Wednesday, May 6, 2020

Enginn sameiginlegur vettvangur

Ég hef oft upplifað það, þegar ég kem til útlanda, að kaupa dagblað og verða alveg gáttaður á því hvað er margt merkilegt í því. Svo margt að ég næ ekki að lesa það allt þann daginn, og enda með að hafa það með mér heim til að lesa betur seinna. Þannig að ég á í kössum æðimörg erlend dagblöð sem ég ætla að lesa við tækifæri. Það verður væntanlega eftir byltinguna, þegar ég ætla líka að læra á harmonikku.
Ég kalla þessa upplifun "fyrirbæri hins frábæra dagblaðs" -- en hún er auðvitað skilyrt af því hvað ég er vanur lélegum blöðum á Íslandi. Það er hvorki meira né minna en þjóðfélagsmein, hvað íslenskir fjölmiðlar eru slappir. Já, ég veit að þetta er alþjóðlegt trend og allt það. Og kannski snýr þetta vandamál upp á alheiminn, en ekki bara okkur.
En ég get varla álasað fólki fyrir að nenna ekki að lesa Fréttablablaðið. Ég hef ekki lesið það í tvö ár sjálfur. Nenni því bara ekki.
Það breytir því ekki að í samfélagi þar sem er enginn sameiginlegur vettvangur fyrir alvöru umræðu um alvöru mál, þar vantar eitt meginatriðið sem þarf að vera til staðar til að geta haft lýðræði. Hvað þá annað. Án einhvers konar almennra og almennilegra fjölmiðla er það naumast hægt.
Facebook-bergmálshellar koma ekki í staðinn. Ekki einu sinni vefir stærri fjölmiðla og því síður vefrit eða blogg. Það sem nær því ekki að vera almennt lesið nær augljóslega ekki augum almennings og þar með er almenna umræðan í þjóðfélaginu ekki til. Ég endurtek: Ekki til.
Ríkið heldur nú þegar úti útvarpi og sjónvarpi, sem eru það sem nálgast helst vandaðan fjölmiðil. Væri galið að ríkið bætti við dagblaði? Eða er einhver með betri hugmynd? Ég bara spyr.