Sunday, December 31, 2006

Enn um Saddam -- og Valgerði

Mér geðjaðist aldrei að Saddam, frekar en öðrum með álíka syndaregistur. Ég er undrandi á þeim merkilega árangri Bandaríkjastjórnar, að fá mig til að hafa samúð með honum. Sú var tíðin að ég gat ekki hugsað mér svo slæm örlög að mér fyndist hann ekki eiga þau skilin, en þegar réttlæti sigurvegarans hrósar sigri, þá er ég bara með óbragð í munninum.

Ég býst við að það þýði að ég sé betri, eða alla vega þroskaðri, manneskja en ég var einu sinni.

Staða mannréttinda sést af því hvernig farið er með verstu glæpamennina. Dauðarefsingar eru óréttlætanlegar. Að íslensk stjórnvöld "virði" niðurstöðuna [1] finnst mér næg ástæða í sjálfu sér til þess að fordæma þau. Að "virða" morð?? Ég er hræddur um að þetta sýni innri mann Valgerðar frænku minnar enn eina ferðina. Sveiattan. Lepjandi upp rassgatið á hvaða stórbokka sem getur veitt bitlinga eða vegtyllur. Ég eftirlæt lesendum mínum að giska á hvað ég kalla slíka hegðun.

Valgerður Sverrisdóttir sýndi það enn og aftur, hvað hún hefur fágætt lag á að spæla mig. Hitt er mér ljúft og skylt að taka fram, að ég varð fyrir vonbrigðum með leiðtoga stjórnarandstöðunnar líka. Hispurslaus fordæming er það eina sem á við í máli sem þessu. Sá sem ekki tekur eindregna afstöðu gegn svona morði -- og fordæmir það jafn eindregið og óheflað og við á -- missir einfaldlega marks.

Saddam dó eins og karlmenni. Það er meira en hægt er að segja um suma.

Friday, December 29, 2006

Sýndarréttlæti er ekki réttlæti

Saddam enn "í haldi Bandaríkjamanna" segir Moggi. Heyr á endemi, eins og hann sé ekki jafnraunverulega í haldi Bandaríkjamanna þegar hann er kominn í hendurnar á strengjabrúðum þeirra?? Og þessi kvislingur, al-Maliki, sem segir að "enginn" geti mótmælt þessari niðurstöðu þar sem dómstóll hafi komist að henni. Nú jæja, þá getum við víst í leiðinni hætt að nöldra yfir ýmsum öðrum réttarhöldum. Ég meina til dæmis, var það ekki dómstóll sem dæmdi Búkarín, Kamenev og Sinovév? Að píslarvottum Íraks sé sýnd vanvirðing með því að mótmæla dauðadómi yfir Saddam -- úff! Ef einhver er að sýna einhverjum vanvirðingu, þá eru það Bandaríkjastjórn og leppar hennar sem fjölga stöðugt umræddum píslarvottum!
Ég vona að írösku andspyrnunni auðnist það sem fyrst, að hrekja innrásarherinn af höndum sér og veita al-Maliki og hans líkum þá ráðningu sem þeir eiga skilið!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Svo er annað: Sómalía. Ég þoli ekki þegar menn geta ekki drullast til að kalla hlutina sínum réttum nöfnum. Svona er þetta í alvörunni: (1) Bandalag íslamskra dómstóla eru ekki uppreisnarmenn. Þeir eru aðeins ein fylking í borgarastríði sem hefur varað í mörg ár. Þeir hafa verið sigursælir upp á síðkastið, og það er gott. Ef það er eitthvað sem Sómalía þarfnast, fyrir utan góða maóistahreyfingu, þá er það friður og öryggi. Friður og öryggi koma innanfrá. Hreyfing sem sprettur upp meðal fólksins sjálfs, sem á í hlut, og nær yfirhöndinni, hlýtur það ekki að vera hreyfingin sem eðlilegast er að taki völdin? (2) Bráðabirgðastjórn Sómalíu er hlægileg strengjabrúða Eþíópíustjórnar og annarra útlendinga sem ásælast áhrif og völd í Sómalíu. Það er hreint og beint bjánalegt að kalla stríðsmenn hennar "stjórnarherinn", vegna þess einfaldlega að hún er engin ríkisstjórn! Stjórn sem er ekki stjórn, og hefur ekki stjórn, hefur eðlilega engan stjórnarher heldur. "Bráðabirgðastjórnin", spilaborg dubbuð upp af íhlutunarsömum útlendingum, er bara enn ein fylkingin í borgarastríðinu. (3) Eþíópíuher er innrásarher og ætti að drullast heim til sín. Réttast væri að bandalag íslömsku dómstólanna sparkaði þeim öfugum aftur til baka. Eþíópíustjórn gengur ekkert til annað en eigingirnin, og er í slagtogi við Bandaríkjastjórn, sem hefur lengi viljað koma böndum á Sómala, aðallega til að tryggja siglingaleiðina um Aden-flóa.

Wednesday, December 27, 2006

Alcan álítur Hafnfirðinga vera hórur

Alcan álítur að það sé hægt að kaupa Hafnfirðinga. Tónleikar með Björgvin Halldórssyni, konfektkassi og nú síðast geisladiskur. Getur verið að Hafnfirðingar séu svo ginnkeyptir að þeir láti bjóða sér þetta? Gefa þeim geisladisk og hvetja þá svo til að taka málefnalega afstöðu, einmitt það! Svona gjöf er ekki ætluð til þess að hvetja fólk til málefnaleika, heldur þveröfugt. Gjöf af þessu tagi plantar þakklæti í fólk, tilfinningunni um að þeir eigi eitthvað inni hja manni. Þetta er ekki einu sinni pent útfært. Kosningar um stækkunina eru fyrir dyrum, þvert á vilja álrisans sem vill bara að stjórnvaldið ákveði þetta, eins og venjan er í þessu mjög svo lýðræðislega landi. En ef pöbullinn á að fá að skemma þetta fyrir þeim, þá er best að kaupa hann bara, er það ekki? Kaupa pöbulinn eins og hóru, brauð og leikar, það er það sem þetta vill.
Þetta múv segir náttúrlega mest um hvaða álit Alcan hefur á Hafnfirðingum.

Wednesday, December 20, 2006

Málefni líðandi stundar

Ég held að í seinni tíð hafi ég tjáð mig eitthvað minna um ýmis málefni líðandi stundar en ég var kannski vanur, ef ég man rétt. Kompásmálið sem allir eru að tala um er til dæmis hít sem ég nenni ekki einu sinni að þykjast hafa einhverju í að bæta. Af hverju ætti ég að gera það? Af hverju ætti ég að segja það sem allir eru að segja, að ég er sammála öllum sem ég hef séð tjá sig um það? Ég veit ekki hvað er satt og hvað er logið í málinu. Ég hef ímugust á því að hjálparstarf sé rekið á trúarlegum grundvelli -- skil auðvitað vel að menn geri það -- en lít svo á að það eigi að koma til móts við t.d. þörf fyrir úrræði fyrir fíkla á samfélagslegum jafnréttisgrundvelli -- og það þarf að vera sekúlar, annars er jafnréttið í hættu.

Svo það komi fram: Jólin fara ekkert sérstaklega í taugarnar á mér nú á efri árum, ég sé ekki að Árni Johnsen hafi bætt ráð sitt hætishót, Eyþór Arnalds hefur sýnt að hann er efnilegur stjórnmálamaður ef satt er sem sýnist, að hann kunni ekki að skammast sín heldur. Færeyskir kynvillingar eiga mína samúð alla, en ég fann ekki hjá mér sérstaka þörf fyrir að tilkynna að ég samgleddist þeim yfir löngu tímabærri réttarbót. Ég held í fljótu bragði að tvöföldun Hellisheiðarvegar sé peningasóun, að 2+1 leið væri lógískt fyrsta skref og að menn hljóti að geta ekið nógu varlega til að drepa sig ekki.

Ég held ég hafi tjáð mig nógu mikið um nógu margt til þess að ekkert af ofangreindu þurfi að koma neinum á óvart, af þeim sem lesa þetta blogg eða þekkja mig að öðru leyti. Hvers vegna ætti ég þá að vera að segja þeim það? Hvers vegna að eyða tímanum í að vélrita texta sem 3000 bloggarar eru búnir að vélrita á undan mér? Og hver mundi nenna að lesa þetta blogg ef það innihéldi ekki annað en vísanir í önnur blogg?

En hafið ekki áhyggjur, einhverjum gæti virst þetta hljóma eins og formáli að tilkynningu um blogghlé, en sú er ekki raunin. Þið losnið ekki við mig alveg strax. Nema ég detti niður dauður eða gleymi af einhverjum ástæðum hvernig maður vélritar. Þetta á sér skýringar, sem ég ætla að vélrita frekar en að fara strax að sofa eins og skynsemin býður næturverðinum í síðdeginu.

Eggin.is er verkefni sem ég tel í alla staði verðugt tíma míns. Ég held að ég hafi skrifað meira þar en hér upp á síðkastið. Vantrú hefur líka fengið sinn skerf, og svo er ég snúinn aftur á Töfluna eftir rólegt tímabil. Þar við bætist skólinn og svo ýmislegt fleira. Þetta eru samt smærri skýringarnar. Aðalskýringin er þessi: Ég er ekki eins spenntur og ég var fyrir því að velta mér upp úr dægurmálum. Pólitík á hug minn allan, en ég held að ég líti í seinni tíð minna í hornin sem hinir eru að líta í. Annars vegar er þeoría mér mjög hugleikin, hins vegar eitt og annað mál sem ekki fær mikla athygli, sbr. ítarlega umfjöllun mína um Nepal á tímabili.

Jæja, þá vitið þið það, þið sem voruð að velta þessu fyrir ykkur. Ég er farinn í háttinn.

Sunday, December 3, 2006

Kæri Einar...

Ég er að hugsa um að senda Einari K. Guðfinnssyni, sjávarútvegsráðherra, tölvupóst sem mundi byrja á þessa leið:

Kæri Einar,
ég er ósammála flestu sem stendur á heimasíðu þinni, þar á meðal aldri þínum.

Saturday, December 2, 2006

Eini maður á Íslandi

Guðjón Arnar hlýtur að vera eini maður á Íslandi sem kveikir ekki á því hvað fólk er að bendla brottrekstur Margrétar við Jón og Magnús. Ég meina, varla er hann svo óheiðarlegur að hann þykist ekki skilja þetta. Hver heldur hann líka að trúi því að Margrét þurfi hjálp við að hætta sem framkvæmdastjóri ef það er fyrir hana sjálfa gert? Ef rasistar eru ekki búnir að hædjakka Frjálslynda flokknum með beinum hætti, þá eru þeir búnir að því með óbeinum. Það er erfitt fyrir lítinn flokk að venja sig af spena þegar hann er einu sinni kominn á bragðið af þjóðernis-lýðskrumi. Jón Magnússon er köttur í sekk.

Friday, November 24, 2006

Mér var farið að finnast linkasafnið mitt dálítið tómlegt, svo ég bætti nokkrum linkum við.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef látið lesendur bíða eftir Norður-Kóreugreininni sem ég lofaði hér um daginn, og enn verður nokkur bið á. Gefið samt ekki upp vonina!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jóhann Björnsson skrifaði um Kaupum-ekkert-daginn í gærmorgun.

Ég var að rekast á vefrit sem ekki hefur starfað lengi, Nýkrata. Virðist nú í fljótu bragði vera enn ein uppsuðan af gamaldags kratisma, sem ég hef aldrei gefið mikið fyrir. Sé ég þó ástæðu til að vísa á tvær greinar: Fordómalaus dómsmálaráðherra og Eins og jörðin hafi gleypt Illuga.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um krata: Íhaldsmenn allra flokka geta étið það hver upp eftir öðrum að sósíalistar séu óraunsæir, sósíalismi sé gamaldags og að bylting séu draumórar -- en að ímynda sér að auðvaldshagkerfið sé nútímalegt eða að það sé hægt að "temja" það og beita því fyrir plóg almennrar velferðar -- það kalla ég óraunsæja draumóra!

Friday, November 17, 2006

Uppreisn á Tonga og hugleiðing út frá henni

Naumast eru það fréttirnar [I, II] frá eyríkinu Tonga: Uppreisn sem hefur kostað 8 manns lífið þegar þetta er ritað. Í september dó gamli kóngurinn eftir 41 ár á valdastóli og ráðgjafanefnd lagði til að "lýðræðislegar umbætur" yrðu gerðar. Svo ákvað stjórnin að fresta þeim. Íbúar höfuðborgarinnar Núkúalófa fara út á göturnar, brjóta rúður, velta bílum og allt er í hers höndum.

Ástralía og Nýja Sjáland búa sig undir íhlutun ef ríkisstjórnin fer þess á leit. Að senda hermenn og lögreglu. Til hvers? Jú: Til að tryggja valdastéttina í sessi í þessari hjálendu sinni. Tonga, eins og fleiri eyríki Kyrrahafsins, er tæpast sjálfstæð nema að nafninu til. Þegar íbúunum er nóg boðið og gera uppsteyt þá er hvíti maðurinn fljótur á vettvang með byssurnar sínar.

Hins vegar er þetta lærdómsríkt. Ef Tonga, með sína rúmlega 114.000 íbúa, logar í uppreisn, hvers vegna ætti Ísland þá ekki að geta gert það? Hver hefur heyrt um uppreisn á Íslandi fyrr? Enginn. En hver hefur heyrt um uppreisn á Tonga fyrr?

Það væri auðvitað fánýtt að reyna uppreisn á Íslandi. Fyrir nokkrum öldum síðan lagði heiðursmaður (hver var það aftur, Diðrik frá Minden?) Ísland undir sig með 6 hermönnum. Það þyrfti varla mikið meira í dag, held ég. Eða hvað? Í öllu falli, þá væri uppreisn á Íslandi eins og að gera uppreisn í fiskabúri. Erlent heimsveldi getur komið fram vilja sínum við okkur pólitísku dvergana þegar því dettur það í hug.

Það þýðir að okkar bylting mun ekki fara fram á Austurvelli heldur í Washington.

Það væri gaman að heyra hvað aðrir hafa um þetta að segja.

Thursday, November 9, 2006

9. nóvember, Gúttóslagurinn

Í dag eru 74 ár frá sigri verkamanna í Gúttóslagnum. Fyrir þá sem ekki muna, var kreppan mikla í algleymingi á haustdögum 1932, og bæjarstjórn íhaldsins ákvað að fækka störfum í atvinnubótavinnu og lækka auk þess launin -- hjá sveltandi mönnum. Mannfjölda dreif að Gúttó, húsinu þar sem bæjarstjórn fundaði og stóð fyrir aftan Alþingishúsið, til að skora á bæjarstjórn að láta þetta ógæfuverk ógert. Lögreglulið með kylfur réðst á mannfjöldann. Í stað þess að tvístrast tóku verkamenn á móti, og eftir snörp átök lá meirihluti lögreglunnar óvígur. Bæjarstjórnin sá sitt óvænna og hætti við kjaraskerðinguna.
Að þessum sigri unnum blasti sú spurning við íslenskum byltingarsinnum hvort ætti að láta kné fylgja kviði og gera byltingu. Niðurstaðan varð sú að reyna það ekki, enda væri ekki byltingarástand í landinu; ekki forsendur til byltingar. Eftir slaginn sló valdstjórnin mjög í klárinn, og kom m.a. upp ríkislögreglu. Varnarsigur örvæntingarfullra verkamanna varð átylla til að stórauka valdstjórnina í landinu, tilhneiging sem gætti um öll Vesturlönd.

Tuesday, November 7, 2006

Вся власть советам!

Ég fór mikinn á ritvellinum í nótt, svo að eftir mig liggja tvær greinar á Egginni:
89 ár frá rússnesku byltingunni og
Hvaða stefnu eiga Íslendingar að taka í innflytjendamálum?

Ég held að auðvaldsríkisstjórn sé í eðli sínu ófær um að hafa framsækna og góða innflytjendastefnu. Hún lifir hú einu sinni á því að það sé mannamunur í þjóðfélaginu, hún deilir og drottnar.

Ég vil annars óska öllum byltingarsinnum til hamingju með daginn.

Skæruliðafréttir

Zapatistas í Chiapas búa sig undir að veita andspyrnumönnum í Oaxaca virkan stuðning með því að loka þjóðvegum og leggja drög að allsherjarverkfalli í Mexíkó 20. nóvember nk. "Enginn heiðvirður maður getur setið þegjandi hjá, án þess að aðhafast, á meðan fólkið, einkum innfætt, er myrt, barið og fangelsað" segir í yfirlýsingu frá EZLN og Subcommandante Marcos.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Naxalbari-skæruliðar í Andra Pradesh-héraði á Indlandi gera tilraunaskot með eldflaugar til þess að beita í baráttunni gegn yfirvöldum. Það er greinilegt að þeir eru alvarlegur þyrnir í síðu yfirvalda, því yfirvöld heita því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að brjóta þá á bak aftur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nepalskir embættismenn segjast hafa náð samkomulagi við maóista um hvernig vopnum Hers fólksins verður ráðstafað meðan bráðabirgðastjórnin situr. Önnur stórfrétt frá Nepal: Prachanda formaður maóista hyggst ávarpa fjöldafund á föstudaginn kemur, 10. nóvember. Það verður í fyrsta skipti í 25 ár sem hann kemur fram og ávarpar fund. Já, nú langar mig sko til Nepal!

Wednesday, October 11, 2006

Formáli að skrifum um Norður-Kóreu

Á næstu dögum ætla ég mér að skrifa nánar um Norður-Kóreu.
Ég heyri sjaldan annað um Norður-Kóreu í vestrænum fjölmiðlum en illa dulbúin simpansaöskur um hvað Kim Jong-il sé klikkaður. Velkist einhver í vafa um að það er massíft áróðursstríð í gangi gegn Norður-Kóreu? Allavega, það er slagsíða og það hallar alvarlega á Kim og félaga. Áætlunarbúskapur og samhyggjulegt þjóðskipulag eru nefnilega eitur í beinum hins alþjóðlega auðvalds.
Allavega, ég hef það á tilfinningunni að einhverjir hafi aðrar hugmyndir um mínar hugmyndir um Norður-Kóreu en ég hef sjálfur. Það er að segja, ég held að einhverjir sem lesa bloggið mitt kunni að misskilja mig. Ég hef frekar dregið taum Norður-Kóreu hingað til, í aðra röndina vegna þess að ég er með ofnæmi fyrir pólitískri slagsíðu gegn löndum sem dirfast að standa gegn bandarískri (og annarri) heimsvaldastefnu, og í aðra röndina af einlægri samúð með kóresku þjóðinni.
Það er auðvelt fyrir okkur, pattaraleg dekurrassgöt á Íslandi, að gleyma Kóreustríðinu (öðru nafni Frelsisstríði föðurlandsins). Ég get hins vegar lofað ykkur því að við hefðum engu gleymt ef 2,5 milljónir Íslendinga hefðu farist í stríði fyrir 50 árum.
Meira um þetta fljótlega, hef ekki tíma til að skrifa meira að sinni...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fyrir þá sem þyrstir í lesefni, þá er hins vegar grein eftir mig á Vantrú í dag: Er í lagi að vera á móti hvalveiðum? En kristni?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Aukinheldur er ný grein eftir Jón Karl Stefánsson á Egginni, Örbirgð þjóðanna heitir hún. Hún er ansi hreint góð, drullist til að lesa hana.

Monday, October 9, 2006

Norður-Kórea gerir kjarnorkutilraun

Rússar fordæma Norður-Kóreustjórn fyrir vel heppnaða kjarnorkutilraun sína. Tala um að Norður-Kórea „hundsi einróma vilja alþjóðasamfélagsins“. Heyr á endemi! Rússar tala út um afturendann á sér. Það er auðvelt fyrir þá að rífa sig yfir því að fleiri vilji koma sér upp fælingarmætti, þeir hafa verið með kjarnorkuvopn áratugum saman. Sama með Bandaríkjastjórn, Kínastjórn og aðrar ríkisstjórnir sem ráða yfir kjarnorkuvopnum. Ríkisstjórn sem ræður sjálf yfir kjarnorkuvopnum hefur engan rétt til að æsa sig yfir því að Norður-Kórea vilji komast í hópinn. Engan rétt. Norður-Kórea hefur sama rétt til að verja hendur sínar og hvaða annað land sem er.
Og hvað viðvíkur „einróma vilja alþjóðasamfélagsins“ þá er hann ekki til. Almennur vilji alþjóðasamfélagsins er hins vegar til og hann er sá að Kóreustríðið verði ekki endurtekið. Öruggasta leiðin til þess að fyrirbyggja að það gerist er að Norður-Kórea sé ekki framar skotspónn fyrir heimsvaldasinna. Það fokkar enginn í þeim sem á kjarnorkusprengjur, sjáiði til. Þegar Kórea getur varið sig, þá er líka útséð um þreifingar bandarísku heimsvaldastefnunnar um frekari áhrif á Kóreuskaga.
Ég er ekki hrifinn af kjarnorkuvopnum né, ef út í það er farið, öðrum vígatólum. Hins vegar ber ég kennsl á rétt landa til að verja íbúa sína. Þegar eitt land er höfuðsetið af heimsvaldasinnum, hvað á það þá að gera? Hvað á Kim Jong-il að gera? Halda áfram að vera peð í valdatafli stórveldanna, halda áfram að láta Kínverja nota Kóreu fyrir tromp eða jafnvel að þeir fórni henni í einhverjum samningum? Nei, Kórea á ekki að vera leiksoppur neins. Hún ætti hvorki að vera háð Kínverjum né neinum öðrum um öryggi. Sá sem er háður öðru ríki um öryggi getur eins sleppt því að kalla sjálfan sig sjálfstæðan. Hvaða þjóðfrelsi er það, sem þrífst í skjóli erlends valds?
Já, það er leitt að til þessa hafi komið. Ég get hins vegar ekki með nokkru móti áfellst Kóreumenn. Hvernig á ríkisstjórn Norður-Kóreu að segja íbúum landsins að annað Kóreustríð sé hugsanlegt? Svarið er einfalt: Hún getur það ekki. Það er fullkomlega skiljanlegt að þjóð sem hefur einu sinni gengið í gegn um Kóreustríð geri allt -- ég endurtek: allt -- til þess að fyrirbyggja að það endurtaki sig. Það er leitt að Kóreumenn hafi neyðst til að ganga þetta langt, en um leið viss léttir yfir því að óvissan sé ekki lengur fyrir hendi.
Norður-Kórea ræður yfir kjarnorkuvopnum og nú skulu heimsvaldasinnar bara reyna að hræða hana.

Wednesday, October 4, 2006

Kjarnorkutilraunir í N-Kóreu gætu haft slæm áhrif á valdajafnvægi í NA-Asíu að sögn utanríkisráðherra Suður-Kóreu og Norður-Kóreumönnum verði gerð grein fyrir afleiðingum kjarnorkutilraunar, krefst forseti Suður-Kóreu. Er þetta grín eða hvað? Vefst það fyrir einhverjum hvað kjarnorkutilraun DPRK mundi breyta miklu? Breytingin yrði sú að enginn mundi framar dirfast að fokka í Norður-Kóreumönnum. Það fokkar nefnilega enginn í þeim sem á kjarnorkusprengjur. Hvað eiga Norður-Kóreumenn að gera, bugta sig og beygja fyrir heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og bjóða vestrænum auðjöfrum að koma í heimsókn og slægja landið?

Tuesday, October 3, 2006

Norður-Kórea og kjarnorkuflaugar frelsisins

Norður-Kóreumenn tala um að gera kjarnorkutilraunir og heimsvaldaríkjunum verður um og ó [1]. Ríki sem eiga sjálf kjarnorkusprengjur hafa nákvæmlega enga siðferðislega stöðu til að banna öðrum ríkjum að eiga kjarnorkusprengjur. Síst af öllum litlum og fátækjum ríkjum sem reyna í heiðarlegri örvæntingu að verjast ásælni heimsvaldaríkjanna! Hvað á Norður-Kórea að gera? Opna bara hliðin og gerast enn ein þrælakista Asíu fyrir vestrænt heimsvaldaauðmagn? Ef Frakkar vilja ekki að Norður-Kórea komi sér upp kjarnorkuvopnum, þá geta þeir gjört svo vel að ábyrgjast öryggi Norður-Kóreu. Ef þeir gera það ekki, og enginn annar gerir það, þá hefur heldur enginn rétt til að segja Norður-Kóreumönnum að gera það ekki sjálfir!

Sunday, October 1, 2006

Af klerkum og öðrum í Sómalíu

Þegar er talað um harðlínuklerka er lesandanum ætlað að skilja að þar séu vafasamir menn á ferð. Ekki efast ég um að það sem sómalskir klerkar standa fyrir sé afturhaldssamt og stangist á við hugmyndir Vesturlandabúa um mannréttindi eða lýðræði. Hins vegar held ég að það sé verið að mála skrattann á vegginn, mögulega til að undirbúa jarðveginn fyrir hernaðaríhlutun Eþíópíumanna, bæði vegna eigin hagsmuna eþíópísku ríkisstjórnarinnar og sem leppa vestrænnar heimsvaldastefnu.
Þótt klerkaveldi sé arfaslæmt í sjálfu sér, þá væri það, held ég, skárri kostur en annar tveggja, áframhaldandi borgarastríð eða stríð milli Eþíópíumanna og sómalskrar andspyrnu. Það væri ekki sérlega beysinn kostur heldur, ef hin svokallaða bráðabirgðastjórn Sómalíu -- svokallaða segi ég því hún er næstum valdalaus í reynd -- sækti í sig veðrið, enda er hún líka leppur, bara fyrir önnur öfl. Í stöðunni væri því alls ekki afleitt að klerkarnir næðu undir sig landinu öllu, kannski að Puntlandi og Sómalílandi undanskildu, kæmu á röð og reglu og hæfu einhverja uppbyggingu á innviðum þess.
Pólitískur íslamismi er eins og aðrar pólitískar birtingarmyndir trúar. Þótt þær lofi öllu fögru og sveipi sig stundum byltingarsinnuðu orðfari, þá leiða þær í pólitískar gönur, blindgötur. Þær skila ekki af sér þeim ávexti sem þær lofa. Af þessum ástæðum þætti mér hvorki örvæntingarefni ef talibanar næðu aftur völdum í Afghanistan (í stað borgarastríðs eða erlendrar hersetu) eða klerkarnir í Sómalíu (í stað borgarastríðs eða erlendrar hersetu).
Ef þjóðfrelsi er tryggt, þá hafa menn frekar grundvöll til að byggja næsta pólitíska framfaraskref á. Í klerkaveldi kemur fyrr eða síðar að því að almenningur fær nóg af klerkunum og steypir þeim aftur. Það liggur í augum uppi að slík bylting er ólíklega á klerklegum forsendum. Hins vegar er hugsanlegt að hún sé á sósíalískum forsendum. Hún mundi beinast gegn innlendri valdastétt, þ.e.a.s. nærtækasta og skeinuhættasta óvininum.
Íran og Afghanistan hafa nú þegar á að skipa skæruliðum maóista og annarra kommúnista. Slík sveit gæti gagnast Sómalíu vel. Miðað við að sósíalismi virðist eiga erfitt uppdráttar í Sómalíu sem stendur, þá virðast objektífar aðstæður ekki vera hagstæðar. Ein aðalástæðan fyrir því hlýtur að vera ættbálkahyggjan (e. tribalism) sem er ríkjandi ídentítets-hugsun meðal Sómala. Klerkaveldi gæti unnið gegn ættbálkahyggju, og það mundi líklega sýna Sómölum að óvinirnir væru ekki almenningur í hinum ættbálkunum, heldur valdastéttin, sem klýfur ættbálkana. Klerkaveldi gæti tæpast þrifist án stuðnings ættbálkahöfðingjanna, svo að þeir yrðu líkast til samsekir í augum þeirra sem sæju hvernig í pottinn væri búið. Þeir gætu að vísu snúið baki við klerkunum þegar færi að halla undan fæti hjá þeim, og þannig bjargað eigin skinni, a.m.k. að einhverju leyti.
Því meiri völd sem klerkarnir öðlast, þess minni orka fer í innbyrðis átök meðal almennings í landinu. Það held ég. Þannig að það fer ekki um mig skelfingarhrollur þegar ég les fréttir um vonda harðlínumenn, hvorki í Sómalíu né í öðrum löndum þar sem pólitískur íslam er áberandi.

Thursday, September 21, 2006

Um íslam II, taktík og strategía fyrir andstæðinga heimsvaldastefnunnar

Í allri umræðu um fjandskap milli Vesturlanda og heimshlutans sem gjarnan er kenndur við íslam, þá er ákveðin þversögn sem mér finnst sýra allt. Það er þversögnin um íslam. Sumir hafa illan bifur á íbúum heimshlutans sem gjarnan er kenndur við íslam og beina spjótum sínum m.a. að íslam og hvað íslam sé villimannleg trú. Á meðan eru hinir, sem hafa meiri samúð með íbúum nefnda heimshluta, sem ítrekað falla í þá gryfju að bera í bætifláka fyrir íslam. Er íslam aðaldeiluefnið?

NEI!

Í fyrsta lagi vil ég að það komi fram að íslam er í mínum augum jafn mikil staðleysa og önnur trúarbrögð og þar sem ég tel að trúarbrögð séu bjánaleg og komi illu til leiðar, þá er ég ekki minna á móti íslam en öðrum trúarbrögðum. Íslam er síst skárri en kristni, gyðingdómur, hindúismi, búddatrú eða aðrar ranghugmyndir sem milljónir manna hampa sem einhverju hrikalega merkilegu.

Það er stundum talað um að íslam séu trúarbrögð friðar og eitthvað slíkt. Það tel ég vera blaður. Kristni eru ekki trúarbrögð friðar heldur, svo það komi fram, þótt hún komist kannski ögn nær því en íslam. Það fer um mig þegar ég heyri fólk tala um hvað íslam séu falleg trúarbrögð. Ég hef séð fallega skreyttar moskur og fagurlega skrautskrifaða bænatexta – það er fallegt – en trúarbrögðin sem þetta snýst í kring um eru það ekki, að mínu hógværa mati. Sandkornið þarf ekki að vera fallegt þótt perlan sé það. "Love the sinner, hate the sin" segja krysslingar. Ég get verið á móti trúarbrögðum þótt mér þyki vænt um þann sem er svo óheppinn að aðhyllast þau. Geta trúarbrögðin verið aukaatriði þegar þau skipa stóran sess í ídentíteti fólk í átökum? Já og nei – sameiginlegt ídentítet skiptir vitanlega miklu í baráttu á borð við baráttuna gegn vestrænni heimsvaldastefnu. Íslam er að því leyti óheppilegt sameiningartákn, að í fyrsta lagi eru minnihlutahópar sem búa innan um múslima sem eru fyrir vikið ekki með í samfylkingunni, í í öðru lagi er erfitt að mynda bandalög við Vesturlandabúa sem hafa annars samúð með málstaðnum, ef íslam er sameiningargrundvöllurinn.

Það er mikið reynt að stilla Vesturlöndum og íslam upp sem andstæðum. Sú skipting er bull og vitleysa, afturhaldssöm og afvegaleiðandi. Hún er samt ekki alveg út í bláinn: Vesturlönd eru langstærsta og frekasta blokk heimsvaldasinnaðra ríkja, og olíuauðurinn er það sem helst er bitist um, en hann er, sem kunnugt er, að mjög miklu leyti á svæðum byggðum múslimum. Hinar sönnu andstæður fara hins vegareftir stéttalínum: Annars vegar er yfirstétt Vesturlanda og leppar hennar, yfirstétt arabalandanna og annarra landa sem verða fyrir barðinu á heimsvaldastefnunni. Hins vegar er vinnandi fólk, bæði á Vesturlöndum og í löndunum sem eru vitlausu megin við vestrænu heimsvaldastefnuna.

Yfirstéttirnar hafa vit á að standa saman. Stéttarvitundin liggur í augum uppi fyrir þeim. Hvar er hún hjá okkur sem stöndum á móti? Hún er til, en hún þarf að sækja ærlega í sig veðrið ef hún á að ná einhverjum árangri að heitið geti.Af taktískum ástæðum þykir mér það kolrangt að ráðast harkalega á íslam, eins og Jótlandspósturinn og páfinn hafa gert. Ég ítreka, af taktískum ástæðum. Sem slík eru trúarbrögð gagnrýni verð, sama hver eiga í hlut. En vegna þess að almenn séð sæta lönd, byggð múslimum, ásælni af hálfu ríkisstjórna landa sem eru ekki byggð múslimum, þá þykir mér rétt að beina skeytunum annað, gegn sameiginlegum andstæðingi. Með öðrum orðum: Vestræna heimsvaldastefnan er skotspónninn sem athyglin ætti að beinast að.

Misskiljið mig ekki, þetta er alls ekki einfalt. Pólitísk ítök múslimaklerka beina þjóðfrelsisbaráttunni í afturhaldssaman farveg. Lög sharía búa konum kröpp kjör. Það má spyrja hvaða mál sé brýnast, þjóðfrelsisbarátta, barátta fyrir sekúlar samfélagi, barátta fyrir kvenfrelsi eða barátta fyrir einhverju öðru. Baráttan sem ætti að vera efst á baugi að mínu mati er vitanlega barátta fyrir lýðræði og sósíalisma. Meðan hún er ekki á dagskrá þarf hins vegar að taka afstöðu til hinna málanna, þótt þau séu takmarkaðri að eigindlegu umfangi. Þar mundi ég setja baráttuna fyrir þjóðfrelsi í fyrsta sæti. Það er líka í henni sem við Vesturlandabúar getum lagt mest af mörkum með því að setja þrýsting á ríkisstjórnir hér heima fyrir.

Segjum að vinnandi stéttir landanna, sem gjarnan eru kennd við íslam, setji þjóðfrelsisbaráttuna á oddinn og vinni þá baráttu. Þegar ytri óvinum sleppir hljóta sjónir að beinast að innri óvinum. Þá leiðir af sjálfu sér að óréttlæti heima fyrir er næsta mál á dagskrá, hvort sem það er kvenfrelsi, sekúlarísering eða lýðræði og sósíalismi.

Að lokum vil ég ítreka að ef menn hafa á annað borð samúð með andófinu gegn heimsvaldasinnaðri ásælni Vesturveldanna, þá ættu menn ekki að falla í þá gryfju að láta umræuna snúast um íslam. Íslam er góður skotspónn fyrir vestræna afturhaldsseggi og slæmur málstaður fyrir framsækið þenkjandi Vesturlandabúa. Framsækið þenkjandi Vesturlandabúar ættu að beina umræðunni frá íslam og að heimsvaldastefnunni, stríðsrekstrinum, olíuhagsmununum og ruddaskapnum sem valdastéttin gerir sig seka um í Írak, Palestínu, Saúdi-Arabíu og öðrum löndum sem gjarnan eru kennd við íslam.

Þótt maður sé alfarið andvígur trúarbrögðum -- og materíalísk heimssýn sé kjölfesta í strategíunni -- þá er það sannkallaður dogmatismi að ríghalda svo í harða andúð að maður verði ósveigjanlegur og geti ekki hagað seglum eftir vindi. Við ættum, af taktískum ástæðum, ekki að beina spjótum okkar að íslam eða því sem heimamönnum er kært. Það er fólkið sem byggir umræddan heimshluta sem við ættum að samsama okkur við. Málstaður okkar ætti að vera réttindi þess – eins og okkar – til að lifa með frelsi og reisn.

Wednesday, September 20, 2006

Íran, Ungverjaland, íslam o.fl.

Ahmadinejad virðist hafa gert merka ferð til New York. Hvers vegna ættu Íranir ekki að rannsaka kjarnorku? Hafa Bandaríkjamenn ekki gert það? Bush endurtekur enn eina ferðina að Sýrland og Hezbollah séu leppar Írans. Hvað með það ef Hezbollah er leppur Írans? Er Ísrael ekki leppur Bandaríkjanna? Gilda ekki sömu reglurnar? (Auðvitað ekki: Þumalputtareglan er að sá sterkari má, sá veikari þarf að hlýða.)
Andskotans þvættingur. "Land mitt vill frið" segir Bush. Auðvitað, almenningur vill frið, og ráðamenn vilja að ÍRanir og aðrir sem eru óþekkir hætti þessu karpi og gefist upp án mótspyrnu. "Við viljum frekar diplómatíska lausn" segir Bush. Auðvitað, frekar að semja um skilyrðislausa uppgjöf heldur en að þurfa að knýja hana fram með vopnavaldi. Eftir situr að auðvitað vill Bandaríkjastjórn helst þau átök, þar sem hún hefur mest forskot.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Gyurcsany forsætisráðherra Ungverjalands hlýtur að vera eitthvað mesta fífl í forsætisráðherrastól í Evrópu, og er þó hörð samkeppni um þann eftirsótta titil. Maður skyldi ætla að (a) ef menn ætla að beita svikum og prettum til að ná sínu fram í pólitík, þá væru þeir nógu klókir til að láta ekki hafa neitt ftir sér og (b) ef menn verða uppvísir að lygum, hroka og öðru sem fólki finnst almenn neikvætt, þá ættu þeir að hætta strax, frekar en að snúa hnífnum í sárinu.
Það er ekki laust við að mér verði hugsað til fólksins sem ég þekki í Ungverjalandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er svei mér margt að ske í Thaílandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sem nýr nágranni Hallgrímskirkju tek ég undir umkvartanir Hnakkusar vegna óhljóðanna í klukkunum. Reyndar tek ég undir megnið af restinni líka. Ætli sé hægt að kæra Hallgrímskirkju fyrir hljóðmengun? Ég bý hálfan kílómetra frá, en samt er þetta mér til ama. Mikið hlýtur að vera gaman að búa nær.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í því samhengi rifjast annað upp. Ætli það hafi svo mikið sem einn einasti íslamski hryðjuverkamaður framið sjálfsmorðsárás til þess að komast til himna þar sem hans bíði herdeild af hreinum meyjum? Ég leyfi mér að efast um það. Það sem ég held að reki menn til herskárra verka, þar á meðal sjálfsmorðsárása, eru aðrar hvatir en handanheimagredda. Tal um himnaríki er bara myndlíking til að segja að guð kunni að meta það ef einhver fórnar sér fyrir málstaðinn. Er nokkuð óeðlilegt við slíka myndlíkingu? Ég meina, fyrirfinnst hún ekki í flestum trúarbrögðum? Og í hreyfingum um tiltekinn málstað, eru píslarvottar ekki hvarvetna lofaðir og dáðir? Dást menn ekki að heilögum Stefáni, sem leið píslarvætti fyrir sannfæringu sína? Dá menn ekki Giordano Bruno, Che Guevara eða Samson?

Það er gömul saga og ný að trúarbrögð og aðrir málstaðir umbuna fólki fyrir að vera reiðubúið að undirgangast píslarvætti, og mér finnst það vera evrósentrískt og hrokafullt viðhorf að gera múslimum upp frumstæðari hvatir en "okkar" mönnum sem eru í tölu píslarvotta.

Sjálfsmorðsárásir eða aðrar herskáar aðferðir eru svo allt annar handleggur. Ég er ekkert hrifinn af þeim, en þær eru ekkert verri heldur en loftárás. Munurinn liggur í því að sprengjuflugmaðurinn þarf ekki að horfast í augu við skotmörk sín og stofnar sjálfum sér ekki í mikla hættu. Að því leytinu er það ótrúlegur tvískinnungur að fordæma sjálfsmorðsárásarmenn en líta á sprengjuflugmenn sem eitthvað annað en morðingja, í besta falli firrt handbendi kaldrifjaðra stjórnmálamanna. Sheikh Ahmed Yassin, andlegur leiðtogi Hamas-samtakanna, sem var myrtur ekki alls fyrir löngu, orðaði það líklega best þegar hann sagði að sjálfsmorðssprengjan væri F-16 sprengjuþota fátæka mannsins. Það er ekkert flóknara en það.
En það er grundvallarmunur -- eðlismunur -- á ofbeldi kúgarans og ofbeldi sem hinn kúgaði grípur til í örvæntingu. Það er ekki hægt að setja samasemmerki milli þess að bandaríski eða ísraelski herinn drepi 10 manns, eða að palestínskir eða íraskir andspyrnumenn geri það. Það eru gerólíkar aðstæður sem etja manni út í ofbeldi, eftir því hvort menn eru að berjast fyrir hagsmunum elítunnar heima hjá sér, eða fyrir því að þjóð manns fái að ráða sér sjálf.

Meira um það á morgun.

Friday, September 15, 2006

„frændur okkar í heimskautsslöndunum unaðslegu“ -- frábærlega orðað. Ég vona að ég komist á þetta spjall um inúíta á mánudaginn.

Tuesday, September 12, 2006

Áfram um 9/11 og fleira

Jón Karl leggur orð í belg [1, 2] í athugasemdum við þarsíðustu færslu. Jón segist ekki hafa neina kenningu um 9/11. Sama segi ég. Ég hef efasemdir, en ég get ekki sagt að ég hafi neina kenningu. Hvaða forsendur hef ég svosem til að byggja kenningu á? Það eru ýmsar tilgátur um atburði þessa dags, og hin opinbera er ekki ein af þeim trúverðugri að mínu hógværa mati. Það sem ég get byggt á er hið pólitíska umhverfi fyrir og eftir 9/11 og það, saman við hvað bandarísk stjórnvöld eru lítið traustvekjandi, er mér meira en nóg til að efast um að atburðarásin hafi verið eins og fjölmiðlar lýsa henni.
Hvort það voru sprengjur eða ekki, hvort það fór flugvél í Pentagon eða ekki, ég veit ekki svarið. Það má vel ræða það fram og aftur, vonandi leiðir það að vitrænni niðurstöðu. Ég hef sjálfur sveiflast milli mögulegra svara -- og ég játa það fúslega -- en í rauninni eru þetta tæknilegir díteilar sem er ástæðulaust að telja að einhver spilaborg standi og falli með. Það sem er hins vegar hvorki tæknilegur díteill spekúlasjón er hið pólitíska umhverfi fyrir og eftir 9/11, þörfin sem bandarísk stjórnvöld höfðu fyrir átyllu til að skerða mannréttindi, auka valdstjórn og réttlæta árásarstríð. Það er aðalatriðið -- og þegar við bætist að Bandaríkjastjórn hefur augljóslega gerst sek um vítaverða yfirhylmingu (og það er engin „kenning“), þá sé ég ekki ástæðu til að trúa orði sem frá henni kemur um þetta mál.
Jón Karl segir enn fremur: „Það gengur heldur ekki að vera eilíft að nota skítkast á þá sem þykir skýringarnar eitthvað misjafnar. Ég er hundleiður á þessu "samsæriskenninga" bulli. ... Þeim sem líður betur geta sossum notað einhver fúkyrði yfir þá sem dirfast að efa hinn heilaga sannleik býst ég við.“ Ég tek undir þetta: Skítkast þjónar engu vitrænu. Ef frásögn af atburði er komin á helgistall af hálfu stjórnvalda, þá er ástæða til tortryggni. Og samsæriskenningatal?
Opinbera lýsingin er samsæriskenning, fjandinnhafiþað!
~~~ ~~~
„[Þ]að verður aldrei hægt að afsanna allar samsæriskenningar, því samsæriskenningar eru lífseigur andskoti.skrifaði Matti. Það er satt og rétt í sjálfu sér. Í því samhengi skiptir máli að greina milli þess sem má flokka undir samsæriskenningar og þess sem má ekki flokka undir samsæriskenningar. Beggja vegna „víglínunnar“ eru settar fram samsæriskenningar. Það sem er, að mínu mati, ekki hægt að flokka undir slíkt er (a) hið pólitíska umhverfi 9/11, (b) möguleiki innanbúðarmanna til að valda þessu, (c) ófyrirleitin notkun stjórnvalda á þessum hörmungum og (d) virk yfirhylming hins opinbera. Ef þetta fernt -- sem ég ítreka að ég leyfi mér að halda fram að sé satt -- vekur ekki tortryggni, hvað vekur manni þá tortryggni?
~~~ ~~~
Að lokum um 11. september, Jóhannes Björn skrifar um 11. september: Blikur á lofti.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég held að ég geti tekið undir það sem Hreinn Hjartahlýr skrifaði á dögunum: „Er hægt að vera stoltur af því að vera Íslendingur? Nei, ekki venjulega. Þó liggur það við stundum, til dæmis:
Íslendingar hafa fremur samúð með Hizbollah en Ísraelum“.
Þessi frétt kemur í sjálfu sér ekki svo á óvart. Í fljótu bragði gætu sumir ætlað að fólk, íslenskt og annað, væri almennt heimskt. Það er ekki svo. Ráðamenn gera hins vegar og segja margt miður skynsamlegt. Það er að vísu til ráð við því. Það ráð kallast lýðræði. Fólk, íslenskt og annað, hefði gott af því að búa við aðeins meira af slíku.

Wednesday, September 6, 2006

Umræða um 11. september

Áframhald af umræðum í kommentakerfi um 11. september:
Ég vildi að það væru gerðar meiri rannsóknir og það sem fyrst, og af óháðum aðiljum. Það væri mikill léttir fyrir alla ef það gæti einfaldlega komið í ljós hvað akkúrat gerðist þennan dag, og í aðdraganda hans, og það gæti sparað mikinn debatt og orku. Það er nú eitt í sjálfu sér, að það skuli ekki vera höggvið á hnútinn. Ef bandarísk stjórnvöld væru saklaus í þessu máli, hvers vegna hafa þau þá ekki rannsakað það betur? Hvers vegna í ósköpunum hafa þau tregðast við í stað þess að sinna þessu betur? Er skrítið að maður spyrji sig hvort þau hafi eitthvað að fela? Þegar við bætist að opinbera sagan meikar ekki sens, er það þá skrítið?
Bruni, jafnvel langvarandi bruni, hefur aldrei, svo ég viti fellt stálgrindarháhýsi. Misskiljið mig ekki: Að teknu tilliti til þess að brunavarnarlag á stálbitum hefur væntanlega kubbast burtu í árekstrinum, og að teknu tilliti til þess að þótt hitinn af eldinum gæti kannski dugað til að veikja burðarstálið nægilega til að fella háhýsin sem flugvélarnar fóru á, þá treysti ég mér ekki til að fullyrða neitt um að sprengiefni hljóti að hafa komið við sögu þar. Mín afstaða gagnvart þeirri spurningu er einfaldlega sú að mér finnst allt í lagi að umræðan fari fram, ef það er eitthvað sem á eftir að draga fram í dagsljósið.
Sprengiefni í WTC7, um það held ég að gegni öðru máli. Aftur, þá treysti ég mér ekki til að fullyrða neitt; þetta eru spekúlasjónir. Það fór engin flugvél í WTC7, þannig að þar hefur einangrunin haldist á burðarvirkinu, býst ég við. Það er varla það flókið að koma sprengiefni þannig fyrir að það sé öruggt fyrir bruna, ef maður á annað borð ætlar sér það. Larry Silverstein sagði að þeir hefðu ákveðið að "pull it". Það var gripið á lofti sem demolition-mál, en mér finnst reyndar glannalegt að fullyrða að það tengist endilega. Ég veit ekki til þess að Silverstein sé neitt sérstaklega vel að sér um niðurrif húsa, og þetta orðalag væri ekki svo skrítið ef maður hugsar um að kalla slökkviliðsmennina út úr byggingunni -- en það voru víst engir slökkviliðsmenn í henni þannig að varla hefur hann átt við það. Nú, við hvað átti hann þá? Þetta viðtal var tekið nokkru eftir árásirnar. Það getur verið að hann hafi verið undir álagi, en eitthvað hlýtur hann að hafa átt við með orðum sínum.
Valdinu er ekki treystandi, ég held að það þurfi ekki að fletta mörgum blöðum um það, en er öðrum betur treystandi? Fyrir mitt leyti, þá treysti ég engum eins og einhverju kennivaldi í þessu máli, en spurningar sem eru settar fram hafa gildi í sjálfu sér. Það á ekki að skipta máli hver spyr spurningarinnar, annað hvort er spurningin góð eða ekki.

Saturday, September 2, 2006

Eitt og annað...

Initiatives de Resistance Internationaliste eru herskár, and-heimsvaldasinnaður hópur í Kanada. Hann hefur gert a.m.k. tvær árásir gegn hagsmunum heimsvaldasinna. Umfjöllun um þennan hóp í fjölmiðlum hefur verið næstum því engin. Kersplebedeb segir frá þeim.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Wayne Price skrifar: Lessons of the Israeli-Lebanese War for the Anarchist Movement. Ágæt lesning, þótt sumar örvarnar hitti ekki í skotskífuna. Price segir að þjóðir séu ekki til, hann talar um marxista, lenínista og sósíalista af vandlætingu og segir að „leið anarkismans“ (hvað sem það nú er) sé eina leiðin til friðar og gæfu í Miðausturlöndum. Það kemur svosem ekki á óvart, að anarkisti skuli skrifa það. Samt sem áður, þá hef ég alveg lesið vitlausari greinar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þar sem heimsvaldasinnar eða nýlenduherrar takast á við þjóðfrelsishreyfingar sem eru leiddar af hugmyndafræðilegu afturhaldi á borð við þjóðernissinna eða trúarleiðtoga, hvað á þá hinn góði og framsýni kommi til bragðs að taka? Ber að styðja forystu hinnar kúguðu þjóðar, burtséð frá hugmyndafræði hennar? Eða ber að andæfa öllu afturhaldi, sama hvort það er relatíft afturhald eða ekki? Eða ber að einblína á að stofna framsækna alþjóðasinnaða og verkalýðssinnaða frelsishreyfingu? Sá sem getur svarað þessu svo vel sé fær hlýtt handtak að launum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef verið að hlusta mikið á Johnny Cash undanfarið. Það er kynngimagnað að hlusta á tónleikadiskinn frá San Quentin-fangelsinu. Risastór hópur fanga -- kúgaðra manna sem eru sviptir öllu -- verður svo innblásinn og „empowered“ af að hlusta á tónlist þessa mikilmennis, að hann hefði getað startað óeirðum með því að smella fingri. Hann gerði það ekki, en stemmningin ... andrúmsloftið hefur verið gneistandi.

Tuesday, August 29, 2006

Af Staksteinum í dag...

Ég hristi oft höfuðið yfir Staksteinum Morgunblaðsins. Staksteinar dagsins í dag eru ekki undantekning. Styrmir ritar:

Það er hægt að ganga út frá því sem vísu, að íslenzkir ráðherrar leyna Alþingi ekki vísvitandi upplýsingum því að bæði þeir og aðrir bera djúpa virðingu fyrir Alþingi sem stofnun.


Það er nefnilega það. Er þetta eitthvað grín?

Monday, August 21, 2006

Júgóslavía í kvöld + Sómalía

Í kvöld verður spjall um fyrrum Júgóslavíu í Snarrót, Laugavegi 21. Það hefst klukkan 20:00. Jón Karl Stefánsson og ég erum nýkomnir frá Serbíu og munum segja frá því sem fyrir augu bar. Umræður eins lengi og fólk nennir. Það kemur í ljós hvort þetta fer fram á íslensku eða ensku.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvað er málið þessu tali um "uppreisnarmenn"? Íslömsku dómstólarnir í Mogadishu eru engir uppreisnarmenn. Í uppreisn gegn hverjum ættu þeir svosem að vera? "Bráðabirgðastjórnin" er ekki meira átorítet í Sómalíu en hver annar aðili -- ættbálkar, stríðsherrar -- í landinu sem hefur logað stafna á milli og verið án ríkisstjórnar í hálfan annan áratug. Ég sé ekki að íslömsku dómstólarnir séu heldur mikið verri en hinir. Ef þeir gætu komið á stöðugleika þá væri a.m.k. til nokkurs að vinna. Jafnvel sharía-lög væru tæpast verri en löglaus skálmöldin sem nú tröllríður Sómölum.

Sunday, August 20, 2006

Ég gerði ekki mikið í tilefni af Menningarnótt, frekar en endranær, enda er ég á næturvöktum þessa dagana. Leit samt í Friðarhúsið og fylgdist með Sögum af mótmælavaktinni. Það eru ekki öll kurl komin til grafar í tengslum við lögregluofbeldið á Austurlandi. Ekki veit ég hvort lögreglan er svona óskipulögð og ruddaleg vegna þess að þar á bæ sé illa stjórnað, að menn séu svona heimskir eða að þeir hafi gaman af að beita aðra ofbeldi, eða jafnvel hvort skýringin sé sú að einhverjir séu að smyrja lófana á einhverjum. Í öllu falli sé ég ekki að þetta verði liðið til lengdar. Þegar þjónar valdsins haga sér svona, þá afhjúpa þeir það sem undir býr.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég var að sjá heimasíðu Dofra Hermannssonar í fyrsta sinn. Þar skrifar hann ýmislegt vitrænt. Ég mæli með því að fólk lesi fjórar nýjustu greinarnar þar: Keflaðir vísindamenn, Kárahnjúkavirkjun - hvað er það sem fólk má ekki vita?, Fastir liðir eins og venjulega og Guð láti gott á vita.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hér getur að líta George Galloway flengja vestræna fjölmiðla fyrir pró-Ísraels bæas og verja rétt Líbana til sjálfsvarnar. Lítið á þetta.

Thursday, July 20, 2006

Yfirgengilega ósmekklegt...

Kiriyat Shmona, skammt sunnan við yfirráðasvæði Hizbullah-samtakanna: Ísraelsk börn látin skrifa "kveðjur" til líbanskra barna.
Dear Lebanese/Palestinian/Arab/Muslim/Christians - Kids,
Die with love.
Yours, Israeli Kids


(meira hér)

Þetta hlýtur að vera eitt það ósmekklegasta sem ég hef séð lengi. Í bakgrunninum sést í hermann, standandi uppi á morðtóli. Ekki það, að krakkahóp er tæpast hleypt alveg upp að morðtólum nema kannski í fylgd með fullorðnum.

Wednesday, July 19, 2006

Lóur og sólarupprásir á Kleppi

Einn af kostunum við að vinna næturvaktir er að þá sér maður oft sólarupprásina. Héðan frá Kleppi hef ég séð margar hrikalega fallegar sólarupprásir undanfarna mánuði. Í nótt var ennþá bjarmi á norðvesturhimninum þegar morgunroðinn var kominn á norðausturhimininn.

Á túninu fyrir norðan Klepp er gjarnan mikið af lóum á sumrin. Í gærmorgun, eldsnemma, taldi ég 26 stykki, og nokkru seinna, um 7-leytið, 34. Mest hef ég séð 66 staddar á túninu í einu, það var í hittifyrra.

Thursday, July 6, 2006

Eggin, Írak, Kórea, Mexíkó, Nepal...

Vísir.is fjallar um ákæruna á hendur Bush eldri.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
SFR og LSH hafa loksins gengið frá nýjum stofnanasamningi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er greinarstubbur eftir mig á Egginni í dag. Talandi um Eggina, þá er víst óhætt að ljóstra því upp út úr núverandi síðu, sem í upphafi var hugsuð sem bráðabirgðaafdrep, mun innan skamms klekjast nú og mun flottari síða.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Íraski shííta-leiðtoginn al-Hakím vill að þeim verði veitt sakaruppgjöf, sem hafa barist fyrir þjóðfrelsi Íraks, þótt þeir hafi drepið bandaríska hermenn. Ég held að ég geti samsinnt því. Þjóðfrelsisbarátta eða vopnuð barátta gegn erlendu hernámsliði sem fer fram á herteknu landi er réttmæt barátta. Það er auðvitað leiðinlegt fyrir hermennina að vera drepnir, en það er ekki eins og þeir hafi verið í sunnudagsbíltúr í Írak til að byrja með. Það er ekki glæpur að verja föðurland sitt þegar á það er ráðist.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Norður-Kóreumenn uppskera hörð viðbrögð við eldflaugatilraunum sínum. Þetta er ekki sanngjarnt. Sko, ég er á móti hernaðareldflaugum sem slíkum, en ef Bandaríkjamenn, Rússar, Kínverjar og aðrir „mega“ þróa og framleiða eldflaugar, þá er enginn grundvöllur fyrir því að Kóreumenn megi ekki gera það líka. (Ég tek m.ö.o. í sama streng og stjórn Venezuela.) Kórea er höfuðsetin. Íbúar hennar hafa ekki gleymt Kóreustríðinu og það er skiljanlegt að leiðtogar Kóreu vilji gera allt til að það endurtaki sig -- það er að segja, annað en að minnka sín eigin völd, býst ég við. Ef þeir væru það sem þeir segjast vera, þá ímynda ég mér að heimavarnarlið mundi spila miklu stærri rullu en það gerir og herinn sjálfur miklu minni. Ekki ósvipað því hvernig Kúba hagar sínum vörnum. Eða eins og Venezuela hefur í bígerð. Peningana, sem nú fara í herinn, væri þá ef til vill hægt að nota til þess að fæða og klæða þjóðina svo vel væri, og södd þjóð sem er ánægð með skipan mála mundi væntanlega vera miklu viljugri til að verja ríkið fyrir innrás úr suðri. Talandi um innrás í Kóreu, ég hef heyrt vangaveltur um það hvort það væri farsælasta lausnin á vígbúnaðarkapphlaupinu á Kóreuskaga, að Kínverjar innlimuðu einfaldlega norðurhluta Kóreu. Ég er nú reyndar efins um að það væri sniðugt...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Obrador vinnur á í endurtalningu á atkvæðum í Mexíkó. Ef hann vinnur kosningarnar gæti það í sjálfu sér haft ýmislegt ágætt í för með sér, t.a.m. varðandi olíuviðskipti Mexíkó og Bandaríkjanna. Á heildina litið hef ég samt nákvæmlega enga trú á að hann sé boðberi nýrra tíma í Mexíkó. Þessar kosningar eru ljóta blöffið. Tveir hægrimenn og sá þriðji sem ég býst við að gæti kallast hægrikrati, en ekki meira til vinstri en það. Hægrikratanum stillt upp sem mexíkönskum Hugo Chavez. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Ef þessir þrír frambjóðendur eru ekki pólitísk fölsk valþröng, þá hef ég ekki séð falska valþröng. Stilla upp þrem frambjóðendum, tveim slæmum og einum ekki alveg eins slæmum en samt slæmum, og svindla svo í ofanálag. Fuss.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Glefsur úr nýju viðtali við Prachanda formann í Nepal: „Nepal’s Maoist leader yesterday vowed in an interview that the rebels would not return to war but warned they could call protestors back onto the streets if talks with the government broke down.“ Ég held að það megi túlka sem vissa uppgjöf, að hann skuli heita því að maóistar taki ekki aftur upp vopn, a.m.k. ekki að fyrra bragði. Að vísu var róðurinn orðinn þungur fyrir her maóista; þótt þeir eigi mikið fylgi á landsbyggðinni, þá höfða þeir ekki eins til borgarbúa, og spurning hversu góð hugmynd það hefði verið að reyna að taka Kathmandú utanfrá. Þegar Prachanda segist geta kallað mótmælendurna aftur á göturnar, þá býr samt óneitanlega þungi að baki orðum hans. Þess er skemmst að minnast, er maóistar héldu útifun í Kathmandú þar sem hundruð þúsunda manna komu saman. Slíkt gera menn ekki að gamni sínu.
We may appeal to the people for a peaceful movement. Not just 19 days but if necessary 29 or 39 will be there but we will not go back to war“ segir hann. Ég get ekki annað en velt vöngum -- ég hugsa að þeir gætu það sennilega, en hvers vegna gera þeir það þá ekki? Í ljósi þess hvernig þeir hafa spilað baráttuna undanfarna mánuði, þá hlýt ég líka að velta vöngum yfir því hvað væri æskilegt. Ef þeir hafa brugðist byltingarhlutverki sínu, þá væri auðvitað pólitískt kvantítatífur munur á þeim og núverandi ríkisstjórn, en kvalítatífur munur yrði eiginlega óverulegur. Það er að segja, stjórn þeirra yrði ekki byltingarsinnuð. Þá væri kannski til lítils barist, a.m.k. til lengri tíma litið. Til skemmri tíma litið yrðu ávinningarnir samt væntanlega verulegir.
We have seen revolution and counter revolution in the 20th century, and Stalin’s experiment failed. We do not want to repeat the same phenomenon. We want to go ahead with competition“ segir Prachanda. Í sjálfu sér er ég sammála þessum orðum hans -- en finnst ég þó finna þef af endurskoðunarstefnu. Semsé að þetta sé ekki framþróun heldur úrkynjun á sósíalisma. Hver er munurinn á afvopnuðum maóista-þingræðisflokki og öðrum óvopnuðum þingræðisflokkum? Harla lítill, ef það er satt sem sagt er, að þingræðisleiðin sé ófær fyrir byltinguna.
Prachanda segir menn sína munu hætta að rukka byltingarskatta þegar sjálfstjórnarsvæði maóista renna saman við borgaralega ríkisvaldið. Það er eðlilegt; samhliða ríkisvald (eða ígildi þess) hlýtur að þurfa að innheimta skatta eins og annað ríkisvald, en samruni við borgaralegt ríkisvald, hvað er það annað en strategísk málamiðlun? Hann heldur áfram: „We are 21st century communists. We are not dogmatic. We are trying to develop our line, policy and programme for the changed situation, Try to understand our flexibility.“ Sveigjanleiki í strategískum efnum, hmm? Það er það sem kallast hentistefna á góðri íslensku. Það er líka dæmigert, að kommúnistaleiðtogar kalli flokka sína „nútímalega“ þegar þeir eru að útvatna stefnu sína og keyra byltinguna út af sporinu. Ekki svo að skilja að kommúnistaflokkur eigi ekki að vera nútímalegur -- orðið er bara oft notað sem skálkaskjól fyrir endurskoðunarstefnu.

Tuesday, July 4, 2006

Þögnin rofin

George H.W. Bush kemur til Íslands í dag, einn stófelldasti núlifandi stríðsglæpamaður í heimi. Sakaskrá hans er löng og ljót. Forseti Íslands ætti að finna sér eitthvað betra að gera heldur en að traktera svona bófa. Ég bendi fólki á að lesa Kæru gegn George H.W. Bush, sem lögð var fram í gær af nokkrum borgurum sem eru á móti stríðsglæpum. Ekki þarf að reikna með því að íslensk stjórnvöld bregði í þetta skipti út af þeim vana sínum að sjá í gegn um fingur með glæpi gegn mannkyni, þegar í hlut eiga málsmetandi menn frá Vesturlöndum.

Á Gagnauga.is skrifar Jón Karl Stefánsson: Fréttir eða áróður?

Ég vil benda fólki á að taka síðdegið 11. júlí frá. Þá er væntanlegur hingað til lands ekki ómerkilegri maður en Michael Chossudovsky. Gagnauga greinir frá (sorrí, ég kann ekki að vísa á sjálfa tilkynninguna).
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Við bloggi mínu frá 16. júní barst eitt svar, þar sem Pétur Þorleifsson rekur nokkur atriði í umhverfisverndarbaráttu undanfarinna ára. Mig rámar nú í þessa baráttu, veit að hún fór fram, tók þátt í henni og svona. Í henni fór sumt vel og sumt miður. Niðurstaða málsins er kannski besti mælikvarðinn.

Eftir blogg mitt 13. júní spunnust umræður þar sem Ólafur Páll Sigurðsson fór mikinn (1,2,3). Ég veit ekki hvað ég sé mikla ástæðu til að að elta ólar um þetta, en tel sjálfsagt að birta hérna svar mitt sem annars birtist á öðrum vettvangi:
Nýleg skrif mín, sem voru m.a. gagnrýnin á skyrsletturnar í fyrra, voru ekki hugsuð sem gagnrýni á viðtöl, greinaskrif, ferðalög, tjaldbúðir eða annað sem ég tel hafa heppnast vel. Gagnrýnin á skyrsletturnar var gagnrýni á einstaka, herskáa aðgerð sem ég tel hafa verið vanhugsaða, óheppilega og afvegaleiðandi fyrir umræðuna.
Ég kannast ekki við að hafa vikið að því sérstaklega að Paul Gill hafi neitað Grapevine um viðtal. Ég vissi ekki einu sinni að Grapevine hefði komið við sögu. Ég sé ekkert óeðlilegt við að menn neiti blaðamönnum sem þeir treysta ekki um viðtal, en það var Paul sjálfur sem sagði mér að hefði ekki áhuga á að tala við fjölmiðla, vegna þess að þetta hefði verið "bein aðgerð, ekki PR-stönt" (hans eigin orð). Ég kannast ekki við að hafa apað "viðbrögð, hundalógík, útúrsnúninga, vannþekkingu og vísvitandi falsanir" eftir Grapevine, enda hef ég ekki einu sinni séð umfjöllun blaðsins um þetta mál. Mín skrif eru mínar skoðanir, ekki blaðamanna Grapevine.
Ég veit vel að sum þeirra sem slettu skyrinu tóku beinan þátt í undirbúningi HÆTTA-tónleikanna. Gott hjá þeim, en það kemur skyrslettunum ekki við.
Mér finnst aulalegt að saka mig um að "rembast við" að "falsa söguna". Starf og aðgerðir íslenskra umhverfisverndarsinna (ekki síst ÓPS) hafa, að mínu mati, svo sannarlega haft áhrif. Ég man ekki eftir að hafa haldið öðru fram. Það sem ég hélt hins vegar fram í mínum skrifum var (a) að hreyfing umhverfisverndarsinna á Íslandi þarfnaðist strategíu og (b) að beinar aðgerðir væru beggja handa járn, stundum ætti sumt við, stundum ekki.

Það gildir það sama og þetta og fyrr sagði, að niðurstaðan er besti mælikvarðinn.

Friday, June 16, 2006

Svör við svörum við svörum við...

Við síðasta innleggi hafa borist 2 svör sem ég legg hér með út af.
Parísardaman skrifar:

„Í höfuðborg mótmælaganga, París, er þumalputtareglan sú að ef fjöldinn fer yfir milljón, verður ríkisstjórnin að bregðast við og svara. Það jafngildir u.þ.b. 5.300 manns á Íslandi.
Ég neita að trúa því að ef miðbærinn fyllist af fólki 20 DAGA Í RÖÐ, yrði ekkert að gert. ... Er ég alger draumóramanneskja að telja það?“

Ef þú ert algjör draumóramanneskja að telja það, þá er ég líka algjör draumóramanneskja. Ef 6000 manns mundu mótmæla á götunum í 20 daga, þá er, held ég, ekki spurning að eitthvað yrði að gert. Vandamálið er bara að koma 6000 manns út á göturnar. Síðan er næsta vandamál, að halda fólki þar í þrjár vikur. Þetta yrði augljóslega varla gert að vetrarlagi. Ég held að undirskriftasöfnun gæti gert sama gagn. Man einhver eftir undirskriftasöfnuninni „Varið land“? Undirskriftum meirihluta íslenskra kjósenda var safnað gegn áformum vinstristjórnar um að segja Ísland úr NATÓ -- og ríkisstjórnin hætti við. 15.000 undirskriftir mundu ekki breyta miklu, en 150.000 undirskriftir mundur gera það. Þá er bara að safna þeim.

Nú ... það er vert að velta fyrir sér starfsskipulagi hópa sem berjast fyrir málstað ... þar eru auðvitað ýmsar leiðir færar. (Vegna þess að Birgitta nefndi Íslandsvini, þá er rétt að það komi fram að ég hafði Íslandsvini ekki sérstaklega í huga (þ.e.a.s. ekki frekar en önnur samtök) í síðasta innleggi.)

Það er skrítið og óeðlilegt ef fólk, sem hefur áhuga á að komast inn í starf grasrótarhreyfingar, getur ekki fundið innganginn. Það er ekki síður skrítið ef grasrótarhreyfing á ekki sjálf frumkvæði að því að fá fólk til liðs við sig sem skipuleggjendur, aktífista eða hugmyndasmiði. Maður hefði haldið að málstað á borð við umhverfisverndarstefnu veitti ekki af mannskap í slíka vinnu og aðra.

Fræðsla er úrslitamál. Málstaðurinn stendur og fellur með henni. Í þeim málum hefur margt gott verið gert og margt gott unnist, en ekki er örgrannt um að hún hafi haft nokkuð yfirbragð óskipulags. Yfirbragð skipulags vekur traust. Það er ástæðan fyrir því að það er eftirsótt í fræðslu- og áróðursefni.

Þegar ég nefndi að hreyfing (sama hvers eðlis hún annars er) með góða strategíu gæti hæglega leyft sér taktískt samstarf við auðvaldið (eða, ef út í það er farið, einhvern sem er ekki hluti af sömu hreyfingu), þá átti ég sérstaklega við að umhverfisverndarsinnar eiga vannýtta bandamenn (eða, ef við viljum orða það þannig, óvirkjað stórfljót...) í fyrirtækjum sem eru að tapa og tapa á heimskulegri efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Trekk í trekk koma fréttir af því að fyrirtæki á borð við Össur, Marel eða CCP tapi morð fjár á efnahagslegum aulahætti ríkisstjórnarinnar. Skyldu þessi fyrirtæki skella hurðinn ef þau væru spurð út í mögulegan stuðning við málstaðinn?

Birgitta segir: „við viljum samt reyna komast hjá því að vera félag í hírakísku samhengi, einmitt til að fólk fari ekki að líta svo á að þeir eigi baráttuna.“ Já, það er nú það ... ég kann satt að segja mjög vel að meta þessa hugsun, og sama má segja um stöðuga endurnýjun í grasrótarstarfi, en á hinn bóginn er ég smeykur við hana líka. Ég held að það sé vel hægt -- og að mörgu leyti betra -- að reka baráttuna þannig að endurnýjunin fari fram, en sé innan vébanda félagsskapar. Ég held að þannig verði starfsemin samfelldari, reynsla nýtist betur og -- haldið ykkur nú -- að sjálft starfið verið lýðræðislegra, það er að segja, ef félagið er vel rekið.

Að því sögðu tek ég fram að „vel rekið félag“ í þessum skilningi er álíka sjaldgæft og hvítir nashyrningar! Þ.e.a.s., félag sem hefur skipulag og vinnureglur en hefur um leið dýnamík og flæðandi, er þannig skipulagt að það sé sveigjanlegt en þó fært um að leiða baráttuna til góðs. Í bjartsýni minni tel ég fullar líkur á því að slíkt félag gæti gengið ljómandi vel. Þar með er vitaskuld ekki sagt að það sé eina færa leiðin -- ég vildi bara segja að ég held að margir séu óþarflega tortryggnir á „formleg“ félagsstörf sem slík og missi fyrir vikið af tækifærum og styrkleikum sem þau bjóða upp á.

Wednesday, June 14, 2006

„Drekkjum Valgerði“ II -- svör + frekari útlistun

Á föstudaginn var hratt ég því loksins í verk að skrifa hvað mér finnst um borðann alræmda, sem bar áletrunina „Drekkjum Valgerði en ekki Íslandi“ sem frægt er orðið.

Á athugasemdakerfinu komu metnaðarfull svör sem eiga skilið að lagt sé út af þeim, svo að hér með fylgi ég föstudagsinnlegginu eftir með gagnsvörum og frekari útlistun á því sem mér finnst og því sem mér finnst ekki.

Haukur viðurkennir að borðinn hafi verið vanhugsað glappaskot og bregður svo mér og öðrum sem ekki flokkast undir „herskáa umhverfisverndarsinna“ um nöldur, „vanþakklæti og læpuskap“. Það finnst mér óverðskuldað. Í fyrsta lagi kann ég vel að meta það sem mér þykir vel gert, og ég skal verða síðastur manna til að halda því fram að beinar aðgerðir hafi haft tóm vandræði í för með sér hingað til. Málið er, eins og fram hveru komið, að þær eru beggja handa járn. Sumar hafa heppnast vel, aðrar hafa heppnast illa. Það hlýtur að segja sig sjálft, er það ekki? Ég hef sjálfur, m.a. í félagi við Hauk, tekið þátt í nokkrum aðgerðum sem hafa verið misjafnlega beinar og misjafnlega vel heppnaðar. Ef það er læpuskapur að taka ekki þátt í aðgerðum, þá er ég semsagt ekki sekur um læpuskap. Ekki minnist ég þess þó að hafa tekið þátt í framkvæmd eða skipulagningu aðgerða sem hafa verið skaðlegar málstaðnum, svo að ég get ekki sagt að ég sjái eftir þeim sem ég hef tekið þátt í. Ef það er læpuskapur að vilja ekki ganga lengra og lengra, þangað til komið er út í vanhugsuð glappaskot, þá gengst ég fúslega við læpuskap og skal stoltur bera þá einkunn! Ég gengst ekki við því að vera vanþakklátur; það er nefnilega ekki vanþakklæti að gagnrýna það sem er gagnrýnisvert. Heyrði einhver mig nöldra yfir tjaldbúðunum við Kárahnjúka, hermannatjaldinu við Tjörnina, uppákomunni í Iðnaðar- og viðskiptráðuneytinu eða tónleikunum í Laugardalshöll? Nei, það voru líka, á heildina litið, vel heppnaðar aðgerðir. Ég áskil mér hins vegar fullan rétt til að nöldra af hjartans lyst yfir skyrslettum, kroti á Jón Sigurðsson og morðhótunum, enda voru það aðgerðir sem voru, á heildina litið, illa heppnaðar, að mínu hógværa mati – og flestra sem ég hef talað við.

Þegar hér er komið sögu er rétt að taka fram að aktífismi og beinar aðgerðir eru ekki málstaður heldur taktík. Taktík sem á stundum við, stundum ekki, og gerir lítið gagn ef hún er samhengislaus og helst ekki í hendur við strategíu, þannig að það er ekki hægt að fylgja eftir mögulega unnum sigrum. Það er tvennt ólíkt, bein aðgerð og bein aðgerð. Í eiginlegri, þröngri merkingu er bein aðgerð einfaldlega að grípa inn í einhverja atburðarás með beinum hætti, t.d. að hlekkja sig við byggingakrana svo að hann sé ónothæfur á meðan, eða taka herskildi hús sem yrði rifið ef það væri ekki fólk inni í því. Slík aðgerð er ekki gerð til þess að vekja athygli heldur grípa beint inní. Í óeiginlegri, víðari merkingu, þeirri sem vanalega er lögð í orðin, er áherslan í raun frekar á að ná athygli fjölmiðla og auka vægi málstaðarins í umræðunni. Slík aðgerð þarf, eðli málsins samkvæmt, að vera þannig útfærð að hún auki samúð almennings með málstaðnum en minnki hana ekki.

Ég má til með að minnast aðeins á skyrslettumálið í fyrra í þessu samhengi. Þau sem að því stóðu litu á það sem beina aðgerð í eiginlegri merkingu, ekki „PR stönt“ – málið vakti, skiljanlega, mikla athygli, og fjölmiðlar fjölluðu mikið um það, sem von var. En þeir gripu í tómt þegar þeir vildu fá viðtöl við aðstandendur: „Þetta var bein aðgerð, ekki PR stönt“ var svarið. Nú fannst mér þessi aðgerð vanhugsuð frá upphafi, en látum það liggja milli hluta. Úr því sem orðið var, úr því að kastljósi fjölmiðla var beint að málsvörum íslenskrar náttúru, hvers vegna þá ekki að grípa tækifærið og agitera fyrir málstaðnum? Er hægt að ætlast til þess að almenningur botni í pólitískum bakgrunni þess að sletta skyri á ráðstefnugesti? Það vill svo til að hliðstætt dæmi er til úr Íslandssögunni, nánar tiltekið frá 1972, þegar Helgi Hóseasson sletti skyrinu. Hann stendur ennþá, blessaður karlinn, á Langholtsvegi með skilti og hefur hvorki gengið né rekið með sinn málstað. Ekki nóg með að skyrsletturnar gerðu málstað hans ekki gagn, heldur gerðu þær hann að athlægi og menn töldu hann óðan. Með öðrum orðum, þær spilltu fyrst og fremst fyrir honum sjálfum. Illa spillt fyrir góðum málstað þar. Ég þarf svosem ekki að rekja þetta nánar, þessa sögu þekkja víst allir. Niðurstaðan var að það reyndist biskupi og þingmönnum auðveldara að ná blettunum úr fötunum, heldur en Helga að ná þeim af mannorðinu.

Þú segist ánægður með það þegar málstaðurinn fái umfjöllun,“ segir Haukur, „en beinar aðgerðir bjóði andstæðingnum tækifæri til að afvegaleiða umræðuna. Staðreyndin er að án umræðu fær málstaðurinn enga athyggli.“ Það er alveg rétt að athygli og umræða haldast óhjákvæmilega í hendur, en athyglin þarf að beinast að réttum atriðum til þess að umræðan snúist um rétt atriði, ekki satt? Aðgerðir sem vekja athygli eru góðar og gagnlegar EF og AÐEINS EF þær vinna málstaðnum gagn. Neikvæð umræða um hvað umhverfisverndarsinnar séu öfgafullir gerir málstaðnum EKKI gagn og það á ekki að rétt andskotum okkar, á silfurfati, tækifæri til að snúa umræðunni út í hvað við séum vitlaus og vitfirrt.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að jafnvel blóði drifin aðgerð getur á endanum haft jákvæðar afleiðingar. Ástæðan fyrir því að ég er ekki hlynntur þeim er samt, meðal annars, sú að hin tilhneigingin er miklu sterkari, að herskáar aðgerðir vinni sínum málstað ógagn, hversu góður sem hann annars kann að vera. Það heyrir til undantekninga, að herskáar aðgerðir séu ekki annað hvort strax brotnar á bak aftur með valdstjórn, eða snúið upp á þá sem framkvæma þær, og þeir málaðir upp sem heilaþvegnir (eða heilalausir) ofstopamenn. Misskiljið mig ekki; ég fordæmi ekki sjálfkrafa hvaða herskáu aðgerð sem er. Það sem ég meina er að herská aðgerð er neyðarúrræði og þess utan vandmeðfarið neyðarúrræði.

Þá kem ég aftur að strategíunni og skipulaginu. Herská aðgerð er valdbeiting, á sinn hátt. Valdbeiting er best til þess fallin að vekja ótta hjá andstæðingi sínum til þess að þvinga hann til þess að gera eitthvað eða gera eitthvað ekki. Ef það tekst að beita valdi, vekja ótta, og öðlast þannig völd, þá þarf líka að vera til áætlun um það, hvernig þessi völd eru notuð. Það þarf að vera til skipulag. Hvað á að gera? Ef líkingin við orrustu er tekin, þá þarf að fylkja liðinu og strategían og taktíkin þurfa að vera á hreinu. Annars er til lítils barist og vandséð að menn geti nýtt sér sigra sína.

Það verður varla of oft endurtekið, að nokkrir aktífistar – jafnvel þótt þeir séu 500 eða 1000 talsins – gera ekki byltingu. Sá eini sem er fær um að gera byltingu er hið vinnandi fólk í landinu, þ.e.a.s. almenningur. Baráttan stendur og fellur með því hvað almenningi finnst. Ef almenningi stendur á sama, þá gerist ekki neitt. Ef almenningur er andsnúinn málstaðnum gerist heldur ekki neitt. Ef almenningur hefur samúð með málstaðnum, þá gerist kannski eitthvað, en ef almenningi er gróflega misboðið, þá má bóka að eitthvað gerist. Í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar er um að ræða slíkt hryðjuverk gegn náttúrunni og gegn fólkinu í landinu (og þótt víðar væri leitað), að það er ekki óvinnandi vegur að leiða fólki fyrir sjónir hvað er verið að gera því. Síður en svo óvinnandi vegur. Málstaður stóriðjusinna er svo slæmur að þeir þurfa fokdýrar áróðursherferðir til að glepja fólki sýn, og samt tekst þeim ekki að glepja fleiri en raunin er.

Já, almenningur. Svo má brýna deigt járn að bíti, og víst er að næg dæmi eru til úr sögunni, þar sem almenningur hefur risið upp og gert höfðingjana höfðinu styttri. Slíkt getur gerst þegar öldur stéttabaráttunnar rísa sem hæst – og sú er ekki raunin á Íslandi í dag. Almenningur er ekki herskár. Það þýðir að herskáar baráttuaðferðir eiga ekki hljómgrunn meðal almennings. Það má því sjá það fyrirfram, að þær vinna ekki pólitískt kapítal, því grundvöllurinn er ekki fyrir hendi. Það sem hins vegar gerist, þegar herskár hópur hefur herskáar aðgerðir í friðþægðu samfélagi, er að almenningur firrist hópinn og, í einhverjum mæli, málstaðinn. Þeir sem þegar eru andsnúnir Kárahnjúkavirkjun snúast kannski ekki á sveif með henni, en þeir sem hafa ekki tekið afstöðu ennþá – það eru þeir sem væntanlega fyllast fordómum, margir hverjir, um hreyfinguna í heild vegna aðgerða lítils hóps. Þannig spillir herská aðgerð fyrir málstaðnum, með því að fæla frá mögulega bandamenn.

Auk þess er venjulegt fólk, það sem er á okkar bandi, ekki svo herskátt að það fari að hlekkja sig á hálsinum við vinnuvélar. Það fólk lendir í hlutverki áhorfandans. Almenningur býr yfir pólitískum kröftum sem ýtast ekki þegar hann horfir bara á. Það þarf pólitíska krafta til að lyfta pólitískum grettistökum, og þá krafta ber að laða að, ekki fæla frá. Baráttan og strategían verða að vera þannig úr garði gerð að almenningur hafi tækifæri til að taka þátt.
Tónleikar, undirskriftasafnanir = já.
Skyrslettur, morðhótanir = nei.

Í þessari talar þú um að skyrsletturnar hafi ekki skapað marga umhverfisverndarsinna.“ segir Haukur, „Það er rétt í sjálfu sér, en ég þekki tugi einstaklinga sem urðu róttækari og tilbúnari að mæta í mótmæli og jafnvel berjast með beinum hætti.“ Var það vegna skyrslettanna eða var ástæðan sú sama og fyrir skyrslettunum, semsagt sú að fólki hafi verið nóg boðið? Með öðrum orðum, var þetta orsök-afleiðing eða voru þetta tvær afleiðingar af sömu orsök? „Þú nefnir það líka að Náttúruverndartónleikar Hætta-hópsins hafi verið vel heppnuð aðgerð.“ heldur Haukur áfram. „Ég hitti múg manns sem ég kannaðist við þar og margir þeirra vissu ekkert um umhverfisvernd, var skítsama um hana og áttuðu sig jafnvel ekki á því að tónleikarnir snerust um þá baráttu.“ Það getur vel verið að margt fólk hafi komið á sjálfa tónleikana án þess að átta sig á hvað málið snerist um, en ég er nú samt býsna viss um að tónleikarnir hafi verið þungt lóð á jákvæðu hlið vogarskálanna í þessari baráttu. Í fyrsta lagi held ég að lang flestir sem á þá komu hafi áttað sig á hvað málið snerist um, þótt einhverjir hafi ekki gert það. Í öðru lagi held ég að þeir sem komu ekki á tónleikana, heldur sátu heima, hafi öðlast jákvæðari sýn á málstað náttúruverndar. Loks held ég að tónleikarnir hafi bætt móralinn hjá náttúruverndarsinnum sjálfum, en góður mórall í eigin herbúðum skiptir ekki litlu máli, og veitti reyndar ekki af í okkar tilfelli.

Haldast „mjúkar“ og „harðar“ aðgerðir í hendur? Já auðvitað, en þar með er ekki öll sagan sögð, öðru nær. Hvort sem aðgerð er hörð eða mjúk, þá getur hún heppnast eða hún getur misheppnast. Harðar aðgerðir vekja jafnan meiri athygli en um leið ómálefnalegri umræðu. Ef þær misheppnast, þá hafa þær tilhneigingu til að misheppnast verr en mjúk aðgerð sem misheppnast, vegna þess sem er lagt undir. Harðar aðgerðir eru vandmeðfarnar. Í fyrsta lagi þarf að vera ærið tilefni og ekki aðrir möguleikar en harka. Í öðru lagi þurfa þær að vera vel skipulagðar – þá kemur títtnefnd strategía enn og aftur til sögunnar – og ef planið er að beita ofbeldi til þess að neyða valdamenn til að hætta við eitthvað, þá þurfa síðast en ekki síst að vera nægar bjargir til þess að hægt sé að beita svo miklu, eða vel útfærðu, ofbeldi, að valdið komi ekki vörnum við! Hörð aðgerð sem lýkur með því að lögreglan kemur og hendir fólki út eða hífir það niður úr byggingakrana eða ekur því burt í járnum er málstaðnum ekki svo mjög til framdráttar. Athyglin sem menn uppskera er bæði of skammvinn og of neikvæð til þess að hún svari kostnaði.

Reyndar er ein ástæða enn fyrir því að ég hef ímugust á herskáum aðgerðum, ef það er á annað borð mögulegt að komast hjá þeim. Sú ástæða er reyndar hugmyndafræðilegs eðlis, en ég mundi ætla að yfirlýstir anarkistar gætu samsamað sig henni. Er stefnubreyting, sem er þvinguð fram með valdbeitingu, ekki í ósættanlegri andstöðu við frjálslynda (þar með talda anarkíska) hugmyndafræði? Það hefði ég haldið – en að sama skapi má ég til með að taka fram tvo fyrirvara: Annars vegar að í sumum tilfellum verður valdbeiting ekki umflúin sem hluti af strategíu byltingarhreyfingar, þegar öll önnur sund eru lokuð. Hins vegar er Kárahnjúkamálið og andstaðan við stóriðjustefnu stjórnvalda eitt mál, og baráttan sjálf eins máls barátta, og lýtur sem slík lögmálum eins-máls-baráttu: Markmiðið er takmarkað, baráttan snýst m.a. um að safna öllum mögulegum bandamönnum um einn málstað. Þessu má ekki gleyma.

Þú klikkir út með því að segja að beinar aðgerðir „herskárra“ umhverfisverndarsinna séu eigingjarnar og best til þess fallnar að orna þeim sjálfum en ekki málstaðnum.“ heldur Haukur áfram, „Þetta stafi m.a. af því að ALMENNINGUR GETI EKKI VERIÐ MEÐ í beinum aðgerðum. Í fyrsta lagi tel ég það algert regin kjaftæði. Ástæðan fyrir því að almenningur tekur ekki þátt í slíkum aðgerðum er þeirra eigin aumingjaskapur og ótti við yfirvald.“ Þetta fells ég ekki á. Ástæðan fyrir því að fæstir taka þátt í herskáum aðgerðum er ekki sú að fólk þori því ekki, heldur einfaldlega að flestir eru ekki herskáir. Flestir kæra sig ekki um að taka þátt í átökum. Flestum þykir málið heldur ekki varða svo miklu að þeim finnist það á sig leggjandi. Það eru alvarleg mistök að afskrifa allan almenning sem gungur og aumingja. Hver á að koma í veg fyrir forpokahátt stjórnvalda ef ekki almenningur sjálfur? Við og 10 vinir okkar gerum það ekki upp á eigin spýtur, svo mikið er alla vega alveg víst.

Eigingjarnar kalla ég þessar aðgerðir vegna þess að þær eru ekki til þess fallnar að vinna málstaðnum fylgi, heldur friða þær samvisku og særða réttlætiskennd þeirra sem vinna þær. Þær eru heldur ekki til þess fallnar að breyta stefnunni. Er þá von að maður spyrji hver tilgangurinn sé?

Það er án efa rétt, „að yfirvöld vildu frekar að 20 daga í röð gengju 6000 manns niður laugarvegin til að mótmæla á þann hátt heldur en að einn 20 manna hópur stöðvaði vinnu á Kárahnjúkum einu sinni.“ Enda hikar lögreglan ekki við að grípa inn í þegar fólk stöðvar vinnu við Kárahnjúka með beinum afskiptum, en engum lögreglumanni dettur í hug að skipta sér af fjölmennri, friðsamlegri mótmælagöngu. Mótmælagangan ein og sér breytir ekki svo miklu. Hún er bara taktík og, eins og önnur taktík, háð strategíu og skipulagi. Hún getur heppnast vel eða illa, en er umfram allt bara liður í stærra samhengi.

Þar með er athugasemdum Hauks svarað að sinni. Víkur nú athyglinni að athugasemdum Gumma.

Gummi segir: „Beinar aðgerðir hafa ýmis markmið, og ekki bara að draga að sér athygli. Þegar vel tekst til ná slíkar aðgerðir að afhjúpa fasíska tilburði og fáránleika andstæðinganna/valdhafanna og vekja almenning þannig upp af svefninum. Skiltið góða náði því reyndar, en fyrir algjöra slysni, jafn vanhugsað og kjánalegt og það var.“ Ég tel að þetta geti vel verið rétt athugað. Taktísk mistök okkar manna geta fyrir slysni snúist okkur í hag ef andstæðingurinn gerir ennþá asnalegri taktísk mistök, eins og Valgerður virðist hafa gert. Andstæðingurinn er ekki heimskur og lætur varla plata sig út í hverja vitleysuna á fætur annarri, hvað svo sem má segja um hann að öðru leyti. Það er því tæpast skynsamlegt að veðja á að hann endurtaki sömu taktísku mistökin aftur og aftur – og þess vegna þarf að hugsa aðgerðir betur. Sá sem teflir af sér, en bjargast vegna þess að andstæðingurinn teflir ennþá verr af sér, fer varla að nota það sem strategíu að tefla viljandi af sér, eða hvað?

Um skyrsletturnar og eftirmála þeirra: „Þegar einn mótmælendanna sagði að það þyrfti ekkert að útskýra málstaðinn, aðgerðirnar töluðu sínu máli, þá eiginlega datt þetta upp fyrir sig. Fólk verður að geta staðið fyrir máli sínu, ef ekki fylgir orðræða detta aðgerðirnar um sjálfar sig.“ Undir þetta tek ég heils hugar. Þótt það hafi ekki beinlínis verið ætlunin, tókst þeim að draga kastljósið að sér, eins og reyndar mátti búast við af eins fréttnæmri aðgerð og skyrsletturnar voru. Að nýta ekki kastljósið málstaðnum til framdráttar voru mistök.

Gummi skrifaði: „Það er líka þetta viðhorf ... að vita betur, hafa sannleikann sín megin, aðrir séu bara vitleysingar sem eru ekki búnir að átta sig á hlutunum sem fer öfugt í mig (og mörgum öðrum).“ Þetta tel ég ástæðu til að taka undir. Sko – þótt við séum þess fullviss, að okkar málstaður sé réttur, þá dugir sú sannfæring okkar ekki sem rök fyrir þeim sem er ekki sannfærður um það sama! Það dugir ekki að hafa rétt fyrir sér, til þess að aðrir sjái hlutina í sama ljósi og maður sjálfur þarf að útskýra hvers vegna maður hefur rétt fyrir sér og hvers vegna andstæðingurinn ehfur rangt fyrir sér. Ef maður gerir það ekki, þá ætti maður ekki að búast við því að vinna marga á sitt band.

Það er dagsatt að friðsamlegar mótmælaaðgerðir nokkur þúsund manna hrökkva skammt, a.m.k. einar og sér. Hvað með þrjúhundruðþúsundin sem sátu heima? Mótmælafundur fimmtíuþúsund manna mundi ekki duga til að fá ríkisstjórnina til að leggja af stóriðjustefnuna, en það mundi ekki duga neitt betur að höfuðkúpubrjóta tvo eða þrjá ráðherra, þótt einhverjum gæti þótt þeir eiga það skilið. Þvert á móti: Arfavitlausa stefnu, á borð við stóriðjustefnuna, þarf í fyrsta lagi að afhjúpa fyrir það sem hún er: Arfavitlaus. Eftir því sem almenningur áttar sig á því, þá myndast þyngri og þyngri undiralda í þjóðfélaginu. Þá undiröldu þarf að vera hægt að nýta í pólitísku skyni, og til þess þarf strategíu og skipulag.

Gummi skrifar: „Valdhafar fagna [friðsamlegum mótmælaaðgerðum] að vissu marki, þá geta þeir sýnt að þeir leyfi mótmælin, lýðræðið sé í heiðri haft. Og ekkert breytist. Ekkert skrýtið þótt sumir gangi lengra.“ Satt og rétt. Það er ekkert dularfullt við að sumir vilji ganga lengra heldur en mótmæli sem engin áhrif hafa vegna skorts á strategíu. Og fjandinn, það er deginum ljósara að friðsamlegur útifundur, sem engin áhrif hefur, er rós í hnappagat þess stjórnmálamanns sem getur þannig sýnt hvað hann sé umburðarlyndur – og staðfastur.

Gummi heldur áfram: „Annar galli við batterí eins og Íslandsvini er híerarkíið sem óhjákvæmilega myndast (hópur fólks ákveður, þeir sem taka þátt í mótmælunum eru þátttakendur í því sem aðrir ákveða, ekki gerendur, o.s.frv.).“ Híerarkía myndast óhjákvæmilega í öllum hópum. Sumir hljóta óhjákvæmilega að taka forystuna, enda eru sumir betur til forystu fallnir en aðrir, því er ekki að neita. Þá vaknar enn sú stjórnlistarlega (strategíska) spurning, hvernig stendur forystan sig? Hópurinn hefur verkefni, sem í þessu tilfelli er að stöðva stóriðjustefnu stjórnvalda. Til þess að hægt sé að leysa úr því verkefni þarf að tromma upp allt það pólitíska kapítal sem hægt er, fá almenning á sitt band og – í þessu tilfelli – auk þess er umtalsverður hluti auðvaldsins sem hefur sömu hagsmuni og eru sjálfsagðir bandamenn. Þessi málstaður snýst ekki um að koma aá breyttu þjóðskipulagi þar sem er ekkert auðvald, þannig að ég sé ekki hvers vegna ekki er hægt að nýta bandamenn úr röðum auðvaldsins eins og aðra. Málstaðurinn verður að vera í fyrsta sæti. „Öll tiltæk ráð“ fela meðal annars í sér að samstarf við auðvaldið komi til greina.

Eini mælikvarðinn á það, hvernig forysta stendur sig, er vitnisburður verka hennar. Ef forystunni gengur vel að leiða baráttuna, fá bandamenn, vinna fólk á sitt band og opna fylkinguna fyrir viljugum stuðningsmönnum, þá stendur hún sig vel, annars ekki. Að ýmsu þarf að gæta, auðvitað, svosem að hreyfingin verði ekki infiltreruð og kompromíseruð af andstæðingnum. Það er þekkt taktík hjá valdinu að infiltrera hreyfingar með agentes provocateurs – útsendurum sem slást í hópinn og efna til vandræða á viðburðum, aðallega með því að egna lögregluna til ofbeldis. Andstæðingnum er óneitanlega mikill greiði gerður með því að spara honum það, að hafa agentes provocateurs á launaskrá hjá sér!

Mér, fyrir mitt leyti, hefur fundist hreyfing náttúrverndarsinna standa sig að ýmsu leyti vel, en ef það er eitthvað sem mér hefur ekki þótt of mikið gert af, þá er það að breiða út faðminn fyrir fólki sem hefur áhuga á að vera með en veit ekki hvert það á að snúa sér og hefur það ekki í sér að grafast fyrir um það. Taka ber fram, að það virðist vera skýr fylgni milli þess að eftir því sem hópur er herskárri, þess erfiðara er að taka virkan þátt í starfi hans!

Víkur næst að Einari bróður og athugasemdum hans: „Persónuárásir eru árásaraðilanum til mestrar minnkunar, sama hver á í hlut.“ Sammála því. „Það að þið birtist í Fréttatímanum þýðir ekki átomatískt að þið fáið fólk í lið með ykkur.“ Það er satt, það þýðir það ekki. Algengt er að fréttatímar snúist um eitthvað óvinsælt, og að viðtöl séu tekin við fólk sem er, af einhverjum ástæðum, milli tannanna á öðru fólki. Í þessu tilfelli má kannski þakka Valgerði Sverrisdóttur það sérstaklega, að hafa snúið málinu sjálfri sér í óhag með því að kæra Íslandsvini og reyna að blanda vinstri-grænum í þetta, eins og fáráður.

Einar ritar: „Ýmsir hafa líka misst trú á að þeir geti haft áhrif og það er mjög auðvelt að telja fólki trú um það. Þú verður líka að venjast þeirri hugsun að það hugsa ekki allir eins og þú eða hópurinn og versta leiðin til að fá fólk á sitt band er að gera lítið úr því eða skoðunum þeirra.“ Ég held að ég geti tekið heils hugar undir þetta ... hef annars í sjálfu sér ekki meiru við að bæta.

Einar skrifar: „Sterkasti leikurinn væri að biðjast formlega afsökunar,“ – merkilegt nokk, þá er ég ekki sammála því. Ég held að úr því sem orðið er væri sterkasti leikurinn að viðurkenna að þetta hafi verið vanhugsað (eins og hefur verið gert) en neita að biðjast afsökunar, og segja frekar að stjórnvöld eigi að biðjast afsökunar (en það hefur einnig verið sagt, ef mig misminnir ekki). Þannig að ég held að eftirmál þessa borða hafi að ýmsu leyti verið vel spiluð. Því neita ég ekki. Loks væri sterkur leikur að læra af þessari reynslu en vona að öðru leyti að almenningur verði sem fljótastur að gleyma honum.

Þið stæðuð eftir sem meiri menn og það myndi efla pólítískt kapítal ykkar.“ segir Einar, „Í stað þess að fá á ykkur neikvæðan stimpil lituð þið út eins og fólkið sem hafði þá reisn og þroska að viðurkenna mistök sín.“ Það er ekki nauðsynlegt að biðjast fyrirgefningar þótt maður viðurkenni að hafa gert mistök. Mikilvægast er að mistökin endurtaki sig ekki, að maður læri af reynslunni. Símon Bólivar sagði: „Góða dómgreind öðlast maður með reynslunni, reynslu öðlast maður með slæmri dómgreind.

Ég vil að lokum taka fram, að þótt gagnrýni mín sé mikil að vöxtum og alvarlegs eðlis, þá hefur það ekki hvarflað að mér eitt augnablik, að afneita þeim sem stóðu að þessum borða. Mín gagnrýni felur ekki í sér afneitun heldur þvert á móti er hún ætluð sem stuðningur við málstaðinn, og til þess að skýra hvers vegna mér finnst að sumir þyrftu að hugsa aðferðafræði sína nánar.

Ég læt þessari langloku lokið að sinni, en er reiðubúinn til frekari umræðu á þessum vettvangi eða öðrum ef ástæða er til.

Tuesday, June 13, 2006

Andsvar mitt við umræðu um Valgerðar-borðann

Andsvar mitt er tilbúið, það er mjög langt, og ég mun birta það hér í fyrramálið fyrir allar aldir.
Þeir sem geta ekki beðið lengur geta heimsótt spjallþráðinn Valgerður kærir mmótmælaspjald á Töflunni, þeim ágæta spjallvef, og lesið þar hvað ég hef skrifað, og aðrir ... það er ekki pistillinn sem birtist í fyrramálið, en gæti slegið á fráhvarfseinkennin.

Saturday, June 10, 2006

Af Hamas, ALCOA og strætó

Qassam-herdeildirnar skjóta eldflaug á Ísrael. Með því, segir Mbl.is, rjúfa Hamas-menn einhliða vopnahlé sitt. Kommon, Ísraelar hafa haldið uppi hernaði þetta eins og hálfa ár sem Hamas hafa haldið einhliða vopnahlé, og meðal annars drepið marga Hamas-aktífista og svo auðvitað urmul óbreyttra borgara. Hvað eiga meðð að sitja lengi með hendur í skauti? Sögðust þeir hafa lagt niður vopn? Nei: Einhliða vopnahlé er tilboð. Hinn aðilinn (Ísrael) þarf ekki annað en koma með vopnahlé á móti til þess að menn geti farið að tala saman. Ekki það, að viðræður eru á sinn hátt fjarstæða. Hver er samningsstaða Palestínumanna? Hvað geta þeir komið með að samningaborðinu? Hersetin, bláfátæk þjóð, að miklu leyti á vergangi í nágrannalöndunum og höfuðsetin af andskotum sínum, gráum fyrir járni... Ekki beysið, ef þið spyrjið mig.

Ég er hræddur um að mitt besta svar við vandamálum Palestínumanna (og Ísraela) sé það sama og við svo mörgu öðru: Byltingu, takk. Undirstétt Miðausturlanda ætti að taka sig saman, skipuleggja sig eftir megni, og varpa þessum þrælapískurum af sér eins og hverju öðru oki. Ísraelsku yfirstéttinni, þeirri egypsku, jórdönsku, saúd-arabísku, líbönsku, sýrlensku og já, þeirri palestínsku líka. Sameinuð sósíalísk alþýðulýðveldi Mið-Austurlanda, hvernig hljómar það?

Auðvelt fyrir mig að láta mig dreyma, sitjandi í mjúka stólnum mínum í upphituðu húsi og með fullan maga. Og nægan tíma.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Hr. Siewert, talsmaður umhverfisböðlanna ALCOA, heldur áfram aumkvunarverðri viðleitni fyrirtækisins til að bera af sér sakir. Þetta var misskilningur, segir hann, þetta var einföldun. Elsta brella í bókinni: A segir eitthvað sem kemur sér illa fyrir B, en B er ekki í aðstöðu til að segja einfaldlega að A segi ósatt, svo hann segir að A sé bara ónákvæmur. He's inaccurate. Ódýrt, ódýrt.

Ef þið misstuð af því í sjónvarpinu í gær, lítið þá á "fréttir vikunnar" í Íslandi í dag, þar sem Páll Ásgeir Ásgeirsson er annar viðmælenda og fjallar um ALCOA-málið, sem mér heyrðist spyrlarnir kalla "skúbb vikunnar" -- Páll mælir af viti, og ég, fyrir mitt leyti, kann mjög vel að meta það að hann skuli segja frá því að Eggin.net hafi dregið athygli hans að málinu. Heiðursmaður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Almenningssamgöngur á Akureyri verða gerðar gjaldfrjálsar. Það er frábært. Þarna er verið að gera það sem ætti að gera í Reykjavík, og hefði átt að gera fyrir löngu. Ókeypis í strætó! Það er miklu betra!

Friday, June 9, 2006

„Drekkjum Valgerði“

Ég átti víst alltaf eftir að segja meiningu mína á borðanum fræga sem var í göngu Íslandsvina á dögunum. Mér finnst hann barnalegur, heimskulegur, vanhugsaður, ómálefnalegur og óviðeigandi. Það hefur talsvert verið fjallað um hann. Ég lít á það sem útúrsnúninga og undanbrögð, þegar því er haldið fram að í raun hafi verið átt við stóriðjustefnuna. Það stóð samt „Valgerði“, ekki „stóriðjustefnunni“ á borðanum. Er ætlast til þess að fólk lesi hugsanir þeirra sem gera svona borða? Ekki það, að manneskja með fullu viti tekur svona borða varla alvarlega.

Davíð Þór Jónsson hefur skrifað um þennan óheppilega borða, Stefán Þór Sæmundsson einnig, og fleiri. Ég hef í sjálfu sér varla fleiru við það að bæta. Samt svolitlu.

Svona borði gagnast málstaðnum ekki, um það er ég fullviss, og mér finnst ekki bara of langt gengið, heldur líka ástæðulaust að beina persónuárásum að einstökum stjórnmálamönnum með þessum hætti. Borgaralegir stjórnmálamenn eins og Valgerður eru hver öðrum líkir. Ef hún stæði ekki í þessum hermdarverkum, þá væri bara einhver annar sem væri iðnaðarráðherra og væri að því. Þegar persónu Valgerðar er kennt um, þá er gefið í skyn að þetta væri betra ef einhver annar [borgaralegur] stjórnmálamaður sæti við stjórnvölinn. Þar með er ekki sagt að hún sé saklaus - hún er það ekki - en persóna hennar er ekki rót vandans og dauði hennar mundi auðvitað ekki breyta stefnu stjórnvalda.

Það hefur verið minnst á skyrsletturnar frægu í þessu samhengi. Sú líking er ekki fráleit. Það er kvantítatífur munur á þessu tvennu, auðvitað, en kvalítatífur er munurinn ekki. Hvorug aðgerðin er málstaðnum til framdráttar. Helst væri það málstaðnum til framdráttar að þær gleymdust sem fyrst. „Líttu á skyrsletturnar,“ var sagt í mín eyru, „allir sögðu að þær væru vanhugsaðar, en hver varð niðurstaðan? Umhverfisvernd óx fiskur um hrygg!“ Heyr á endemi! Þetta er skólabókardæmi um post hoc-rökvillu! Ég lýsi eftir þeim manni sem snerist, að eigin mati, á sveif með umhverfisvernd vegna skyrslettna eða drekkingarborða! Gefi hann sig fram, og ég skal sýna ykkur furðufugl!

Hinn herskái armur umhverfisverndarsinna kann á því lagið að draga að sér athygli. Ég játa fúslega að það er gott að málstaðurinn fái athygli, en hana hlýtur að mega fá með öðrum hætti. Ég tel t.d. að náttúruverndartónleikar Hætta-hópsins 6. janúar sl. séu fyrsta flokks dæmi um vel heppnaða aðgerð. Herskáar aðferðir eru beggja handa járn, þær láta málstaðinn líta illa út (í augum sumra), þær færa óvininum átyllur til að leiða umræðuna enn frekar afvega, og þær eru því (oft) taktísk vindhögg.

Fyrir málstaðinn er samt kannski verst að herskáar aðferðir eru oft eigingjarnar. Þær fróa hinum herskáa og nokkrum herskáum vinum hans, en hinir – venjulega fólkið sem árangurinn veltur þrátt fyrir allt á – eru settir í stöðu áhorfanda frekar en þátttakanda. Fjöldaganga + útifundur eða risastórir tónleikar gera hinum almenna, friðelskandi umhverfisvini auðvelt að vera með. Skyrslettur, níðstangir eða hjólalásar um vinnuvélar og hálsa gera það ekki. Herskáar aðferðir eru því pólitískt firrandi og vinna að því leyti gegn málstaðnum. Baráttan gegn eyðingu hálendis Íslands er alvörumál. Það er í lagi að gera hana skemmtilega, en hún er ekki einhver leikur og það er ekki í lagi að spilla fyrir henni með Rambó-töktum sem eru í óþökk næstum allra.

Jákvæð barátta laðar fólk að málstaðnum; neikvæð barátta fælir það frá.

Thursday, June 8, 2006

ALCOA og orkuverðið

„Old news“ segir Már Örlygsson um það, sem að mínu mati er frétt vikunnar. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, hefur einnig bent réttilega á að fyrir tæpum mánuði síðan greindu NVSÍ frá því á heimasíðu sinni að söluverðið væri um 1,20 kr á kílówattstund, samkvæmt heimildum sem NVSÍ tilgreina ekki en segja öruggar. Ekki rengi ég það, og niðurstaðan er líka nokkurn veginn sú sama.

Páll Ásgeir Ásgeirsson fer nánar ofan í sumt og auðgar fréttina með sinni eigin eftirgrennslan, og á þakkir skildar fyrir. Varla hefði hann samt ofreynt sig þótt hann hefði vísað í ísbrjótinn sem ruddi þessari frétt leið upp á yfirborðið, Eggin.net.

(Ath., uppfært: Páll hefur fylgt færslu sinni í gær eftir með annarri, hreint ágætri, færslu í dag, þar sem hann m.a. getur þess að Eggin.net hafi vakið athygli hans á málinu.)

Ég get nú ekki alveg tekið undir með Má. „Old news“ er fréttin auðvitað í þeim skilningi að þessar upplýsingar eru ekki alveg nýjar – en hún er hins vegar ekki „old news“ í þeim skilningi að það sé gagnslaust að flytja hana vegna þess að fólk viti þetta nú þegar. Í sjálfu sér er skiljanlegt að Landsvirkjun vilji hvorki játa né neita upplýsingunum, en það verður samt varla sagt að verðið hafi verið á vitorði margra annarra en innvígðra stóriðjusinna.

Gildi þessarar fréttar núna felst kannski helst í athyglinni sem hún beinir að þeim smánarsamningum sem Landsvirkjunar-kvislingarnir gerðu fyrir okkar hönd. Svíkja fjallkonuna í böðla hendur fyrir 30 silfurpeninga. Þá er athyglisvert, að mínu mati, að upplýsingarnar, sem Landsvirkjun hefur legið á eins og skoffín, skuli koma frá ALCOA-mönnum sjálfum. Landsvirkjun fer með þetta eins og mannsmorð (viðeigandi) en ALCOA-menn leggja þetta á glámbekk og afhjúpa þannig lítilsvirðinguna enn frekar.

Það nýjasta er að ALCOA „biðst afsökunar á þessu leiðinda atviki“ og veit greinilega upp á sig skömmina. Ég, fyrir mitt leyti, dreg það samt í efa að samviskan nagi þá svona. Frekar tryði ég viðskiptahagsmunum til að stýra klofinni tungu þeirra. Friðrik Sophusson segir upphæðina ranga, sem hermd hafi verið upp á samninginn. Það er þá greinilegt að einhver er að ljúga að einhverjum. Annað hvort lýgur Friðrik að Íslendingum, til að bjarga eigin skinni, eða að ALCOA lýgur Brasilíumönnum til að þvinga niður verðið hjá þeim. Nema báðir ljúgi, það kemur auðvitað líka til greina.

Wednesday, June 7, 2006

Skúbb á Eggjunum: Ljóstrað upp um hvað ALCOA borgar fyrir raforku til Reyðaráls. Lesið þetta. Flett ofan af ríkisleyndarmáli, ekkert minna.

Sunday, May 28, 2006

Spádómur

Ég spái því hér með að Orkuveita Reykjavíkur verði komin í eigu Finns Ingólfssonar og félaga áður en kjörtímabilið 2006-2010 er liðið. Þetta verður prísinn sem Framsóknarflokkurinn setur upp fyrir að styðja Sjálfstæðisflokkinn í borginni.

Ganga Íslandsvina í gær mun hafa heppnast býsna vel þótt aðalnúmerið (mig) hafi vantað. Svona er að vera næturvörður: Stundum missir maður af einhverju merkilegu. Reyndar missti ég líka af öðru, sem var talsvert meira spælandi, og skrifast alfarið á minn reikning. Hef ekki fleiri orð um það.
Hafin er undirskriftasöfnun gegn hlutdrægum fréttaflutningi Sjónvarpsins í umfjöllun um stóriðjustefnuna og náttúruvernd. Lesið um það á Egginni.

Kommadistró Íslands er ennþá til og nýjasta varan er æsispennandi að mínu hógværa mati. Íslensk framleiðsla og allt.

Í Nepal eru viðræður hafnar með undirbúningsfundum fyrir fyrsta fund Koirala við sjálfan Prachanda, og menn virðast vera frekar bjartsýnir. Hvernig getur byltingarsinnaður flokkur slegið úr í kröfum sínum um byltingu og ennþá verið byltingarsinnaður? Vilja maóistarnir ekki uppgjör við auðvaldið? Ekki það, að út af fyrir sig má búast við miklum framförum í ríkinu, jafnvel lýðveldisstofnun, þótt of snemmt sé að fullyrða nokkuð um það. Það er ekki alveg ljóst hvort tilvonandi stjórnlagaþing er háð með skilyrðum eða ekki. Eða, réttara sagt, það er ekki ljóst hvort skilyrði Gyanendra konungs reynast nokkurs virði. Það er heldur ekki líklegt að honum þyki árennilegt að sölsa aftur til sín aukin völd með vopnavaldi, eftir uppþotin um daginn. Nú er spurning hvort almenningur í borgum Nepals öðlast pólitíska forystu sem getur leitt hann til frekari framfara frá sjónarmiði stéttabaráttunnar. Ég veit ekki hvort maóistarnir eru líklegir til þess, og í öllu falli er óvíst hvort almenningur í borgunum er fús að fylgja forystu maóista. Óvíst, segi ég, því það er auðvitað ekkert útilokað heldur.

Í Nepal voru annars að finnast leynilegar fangamúðir þar sem hundruð fanga sættu kerfisbundnum pyntingum og illri meðferð. Það gæti tengst maóistunum 49 sem kóngsmenn þykjast engin deili geta sagt á, sem voru í haldi þeirra en eru núna "horfnir" -- væntanlega dauðir.

Í Frakklandi er Chirac hvergi banginn, og lýsir stuðningi við vinstrisinnaða leiðtoga Suður-Ameríkuríkja. Segir þá lýðræðislega kosna, sem er auðvitað satt og rétt. Ég þykist finna lykt af lýðskrumi. Ætli hann sé að reyna að skora stig hjá róttækum vinstrimönnum í Frakklandi, sbr. rósturnar í haust og vor sem leið?