Wednesday, February 21, 2007

Fljúgandi furðuhlutur

Ég var rétt í þessu að sjá fljúgandi furðuhlut. Vindillaga loftfar með blikkandi ljósum, sem flaug hávaðalaust í norðvesturátt.

Monday, February 19, 2007

Enn um hórstefnuna ógurlegu

Hvernig væri að semja kæru vegna þessarar ráðstefnu og safna þúsundum undirskrifta áður en hún væri lögð fram, þannig að það væru þúsundir manns sem stæðu að henni?
Eða: Hvernig væru beinar aðgerðir til þess að stöðva ráðstefnuna með góðu eða illu? Skilaboðin einföld: Við látum ekki bjóða okkur svona hér. Hvernig væri það?

Thursday, February 15, 2007

Klám í mars

Í mars verður Klámráðstefna á Hótel Sögu. Ég er bit yfir því. Bit. Ef þessu verður ekki mótmælt með tveim hrútshornum, þá veit ég ekki hvað verðskuldar mótmæli.

Tuesday, February 13, 2007

8000 myrt, 35.000 nauðgað. Það er á sömu bókina lært: Umsvif heimsvaldasinna eru einatt af hinu illa.

Monday, February 12, 2007

Hetjur hafsins og allt það...

Íslenskir sjómenn hafa löngum verið lofsungnir fyrir fórnfúst framlag til þjóðarbúsins. "Þeir eru hafsins hetjur" er þema sem er regla. Þessi lofsöngur er verðskuldaður -- ekki síst fyrr á tíð þegar mannskaðar á sjó tóku hryllilegan toll af sonum þjóðarinnar -- og um leið fyrirvinnurnar af fjölskyldum, syni, feður og bræður. Já, fórnir sjómannastéttarinnar hafa víst verið yfrið nægar til að afla henni virðingar.

Hin hliðin á peningnum hefur oft gleymst. Fiskverkakonur faldar inni í frystihúsum, eða norpandi á saltfiskplönum, með frostsprungna fingurgómana eða, í besta falli, illa haldnar af þrálátri sinaskeiðabólgu vegna einhæfra hreyfinga við að flaka fisk eða ormhreinsa. Nú er sinaskeiðabólga sjaldan mannskæð, en framlag fiskverkakvennanna er síst minna vert heldur en sjómannanna sem öllum þykir eðlilegt að lofa í hástert.

Bæði hlutverkin eru auðvitað jafn mikilvæg, að veiða fiskinn og að vinna úr honum. Bæði kynin ættu auðvitað að njóta sömu virðingar. Slorugir karlar eru einfaldlega ekki aðdáunarverðari en slorugar konur. Þau eru jafn aðdáunarverð. Jæja, að vísu er það talsvert suddalegra að vera í vinnu sem felur í sér stöðugan lífsháska. Ekki það, að það hafa víst orðið talsverðar framfarir í öryggismálum til sjós undanfarna áratugi.

En hér er spurningin sem ég vildi koma að: Ef sjómenn og fiskverkakonur leggja ámóta mikið til hagkerfisins, hver er þá hinn eðlilegi eigandi veiðiheimildanna?

Saturday, February 10, 2007

Írak: Þagað um fréttir?

Hér eru atriði sem ég skil ekki af hverju hafa ekki sést meira í fréttum:

Númer eitt: Íraska andspyrnan hefur unnið lönd úr höndum Bandaríkjahers og kvislingastjórnarinnar. Við munum eftir Ramadi, Fallujah og fleiri borgum sem herinn hefur plægt ofan í svaðið og íbúana með. Um þessar mundir er borgin Baqouba undir yfirráðum uppreisnarmanna. [1]

Númer tvö:
Íraska andspyrnan býður friðarviðræður. Talsmaður stórrar andspyrnuhreyfingar segir andspyrnuna reiðubúna til viðræðna, ef Bandaríkjastjórn gengur að kostum sem hafa verið settir. Kostirnir sem andspyrnan býður eru trúir málstað þjóðfrelsis, og Bandaríkjaher er verkfæri heimsvaldastefnunnar, svo að hann mun ekki ganga að þessum kostum í bráð -- en þeir hafa verið boðnir. [2]

Númer þrjú:
Sjöundi hver Íraki er á vergangi vegna stríðsins. Um það bil þrjár og hálf milljón Íraka hefur hrakist að heiman vegna stríðsins, um það bil helmingur er innan landamæra Íraks og hinir flestir í Jórdaníu og Sýrlandi. Þetta er stærsta flóttamannavandamál Miðausturlanda frá stríðinu þegar Ísrael var stofnað árið 1948. [3]

Hryllingurinn í Írak mun engan endi taka fyrr en íraska andspyrnan sparkar vígamönnum heimsvaldastefnunnar úr landi. Með valdi. Mér þykir leitt að segja það, en Írakar eiga ekki aðra kosti í stöðunni. Sá sem afneitar rétti Íraka til að verjast hernámsliðinu er að afneita réttinum til að verja hendur sínar, sé á mann ráðist. Það var ekki andspyrnan sem hóf þessi átök. Valdbeiting Bandaríkjahers er ekki til komin vegna valdbeitingar andspyrnunnar. Írakar eru króaðir í horni og geta ekki annað en bitið frá sér.
Íraskur almenningur verður að standa saman gegn óvininum, Bandaríkjaher og leppum hans. Við, almenningur landanna sem standa að þessu stríði, verðum líka að gera allt sem við getum til að stöðva það. Það er blaður að það hafi verið rétt að styðja stríðið miðað við þær forsendur sem þá lágu fyrir. Forsendurnar sem lágu fyrir þá voru þessar: Bush og félagar ásældust yfirráð yfir Írak og höfðu logið upp hverri átyllunni á eftir annarri til að réttlæta það, og þær höfðu jafnóðum verið hraktar og nýjar fundnar. Þetta sáu allir nema þeir sem vildu ekki sjá.
Hér á Íslandi sitja stjórnmálamenn við völd sem ekki hafa séð ástæðu til að mótmæla stríði bandarísku heimsvaldastefnunnar gegn írösku þjóðinni. Hvað eigum við að gera í því?

Thursday, February 1, 2007

Hugo Chavez hlýtur feiknaleg völd

Chavez veitt völd til að stjórna með tilskipunum. Ég get nú ekki sagt að ég sé svartsýnn á að hann komi til með að misbeita þeim -- þótt það komi auðvitað í ljós -- en það fer kannski eftir því hvaða skilning maður leggur í orðin „að misbeita völdum“. Segjum að hann haldi áfram þjóðnýtingarstefnu sinni, stolti gagnvart amerísku heimsvaldastefnunni og að bæta veg almennings í landinu á flestan hátt. Væri það misbeiting? Væri það? Orðið „misbeiting“ er gildishlaðið orð; misbeiting eða ekki misbeiting, það fer gjarnan eftir því hver er spurður. Venezuela-búar álíti það upp til hópa misbeitingu að fá að lepja eitthvað annað en dauðann úr skel? Nei -- þeir sem kalla þetta misbeitingu eru auðvaldið og taglhnýtingar þess, heimsíhaldið.

Sjáið nú til: Ríkisvald er í eðli sínu valdatæki einnar stéttar. Það fer eftir því hver heldur um stjórnvöldinn, hver það er sem fyrir valdinu verður. Valdastéttin í Venezuela hefur riðið almenningi í landinu í rassgatið í tvær aldir. Ef röðin er nú komin að henni, þá get ég ekki sagt að hún hafi ekki átt það í vændum. Ég meina, dísus, getur maður ætlast til þess að maður komi sér upp forréttindum, verji þau með kjafti og klóm -- og stundum byssum -- og svo, þegar taflið snýst við, þá fari maður bara að væla? Hvar voru eyru ykkar, ó valdastétt Venezuela, þá er smáfuglarnir stundu undir stígvélahælum ykkar!?

Kristalskúlan mín er satt að segja of óskýr þessa stundina til þess að ég geti séð hvernig þetta mál fer á endanum. Ekki ætla ég mér að lofa neinum því að Chavez sé svo stálheill og góðfús við alla að allir verði bara sáttir. Ekki dettur mér í hug að lofa neinum að allt verði í ljúfa löð í Venezuela næstu árin, frekar en undanfarin ár, eða aldirnar á undan því. Ég get samt lofað einu, og það er að hvað sem Chavez gerir með þessi nýfengnu völd, þá verða einhverjir til að kalla hann skúrk og glæpamann og öðrum vel völdum nöfnum.

Það er samt eitt sem ég vil síst af öllu lofa fyrir hönd Chavezar, og það er að hann muni halda ævarandi tryggð við alþýðuna og reynast henni sá tryggi brautryðjandi sem hann kann að virðast vera núna. Hann getur talað um sósíalisma, já, það getur hann. Hann getur þjóðnýtt -- eða, öllu heldur, ríkisvætt -- olíufélögin og hitt og þetta annað. Hann getur hjólað í valdastéttina þannig að það taki hana mörg ár að jafna sig -- en það er möguleiki sem ekki heyrist nógu oft: Efasemdaraddir frá vinstri.

Ef ég ætti líkneski af Hugo Chavez, þá mundi ég ekki krjúpa fyrir því. Ég veit ekki -- frekar en nokkur annar, Chavez sjálfur meðtalinn -- hverjum hann þjónar þegar öll kurl koma til grafar. Ég veit ekki hvort hann getur vanið sig af mjúkum sessupúða hásætisins þegar hann hefur ánetjast honum. Ég er sérstaklega tortrygginn á eitt: Bólivarísku byltinguna. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að þetta sé ekki annað en vinstrikratísk stefna, sem stefni að „umbótum“ en ekki byltingu -- og sé þannig á endanum best til þess fallin að framlengja lífdaga auðvaldsins. Ef sú yrði raunin, væri þá ekki betur heima setið en af stað farið? Ef sú yrði raunin, yrði þá ekki hægt að tala í alvöru um misbeitingu valds?

Það getið þið haft eftir mér: Megi söguleg nauðsyn forða því að ég veðji nokkurn tímann á krata, eða aðrar stoðir auðvaldsins, og treysti þeim fyrir byltingunni, -- við skegg Leníns!

Ég afskrifa ekki bólivarísku byltinguna bara sisona. Það má kannski hafa gagn af henni. Kannski spíssar hún baráttuna, kannski greiðir hún Byltingunni leið -- hver veit, kannski er þetta meira að segja byltingin, og ég ber ekki kennsl á hana þegar hún stendur þarna fyrir framan mig, brosandi og sýnandi imperíalismanum fingurinn. Ég játa að ég veit það ekki fyrir víst. Ég játa að ég er ekki spámaður. Í öllu falli sé ég ekki að ég geti gert neitt til að handstýra veröldinni framhjá blindskerjum sögulegrar nauðsynjar.

Ég býst við að á þessu stigi málsins séu mátulegar efasemdir og uppbyggileg gagnrýni frá vinstri það skásta í stöðunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það var annars grein eftir mig á Vantrú í gær: „Enn um aðkomu Þjóðkirkjunnar að menntun barna“.