Thursday, April 2, 2009

Mér skilst að Ísland taki við færri flóttamönnum en nokkurt annað vestrænt ríki. Hverslags ræfilgangur er þetta, að þykjast ekki geta veitt hröktu og örvæntingarfullu fólki athvarf? Einhvern tímann var talað um hvað Íslendingar væru gestrisnir. Ætli þeim hafi fundist það, Böskunum sem Ari í Ögri drap hér um árið? Eða gyðingunum sem voru sendir aftur í klærnar á nasistum? Ætli við höfum lært eitthvað af þeim dýrkeyptu mistökum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Réttindi kvenna hafa oft verið notuð sem átylla fyrir árásarstríðinu og hernáminu á Afganistan. Talibanar voru svo vondir en Ameríkanar eru svo góðir, nefnilega. Þess vegna er það víst kvenfjandsamlegt að vilja að Afganistan verði sjálfstætt ríki. Eða, það mætti halda það ef maður tryði áróðrinum. Stjórnarskrá landsins ku taka það fram að engin lög megi brjóta í bága við íslam. Þessi frétt segir líka sitt. Mér þykir lítið standa eftir af meintum ávinningi afganskra kvenna af hernáminu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvers vegna á Omar al-Bashir að sætta sig við að vera tekinn fastur vegna ódæða í Darfur, ef George Bush fær að leika lausum hala þrátt fyrir ódæði í Írak, Afganistan, Sómalíu, Kúbu, Bandaríkjunum og víðar?

Á ráðstefnunni sem við Rósa fórum á í Cairo í fyrra, talaði Rósa við konu frá Súdan. Sú hélt nú ekki að það væri neitt þjóðarmorð í gangi í Darfur. Seisei nei. Tryðum við öllu sem við læsum í fjölmiðlum? Við skyldum bara skella okkur þangað sjálf og sjá með eigin augum. Ættum við á hættu að verða myrt eða nauðgað eða eitthvað slíkt? Við ættum það líka á hættu ef við værum stödd í, segjum, New York, er það ekki?

Þetta dugði nú ekki alveg til að sannfæra okkur um að allt væri með felldu í Darfur, og við höfðum ekki tíma til að þekkjast heimboð konunnar góðu.

No comments:

Post a Comment