Thursday, December 31, 2020

Áramót á Tjarnargötu 3C

Indriði Einarsson (1851-1939), rithöfundur og endurskoðandi (revisor), var langalangafi minn. Amma mín Jórunn (1918-2017) mundi afa sinn vel og er þetta einn af þeim strengjum sem ég þykist upplifa óslitinn aftur á miðja nítjándu öld.

Indriði Einarsson
Indriði skrifaði endurminningar sínar -- Séð og lifað heita þær -- og þar kemur vel fram að lífsviðhorf hans var nokkuð íhaldssamt, alveg sérstaklega þegar gamlar venjur voru annars vegar. Hann var til dæmis af Reynistaðarætt, ætt Reynistaðarbræðra, sem urðu úti haustið 1780, og hélt dyggilega í heiðri ættarfylgjuna að drengir megi hvorki heita Bjarni, klæðast grænu né ríða bleikum hesti. Amma sagði að hann hefði ræktað þetta í pottum, og þetta voru þá hefðirnar gömlu, og það er vafalaust fyrir hans venjufestu að minn leggur af ættinni hefur fram á þennan dag að miklu leyti virt þessa gömlu bannhelgi.

Nú, í fjölskyldu Indriða hafði lengi tíðkast á áramótum að bjóða heima, sem kallað er. Sagt er að álfar og huldufólk flytji búferlum á áramótum og þessi athöfn felur í sér að ganga þrisvar sinnum réttsælis og þrisvar sinnum rangsælis umhverfis bæinn eða húsið og fara með þuluna: Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, veri þeir sem vera vilja, mér og mínum að meinalausu. Reyndar hef ég oft hugsað að það þyrfti ekki orðlengja meira innflytjendastefnu fyrir Ísland, en það er önnur saga. En þessi siður lifir líka enn í minni fjölskyldu, sem að öðru leyti stundar litla hjátrú.

Indriði bjó lengi á Tjarnargötu 3C, litla húsinu sem var seinna flutt og stendur síðan við Garðastræti, milli Túngötu og Grjótagötu og er númer 11 við síðastnefndu. Þegar hann flutti þangað gekk dálítil vík norður úr Tjörninni fyrir austan húsið. Röskleikamaðurinn Indriði tók upp á því að sækja á hverjum degi einar hjólbörur af jarðvegi -- sér til heilsubótar, sagði hann -- og sturta út í víkina. Þegar svo víkin varð full, seldi Indriði lóðina sem hann hafði búið til. Skúli Thoroddsen, áður sýslumaður Ísfirðinga, og Theódóra kona hans keyptu, og byggðu sér þar hið reisulega hús sem var Vonarstræti 12 en stendur nú á Kirkjustræti 4.

Í þann tíð stóðu oft allhá timburgrindverk eða þil þvert um bil milli húsa, og svo var milli húsa Skúla og Indriða. Theódóra þekkti nágranna sinn vel og hans siði og þegar gamlársdegi hallaði, nefndi hún þetta gjarnan við mann sinn: Skúli minn, ertu búinn að reisa tröppuna fyrir revísorinn?

Thursday, July 23, 2020

Innanlandsferðirnar

Eg hef undanfarin ár ferðast af kappi innanlands. Sumarið 2018 tók ég fyrir byggðir Suðurlands og 2019 Vesturlands. Það var mjög margt sem ég komst ekki yfir, en líka mjög margt sem ég náði að skoða. Í ár er fókusinn á Norðurland.  Og 2021 ætla ég að þræða Austurland eftir megni.
Ég geri mér fullvel grein fyrir að það er óraunhæft að dekka heilan landsfjórðung á einu sumri, og er heldur ekki að reyna það. Bara "þurrka upp" sem flesta staði og koma sem víðast. Ég merki inn á landakort með svörtum doppum staði sem ég er búinn að koma á. En það verða auðvitað nægir staðir eftir fyrir seinni tíma heimsóknir.
Í árferðinu núna, er eins og allir séu á faraldri um landið og samfélagsmiðlarnir eru fullir af þessu. Ég nenni ekki að taka þátt í því. Ég mun því lítið fjalla um eigin ferðir hér, á Facebook eða á Snapchat.

Friday, June 26, 2020

Ung var ég Njáli gefin

Ég hef verið byltingarsinni mestallan fullorðinsaldur minn og hef frekar lítið skipt mér af borgaralegum stjórnmálum sem slíkum, enda hef ég lítinn áhuga á þeim. Þátttaka mín í stjórnmálum var enda ekki á þeim forsendum, heldur að koma málstað sósíalismans inn í umræðuna og, ef á besta veg færi, að málstaðurinn næði einhverri fótfestu einhvers staðar.

Nú eru forsetakosningar, einhverjar þær óáhugaverðustu kosningar sem ég man eftir. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að velja milli meinleysingja og fábjána sem er of mislukkaður til að standa undir nafninu lýðskrumari. Og það kemur varla á óvart að allt að tíu prósent þjóðarinnar vilji hann sem forseta. Ég meina, kosningahegðunin hingað til gefur ekki tilefni til bjartsýni, er það? Nóg um það.

Ég veit ekki hvað Guðna Th. gekk til þegar hann svaraði spurningu vinar míns, á bókakynningu í Sögufélagi fyrir allmörgum árum. Það var verið að ræða Óvini ríkisins og vinur minn spurði Guðna um hans afstöðu, hvort honum þætti réttlætanlegt að beita símhlerunum gegn pólitískum andstæðingum, í þessu tilfelli sósíalistum og já, það var kalt stríð.

Sem ég segi, ég veit ekki hvað Guðna gekk til, en hann sagði að kannski væri "réttlætanlegt að víkja leikreglum lýðræðisins til hliðar til þess að vernda lýðræðið". Einmitt. Til að vernda borgarastéttina, hefði einhver getað skilið þetta. Ég ætla samt ekki að reyna að túlka þessi orð, ég tek þau bara á nafnverði.

Minn málstaður heitir sósíalismi og hann er ekki í framboði í þessum kosningum. Þannig að spurningin er hvort ég á að nenna að fara og skila auðu á morgun.

Wednesday, May 6, 2020

Enginn sameiginlegur vettvangur

Ég hef oft upplifað það, þegar ég kem til útlanda, að kaupa dagblað og verða alveg gáttaður á því hvað er margt merkilegt í því. Svo margt að ég næ ekki að lesa það allt þann daginn, og enda með að hafa það með mér heim til að lesa betur seinna. Þannig að ég á í kössum æðimörg erlend dagblöð sem ég ætla að lesa við tækifæri. Það verður væntanlega eftir byltinguna, þegar ég ætla líka að læra á harmonikku.
Ég kalla þessa upplifun "fyrirbæri hins frábæra dagblaðs" -- en hún er auðvitað skilyrt af því hvað ég er vanur lélegum blöðum á Íslandi. Það er hvorki meira né minna en þjóðfélagsmein, hvað íslenskir fjölmiðlar eru slappir. Já, ég veit að þetta er alþjóðlegt trend og allt það. Og kannski snýr þetta vandamál upp á alheiminn, en ekki bara okkur.
En ég get varla álasað fólki fyrir að nenna ekki að lesa Fréttablablaðið. Ég hef ekki lesið það í tvö ár sjálfur. Nenni því bara ekki.
Það breytir því ekki að í samfélagi þar sem er enginn sameiginlegur vettvangur fyrir alvöru umræðu um alvöru mál, þar vantar eitt meginatriðið sem þarf að vera til staðar til að geta haft lýðræði. Hvað þá annað. Án einhvers konar almennra og almennilegra fjölmiðla er það naumast hægt.
Facebook-bergmálshellar koma ekki í staðinn. Ekki einu sinni vefir stærri fjölmiðla og því síður vefrit eða blogg. Það sem nær því ekki að vera almennt lesið nær augljóslega ekki augum almennings og þar með er almenna umræðan í þjóðfélaginu ekki til. Ég endurtek: Ekki til.
Ríkið heldur nú þegar úti útvarpi og sjónvarpi, sem eru það sem nálgast helst vandaðan fjölmiðil. Væri galið að ríkið bætti við dagblaði? Eða er einhver með betri hugmynd? Ég bara spyr.

Monday, April 27, 2020

Ný bloggveita

Óli Gneisti vill auka veg bloggsins. Ég er sammála honum. Í þessu skyni hefur hann sett upp nýja bloggveitu. Fylgist með: http://blogg.kistan.is/ og verið með í endurreisn bloggsins. Niður með auðvaldið, lifi fólkið!

Thursday, April 23, 2020

Gleðilegt sumar ... í skugga asnans

Alveg er Facebook að gera mig gráhærðan. Mér kemur í hug hvað Jón Vídalín hefur eftir gríska ræðuskörungnum Demosþenesi: Þegar ég held ræðu um skugga asnans, leggja allir við hlustir. En þegar ég held ræðu um þarfir borgríkisins, þá loka allir eyrunum. Þannig er Facebook. Maður póstar mynd af þúfu með blómi á, og fær 50 læk. Maður póstar hlekk á mikilvæga grein um umhverfismál eða kannski mannréttindi, og fær 6 læk. Viðbrögðin reyna að draga mann til þess að tala um eitthvað sem er skemmtilegt en skiptir litlu máli, og fá mann til að halda sér saman um hitt. Maður finnur hvernig það spillir manni. En vera má að það sé ekki að öllu leyti við algríminn að sakast; er þetta ekki bara það sem fólkið vill? Það vill brauð og leika, skoða blóm og hugsa um skugga asnans, en nennir ekki að hugsa um erfiða hluti sem valda áhyggjum eða skylda okkur til athafna, til að bjarga heiminum og okkur sjálfum með.
-- -- -- --
Ég er auðvitað engin undantekning. Ég get rausað um fólk, en sjálfur er ég fólk. Ég er orðinn dauðþreyttur á átökum og langar bara til að velta mér upp úr grúski og safna hlutum og reynslu sem gera lífið skemmtilegra.