Thursday, October 8, 2009

...á forsendum hverra?

Starfsgreinasamband Íslands þingar nú á Selfossi. Yfirskrift þingsins er "Atvinnulíf á okkar forsendum!" Ætli ég sé einn um að koma þetta spánskt fyrir sjónir? Annar hátíðarræðumaðurinn var enginn annar en hægrikratinn Árni Páll Árnason. Hann kenndi auðmönnum og fyrri stjórnvöldum um vandamál landsins og kom svo með lausnirnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið. Klykkti út með því að gefa í skyn að innganga í Evrópusambandið mundi barasta útkljá stéttabaráttuna á Íslandi! Skreytti sig svo með þessum stolnu fjöðrum úr lokaorðum Kommúnistaávarpsins: "Við höfum engu að tapa – nema hlekkjunum." Æðislegt, ekki satt? Væri ósanngjarnt að segja að hann hafi þarna skipað sér á bekk með hinum ofsalega róttæka Antonio Negri?
Hinn hátíðarræðumaðurinn var, guess what, annar hægrikrati: Gylfi Arnbjörnsson. Sá notaði tækifærið til að taka stórt upp í sig með því að hálf-hóta atvinnurekendum stríði. "Ef þið viljið stríð, þá munuð þið fá stríð," sagði hann. Trúir einhver því að hugur fylgi máli? Trúir einhver því að raunsæi og ábyrgi hægrikratinn fari að rugga bátnum frekar og setja allt í uppnám? Gylfi segist finna fyrir væntingum til þess að verkalýðshreyfingin standi vaktina. Gylfi bendir á að enginn þingmaður hafi lýst áhyggjum af "stöðugleikasáttmála" í eldhúsdagsumræðum. Ætli það segi ekki sitt um hvað þeir hafa miklar áhyggjur? (Hverjir ætli það séu annars, sem vænta þess að Gylfi standi vaktina?)
Gylfi lýsir áhyggjum af því að þátttaka atvinnulausra í verkalýðsfélögum hafi fallið úr um 90% niður í um 50%. Ætli það sé vísbending um væntingar almennings til þeirra?
Lausnir Gylfa fela meðal annars í sér "nýtt siðferðismat" í stjórnun fyrirtækja og að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fari um okkur mildum höndum sínum. Það var nefnilega það.

Læt þetta duga að sinni, en lesið þessi fyrri samskipti mín við SGS: Af ný-auðvaldi og ný-misskilningi.

No comments:

Post a Comment