Thursday, May 29, 2008

"Nepal orðið lýðveldi"

Mbl. greinir frá: Nepal orðið lýðveldi.
Það sem menn hafa þurft að hafa fyrir því að koma þessari kóngs-lufsu frá. Gyanendra konungur hefur verið alveg sérstaklega slæmur þjóðhöfðingi, og landhreinsun fyrir Nepal að losna við hann. Hvað tekur við? Hver veit? Kannski að Prachanda formaður maóista verði forseti, kannski einhver annar. Ég hef ekki sömu trú á nepölsku maóistunum og ég hafði. Sú stefna sem þeir hafa núna er einfaldlega að reka Nepal sem borgaralegt lýðveldi og láta sósíalismann bíða. Kannski að það komi á daginn að þeir séu að gera hárrétt og að mér skjátlist. Ég vona það satt að segja. Þangað til annað kemur í ljós, þá lít ég hins vegar svo á maóistarnir hafi hlaupist undan merkjum.

Wednesday, May 28, 2008

Mjúk lending í orkumálum -- ekki seinna vænna

Haft er eftir Össuri Skarphéðinssyni á mbl.is: Íslendingar eiga að gera klárt fyrir orkuskipti.

Það fer nú hver að verða síðastur að tryggja sér mjúka lendingu í orkumálunum. Olían er að verða ókaupandi. Skítt með einkabíla, ferðalög og annan hégóma, en hvernig ætla menn að reka togara eða dráttarvélar þegar olíulítrinn kostar þúsund krónur eða þrjúþúsund krónur? Hafa menn hugleitt það? Orkuskiptin hefðu þurft að hefjast í kring um árið 1990 til þess að verða mjúk. Héðan af er spurningin bara hversu hörð þau verða. Hvort þetta verður eins og að lenda í árekstri á 120 km hraða eða bara á 80 km hraða. Já, ég er svartsýnn, ég gengst alveg við því. En lesið ykkur til um olíutindinn og yfirvofandi hrun og segið mér að ykkur lítist bara vel á þetta. Segið það bara ef þið treystið ykkur til þess.

Það er kaldhæðnislegt að vera umhverfisverndarsinni á Íslandi núna. Eftir allan gauraganginn í kring um stóriðjustefnuna undanfarin ár, þá gæti alveg endað með því að vatnsafls- og jarðhitavirkjanir verði það sem á endanum bjargar okkur frá efnahagslegum móðuharðindum. Það yrði óneitanlega mjög kaldhæðnislegt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Annars skrifar Andrea Ólafsdóttir á Eggina: Rakaskemmdir innanhúss - alvarleg áhrif á heilsufar.

Allt að frétta

Í gær fór ég til tannlæknis í þriðja sinn á þrem vikum og á fjórða tímann pantaðan í næstu viku. Hrikalega skemmtilegt, og hagstætt fyrir pyngjuna. Reyndar er nokkuð til í því að það sé skammtilegt. Eins súrrealískt og það hljómar, þá er það mér ávallt tilhlökkunarefni að fara til tannlæknis eftir að ég skipti um tannlækni fyrir nokkrum árum. Við skulum bara segja að það hafi verið ágæt ástæða fyrir því, en í öllu falli er ég mjög ánægður núna. Það skiptir víst máli þegar tannlæknir er annars vegar, ekki satt?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í gær tók ég til hendinni heima hjá mér. Það veitti ekki af, en yfrið nóg er ógert enn. Kjallarinn fékk sinn skerf. Eftir aldarlanga búsetu fjölskyldu sem engu hendir getið þið rétt ímyndað ykkur draslið sem safnast upp. Ég vissi til dæmis ekki að Valur -- þið vitið, sem framleiðir Vals-tómatsósu -- hefði framleitt hindberjasaft hér áður fyrr. En ég fann nokkrar þannig flöskur. Ég fann líka gamla flösku af Egils hvítöli -- glerflösku, óátekna. Hún er nú líklega komin fram yfir síðasta söludag eftir nokkra áratugi í kjallaranum, en snotur er hún.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eins og það er mikið ógert innan stokks, þá er líka mikið ógert utan. áður en garðurinn verður almennilega fínn, þá þarf ég að verja ansi mörgum vinnustundum í honum. Það er sem betur fer með því skemmtilegra sem ég geri. Reyta nokkrar hjólbörur af illgresi, finna fornleifar þegar ég sting upp bæjarhauginn og fylgjast með rófunum og kartöflunum leika sér í matarholunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í gær lauk ég loksins við að skrifa ferðasöguna frá því í júlí-ágúst í fyrra. Ég átti minna eftir af henni en ég hafði áttað mig á. Það var nú planið að birta hana hér. Hún er ansi löng, þannig að ég býst við að ég birti hana í nokkrum pörtum á næstu dögum eða vikum. Ekki seinna vænna, þar sem ferðalag þessa sumars nálgast. Nánar um það seinna. Vonandi samt á þessu ári.

Thursday, May 15, 2008

Orsakatengsl?

14. maí 1943 kom Ólafur Ragnar Grímsson í heiminn.
15. maí 1943 leið Komintern undir lok.

Það skyldi þó aldrei vera að þetta tengist?

Matjurtagarðurinn

Það er fátt sem veitir mér jafn mikla ánægju og garðverkin. Í fyrradag stakk ég upp allan matjurtagarðinn minn, skipti honum í þrjú beð og sáði þar fyrir gulrótum, rófum, radísum og blaðsalati. Þar sem þetta fyllti matjurtagarðinn, þá tók ég mig til í gær og stakk upp hluta af grasflötinni við hliðina, þar sem ég ætla að setja niður kartöflur í dag.

Mér til ánægju og undrunar sá ég í leiðinni að stikilsberjarunnarnir sem ég gróðursetti í fyrra eru allir lifandi -- ég hélt að aðeins einn hefði lifað veturinn af, en þeir eru semsé allir sprækir og hressir. Færði einn til, reytti illgresi í kring um hina og víðar, alls einar hjólbörur af illgresi. Kerfill og skriðsóley.
Bandaríski flugherinn er að búa sig undir að geta háð stríð á internetinu -- drekkt tölvum í upplýsingum, hakkað sig inn á þær o.s.frv.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég ætla að mæta á þessi mótmæli á Austurvelli og í kvöld ætla ég að mæta á fund FÍP til að minnast 60 ára hernáms Palestínu (Kaffi Reykjavík kl. 20:00).
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í gær birti Eggin grein eftir Helga Guðmundsson: Lækka háir stýrivextir bensínverð? og í dag er grein eftir mig: Handbendi Vesturlanda misreiknuðu sig í Líbanon -- ég mæli með að líta á þessar tvær gæðagreinar.

Thursday, May 8, 2008

...

Ég má til með að benda á góða grein: Zimbabwe: Mugabe government responds to mass opposition with repression. Ég held að þessi greining á ástandinu sé nokkuð nærri lagi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mbl.is: Ísraelsríki sextíu ára
Það eru tvær leiðir til þess að binda enda á átök eins og þau sem eru milli Ísraela og Palestínumanna. Annað hvort að Ísraelar aflétti hernáminu, hleypi flóttamönnum heim og fari að koma fram við Palestínumenn eins og jafningja. Hin leiðin er að Ísraelar gangi endanlega milli bols og höfuðs á þeim, "ýti þeim út í eyðimörkina" eins og það er stundum orðað svo smekklega. Hingað til hefur viðleitnin frekar verið í síðarnefndu áttina en þá fyrrnefndu.
Það er auðvitað dagsatt að "öxull haturs, hryðjuverka og ögrana" er sterkur á svæðinu, þótt það sé ekki beinlínis með þeim formerkjum sem hann segir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mbl.is: Vill rjúfa tengslin við kirkjuna
Kaþólska kirkjan hefur mjög sterka stöðu á Spáni og nýtir hana ekki beint til góðs. Þess má reyndar geta að hún bannfærði stóran hluta landsmanna á dögunum. Í aðdraganda síðustu kosninga var Sósíalistaflokkurinn bannfærður á einu bretti, ásamt öllum þeim sem kusu hann. Ástæðurnar eru allt frá hjónabandi samkynhneigðra og fóstureyðinga yfir í opinberar rannsóknir á framferði Franco-stjórarinnar, þar sem kirkjan lét sitt ekki eftir liggja. Í því samhengi vil ég vísa í greinin Spánn: Kaþólska kirkjan gegn mannréttindum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Helgi Guðmundsson skrifar á Eggina: Vandlifað

Tuesday, May 6, 2008

Góðan daginn

Ólafur Þórðarson skrifar á Eggina: Clinton verður næsti forseti BNA;
Yðar einlægur skrifar á Vantrú: Umburðarlyndi? Heyr á endemi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ef alþjóðlegt fjármálaauðvald getur grætt á því að gera áhlaup á íslenska banka til þess að ræna hagkerfið, þá gerir það það. Gerði það það ekki einmitt núna í mars?
Íslenski bankamaðurinn sem var á þessum fyllirís-samsærisfundi erlendra svikahrappa í Reykjavík í janúar var sniðugur að koma ekki fram undir nafni. Réttast væri nefnilega að ákæra hann fyrir landráð. Hann verður þess áskynja að rán sé í vændum og varar ekki við því. Þvert á móti kaupir bankinn hans gjaldeyri, og hinir bankarnir líka (fengu þeir ábendingu?), svo að þeir reynast koma út í gróða á meðan allir hinir tapa. Ber þessi maður enga ábyrgð? Er allt í lagi að vera í vitorði um annan eins glæp, og veðja auk þess þannig að maður hagnist sjálfur? Heitir það ekki meira að segja að taka þátt í ráninu?
Þegar góðærið geisar, þá vill auðvaldið fá að leika lausum hala. Þegar harðnar á dalnum skríður það í skjól hjá ríkinu og vill að skattborgararnir borgi brúsann.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er víðar en á Íslandi þar sem lögreglan ræðst með offorsi á saklaust fólk. Eins og fram kom í fréttum, flugu hnútur um borð í Istanbúl á 1. maí. Útifundurinn hljóp á um 15.000 manns og einkennisklædd óeirðalögregla var með 20.000 menn -- mun fleiri en fólkið sem var samankomið -- og þá eru óeinkennisklæddir lögreglumenn ekki einu sinni taldir með. Þeir skutu um 1500 dósum af táragasi og beitu fólkið miklu ofbeldi, þar sem það var að mótmæla friðsamlega. Það má lesa nánar um þessa atburði hér: Turkey: May Day demonstration in Istanbul brutally suppressed.

Monday, May 5, 2008

Olía

Hafa Brasilíumenn fundið 33 milljarða tunna af olíu á hafsbotni eða eru þeir bara í bjartsýniskasti?

Ég skýt á það síðarnefnda.

Það er ekki úr vegi að lesa þetta í samhengi við þessa frétt frá því í janúar: Sádi-Arabar taka dræmt í að auka olíuvinnslu sína, og sjálfur Bush lætur skiljast á sér að kannski hafi þeir ekki meira upp á að hlaupa. Olíubirgðir Sádi-Arabíu hafa verið ríkisleyndarmál undanfarinn aldarfjórðung og hafa að þeirra sögn "vaxið" á þeim tíma. Sádar hafa auðvitað verið að blöffa. Þykjast eiga meira en þeir eiga til þess að fá meiri völd yfir markaðnum en þeim ber. Gamalt trix. Á sama tíma hafa þeir farið illa með olíulindir sínar með því að dæla of miklu saltvatni ofan í þær. Skammsýni og eiginhagsmunir ráða ríkjum hjá Sádi-Aröbum. Megi þeim verða steypt í byltingu og réttlæti og skynsemi sigra á Arabíuskaga.

Sunday, May 4, 2008

Í fréttum er þetta helst...

Tvær ómannaðar njósnavélar til viðbótar skotnar niður yfir Abkhasíu. Rússar og Abkhasíumenn segja báðir að þeir síðarnefndu hafi skotið þær, en Georgíumenn segja Rússa hafa gert það. Ég sé ekki að það breyti miklu. Klofningshéraðið Abkhasía nýtur stuðnings Rússa eftir að Georgíumenn slitu tryggðum við þá og hlupu í fangið á Vesturveldunum, um það er víst ekki deilt. Miðað við að Kosovo fékk að segja skilið við Serbíu á dögunum, er þá hægt að banna Abkhasíu að gera það líka?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Afmælisbarn dagsins er Hosni Mubarak. Af því tilefni reyndu egypskir aktívistar á Facebook að boða allsherjarverkfall eftir leiðum netsins (sjá frétt). Miðað við vel heppnuð verkföll á borð við þau í Mahalla -- í hittifyrra, fyrra og nú síðast í apríl -- þá virðist árangurinn ekki beint vera mikill af þessu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sendiherra Bandaríkjanna í Nepal, Nancy Powell, hefur fundað með Prachanda, formanni maóista. Það markar kannski tímamót. Bandaríkjamenn eru að taka maóistana af lista yfir hryðjuverkasamtök á sama tíma og maóistarnir virðast ætla að ganga nepölsku borgarastéttinni og erlendum fjárfestum alfarið á hönd. Ég vona að mér skjátlist, en það verður tæpast betur séð.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Getur annars einhver bent mér á góða ossetíska orðabók á netinu?
Eftir gusuna frá Vilhjálmi Erni á fimmtudaginn svaraði ég í bloggfærslu. Hann svaraði henni nokkurn veginn í kommenti hjá sjálfum sér, og ég svaraði honum svo aftur. Nú hefur hann skrifað aðra bloggfærslu sem er á svipuðu plani og sú fyrri. Satt að segja, þá nenni ég ekki að leggjast niður á þetta plan. Það væri öðru að heilsa ef hann væri málefnalegur, en ég hef betra við tíma minn aðgera en að eyða honum í að kljást við dylgjur og útúrsnúninga. Skrif hans lýsa honum sjálfum betur en mér.

Saturday, May 3, 2008

II. svar mitt til Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar

Eftir að ég skrifaði síðustu færslu (Dylgjum zíonista svarað), þá benti ég Vilhjálmi á hana í kommenti við næstu færslu hans og hann svaraði og ég svaraði honum svo aftur. Á meðan ég bíð eftir að seinna svarið mitt hljóti náð fyrir augum hans, ætla ég mér til gamans að skella þvi hingað líka:


Ég hef nú litið á bloggið þitt áður og ekki hnotið um margt hingað til sem benti til þess að þú styddir málstað Palestínumanna, en gott að vita það. Það kemur mér þá spánskt fyrir sjónir að þú segir það vera Palestínumenn sem fara með ófriði. Hver var það aftur sem hertók hvern í þessu máli?

Styður þú málstað þeirra kannski með því að ráðleggja þeim að þegja og sætta sig við að húsin þeirra, ólífulundirnir, vatnsbólin og mannleg reisn séu tekin af þeim?

Telur þú að herskáir Palestínumenn, með handvopn og fljúgandi þakrennur með sprengiefni inni í, séu aðsteðjandi ógn við Merkava-skriðdreka eða Apache-þyrlur og líklegir til að fylgja digurbarkalegum yfirlýsingum eftir með blóðbaði á strætum Tel Aviv eða Haifa? Hefur hvarflað að þér að hernámið eigi einhvern þátt í því að þeir streitist á móti? Og annað, þú áttar þig á muninum á fyrirbærunum „Ísraelsríki“ og „gyðingar“, er það ekki? Hvernig litist þér á eitt stórt ríki þar sem menn lifðu jafnir og sáttir?

Þú ert væntanlega ósammála Ze‘ev Jabotinsky og kenningu hans um Járnvegginn?

„Holocaust relativism“ hef ég ekki heyrt áður svo ég muni. Ef maður vill taka helförina alvarlega, þá tekur maður hana ekki út fyrir sviga mannkynssögunnar, eins og eitthvað alveg ósambærilegt nokkru öðru. Að eðlinu til hefur verið framin urmull annarra þjóðarmorða, og að umfanginu til nægir að nefna Maó Tse-tung eða Leópold Belgíukonung til samanburðar. Þýsku nasistarnir voru náttúrlega eins og þeir voru, sameinuðu feiknalega umfangsmikið þjóðarmorð, rasískt inntak og eitthvað furðulega grimmdarlegt attitjúd – en þeir voru samt mennskir, og það sem menn gátu gert þá geta menn gert aftur. Það þarf ég varla að segja þér. Þess vegna er það stórhættulegt ef það er bannað að benda á þá til samanburðar. Ekki eins, en sitthvað skylt. Ríki byggt á trú/kynþáttahyggju, kynþáttamisrétti/aðskilnaður, þjóðernishreinsanir og landrán, hóprefsingar – hringir þetta einhverjum bjöllum? Athugaðu að það var ekki ég sem setti samasemmerki, það varst þú sem gerðir það. Ég tjáði bara þau hugrenningartengsl sem blasa við. Það gerir þetta auðvitað alveg sérlega kaldranalegt að það sé fólk af sama trú/þjóðernishópnum og var fórnarlamb einu sinni, sem nú beitir nágranna sína svona hörðu.

Vegna þess að þú hefur skotið að mér nokkrum gyðingahaturs-pílum, þá er best að taka það fram líka að þær bíta ekki á mig. Hins vegar hef ég takmarkaða þolinmæði fyrir skætingi, persónuárásum, dylgjum og útúrsnúnungum, svo ég vildi biðja þig að leggja þessi stílbrögð til hliðar ef þú getur, ef þig langar að rökræða þetta við mig.

Ráðstefnan hefur nú satt að segja ekki eins mikið presens á netinu og hún ætti að hafa, en þú getur fundið eitthvað um hana hér og eitthvað hér. Ég get annars alveg sagt þér ýmislegt um hana ef þú vilt. Þarna voru ýmiss konar vestrænir friðar- og lýðræðissinnar saman við friðarsinna, lýðræðissinna, sósíalista, íslamista, þjóðernissinna og fleiri frá Egyptalandi og fleiri arabalöndum.

Já, og meðan ég man: Í athugasemd við síðustu færslu þína „hótaðirðu“ því að senda einhverjum „sérfræðingum í gyðingahatri“ þessa færslu af blogginu mínu. Blessaður gerðu það, og gleymdu svo ekki að senda afrit til Mossad og Shin Bet, og láttu það líka fylgja að ég sé í „svokölluðu“ Félaginu Íslandi-Palestínu og meira að segja líka í slagtogi við „sjálfhatandi gyðinginn“ Elías Davíðsson.

Dylgjum zíonista svarað

Fyrir hálfu fimmta ári síðan fór ég á góðan og athyglisverðan fyrirlestur um helförina. Fyrirlesturinn varð mér tilefni til þess að blogga, annars vegar um helförina og hins vegar um Gaza-ströndina. Zíonistinn Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson var snöggur til andsvara og lagði út af þessu bloggi í fyrradag (1. maí) á blogginu sínu. Athugasemdakerfið lokaðist auðvitað áður en mér gafst ráðrúm til að leggja þar orð í belg, svo ég svara fyrir mig á þessum vettvangi í staðinn.

Ég nenni hvorki að elta ólar við allar þær dylgjur sem Vilhjálmur hefur uppi um mig, né nenni ég að standa í því að taka fyrir hvern einasta strámann og leiðrétta hann. Meðal þess sem mér er eignað eru stuðningur við Mahmoud Ahmadinejad, vanvirðing við minningu fórnarlamba helfararinnar, sem ég afneita víst líka, og einhver vafasamur tilgangur (allt frá gyðinga- og hommahatri til stuðnings við Hosni Mubarak) með nýafstaðinni ferð á lýðræðis- og friðarráðstefnu í Cairo. Fólk getur lesið þetta fimm ára gamla blogg mitt og svo blogg Vilhjálms og metið sjálft.

Mér finnst það spes þegar mönnum finnst það „öfgamálstaður“ að vilja að Palestínumenn losni undan hernámi og þeirri kúgun, niðurlægingu og öðrum mannréttindabrotum sem því fylgja. Mér finnst minningu fórnarlamba helfararinnar meiri óvirðing sýnd með því að nota hana til að réttlæta nýja hópkúgun, nýja mismunun á grundvelli þjóðernis og ný mannréttindabrot. Sá lærdómur sem við eigum að draga af helförinni er auðvitað „aldrei aftur“ – eða, nánar tiltekið: Aldrei aftur að hleypa kynþáttahyggju eða þjóðrembingi til valda. Mér finnst spes að skilja það ekki.

Mér finnst líka spes að skilja ekki að það sé réttur fólks að veita mótspyrnu þegar það er kúgað. Það er sama hvort heitir Varsjá eða Sobibor eða Gaza eða Jenín eða eitthvað annað. Ég er vitanlega ekki að segja að þetta séu nákvæmlega eins dæmi, heldur að rétturinn til andspyrnu er sá sami. Hugrenningartengslin eru óhjákvæmileg. En það er kannski ekki sama hvort það er Þjóðverji eða gyðingur sem kúgar, eða hvort það er gyðingur eða arabi sem verður fyrir kúguninni. Sú spurning rímar reyndar líka við hvað það virðist skipta Vilhjálm miklu máli hvort menn eru af gyðingaættum eða ekki.

Það eru tvö aðalatriði sem ég vil taka fram: Í fyrsta lagi er Palestína hertekin af Ísrael, ekki öfugt. Andspyrna og andúð eru rökrétt afleiðing hernáms, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, og það sem meira er, þá er andspyrna réttur hins kúgaða. Ef menn vilja frið milli Palestínumanna og Ísraela, þá er eina leiðin til þess sú að hernáminu ljúki og sanngirni og réttlæti verði dagskipanin. Í öðru lagi skil ég ekki hvernig vel lesnir menn geta ruglað saman gyðinglegri þjóðernisstefnu (zíonisma) og gyðingum sjálfum, eða skilið andúð á þjóðernisstefnu gyðinga sem andúð á gyðingum sjálfum. Vilhjálmur veit auðvitað betur, en reynir að gera mig tortryggilegan með ódýrum strámanni.