Wednesday, September 30, 2009

Ráðvillt Samfylking

Jóhanna segist vera hissa á að Ögmundur hafi sagt af sér. Segir afsögnina hafa komið sér á óvart, talar jafnvel um að fallast ekki á afsögnina. Hún er þá grænni en ég hélt. Hvað hélt hún eiginlega að hún gæti notað úrslitakosta-taktíkina oft?

Af þingmönnum Samfylkingarinnar sem RÚV talaði við, segja flestir að „Vinstri grænir hljóti að átta sig á alvöru málsins“ -- semsé að þetta ágæta fólk hljóti nú að átta sig á mikilvægi þess að landsmenn taki á sig ábyrgðina á IceSave-hneykslinu. Hvernig er þetta, hver þarf að fara að átta sig á alvöru hvers hérna?

Um svipaðar mundir er svo Hannesi Hólmsteini boðið á kappræðu gegn Kristrúnu Heimisdóttur á landsþingi Ungra jafnaðarmanna. Anna Pála Sverrisdóttir, fráfarandi formaður þeirra, og hefur ekki fyrr sagt, svo réttilega, að „hugmyndafræðin sem við endurreisum Ísland á skiptir öllu máli“, fyrr en hún skýrir byltingarkennda uppgötvun, jú, að „þar standa Hannes og Kristrún fyrir gjörólíka nálgun.“ Hér er frétt: Samfylkingin á sér ekki hugmyndafræði. Hún er hentistefnusinnaður, tækifærissinnaður hægrikratískur ESB-sleikjandi valdapotsflokkur sem á sér þann draum heitastan að taka við hlutverki Sjálfstæðisflokksins sem aðal varðhundur auðvaldsins á Íslandi.

Hannes Hólmsteinn á sér hugmyndafræði, sem er að fjármagnið ráði alltaf og fólk mæti afgangi. Ég er ekki sammála þeirri hugmyndafræði, en hugmyndafræði er hún. „Gjörólík nálgun“ væri væntanlega að fólk sitji alltaf í fyrirrúmi en fjármagnið mæti afgangi, er það ekki? Það var ekki nálgun Samfylkingarinnar síðast þegar ég vissi, enda mundi slík nálgun útheimta byltingu og nýtt þjóðskipulag.

Ekki nóg með þetta, heldur talar Össur Skarphéðinsson um sömu mundir hjá Sameinuðu þjóðunum, segir það vera „útslitaatriði að þjóðir heims samein[ist] um að ná bindandi samkomulagi um takmörkun gróðurhúsalofttegunda í Kaupmannahöfn í desember“ og lýsti frekari áhyggjum sínum af umhverfismálum, stóriðjusinninn sjálfur. Ætli hann trúi því sjálfur, að þessi Kaupmannahafnarfundur verði eitthvað annað en sýndarmennska?

No comments:

Post a Comment