Monday, January 5, 2009

Byltingin á Kúbu 50 ára

Nú fagnar Kúba 50 ára byltingarafmæli. Það er að sönnu stór sigur. Mér leiðist einhliða umfjöllun um Kúbu. Mér leiðist þegar hægrimenn sjá Kúbu allt til foráttu og vinstrimenn ekkert. Þegar menn sjá bara aðra hliðina. Ég er ekki með ofbirtu í augunum af aðdáun á öllu í stjórnarfari á Kúbu. Þeir mega eiga það sem þeir eiga, sem er sumt gott og sumt slæmt. Bill Van Auken skrifar um Kúbu á WSWS: Cuba marks 50th anniversary of revolution in shadow of world crisis og mælir hann einnig með greininni Castroism and the politics of petty-bourgeois nationalism.

Sunday, January 4, 2009

Af mótmælum og fleiru

Ég kalla það bölvun næturvarðarins, að sofa af sér mikilvæga atburði vegna þess að maður hafi verið á næturvakt. Það henti mig í gær, svo ég missti af mótmælunum á Austurvelli. Hafði asnalegar draumfarir í staðinn. Það gladdi mig að heyra, og kom mér ekki mikið á óvart, að mætingin hefði veirð mun meiri en fyrir viku. Nú sækja mótmælin í sig veðrið, og kemur ekki til af góðu. Við sem stöndum í andófinu verðum að passa okkur að splitta ekki hreyfingunni og vera ekki að fordæma hvert annað. Gagnrýni er sjálfsögð á meðan hún er uppbyggileg, en það þarf víst líka að átta sig á því að margvísleg taktík er notuð og hefur hver aðferð sína kosti og sína galla, sinn árangur og sínar takmarkanir.
Fyrir utan það, þá er vitað mál að óánægjualdan mun vaxa og þetta mun enda með ósköpum ef stjórnvöld fara ekki að bregðast við af viti og ábyrgð. Fólk sem hneykslast yfir skemmdarverkum ætti bara að bíða þangað til óvanari og reiðari mótmælendur fara að láta hnefa skipta. Ég efast um að margir muni kalla það ofbeldi að skemma sjónvarpskapla þegar fólk er farið að slasast alvarlega í átökum. Ábyrgðin er að fullu og öllu í höndum ríkisstjórnarinnar. Það er hún sem lætur þetta vaxa og stigmagnast með því að þumbast við og ímynda sér að þetta lægi bara af sjálfu sér. Það er leiðinlegt ef ráðamenn skilja ekki friðsamlegar, tiltölulega friðsamlegar eða ofbeldislausar aðgerðir. Það verður barist gegn þessari ríkisstjórn þangað til hún víkur með góðu eða illu og það verður öllum brögðum beitt til þess, líka þeim sem fólk mun sjá eftir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mikið getur Moggabloggið verið tímafrekt og þreytandi. Mér líður auk þess illa þegar ég finn fyrir ritskoðun, á borð við þá að loka fyrir blogg um dólgslæti Klemenzbræðra á gamlársdag.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eyþór Árnason, upptökustjóri Stöðvar tvö, lýsir reynslu sinni af átökunum á gamlársdag: Kryddsíld - Bardaginn á Borginni. Trúverðug lýsing og virðist sanngjörn -- og sérdeilis lipurlega skrifuð.

Saturday, January 3, 2009

Yfirveguð, vandlega undirbúin fjöldamorð í skjóli áróðursstríðs

Nú nálgast tala fallinna Gaza-búa fimmta hundraðið -- 430 skv. nýjustu tölum sem ég hef heyrt -- og Bandaríkjastjórn ver Ísraela fordæmingu. Þessi fjöldamorð eru í boði Bandaríkjastjórnar. Sigurður M. Grétarsson skorar á okkur hefja undirskriftasöfnun fyrir því að stjórnmálasambandi við Ísrael verði slitið. Ég held að ég taki undir það. Það er löngu tímabært. Ætli Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði brugðist öðruvísi og eðlilegar við, ef þessir 430 væru allt saman Íslendingar og flokksbundnir Samfylkingarmenn?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelski blaðamaðurinn Barak Ravid skrifar á Haaretz: Disinformation, secrecy and lies: How the Gaza offensive came about. Í grein sinni flettir hann ofan af því hvernig Ísraelar voru búnir að undirbúa fjöldamorð og stríðsglæpa undanfarinna daga á Gaza með margra mánaða fyrirvara en héldu því leyndu til þess að fyrirhuguð fórnarlömb ættu sér einskis ills von. Þetta er ekkert "viðbragð" við fljúgandi rörasprengjum, heldur vandlega undirbúið og kaldrifjað. Hver ætli hinn raunverulegi tilgangur sé? Það skyldi þó aldrei vera að dr. Mustafa Barhouti hitti naglann á höfuðið í sinni grein, Palestine's Guernica and the Myths of Israeli Victimhood? Þar setur hann árásina í samhengi við kosningarnar sem eiga að fara fram í Ísrael innan skamms, og hrekur um leið nokkrar af helstu mýtunum sem áróðursvél zíonismans dælir út úr sér. Þessar tvær greinar eru meira en þess virði að lesa.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Munið mótmælin á Austurvelli klukkan 15:00!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ólafur Klemensson, hagfræðingur og stjórnarmaður í Neytendasamtökunum, og Guðmundur Klemensson bróðir hans, svæfingalæknir á gjörgæsludeild, fóru heldur mikinn á Austurvelli á gamlársdag. Hvað gengur eiginlega að svona mönnum, að vilja eskalera ástandinu svona? Geta þeir ekki beðið eftir að götubardagarnir byrji og einhver slasist alvarlega? Það er sagt að Ólafur sé með "White Pride" húðflúrað á upphandlegginn. Nú hef ég ekki séð hann nakinn og veit ekkert hvað er hæft í þessu, en einhvern veginn passar það inn í myndina af Austurvallar-dólgslátunum í honum.