Til gamans, þá fletti ég upp greinum á gamla góða Múrnum, til að sjá hvort Sverrir Jakobsson hefði ekki skrifað eitthvað þar um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég fann nokkrar þar sem höfundur kemur inn á sjóðinn og afrekaskrá hans. Dæmi: Frjáls viðskipti (25.5.01), Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Argentína (6.1.02), Tíu misheppnuðustu hugmyndir samtímans (14.9.04), Dreggjar nýlendutímans í alþjóðaviðskiptum (10.1.05) og Leikvöllur nýfrjálshyggjunnar (12.2.05). Af lestri þessara greina fer ekki milli mála að höfundur hefur mikla andúð á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Eða, að minnsta kosti, að hann hafi haft það þegar greinarnar voru skrifaðar. Ég hlýt að draga í land með þannig ályktun í ljósi greinar Sverris í Fréttablaðinu miðvikudaginn 7. október sl. Þar mátti nefnilega greina einhvers konar sáttatón, eða í það minnsta að svona væri þetta nú bara, sjóðurinn væri ekki alslæmur við okkur og betra að vinna sig út úr þessu en að vera að einhverju væli. (Mín umorðun.) Greininni var ekki síst beint til Ögmundar Jónassonar, sem hafði þá verið að tjá efasemdir sínar um ýmislegt af því auðvaldsþjónkaðasta í fari ríkisstjórnarinnar. Sverrir valdi honum skrautleg orð.
Það væri gaman að vita hvað hefur breyst frá því Sverrir skrifaði þessar ágætu greinar hér fyrr á öldinni. Ætli Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi, að mati hans, breyst til hins betra? Eða ætli Sverrir hafi breyst sjálfur? Eða ætli valdahlutföllin í landinu hafi bara breyst, Sverrir lent réttu megin og þess vegna sæst við kerfið?
Sunday, October 18, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Þar sem við erum báðir sagnfræðingar getum við báðir verið sammála um gagnsemi beinna tilvitnana. Það er því ekki einungis af hégóma að ég vil frekar að menn lesi greinar mínar út frá því sem stendur í þeim frekar en endursögn annarra. Þín endursögn er einmitt dæmi um mjög furðulega rangtúlkun á skrifum sem auðvelt er að sannreyna með því að lesa Fréttablaðsgrein mína.
ReplyDeleteÞað er gott hjá þér að benda á nokkrar greinar mínar þar sem er að finna málefnalega gagnrýni á stefnu og störf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hitt er verra þegar þú gerir mér upp þá skoðun að ég hafi „andúð á sjóðnum“ líkt og þar sé einungis á ferð persónuleg tilfinning mín. Ég hef líka gagnrýnt margt í stefnu Bandaríkjastjórnar en þrátt fyrir það er ég ekki „Bandaríkjahatari“. Í málefnalegri gangrýni felst að maður gagnrýnir þjóðir og stofnanir eftir því sem efni eru til.
Ef þú túlkar gagnrýni mína á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn einungis sem rakalausa andúð þá er ekki nema von að þú lítir einnig á það sem rakalausa samúð þegar ég nefni þá staðreynd að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki sett Íslandi jafn hörð efnahagsleg skilyrði og hann hefur gert mörgum ríkjum Afríku og Rómönsku Ameríku. AGS hefur t.d. ekki ennþá farið fram á einkavæðingu eins né neins á Íslandi. Hér þarf auðvitað að gera mun og því er það hræsni þegar margir Íslendingar fara núna að gagnrýna sjóðinn. Ég er sammála því að Íslendingar eigi ekki að láta AGS setja okkur afarkosti en ég leyfi mér hins vegar að vera ósammála þeim sem líta á það sem afarkosti að gera lausn Icesave-málsins að forsendu lána frá sjóðnum. Ef AGS fer að heimta allsherjarmarkaðsvæðingu frá sjóðnum þá eigum við að slíta samstarfi við stjóðinn.
Skilningur þinn á því að grein minni sé sérstaklega stefnt gegnt Ögmundi Jónassyni er skringilegur. Í henni er einmitt borið sérstakt lofsorð á Ögmund og varnaðarorð hans gegn bönkunum. Á hinn bóginn gagnrýni ég einnig dálæti Ögmundar á formanni Framsóknarflokksins sem ég tel óverðskuldað og þá sérstaklega þá lofsorð hans um ræðu sem var full af uppskrúfuðum þjóðernisbelgingi. Eða er Sigmundur Davíð kannski bara „lentur réttu megin“ svo ég vitni í þína eigin Kremlólógíu? Er alveg sama hvaða skoðanir menn hafa að öðru leyti svo lengi sem menn hafa andúð á AGS?
Það hefur sem sé ekkert breyst í minni afstöðu og það er raunar auðséð þegar mín eigin skrif eru lesin en ekki furðulegar útleggingar annarra á þeim.
Það hvarflaði ekki að mér að saka þig um rakalausa andúð á sjóðnum. Ég hélt þvert á móti að þú hefðir (eða hefðir haft) sams konar heiðarlega og rökstudda andúð á honum og ég sjálfur og flestir aðrir vinstrimenn sem ég þekki, öfugt við tækifærissinnaða og hræsnisfulla andúð Bjarna Benediktssonar. Ég undrast að þú skulir mótmæla mér og segja mig gera þér upp þá skoðun að þú hafir andúð á honum. Skilji ég þig rétt núna, að þú sért ekki á móti sjóðnum sem slíkum, þá bið ég þig auðvitað afsökunar á rangtúlkuninni, um leið og ég spyr hvernig í ósköpunum vinstrimaður geti ekki haft andúð á þessum glæpasjóði sem slíkum!
ReplyDeleteAlþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Atlantshafsbandalagið, Evrópusambandið og fleiri slíkar stofnanir annast hagsmuni auðvaldsins á kostnað fólksins. Þegar málefnaleg gagnrýni gegn stofnunum beinist að sjálfu aðalhlutverki þeirra, hvernig ber þá að skilja hana öðru vísi en sem gagnrýni á sjálfa stofnunina? Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er frjálshyggjuvæðingar-, innheimtu- og fjárkúgunarstofnun alþjóðlegs fjármálaauðvalds og það ætti enginn að verða hissa þegar hann hegðar sér þannig. Maður veit hvað gerist þegar minkur kemst inn í hænsnakofa. Gagnrýni á stefnu ríkis er annars eðlis heldur en gagnrýni á grundvallarstefnu alþjóðlegrar stofnunar.
Ég hvet fólk að sjálfsögðu líka til þess að lesa sjálft grein þína „Að gera sig breiðan“ (Fréttablaðið, 7. október 2009, s. 12). Fyrst þú nefnir beinar tilvitnanir, þá skal ég taka tvær upp. Hér er sú fyrri:
„Mönnum verður tíðrætt um ofbeldið og óréttlætið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stendur fyrir; meira að segja hefur formaður Sjálfstæðisflokksins uppgötvað að þessi sjóður sé innheimtustofnun fyrir lánardrottna. Það hefur hann raunar verið í 60 ár. Í Afríku og Suður-Ameríku hafa lánum AGS fylgt miklir afarkostir um einkavæðingu í smáu sem stóru og algjöru banni við að vernda innlenda atvinnuvegi. Enn hefur sjóðurinn ekki sett Íslandi nein slík skilyrði. Í alþjóðlegu samhengi má eflaust nefna Ísland sem dæmi um tvöfalt siðgæði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en sannleikurinn er svo sannarlega ekki sá að Íslendingum séu settir afarkostir.“
Innheimtustofnun fyrir lánardrottna, er um það að villast? Eru það ekki afarkostir að krefja Íslendinga um að borga margar milljónir á hvert mannsbarn vegan IceSave-sukks? Eru það ekki afarkostir að heimta stórfelldan niðurskurð? Eru það ekki afarkostir að setja landstjóra yfir landið, sem m.a. setur stólinn fyrir dyrnar í húsnæðisskuldamálum? Heldur þú kannski að allt sé komið fyrir augu almennings, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krefst af okkur?
Síðari beina tilvitnunin er hér:
„Það sem er þó furðulegast af öllu er að þessi þjóðrembumálflutningur hafi glapið hinn ágæta mann Ögmund Jónasson og að hann taki nú þátt í vitleysunni. Það er kaldhæðnislegt að maður sem þorði að segja þjóðinni til syndanna í miðju útrásarfárinu skuli núna hlaupa á eftir popúlisma Framsóknarflokksins.“
Það er ekki um að villast að þarna spyrðirðu Ögmund Jónasson saman við „þjóðrembu“, „vitleysu“ og „popúlisma Framsóknarflokksins“. Finnst þér þetta sanngjarnt? Finnst þér sanngjarnt að ætla Ögmundi, stjórnarliða með heilt ráðuneyti á sinni ábyrgð, að sitja undir sama hatti og Framsóknarflokkur sem talar ábyrgðarlaust í stjórnarandstöðu og er skv. skilgreiningu óánægður með svo til allt sem ríkisstjórnin gerir?
Hvað mundirðu annars kalla það að vera á móti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þegar maður er í stjórnarandstöðu, en taka hann í sátt þegar maður er kominn í ríkisstjórn?
Við erum augljóslega ósammála um hvað teljist afarkostir af hálfu AGS. Ég miða við dæmi eins og t.d. af Bólivíu 1985 eða mörgum Afríkuríkjum eftir það. Þú vilt telja skuldaviðurkenningu vegna Icesave með, en ég tel það mál allt annars eðlis. Þú telur að skuggaleg skilyrði AGS muni koma í ljós síðar. Það getur vel verið og þá er það verkefni okkar vinstrimanna að andæfa þeim. Þá verður staða Íslands vonandi orðin skárri og auðveldara að standa í stríði við umheiminn.
ReplyDeleteÉg minni á að erlendar skuldir íslenska þjóðarbússins hafa lækkað margfalt frá 2007 eða um 80% og það þrátt fyrir Icesave. Ef við erum að kikna undir þeim núna hvernig var þá staðan fyrir tveimur árum? Ástæðan fyrir Icesaveruglinu er svo algjörlega heimatilbúin á Íslandi. Í fyrsta lagi er það að ríkisstjórnin og fjármálaeftirlitið ákvað að heimila þessa reikninga 2006 og síðan að stjórnvöld samþykktu að styrkja íslenska fjármagnseigendur á kostnað erlendra haustið 2008 (með bráðabirgðalögum). Eina leiðin til að hafna Icesave með einhverjum góðum rökum væri að afturkalla seinni ákvörðunina (því miður er ekki hægt að afturkalla þá fyrri). Ég sakna þess að einhver andstæðinga Icesave-samkomulagsins berjist fyrir þeirri leið því að annars finnst mér málflutningur þeirra vera rökleysa.
Ögmundur hældi sjálfur málflutningi Framsóknarflokksins og þjóðrembutali Sigmundar Davíðs. Annars myndi ég aldrei leggja þá tvo að jöfnu og ég tel raunar að munurinn á þeim sé aftur að verða greinilegur - sem betur fer.
Ég neita að viðurkenna þessa einfeldningslegu framsetningu í seinustu málsgreininni. Ég lít á það sem staðreynd að framganga AGS gagnvart mörgum þriðja heims ríkjum sé mun harðari en hún er gagnvart Íslandi. Það er auðvitað fagnaðarefni í sjálfu sér þó að ástæðurnar fyrir því séu eflaust skuggalegar. Við eigum að nota lærdóminn af því til að berjast fyrir breyttum leikreglum innan AGS en ekki bara fyrir okkur sjálf.
Að lokum væri gott að vita hver munurinn er á þér og Sigmundi Davíð. Ert þú ekki bara skv. skilgreiningu óánægður með allt sem ríkisstjórnin gerir?
Íslendingar eru með sterkari innviði en þriðjaheimsríki og þess vegna er ekki hægt að taka þá sömu tökum og þau. Það er afstætt hvað teljast "afarkostir", en mér finnst það tvímælalaust flokkast undir þá að setja ríkisstjórn Íslands undir landstjóra AGS og að leggja á Íslendingar skuldir sem verður varla jafnað við annað en Versalasamninga.
ReplyDeleteÞað er alveg rétt hjá þér að það ætti að afnema þessi sk. neyðarlög, en ég veit ekki hvort það er afturkræfur gerningur. Eru íslensku sparifjáreigendurnir ennþá með umframgreiðslurnar þar sem hægt er að ná til þeirra? Ef svo er, ætti bara að gera það. Ef það er ekki hægt, þá verður bara að hafa það.
AGS er verkfæri heimsvaldasinna og "umbætur" á honum eru jafn raunhæfar eins og "umbætur" á heimsvaldastefnunni almennt. Ef við berjumst fyrir okkur sjálf, þá sýnum við fordæmi sem aðrir geta nýtt sér í sinni baráttu. Ætli við getum það ekki, fyrst Botswana gat það?
Aðalmunurinn á mér og Sigmundi Davíð er að ég er andvígur auðvaldsskipulaginu en hann er hlynntur því.
„…mér finnst það tvímælalaust flokkast undir þá að setja ríkisstjórn Íslands undir landstjóra AGS og að leggja á Íslendingar skuldir sem verður varla jafnað við annað en Versalasamninga.“'
ReplyDeleteJá, ef þessar eru forsendurnar þá er um afarkosti að ræða. Ég er bara alls ekki sammála þessum forsendum. Ég held að skuldirnar sem falla á Íslendinga vegna Icesave verði á endanum mjög litlar. Bara kostnaðurinn af því styrkja gjaldeyrisforðann undanfarin ár og að halda gjaldþrota bönkum á floti er mun meiri. Af hverju lengur enginn til að við neitum að greiða þessi gjaldeyrislán, ef skuldabyrðin er í raun og sann stærsta vandamál Íslands? Eru þau eitthvað löglegri en peningarnir sem við skuldum vegna Icesave?
Það eru mörg raunhæfari verkefni fyrir róttæklinga á Íslandi en að berjast gegn Icesave. T.d. samruni Samtaka atvinnulífsins og ASÍ í eina gagnbyltingarsinnaða heild sem berst gegn löglega kjörinni ríkisstjórn landsins á grundvelli einhvers „stöðugleikasáttmála“. Hvernig getur íslenskur verkalýður nokkurn tíma breytt þjóðfélaginu ef fulltrúar hans eru eins og núverandi forysta ASÍ?
Jæja, við erum greinilega ósammála um skilgreininguna á afarkostum. Mér þykir þú bjartsýnn á IceSave-skuldir ef þú trúir þessum spám um 90% heimtur. IceSave-skuldir eru eitt mál, aðrar skuldir önnur mál. Hvað lán AGS fyrir gjaldeyrisvaraforða snertir, þá er öngull inni í þeim ormi.
ReplyDeleteBarátta gegn SAÍ er vissulega verðugt verkefni og ég sé ekki glöggt hvers vegna "stöðugleikasáttmálinn" er eitthvað til að halda upp á. Ég gekk annars út af BSRB-þinginu í gær þegar Gylfi Arnbjörnsson kom í ræðustól, svo það komi fram.
Hvað hefur breyst já? Ég sé ekki í fljótu bragði neina sönnun þess að AGS hafi breyst og sú hugmynd að Sverrir hafi breyst er einnig á tilgátustigi. Ríkisstjórnin hefur ekki skipt um stefnu í neinu sem máli skiptir en augljósa breytingin er sú það er búið að skipta um rassa í ráðherrastólunum.
ReplyDeleteNýir rassar, gamalt prump.