Wednesday, October 14, 2009

Góðar fréttir

Karadzic fær ekki friðhelgi fyrir Alþjóðastríðsglæpadómstóli. Það er gott, stríðsglæpi á ekki að fyrirgefa. Vonandi að dómstóllinn verði jafn prinsippfastur þegar sá dagur kemur að framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar og ritstjóri Morgunblaðsins verða dregnir fyrir hann.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
90% af IceSave-draslinu borgast upp af sjálfu sér, ef marka má fréttir. Mjög góðar fréttir, ef marka má fréttir. Verst að ég efast. Ég trúi þessu ekki fyrr en það er frágengið. Ég hef nefnilega heyrt að þessi 90%-tala sé byggð á grófu ofmati. Nú, segjum að þetta sé satt. Þá hljóta Bretar og Hollendingar að sýna því meiri skilning ef við neitum að borga þetta. Á hvorn veginn sem sannleikurinn er, þá ættum við að neita að borga.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég legg til að Geir Haarde verði gerður persónulega ábyrgur fyrir neyðarlögunum svokölluðu, eða að minnsta kosti fyrir að hafa mismunað innistæðueigendum eftir þjóðerni. Ef einhverjir erlendir innistæðueigendur hafa eitthvað upp á hann að klaga, þá ættu þeir bara að snúa sér til hans.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er ógeðfellt að sjá hvernig ríkisstjórnin og helstu stuðningsmenn hennar berjast fyrir því að Ísland fái að taka á sig IceSave-ábyrgð og vera áfram á teininum hjá Alþýðugjaldþrotasóðanum. Við sem efumst erum kölluð óraunsæir nytsamir veifiskatar Sjálfstæðisflokksins, sem eru fastir í 2007. Á meðan dansandi halarófan á eftir Steingrími er ábyrg og raunsæ. Ég meina, Steingrímur hlýtur nú að hafa rétt fyrir sér. Hann er nú ráðherrann, ha.
Ef Íslandi verður ekki stýrt undan fjárhagslegri og pólitískri úrbeiningu og roðflettingu, þá verður það á ábyrgð sitjandi ríkisstjórnar og það verður ekki með mínum stuðningi. Sumir segja að hin endanlega ábyrgð sé íslensks almennings. Þetta er bull, þótt strangt til tekið sé það kannski rétt, en þá má líka halda rökleiðslunni áfram: Ábyrgð almennings er þá núna sú að gera byltingu og koma hér á réttlátara, sjálfbærara og lýðræðislegra samfélagi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það eru afturámóti góðar fréttir í alvörunni, að mál Íslands verðist enn tefjast fyrir Alþýðugjaldþrotasóðanum. Megi það tefjast sem lengst.

No comments:

Post a Comment