Tuesday, August 30, 2005

Hurricane Katrina og olían -- R-listi -- ábendingar


Í gær, mánudag, fréttist að olíuborpallar á Mexíkóflóa hefðu verið rýmdir vegna fellibylsins Katrínar. Olíuverðið stökk upp fyrir 70$$ tunnan. Það er talað um að olíuverðið hækki vegna óstöðugleika á olíuvinnslusvæðum. Það er rangt. Olíuverðið fer hækkandi vegna þess að eftirspurnin er að fara fram úr framboðinu. Olíulindir sem borgar sig að vinna fara þverrandi, en enginn stjórnmálamaður virðist hafa vit á því að stinga upp á að við stígum á bremsuna. Þegar einn fellibylur getur verið upp gefin ástæða fyrir því að hækka olíuverðið upp í 70,80$ tunnuna - þá sýnir það kannski betur en nokkuð annað á hvílíkum bláþræði markaðurinn hangir.
Annars er þessi fellibylur hrikalegur. Ég svona hálf býst við því að lesa fréttir á næstu dögum, um að FEMA-búðir hafi verið opnaðar fyrir íbúa New Orleans. Þær fréttir hef ég ekki séð ennþá, en hver veit? Hitt sem ég get ekki annað en hugsað um, er hvort þetta fái fólk til að hugsa meira um hækkandi hita á jörðinni og tengsl hans við ofsafengnara veðurfar. Hrærir þetta við fólki? Ef það gerir það ekki, þá veit ég ekki hvað þarf til. Hér getur annars að líta athyglisvert kort sem sýnir ölduhæð á Mexíkóflóa.

Arngrímur lýsti því að hann sæi samstarfi R-listaflokkanna ekkert til fyrirstöðu eftir kosningar. Mínu svari, upphaflega í kommentum, fleygi ég hér líka:
1. Ef þeir ganga klofnir til kosninga, þá munu þeir veitast hver að öðrum til að reyna að fa sem flest atkvæði á kostnað hinna. Á því græða engir nema andstæðingarnir.
2. Eftir kosningarnar eru R-listaflokkarnir ekki skuldbundnir hver öðrum - ef Sjálfstæðisflokkurinn nær ekki hreinum meirihluta, þá ætti hann auðvelt með að mynda meirihluta með samfylkingunni.
Annað hvort bjóða menn fram saman eða þeir bjóða fram hver í sínu lagi. Það verður enginn R-listi eftir þessar kosningar og ef svo fer sem horfir mun Sjálfstæðisflokkurinn vinna stórsigur. Hrun R-listans voru stór strategísk mistök.


Það er komin ný grein á Gagnauga: Eitrað fyrir heiminum. Umfjöllunarefnið er gervisætuefnið aspartam, sem margir, nei, flestir, neyta í meiri mæli en ráðlegt er. Tékkið á henni. Jamm.

Á Vantrú er síðan komin grein sem er óvenjulega mikil ástæða til að vísa á: Þið eruð húmanistar - ekki kristin. Oft eru frábærar greinar á Vantrú, en þessi hittir súpervel í mark. Tékkið á henni líka, það er skipun!

Doddi var að lesa Why People Believe Weird Things eftir Michael Shermer, og mér sýnist honum líka vel. Ég þarf að fara að koma því í verk að lesa hana líka. Michael Shermer er snillingur, held ég að mér sé óhætt að segja.

Monday, August 29, 2005

Ég skýrði frá því um daginn, að ég mundi ekki sakna R-listans mikið. En viti menn, ég hef skipt um skoðun. Ég er á því núna að R-lista-samstarfið hefði átt að halda áfram eins og það var. Annars á borgarstjóri Reykjavíkur næsta kjörtímabil eftir að verða úr röðum íhaldsins. Sagði ég "annars"? Martröð er að rætast fyrir augunum á mér. Íhaldið tekur aftur yfir borgina og Gísli Marteinn er í brúnni. R-listinn hefur ekki verið sem bestur. En eins og karlinn sagði, held það hafi verið Jónas frá Hriflu, "Allt er betra en íhaldið" -- þótt ég hafi ekki saknað R-listans um daginn, þá verð ég farinn að gera það eftir svona ár. Ég verð ekki einn um það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvíta-Rússlandi var um daginn bætt á listann yfir "útverði harðstjórnar" sem Bandaríkin hafa í sigtinu. Hvíta-Rússland, landið sem enginn man eftir. Ég mæli með þessari grein.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Pat Robertson er öfgamaður. Michael Rowland og Tony Eastley á ABC News reifa málið. Hafið þið séð annað eins? Er þetta ekki refsivert eða eitthvað? Þessi meistari, er fastur liður á Ómega. Það er viðeigandi. Þátturinn hans heitir The 700 Club og þar spýr hann sínu andlega eitri yfir áhorfendur sína. Lítið á "Hommahatur í Jesú nafni" og þetta líka. Hvaða stöðu hefur nú sá sem liðsinnir svona öfgamönnum og hjálpar þeim að dreifa hatursáróðri?

Ég er tískumógúll


Ég stóð á Hlemmi og beið eftir tólfunni. Framhjá mér stikar ungur maður, tæplega tvítugur, giska ég á. Hann var með barðastóran leðurhatt, íklæddur svörtum, allsíðum jakka, gallabuxum og í kúrekastígvélum. Hann hafði hárið í tagli og gleraugu á nefinu. Fyrir utan að minn svarti jakki er úr leðri en hans úr flóka, þá var hann eins klæddur og ég. Hatturinn hans var meira að segja brotinn á sama hátt og ég braut minn til skamms tíma.
Já, það fer ekki milli mála, ég er brautryðjandi þegar tískan er annars vegar. Ég byrjaði að safna hári, og ekki leið á löngu þar til flestir ungir menn virtust vera komnir með sítt hár. Ég fór að ganga í leðurbuxum, og áður en við varð litið sá ég annan hvern mann í leðurbuxum. Ég byrjaði að ganga með gadda-armband - og þau komust í tísku líka. Ég gæti látið dæluna ganga, en nenni því ekki. I've made my point. Ég elti ekki tískuna, ég leiði hana.

Saturday, August 27, 2005

Nokkuð svakalegt að komast loks til fæðingarbæjar síns og hitta ættingja eftir allt að 60 ára fjarveru! En hvaða rugl er nú þetta? - "Á hverjum stað sem rúta ferðalanganna stöðvaði þustu þeir út til að skoða staði sem líktum sögulegum minjum sem finna má í Suður-Kóreu en þá töldu ferðalangarnir merki um að þótt landinu hafi verið skipt í tvennt þá eigi löndin sameiginlega sögu." Skítt veri með málfarið - en Kórea er eitt land. Eitt land, ein þjóð, tvö ríki.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nahh! Vasklega gert.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
1.-2. október næstkomandi verður ráðstefna á Ítalíu, um írösku andspyrnuna. Sjá einkum hér, einnig hér og hér.
Án þess að það þurfi að koma neinum á óvart, þá er þrýstingur frá Bandaríkjamönnum um að ítalska stjórnin hindri framgang þessarar ráðstefnu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Niðurstaða nýrrar rannsóknar: Pillur hómópata eru jafn gagnlegar og plasebó. Þ.e.a.s. lyfleysa. Nei, það kemur mér ekki á óvart heldur. Hómópatía er kukl og á ekki við rök að styðjast. Sá sem getur sýnt fram á að hómópatía virki getur, bæ ðe vei, eignast milljón dollara hjá James Randi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Niyasov Turkmenbashi, sem sér Morgunblaðinu fyrir skemmtilegum fréttum annað slagið, er kannski ekki eins frámunalega vinsæll í Túrkmenistan og halda mætti af fréttum af honum. Turkmenistan Liberation Organization bjóða stórfé til höfuðs honum. Nú veit ég ekkert hvaða klúbbur það er - kannski er þetta frontur fyrir einhverja sem hyggja flátt - en í öllu falli þykir mér þetta áhugavert.

Thursday, August 25, 2005

Norður-Kórea - og Ísland


Norður-kóreskir vísindamenn hafa fundið upp nýja tegund af plasti, sem opinber fréttastofa Norður-Kóreu segir að sé alveg frábært. Meðal annars er sagt að það endist í meira en 50 ár. Hmm... voru þeir ekki að finna það upp? Hvernig vita þeir þá hvað það endist lengi?
Annars Norður-Kórea í 103. sæti á listanum yfir ungbarnadauða eftir löndum. Þar er ungbarnadauði minni en í Kína, Egyptalandi, Tyrklandi ... helmingi minni en meðaltal heimsins. Já, vissulega hangir Norður-Kórea á horriminni, en það hefur líklega sitt að segja að þar er heilbrigðisþjónusta ókeypis, svo og skólaganga, leikskólar, húsnæði og eitt og annað af því sem nauðsynlegt telst.
Vináttufélög Norður-Kóreu starfa í mörgum löndum. Samkvæmt þessum lista er til dæmis slíkt félag á Íslandi. Um félagatöluna veit ég ekkert, og reyndar ekkert nema nafn þess sem er gefinn upp sem fulltrúi félagsins á heimasíðum Norður-Kóreumanna, bæði á áðurnefndum lista yfir fulltrúa, og í tímaritinu Lodestar (PDF skjal, sjá síðu 9). Það væri athyglisvert að vita meira um þetta félag.
Nú, meira um Norður-Kóreu. Hún hefur diplómatísk samskipti við Ísland, í gegn um íslenska sendiráðið í Beijing og það norður-kóreska í Stokkhólmi (sjá Utanríkisráðuneytið: Sendi- og ræðisskrifstofur). Fréttastofan KCNA hefur síðan flutt ýmsar fréttir af samskiptum ríkjanna, sem af einhverjum ástæðum hafa allar farið fram hjá mér í íslenskum fréttum. Ég mundi endurbirta þær hér í fullri lengd ef þær tækju ekki of mikið pláss, svo ég vísa bara á þær í staðinn. Tékkið á þessu:
-* „Icelandic President on Relations with DPRK ... -- Iceland wishes to boost the relations with the DPRK and cooperate with it in the international arena, said Olafur Ragnar Grimsson, president of the Republic of Iceland, when receiving credentials from Jon In Chan, DPRK ambassador e.p. to Iceland, on June 15.“
-* „Greetings to Icelandic President ... on the occasion of the National Day of Iceland.“
-* „DPRK Foreign Ministry Arranges Friendly Meeting ... on the occasion of the 30th anniversary of the establishment of diplomatic relations between the DPRK and Nordic countries. Present on invitation were diplomatic envoys and embassy officials of Sweden, Denmark, Finland, Norway, Iceland in Pyongyang and guests of Nordic countries working in the DPRK.“
-* „Congratulations to Icelandic President ... on his reelection as president of the Republic of Iceland.“

Wednesday, August 24, 2005

Nepölsku sjöflokkarnir fallast á viðræður við maóista. (*) Það hlýtur að vita á gott: Maóistar geta þá fengið styrk af þingræðisflokkunum og þingræðisflokkarnir temprað maóistana, en hvorir tveggja hjálpast að við að slá konungdæmið af. Maóistar hafa lengi sagt vilja lýðræðislegt lýðveldi og að þeir gætu þá takið þátt í þinginu eins og aðrir flokkar. Til þess þarf fyrst að svipta konunginn völdum. Því fyrr sem það gerist, þess betra.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þjóð stendur í þjóðfrelsisstríði en er leidd af afturhaldsöflum - stalínistum, þjóðernissinnum eða klerkum, til dæmis. Málstaðurinn er réttur - forystan röng. Hvaða afstöðu ætti maður þá að taka? Annars vegar getur maður stutt góðan málstað skilyrðislaust og eftirlátið viðkomandi þjóð að velja sér sjálf forystu. Hins vegar getur maður stutt alþýðu viðkomandi þjóðar en andæft forystunni sem svíkur hana - en þá hefur maður um leið sett skilyrði fyrir stuðningnum við málstaðinn; - maður styður baráttuna án þess að styðja rétt viðkomandi þjóðar til að velja sína eigin leiðtoga.
Hvað er rétt í þessu? Ég er ekki viss. Ýmsar þjóðir eru í þessari stöðu - reyndar veit ég hreint ekki um mörg þjóðfrelsisstríð leidd af raunverulega framsækinni forystu - og maður styður málstað þeirra um leið og maður veit að forystan er brigðul. Á hinn bóginn er vafasamt að ætla sér að fara að hafa vit fyrir fjarlægum þjóðum - en á hinn bóginn, er ekki rétt að benda á það sem maður sér að fer aflaga??
Þetta er dilemma sem hefur klofið marga samstöðunefndina, margan kommaklúbbinn, og á eflaust eftir að halda áfram að gera það. Sá sem getur komið með gott svar við þessu verður sæmdur Lenín-orðunni þegar ég verð aðalritari í þessu landi. :)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
73% Breta vilja fórna borgararéttindum í skiptum fyrir meira "öryggi" (*) - það þýðir að hræðsluáróðurs-herferðin sem er í gangi virkar eins og hún á að gera. Hvað er hræðsluáróður annað en terrorismi án blóðsúthellinga? Hræðsla = terror, ekki satt? Sá sem útbreiðir hræðslu útbreiðir terror - hann er á bandi með þeim sem vilja aukna hræðslu, aukinn glundroða, aukið lögregluvald og eftirlit í samfélaginu.
Það eru ekki allir terroristar skuggalegir múhameðstrúarmenn með fjóra fingur af skeggi. Terroristarnir sem ráða úrslitum eru hvítir karlar í jakkafötum. Sumir hafa aðsetur í Washington og sumir í London - og fáeinir meira að segja í Reykjavík.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Televangelist Robertson Calls for Assassination of Venezuelan President" (*) - Pat Robertson, lærisveinn Ésú, handhafi sannleikans og kærleikans. Góðkunningi þeirra sem horfa á Ómega.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Cindy „Sheehan has revealed both the strength and the weakness of the left. We have a political agenda that can command considerable mainstream support; yet we do not have a political leadership willing or able to articulate those agendas. We wield political influence; we lack legislative power.“ (*)
-- Gary Younge, The Guardian
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„The Pentagon, acting under instructions from Vice President Dick Cheney’s office, has tasked the United States Strategic Command (STRATCOM) with drawing up a contingency plan to be employed in response to another 9/11-type terrorist attack on the United States. The plan includes a large-scale air assault on Iran employing both conventional and tactical nuclear weapons.“ (*)
-- Philip Giraldi, frv. CIA Officer, The American Conservative
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það styttist í 5. nóvember. Þann dag verða 400 ár liðin frá því upp komst um Gunpowder Plot Guy Fawkes og félaga árið 1605. Þar var nú eitt hryðjuverkið þar sem ekki var allt sem sýndist. Meira um það seinna.

Tuesday, August 23, 2005

Cindy Sheehan skrifar um baráttuna, hreinskilnina, hræsnina, lygarnar. Robert Shetterly skrifar um Cindy og þegar hann málaði málverk af henni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Bandarískur hermaður segist hafa haft fyrirmæli um að misþyrma föngum í Abu Ghraib.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Kurt Nimmo skrifar um sálfræðihernað, sem hluta af Full Spectrum Warfare.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lesið um Operation Gladio - það var prógram sem snerist um að útsendarar CIA og NATO frömdu hryðjuverk á Ítalíu, sem kommúnistum var kennt um, til þess að réttlæta hertar "öryggis"ráðstafanir og koma í veg fyrir að kommúnistar kæmust til valda þar.
Í tengslum við þá ofbeldisöldu var Antonio Negri dæmdur í langt fangelsi. Sá sem skrifaði þetta er ekki hrifinn af Negri, kallar hann tækifærissinnaðan og trúgjarnan kjána.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég trúi ekki opinberu sögunni um atburði 11. september. En ég tel reyndar að (a) það hafi flogið flugvél á Pentagon og (b) WTC-turnarnir hafi ekki verið jafnaðir við jörðu með sprengiefnum.
Varðandi flugvélina sem fór í Pentagon er engu að síður ýmislegt skrítið. Af hverju sést hún ekki á myndum úr öryggismyndavélum? Hvers vegna er flestum myndunum haldið leyndum? Hvers vegna sprakk eldhnötturinn eins og hann gerði? Hvernig fóru þeir sem flugu vélinni að því að fljúga henni í hrikalega krappa beygju áður en þeir brotlentu henni?

Monday, August 22, 2005

Satt ... en frekar dorkí.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lesið hinn ágæta greinarstúf „Harðlínumaðurinn vann umbótasinnann“ eftir Sverri Jakobsson aftur, og lesið því næst fréttina „Samansafn af afturhaldssinnum“ á Vísi. „Eru ráðherrarnir flestir taldir örgustu afturhaldssinnar og andsnúnir þeim umbótum sem fyrirrennarar þeirra á síðasta kjörtímabili hafa staðið fyrir.“ Gildishlaðið málfar? Frá hvaða sjónarhorni er þetta skrifað?
Svo lengi sem Bandaríkjamenn eru gráir fyrir járnum á þröskuldinum hjá Írönum, held ég að þeir ættu bara að koma sér upp kjarnorkusprengjum sem fyrst. Þannig gætu þeir tryggt sér fælingarmátt til þess að verja land sitt fyrir Bandaríkjunum. Það virðist ekki veita af. Hvað ætli Kalda stríðið hefði verið kalt ef Sovétmenn hefðu ekki átt kjarnorkusprengjur líka?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fleyg orð: „Einhverjir sakleysingjar héldu að Bush mundi kannski skipa aðra konu í hæstarétt. Það fólk skilur ekki eðli illskunnar.“ (Sverrir Jakobsson)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ian Blair segist ekki ætla að segja af sér - það mætti halda að hann væri Íslendingur. Staðinn að lygum um málsatvik þegar Brasilíumaðurinn saklausi var myrtur með köldu blóði, og hefur óspart varið þá stefnu bresku lögreglunnar að skjóta til að drepa. Þessi skíthæll ætti að segja af sér og það tafarlaust.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„Yfirvöld í Lundúnum ætla að eyða milljónum punda í auglýsingaherferð sem miðar að því að fá ferðamenn til borgarinnar en þeim hefur fækkað mikið í borginni síðan hryðjuverkaárásirnar voru gerðar í lestum og strætisvagni borgarinnar þann 7. júlí síðastliðinn.“ (*)
Hér er ókeypis ráð handa borgaryfirvöldum London (ef þau kunna íslensku): Ástæðan fyrir því að ég er ekki iðandi í skinninu yfir að koma til London er sú að það er þrúgandi að vera þar og maður getur ekki um frjálst höfuð strokið. Síðast þegar ég var þar sá ég svo margar eftirlitsmyndavélar að mér leið beinlínis illa -- sumar myndavélastæðurnar minntu úr fjarlægð helst á furuköngla! Ég hlakka til að koma til London þar sem maður getur í sakleysi sínu farið óséður inn á pöbb og kveikt sér í vindli með samþykki húsráðanda. Hvenær eða hvort það verður veit ég ekkert um.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í staðinn fyrir að láta mótmælendur komast upp með múður verður bráðum hægt að halda þeim í skefjum með því að steikja á þeim húðina með þar til gerðri vél. Það verður aldeilis gaman að vera óánægður með ástandið þegar lögregluríkið er orðið svo yfirþyrmandi að það er ekki einu sinni hægt að andmæla því lengur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvað varð um mál Mumia abu Jamal? Hann, sem allir voru að tala um fyrir svona áratug síðan, situr ennþá í fangelsi og hefur það ennþá jafn skítt. Hafa íslenskir unglingar gleymt honum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
90% Chechena undir fátæktarmörkum. Það setur að mér hroll yfir níðingsskap Rússa í Checheníu (já, Bandaríkjamenn eru ekki eini kölskinn!) ... þetta litla lýðveldi sem berst fyrir sjálfstæði og er beitt skefjalausu ofbeldi og valdníðslu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Tékkið á þessari snilld!

Sunday, August 21, 2005

Eitt af einkennum óheiðarlegs eða óvandaðs málflutnings er þegar menn endurtaka röksemdir sem hafa þegar verið hraktar. George Bush sagði „Þeir vita að ef við tökumst ekki á við þessa vondu menn í útlöndum, megum við eiga von á að mæta þeim einn daginn í okkar eigin borgum og á okkar eigin götum. Þeir vita að það er öryggi hvers einasta Bandaríkjamanns í húfi í þessu stríði og þeir vita að við munum ekki gefast upp“ -- ég veit ekki hvort þessi maður er heimskingi, glæpon eða hvort tveggja (hallast helst að því síðastnefnda) - en mér er ennþá minnisstætt þetta athuglisverða viðtal við Robert Pape.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þessi grein Ármanns Jakobssonar fór framhjá mér -- en nú hef ég séð hana. Heyr heyr!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Doddi skrifar um McLibel-réttarhöldin - þið ættuð að lesa það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Páfi hvetur múslímaleiðtoga til að vinna gegn öfgum“ -- honum væri nær að hvetja stjórnmálaleiðtoga til að vinna gegn örbirgð og örvæntingu og gegn stríði og mannréttindabrotum.

Friday, August 19, 2005

Við Reykjavíkurtjörn suðvestanverða stendur stórt, dökkgrænt tjald, sem til skamms tíma stóð við Kárahnjúka. Það tjald hefur tekið við hlutverki mótmælabúðanna eða, réttara sagt, hýsir núverandi mótmælabúðir. Lítið endilega við ef þið eigið leið hjá. Þarna verður dagskrá fram að mánaðamótum.
Á morgun verður mótmælaskrúðganga frá Hallgrímskirkju kl. 13 og gengið niður að Tjörn/í Hljómskálagarð þar sem verður sprell. Komið og takið þátt. Mótmælendurnir, sem iðulega eru látnir líta út eins og ungæðislegir, nytsamir sakleysingjar, ellegar þá ofstopafullir öfgamenn, hafa verið hafðir fyrir rangri sök. Þetta er hið ljúfasta fólk.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Andfélgsleg [sic] hegðun nudduð á brott - þetta minnir mig næstum bara á "Galdra og pólitík". Að kalla hegðun barna úr fátækrahverfum "andfélagslega" er einfaldlega tilraun til þess að kriminalisera kúltúr æskunnar. Það leysir engan vanda heldur býr til afbrotamenn úr krökkum sem hafa ekkert gert af sér. Vandamálin, sem vissulega eru til staðar í fátækrahverfunum, stafa af fátækt. Það er fátæktin sem þarf að leggja til atlögu við, og það verður ekki gert með neinu handleggjanuddi. (Kannski að þetta nudd sé samt í sjálfu sér ekkert slæm hugmynd...)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eini maðurinn sem dæmdur hefur verið vegna hryðjuverkaárásanna gegn Bandaríkjunum var í dag dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir þýskum dómstól þegar mál hans var tekið þar fyrir að nýju. Maðurinn, Mounir Motassadeq sem er marokkóskur, var dæmdur fyrir að hafa verið félagi í hryðjuverkasamtökum en dómurinn var kveðinn upp í Hamborg.
Hins vegar var kveðið upp fyrir dómnum að engar sannanir lægju fyrir um að Motassadeq, sem er 31 árs, tengdist árásunum í Bandaríkjunum með beinum hætti.
(Mbl)
Hann tengdist árásunum 11. september ekki, segir dómstóllinn. Það hefur enginn annar maður verið dæmdur fyrir aðild að árásunum, og dómi þessa náunga var hnekkt/breytt við áfrýjun. Athugið svo eitt: Á skjalinu þar sem Ósama bin Laden sjálfur er eftirlýstur af FBI eru talin upp nokkur ódæði sem hann er sagður tengjast -- en þar er 9/11 ekki á meðal! Hverju sætir??
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„Grátandi fjölskyldur voru dregnar út af heimilum sínum og settar nauðugar upp í flutningabíla“ (*) og „[í]sraelskir lögregluþjónar og landnemar grétu saman þegar brottflutningur hófst frá stærstu landnemabyggð gyðinga á Gaza-svæðinu í dag.“ (*)
... mér sýnist hluttekningin vera talsvert meiri hjá Vísi, þegar það eru gyðingar sem eru fluttir nauðungarflutningum, en mig minnir að hún sé þegar Palestínumenn eiga í hlut. Ég hef spurt mig hvort fréttaflutningur af þessu sé of mikill. Þetta er PR-stunt og taktískt undanhald, sem er til þess hugsað að slá ryki í augu heimsbyggðarinnar og láta líta út fyrir að Ísraelar séu þó að gera eitthvað. En í raun eru þeir bara að styrkja sína eigin vígstöðu með því að sleppa takinu af nokkrum stöðum sem eru mjög kostnaðarsamir. Á sama tíma eru þeir í óða önn að koma upp aðskilnaðarmúrnum og dettur ekki í hug að leggja niður stærri landtökubyggðirnar á Vesturbakkanum - sem eru, allar sem ein, kolólöglegar. Athugið líka að annars vegar þessi aðgerð er einhliða en ekki í samráði við Palestínsku heimastjórnina. Hins vegar er það auðvitað sigur í sjálfu sér fyrir Intifada Palestínumanna, að þeim takist að hrekja Ísraela úr víghreiðsum sínum á Gaza. Það er sigur fyrir Intifada, og ekki skrítið að Palestínumenn fagni því sem vissulega er sigur, þótt varnarsigur sé.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Næstum því allir Íslendingar voru á móti því að Ísland styddi árásina á Írak. Samt mættu ekki nema nokkur þúsund manna á útifund til að mótmæla henni. Jafnvel þótt það væri gott veður. En þegar til stendur að horfa á trúða og drekka áfengi, þá er búist við 100.000 manns. Ég get ekki annað en sagt það sem mér dettur í hug, þótt ég viti að það sé óvinsælt meðal margra skoðanasystkina minna:
Það er eitthvað bogið við þennan mótmælakúltúr. Annað hvort er eitthvað að (a) mótmælum sem slíkum eða (b) þjóðinni sem slíkri. Eða eru fleiri möguleikar? Ég sé ekki betur en að annað hvort sé brotalömin sú að mótmælafundir séu illa sóttir vegna þess að fólk telur þá ekki hafa nein áhrif, ellegar þá að fólki standi svo á sama að það nenni ekki að standa upp af rassgatinu og slökkva á sjónvarpinu í einn klukkutíma.
Því miður held ég að það sé ekki sanngjarnt að segja að það sé fólkið sem sé svona miklir vitleysingar. Mótmælafundir eru fyrirsjáanlegir og ráðamenn búast við mótmælum þegar þeir taka ákvarðanir sem þeir vita að eru óvinsælar. Hvenær áorkaði mótmælafundur síðast einhverju á Íslandi? Þá held ég nú að beinar aðgerðir, hvort sem þær eru að hlekkja sig við vinnuvélar eða sökkva hvalaskipum, séu nú árangursríkari. En ennþá erum við reaktíft-megin við hið pólitíska frumkvæði.
Fólk vill búa við annars konar samfélag. Eftir hverju er það að bíða, með að byggja það bara upp? Það gerist ekki af sjálfu sér, sama hversu lengi við bíðum. Nýtt samfélag verður ekki skapað á löggjafarþingi. Og umfram allt verður það ekki að veruleika með því að mótmæla sjúkdómseinkennunum á því gamla. Jamm, það er ekki eftir neinu að bíða.
Segi ég og held áfram að sitja á rassgatinu sjálfur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lögregla ósátt við aðdróttanir“ um að hún láti undan pólitískum þrýstingi. Ja, ég er bara ósáttur við að hún láti undan honum. Ef hún hættir því, þá hætta líka „aðdróttanirnar“. Aðfarirnar gegn mótmælendunum hafa verið lögreglunni til háborinnar skammar. Ofbeldi, hótanir, einelti, njósnir. Símahleranir, heimildarlausar húsleitir, hrindingar á prófessorum á áttræðisaldri, óeðlilega mikil eftirför í leyfisleysi ... án þess að neitt af glæpasamtökunum sem eru að fremja umhverfisspjöll fyrir austan hafi lagt fram kæru (af ótta við neikvæða umfjöllun og að í málaferlunum verði dreginn fram skítur um þá). Þrýstingurinn er pólitískur. Þeim er gefið að sök að vera ógn við öryggi og allsherjarreglu. Ógn við öryggi eru þeir ekki, og hvað í andskotanum er eiginlega allsherjarregla? Er hún skilgreind í lögum? Nei, þeim verður bolað úr landi til þess að hindra þau í að viðra skoðanir sínar. Auk þess verður síðasti mótmælandinn hvort sem er farinn af landinu fyrir mánaðamót, þannig að brottreksturinn - ólöglegur, að sjálfsögðu - er ekki til þess gerður að koma þeim úr landi heldur er hann pólitískur, og til þess að þeir eigi ekki afturkvæmt næstu árin.

Já, lögregluofbeldi getur líka gerst hér.
„Harvard-háskóli í Bandaríkjunum er besti háskóli í heimi, samkvæmt lista ... yfir 500 bestu háskóla í heiminum. ... Enginn íslenskur háskóli er á listanum, að því er fram kemur á heimasíðu Aftenposten.“ (Mbl.)
Ha, kom það fram hjá Aftenposten að enginn íslenskur skóli væri á listanum? Hver bjóst við því? Hvaða íslenski skóli hefði átt að komast á þennan lista?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jæja, þetta er nú metnaðarfullt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef undanfarin 20 ár búið við gamla kirkjugarðinn í miðbæ Reykjavíkur. Í mörg ár hef ég leitað að svolitlu, sem ég fann síðan loksins í fyrradag! Það er sveppur sem ég hef heyrt að vaxi hvergi annars staðar á Íslendi en í þessum eina kirkjugarði - og ber það skemmtileg anafn fýluböllur. Þetta er réttnefni; hann lítur út eins og mjólkurhvítur tittlingur af manni, með dökkan hatt (eða ætti ég að segja kóng?), og þegar hróflað er við honum leggur af honum ákaflega vonda lykt - sem minnir helst á lyktina af soðnum mannaskít, ef einhver kannast við hana. Já, gleðidagur var þetta.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Paprikurnar í glugganum mínum braggast vel. Ein paprika gægðist út úr jurt fyrir svona þrem vikum og vex rólega - önnur er nýkomin fram, og á jurtunum eru knúppar eða grænjaxlar sem eru vísir að a.m.k. 15 í viðbót. Það er gaman að þessu. Ég hef komist að því að ég hef kannski verið helst til nískur á vatnið. Þær sem ég hef vökvað mikið (í það mesta, hélt ég), hafa vaxið hraustlegar en hinar sem ég hélt að ég vökvaði eðlilega mikið. Þannig að núna er ég orðinn örlátari á vatn handa þeim.

Thursday, August 18, 2005

21 útlendingi verður vísað úr landi fyrir ýktar og lognar sakir, 21 útlendingi sem þykir það mikið til landsins okkar koma að þau gerðu sér sérstaka ferð hingað til að berjast gegn eyðileggingu þess. Ég trúi því varla upp á Íslendinga að Kárahnjúkavirkjun sé að verða að raunveruleika. Þvílíkt flakandi sár í stærsta ósnortna víðerni sem fyrirfinnst í Evrópu. Að ríkisstjórnin skuli dirfast að leggja blessun sína yfir þetta -- nei, stuðla beinlínis að þessu -- á sama tíma og hún reynir að markaðssetja þetta vesalings land sem náttúruperlu norðursins. Perla schmerla. Eftir 20 ár verður ekki fallegt um að litast. Þá mun fólk allt í einu vakna upp við vondan draum: Hvað varð um fegurð landsins okkar? Hvað létum við gerast?
Kvótakerfið er að ganga af landsbyggðinni dauðri og fólk lætur það yfir sig ganga. Ef ég væri vestfirskur trillukarl, haldið þið að ég mundi láta bjóða mér að mega ekki róa til fiskjar? Ekki aldeilis. ÉG skil ekki í mönnum að brjóta ekki þessi fábjána lög. Óréttlátum lögum ætti enginn að fylgja. Ríkisstjórnarflokkarnir eiga hagsmuna að gæta í kvótakerfinu þannig að ekki munu þeir afnema það. Ekki forsætisráðherrann sem í tíð sinni sem sjávarútvegsráðherra kom því á til að byrja með. Til að fylla vasana af blóðpeningum. Júdasargulli. Kemur sínu eigin fólki (nema auðvitað sínum allra nánustu) á vonarvöl og býður svo upp á þetta helvítis rusl í staðinn, virkjun og álver. Að þetta eigi að laga atvinnuástandið er ryk sem slegið er í augu auðtrúa fólks, en er í raun skálkaskjól til þess að bandarísk stórfyrirtæki geti mokað inn peningum með því að rústa litla sæta landinu okkar.
Eigum við skilið að búa í þessu fallega landi ef við förum svona með það? Tja ... ef við skemmum það, þá verðum það víst við sem sitjum í drullunni í framtíðinni. Þeim svíður sem undir mígur. Verði okkur bara að góðu.
Ef á ferðinni væri heiðarlegur vilji til að forða sjávarplássum landsins frá hruni, þá yrði kvótakerfinu gjörbreytt og kvótanum úthlutað til sveitarfélaga sem byggðakvóta.

21 útlendingi verður sparkað úr landi, ólöglega, fyrir að mótmæla ólöglegri virkjun og ólöglegu álveri.

21 píslarvottur.

Wednesday, August 17, 2005

Palestína, R-listinn, smávegis fleira


Landtökukona kveikir í sér í mótmælaskyni. Þessi hreyfing messíanskra þjóðernis-bókstafstrúarmanna, Appelsínustakkarnir, er vægast sagt varasöm. Þeir nota sama einkennislit og stuðningsmenn Jústsénkós í Úkraínu og láta eins og þeir séu ísraelska útgáfan af sams konar hreyfingu, sem þeir eru ekki. Þeir eru fasistahreyfing í fæðingu - eða, réttara sagt, nýfædd fasistahreyfing. Þeir eru margir, mótiveraðir, öfgafullir, ofbeldishneigðir, sannfærðir um guðlegt réttmæti sitt og fullir af fyrirlitningu á nágrönnum sínum, Palestínumönnum. Því lýðræði, sem þrátt fyrir allt hefur þrifist í Ísrael, er líka hætta búin af þessum brjálæðingum. Svona samhentur, fjölmennur og vel skipulagður hópur á nefnilega frekar auðvelt með að taka völdin. Avnery spáir borgarastríði í Ísrael. Ég held að það sé of mikil bjartsýni. Frammi fyrir svona kónum kemur almenningur sjaldan nokkrum vörnum við. Þeir munu sennilega taka völdin án þess að þeim verði veitt ýkja mikil mótspyrna.
Þá verður grátur og gnístran tanna. Þá fyrst verður þjóðernishreinsun, sem um munar, framkvæmd á Palestínumönnum. Án þess að lítið sé gert úr þjáningum þeirra hingað til. „Ýtt út í eyðimörkina.“
Ekki síður uggvænlegt er til þess að hugsa, að það sama gæti gerst í Bandaríkjunum. Þar eru kristnir bókstaftrúarmenn voldugir og ríkir og með drjúgan hluta þjóðarinnar á sínu bandi. Demókratar eru í besta falli hlægilegir, í versta falli glæpsamlegir, þykjast vera valkostur við últra-hægrimenn, en eru ekki nema „diet últra-hægri“, ef svo má að orði komast. Í Bandaríkjunum er enginn sem núna er reiðubúinn að verja lýðræði og mannréttindi heima fyrir ef til kastanna kemur. Enginn. Eina aflið sem er fært um það er almenningur sjálfur, en hann er sjóvgaður og værukær, áhugalaus og afvegaleiddur - og auk þess óskipulagður.
Gott er til þess að hugsa að svona getur aldrei gerst á Íslandi. Nei, íslenskur almenningur er vakandi og með á nótunum. Lýðræðið stendur föstum fótum hérna vegna þess að almenningur stendur um það vörð. Hér kemst enginn upp með að fótum troða vilja almennings eða beita lúabrögðum eða baktjaldamakki til að ná sínu fram. ...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þegar umhverfisvinir héldu lautarferð á Austurvelli um helgina, þá þurfti valdstjórnin auðvitað að mæta og minna á hvað armur hennar væri langur. Handtók einn fyrir engar sakir og misþyrmdi prófessor á áttræðisaldri. Handtakan hefur fengið nokkra umfjöllun í fjölmiðlum, en hvernig stendur á því að maður hafi ekkert séð um prófessorinn sem var lemstraður eftir lögregluna?
Annars er komið upp tjald við Reykjavíkurtjörn (við suðvesturenda stóru tjarnarinnar), þar sem eitthvað verður um að vera á næstunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eins og R-listinn hefur verið upp á síðkastið held ég að ég eigi ekki eftir að sakna hans. Það er reyndar synd hvernig hefur farið fyrir þessu þó merkilega framtaki, að sameina vinstrivænginn og koma íhaldinu frá völdum í borginni – um leið og það er lærdómsríkt að listinn hafi á endanum kiknað undan sjálfum sér. R-listinn er ábyrgur fyrir ófáum heimskupörum sem gera það að verkum að áframhaldandi seta hans á valdastólum hefði ekki verið neitt sérstaklega jákvæð. Mun íhaldið standa sig betur? Ég efast um það (þótt ég viti það auðvitað ekki með vissu). Vilhjálmur Vilhjálmsson sagði í Mogganum að það góða gengi sem Sjálfstæðismenn væntu í komandi borgarstjórnarkosningum væri ekki að þakka klúðri R-listans heldur því sem Sjálfstæðismenn hefðu gert sjálfur. Della. Sjálfstæðismenn hafa veitt R-listanum aðhald á sama hátt og stjórnarandstaða gerir vanalega: Með því að gagnrýna flest sem stjórnin gerir. Sumt hefur vissulega hitt í mark, annað hefur verið klúðurslegra. Þegar öllu er á botninn hvolft reynist R-listinn fullfær um að skemma sjálfan sig innan frá upp á eigin spýtur.
Eins auðvelt og manni virðist það hefði gerað verið, að lappa upp á hann, eða jafnvel blása alveg nýju lífi í hann. Ef ég hefði ráðið þessu hefðu Framsóknarflokkurinn og skransalinn fengið að róa. Það hefði verið það fyrsta. Þátttaka og hlutverk Framsóknarflokksins nægir mér sem ástæða til að kjósa ekki R-listann. Síðan hefði ég boðið Frjálslynda flokknum að taka þátt í listanum á jafningjagrundvelli. Össur Skarphéðinsson hefði orðið borgarstjóraefnið og tveir varaborgarstjórar yrðu tilnefndir, annar úr VG og hinn úr F-listanum. Sætunum á listanum hefði ég skipt svona: SVFÓSVÓFSVFSVF þar sem S er Samfylking, V eru VG, F er F-listi og Ó eru óháðir. Meðal málefna á stefnuskrá fyrir kosningarnar hefði ég sett: Bindandi atkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, hvort eigi að leggja hann niður við fyrsta tækifæri eða ekki. Miklar endurbætur á leiðakerfi Strætó, og að ókeypis verði í Strætó, alltaf og fyrir alla. Þéttari byggð í formi fleiri háhýsa nálægt miðbænum. Aðkoma borgarinnar að orkusölu til stóriðju yrði líka lögð undir atkvæði.
Nýr R-listi hefði unnið stórsigur, Framsóknarflokkurinn þurrkast út og íhaldið lotið í lægra haldi aftur. Flókið, ekki satt?
Það er sagt, að þegar menn setjast að samningaborði, eigi þeir að tala saman á þeim nótum að þeir ætli að semja – það er að segja, ef þeir ætla það í alvörunni. Annað hvort hefur viðræðunefndin um framtíð R-listans ekki vitað þetta, ellegar þá að einhverjir í henni vildu innst inni ekki semja, giska ég á. Hverjir það hefðu átt að vera veit ég ekki og þykist ekki vita. En í öllu falli hefur þessu merkilega framtaki verið klúðrað, virðist vera.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í ljós er komið að ýmislegt er gruggugt við frásögur lögreglu af dauða Brasilíumannsins í London um daginn.

Monday, August 15, 2005

Um leið og ég styð málstað hinna alræmdu mótmælenda heilshugar (og líkar býsna vel við þá þeirra sem ég hef kynnst), þá hef ég miklar efasemdir um ýmsar aðferðir sem þau hafa notað, svo ég taki ekki dýpra í árinni. Eða, réttara sagt, sumt held ég að þau hefðu átt að láta ógert. Veggjakrot í miðbænum, hvaða gagn gæti það gert? Gerir það nokkuð annað en að gera mótmælendurna að krökkum með skemmdarfýsn í augum almennings? Kannski afla málstaðnum nokkurra "píslarvotta" með því að fólk geti bætt einni eða tveim handtökum á afrekaskrána? Úða málningu á Jón Sigurðsson? Hvers á hann, af öllum mönnum, að gjalda? Hvers vegna henda þau ekki frekar grjóti í gegn um stofugluggann hjá Friðriki Sófussyni (forstjóra Landsvirkjunar) eða eitthvað? (Nei, ég er ekki að hvetja til þess, en FS stendur óneitanlega nær málinu en JS!)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það sem mér þætti bjútifúl dæmi um borgaralega óhlýðni, í þágu íslensku landsbyggðarinnar, væri þetta: Allir landsins trillukarlar og bátaeigendur róa út á miðin og veiða eins og þeir geta, hvort sem þeir hafa kvóta eða ekki. Ef allir gera það er ekki hægt að handtaka neinn fyrir það. Hugmyndin er að með þessu væri mótmælt í verki kvótakerfinu sem er eins og kyrkingaról á hálsi margra útgerðarplássa. Eiga trillukarlar landsins að láta kyrkja sig án þess að mögla? Ef þeir vilja það, verði þeim þá að góðu. En ef þeir vilja gera eitthvað og stjórnmálamennirnir sitja með hendur í skauti, er þá til betri leið en þessi?

Saturday, August 13, 2005

Í hörðum átökum í Nepal nýlega segjast maóistar hafa misst 26 menn, fellt 159 hermenn og tekið 52 til fanga. Herinn leitar 76 manna sem er saknað. Foringi í hernum lýsti árásunum eins og "hver bylgjan kæmi á eftir annarri". (*) - það verður ekki betur séð en að maóistarnir séu í stórsókn (þótt tölurnar sem þeir gefa upp séu án efa ýktar). Prachanda formaður segir að föngunum verði sleppt í fyllingu tímans, en þeir fái mannúðlega meðferð. (*) Er það satt? Tja, hvað veit ég? Í það minnsta segir nepalski herinn öðru vísi frá: Að föngnum hermönnum hafi verið stillt upp í röð og þeir skotnir í höfuðið. Hvað hæft er í þessu veit ég ekki, en mér finnst herinn oftast virka ótrúverðugri en maóistarnir.

Í Venezúela: Hugo Chavez staðfestir eignarhald ættbálks indjána á erfðalandi sínu, fyrsta slík staðfesting af mörgum fyrirhuguðum. Gott hjá honum að láta innfædda njóta réttlætis.

Mike Ferner skrifar um Cindy Sheehan, móður fallins hermanns: „What One Mom has to Say to Bush“.

Úr þrælabúðum Norður-Kóreu, þar sem um 200.000 manns eru taldir dúsa, mun standa til að láta einhvern fjölda fanga lausan. Gott ef satt er.
Á Al Jazeera segir frá því hvernig bandarískir hermenn hafi stillt upp vopnum við lík af Írökum (og íraska fanga) og kallað það svo fallna andspyrnumenn, sem í raun voru fallnir óbreyttir borgarar. Margir jafnvel á unglingsaldri. Annað eins hefur nú skeð. Það er þekkt hvernig Hinn konunglegi her Nepals klæðir dauða menn í maóistabúninga og segist hafa drepið einhver ósköp af byltingarmönnum.
Þegar herir eða aðrar vígasveitir grobba sig sjálfar af mannfalli í röðum óvina, þá er ástæða til að taka öllum tölum (og öðrum upplýsingum) með fyrirvara. Auðvitað reyna allir styrjaldaraðilar að gera sinn hlut sem mestan og hermanna sinna sem bestan, og hverjum dettur í hug að stríð sé einskorðað við vígvöllinn? Nei, það er ekki síður háð í fjölmiðlum, þar sem barist er um almenningsálit, trúverðugleika og traust eða hræðslu. Sérhver her reynir að virðast ósigrandi, og reynir að láta andstæðinga sína sýnast veika á svellinu.
Þegar menn hafa hag af því, að fólk haldi á annan veginn eða hinn, hver sem sannleikurinn er, þá er rétt að efast sérstaklega um hreinskilni þeirra!

Friday, August 12, 2005

Bush hefur breytt áherslunum. Núna er það ekki langur "stríð gegn hryðjuverkum" heldur "stríð gegn ofbeldisfullum öfgamönnum". Robert Higgs skrifar um þetta. Ef þið spyrjið mig, þá er Bush sjálfur einmitt fyrirtaks dæmi um ofbeldisfullan öfgamann. Hann er bókstafstrúaður. Hann hefur á að skipa máttugum drápstólum og hann er ófeiminn við að nota þau til að drepa annað fólk fyrir sinn "göfuga málstað" að auka völd bandarísku valdastéttarinnar í heiminum, einkum og sér í lagi það sem lýtur að olíu.

Michael Chossudovsky skrifar um hinar "einkennilegu tilviljanir" að árásirnar 7/7 og 9/11 skyldu báðar verða á sama tíma og áætlaðar voru öryggisæfingar sem gengu út á sams konar atburði og gerðust svo í alvörunni: "7/7 Mock Terror Drill: What Relationship to the Real Time Terror Attacks?" ... já, svei mér skrítin "tilviljun"!
Það hefur varla farið fram hjá mörgum að fyrirhuguðum brottflutningi frá Gaza er mótmælt af miklum krafti í Ísrael. Í því samhengi vil ég minna á grein Uri Avnery, "March of the Orange Shirts", frá 25. júlí sl. - þar sem hann gerir grein fyrir þessari hreyfingu landtökumanna og bókstafstrúaðra ný-fasista í Ísrael og hvernig þeir ógna öllum í kring um sig.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég held að R-listinn ætti að láta Framsóknarflokkinn róa og bjóða Frjálslynda flokknum um borð til sín í staðinn. Framsóknarflokkurinn er fimmta hjól undir vagni R-listans, lítill, spilltur, óvinsæll, og með gamlan skransala í forystu. Ég held að hann fæli fleiri kjósendur en hann trekkir. Mig alla vega.
Talandi um borgarmálin, þá er ég hæstóánægður með nýja leiðakerfi Strætó. Það er kolómögulegt og ábyrgðarmönnum þess til skammar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sjáið blaðsíðu 9 í Fréttablaðinu í dag. Tekur einhver eftir undirtóninum?

Wednesday, August 10, 2005

Jóhannes Björn hefur að undanförnu skrifað röð af greinum um brýnasta úrlausnarefni vorra tíma, endalok olíualdar (1, 2, 3, 4). „Hvað gerist næst?“ heitir nýjasta grein hans, þar sem hann fylgir hinum eftir. Ég hvet fólk til að lesa þetta. Hvet fólk eindregið til þess.
Pentagon skissar upp áætlanir um herlög í Bandaríkjunum ef hryðjuverk yrðu gerð. Hryðjuverk og herlög? Ætli FEMA yrði þá ekki kallað til? Hvet fólk til að lesa sér til um FEMA Camps, net fangabúða sem Federal Emercency Management Agency hefur til ráðstöfunar víðs vegar um Bandaríkin. Margar þessara búða eru frá dögum síðari heimsstyrjaldar, þegar Bandaríkjamenn af japönskum uppruna voru settir bak við lás og slá í fangabúðum, en verið haldið við fram á þennan dag ... aðrar búðir eru nýrri. Ef það þarf, með skömmum fyrirvara, að rýma heila borg, t.d. vegna náttúruhamfara eða ofboðslegra hryðjuverka, þá er hægt að hýsa íbúana þarna. Jafnvel þótt þeir vilji það ekki.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
...og talandi um búðir, þá fengu hinir alræmdu mótmælendur lögreglufylgd frá Vaði í Skriðdal. Það er bara það. Hins vegar virðist lögreglan ekki sjá ástæðu til að hafa afskipti af mönnum sem eru að fremja hryðjuverk gegn náttúrunni uppi á Kárahnjúkum. Ómetanlegt tjón. Þeir starfa nefnilega í skjóli ríkisvaldsins. Sýnir hverjum valdstjórnin þjónar, þegar öll kurl koma til grafar. Minnir mig á það sem hefur verið sagt: Öflugustu glæpamennirnir brjóta ekki lögin heldur setja þau. Öflugustu glæpamennirnir eru það öflugir að þeir eiga auðvelt með að ná nægilega sterkum tökum á ríkisvaldinu til að láta lögin þjóna sér. Sama má segja um hryðjuverkamenn. En þegar hugsjónafólk vill ekki láta eyðileggja óspillta náttúru? Ungæðislegur mótþrói í óuppdregnum slordónum sem hafa ekki lært það ennþá að náttúruspellvirki eru framfarir og reykspúandi skorsteinar líka.

Ég veit ekki hvort ég get fallist á að það sé kölluð borgaraleg óhlýðni að hlekkja sig við vinnuvél. Það flokkast a.m.k. tvímælalaust ekki undir borgaralega óhlýðni að úða málningu á skilti eða skúra. Mundi það ekki heita bein aðgerð? Ég mundi halda að það flokkaðist líka undir beina aðgerð að hlekkja sig við vinnuvél, liggja fyrir jarðýtu o.þ.h. Sem slíkar eiga beinar aðgerðir gegn Kárahnjúkavirkjun fulla samúð mína, hvað sem líður einstökum aðgerðum. Mundu skyrslettur flokkast undir beinar aðgerðir? Bein aðgerð er ekki ofbeldisfull, svo ég held að skyrslettur að séu (í besta falli) á mörkunum, þegar þeim er ætlað að skjóta fólki skelk í bringu. Um borgaralega óhlýðni er það annars að segja, að hún felst einkum í því að neita að hlýða ósanngjörnu yfirvaldi, en gera það friðsamlega. Reykvíkingar gripi til borgaralegrar óhlýðni í fánatökumálinu 1913: Einar Pétursson hafði hvítbláan fána ólöglega í skutnum á bát sínum á Reykjavíkurhöfn og skipherra á dönsku herskipi tók hann af honum. Reykvíkingar mótmæltu með því að draga hvítbláa fánann á allar fánastangir í bænum, og hver sótraftur á sjó dreginn og siglt á höfninni með hvítbláann í skutnum. Það var líka borgaraleg óhlýðni þegar svertingjar í Suðurríkjum Bandaríkjanna eða Suður-Afríku settust á bekki sem voru aðeins ætlaðir hvítum mönnum.

Fyrirtæki hafa réttarstöðu sem minnir á réttarstöðu manneskju. Fyrir utan að maður sem flytur hingað og hefur sakaskrá er rekinn úr landi, meðan sakaskrá fyrirtækja á borð við Bechtel virðist engu máli skipta né hindra að þau geti haft mikil umsvif hér á landi, jafnvel byggt heilu álverin.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
...og talandi um hryðjuverkamenn: Bretar plana leynileg réttarhöld yfir þeim sem eru taldir tengjast hryðjuverkum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelski herinn skýtur palestínskan brúðguma og ísraelskir öfgamenn stefna að því að ganga á Musterishæðina 14. ágúst næstkomandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Stefán Pálsson skrifar um kjarnorkusprengjurnar á Hiroshima og Nagasagi á Friðarvefinn. Guðmundur Svansson svarar á Deiglunni, Stefán svarar Guðmundi á bloggi sínu og Guðmundur svarar svo aftur á sínu. Það er áhugavert að lesa þessa umræðu.

Monday, August 8, 2005

Kominn heim og hér með tek ég upp þráðinn...


Að gefnu tilefni varðandi síðustu færslu hér, þá er hin ágæta lesning, sem ég vísaði í, í raun réttri viðtal, ekki grein (þótt ég hafi kallaða það grein af fljótfærni). Það breytir því auðvitað ekki að heimildirnar skortir eftir sem áður, en ætli gegni ekki nokkuð öðru máli um viðtal heldur en grein? Í öllu falli eru það einkum socio-económískar og pólitískar hliðar hryðjuverka og jarðveginn sem þau spretta upp úr, og hann er aðspurður að greina frá niðurstöðum sínum. Ætli sé ekki heimildaskrá í bókinni?
Hvað er al Qaeda? Samtök serkneskra skuggabaldra sem lúta hinum volduga Ósama, gnísta tönnum Vesturlönd og þrá hreinar meyjar á himnum? Frontur sem sinister element innan vestrænna valdastétta nota til að afla sér skálkaskjóls til herskárrar utanríkis- og innanríkisstefnu? Hvort tveggja í senn?
Í öllu falli, hvað svo sem eðli al Qaeda er, þá sé ég ekkert að því að tala um al Qaeda sem tiltekið fyrirbæri.

Monday, August 1, 2005

Maulið á þessu meðan ég verð í útlöndum næstu vikuna


...viku frí frá mér, en þið fáið heimavinnu...
Skömmu fyrir árásirnar 11. september 2001 var óvenjulega mikið um skortsölu á hlutabréfum í bandarískum flugfélögum og öðrum sem hrundu í verði við árásirnar. Með öðrum orðum, einhverjir treystu sér - í krafti einhverrar vitneskju - til að veðja á að verðið mundi hrynja. Hverjir þetta voru er ekki vitað, en sumir segja að þeir hafi verið ísraelskir.
Fyrir 7/7-árásirnar í London endurtók sagan sig. Einhverjir skortseldu sterlingspund vegna þess að þeir höfðu vitneskju um að árásirnar væru yfirvofandi. „Hver skortseldi sterlingspundið?“ spyr Joseph Farah í samnefndri og alveg hreint ágætri grein. Já, hver? Það er svo gott sem útilokað að rekja rækilega falda slóðina, en sá sem gerði það vissi meira en almenningur. Einn möguleiki sem Farah nefnir - og gæti vel hugsast - er að hryðjuverkasamtök (eða hver sem stóð að þessum voðaverkum) láti árásirnar borga sig sjálfar með því að græða á veðmálum í kring um þær. Það væri svo sannarlega hugvitssamleg - og samviskulaus - aðferð til að græða peninga. Hvort sem Ísraelar voru á bak við 9/11 eða ekki, þá virðast þeir samt hafa vitað eitthvað um 7/7.

The Logic of Suicide Terrorism“ er fyrirsögnin á viðtali Scott McConnell við prófessor Robert Pape, sem er einn fremsti sérfræðingur Bandaríkjanna í hryðjuverkum. Þetta viðtal er hreint afbragð; innihaldsríkt og fræðandi og staðfestir ýmislegt sem áður hefur verið sagt í trássi við það sem stjórnvöld segja um hryðjuverk. Ef þið lesið bara eina grein í dag, þá mæli ég með þessari. Lesið greinina og látið Pape skýra þetta nánar sjálfan.

506. og nýjasta tölublað Schnews inniheldur líka sitthvað áhugavert - þar á meðal er grein um búðirnar við Kárahnjúka og nýskeða atburði þar. Að vísu ekkert sem hefur ekki komið fram í fjölmiðlum hér líka. Áhugavert samt, ásamt ýmsu öðru áhugaverðu.

Fólk spyr hvað stjórni för Bandaríkjastjórnar í Írak. Noam Chomsky, sem á það til að vera sleipur þegar stjórnmál eru annars vegar, á svar við því: „Það er heimsvaldastefna, kjáninn þinn“ nefnist sú grein.

Önnur grein sem ástæða er til að benda á er „The Reality Of This Barbaric Bombing“ eftir Robert Fisk. Hún fjallar einnig um árásirnar í London og setur þær í smá samhengi.

Ég vil líka benda á greinina „Law and Justice“ hjá MIFTAH - hún er um aðskilnaðarmúrinn í Palestínu. Annað tengt Palestínu: Þetta viðtal sem Éric Hazan tók við Mustafa Barghouti um störf hans í palestínskum grasrótarhreyfingum, og um leið um þær sömu hreyfingar og palestínsk stjórnmál. Virkilega safaríkt viðtal sem ég hvet fólk til að lesa.

Ég læt þetta nægja í bili. Hér verður næst bloggað mánudaginn 8. ágúst næstkomandi.