Tuesday, September 22, 2009

VG og skuldir heimilanna

30,1% landsmanna segjast til í greiðsluverkfall. Þótt það væri ekki nema helmingur þeirra er það samt nóg til að knésetja bankana. Stór hluti landsmanna til viðbótar er fús til að beita annars konar þrýstingi, til dæmis að greiða aðeins af lánum skv. upphaflegum áætlunum eða taka út sparifé sitt. Þetta er ekkert annað en reiðarslag fyrir bankana, fjármálaauðvaldið og auðvaldið í heild. Ef Hagsmunasamtök heimilanna fá 15% með sér í verkfallið, þá getur ríkisvaldið ekki annað en gefist upp og samið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Skuldavandi heimilanna er eitthvert skýrasta dæmið um hvað er í gangi. Ríkisvaldið munar ekki um að snara út milljörðum á milljarða ofan til að redda fjármálaauðvaldinu, en þegar kemur að heimilunum, þá er eins og ekkert sé hægt. Það er ekki eins og fólk sé að biðja ríkið að gefa sér peninga. Leiðrétting á höfuðstóli er bara viðurkenning á því að með hruninu hefur orðið algjör forsendubrestur. Nú, og afskriftir eru afskriftir á peningum sem eru ekki til -- ógreiddum afborgunum sem aldrei var reiknað með til að byrja með. Þessar skuldir eru uppskáldaðar og það á bara að stinga á þær. Það er eina leiðin.
Hagsmunasamtök heimilanna eru að verða að afli sem er ekki hægt að hunsa. Ríkisstjórnin hefur þráast við, en er á undanhaldi og sífellt meiri brestir koma í vörnina. Fleiri og fleiri koma fram og eru meðmæltir einhvers konar niðurfærslu eða leiðréttingu. Það mun líka enda þannig, og eins gott að játa það bara strax. Ef þriðjungur landsmanna verður keyrður í gjaldþrot, þá er úti um friðinn í landinu. Ef 15% landsmanna fara í greiðsluverkfall, þá verður samið við þá.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Við þá vinstrimenn, sem hafa bitið það í sig að skuldaleiðrétting sé óréttlát, við ég segja: (a) Hækkanir á höfuðstóli eru óréttlátar og mér er sama hvort fólk "getur" borgað eða ekki. Maður borgar ekki skuldir sem maður hefur ekki unnið til. (b) Þetta snýst ekki um að sleppa þeim ríku á kostnað hinna fátæku. Ef einhverjir ríkir sleppa í leiðinni, þá verður bara að hafa það, en að sjálfsögðu á að hafa eitthvert hámark. (c) Aðalástæðan fyrir tregðu stjórnvalda að leiðrétta skuldirnar er ekki sú að það sé svo ósanngjarnt. Nei, þessar húsnæðisskuldir eru verðmætustu eignir bankanna og uppistaðan í eiginfé þeirra, er það ekki? Leiðrétting á þeim þýðir afskrift á stórum hluta eiginfjár bankanna. Það eru m.ö.o. hagsmunir auðmagnsins að halda fólki í skuldafjötrunum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Áður en einhver fer að barma sér yfir lífeyrissjóðunum: Það á að þjóðnýta þá og endurskipuleggja lífeyriskerfið allt saman sem hreint gegnumstreymiskerfi, jafna lífeyrisgreiðslur í áföngum og hætta að safna upp sjóðum sem nýtast hvort sem er aðallega auðvaldinu og binda hagsmuni okkar við hagsmuni þess. Kauphöllin hrynur a.m.k. einu sinni á hverri meðalstarfsævi og það er ekkert nema heimska að safna heyi í hlöðu sem maður veit að mun brenna. Auk þess borðum við ekki peningana, heldur það sem við fáum fyrir þá þegar við tökum þá út. Með öðrum orðum: Þegar við komumst á lífeyri, þá lifum við áfram á hagkerfinu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Á flokksráðsfundi VG á dögunum, lagði ég fram ályktunartillögu sem hljóðaði svo:

Flokksráðsfundur VG á Hvolsvelli í ágúst 2009 lýsir áhyggjum af skuldastöðu heimilanna í landinu. Þar eð til stendur að efna til greiðsluverkfalls frá og með 1. október nk., lýsir fundurinn samúð [eða samstöðu] með þeim heimilum sem sjá fram á óbærilegan skuldabagga.
Heimilin í landinu hljóta að ganga fyrir bönkunum. Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að leysa málið með því að leiðrétta óverðskuldaða eignaupptöku sem heimilin hafa orðið fyrir en eiga enga sök á, til dæmi með því að færa niður höfuðstól húsnæðislána.
Vegna þess að knappur tími gafst til umræðna á flokksráðsfundinum, lagði ég sjálfur til að tillögu minni yrði vísað til stjórnar flokksins, og bauðst jafnframt til að taka sjálfur þátt í umræðu þar. Það var samþykkt með lófataki. Fyrir hálfum mánuði var hún svo afgreidd og mér tilkynnt um það að VG mundu halda "áfram þeirri vinnu sem er í gangi til að létta á skuldastöðu heimilanna frekar en að lýsa samúð með fólki í erfiðri stöðu [leturbreyting VV]".

No comments:

Post a Comment