Tuesday, May 25, 2021

"Ég vil kjósa fólk en ekki flokka"-bullið

Fólk sem er gagnrýnið á eða óánægt með íslensk stjórnmál, skýtur oft fram hjá markinu þegar það krefst persónukjörs eða að kjósa "fólk en ekki flokka" eða talar um "flokksræði" eins og það sé stór hluti af vanda íslenskra stjórnmála. Það er auðvitað auðræðið, leynt og ljóst, sem er aðalvandamálið, og spillir m.a. flokkakerfinu, eða mótar það. Krafan um persónukjör missir marks af a.m.k. þrem ástæðum:

a) Flokkur er ekkert annað en hópur af fólki sem stendur saman og hjálpast að í stjórnmálum. Það gerir það í krafti félagafrelsis. Að "banna flokka" þýðir að afnema félagafrelsi í landinu. Ætli fólk átti sig almennt á því? Það er auk þess nauðsynlegt að mynda einhvers konar hóp þegar er á annað borð listakosning. Og vel að merkja hefur venjulegt fólk miklu meiri þörf fyrir samtakamáttinn heldur en þeir ríku; þeir sjá alltaf um sig.

b) Það eru nú þegar til persónukosningar og það er hægt að sjá hvernig þær virka. Til dæmis einmenningskjördæmi, eins og eru algeng í Bretlandi. Ef 51% kjósenda kjósa íhaldið en 49% Verkamannaflokkinn, þá fær íhaldið þingsætið en Verkamannaflokkurinn ekkert. Og til dæmis í sveitarstjórnarkosningum þar sem er óhlutbundin kosning, en ekki lista-/hlutfallskosning. Þar þýðir það að einfaldur meirihluti kjósenda getur tekið sig saman um að kjósa sömu frambjóðendurna, sem þá endurspegla vilja þeirra kjósenda. Það þýðir að einfaldur meirihluti hreppir alla sveitarstjórnina og minnihlutinn fær enga fulltrúa. Vorið 2018 hrepptu t.d. virkjanasinnar öll sætin í sveitarstjórn Árneshrepps. Er þetta það sem þessir ógurlegu lýðræðissinnar þrá?

c) Í hreinu persónukjöri hefur frægt fólk og ríkt ennþá meira forskot en í listakosningu. Við sáum það t.d. í kosningum til stjórnlagaþings hér um árið, að flestir sem náðu kjöri voru nokkuð þekkt fólk úr þjóðfélagsumræðunni. Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið hæft fólk, en annað fólk sem var kannski jafnhæft átti eðlilega á brattann að sækja, og það verður eiginlega að kallast lýðræðislegt vandamál.

Tuesday, May 18, 2021

Ég trúi ekki á fylgjur, en...

Annan janúar 2020 fékk ég gesti. Um þetta leyti dvaldi ég hjá mömmu, og gestirnir komu þangað. Mamma var ekki heima, og við, vinahjón mín og ég, sátum lengst í borðstofunni og drukkum te. Þegar klukkan var um hálfellefu heyrum við skýrt að útidyrunum er lokað. Halló, kallaði ég, og reiknaði með að þetta hefði verið mamma. Ekkert svar. Ég reiknaði þá með að hún hefði ekki heyrt í mér, enda kallaði ég svose ekki meira en stundarhátt. En mamma kom ekki inn í borðstofu -- og þá reiknaði ég með að hún hefði farið upp, einhverra erinda, kannski vildi hún bara ekki trufla okkur, en hún þekkti gestina ekki.

Nú, klukkan var orðin þetta margt, og vinahjón mín sögðust ætla að fara að tygja sig. Ég fylgdi þeim til dyra. Og þegar þau fóru, sá ég út í garð, að innkeyrslan var tóm. Og ég kallaði og fór upp, og þá var mamma alls ekki heima. Hún kom heim nokkrum mínútum eftir að gestirnir fóru, eða á að giska tuttugu mínútum eftir að ég heyrði fylgjuna hennar.

Mér fannst þetta mjög skrítið. Þetta er ekki eina, en langskýrasta skiptið sem ég hef heyrt í fylgju. Ég trúi ekki á yfirnáttúruleg fyrirbæri, en ég gat ekki skýrt þetta. Við heyrðum þetta þrjú og annar gestanna er ekki einu sinni Íslendingur. Það kom enginn annar. Og það fór enginn, því það var enginn annar heima. Hurðin getur ekki hafa lokast af sjálfu sér, því hún var læst og ég hafði sjálfur lokað henni og læst þegar gestirnir komu.

Þannig að "skrítið" er eiginlega það eina sem ég get sagt.

Tuesday, May 11, 2021

Elverhøj

Christian IV, mynd: Wikipedia
Elverhøj er leikrit eftir Heiberg og Kuhlau, trúlega frægasta leikrit Danmerkur og hefur verið sýnt meira en þúsund sinnum síðan það var frumsýnt árið 1828. Konunglegi danski þjóðsöngurinn, Kong Christian stod ved højen mast, er notaður í verkinu.

Ég komst fyrst á snoðir um Elverhøj fyrir ekki mörgum árum, þegar ég var með lagið Geng ég fram á gnípur á heilanum. Ég hafði aldrei kunnað nema fyrsta erindið en tók mig til og lærði allan textann. Hann er auðvitað eftir Matthías Jochumsson og úr leikritinu Skugga-Sveini, en lagið er vanalega kallað "erlent" þegar textinn er prentaður. Og ég komst í færi við mér fróðari mann, sem sagði mér að þetta væri eftir Kuhlau og úr Elverhøj.

Nú settist ég niður um daginn og hlustaði á Elverhøj frá upphafi til enda. Og það er að sönnu magnað verk, og væri mjög gaman að heyra það flutt á tónleikum. En viti menn, þar blasir við annað "íslenskt lag", sem við þekkjum sem Frjálst er í fjallasal, eftir Steingrím Thorsteinsson. Aldrei hafði ég heyrt áður að það lag væri erlent. Og týpískt að það sé danskur höfundur að einhverju sem við mundum nánast kalla ættjarðarsöng.

Tuesday, May 4, 2021

Þegar draugurinn hrinti mér

Ég fór einu sinni í einhverja móttöku á Kjarvalsstöðum þegar ég var barn, varla meira en sjö ára. Ég fór með mömmu, sem var borgarfulltrúi, en Reykjavíkurborg hélt móttökuna og Davíð Oddsson var borgarstjóri og hélt ræðu fyrir gestina. Í ræðunni hafði hann orð á því hvað margir væru saman komnir, enda hefði hann boðið öllum sem honum hefði dottið í hug, meira að segja draugnum í Höfða.

Mér fannst spennandi að hjálpa konunum sem gengu um beina og fékk að taka bakka með glösum og halda á honum. Þá finn ég eins og stjakað sé í öxlina á mér, aftan frá, dett við, missi bakkann og glösin og allt fer í gólfið og allt í mask. Ég leit snöggt við til að sjá hver hefði hrint mér, og þar var enginn.

Það kom þá bara eitt til greina. Davíð hafði sagt að draugnum hefði verið boðið. Úr því enginn sýnilegur hafði hrint mér, hlaut það að vera eini ósýnilegi gesturinn í boðinu, draugurinn í Höfða. Og hananú.