Tuesday, December 29, 2015

RIP Lemmy Kilmister

Síðan ég var unglingur hefur Lemmy Kilmister borið höfuð og herðar yfir aðra rokkara og fáir komist nálægt honum. Sem fullorðinn maður sá ég hann níu sinnum á tónleikum, einu sinni í Bretlandi og átta sinnum í Þýskalandi. Það voru góðar stundir.

Hann var kannski fylliraftur, hann var kannski dópisti, hann var kannski flagari, hann var kannski hás gamall karl með loðin kýli út úr andlitinu, en hann var alltaf langflottastur og alltaf einstakur.

Tuesday, December 15, 2015

DíaMat: Díalektísk efnishyggja

DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju tók til starfa fyrr á þessu ári, og hefur smám saman verið að safna félögum. Vantrú birti á dögunum grein um það, eftir sjálfan mig, en ég er forstöðumaður þess.

Hér með er skorað á áhugasama að gefa sig fram í tölvupósti: vangaveltur@yahoo.com

Thursday, December 10, 2015

Um skertan samningsrétt stéttarfélaga

Þórarinn Hjartarson skrifar um þreifingar um rammasamkomulagið um vinnumarkaðinn, sem var undirritað í haust:

Skjótt og hávaðalaust er komin í notkun NÝ UMGJÖRÐ um kjaraviðræður í landinu. Rammi sem engar kröfur mega fara út fyrir liggur fyrir í upphafi viðræðna. Aldeilis tromp fyrir atvinnurekandann að slá í borðið með!

Er þetta nokkuð annað en tæki fyrir auðvaldið, til að skammta vinnandi fólki laun? Lesið grein Þórarins: Skertur samningsréttur stéttarfélaga.

Tuesday, December 8, 2015

Hið þríeina stríð gegn borgaralegum mannréttindum og frelsi

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar, sem haldinn var á dögunum, ályktaði um hið þríeina stríð gegn borgaralegum mannréttindum og frelsi. Í ályktuninni segir meðal annars:
Stríðið gegn fíkniefnum drepur milljónir sjúklinga á hverju ári, stimplar neytendur sem glæpamenn og leyfir glæpaklíkum að einoka markaðinn, oft með skelfilegum afleiðingum fyrir saklausa borgara. Það er í nafni þessa stríðs sem íslensk ungmenni eru gerð ærulaus, finnist þau með korn af kannabis í fórum sínum.
Enn fremur segir:
Stríðið gegn hryðjuverkum drepur hundruð þúsunda saklausra borgara árlega, heldur þjóðum í herkví og takmarkar gróflega frelsi flugfarþega, sem eru meðhöndlaðir sem glæpamenn við vopnaleit. Það var í nafni þessa stríðs sem ráðamenn Íslands gerðust stríðsglæpamenn í Írak.
Þá segir: 
Stríðið gegn internetinu veldur því að fólk eins og Chelsea Manning situr í fangelsi, Edward Snowden er landflótta og Julian Assange má sig hvergi hræra af ótta við að verða framseldur til Bandaríkjanna - fyrir það eitt að leka upplýsingum. Í nafni öryggis, bannhyggju og forvarna er aðgangi almennings að upplýsingum eða að koma frá sér upplýsingum lokað eða reynt að loka víðsvegar í heiminum. Það er í nafni þessa stríðs þegar íslenskir ráðamenn ætla að loka fyrir aðgang almennings að hluta internetsins.
Lesið ályktunina í heild sinni á heimasíðu Alþýðufylkingarinnar:

Hið þríeina stríð gegn borgaralegum mannréttindum og frelsi
echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon echelon

Monday, December 7, 2015

Húsnæðiskreppan: ályktun landsfundar Alþýðufylkingarinnar

Landsfundur ALþýðufylkingarinnar, sem haldinn var um seinustu helgi, ályktaði um húsnæðismál:
Stefna íslensku auðstéttarinnar er að nota húsnæðisþörf fólksins sem féþúfu sem gefur af sér hámarksgróða. Í meira en 30 ár hefur almenningur borgað margfalt fyrir íbúðir sínar með okurvöxtum.Ríkisstjórnin sem sat kjörtímabilið 2009-2013 sá þá lausn helsta á skuldavanda almennings að reka þá fátækustu út á götuna og neyða þá til að borga himinháa húsaleigu m.a. með því að hindra aðgang að lánsfé nema til braskara.
Hvað er þá til ráða? Ályktunin svarar því:
Eina leiðin út úr húsnæðiskreppunni er sú sem Alþýðufylkingin hefur boðað, með félagsvæðingu fjármálakerfisins. Skref í þá átt gæti verið að allir geti fengið vaxtalaust lán að vissri upphæð af samfélagslegu eigin fé til húsnæðiskaupa.Að sama skapi þarf að vera nægt framboð á félagslegu húsnæði án fjármagnskostnaðar til að uppfylla þörf fyrir leiguhúsnæði.
Lesið ályktunina í heild: Húsnæðiskreppan.

Sunday, December 6, 2015

Af landsfundi Alþýðufylkingarinnar

Alþýðufylkingin hélt vel heppnaðan landsfund um helgina. Sjá hér um stjórnarkjör.

Þar var m.a. samþykkt gagnmerk ályktun um heilbrigði- og velferðarmál, sem lýsir m.a. „beiskri gremju yfir þeirri hörðu sveltistefnu sem íslenska heilbrigðiskerfið hefur verið rekið eftir um langt árabil og miðar að vaxandi einkavæðingu.”
Um nýjan Landspítala við Hringbraut segir:
Áformin um að byggja fokdýrt, nýtt háskólasjúkrahús á óhentugum stað - áform sem líta út fyrir að vera óstöðvandi - virðast klikkuð, en skiljast þegar fjármögnunin er tekin með í reikninginn: að brasksjóðir atvinnurekenda- og verkalýðsaðalsins fái tækifæri til að fjárfesta í byggingum og leigja þær svo ríkinu með öruggum tekjum áratugi fram í tímann - það er hvöt sem við berum kennsl á. Þar ræður ágirnd og gróðafíkn fjármagnsins för, en ekki hagsmunir sjúklinga eða almennings.
Þá segir, um leiðina út úr ógöngum íslenska heilbrigðiskerfisins:
Lykillinn að því að endurreisa þessa máttarviði þjóðfélagsins er félagsvæðing heilbrigðis- og velferðarkerfisins, sem og félagsvæðing fjármálakerfisins. Sú síðastnefnda losar um fjármagn, sem núna rennur úr opinberum sjóðum í óseðjandi hít gróðadrifins fjármálakerfis, og væri betur komið í þágu heilsu og velferðar.

Landsfundurinn ályktaði líka um kreppu auðvaldsskipulagsins, heimsvaldasinnaðan stríðsrekstur og nauðsyn byltingar:
Almenn kreppa auðvaldins hefur nú farið dýpkandi um árabil og möguleikar þess til vaxtar og þróunar eru tæmdir. Að sama skapi verður afætueðli auðvaldsskipulagsins alls ráðandi og átök fara harðnandi milli stórvelda og bandalaga þeirra um auðlindir og áhrifasvæði. Í þeim átökum er mannslífum fórnað í stórum stíl og velferð fólksins um allan heim höfð að skiptimynt.
Þar segir líka:
Þrátt fyrir aukna þekkingu á umhverfi og náttúru eykst umhverfisvá á flestum sviðum, þannig að sífellt stærri svæði jarðarinnar verða óbyggileg, hlýnun af manna völdum er að fara úr böndunum og vistkerfum hrakar.
Að óbreyttu heldur áfram glundroði og upplausn samfélaga. Styrjaldir heimsvaldasinna magnast og leysa upp samfélagsinnviði heilla heimshluta.
Hvað er þá til ráða?
Til að hindra að [þessi þróun] haldi áfram er hins vegar nauðsynlegt að fólkið taki til sinna ráða og sameinist um stefnu sem miðar að því að svipta auðstéttina sínum efnahagslegu og pólítísku yfirráðum í samfélaginu og endurreisa það á félagslegum forsendum. Pólitísk og félagsleg skipulagning með þetta markmið er lífnauðsyn fyrir íslenskt samfélag eins og alls staðar annars staðar. Framtíð mannkyns og siðmenningar er í húfi.

Svo var samþykkt ályktun um brýnt mál: samningsrétt verkalýðsfélaganna. Tilefnið er samkomulag SALEK-hópsins, sem ber sterkan þef af stéttasamvinnustefnu. Þar stendur meðal annars:
Reynslan sýnir hins vegar að stéttasamvinnustefnan hefur aldrei skilað neinum árangri til bættra kjara fyrir verkafólk. Það hefur aldrei náð neinu fram án baráttu. Við óbreytt ástand eru lágmarkskjör alþýðunnar hins vegar stillt við hungurmörk til að tryggja auðstéttinni hámarksgróða.
Líka:
Sú breyting sem helst þarf að gera á vinnumarkaðsmódelinu er að losna við sjálftöku fjármálaauðvaldsins út úr raunhagkerfinu og styðja baráttu vinnandi fólks fyrir réttlátum hlut.

Thursday, November 5, 2015

Maxismi á vorum dögum: málþing á laugardag

Rauður vettvangur efnir til málþings um marxisma á vorum dögumlaugardaginn 7. nóvember kl. 15 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 (horni Snorrabrautar). Rætt verður um erindi marxismans við nútímann og nokkur helstu álitamál í þeim efnum. Framsögumenn: Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Attac, Vésteinn Valgarðsson, formaður Rauðs vettvangs, Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar. Umræður verða að loknu hverju framsöguerindi og einnig í lokin. 
Allir eru velkomnir!

Friday, September 11, 2015

Samstaða með flóttamönnum, Austurvelli kl. 13 laugardag

Flóttamannaverkefnið vegna stríðsins í Sýrlandi og fleiri átaka er ærið.
Á morgun, laugardaginn 12. september er alþjóðlegur samstöðudagur með flóttafólkinu. Kl. 13 verður samkoma á Austurvelli af þessu tilefni.
Fésbókarsíðu viðburðarins má sjá hér.

Monday, June 8, 2015

Formaður VG

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir...
Sumt breytist aldrei...

Monday, April 6, 2015

Kvikmyndin "Nói"

Ég sat frameftir í gærkvöldi og horfði á stórslysa-hryllingsmyndina "Nóa". Hún er gerð eftir þjóðsögu um sálsjúkan, megalómanískan harðstjóra sem ákveður að eyða mannkyninu. Ég hef heyrt að hún hafi fengið frekar lélega dóma -- og hef svo sem ekki miklu við það að bæta. Nema því að uppáhalds hlutanum mínum var sleppt, þegar Nói kemur út úr örkinni. Í fyrstu Mósebók, 8:20, stendur:
Þá reisti Nói Drottni altari, tók af öllum hreinum dýrum og af öllum hreinum fuglum og færði brennifórn á altarinu.
(Heimild: Biblian.is)

Wednesday, March 18, 2015

Alþýðufylkingin styður viðræðuslit, gagnrýnir málsmeðferð

Ég vek athygli á því að Alþýðufylkingin var að senda frá sér:

Ályktun um viðræðuslit við ESB

Tuesday, March 17, 2015

Landsfundur SHA: hvert á friðarhreyfingin að stefna?

Landsfundi Samtaka hernaðarandstæðinga, sem átti að fara fram sl. laugardag, var frestað vegna veðurs og verður í staðinn haldinn annað kvöld, miðvikukvöld, eins og fram kemur á Friðarvefnum.

Ég býð mig fram til formanns. Af því tilefni vil ég vekja athygli á grein eftir sjálfan mig, sem birtist í síðasta tölublaði Dagfara, málgagns SHA, og einnig á þessu bloggi hér: Hvert eiga SHA að stefna?

Monday, March 16, 2015

ESB, rétt ákvörðun, röng málsmeðferð

Eins og fastir lesendur mínir vita, er ég fortakslaus andstæðingur ESB-aðildar Íslands. Því styð ég að umsóknin sé tekin til baka og helsta gagnrýni mín við afturköllunina er að hún hefði mátt verða fyrr.

Að því sögðu, er naumast hægt að láta málsmeðferðina óátalda. Ríkisstjórnin segir að stjórnarandstaðan hafi drepið málið með málþófi síðast þegar það var tekið upp í þinginu. Því hafi þurft að fara þessa leið. Laggó - en það var samt ekki það sem þeir lögðu upp með í kosningabaráttunni. Þeir sögðust báðir, Framsókn og Sjálfstæðis, mundu leggja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef það hefur eitthvert gildi að segja tæpum tveim árum seinna hvað aðrir hefðu átt að segja þá, þá hefðu þeir átt að segjast mundu bara slíta viðræðunum. Það er heiðarlegt að segjast ætla að gera það, og ef maður er kosinn út á slíka yfirlýsingu hefur maður líka umboð til að gera nákvæmlega það.

Þá eru reyndar ótalin brögðin sem síðasta ríkisstjórn beitti til að koma málinu áfram. Eins og að selja aðildarviðræður sem eitthvert "kíkja í pakkann"-dæmi og fara svo fram með stórfellt aðlögunarferli. Eða að semja um að leggja fram ráðherrafrumvarp en legga síðan fram ríkisstjórnarfrumvarp.

Hvað um það. Ég styð að umsóknin sé dregin til baka, og þótt fyrr hefði verið, en það er vont bragð af málsmeðferðinni.

Thursday, March 12, 2015

Hvert eiga SHA að stefna?

Þessi grein birtist í Dagfara, málgagni Samtaka hernaðarandstæðinga, sem kom út í vikunni.
-- -- -- -- -- -- --

Veður eru válynd í heiminum og spjót heimsvaldasinna standa á öllum sem reyna að fara eigin leiðir: Sýrlendingar vaða elginn gegn IS-skrímslinu sem Vesturveldin hafa magnað upp gegn þeim; Úkraínumenn eru komnir undir hæl fasískra valdaræningja á bandi Vesturveldanna; Líbýa logar stafna á milli eftir árásarstríð og friður er hvorki í augsýn í Írak eða Afganistan, svo fátt eitt sé nefnt.
 
Í aðdraganda síðara Íraksstríðs, veturinn 2002-2003, hélt Átak gegn stríði vikulega útifundi gegn áformum Amríkana og hjáleigubænda þeirra nær og fjær. Laugardagsmótmælin stóðu mánuðum saman við Stjórnarráðið og stundum líka við amríska og jafnvel breska sendiráðið. Okkur tókst ekki að hindra að morðingjarnir í jakkafötunum tækju þátt í svívirðilegum glæpum í nafni Íslands − en þeir gerðu það að minnsta kosti ekki óátalið. Ef það skiptir einhverju máli.
 
Þó það sé dapurlegt að þurfa að mótmæla stríði, þá er samt uppörvandi að upplifa samstöðuna í baráttunni, að sjá hundruð manns koma aftur og aftur á útifundi til að sýna að stríðið sé ekki okkar stríð, ekki háð með okkar samþykki og að ríkisstjórnin tali ekki fyrir okkur. Ég var einn margra sem gengu í Samtök herstöðvaandstæðinga þennan vetur.
 
Ég sakna þessarar samstöðu, þessarar lifandi hreyfingar, baráttunnar. Eins og hún fyllti okkur eldmóði, fyllti hún margan stríðsæsingamanninn skelfingu og hélt fyrir þeim vöku. Í nágrannalöndum okkar voru aftur og aftur haldnir mörg hundruð þúsund eða milljóna manna fundir. Hvert fór allur þessi gríðarlegi kraftur? Hvað varð um hreyfinguna? Hvert fór baráttan? Höfum við látið slæva okkur með betur hugsuðum áróðri? Trúum við í alvöru á „íhlutun í mannúðarskyni“? Trúum við að lýðræðið skjótist út úr byssuhlaupi heimsvaldastefnunnar?
 
Þegar Líbýustríðið var að byrja héldu nágrannar okkar í bresku friðarhreyfingunni mótmæli gegn Líbýustjórn. Ég held að þá hafi botninum verið náð í niðurlægingu hreyfingarinnar frá 2002/3. Eða ég vona alla vega að það hafi verið botninn.
 
Á meðan heimsvaldastefnan heldur áfram að níðast á saklausu fólki um allan heim, þá verður þörf fyrir friðarhreyfinguna. Ekki til að tilkynna kurteislega að okkur hugnist ekki stríð. Ekki til að fræðast um löndin sem er verið að ráðast á eða til að drekka öl. Heldur til þess að reyna − reyna í alvöru − að hindra að stríð brjótist út og stöðva þau ef það gerist samt. Í íslensku samhengi þýðir þetta að hindra að Ísland styðji heimsvaldastríð, og að leggja alla þá steina sem hægt er í götu þess. Það er baráttan og aðeins baráttan sem réttlætir hreyfinguna.
 
Það er þörf fyrir hreyfingu sem er virk og lifandi, sem er vaxandi að styrk og áhrifum, hreyfingu sem tekur hlutverk sitt alvarlega. Samtök hernaðarandstæðinga eru meira en geymsla fyrir arfleifð úr baráttu fyrri tíma. Við erum burðarásinn í íslensku friðarhreyfingarinnar. Við eigum að vera baráttusamtök sem íslenskir hermangarar taka alvarlega. Refsivöndur sem þeir óttast.
 
Það styttist í landsfund SHA. Hann er vettvangurinn til að marka samtökunum stefnu fyrir komandi starfsár. Gerum það.

-- -- -- -- -- -- --
Landsfundur SHA er á laugardag, 14. mars. Ég gef kost á mér til formennsku.

Friday, March 6, 2015

Aðild að þrotabúi

Evrópusambandið er bandalag evrópsks einokunarauðvalds og auðhringa um hagsmuni sína. Þar ræður fjármagnið för, gjarnan í samfloti við iðjuhölda og stórfyrirtæki.

Ein stór blekking ESB-sinna er að sambandið ráði í raun litlu um innri málefni aðildarríkjanna. Önnur stór blekking ESB-sinna er að gera lítið úr lýðræðishalla Evrópusambandins. Það gefur tóninn í öllum meginmálum, nema kannski trúmálum ef einhver telur þau ennþá til meginmála. Þegar það stjórnar ekki með beinum tilskipunum stjórnar það með því að láta ríkin „sjálf“ ákveða hlutina. Líkt og þegar ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms tók „sjálf“ ákvarðanir um að fara eftir öllum „ráðleggingum“ Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Eða líkt og þegar skuldari ákveður „sjálfur“ að fara eftir „ráðleggingum“ handrukkarans sem „forðar honum“ þannig frá verri hlutum.

Þriðja blekkingin er að setja samasemmerki milli Evrópusambandsins og Evrópu. Evrópa er landfræðilegt hugtak og ekkert getur breytt því að Ísland er Evrópuríki. Og Noregur líka, og Rússland og Hvítarússland og Albanía og Serbía og Sviss.

Áhyggjur af örlögum útgerðarinnar ef við gengjum í ESB eru gild ástæða til efasemda eða andstöðu. Þær eru samt ekki mín höfuðástæða. Sem pólitískt og efnahagslegt bandalag heimsvaldaauðvaldsins, er Evrópusambandið bakhjarl fyrir auðvald sérhvers aðildarríkis. Þar er auðvaldsskipulagið beinlínis bundið í stjórnarskrá. Það er ekki hægt að byggja upp félagslegt fjármálakerfi eða efnahagskerfi og ekki einu sinni félagslegt velferðarkerfi í landi sem er innan Evrópusambandsins. Auðvaldsskipulagið er reyndar líka bundið í stjórnarskrá Íslands - en henni getum við sjálf breytt, án þess að þurfa fyrst að breyta stjórnskipan heillar heimsálfu með einróma samþykki.

Fjórða blekkingin er að Evrópusambandið sé einhver málstaður vinstrimanna, eitthvert bákn félagslegs réttlætis og regluverks til að hafa hemil á auðvaldinu. Það spillir að vísu fyrir þjóðlegu borgarastéttinni, eins og íslenskum útgerðarmönnum, en styrkir þá alþjóðlegu því meir í sessi. Með tímanum rýrnar því og hverfur þjóðleg borgarastétt í aðildarlöndunum. Hagsmunir þeirra fyrirtækja sem eftir lifa samtvinnast aðildinni. Efnahagslífið grær fast. Þannig að eins og ljósmóðirin var vön að segja þegar konunum gekk illa að fæða, þá er auðveldara í að komast en úr að fara.

Mínir fyrrverandi félagar í VG kalla það alltaf svo að „hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins“. Það er mjög varfærnislega orðað. Óeðlilega varfærnislega. Hagsmunum Íslands - alla vega alþýðu Íslands - er beinlínis ógnað af ESB-aðild. Ef við vildum koma hér á félagslega reknu fjármálakerfi eða öðrum sósíalískum ráðstöfunum, væri ESB-aðild ekki girðing heldur borgarmúr í veginum. EES-aðildin getur verið það líka, en það er þó auðveldara að losna úr henni ef því er að skipta.

Ég skil hins vegar vel að stjórnendur í ýmsum atvinnugreinum, eins og verslun, sumum iðnaði og fjármálabraski (ef brask telst atvinnugrein) sjái hagsmuni í aðild.

Núverandi krísa evrunnar, atvinnuleysið og skuldafjallgarðarnir breyta í sjálfu sér engu um ófýsileika inngöngu. Hún var ófýsileg og er ófýsileg. Bara ennþá meira núna en áður fyrr. Að minnsta kosti fyrir flestallt venjulegt fólk. Það er eitt skýrasta dæmið um tækifærismennsku og reiðarek margra evrópskra vinstriflokka, að átta sig ekki á þessu.

Til allrar hamingju fyrir Ísland, er hér til einn vinstrisinnaður stjórnmálaflokkur sem hefur einarða og samkvæma stefnu um afdráttarlausa og trúverðuga andstöðu gegn ESB. Það er Alþýðufylkingin.

Thursday, March 5, 2015

Léleg markaðssetning

Ég er með hálfs metra sítt hár á höfðinu og kollvikin eru á sama stað og þau voru fyrir 10 og 20 árum síðan. Þegar ég opna fréttasíðu Yahoo er þriðja hver "frétt" auglýsing um magnaðar nýjar leiðir til að vinna bug á skalla. Ef þetta á að heita "smart" markaðssetning eða sniðin að einstökum neytendum, þá er mikið verk eftir óunnið á sviði gervigreindar.

Monday, March 2, 2015

Málaflokkur fatlaðra, ríki, sveitarfélög, stéttarfélög

Ég sé á fréttasíðu Ríkisútvarpsins að félagsmálaráðherra „segir það ekki koma til greina að ríkið taki aftur við málefnum fatlaðs fólks. Enginn niðurskurður hafi verið til sveitarfélaganna vegna málaflokksins.“ - En viti menn: „Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir þrjá milljarða vanta upp á.“

Þetta þarf því miður ekki að koma á óvart. Málaflokkurinn var færður frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 og hafði þá yfirfærslunni verið frestað að minnsta kosti einu sinni vegna þess að undirbúningi var ábótavant. Ríkisendurskoðun hafði varað við því að tekjustofnarnir sem færðust með málaflokknum til sveitarfélaganna væru ekki nógu gildir, enda hafði málaflokkur fatlaðra verið fjársveltur um langt skeið árin á undan. Ekki nóg með það að sveitarfélögin keyptu þarna köttinn í sekknum, ef það má orða það þannig, heldur endurtóku þau sömu mistök og þegar þau yfirtóku grunnskólana frá ríkinu nokkrum árum áður. Þá fylgdu líka skertir tekjustofnar með og sveitarfélögin því í senn ábyrg fyrir málinu og þröngur stakkur skorinn.

Arkitektar þessarar mislukkuðu yfirfærslu voru Guðbjartur Hannesson, þá félags- og tryggingamálaráðherra og Halldór Halldórsson, þá bæjarstjóri á Ísafirði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Það var fleira bogið við þetta heldur en tekjustofnarnir. Það var líka tekist á um stéttarfélagsaðild stuðningsfulltrúa við málaflokk fatlaðra. Ég var á þeim tíma formaður Félags ráðgjafa og stuðningsfulltrúa (sem er fagfélag innan SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu). Við söfnuðum undirskriftum téðra stuðningsfulltrúa, þar sem þess var krafist að þeir fengju sjálfir að ráða stéttarfélagsaðild sinni. Hér er frétt Mogga af því þegar varaformaðurinn, Guðjón Bjarki Sverrisson, afhenti Guðbjarti undirskriftir 800 félagsmanna.

Niðurstaðan í stéttarfélagsaðildinni var sólarlagssákvæði, sambærilegt við þá félaga Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem unnu á Borgarspítalanum þegar hann rann inn í Landspítalann. Þeir sem voru í SFR fengu að vera þar áfram, aðrir fóru í bæjarstarfsmannafélögin. Vegna hárrar starfsmannaveltu er nú um það bil helmingurinn hættur og hinn helmingurinn af stuðningsfulltrúunum, einkum á sambýlunum, kominn í einhverja tugi bæjarstarfsmannafélaga.

Þar tvístraðist heil stétt og vandséð hvernig hún getur náð samtakamætti á nýjan leik.

Friday, February 6, 2015

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ebóla

Ríkisútvarpið greinir frá því að AGS aðstoðar Ebóluríki. Það má kannski orða það þannig. Það kemur ekki fram í fréttinni að áður hefur AGS látið þessi sömu ríki skera niður hjá sér innviðina mjög harkalega, það er að segja heilbrigðiskerfið. Þær varnir sem þau þó höfðu gegn drepsóttum -- þær voru skornar niður að kröfu AGS.

Friday, January 23, 2015

Tipp-ex í Flateyjarbók: Þjóðminjasafn Egyptalands

Menn hafa lært mikið um forvarnir á fornminjum og öðrum hlutum undanfarna áratugi en ennþá sitja forverðir við heysáturnar af verkefnum sem forverar þeirra í starfi bjuggu til. Í Ísrael eru forverðir t.d. ennþá að pilla límband af Dauðahafshandritunum.

Menn hafa líka lært mikið í safnafræði og í að miðla því sem söfn geyma. Íslenska þjóðminjasafnið er gott dæmi um þá breytingu; þegar ég var lítill var hilla með miða, þar sem stóð "Prjónastokkar" og svo lágu þar 40 prjónastokkar í röð. Og önnur hilla með öskum, önnur með trafastokkum o.s.frv. -- ég veit að þetta er dálítil einföldun, en ég hygg að fólk viti hvað ég meina: "Gamla" safnið raðar upp rosalega mörgum munum. "Nýja" safnið reynir frekar að miðla þekkingu í gegn um fjölbreyttari og hugmyndaríkari upplifun. Það er alla vega hugmyndin.

Það er ennþá til fullt af gamaldags söfnum. Ég skoðaði Hofjagd- und Rüstmuseum í Vínarborg
Hjálmur Skanderbegs Epírótakappa er
geymdur á Hofjagd- und Rüstmuseum í Vínarborg
Mynd: Wikipedia
(herklæða- og veiðisafn) fyrir nokkrum árum og það var nánast sjúklegt dæmi um "gamla" safnið. Salur eftir sal af gömlum brynjum. Og síðast þegar ég kom á British Museum voru þar ennþá tilgangslausir salir með mörghundruð grískum vösum.

Þjóðminjasafn Egyptalands er samt það versta sem ég hef skoðað. Ef Egyptalandi væri stjórnað af meira viti, meiri metnaði og meiri umhyggju, þá ætti þetta safn að vera eitt flottasta þjóðminjasafn í heimi. En það er það ekki. Það er rykfallið, illa upplýst, og minnir sumpart meira á geymslu heldur en sýningarsali. Þar eru salir þar sem standa 50 gamlar steinkistur. Í salnum við hliðina eru aðrar 50 steinkistur og í þarnæsta sal enn aðrar 50 steinkistur.

Ég skoðaði helgrímuna frægu af Tútankamon, gullgrímuna. Hún var flott, ótrúlega flott, en umgjörðin sem henni var búin var dapurleg. Ég verð að taka fram að hún var samt ekki eins dapurleg og restin af safninu -- en langt frá því að vera samboðin þessari gersemi.

Við stóðum þarna og skoðuðum eitthvert gamalt signet eða hring eða eitthvað. Aðrir gestir voru farnir úr úr herberginu. Þá kom vörðurinn og spurði hvort við vildum taka myndir með flassi. Við sögðum honum að það mætti ekki, það stóð skilti að það væri bannað. Iss, hann hélt nú að það skipti ekki máli. Við skyldum bara láta hann hafa seðla í lófann, þá væri það ekki lengur bannað!

Nú er í fréttum að einhver fábjáni, sem er kollegi þessa varðar, hafi verið að þrífa helgrímuna og rekið sig í hana þannig að skeggið brotnaði af! Það mætti kannski fyrirgefa klaufaskap sem kannski getur hent hvern sem er - en það sem gerir þennan fábjána að fábjána er að í staðinn fyrir að kalla til forverði og láta þá taka málið að sér, reddaði hann því bara sjálfur. Með epoxy-lími. Límdi skeggið skakkt á, svo það sést rifa á milli, og límið klíndist íka út fyrir límflötinn - en þessi hálfviti skrapaði það bara af með sköfu. Og rispaði gljáfægt gullið um leið. Og þetta gerði hann fyrir framan stóran hóp af túristum:
Fábjáni að vinna spjöll á menningararfi mannkynsins
Mynd: AP Photo/Jacqueline Rodriguez, hér fengin frá Yahoo News
Þetta er um það bil eins heimskulegt og krota óvart í Flateyjarbók og leiðrétta það svo með tipp-exi.

Víða um heim liggja ómetanlegir egypskir fornleifafjársjóðir á söfnum. Egyptar krefjast þess oft að fá þá til baka. Það er réttmæt krafa í sjálfu sér - en það væri óábyrgt að senda ómetanlega muni á safn þar sem þeir eru ekki a.m.k. sæmilega öruggir. Egyptum er því miður greiði gerður með því að halda þessu frá þeim, á meðan þeir geta ekki komið sér upp þokkalegri aðstöðu fyrir þjóðminjasafnið sitt, og ráðið safnverði sem er klaufskt, heimskt og spillt.

Thursday, January 22, 2015

Mannfýla af gamla skólanum

Ég ætla ekki að fullyrða að Gústaf Níelsson sé rasisti, í þeim þrönga skilningi þess orðs að hann aðhyllist kynþáttahyggju. En hann er alveg greinilega haldinn útlendingaandúð. Það er nákvæmara hugtak en rasismi, þótt "xenófób" sé óþjálla orð þegar verið er að munnhöggvast. Hræðslan við múslima, "Ísland er síðasta vígið, og það er að falla" og tillaga hans um að afnema trúfrelsi í landinu með því að banna íslam -- svona birtist hræðslan, sem reiði. Þegar maður er hræddur, þá upplifir maður sig veikan, en hatur og reiði eru valdeflandi fyrir fordómapoka eins og Gústaf. Þetta er í daglegu tali kallað rasismi, en það er auðvitað ónákvæmt hugtak. Útlendingaandúð er hins vegar nákvæmara hugtak.

Ég ætla ekki að halda því fram að Gústaf Níelsson sé hommahatari, í þeim þrönga skilningi að hann vilji hommum beinlínis illt. En hann fyrirlítur homma (og lessur) alveg greinilega og finnst allt í lagi að veitast að þeim með háði. Ég hef sjálfur heyrt hann tala þannig á Útvarpi Sögu, tala um "blómálfa" og "dillibossa" og fleira slíkt, sem maður hélt að heyrði sögunni til. Og maður heyrði á röddinni að hann setti stút á munninn til að herma eftir "krútt"-rödd, ef þið skiljið hvað ég á við. Svona fordómar eru orðnir svo sjaldgæfir á Íslandi að ég var eiginlega alveg gáttaður. Hvort sem hommahatur er nákvæmt eða ekki, eru hommaandúð, hommafælni og hommafóbía eru allt hugtök sem eiga vel og nákvæmlega við Gústaf.

Ég ætla heldur ekki að fullyrða að Gústaf sé kvenhatari. En hann hefur lýst sér sem "íhaldi af gamla skólanum", hefur tekið þátt í baráttunni gegn fóstureyðingum, og hefur unnið við að reka fatafellustað. Ég held að menn sem reka fatafellustaði, án þess að vera karlrembur, séu álíka sjaldgæfir og albínó-tapírar. Á Íslandi. En það er auðvitað strangt til tekið ekki hægt að útiloka að Gústaf sé mikill jafnréttissinni, og hafi bara verið að grínast með hinu öllu.

Það er orðin til sérstök grein fréttamennsku á Íslandi, sem gæti heitið "Hvað finnst Brynjari Níelssyni um [mál]?" Þessar einstaklega ómerkilegu fréttir eru svo algengar að þetta virðist vera hluti af stöðluðu verklagi íslenskra blaðamanna. Finna upp á frétt, finna heimildir fyrir henni, spyrja Brynjar Níelsson hvað honum finnist og láta svo prófarkarlesa. Botninum í þessari tegund frétta hlýtur samt að vera náð þegar það er orðið fréttnæmt að Brynjar Níelsson segi Gústaf bróður sinn ekki hata neinn. Og það í tveim fréttum, frekar en einni.

Ég hef heimildir fyrir því að Gústaf Níelsson hafi verið hrekkjusvín þegar hann var barn. Og hann er við sama heygarðshornið í dag. Hann ber ekki tilhlýðilega virðingu fyrir fólki sem slíku, og þess vegna finnst honum allt í lagi að drulla yfir þá sem eru ekki nákvæmlega eins og hann sjálfur. Fólk sem þolir öðrum að vera öðruvísi, fólk sem lætur ekki segja sér hverja það má elska, fólk sem trúir ekki á kirkjuna, fólk sem er ekki með litla skorpna sjálfsmynd og typpi.

Tuesday, January 20, 2015

IS í Danmörku: snúa baki við Enhedslisten

IS (Internationale socialister) ákváðu á landsfundi sínum að snúa baki við Enhedslisten, sem flokkur. Ástæðuna segja þeir vera að þeir eigi ekki lengur pólitíska samleið, en Enhedslisten hefur undanfarin ár verið á vegferð til hægri og til aukinnar tækifærisstefnu. IS, sem eru trotskíistar, munu nú snúa sér að uppbyggingu eigin flokks og friðarhreyfingarinnar. Frá þessu greinir Modkraft.dk.

Wednesday, January 14, 2015

Fáfróður karlsauður

Ég er ekki vanur að hafa samúð með Sjálfstæðisflokknum, en mikið virðist það vera pínlegt að vera með svona drumbi eins og Ásmundi Friðrikssyni í þingflokki. Meinleysisleg hugmynd hans um að taka múslima fyrir og mismuna þeim afhjúpar tregan skilning á mannréttindum. Eins og oftast, þegar fáfrótt fólk tjáir útlendingaandúð sína -- eða þegar lævísir stjórnmálamenn tjá hana við fólk sem þeim finnst vera fáfrótt -- þá tekur Ásmundur það sérstaklega fram að hann sé sko ekki rasisti og þetta sé sko enginn rasismi: „Ég er nú ekkert þannig“ segir karlinn. Nei, þeir sjá það oftast ekki sjálfir, er það? Það er eftirtektarvert, að þetta segja eiginlega aldrei neinir nema rasistar þegar þeir eru að tala um rasisma. Já, meðan ég man, það er best að taka fram að ég tel Ásmund ekki tilheyra lævísa hópnum.

Ef orðið „rasisti“ vekur hugrenningartengsl um hatursfulla fanta með kvalalosta, þá er það misskilningur. Flestir rasistar eru hvorki snoðaðir nasistar né fullir af hatri eða illmennsku. Þeir eru hins vegar oft fullir af ótta eða vanmáttarkennd -- og tómir af viti. Þeir óttast það sem þeir skilja ekki. Þeir eru oftast venjulegt, óupplýst fólk. Svolítið eins og Ásmundur Friðriksson.

Ásmundur gleymir ekki möntrunni um að það þurfi að „taka þessa umræðu“ -- sem rasistar nota alltaf til að svara gagnrýni á tortryggnis- og óttaboðskap. „Aðspurður um að gefa nánari skýringar á orðunum segist Ásmundur ... aðallega vera að varpa fram spurningum til að vekja umræðu um þessi mál.“ Jæja, ef spurningin er hvort eigi að mismuna fólki vegna trúarskoðana, þá er svarið einfalt: Nei, Ásmundur, það á ekki að gera það.

Ég eltist ekki við einhverjar sögur sem Ásmundur hefur heyrt með sínum trúgjörnu eyrum.

En hvað í andskotanum er „múslimisti“?

Ásmundur spyr „hvort við þurfum ekki að hugsa málið og vanda okkur til framtíðar“ -- spurningin svarar sér sjálf, auðvitað á að gera það. Og hvað á þá að passa? Það væri góð byrjun að mismuna ekki innflytjendum og ýtta þeim ekki út á jaðar samfélagsins. Og að sjálfsögðu þarf íslenskt samfélag að breytast í takt við breytta samsetningu þess. Eins og það hefur alltaf gert. En ekki hvað?

En hvað er það sem hann óttast um? „Það eru þessi algildu gildi um samfélag og að það sé byggt á kristinni trú. Ég hef áhyggjur af því að mikill minnihluti þjóðarinnar vilji úthýsa kristinni trú úr grunnskólum.“ -- Það var nefnilega það. Voru það ekki skuggalegu útlendingarnir sem ógna siðnum í landinu! Á Þorláksmessu birtist grein eftir mig á Vísi, þar sem ég reyndi m.a. að þurrka aðeins upp eftir Ásmund. Þótt mér finnist leiðinlegt að þurfa að endurtaka sjálfan mig, verður bara að hafa það: 
Það má fyrirgefa karlinum fyrir að halda að hann sé í meirihluta, en það setur að manni stugg yfir hvernig honum finnst eðlilegt að fara með minnihlutahópa: þeir megi ... vera til, bara ef þeir ... sætta sig við að vera annars flokks. Þetta er trúfrelsi Ásmundar, að meirihlutinn kúgi minnihlutan.
Þar stóð reyndar líka:
Íslendingar ... sem standa utan kristinna trúfélaga eru miklu fleiri en innflytjendur sem standa utan kristinna trúfélaga. Það erum við, sem höfum flykkst út úr kirkjunni af sívaxandi þunga undanfarna áratugi. Það erum við, sem erum þyngsta lóðið í baráttunni fyrir trúfrelsi. Það erum við, þjóðin.
Ég leyfi þessu bara að standa og skýra sig sjálft.

Ásmundur segir að það eigi að gera eðlilegar kröfur til innflytjenda um þekkingu á sögu þjóðarinnar og viðurkenningu á þeim gildum sem íslenskt samfélag er reist á. Gott og vel -- það ætti þá líka að gera þær kröfur til Alþingismanna, að þeir hefðu grundvallarskilning á sögu og gildum þjóðarinnar, eins og sagan og gildin eru í alvörunni en ekki eins og þau eru kennd í sunnudagaskólanum þar sem nýjasta hetja kristilegu íslensku teboðshreyfingarinnar virðist hafa meðtekið mestalla sína visku.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir segist halda að karlsauðurinn hafi bara „komist óheppilega að orði“. Ég held að hann hafi ekkert komist óheppilega að orði. Ég held að hann sé bara vitlaus.

Friday, January 9, 2015

Hörð átök framundan á vinnumarkaði?

Eftir að læknar semja um launahækkun -- og allir virðast vera sammála um að sú launahækkun sé veruleg, án þess að hafa séð samninginn -- þá tala sumir forkólfar í verkalýðshreyfingunni eins og samningar lækna gefi tóninn fyrir verkfallsátök þegar aðrar stéttir fara að semja, Ríkisútvarpið segir jafvel að „Gylfi spáir hörðum átökum framundan.“ Og ekki nóg með það: „Gylfi ... segir að sú sáttastefna sem markaði síðustu kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ og BSRB sé brostin“. Rétt nú upp hend sem trúir því að Gylfi Arnbjörnsson eigi eftir að ganga í lið með verkalýðnum og fara að leiða einhverja alvöru baráttu! Rétt upp hend!


Kratísk/ökónómísk verkalýðshreyfing gengur út á að verkamenn og atvinnurekendur komist að einhverri niðurstöðu sem báðir aðilar eru sáttir við. Atvinnurekendur verða seint sáttir við að gefa eftir eitthvað að ráði af gróða sínum. Þess vegna er sáttastefnan, sem m.a. markaði síðustu kjarasamninga, ekki bara gagnslaus, heldur skaðleg fyrir vinnandi fólk. Sem betur fer kjósa félagar íslenskra verkalýðsfélaga um samninga, og ef nógu margir kjósa gegn ónýtum samningi, þá er hann felldur. Þessi réttur er ekki sjálfsagður, á dönskum vinnumarkaði þarf t.d. meirihluti allra félagsmanna að kjósa gegn samningi til að fella hann.


Það er út af fyrir sig kannski rétt hjá Gylfa að það verði átök um næstu samninga. Að stéttabaráttan hætti að vera bara að ofan á Íslandi, og íslenskt verkafólk fari aftur að berjast fyrir kaupi og kjörum sem sæma því. Eitt fyrsta vígið sem verkalýðurinn þarf að sækja að í þeirri baráttu verður sáttastefnan, þ.e.a.s. stéttasamvinnan -- að koma fulltrúum hennar út úr forystusveit sinni. Og hver ætli sé þar eftur á listanum?