Tuesday, December 30, 2014

Seth who?

Ekki veit ég hver eða hvað Seth Meyers er, né af hverju það er merkilegt að hann haldi upp á afmælið sitt á Íslandi. Ég hef oft haldið upp á afmælið mitt á Íslandi, án þess að Vísir hafi séð ástæðu til að slá því upp sem frétt.

Monday, December 29, 2014

Ráð við "hættulegu grjótkasti"

Ísraelskir hermenn munu hafa drepið ungan Palestínumann sem kastaði grjóti í brynvarinn bíl. Já, í brynvarinn bíl. Þetta heitir morð á íslensku. Ekki það, að ég skil vel að Ísraelarnir vilji ekki verða fyrir grjótkasti. Og það er líka einfalt að komast hjá því: drullið ykkur burt með hernámið og þann yfirgang, ofbeldi, morð, skemmdarverk og ótal aðra glæpi sem því fylgja.

Grjót er ekki máttugt vopn gegn skriðdrekum eða brynbílum. En það er yfirlýsing. Yfirlýsing um að maður sé ekki bugaður og neiti að gefast upp. Það er náttúrlega það sem zíonistarnir þola ekki. Þeim finnst eini eini góði indjáninn vera dauði indjáninn. Svo má kannski líka þola þá sem eru flúnir nógu langt í burtu. Út fyrir svæðið milli Efrat og Nílar, sem guð gaf þeim fyrir 3000 eða 4000 árum, samkvæmt bók sem þeir skrifuðu sjálfir.

Friday, December 26, 2014

"Vestræn gildi á borð við lýðræði og frjálshyggju"

Ríkisútvarpið greinir frá "hugmyndafræðilegri herferð" í einni af þessum skrítnu fréttum sínum um Kína. Ef einhver hefur lesið Edward Said, getur hann kannski kannast við einskonar óríentalisma í þessari frétt, hvað austurlandabúar séu framandi og furðulegir:
Það er forseti Kína, Xi Jinping, sem á aðalheiðurinn af herferðinni, en hann hefur frá því hann tók við embætti í fyrra, haldið sósíalískum gildum á lofti og gert hvað hann getur til þess að efla stuðning almennings við Kommúnistaflokkinn.
Það er náttúrlega besta máli í sjálfu sér, að halda sósíalískum gildum á lofti, en eitthvað er nú skrítinn þefur af þessari frétt, "auður og völd" eru þarna meðal gilda, a.m.k. eins og Ríkisútvarpið útleggur fréttina. Er þetta þýðingarvilla?
Ráðamenn halda því þó enn fram að vestræn gildi á borð við lýðræði og frjálshyggju séu ekki viðeigandi í Kína
Vestræn gildi á borð við lýðræði og frjálshyggju? (A) Ég fylgdist bæði með þegar Xi Jinping var kosinn forseti og þegar Barack Obama var kosinn forseti. Ef þetta væri keppni í lýðræði, þá hefði Obama alla vega ekki unnið þá keppni. En það er skrítið að hafa það eftir ráðamönnum í Beijing að lýðræði sé framandi gildi fyrir Kínverjum. Síðast þegar ég vissi töldu þeir sig nefnilega stunda lýðræði, þótt það væri að vísu með öðru formi en á Vesturlöndum. (B) Er frjálshyggja "vestrænt gildi"? Loks hnaut ég um þetta:
Í dagblaðinu kemur fram að með herferðinni vilji borgaryfirvöld í Wuhan reyna að tryggja sér nafnbótina: Siðfáguð, þjóðleg borg. Hana fá þær borgir sem standast siðferðislegar kröfur yfirvalda. 
Er þetta ekki svipað og þegar Garðabær, Seltjarnarnes og Reykjanesbær eru að keppast við að uppfylla amríska drauminn og fá verðlaun Heimdallar fyrir sveitarfélag ársins?

Wednesday, December 24, 2014

Frekjurnar sem vilja ræna jólunum

Ég skrifaði grein, hún heitir „Leyfum ekki frekjum að ræna jólunum“. Hún birtist á Vísi í gær: Leyfum ekki frekjum að ræna jólunum og á Vantrú í dag: Leyfum ekki frekjum að ræna jólunum. Njótið! Og gleðileg jól!

Monday, December 22, 2014

„Ég er ekki rasisti, en...”

Maður sem ég þekki lauslega sagði um daginn þessi fleygu orð í mín eyru: „Ég er ekki rasisti -- en hver andskotinn er að svertingjum!? Þeir eru svo klikkaðir! Og svo heimskir!“

Saturday, December 20, 2014

Óhefðbundin jól??

Gott dæmi um óhefðbundin jól væri ... rjúpa á aðfangadag
Ríkisútvarpið greinir frá. Hvaða bull er þetta? Hvernig getur rjúpa talist óhefðbundin á aðfangadag? Hefur það farið framhjá fréttamanninum að rjúpnaveiði hefur verið takmörkuð til muna vegna þess hvað stofninn hefur minnkað? Það -- lítið framboð -- er væntanlega ástæðan fyrir því að það eta hana fáir á jólum, og þeir sem ekki skjóta sjálfir þurfa að punga út þúsundum fyrir hvern fugl ef þeir kaupa hann á svörtum markaði. Það má vel gera ráð fyrir að karlmaður eti tvo ef ekki þrjá fugla, þannig að augljóslega er hún ekki á borðum flestra ... en óhefðbundin?

Sunday, December 7, 2014

Gift kona kaþólskur prestur?

1) Kaþólska kirkjan bannar konum að vera prestar.
2) Kaþólska kirkjan bannar prestum að giftast.