. Ég legg til að sú leið verði ekki valin.

Tuesday, February 2, 2021

Kerfisbreytingarflokkarnir

Það mundu ekki margir nenna að lesa upptalningu á öllum þeim dæmum sem ég gæti nefnt um að Alþýðufylkingin hefði verið sniðgengin í kosningaumfjöllun fjölmiðlanna. Sú upptalning mundi auk þess æra óstöðugan. En nógu þreytandi var það.

Eitt bjánalegasta dæmið hlýtur samt að vera þegar einhver blaðamaðurinn tók saman yfirlit yfir alla flokkana sem voru í framboði og flokkaði þá eftir því hvort þeir stæðu fyrir kerfisbreytingar eða ekki. Þetta stuðorð var þrástef í kosningabaráttunni 2016 og 2017. Ég hef úrklippuna því miður ekki handbæra.

Alþýðufylkingin boðaði hvarf frá kapítalisma, góðan spöl í átt til sósíalismans. Eigindarbreytingu sem væri ekki til þess að bjarga hagkerfinu, heldur koma á nýju hagkerfi með nýjum grundvallargildum. Einkum gerbreytt fjármála-, lífeyris- og húsnæðiskerfi. Miklu róttækari kerfisbreytingar en nokkur annar boðaði.

Þetta sá blaðamaðurinn ekki sem kerfisbreytingar, heldur flokkaði okkur sem kerfisflokk. Alþýðufylkinguna sem kerfisflokk. Ég er nú ekki samsærissinnaðri en svo að ég skrifa þetta bara á gamaldags leti. Einhver hefði samt trúlega tekið sterkar til orða en það.