Thursday, March 26, 2009

Eldey Gígja dafnar vel. Hún sást fyrst brosa í mánaðarafmælinu sínu, og í fyrradag átti hún tveggja mánaða afmæli og sást þá brosa út í annað, í fyrsta sinn svo ég viti. Eftir nokkuð vesen með viðgerðir er barnavagninn kominn í nothæft ástand og hagt að fara út að ganga með hana í honum. Þetta er stórskemmtilegt, verð ég nú bara að segja.

Óánægja með landsfund VG

Ég lofaði því á mánudaginn að ég skyldi gera nánar grein fyrir óánægju minni með landsfund VG, nánar tiltekið óánægju með afgreiðslu ályktunar um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum. Ég hef nú skrifa grein, sem birtist á Egginni í morgun, þar sem ég reifa málið. Gerið svo vel:

Monday, March 23, 2009

Af landsfundi VG

Ég er mjög, mjög ánægður með ályktunina sem var samþykkt um að stefna bæri að aðskilnaði ríkis og kirkju, og að styrkja skyldi jafnrétti og frelsi í trúmálum til muna. Það var mjög góð niðurstaða og það þótt fyrr hefði verið.

Ég er hins vegar mjög vonsvikinn vegna meðferðar Steingríms J. á ályktun um bráðaaðgerðir vegna húsnæðisskulda. Svo óánægður að það skyggir á allt annað. Mér finnst ábyrgðarhlutur að þegja þegar manni er misboðið í svona málum, og mun ég því skrifa nánar um það í grein á morgun eða hinn. Ég ætla að spara yfirlýsingar þangað til. Fyrir utan smá kveðskap:

Lofa vil ég litlu um hvað leysa kratar,
formenn þeirra og flokkasnatar.

En bráðum kemur byltingin með blóm í haga:
og sósíalíska sumardaga.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Bretar læra viðbrögð við hryðjuverkum. Þvílík djöfulsins della. Þetta er hræðsluáróður og ekkert annað. "Hryðjuverk" eru einhver uppblásnasta ógn okkar tíma. Hræðsla fólks er notuð til að skerða persónufrelsi, kortleggja manneskjur, gera jaðarhópa tortryggilega og hækka valdbeitingarstig ríkisvaldsins. Já, og líka til að kyrkja Landsbankann í Englandi og bregða fæti fyrir flugfarþega. Djöfulsins della!

Saturday, March 21, 2009

Hér á Íslandi er hvorki verið að hverfa aftur til einfalds kapítalisma né tvöfalds kapítalisma, heldur bara óldskúl pilsfalds kapítalisma.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég gekk í VG fyrir fjórum vikum, og í dag (s.s. föstudag) var á á landsfundi flokksins. Þessi fæddist þar:

Verður þess minnst, er hægri her
hrundi, með kynstrum sleginn.
Gæfan finnst þó: Grasið er
grænna vinstra megin.

Friday, March 20, 2009

"einfaldur kapítalismi"

Það er tómur hugarburður að það sé hægt að "hverfa frá villtum kapítalisma til einfalds kapítalisma". Það er ekki hægt frekar en að við getum horfið aftur til lénsveldisins. Leiðin frá villtum kapítalisma liggur ekki aftur á bak í tíma, til einhvers skáldaðs hagkerfis þar sem kapítalisminn var saklaus og tær, heldur liggur leiðin fram á við, til sósíalismans. Lausnin er að skipuleggja hagkerfið þannig að það uppfylli þarfir fólks og fari vel með fólk, náttúru og auðlindir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Ísraelar unnu voðaverk" -- svei mér fréttir það.

Monday, March 9, 2009

Prófkjörið og heimsmálin

Burtséð frá öðrum frambjóðendum í prófkjöri VG, er ég ánægður með að Lilja Mósesdóttir hafi náð langt og óánægður með að Þorvaldur Þorvaldsson hafi ekki komist lengra. Það lítur út fyrir að VG muni í vor, eins og fyrri daginn, bjóða fram lista sem verður fyrst og fremst borgaralegur eða vinstri-kratískur. Flokkurinn hefur gagnrýninn stuðning minn á meðan ekki er sósíalískt framboð í boði.

Svandís talar um vinstristjórn, eins og fleiri. Borgaraleg vinstrikratísk stjórn væri líklegust til þess að verða lyfleysa fyrir okkar sjúka þjóðfélag. Gæti látið okkur líða betur um stund, en ólíkleg til að láta okkur batna í alvörunni. Til þess dugir ekkert minna en nýtt þjóðskipulag, og því verður ekki komið á af flokkum sem hafa ekkert annað á stefnuskránni en umbætur á gamla þjóðskipulaginu. Hér vantar stjórnmálaafl sem stefnir á réttlátt og skynsamlegt þjóðskipulag -- sósíalískt stjórnmálaafl sem er með vel útfært, trúverðugt prógram og bjargirnar til að fylgja því eftir. Þangað til það stjórnmálaafl kemur fram, býst ég við að ég veiti VG gagnrýninn stuðning áfram.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Avigdor Lieberman, tilvonandi utanríkisráðherra Ísraels, er fasisti. Ekta fasisti. Fasisti á grófari og hreinskilnari hátt en Netanyahu, Sharon eða þessir karlar. Hann talar opinskátt um þjóðernishreinsanir og fjöldamorð eins og það séu sjálfsagðir hlutir. Hann hefur hvatt til þess opinberlega að friðarsinninn Uri Avnery verði myrtur. Ef hann kemst til verulegra áhrifa versnar staðan í Ísrael til muna; þetta gæti vel verið versti mögulegi kandídat í utanríkisráðuneyti Ísraels. Það er óhugnanlegt að svona skúrkar fái fylgi í kosningum.

Í samanburði við Avigdor Lieberman er Benyamin Netanyahu nokkuð vinstrisinnaður. Hægri og vinstri er afstætt. Ísraelsku flokkarnir eru vitanlega hægri og vinstri hver við annan, eins og þeir raðast á kvarðann, en ef borið er saman við einhver önnur lönd eru þeir meira og minna mjög hægrisinnaðir, nema ef til vill Kommúnistaflokkurinn. Þjóðernishyggja (zíonismi) þykir sjálfsögð, hernámið þykir sjálfsagt, það þykir sjálfsagt að halda áfram apartheid-stefnunni sem mismunar fólki eftir því hvort það er gyðingar, múslimar eða eitthvað annað.

Óréttlæti þykir sjálfsagt. Gæfulegt, eða þannig.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Skrítið að Norður-Kórea álíti það ögrun að erkióvinurinn sé með heræfingar á þröskuldinum hjá þeim.

Bandaríkin mundu örugglega bregðast allt öðru vísi við ef Norður-Kórea væri með heræfingar í norðanverðu Mexíkó.

Það getur verið að það fenni í spor Kóreustríðsins í vitund Bandaríkjamanna. Það gerir það ekki í vitund Kóreumanna. Það er erfiðara fyrir fórnarlömbin að gleyma. Það gæti engin ríkissjtórn haldið velli í Norður-Kóreu lengi ef hún legði ekki rækt við herinn. Hann er tryggingin fyrir því að Kóreustríðið endurtaki sig ekki. Lausnin á málinu er auðvitað að Bandaríkjaher hypji sig heim til Bandaríkjanna. Hann á hvort sem er ekkert með að vera á Kóreuskaga.

Tuesday, March 3, 2009

Opinn fundur um prófkjör VG

Rauður vettvangur stendur fyrir opnum fundi um prófkjör Vinstri-grænna.

Skorað er á frambjóðendur, kjósendur og aðra áhugasama að mæta.

Staður: Friðarhús, Njálsgötu 87

Stund: Þriðjudagur 3. mars kl. 20:00

Monday, March 2, 2009

Kosningastefnuskrá Rauðs vettvangs vegna Alþingiskosninga vorið 2009

Verkefnin fyrir kosningarnar í vor verða að skoðast í ljósi efnahagskreppu auðvaldsins sem valdið hefur algeru hruni efnahagslífsins á Íslandi. Afleiðingar kreppunnar eiga að mestu eftir að koma í ljós. Ef ekki verður brugist við á róttækan hátt er hætt við fjöldagjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja, gríðarlegu atvinnuleysi og landflótta. Þetta gæti leitt til upplausnar í samfélaginu sem langan tíma tæki að jafna sig á.

Fjöldi fólks sem jafnvel hefur fram að þessu ekki verið hlynnt sósíalisma hlýtur að horfast í augu við að til að þjóðin komist eins farsællega og hægt er út úr þessum vanda, verður að beita félagslegum lausnum í meiri mæli en hér hefur áður verið gert. Til að þjóðin gangist inn á að vinna upp það tjón sem fjármálaauðvaldið hefur unnið samfélaginu í skjóli ríkisvaldsins, verður hún að fá vissu fyrir því að ekki verði öllu rænt frá henni jafnóðum. Þess vegna verður að hverfa frá kreddum kapítalískra kenninga um að einkarekstur sé lykill að farsæld og að arðrán sé það eina sem geti drifið hagkerfið. Í ljósi þess er hægt að lífga við mörg gjaldþrota fyrirtæki undir forræði starfsfólks eða undir öðrum félagslegum formerkjum og leysa þannig úr læðingi möguleika þeirra á verðmætasköpun fyrir samfélagið og rjúfa vítahring kreppunnar.

LESA REST