Thursday, June 28, 2007

Mér er spurn...

Ísraelar drepa tólf Palestínumenn á Gaza; „flestir þeirra eru“ þó „sagðir hafa verið herskáir Palestínumenn“ þannig að við getum andað léttar, býst ég við. Mér er spurn, hver segir að þeir hafi verið það? Ísraelar? -- og annað: Hvers vegna er ekki talað um herskáa Ísraela í þessu samhengi?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Rafmagnsleysi í New York -- hita kennt um. Mér er spurn, hvers vegna er kerfið ekki hannað til þess að standast aðstæður sem má búast við að komi upp? Getur verið að kerfið sé fjársvelt, eins og fleira í innviðum Bandaríkjanna? Það eru ekki mörg ár síðan rafmagnið sló út á stórum hluta austurstrandarinnar, vegna þess að viðhaldið var ekki í lagi. Getur verið að svipað sé í stöðunni núna?

Tuesday, June 26, 2007

Í gær var Morgunblaðið aðeins 44 blaðsíður. Fasteignablað Morgunblaðsins var aftur á móti 64 blaðsíður. Segir þetta ekki sitt?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hrafn Malmquist skrifar á Eggina: Hvað er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn?

Monday, June 18, 2007

Af fréttum dagsins -- mótmæli, Gaza, Republika Srpska

Saving Iceland fjalla um stóriðjumótmælin í gær. Það er líka fjallað um þau á mbl.is, Vísi og víðar -- og mér finnst kostulegt að sjá umræðuna. Sumir eru augljóslega að grínast með gífuryrðum, enda er það bara hlægilegt að tala um brot á fánalögum. Eins og það sé issjúið? Hversu mörg börn ætli hafi látið íslenska fánann snerta jörð í gær? Hvað ætli margir hafi verið með andlitsmálningu þar sem fáninn var í röngum hlutföllum? Brot á fánalögum -- asnalegt, segi ég.
Svo kemur sami kvakandi kórinn fram og venjulega, blaðrandi um að mótmælendur séu ómarktækir (vegna þess að þeir sjálfir eru ósammála þeim), það sé rangt að mótmæla þannig að fólk láti taka eftir sér -- best sé að vera bara einn og asnalegur og mótmæla á einhverjum afviknum stað og helst með ljósin slökkt, að mótmælendur séu letingjar (er það leti að nenna að búa til 25 metra langa borða eða skipuleggja stóreflis tjaldbúðir eða vera reiðubúinn að sitja í fangelsi fyrir hugsjónirnar?) og svo að þau séu atvinnulaus (hvernig vita menn það? eru ekki flestir annars í fríi hvort sem er á sautjánda júní?) og flest flokksbundin í VG. Þeim til fróðleiks sem ekki vita, þá veit ég satt að segja ekki um einn einasta félaga í Saving Iceland sem er flokksbundinn.
Þessi jarmandi hjörð er fyrirsjáanleg, svo ekki sé meira sagt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelar loka Gaza og taka upp samstarf við valdaránsstjórn Abbasar (Vísir). Evrópusambandið er ekki lengi að stökkva til að styðja hana líka (Moggi, Moggi). Það er greinilegt að það á að ganga milli bols og höfuðs á palestínsku þjóðfrelsishreyfingunni undir því yfirskini að Hamas séu svo mikil illmenni. Ég játa að mér finnst umhugsunarefni hvað Ingibjörg Sólrún gerir nú. Viðurkennir hún kvislingana eða bíður hún átekta?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sú frétt sem kom mér samt hvað skemmtilegast á óvart var um virkjanasamninga við Serbneska lýðveldið. Republika Srpska er annað af ríkjunum tveim í Bosníu-Herzegóvínu. (Svo ég monti mig: Ég fór þar í gegn síðasta sumar og er með stimpilinn þeirra í vegabréfinu.) Þetta þykir mér gleðifrétt. Það er að segja, ekki endilega að samningarnir snúist um virkjanir (ég hef svosem ekki skoðun á því í sjálfu sér, enda veit ég ekki nóg um þetta tiltekna mál), heldur að það séu komin einhver tengsl við Bosníu-Serba. Þeir eru fólkið sem við héldum öll fyrir nokkrum árum að væri upp til hópa stríðsglæpamenn og smábarnaætur. Það er auðvitað vitleysa.
Izetbegovic í Bosníu var harðlínuíslamisti og vildi stofna íslamskt lýðveldi í Bosníu. Hans fylgismenn voru reyndar í minnihluta, en komu sér í þá stöðu að gera stefnu sína að stefnu landsins, með ýmsum og misjafnlega geðslegum leiðum. Þegar Júgóslavía var gerð upp, þá má auðvitað segja að Bosníumenn hafi haft sama sjálfsákvörðunarrétt og aðrir og ef þeir vildu vera sjálfstæðir, þá var annað ekki sanngjarnt en að þeir fengju það. En hvað með Bosníu-Serba? Rökin fyrir því að Bosnía fái að kljúfa sig út úr Júgóslavíu eru um leið rök fyrir því að Bosníu-Serbar fái að kljúfa sig út úr Bosníu. Eða áttu kristnir eða trúlausir Serbar að sætta sig við að íslömsku ríki væri troðið upp á þá? Auðvitað ekki. Fyrst Bosnía sagði sig úr lögum við Júgóslavíu til að byrja með, þá hef ég fulla samúð með Bosníu-Serbum að segja sig úr lögum við Bosníu. Sama má reyndar segja um Serbana sem búa í Kosovo, ef Albanarnir þar vilja endilega segja sig úr lögum við Serbíu. Serbneski minnihlutinn í Kosovo á ekki sjö dagana sæla, og þar eins og annars staðar hafa þeir myndað með sér samtök um að verja sig ef til þess kemur. Ansi er ég samt hræddur um að sumir fari offari ef það verður, og margur mundi snýta rauðu sem á það ekki skilið.

Sunday, June 17, 2007

Mótmæli dagsins

Jæja, ég varð við minni eigin áskorun og fór áðan og mótmælti herskipakomunni. Bjó til skilti þar sem stendur "NATO - Nazi American Terrorist Organization" þar sem "N"-ið í "NATO" er stílfærður hakakross. Þjóðverjarnir á Sachsen við Miðbakka kipptu sér ekkert upp við okkur, og stóðum við þar um hríð. Þegar við hins vegar fórum inn að Sundahöfn, þar sem amerískt morðtól flaut fyrir landi, gerði Kaninn sér lítið fyrir og lokaði skipinu fyrir gestum á meðan þessi vafasami fámenni hópur af sakleysislegu, meinleysislegu og friðelskandi fólki stóð þarna. Þeir færðu okkur vald til þess að loka skipinu með því að standa þarna! Það var nú ekki laust við að maður væri upp með sér yfir að vera álitið svona merkilegur, og varð þetta okkur hvatning til að standa lengur en við hefðum ella nennt.

Segjum nei við morðum

Það fljóta morðtól á Reykjavíkurhöfn og Sundahöfn og ég skora á andstæðinga hernaðar að
koma því til skila á einn eða annan hátt, hvaða hug við berum til svona tækja.

NATO-herskipin í Reykjavíkurhöfn verða sýnd almenningi á þjóðhátíðardaginn.
Af því tilefni munu félagar úr SHA mæta með dreifirit, þar sem dregnar eru fram
ýmsar staðreyndir um NATO og tilgang herskipanna.
Staðið verður við þýska skipið við Miðbakka í gömlu höfninni kl. 12.

Þetta er áminning hernaðarbandalagsins, sem kennt er við Atlantshaf, um hvar við eigum að standa í alþjóðamálum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Er það ekki annars hlægilegt þegar Ingibjörg Sólrún segist ekki styðja Íraksstríðið og Nicholas Burns brosir alveg jafn breitt? Það er ekki að sjá að stjórnarráðið hafi gefið til kynna að formlegum stuðningi Íslands við fjöldamorð sé lokið. Plís, leiðréttið mig ef þið vitið betur.
Er ekki annars hlægilegt þegar stuðningsmenn stríðsins láta eins og listinn sé ekki til?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Við höldum upp á þjóðfrelsi okkar samtímis því sem við erum hluti af hópnum sem neitar Írökum um þjóðfrelsi. Væri rangt að kalla það hræsni?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fatah halda valdaráni sínu áfram í Palestínu, Abbas reynir að svipta Hamas þeim völdum sem byggjast á sigri í lýðræðislegum kosningum og með stuðningi Bandaríkjanna. Það er ekki skrítið, enda er Salam Fayyad, nýi forsætisráðherrann, hallur undir Bandaríkin og hefur góð tengsl við Ísrael. Er fólk hissa? Þetta heitir að menn séu samverkamenn hernámsliðsins. Það eru til ýmis samheiti, sum hver gildishlaðnari. Og þá stendur nú ekki á Evrópusambandinu að taka aftur saman við valdaránsstjórn Abbasar -- og einhvern veginn gæti maður ímyndað sér að nú minnki andúð Geirs H. Haarde á stjórninni, fyrst hún er ekki lengur lýðræðisleg.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er greinilega nauðsynlegt að byggja álver og égveitekkihvað á Húsavík til þess að stemma stigu við þessu hvínandi atvinnuleysi.

Friday, June 15, 2007

Abbas biður um grið

Þegar Mahmoud Abbas biður um vopnahlé, um leið og hann skipar öryggissveitunum að svara árásum, um leið og bardagar eru að brjótast út á Vesturbakkanum og um leið og hann ákveður að leysa heimastjórnina upp, þá hlýtur það að teljast til marks um að hann finni að hann sé að tapa þessum slag. Það er að segja, tapa honum á Gaza. Það er tvennt ólíkt, Gazaströndin og Vesturbakkinn. Þótt Gaza sé áhrifasvæði Hamas, þá er ekki víst að áhrif þeirra séu eins sterk á Vesturbakkanum (eða, réttara sagt, þá veit ég það ekki) -- og þriðja óráðna dæmið eru svo flóttamennirnir, sem skipta milljónum í löndunum um kring. En það er greinilegt að Hamas vinna á.

Ég játa það fúslega að í þessum bardaga er mín samúð með Hamas. Það er vegna þess að Mohammed Dahlan og dauðasveitir hans, þjálfaðar af Bandaríkjamönnum, bíða með blóðbragð í munninum eftir því að sökkva tönnunum í forystu Hamas, murka úr henni lífið og skelfa almenna stuðningsmenn til hlýðni -- og slá þannig kollinn undan andspyrnunni og selja landsmenn í böðla hendur. Það er fásinna að láta eins og þetta séu einhver óskiljanleg átök eða að erfitt sé að greina hver eigi upptökin. Það er alveg skýrt. Upptökin liggja hjá gerspilltum elementum innan Fatah -- þ.e.a.s. kreðsunni í kring um Dahlan -- og það er svo aukaatriði hver skýtur fyrstu kúlunni. Í því samhengi er óhætt að halda því til haga að í desember stóðu kónar Dahlans að morðtilræði við Ismail Haniyeh.

Það er óhætt að fullyrða að atburðir næstu daga geta reynst Palestínumönnum afdrifaríkir.

Eins og þjófar að nóttu...

Eins og fyrri daginn var ég úti í garði áðan, í óða önn við að reyta skriðsóley. Hafði reytt nokkra fermetra í dag, og klukkan langt gengin eitt að nóttu. Heyri ég þá bíl nema staðar á götunni fyrir framan húsið. "Ah," hugsa ég, "minn kæri meðleigjandi er seint á ferðinni -- nema þarna fari minn kæri nágranni." Þegar ég leit upp -- ég var skríðandi í drullunni fremst í garðinum, í því horni sem er fjær hliðinu, sé ég ókunnuga menn -- þrjá talsins -- koma inn um hliðið, á milli runnanna og inn á blettinn. Með vasaljós í höndunum, og eitthvað fleira. Ég reis upp, með fíflajárnið í hendinni. Þeir komu auga á mig í rökkrinu og brá við. "Góða kvöldið," bauð ég, frekar önuglega, "var það eitthvað?" Forsprakkinn hafði orð fyrir þeim: "Böh.. við erum bara að tína orma." Ég sagði þeim að allir ormar í þessum garði væru mín eign. Það var að vísu hvít lygi -- tæknilega séð er ég ekki eigandi hússins þótt ég hafi reyndar frjálsar hendur í garðinum -- en boðflennurnar höfðu sig á bak og burt, upp í bíl og keyrðu í burtu. Var ég að koma í veg fyrir innbrot? Eða var ég að bjarga saklausu ánamöðkunum mínum úr klóm vandalausra?

Wednesday, June 13, 2007

Hamas vs. Fatah

Mohammad Dahlan er kallaður hinn tilvonandi Augusto Pinochet Palestínu. Núna þegar bardagar standa yfir, hvað ætli hann sé að gera? Jú, nema hvað, það vill svo heppilega til að hann er staddur í Kaíró, þar sem hann undirgengst aðgerð vegna meiðsla á hné. En sú tilviljun að hann skyldi vera mátulega kominn í öruggt skjól. Ismail Rudwan er talsmaður fyrir Hamas. Hann kenndi Dahlan um tilræði við Ismail Haniyeh í desember síðastliðnum -- hann nafngreindi hann.
Það er villandi og afvegaleiðandi að tala um þessi átök eins og Hamas séu öðru megin og stuðningsmenn Abbaras hinu megin. Fatah-megin eru stríðsmenn sem svara ekki til Abbasar heldur Mohammeds Dahlan -- kvislingsins sem á að ganga erinda Ísraels og Bandaríkjanna með því að kurla niður palestínsku andspyrnuna.
Ég get ekki varist þeirri tilhugsun að Hamas-samtökin séu núna -- í þessum töluðum orðum -- síðasta varnarlína skipulagðrar, opinberrar andspyrnu gegn hernáminu. Niðurstöður þessara bardaga skipta úrslitamáli fyrir framtíð Palestínu, hvort það verða kvislingar eða andspyrnan sem veita fólkinu forystu. Ef Fatah hafa betur verður andspyrnunni naumast fyrir að fara nema neðanjarðar á herteknu svæðunum.

Ekki líst mér á blikuna

Ef þessi frétt er eitthvað í námunda við atburðarásina, þá er óþverri framundan í Palestínu -- valdataka Mohammeds Dahlan og dauðasveita hans. Hann er öryggismálastjóri Fatah, með mörg hundruð manna prívat her sem er þjálfaður af Bandaríkjamönnum og Ísrael -- og hefur verið kallaður hinn tilvonandi Augusto Pinochet Palestínu. Ef hann framkvæmir áætlunina sem menn vita að hann á, semsé að ganga milli bols og höfuðs á Hamas og öðrum andspyrnuhreyfingum, þá líst mér ekki á blikuna. Þetta er kvislingur.

Monday, June 11, 2007

Sulta, sulta og meiri sulta

Síðasta haust bjó ég til rifsberjasultu og rabarbarasultu. Framleiðslan fór fram á næturvakt á Kleppi, rabarbarinn tíndur á lóðinni þar og rifsberin heima hjá mér. Nú í nótt sem leið bjó ég svo til 9 krukkur af rabarbarasultu, og 13 krukkur nóttina þar áður, úr rabarbara sem var allur tíndur á Kleppi líka. Segið svo að það séu ekki hlunnindi að vinna þarna! Segið svo að maður sitji auðum höndum í vinnunni!

Thursday, June 7, 2007

Afrek í garðinum

Garðurinn á hug minn allan þessa dagana, eins og fram hefur komið. Eða, réttara sagt, hann er ofarlega á forgangslistanum. Verst hvað vaktirnar á Kleppi taka mikinn tíma.
Ég er búinn að fara með líklega á annað tonn af garðúrgangi í Sorpu. Það sér, held ég, fyrir endann á kerflinum, en skriðsóleyin er meira og minna eftir. Ég ætla ekki að halda nákvæmt registur hér á blogginu yfir hverja kerru af úrgangi eða hverja skóflu af mold -- en langaði bara til að deila því með heiminum hvað það er ánægjulegt að hugsa um garðinn sinn.