Friday, April 29, 2016

Rauður fyrsti maí

Rauður fyrsti maí 2016 verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, sunnudaginn 1. maí kl. 20:00. Gleði og glaumur í anda stéttabaráttunnar!

Fjölbreytt menningardagskrá. Fram koma m.a.: G. Rósa Eyvindardóttir, Ísak Harðarson, Kristian Guttesen, Sigvarður Ari Huldarsson, Sólveig Anna Jóndóttir, Vésteinn Valgarðsson, Þorvaldur Þorvaldsson o.fl.

Allir velkomnir, nema þá helst auðvaldið!

Fyrir kvöldinu standa Alþýðufylkingin og Menningar- og friðarsamtökin MFÍK.

Sunday, April 24, 2016

Málþing um marxisma á miðvikudag 27/4

Ég vek athygli á þessu málþingi Rauðs vettvangs nk. miðvikudag (27/4):

Kienthal 1916 - Reykjavík 2016
-- Verkefni marxista á vorum dögum 
Málþing Rauðs vettvangs, haldið í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá Kienthal-ráðstefnunni, þar sem kommúnistar gerðu upp við meðvirkni sósíaldemókratahreyfingarinnar.

Framsögumenn:
Árni Daníel Júlíusson: „Útsýnið til kommúnismans. Er þokunni að létta?“
Sólveig Anna Jónsdóttir: „Hvað þýðir hægri og vinstri í dag?“
Þorvaldur Þorvaldsson: „Lærdómar frá Kienthal“

Heitt á könnunni -- allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Staður: Friðarhús, Njálsgötu 87.
Stund: Miðvikukvöldið 27. apríl kl. 20:00.

Tuesday, April 19, 2016

Árni Páll: Vafningar eða verðmætasköpun?

Árni Páll Árnason skrifar á Kjarnann: Vafningar eða verðmætasköpun?
Það er margt gott í þessari grein. Um hana vil ég þó segja:


Að því sögðu er ánægjulegt að dropinn sé farinn að hola steininn. Að formaður Samfylkingarinnar sé farinn að taka undir málflutning Alþýðufylkingarinnar veit vonandi á gott. Ætli félagar hans í flokknum séu samt ekki ennþá of „frjálslyndir“ og „nútímalegir“ til að veita félagsvæðingu fjármálakerfisins brautargengi?

Monday, April 11, 2016

Samsæri og Panamaskjölin

Egill Helgason bloggaði í gær um samsæriskenningar um Panamaskjölin. Hann tekur ekki beint afstöðu til þeirra sjálfur, en sumir sem skrifa athugasemdir tala um þær eins og þær séu hreinræktað kjaftæði. Bara eins og bandaríska leyniþjónustan eða öfl henni tengd mundu aldrei taka þátt í einhverju svona endemi. Og ef Rússar andmæla og koma með aðrar skýringar en vestræn hagsmunaöfl -- þá er það áróður Rússa -- en eins og samsæri, þá mundu hetjur frelsisins aldrei nota áróður. Áróður og samsæri -- það er eitthvað sem hinir nota bara. Ekki við. Ekki fólk eins og við.

Þórarinn Hjartarson skrifar athyglisverða grein um Panamaskjölin á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar. Kíkið á hana:

Panamasprengjan. Til hvers?

Sunday, April 10, 2016

Fleiri ráð fyrir friðsama mótmælendur

* Takið strætó á mótmælin ef þið búið ekki í göngufæri. Stór mótmæli = erfitt að finna bílastæði!

* Rúlla af einangrunarlímbandi tekur lítið pláss en getur gbjargað miklu ef skiltið eða fánastöngin laskast.

* Vertu edrú. Það er ekki kúl að vera kenndur eða drukkinn að mótmæla!

Saturday, April 9, 2016

Mótmæli og krúttlegt augnablik

Það þarf eindreginn brotavilja til að skilja ekki hvers vegna ætti að boða til kosninga. Úr því Alþingi felldi vantraustið í gær, þá kæmi ekki á óvart að mótmælin færðust í aukana. Ef ríkisstjórnin velur það sjálf, að láta bola sér frá völdum með illu, frekar en að verða við kröfunni um kosningar strax, -- þá er það bæði óábyrgt val og getur orðið dýrkeypt. Að ríkisstjórnin óttist kosningar -- það er í sjálfu sér næg ástæða til að halda kosningar, er það ekki?

Skoðanakannanirnar eru líka athyglisverðar. Bæði að Píratar sýnast dala smá og að Samfylkingin virðist ekki njóta óánægjunnar með stjórnina. En fylgisskot VG er þó skrítnara.

Ráð fyrir fólk sem ætlar á friðsöm mótmæli: * Klæðið ykkur eftir veðri; * ef þið eruð með skilti, verið þá viss um að spjaldið sé vel fest á stöngina svo það fjúki ekki af; * bylgjupappi virkar illa í mótmælaspjald nema í blíðasta veðri; * hafið með ykkur nesti og vatnsbrúsa; * farið á klóið áður en þið farið af stað; * ef þið viljið berja í járn til að gera hávaða, verið þá með vinnuvettlinga svo þið fáið ekki blöðrur í lófana; * dómaraflauta tekur lítið pláss en gerir mikið gagn; * hafið með ykkur eyrnatappa, að minnsta kosti fyrir börnin ykkar.

Vísir greinir frá krútt-mómenti þegar vingjarnlegur lögreglumaður gaf barni órigamí-fugl. Eldey dóttir mín var einmitt svo heppin að fá líka svona fugl frá þessum sama manni, þegar hún kom með mér á miðvikudaginn var. Sú var ánægð.

Thursday, April 7, 2016

Þorvaldur svarar Ögmundi

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu í fyrradag. Þar svaraði hann grein Ögmundar Jónassonar, frá síðasta föstudegi. Lesið greinina á heimasíðu Alþýðufylkingarinnar:

Hvað þykistu vera að reyna að segja, Ögmundur?

Wednesday, April 6, 2016

Díalektísk messa á sunnudag

Lífsskoðunarfélagið DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju heldur opna díalektíska messu næstkomandi sunnudag: 10. apríl, klukkan 11:00. Hún verður haldin í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. 
Díalektísk messa fer fram líkt og málfundur: hefst með framsögu og svo taka við almennar umræður sem hafa þann tilgang að allir viðstaddir skilji viðfangsefnið aðeins betur. 
Framsögumaður á sunnudaginn verður Þorvaldur Þorvaldsson og umfjöllunarefnið: Hugmyndaþróun og sambúð ólíkra lífsskoðana. 
Heitt verður á könnunni og allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Aðgengi fyrir fatlaða er ekki auðvelt en þó mögulegt 
DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju er veraldlegt lífsskoðunarfélag sem stofnað var árið 2015. Það er í umsóknarferli til að verða opinberlega skráð hjá innanríkisráðuneytinu sem lífsskoðunarfélag.