Tuesday, October 26, 2021

Um málfrelsi

Málfrelsi þýðir að ríkið refsi okkur ekki fyrir að tjá skoðanir okkar. Það þýðir ekki að það megi segja hvað sem er hvar sem er.

Málfrelsi eru þegar settar skorður í lögum og víðar, meðal annars bann við hatursorðræðu. En hvað er hatursorðræða annars? Þarf að vera illur ásetningur að baki? Eða er tillitsleysi kannski nóg? Eins og að taka ekki tillit til tilfinninga sem gætu verið viðkvæmari en hjá manni sjálfum, kannski vegna ævilangrar jaðarsetningar?

Við sem fæðumst með relatíf forréttindi getum ekki ætlast til þess að fólki af jaðarsettum hópum líði eins og okkur með alla hluti. Við getum t.d. ekki bara afskrifað homma sem húmorslausa fyrir að sárna að vera notaðir sem blótsyrði eða efni í grín. Þykir kannski einhverjum ennþá sjálfsagt að "hommar og kerlingar" sé samheiti við væskla og skræfur?

Og ef transfólk kvartar undan því að því líði illa í einhverjum aðstæðum, þá á að hlusta á það en ekki gera lítið úr því eða furða sig á hvað það sé hörundsárt. Eða óttaslegið.

Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að þurfa stöðugt að rökræða tilvistarrétt sinn, þurfa að sitja undir niðrandi orðum, eða þá ásökunum um ofurviðkvæmni þegar það mótmælir, -- og þykjast á sama tíma ekki samþykkja hatursorðræðu.

Mikilvægi málfrelsis snýst nefnilega ekki um heilagan rétt fólks í sterkri stöðu til að hnýta í fólk í veikri stöðu.

(Birtist áður á Facebook.)

Tuesday, October 19, 2021

Hvað með að banna kaþólsku kirkjuna?

Í lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög er sagt að ekki megi "fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu". Nú get ég ekki skilgreint hvað það er, en að nauðga börnum er að minnsta kosti langt fyrir utan það. 216.000 í Frakklandi. Tvöhundruð og sextánþúsund fórnarlömb kirkjunnar. Eða ... kannski 330.000 ef kaþólskir skólar eru taldir með.

Þessi árátta kaþólsku kirkjunnar fyrir því að misnota börn er auðvitað ekkert minna en sjúkleg. Er skýringin krafan um skírlífi? -- Hvers lags fábjána dettur í hug að halda að barnamisnotkun geti flokkast undir skírlífi? Og hvað er í höfðinu á fólki sem kallar hinsegin fólk öfugugga, en ver á sama tíma kaþólsku kirkjuna með kjafti og klóm?

Og ef þetta væru bara einangruð tilvik. En þessir frönsku perraprestar skipta þúsundum. Og hinir hylma yfir með þeim. Þannig að þetta er greinilega kerfisbundið. Þetta er bundið við stofnunina, ekki eitt og eitt skemmt epli.

Og kaþólska kirkjan biður um fyrirgefningu. Ósmekklegur brandari. Fokkið ykkur. Fast.

Tuesday, October 12, 2021

Fólk en ekki flokka

Þið sem hafið undanfarið hneykslast á því að Birgir Þórarinsson hætti í Miðflokknum og gekk í Sjálfstæðisflokkinn, -- og þið sem hafið undanfarið talað um að þið viljið kjósa "fólk en ekki flokka" -- stalðrið þið nú aðeins við: Ef þið viljið "fólk en ekki flokka" þá er Birgir Þórarinsson nýbúinn að gefa ykkur sýnishorn af því hvað það þýðir. Viljið þið það?

Ætti þingmaður frekar að segja af sér og víkja fyrir varamanni sínum, ef hann þolir ekki lengur að starfa með flokknum sem hann var kosinn fyrir? Þá er það flokkurinn sem á þingsætið, ekki þingmaðurinn. Þá er það flokkur, ekki þingmaður sem fólk kýs. Viljið þið það?

Ég er ekkert að segja hvað ég vil -- ég hef satt að segja ekki sterka skoðun á þessu. En mér leiðist þegar fólk ruglar saman eða skilur ekki grundvallaratriði, og það er algengt í íslenskri umræðu. Eiginlega verðskuldar það greinaflokk.

En hvað um það: Það eru auðvitað til hugvitssamlegar og/eða blandaðar lausnir á kosningakerfum, sem ég nenni ekki að fara út í. En listakosningar hjá okkur eru til þess að við getum haft hlutfallskosningu, í stað óhlutbundinnar kosningar. Vissuð þið það? Að það er persónukjör í sumum sveitarfélögum á Íslandi? Það er kallað óhlutbundin kosning. Það virkar eiginlega eins og einmenningskjördæmi: Sigurvegarinn hreppir allt. Einfaldur meirihluti kjósenda getur tekið sig saman um að kjósa eins, og ná þá öllum sætunum fyrir sitt fólk.

Dæmi: Árið 2018 stóðu deilur um Hvalárvirkjun í Árneshreppi. Þar búa bara 42 manneskjur og þar er óhlutbundin kosning. Fimm virkjunarsinnar fengu 23-24 atkvæði og þar með öll fimm sætin í hreppsnefndinni. Þar er enginn minnihluti eða stjórnarandstaða. Þetta er persónukjör. Viljið þið hafa þetta svona?

Gætið þess, hvers þið óskið. Eða vinnið að minnsta kosti heimavinnuna ykkar áður.

Tuesday, October 5, 2021

Textaðar sjónvarpsfréttir

Þegar RÚV flytur fréttir um heyrnarlausa, þá eru þær hafðar textaðar. Væntanlega til þess að heyrnarlausir geti fylgst með þeim. Ekkert um okkur án okkar og þannig.

En hei, dettur engum í hug að heyrnarlausir gætu haft áhuga á fréttum um eitthvað annað en heyrnarlausa? Hvaða bull er þetta?