Thursday, October 8, 2009

Öfugsnúin umræða

Í landinu er stjórn sem sumir kalla "vinstristjórn" en stundar nógu mikinn niðurskurð og þjónkun við auðvaldið til þess að verðskulda eitthvað annað nafn. Sagt er að nýjum herrum fylgi nýir siðir, en það vantar sitthvað upp á það nú. Getur verið að rassaför hægrimanna við kjötkatlana séu orðin svo djúp að fáir komist upp úr þeim? Það skyldi þó aldrei vera. Forsætisráðherrann ætlast ekki bara til þess að samráðherrar sitji og standi eins og hún vill, heldur hugsi þannig líka. Meira að segja helstu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar virðast apa eftir stuðningsmönnum fyrri ríkisstjórna.

Steingrímur J. Sigfússon segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði ekki deginum lengur í landinu heldur en þörf sé á. Þörfin fyrir þann ólánssjóð er álíka mikil og þörfin fyrir drepsótt, svo ég vona að Steingrímur meini að landstjórinn sé kominn út á flugvöll og sé að tékka sig inn í þessum töluðum orðum. En ég óttast að það sé ekki það sem Steingrímur meinar. Maður eins og ég, sem er vanur að líta á samfélagið sem stéttskipt, spyr þegar svona er sagt: Lengur en hver hefur þörf á? Úr þessari Tyrklandsheimsókn, þar sem þurfti óeirðalögreglu til þess að Steingrímur gæti fundað í friði fyrir múgnum, færir hann okkur svo þessar innihaldsríku og merku fréttir: "Við verðum að ná tökum á efnahagsástandinu svo það þoli endurskoðun og Icesave verður að ljúka.
Fyrr berst ekki fjárhagsaðstoð frá alþjóðasamfélaginu."

Nú, Sverrir Jakobsson sendir svo Ögmundi Jónassyni einkennilegan tón í Fréttablaðinu í gær. Hann lætur sem "þjóðrembumálflutningur" hægrimanna og framsóknarpopúlismi hafi glapið Ögmund. Þetta segir hann þegar hann hefur rétt sleppt orðinu, að gera grín að Bjarna Ben. fyrir að vera að fatta það núna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé innheimtustofnun fyrir lánadrottna og hafi verið það í 60 ár. Maður hlýtur að ætla að formaður hreinskilnasta auðvaldsflokksins sé innrættur eftir því, og með því að Sverrir þekkir eðli AGS skýtur þetta skökku við og er þar af leiðandi fyndið. Nú má svosem segja ýmislegt um Ögmund Jónasson, en er ekki fulllangsótt að kalla hann framsóknarginnkeyptan þjóðrembulýðskrumara sem talar gegn handrukkarasjóði alþjóðafjármálaauðvaldsins en elskar hann innst inni? Heldur Sverrir það kannski og finnst þetta þess vegna skrítið?

Ég ímynda mér að ef maður leitar í ritsafni Sverris sjálfs, t.d. á Múrnum gamla, eða þá bara í einhverjum skrifum frá því fyrir búsáhaldauppreisn, þá geti maður fundið þar einhverja gagnrýni á Alþjóðahandrukkarasjóðinn. Ímynda mér það, án þess að hafa athugað það sérstaklega. Ætli Sverri finnist ekkert skrítið hvað Steingrímur er allt í einu orðinn jákvæður í garð sjóðsins? Getur verið að það hafi einhver annar en Ögmundur látið plata sig?

Sverrir segir annars í grein sinni: "Enn hefur sjóðurinn ekki sett Íslandi [neina afarkosti]". Ég velti því nú fyrir mér hvernig Sverrir viti það, og hvað hann viti. Ég veit nefnilega að sjóðurinn setur mikinn þrýsting á um niðurskurð og er a.m.k. með Landspítalann undir smásjá og lætur þýða fyrir sig stjórnunargögn þaðan. Ég veit líka að sjóðurinn hefur reynt að bæta ímynd sína með því að setja fá og tiltölulega aðgengileg skilyrði í byrjun, en hækka slána þegar kemur að afhendingu á næsta hluta lánsins. Þannig að ef það eru ekki komin fram nægileg skilyrði til þess að geta kallast "afarkostir", þá eiga þau sjálfsagt eftir að koma á daginn áður en langt um líður.

En það er fleira eftirtektarvert heldur en það sem Sverrir skrifar. Hjörleifur Guttormsson skrifar t.a.m. þungskeytta grein á Smuguna og "Icesave-málið og afsögn Ögmundar" heitir hún. Ég ætla nú ekki að fara að endursegja ágæta grein, en umræðurnar í athugasemdakerfinu eru merkilegar. Þar skrifar hver á fætur öðrum um að Ögmundur sé svona-og-svona, að gera verði fleira en gott þyki og að þetta-og-þetta sé nú ill nauðsyn og þurfi kjark til. Einhver Pétur segir t.d. að Ögmund hafi skort "kjark til að skera niður". En sú vitleysa. Ögmundur hafði kjark til þess að skera EKKI niður og til þess að standa með sannfæringu sinni þótt á honum stæðu spjótin úr krataátt. Hvað hefði hann átt að gera til þess að þóknast þessum Pétri og öðrum IceSave-sinnum? Það var um fernt að velja: Skipta um skoðun; Skrökva um skoðun sína; Grjóthalda kjafti; Hunskast út. Ögmundur valdi síðasta kostinn. Hvað hefðu gagnrýnendur hans gert í stöðunni?

IceSave-ábyrgðir eru eitthvert mesta endemi sem ég hef vitað. Hvernig dettur fólki í hug að ætla að samþykkja þær? Þær verða nefnilega aldrei borgaðar. Ef íslenska ríkið ber ekki gæfu til að koma sér undan þeim, þá munu landsmenn gera það sjálfir, með fótunum. Það er ekki hægt að pína fólk til að borga ef það á undankomu auðið. Ég skal hér með segja það fyrir sjálfan mig, að ég ætla ekki að taka þátt í að borga IceSave. Ef þetta leysist ekki á þægilegri hátt, þá stendur valið milli landflótta og byltingar.

Steiktast af öllu er samt hvernig höfð eru endaskipti á umræðunni. Það er Samfylkingin sem dregur forystu VG á asnaeyrum í ógæfuátt. Stór hluti flokksmanna og kjósenda VG, sem og flestir aðrir landsmenn, gapa af undrun og vonbrigðum. Þegar nokkrir þingmenn sýna þá staðfestu að spyrna við fótum og segja: nei, þetta gengur ekki -- þá eru þau hin sömu kölluð illum nöfnum, gungur og þjóðrembupopúlistar og óstjórntæk og framsóknarmenn og þaðan af verra.

Hvaða rugl er þetta eiginlega?

2 comments:

  1. Takk fyrir góða grein. Meðvirkni vinstri manna er ekkert minni en hjá sjöllunum og ég er nánast hætt að nenna að lesa bloggfærslur þeirra sem telja sig pólitíska en það er alltaf eitthvað bitastætt hjá þér.

    ReplyDelete