Tuesday, April 19, 2022

Frægir steinar sem ég heimsótti 2021

Flekkusteinn í Flekkuvík á Vatnsleysuströnd

Gatnöf við Bakkahöfða, nærri Húsavík

Bragi spreytir sig við steininn í Rauðanesi, sem Skallagrímur Kveldúlfsson sótti út í Miðfjarðarsker í Borgarfirði, og þurfti fjóra þræla til að lyfta honum. Bragi snaraði auðvitað steininum upp, ég náði bara ekki mynd af því.

Hannesarsteinn við veginn inn í Stykkishólm. Förumaðurinn Hannes stutti var vanur að tylla sér á hann í gamla daga.

Krakkarnir þreyta aflraunir í Dritvík, við steinana gömlu: Fullsterkan, Hálfsterkan, Hálfdrætting og Amlóða

 

Tuesday, January 25, 2022

Stólaleikur húsnæðisskorts

Það er stundum sagt að skortur sé nauðsynlegur til að verðmyndun sé eðlileg. Það er auðvitað bull, því það er hægt bara að reikna út uppsafnaða vinnu sem er á bak við vöru eða þjónustu.

En þetta er ekki "bara" bull. Þetta er hættulegt bull. Að minnsta kosti þegar kemur að nauðsynjum. Það er væntanlega ástæðan fyrir því að enginn er að krefjast þess hér á landi, að tekinn verði upp skortur á drykkjarvatni.

En það er pólitísk ákvörðun að hafa skort á húsnæði. Og myndar hann verð? Já, aldeilis: skorturinn skrúfar upp verðið svo til vandræða horfir. Flestir borga miklu meira fyrir húsnæði en þeir þyrftu ef félagslega stýrð áætlun réði ferðinni í stað markaðarins. Í stað andfélagslegra mannasetninga.

En skortur þýðir líka einfaldlega að það verða alltaf einhverjir sem fá ekki. Hér: sem fá ekki að eiga heima neins staðar. Þetta er mannasetning.

Í stólaleik er alltaf einhver í hverri umferð sem fær ekki sæti og er úr leik. Það er staðreynd. Þekkt staðreynd sem stjórnvöld eiga að vita. Skömm sé þeim.

Tuesday, January 18, 2022

Óþolandi troðningur í Keflavík

Ég för til London í nóvember. Við heimkomu lentum við í svakalegri örtröð á Keflavíkurflugvelli. Ég þurfti meðal annars að beita miklum þjósti til að ekki væri ruðst fram fyrir okkur í fáránlegri biðröð.

Athugið þetta: Biðröð sem hlykkjast um allan komusalinn mep farangursfæriböndunum. Um allan salinn. Og komufarþegar þurfa að troða sér í gegn um biðröðina til að nálgast töskurnar sínar. Troða sér í gegn fjórum sinnum, og svo fjórum sinnum til baka. Eða troðast bara inn í röðina.

Ath.: Það var ekkert þessu líkt á Heathrow-flugvelli. 

Mér var mjög misboðið. Einhver ber ábyrgð á þessu skipulagsleysi. Og var búinn að hafa tuttugu mánuði til að leysa það og var ekki enn búinn að því.

Og þetta virðist standa enn!

Tuesday, January 11, 2022

Þrá eftir einsleitu samfélagi?

Ég sá um daginn barna-jólamynd sem sýnist gerast í evrópsku þorpi í gamla daga, kannski 19. öld. Þar var a.m.k. eitt barnið svart. Væntanlega til að láta evrópskum börnum í nútímanum, sem eru að einhverju leyti ættuð frá öðrum heimsálfum, ekki finnast þetta vera mynd um eintóm hvít börn. Þótt leitun hafi verið að því norður-evrópska þorpi á 19. öld, þar sem ekki öll börnin voru hvít. Og vel að merkja: svörtu fólki hefði trúlega verið mætt með rasisma.

Auðvitað lítir það illa út í nútímanum að setja upp nostalgískt sjónvarpsefni um þjóðfélag þar sem eru engir innflytjendur frá öðrum heimsálfum. Þótt það hafi reyndar verið þannig. Í meginatriðum.

En hvernig hljómar þá að himnaríki kristinna manna sé ekki með neinum gyðingum? Og engum múslimum, engum trúleysingjum, engum heiðingjum? Er allt í lagi að boða þannig hugmynd um himnaríki?

Tuesday, January 4, 2022

Eitt ár af bloggi

Núna er ég búinn að blogga vikulega í eitt ár. Þetta er tilraun til að endurlífga bloggið mitt sem miðil, og ég er sáttur við hvernig það gengur. Þannig að ég held áfram að sinni.

Tuesday, December 28, 2021

Styrkja, ekki sprengja

Ég styrki björgunarsveitirnar beint. En flugelda kaupi ég ekki af þeim og er reyndar þeirrar skoðunar að það ætti ekki að leyfa alla þessa flugeldasölu og -notkun.

Ég er eins og aðrar skepnur með það, að ég fælist sprengingar. Stressast allur upp. Ég er ekki að ýkja; gamlársdagur hefur að jafnaði verið versti dagur ársins hjá mér árum saman. 

Síðan ég dvaldi í Palestínu sumarið 2002.

Það breytir upplifuninni að heyra gnýinn í vopnuðum átökum.

Þegar dóttir mín var lítil, fór hún á hestbak í Húsdýragarðinum í lok janúar eða byrjun febrúar, þegar einhver hálfviti og lögbrjótur sprengdi flugeld, svo hesturinn hrökk við.

Það bjargaði barninu, að ég var varla búinn að sleppa því og gat því gripið það áður en það datt af hestbaki.

Ef tillitssemi við astmasjúklinga og fólk með áfallastreitueinkenni er ekki næg ástæða, þá mætti kannski sleppa flugeldunum af tillitssemi við okkur dýrin. 

Tuesday, December 21, 2021

Satt, skáldað og logið

Ef maður vill fara varlega ætti maður eiginlega ekki að segja brandara. Ef brandarinn er á kostnað forréttindakarls, þá er það svo dæmigert og gerir konur ósýnilegar, eða aðra minnipoka- eða jaðarsetta.

Nú, og svo er það gagnrýnin um að karlkyns rithöfundur geti ekki skrifað kvenpersónu þannig að hann setji sig í hennar spor. Það sé bara ekki hægt. Sama hlýtur að mega segja um aðra hópa sem eiga aðra lífsreynslu en við forréttindapésar. Gæti ég sett mig í spor blökkumanna eða indíána? Fatlaðra? Hinsegin fólks? Munaðarlausra? Nú, dýra?

Þetta gæti líka virkað á hinn veginn. Getur niðursetningur sett sig í spor húsbóndans svo raunhæft sé?

Það er öruggast að halda sig bara við það sem maður þekkir. Segja sögur frá eigin reynslu, eða eftir tilgreindum heimildum. Enda er skáldskapur bara fancy orð fyrir skrök. Ég ætla að gera orð Ara í Aravísum að mínum: Þið eigið að segja mér satt!

Tuesday, December 14, 2021

Grímuleysi í Bretlandi

Ég fór til Bretlands um daginn. Var nokkra daga í London. Það var sláandi hvað grímunotkun er lítil hjá almenningi þar. Í verslunum og á veitingastöðum er varla neinn með grímu, hvorki kúnnar né starfsfólk. Í mannhafi fjölfarinna veralunargatna sást ekki kjaftur með grímu. Meira að segja ekki í neðanjarðarlestinni.

Niðurstaðan er einföld: breskum almenningi þykir ekki nógu margir vera dánir úr Covid.

Tuesday, December 7, 2021

Tepruskapur skaðar

Tepruskapur í kynferðismálum er skaðlegur fyrir samfélagið. Líka fyrir börnin.

Ég fullyrði að það hefur aldrei neinn tekið skaða af að fá hvolpavitið snemma. Spyrjið hvern sem er, sem hefur alist upp í sveit.

Hitt er verra, að fá ekki að kynnast kynferðismálum á eðlilegan hátt. Ungt fólk leitar sér upplýsinga um leið og það verður forvitið. Sem það verður yngra en við viljum almennt viðurkenna, þótt við vitum það öll. Ef hvorki skólakerfi né foreldrar fræða almennilega, þá vitum við hvernig internetið fræðir.

Feimni fer náið saman við skömm og skömm yfir sínum eigin líkama er stórskaði. Spyrjið bara hvaða átröskunarsjúkling sem er.

Tuesday, November 30, 2021

Verðfall í fordæmalausri eftirspurn

Fyrir nokkrum árum kom frétt eitt haustið um það vandamál að hér á landi væri til allt of mikið af lambakjöti. Ekkert hagkerfi annað en kapítalismi gæti kallað það vandamál. Og sama haust kom frétt um skort á lambakjöti. Sama haust!

Svona burtséð frá covid, þá hefur túrismi vaxið fordæmalaust undanfarin ár. Annar hver ferðamaður flýgur heim í lopapeysu. Og á sama tíma fellur verð á íslenskri ull svo, að margir bændur vildu helst vera lausir við að rýja!

Hvers konar rugl-hagkerfi er þetta eiginlega??

Tuesday, November 23, 2021

Hneyksli þvert yfir Ölfusá

Það var frétt í gærkvöldi um fyrirhugaða nýja brú yfir Ölfusá. Framkvæmdin verður svokölluð PPP. Það stendur fyrir Public-Private Partnership. Það þýðir langtíma-hagsmunasamband opinberra aðilja við einkaaðilja, eða með öðrum orðum auðvaldið.

Svona brú er dæmigerð slík framkvæmd. Auðvaldið "tekur að sér" framkvæmd sem "hefði annars ekki verið farið í".* Þessu er stillt þannig upp til að réttlæta beina aðkomu auðvaldsins. Hvað vitum við annars hvað hefði annars verið? Það er pólitísk ákvörðun. Það er bara þessi ríkisstjórn sem hefði annars ekki byggt þessa brú, höfum það á hreinu.

Tilgangurinn er að koma peningum í lóg: í arðbæra fjárfestingu. Þeir væru ekki að því annars. Og hvaðan haldið þið að gróðinn komi?

[* ekki bein tilvitnun]

Tuesday, November 16, 2021

Leigið bara árnar

Þessi ríki Breti sem er að kaupa upp jarðir á Íslendi, að sögn til að vernda villtan lax, er að vonum umdeildur. Það hlýtur bara að vera hindrun fyrir hann. Ætli þetta snúist um eitthvað meira en að vernda lax? Því ef það er það sem þetta snýst um hjá honum, hvers vegna tekur hann ekki frekar laxveiðiárnar á leigu? Það hlyti að mælast betur fyrir og vera auðveldara og gera sama gagn. Af hverju gerir hann það ekki?

Tuesday, November 9, 2021

Stríð fólksins

Valdaránið í Mjanmar? Kommúnistaflokkur Burma lýsir yfir stríði fólksins.

Tuesday, November 2, 2021

Sameining sveitarfélaga

Það er mikið talað um sameiningu sveitarfélaga og sjaldan á neikvæðum nótum í opinberri umræðu. Þó heyrir maður hvaðanæva að um neikvæða upplifun íbúa minni sveitarfélaga, sem sameinuðust stærri. Aðallega niðurskurð á þjónustu. Ætli það sé þessi hagkvæmni sem sóst er eftir? Að skera bara niður þjónustu í litlum byggðum?

Á sama tíma er undarlega lítið talað um sameiningu stærstu sveitarfélaganna. Það mundi skila miklum samlegðaráhrifum að sameina Reykjavík og Kópavog og Seltjarnarnes. Og Garðabæ líka. Það ætti í alvörunni að gefa því meiri gaum.

Tuesday, October 26, 2021

Um málfrelsi

Málfrelsi þýðir að ríkið refsi okkur ekki fyrir að tjá skoðanir okkar. Það þýðir ekki að það megi segja hvað sem er hvar sem er.

Málfrelsi eru þegar settar skorður í lögum og víðar, meðal annars bann við hatursorðræðu. En hvað er hatursorðræða annars? Þarf að vera illur ásetningur að baki? Eða er tillitsleysi kannski nóg? Eins og að taka ekki tillit til tilfinninga sem gætu verið viðkvæmari en hjá manni sjálfum, kannski vegna ævilangrar jaðarsetningar?

Við sem fæðumst með relatíf forréttindi getum ekki ætlast til þess að fólki af jaðarsettum hópum líði eins og okkur með alla hluti. Við getum t.d. ekki bara afskrifað homma sem húmorslausa fyrir að sárna að vera notaðir sem blótsyrði eða efni í grín. Þykir kannski einhverjum ennþá sjálfsagt að "hommar og kerlingar" sé samheiti við væskla og skræfur?

Og ef transfólk kvartar undan því að því líði illa í einhverjum aðstæðum, þá á að hlusta á það en ekki gera lítið úr því eða furða sig á hvað það sé hörundsárt. Eða óttaslegið.

Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að þurfa stöðugt að rökræða tilvistarrétt sinn, þurfa að sitja undir niðrandi orðum, eða þá ásökunum um ofurviðkvæmni þegar það mótmælir, -- og þykjast á sama tíma ekki samþykkja hatursorðræðu.

Mikilvægi málfrelsis snýst nefnilega ekki um heilagan rétt fólks í sterkri stöðu til að hnýta í fólk í veikri stöðu.

(Birtist áður á Facebook.)

Tuesday, October 19, 2021

Hvað með að banna kaþólsku kirkjuna?

Í lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög er sagt að ekki megi "fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu". Nú get ég ekki skilgreint hvað það er, en að nauðga börnum er að minnsta kosti langt fyrir utan það. 216.000 í Frakklandi. Tvöhundruð og sextánþúsund fórnarlömb kirkjunnar. Eða ... kannski 330.000 ef kaþólskir skólar eru taldir með.

Þessi árátta kaþólsku kirkjunnar fyrir því að misnota börn er auðvitað ekkert minna en sjúkleg. Er skýringin krafan um skírlífi? -- Hvers lags fábjána dettur í hug að halda að barnamisnotkun geti flokkast undir skírlífi? Og hvað er í höfðinu á fólki sem kallar hinsegin fólk öfugugga, en ver á sama tíma kaþólsku kirkjuna með kjafti og klóm?

Og ef þetta væru bara einangruð tilvik. En þessir frönsku perraprestar skipta þúsundum. Og hinir hylma yfir með þeim. Þannig að þetta er greinilega kerfisbundið. Þetta er bundið við stofnunina, ekki eitt og eitt skemmt epli.

Og kaþólska kirkjan biður um fyrirgefningu. Ósmekklegur brandari. Fokkið ykkur. Fast.

Tuesday, October 12, 2021

Fólk en ekki flokka

Þið sem hafið undanfarið hneykslast á því að Birgir Þórarinsson hætti í Miðflokknum og gekk í Sjálfstæðisflokkinn, -- og þið sem hafið undanfarið talað um að þið viljið kjósa "fólk en ekki flokka" -- stalðrið þið nú aðeins við: Ef þið viljið "fólk en ekki flokka" þá er Birgir Þórarinsson nýbúinn að gefa ykkur sýnishorn af því hvað það þýðir. Viljið þið það?

Ætti þingmaður frekar að segja af sér og víkja fyrir varamanni sínum, ef hann þolir ekki lengur að starfa með flokknum sem hann var kosinn fyrir? Þá er það flokkurinn sem á þingsætið, ekki þingmaðurinn. Þá er það flokkur, ekki þingmaður sem fólk kýs. Viljið þið það?

Ég er ekkert að segja hvað ég vil -- ég hef satt að segja ekki sterka skoðun á þessu. En mér leiðist þegar fólk ruglar saman eða skilur ekki grundvallaratriði, og það er algengt í íslenskri umræðu. Eiginlega verðskuldar það greinaflokk.

En hvað um það: Það eru auðvitað til hugvitssamlegar og/eða blandaðar lausnir á kosningakerfum, sem ég nenni ekki að fara út í. En listakosningar hjá okkur eru til þess að við getum haft hlutfallskosningu, í stað óhlutbundinnar kosningar. Vissuð þið það? Að það er persónukjör í sumum sveitarfélögum á Íslandi? Það er kallað óhlutbundin kosning. Það virkar eiginlega eins og einmenningskjördæmi: Sigurvegarinn hreppir allt. Einfaldur meirihluti kjósenda getur tekið sig saman um að kjósa eins, og ná þá öllum sætunum fyrir sitt fólk.

Dæmi: Árið 2018 stóðu deilur um Hvalárvirkjun í Árneshreppi. Þar búa bara 42 manneskjur og þar er óhlutbundin kosning. Fimm virkjunarsinnar fengu 23-24 atkvæði og þar með öll fimm sætin í hreppsnefndinni. Þar er enginn minnihluti eða stjórnarandstaða. Þetta er persónukjör. Viljið þið hafa þetta svona?

Gætið þess, hvers þið óskið. Eða vinnið að minnsta kosti heimavinnuna ykkar áður.

Tuesday, October 5, 2021

Textaðar sjónvarpsfréttir

Þegar RÚV flytur fréttir um heyrnarlausa, þá eru þær hafðar textaðar. Væntanlega til þess að heyrnarlausir geti fylgst með þeim. Ekkert um okkur án okkar og þannig.

En hei, dettur engum í hug að heyrnarlausir gætu haft áhuga á fréttum um eitthvað annað en heyrnarlausa? Hvaða bull er þetta?

Tuesday, September 28, 2021

Efni sem breyta tilfinningunum

Það var einn félagi minn sem var svo þunglyndur að hann leitaði til geðlæknis sem skrifaði upp á lyf fyrir hann. Hann byrjaði að taka lyfið en hætti því eftir nokkra daga. Sagðist ekki kunna við að vera að taka inn eitthvert efni sem breytti tilfinningunum hans.

Þannig að í staðinn tók hann bara upp þráðinn við að drekka áfengi í miklu magni.

Tuesday, September 21, 2021

Afsakanir kjósenda

Versta sóunin á atkvæði er að kjósa fólk sem segir eitt en gerir annað.

Eins og vinstrimenn sem sögðust fyrir fjórum árum ætla að "kjósa taktískt í þetta sinn", héldu að þeir hljómuðu ógurlega gáfulega og kusu síðan VG til að "sóa ekki atkvæði sínu". Þeir sóuðu atkvæði sínu. Bon appétit.

Ef ég hefði fengið eitt atkvæði fyrir hvert skipti sem ég hef heyrt þessa afsökun, þá væri ég á alþingi núna.

Tuesday, September 14, 2021

Of hófsamar viðvaranir

Maður heyrir stundum forstjóra Landspítalans segja að nú sé ástandið komið "að hættumörkum", þótt allir sem vinna á gólfinu á Landspítalanum -- og flestir aðrir líka -- viti að það er löngu komið yfir þessi hættumörk, að spítalinn er að molna og mygla í höndunum á okkur vegna fjársveltis og annarra pólitískra fáráða hægrimanna allra flokka undanfarna áratugi.

Og næsta oft vara loftslagsvísindamenn við því að hnattræn hlýnun sé farin að "nálgast" varasamt stig, að nú þurfi að fara að fara að stíga niður fæti og gera eitthvað. Heldur einhver að svona hófsamt orðalag hvetji einhvern til dáða? Hagsmunaöfl auðvaldsins taka hófseminni þannig að það liggi ekkert á, og ef fólk tekur sterkar til orða munu þau þykjast vera móðguð eða sár eða að dónaskapur sé ekki svaraverður. Á meðan jörðin brennur.

Fortölur duga ekki til, hvorki til að bjarga Landspítalanum né umhverfinu. Hvorki hófsamar né gífuryrtar fortölur. Vegna þess að það eru hagsmunaöfl sem halda í hinn endann. Fortölur eða rök hagga hagsmunum yfirleitt ekki. Til þess þarf vald. Sem sést best á því að þessir sömu hagsmunir eru varðir með valdi, ekki með rökum. Það þarf með öðrum orðum byltingu. Og núna er smáborgaralega heybrókin hætt að lesa.

Ef það á að rökræða allt þangað til allir verða sammála, mun ekkert breytast. Eins og þegar íhaldið heimtar "sátt" um breytingar á stjórnarskránni eða kvótakerfinu.

Þegar er komið yfir þessi hættumörk -- hvernig haldið þið að sé þá umhorfs? Í tilfelli Landspítalans verður þjónustan verri, pláss yfirfyllast, biðlistar lengjast, starfsfólkið bugast og mórallinn versnar, fólki er vísað frá, fólk vísar sjálfu sér frá áður en það kemur vegna þess að það á ekki fyrir komugjöldum... Í tilfelli loftslagsins? Ástralía brann í fyrra. Nú Kalifornía og Rússland. Móðan í loftinu er meira að segja meiri en af eldgosinu sem er við hliðina á okkur.

Surtur fer sunnan með sviga lævi ...... sól tér sortna. Vituð ér enn, eða hvað?

Hvað þarf eldurinn að vera kominn nálægt þínu húsi áður en þú leggur frá þér hvítvínsglasið og hættir að dást að eldrauðu sólarlaginu?

Tuesday, September 7, 2021

Stjórnmálahreyfing sem minnir á sértrúarflokk

Pólitísk skyldleikaræktun leiðir til pólitískrar úrkynjunar.

Það er engum hollt að lesa bara það sem hann er sammála eða trúir. Eins og bókstafstrúarmaðurinn sem les ekkert nema það sem aðrir bókstafstrúarmenn skrifa. Ef hin hliðin er bara bull, þá er samt hollt að þekkja hana.

Krati sem hefur ekki lesið Þjóðfélagsumbætur eða byltingu eftir Rósu Luxemburg, eða anarkisti sem hefur ekki lesið Ríki og byltingu eða Vinstri róttækni eftir Lenín -- eiga mikið eftir ólært.

Svo verður fólk sér bara til skammar þegar það kannast aðeins við aðra hliðina. Ég man eftir einum dönskum anarkista sem baulaði eitthvað sem hann hafði séð í kvikmyndinni "Land and Freedom" um vondu kommúnistana sem myrtu góðu anarkistana í spænska borgarastríðinu. Sem eyðilögðu allt. Flón, lestu þér til. Lestu um verkföllin í hergagnaverksmiðjunum, sem anarkistarnir og trottarnir skipulögðu, og grófu þannig undan stríðsátaki lýðvæeldisins að halda mætti að þeir hefðu verið agentar úr fimmtu herdeildinni. Hafðirðu ekki heyrt um það? Og trúir mér kannski ekki? Kannski hefðirðu átt að hlusta á fleira en áróðurinn einan.

Tuesday, August 31, 2021

Niður með þá alla!

Niður með síðustu ríkisstjórn!

Niður með núverandi ríkisstjórn!

Og niður með næstu ríkisstjórn!

Tuesday, August 24, 2021

Ósannmæli um kommúnista

Þegar kommúnisminn er annars vegar, fara tilfinningar fólks svo á flug að fáir njóta sannmælis sem lenda þar á milli. Dæmi: Trotskí. Hann tapaði slagnum um Sovétríkin. Hann og sigurvegarinn (Stalín) voru erkióvinir. Stalín var líka (réttilega) erkióvinur í augum vestrænna burgeisa. Þannig að Trotskí fékk meiri sǽns eða samúð. Það er ódýrt að vera trotskíisti á vesturlöndum eftir seinni heimsstyrjöld, því engum heilvita burgeisa dettur í hug að auðveldinu stafi ógn af þeim.

Lenín. Einhverjum róttæklingum finnst ekki kúl að lesa Lenín vegna þess að hann er löngu dauður karl. Meira að segja hvítur. Það eru ótrúlega billeg rök gegn fremsta marxista 20. aldar og algjörlega ósamboðin kommúnista. (Ég tek það sérstaklega fram vegna þess að ég hef heyrt yfirlýstan kommúnista segja þetta.) Álíka hlægilegt er það að heyra anarkista hafa rosa skoðanir á Lenín, byggðar á því að hafa ekki lesið neitt eftir hann ... sérstaklega þá sem hafa þenna barnatrú á afnám ríkisvalds, en hafa samt ekki lesið Ríki og byltingu Leníns. Sá sem hefur ekki lesið hana er ekki gjaldgengur í umræðu um ríki og byltingu.

Eða Rósa greyið Lúxemburg, hvers á hún að gjalda? Sú Rósa Luxemburg sem var fædd 1871 og drepin af í ársbyrjun 1919 á lítið skylt við þá Rósu sem maður hefur heyrt krata og anarkista hampa. "Hún gagnrýndi Lenín og Sovétríkin" segja þeir, "við styðjum hana vegna þess." Lesið bók, flón. Lesið hvers eðlis gagnrýnin var, lesið um það er hún skipti um skoðun og umfram allt, lesið hennar eigin málflutning, eins og Þjóðfélagsumbætur eða byltingu. Sá krati sem les hana og er áfram krati, er óforbetranlegur.

Í Indlandi er svolítið svipaða sögu að segja um Bhagat Singh. Hann var mjög róttækur og herskár. Drepinn af Bretum 1931. Í dag -- hampað af öllum sem vilja eigna sér heiður af róttækri þjóðfrelsisbaráttu.

Mér koma í hug orðin "hinn þýski, þjóðlegi Marx" ... þegar menn reyndu að snúa gamla manninum sjálfum upp á auðvaldið og þjóðríkið.

Allrabestur finnst mér samt karlinn sem þrátt fyrir rauðar rætur var löngu sæztur á endurskoðunarstefnuna og snerist öndverður gegn Stalín, fordæmdi hann og kallaði hann geðsjúkling og ég veit ekki hvað. Sami sagði að allt öðru máli gegndi um Maó.

Það er vandlifað.

Tuesday, August 17, 2021

Ráðherrabílar og strætó...

Sósíalistaflokkur Íslands hefur gefið út að það eigi að afnema ráðherrabíla. Þetta er yfirborðslegt loforð og auk þess ekkert framsækið; ráðherrar hafa auðvitað ekki einkabílstjóra fyrst og fremst út af snobbi, heldur til þess að geta unnið í bílnum, t.d. talað í síma eða lesið. Frekar vildi ég fá góðan ráðherra heldur en að spilla bara fyrir lélegum ráðherra.

Hvað um það, einhver nefndi að ef ráðherrar neyddust til að taka strætó, þá mundi strætó batna vegna þess. Ráðherrarnir mundu laga kerfið sem þeir notuðu sjálfir. Hahaha. Haldið þið að það sé ekki millistig milli strætós og ráðherrabíls með einkabílstjóra? Og hafið þið séð hvernig umferðin er í Reykjavík?

(Borgarstjóri býr í göngufæri frá ráðhúsinu. En það er ekki aðalatriði í þessu.)

Tuesday, August 10, 2021

Bloggið lifi

Einn af kostunum við það að blogga, er að maður hefur frið fyrir síbyljunni á Facebook. Það er nú ljóta fyrirbærið.

Af hverju eru annars ekki gefin út nein almennileg dagblöð lengur? Ég ætla að voga mér að halda því fram, að það hafi verið til ills að hverfa frá flokksblöðunum. Ég vildi miklu frekar lesa frétt sem ég veit að er skrifuð út frá svipuðum skoðunum og ég hef sjálfur.

Tuesday, August 3, 2021

"Vel að vígi"

Það er svei mér gleðilegt ef Ísland "stendur vel að vígi" ef heimurinn hrynur. Ég hlakka til að geta boðið hálfum milljarði manns hæli hér.

Tuesday, July 27, 2021

Taktísk afglöp

Allt þetta fólk sem hélt að það hljómaði svo gáfað þegar það sagðist að vísu styðja stefnu Alþýðufylkingarinnar, en ætla "að kjósa taktískt í þetta skipti" og kaus svo VG (eða Pírata) ... það hljómaði ekkert gáfað. Það lét bara lokka sig til að gefa tækifærisstefnunni brautargengi einu sinni enn. Verði ykkur að góðu.
Best var auðvitað fólkið sem viðurkenndi að VG væri að vísu tækifærissinnaður flokkur, en að það yrði bara að hafa það að kjósa þau, í því skyni að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Það trompaði allt. Verði ykkur að góðu. 

Tuesday, July 20, 2021

Aldur og kyn í pólitík

Tilraun Miðflokksins til að breyta ásýnd sinni er óvenju skýrt dæmi um staðreynd sem mörgum yfirsést:

Pólitíkin skiptir meira máli en aldur og typpafjöldi.

Furðulegt hvað margir skilja ekki þetta einfalda aðalatriði. Vond pólitík batnar ekki við það að ung kona tali fyrir henni og það eru ekki rök gegn góðri pólitík (og með vondri), að miðaldra karl sé talsmaður. Það missir einfaldlega marks. Og gagnrýni á þessu plani missir almennt marks.

Áður en fólk á þessu plani  fer að misskilja mig viljandi vil ég taka fram að auðvitað eiga fleiri erindi í pólitík en miðaldra karlar, og aldur og kyn (og fleira) skipta auðvitað máli, en þegar þau ryðja öllu öðru frá sér er fókusinn farinn af því sem skiptir máli. Kannski er það stundum tilgangurinn, hvað veit ég?

Tuesday, July 13, 2021

Geðheilsuvandamálið sem einnig er byggðastefna

Ég hef oft sagt að húsnæðismálin á höfuðborgarsvæðinu séu stærsta geðheilsuvandamál þjóðarinnar. Pólitískt ákveðinn lóðaskortur gerir skort á íbúðarhúsnæði, sem spennir verðið upp eins og hægt er. Skuggalegur fjöldi heimilislausra segir ekki nema hluta af sögunni; miklu fleiri eru á hrakhólum og ná rétt svo að halda þaki yfir höfuðið. Og enn fleiri eru með stöðugar áhyggjur og kvíða -- raunhæfan kvíða -- vegna húsnæðiskostnaðar. Þurfa um leið að vinna meira en þeir ella þyrftu. Haldið þið að börnin fari varhluta af þessu? Þau gera það ekki. Þau taka þetta allt inn á sig, stressið, kvíðann, skortinn, og þau munu taka það með sér inn í fullorðinsárin í formi vandamála. Þess vegna er húsnæðisstefnan, sem hefur verið undanfarin 23 ár eða svo, vaxandi vandamál en fyrir löngu stærsti geðheilbrigðisvandi þjóðarinnar, og á eftir að halda áfram að skapa vanda næstu 75+ árin, sama þótt hann yrði leystur í dag.

Einu sinni var ekki kjallari svo saggafullur eða dimmur, að ekki mætti troða þangað barnafjölskyldu. Svo losnuðu braggarnir og kjallararnir tæmdust. Braggarnir urðu lélegir með tímanum og á endanum var byggt Breiðholt og braggarnir hurfu. Núna er löngu komið að því að byggja nýtt Breiðholt og útrýma ósamþykktu bælunum í iðnaðarhúsunum, og skúrunum í bakgörðunum.

En svo er hin hliðin. Þegar húsnæðisverð er orðið of íþyngjandi á höfuðborgarsvæðinu, þá er auðvitað ein lausn að flytja bara burt. Strax og maður er kominn norður fyrir Hvalfjörð eða austur fyrir Hellisheiði er verðið mun lægra. Að ég nú ekki tali um þegar lengra dregur.

Það væri hreint ekkert skrítið ef fólk gæfist bara upp á borginni og flytti jafnvel lengra burt. Og ég þekki reyndar allnokkra sem hafa gert það eða ætla að gera það. Ef það er byggðastefna, að halda landinu öllu í byggð, þá gæti húsnæðisstefna Reykjavíkur kannski flokkast sem eins konar byggðastefna. Hún hefur þessi óbeinu áhrif, þótt ekki komi til af góðu. Og auðvitað setur hún því um leið skorður, að fólk flytji til höfuiðborgarsvæðisins.