Thursday, June 19, 2008

Ferðasaga frá ágúst 2007 -- IV. hluti

Þetta er fjórði og síðasti hluti af ferðasögunni frá því í fyrra. Hér má lesa: I. hluta, II. hluta og III. hluta.

Ég man ekki hvað klukkan var þegar við fórum á fætur þann 19. ágúst. Plan dagsins var svosem einfalt: Ganga um gamla bæinn og miðbæinn. Við vorum vopnuð „plan grada“ svo við gengum beint niður í gamla bæ – Stari grad. Ef gamla bæ skyldi kalla. Eftir að hafa farið í súpermarkað og keypt mat og drykk og gætt okkur á því á einhverju sem leit út eins og áhorfendabekkir umhverfis stórt blómaker (?). Þjóðernissinnað veggjakrot var áberandi – einkum serbakrossar og áletranir svartfellskra snoðkolla.
Að kýldri vömb, röltum við inn í gamla bæinn, sem var síst beysnari en fátækrahverfið þar sem hótelið var. Furðulega rislítil hús, og fæst virtust einu sinni vera sérlega gömul. Helst einn turn, sem gat verið meira en aldar gamall. Eftir að hafa gengið þarna um og séð, tja, ekki neitt, þá fórum við á veitingahús og fengum okkur að éta. Ljúffengar steiktar lambapylsur. Eineygður flækingsköttur fékk líka bita.
Svo fórum við og skoðuðum „Þúsaldarbrú“, ferlega ljóta brú byggða í tilefni af árþúsundamótunum, tvær-þrjár styttur í stórum almenningsgarði og eitthvert hverfi þar sem annað hvert hús virtist vera yfirgefið og niðurnítt, og hefði getað orðið fyrirtaks hippakommúna. Vínviður og kívíjurtir í laufskálum spilltu ekki fyrir. Við enduðum á Búdda Bar, flottri knæpu með flottum innréttingum, sem var mælt með í Lonely Planet-bókinni. Jamm, fínasta knæpa það. Eftir að hafa setið þar í nokkra klukkutíma gengum við í gegn um miðbæinn, aftur á hótelið, og fórum frekar snemma að sofa.
Þann tuttugasta ágúst vöknuðum við snemma, pökkuðum niður farangri okkar, tékkuðum okkur út og fórum út á rútubílastöðina við hliðina. Þar keyptum við okkur miða með rútunni til Cetinje, og svo þaðan til Kotor.
Cetinje er gamla höfuðborgin í Svartfjallalandi. Ástæða þess að það er svona fátt að sjá í Podgorica er, að hún hefur einfaldlega ekki verið höfuðborg það lengi. Varla meira en öld. Í Cetinje eru hallirnar, söfnin o.s.frv. Við stigum út úr rútunni á rútubílastöð og vingjarnleg kona sem rak greiðasöluna þar lofaði okkur að geyma farangurinn okkar hjá sér fyrir eina evru. Ekkert mál. Því næst gengum við niður í bæinn (m.a. framhjá íþróttavelli sem hin pólitíska þróunarhjálp Bandaríkjanna kostaði). Við eina götuna gat að líta lágreista kumbalda við hlið glæsihalla sem eitt sinn hýstu erlend sendiráð í Svartfjallalandi. Við fundum almenningsgarð, þar sem við settumst og supum einn bjór. Síðan var það þjóðminjasafnið. Það var sko þess virði að heimsækja! Þar gat að líta sömu rómversku fornleifarnar og á flestum þjóðminjasöfnum Evrópu, og allstóra sýningu um júgóslavnesku andspyrnuna í stríðinu – aftur, eitthvað sem mátti sjá víðar – en loks var það aðalatriðið: Þannig er mál með vexti, að Svartfellingar héldu sjálfstæði sínu (gegn Tyrkjum) í um 800 ár – frá því á 13. öld og þangað til þeir gengu sjálfviljugir inn í júgóslavneska ríkjasambandið upp úr fyrri heimsstyrjöld. Tyrkir reyndu ítrekað að leggja landið undir sig – oh, hvað þeir reyndu – en urðu frá að hverfa í hvert einasta sinn. Svartfjallaland var eins og brimbrjótur, sem stóðst hverja holskefluna á fætur annarri. Tyrkir gerðu semsé heilar 44 innrásir á þessum átta öldum eða svo, og um það vitnar þjóðminjasafnið: 44 herteknir, tyrkneskir gunnfánar! Það var óneitanlega glæsileg sjón, og vel þess virði að koma til Cetinje til að sjá þá!
Auk þjóðminjasafnsins, skoðuðum við Lovcen-klaustrið, sem er frá 13. öld. Það er voða snoturt, en við skoðuðum það bara lauslega. Þar keypti ég mér þó svartfellskan hatt, með serbakrossi uppi á kúfnum. Klæðilegasta flík. Eftir að hafa skoðað klaustrið ætluðum við að fá okkur einn kaldan, settumst inn á gangstéttakaffihús, en eftir að þjónninn hafði gengið fram hjá okkur svona 20 sinnum á hálftíma, fórum við aftur á rútustöðina. Hana fundum við eftir dálitla leit, og tókum næstu rútu til Kotor.
Leiðin lá eftir hlíð Lovcen-fjalls, og síðustu kílómetrana var farið í óteljandi kengkröppum bugðum niður bratta og háa brekku. Lækkunin var vel yfir hálfur kílómetri, og bugðurnar á að giska tuttugu. Fyrir neðan okkur opnaðist Kotor-fjörður, dýpsti fjörður Miðjarðarhafs, og innst við hann borgin. Gamla borgin er á heimsminjaskrá UNESCO, enda með órofnum borgarmúr, sem er sambyggður við kastala uppi á hamri fyrir ofan með tveim nánast þverhníptum veggjum. Ekki er hægt að koma við bílaumferð um þröngar göturnar, þannig að allar götur eru göngugötur í gömlu borginni. Í mesta lagi ein og ein vespa sem þar sést. Fyrir framan aðalhliðið var markaður, þar sem mér bauðst að kaupa nokkuð flotta brjóstmynd af Tító á heilar svimandi 40 evrur – og standmynd sem ég spurði ekki einu sinni hvað kostaði.
Ef Podgorica og Cetinje eru ósnortnar af ferðamönnum, þá er Kotor það ekki. Minjagripabúðirnar voru alls staðar, seljandi allt frá friðuðum kuðungum í útrýmingarhættu niður í snjóknetti og staup, framleidd í Kína. Skran og skrum. Mér datt helst í hug einhvers konar kappát, eins og hjá pírana-fiskum. Það, eða diskótek. Erill og ös, feitir Þjóðverjar á hverju strái, fólk sem var í baðstrandarhugleiðingum. Semsagt, fólk sem var þarna í öðrum erindagjörum en við Rósa. En borgin var geysilega falleg. Við tékkuðum okkur inn á gistihús og vorum svo heppin að fá herbergi þar sem glugginn vissi ekki út að mestu ösinni, svo það var sæmilegur svefnfriður. Um kvöldið fórum við út og borðuðum mjög ljúffenga sjávarrétti – Rósa fékk sér svart risotto með kolkrabba; ég fékk mér fylltan smokkfisk. Það var sko matur. Eftir matinn gengum við meira um borgina, m.a. framhjá götusalanum sem ætlaði að okra á mér með Tító-brjóstmyndina. Ég spurði hvað standmyndin kostaði. Sá sem var að afgreiða var auðvitað þýskumælandi sígauni, og auðvitað reyndi hann að hössla mig: 120 evrur, takk fyrir! Spes verð fyrir mig því ég var svo frábær: Bara 90 evrur! Ég skoðaði standmyndina aðeins betur: Það vantaði nefið og önnur „smáatriði“ og hún var ekki einu sinni almennilega fest á sökkulinn. Nei takk. Hins vegar sá ég stóra brjóstmynd af Slobodan Milosevic – stóra, þunga og örugglega dýra. En það hefði óneitanlega verið gaman að eiga hana... Við fórum frekar snemma að sofa, enda höfðum við farið víða þennan dag.
Þann 21. ágúst vöknuðum við snemma, átum ljúffengan morgunverð og tékkuðum okkur út. Þar sem við höfðum dálítinn tíma, skoðuðum við nokkrar kirkjur og sjóminjasafn, en Kotor var mikill verslunarstaður fyrr á tíð (og er það sjálfsagt enn). Svo tókum við rútu áfram til Dubrovnik, í Króatíu. Hún var nokkra tíma á leiðinni. Við ókum meðfram ströndinni lengst af, framhjá óteljandi þorpum og sumarbústöðum og strandhúsum af öllum stærðum og gerðum. Í hlíðunum á hægri hönd var gróðurinn áberandi dökkur – oftar en ekki beinlínis svartur. Við vissum ekki hvers vegna, en héldum (og höldum enn) að það gæti tengst miklum skógareldum sem höfðu geisað á Grikklandi skömmu áður. Voru trén brunnin? Ég veit það ekki. En svört voru þau.
Þegar við komum til Dubrovnik, í síðdeginu, vissum við ekkert hvað við ættum næst að gera. Við vorum ekki með pantaða gistingu eða neitt slíkt. Á rútustöðinni var allt fullt af fólki sem bauð ferðamönnum gistingu. Eftir að hafa veifað svona sjö frá okkur, þá datt okkur í hug að tékka á þessu. Fullorðin kona var sú heppna, og keyrði okkur heim til sín, þar sem þau hjónin höfðu innréttað þetta líka glæsilega gistirými. Þar gistum við semsagt næstu tvær næturnar.
Þar sem aðeins var farið að síga á síðdegið ákváðum við að geyma gömlu borgina til dagsins eftir, og gengum þess í stað niður að höfninni, þar sem voru snekkjur í hundraðatali og skemmtiferðaskip fyrir landi. Í Lonely Planet-bókinni fundum við veitingastað sem var hrósað í hástert og ákváðum að tékka á honum. Það reyndist þrautin þyngri að finna hann, svo þegar við gengum fram á annan veitingastað sem einnig fékk góða dóma, þá prófuðum við hann bara í staðinn. Þetta var sjávarréttastaður. Ég man hvorki hvað hann hét né hvað ég fékk mér, en við vorum mjög ánægð með hann. Það kvöldaði og við fórum á gistihúsið og lögðumst til svefns.
Þann 22. ágúst, afmælisdag bróður míns, ákváðum við að skoða gömlu borgina. Á meðan ég var að hafa mig til, talaði Rósa við einhvern mann sem stóð fyrir utan gistihúsið, og hann sagði okkur margt og mikið um afstöðu sína og Króata almennt til Tító-tímans og stríðsins og þess alls. Meðal þess sem hann sagði var að fólk saknaði Tító-tímans almennt, en þetta hefði hrunið eftir að hann féll frá – auk þess sem Króatar og Slóvenar væru „vestrænir“ en Serbar og alveg sérstaklega Kosovo-Albanar væru „austrænir“. Þeir ættu einfaldlega svo fátt sameiginlegt menningarlega að það hefði verið ómögulegt að búa í sama ríkinu, eða alla vega sæju Króatar og Slóvenar ekki hvaða erindi þeir ættu í sama ríki og Kosovo, fátæku og vanþróuðu. Króatar í dag, sagði maðurinn, væru ennþá súrir út í Serba eftir borgarastríðið, og fannst þeir hafa gengið fram af hörku og grimmd. Meðal annars með stórskotaliðsárásum á friðsælar borgir eins og Dubrovnik. Þeir væru samt ekkert sérlega súrir út í Svartfellinga, og það mætti vel vingast við þá.
Þegar ég var loks til, þá héldum við af stað. Það var á að giska klukkustundar gangur til gömlu borgarinnar. Á leiðinni stoppuðum við á veitingahúsi og fengum okkur að borða. Gamla borgin er á heimsminjaskrá UNESCO, eins og gamla borgin í Kotor. Hún er líka með órofinn borgarmúr frá því í gamla daga og ber aldurinn vel. Hún ber það samt með sér að hafa verið miklu auðugri en Kotor – eða borgir yfirleitt – því mikið var af afar skrautlegum byggingum. Já, og göturnar voru hellulagðar með marmarahellum. Án djóks. Við skoðuðum okkur dálítið um. Gömul, há hús, þröngar brattar götur með þvottasnúrum strengdum yfir, kaffihús og veitingahús o.s.frv. Rósa tyllti sér á kaffihús á meðan ég spásseraði niður að gömlu höfninni, um torg eitt og svo upp eina götuna upp að gamalli sýnagógu og gyðingasafni sem ég skoðaði. Aðgangseyririnn var hár miðað við hvað safnið var fáfengilegt. Sýnagógan var aðeins áhugaverðari; ég hafði aldrei komið inn í slíkt samkunduhús áður og það var athyglisvert. Eftir þetta fór ég og fann Rósu og við gengum meira um þangað til við ákváðum að líta á veitingastað og fá okkur meira að éta. Bosnískur staður varð fyrir valinu og þar átum við bosnískar pylsur úr lambakjöti, ljúffengar mjög. Það kom kvöld, við tókum leigubíl upp á gistihúsið, pökkuðum dótinu okkar og lögðumst til svefns.
Hinn 23. ágúst vöknuðum við snemma, tékkuðum okkur út og fórum út á flugvöll. Við áttum flugmiða með innanlandsflugi til Zagreb, þar sem við ætluðum að hitta félaga Jón Karl og taka síðan lest þaðan til Þýskalands. Það var löng bið eftir því að tékka inn. Þegar það var búið fórum við inn í einhvern biðsal, og eftir langa bið þar fórum við í gegn um vopnaleit. Þá kom í ljós að ég hafði auðvitað gleymt að taka töngina mína upp úr handfarangrinum. Öryggisvörðurinn sem leitaði leit mjög stórt á sig og ég held að hann hafi verið í einhverjum minnimáttarkenndar-fílingi, að Króatar yrðu að sanna það í augum Vesturlandabúanna að hér væri hart tekið á öryggismálum, svo þeir ættu skilið að fá að ganga í Evrópusambandið og þann pakka allan. Það var alla vega það sem við hugsuðum.
„Og hvað er þetta?“ spurði hann með töngina í hendinni. „Þetta er töng,“ sagði ég, „hvað með það?“ „Það má nota hana sem vopn!“ sagði hann. „Nei,“ sagði ég, „þetta er meinlaust verkfæri og væri glatað sem vopn.“ Hann opnaði töngina, sneri henni við, tók á henni innan frá svo handföngin sneru sitthvoru megin út úr hnefanum á henni: „You could do anything with this,“ sagði hann. „Fífl,“ hugsaði ég, „ef þú reyndir eitthvað með töngina svona, þá mundirðu bara klípa sjálfan þig í lófann eða greipina.“ Ég lét mér nægja að segja að það væri rangt hjá honum, það væri alls ekkert hægt að gera hvað sem er með þessu. Þá, já haldið ykkur nú fast, krafðist hann þess að fá að sjá vegabréfið mitt – og skrifaði númerið á því niður. Það var og. Bara settur á svartan lista hjá innanlandsflugvellinum í Dubrovnik fyrir að rífa smá kjaft við einhvern bjálfa. Það þýddi ekki að þræta við þennan herramann, svo við ypptum öxlum og leyfðum honum að hirða þessa töng, sem hann þóttist geta gert hvað sem er með. Þannig séð var þetta nú eiginleg aheppilegt; út af veseninu með töngina tók hann ekki eftir því að ég var með vasahnífinn í vasanum, sem mér hefði orðið ólíkt sárara um að missa.
Við lentum í Zagreb, tókum lest inn á aðalbrautarstöðina og þar tróðum við farangrinum inn í geymsluskáp. Ég hugsaði með mér að það væri best að vera sniðugur, stakk hattinum mínum með inn í skápinn og setti í staðinn svartfellska hattinn með serbakrossinum á hausinn. Voða fyndið í Króatíu. Við fundum Jón Karl fljótt og hann benti mér á augngoturnar sem ég fékk. Karlarnir þarna í Króatíu – og það ber að taka fram að Zagreb ku vera höfuðborg nýnasisma í Evrópu – hafa auðvitað þekkt hattinn um leið og merkið líka, virt mig síðan fyrir sér og hugsað að ég hlyti að vera heimskur túristi sem fattaði ekki ögrunina sem fælist í þessu. Enda fattaði ég hana ekki. Ekki strax. „Hverjum er ekki sama um einhvern hatt?“ hugsaði ég. En Jón Karl fékk mig til að setja hattinn ofan í poka áður en við rækjumst á einhverja snoðkolla með hnífa. Það var líklega skynsamlegt. Við litum á krá, svo í búð þar sem við keyptum svolítið nesti, þar á meðal hinn ágæta króatíska Karlovacko Pivo, og síðan litum við á aðra krá áður en við þurftum að ná lestinni. Kvöddum Jón og ókum svo í næstum sólarhring, í gegn um Slóveníu, Austurríki og Þýskaland alla leið til Århus, þangað sem við komum að kvöldi 24. ágúst.
Þann 25. ágúst pakkaði ég til Íslandsferðar, og svo fórum við bæði tvö með lest til Kaupmannahafnar. Í sjálfu sér dreif ekki margt á daga okkar þar; við gistum tvær nætur hjá Eiríki bróður Rósu, heimsóttum höfuðstöðvar Kommunistisk Parti og skoðuðum ritstjórnarskrifstofu og prentsmiðju blaðsins þeirra, Arbejderen, í leiðinni. Bo vinur okkar sýndi okkur það allt saman og síðan borðuðum við kvöldmat með honum og Lene, konu hans.
Þann 27. ágúst flaug ég síðan heim og lýkur þar með frásögn þessari.

Monday, June 16, 2008

Nepölsku maóistarnir og stuðningur Kína?

Á Moggablogginu hef ég undanfarið séð nokkra bloggara halda því fram að ríkisstjórn Kína sé bakhjarl Kommúnistaflokks Nepals (maóista). Þetta er misskilningur. Kínverjar og Pakistanar studdu Gyanendra konung, Indland og Vesturveldin hafa stutt borgaralega sjöflokkabandalagið en maóistarnir hafa engan opinberan stuðning haft frá öðrum löndum, heldur fyrst og fremst treyst á snautt bændafólk nepalskra sveita. Nánar um þetta í greins em ég skrifaði á Eggina fyrir helgi: Nepölsku maóistarnir og stuðningur Kína.

Friday, June 13, 2008

Tvær vísur sem urðu til í gær

Lýsing á kettinum mínum, sem er orðinn 17 ára:

Skotta er orðin gamalt grey,
garmurinn illa meltir.
Skítur á gólfið, út fer ei,
ælu á fjalir geltir.

Oddhenda um veðrið undanfarna daga:

Geislum starði stíft á barð,
stundu jarðir merkar.
Af þurrki svarðar víst ég varð
að vökva garð -- og kverkar.

Wednesday, June 11, 2008

Stefnivargur í garði mínum

Ég hef verið að stússa heilmikið í garðinum að undanförnu. Gróðursett jurtir ýmsar; jarðarberjaplöntur, rósir, rammfang, jötunurt og fleira, og svo hef ég lyft grettistaki í matjurtagarðinum, eins og ég held að ég hafi einhvern tímann nefnt á þessum vettvangi. Í gær og fyrradag umplantaði ég öllum rófunum og radísunum -- á að giska 300 rófuplöntum og 600 radísuplöntum -- og hef haft í mörg önnur horn að líta.

En í fyrrimorgun var Bleik brugðið. Það voru spor í garðinum. Í kartöflu- og radísubeðunum. Spor eftir skó í barnastærð. Einhverjir pottormar hafa verið að hlaupa í gegn um fallega matjurtagarðinn minn.

Hvert ætli maður geti farið til að fá efni í rafmagnsgirðingu?

Monday, June 9, 2008

Landspítalinn sendi út viðhorfskönnun sem starfsfólk var beðið að svara. Könnunin sneri að nýja háskólasjúkrahúsinu, sem ég held að enginn viti hvort verður byggt á næstunni eða ekki. Sérstakelga var tekið fram að svörin væru ekki persónurekjanleg. Síðan komu spurningar um hitt og þetta, og í lokin var spurt um bakgrunnsbreytur: Kyn, barnafjölda, búsetu, nám, starfsaldur og vinnustað! Hvað haldið þið að það séu margir starfsmenn á Kleppi, sem eru barnlausir karlar með háskólapróf, búsettir í miðbænum og með lengri starfsaldur en 7 ár?

Lýðræðisflokkurinn

Frjálslyndi flokkurinn hefur reynt að gleypa atvinnubílstjórana með lýðskrumi en þeir eru kannski ekkert á því að láta gleypa sig. Eða hvað? Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu, hvort hinn langþráði byltingarflokkur er þarna að fæðast, eða hvort þetta verður stefnulaust rekald. Hingað til hefur mér ekki þótt fara mikið fyrir pólitísku perspektífi í baráttu bílstjóranna. Baráttan hefur aðallega gengið út á að biðja ríkisstjórnina að lækka tolla og gjöld, eins og það skili einhverju.

Atvinnubílstjórum er auðvitað vorkunn. Menn sem voru verkamenn fyrir nokkrum árum síðan og með sín hagsmunasamtök samkvæmt því, en létu plata sig til að gerast "verktakar", færðu sig úr verkalýðsstétt yfir í smáborgarastétt, misstu um leið öryggi verkalýðshreyfingarinnar og eru á efnahags-pólitískum berangri nú þegar harðnar á dalnum. Það er ekkert grín að hafa fjárfest persónulega í stórvirkum vinnuvélum og ráða ekki lengur við afborganir af þeim vegna hækkandi olíuverðs.

En lausnin er ekki innan marka núverandi kerfis. Hvað ætti ríkisstjórnin að gera, afnema tolla og gjöld af eldsneyti? Eins og það leysi eitthvað málið? Olía er þverrandi auðlind og ekkert sjálfsagt hvernig henni er ráðstafað. Nei, málið er auðvitað að það þarf að taka allt saman upp og fara yfir það frá upphafi til enda. Það þarf að taka allt borgaralega efnahagskerfið, allt borgaralega þjóðskipulagið til efnahags-pólitískra gjaldþrotaskipta. Það er betra að gera það strax heldur en að bíða eftir að allt fari til andskotans fyrst.

Ferðasaga frá ágúst 2007 -- III. hluti

Vegna lengdar pósta ég þessari sögu í nokkrum hlutum. Þetta er þriðji hluti. Hér má lesa: I. hluta og II. hluta. Afgangnum verður póstað á næstu dögum.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Lestin kom til Ljubljana klukkan 06:05 að morgni fimmtudaginn sextánda ágúst. Ég var örþreyttur og glorsoltinn. Ég stakk farangrinum mínum inn í þar til gert hólf, borðaði svo það skásta sem ég fann á lestarstöðinni, sem var eitthvað snakk og kaka. Svo settist ég á kaffihús, fékk mér kaffisopa og tvo bjóra og las frameftir morgni. Þar kláraði ég síðustu síðurnar í Opið land (og ég get ekki sagt að ég sé bergnuminn af lestrinum) og las síðan Að vera eða sýnast eftir Hörð Bergmann, og það er bók sem allir ættu að lesa; hnífskörp greining á sýnimennsku og látalátum markaðsskrumara og auglýsingasnápa, orðræðu og skilyrtri hugsun og þar frameftir götunum – í alvöru talað, lesið hana, hún er stutt og hnitmiðuð og auðlesin, en skilur mikið eftir sig.
Ég gekk sem leið lá frá lestarstöðinni í Ljubljana, eftir stórri götu, þangað til ég kom að Drekabrú. Svo gekk ég eftir suðurbakka árinnar þar til ég kom að Þreföldubrú, og norður yfir hana, þar sem ég settist á gangstéttarkaffihús og kvittaði fyrir komuna með því að skrifa nokkur póstkort. Kaffihúsið var á aðaltorginu í miðbænum, með Þreföldubrú á aðra hönd og Laxableikukirkju á aðra. Í flestum borgum er aðaltorgið prýtt styttu af einhverjum kóngi á hesti og með sverð í hendi, en í Ljubljana er það þjóðskáldið sem vakir yfir aðaltorginu. Yfir honum er listadís sem heldur lárviðarkransi yfir höfði hans, og sú dís táknar stúlkuna sem hann fékk aldrei að kvænast, en varð honum innblástur í óteljandi harmaljóð. Sönn skáld eru í ástarsorg alla ævi, ekki satt? Eftir þetta fór ég yfir á Lýðveldistorg og leit á háskólann sem Hrafn meðleigjandi minn var á leiðinni í. Síðan fór ég yfir á Torg frönsku byltingarinnar, og aftur suðurfyrir ána og austur eftir bakkanum og inn í gamla bæinn og skoðaði hann; gullfallegur. Þegar ég hafði gengið nokkurn spöl eftir helstu götunni í gamla bænum, ákvað ég að leggja leið mína í gegn um einhver undirgöng sem voru upphaf á þröngri, gamalli götu. Heitir sú Kljucavnicarska, og þar, í húsi númer fimm, fann ég krá sem heitir Pr’ Skelet – Beinagrindabar. Það er kannski flottasta krá sem ég hef séð. Kjallari, allur innréttaður með beinagrindum, bæði af fólki, dýrum, og ýmsum skrímslum og meira að segja dreka. Þegar ég ætlaði á klósettið fann ég það ekki, spurði hvar það væri og var bent á að fara „út eftir þessum gangi og til hægri“ – og þar sá ég ekkert klósett. Þá kom afgreiðslustúlkan með mér og ýtti á bókahillu – sem opnaðist og við blasti þetta líka huggulega kló!
Ég fór svo frá Pr’ Skelet til að sækja Rósu á lestarstöðina. Hún var væntanleg um klukkan 14 frá München, og lestin hennar kom frekar stundvíslega. Það urðu fagnaðarfundir. Við fórum svo og fundum okkur gistingu. Ég reyndi líka að ná í Mateju og Drago, vinafólk foreldra minna sem býr í Ljubljana, en það svaraði ekki hjá þeim og ekki hjá Urc syni þeirra heldur, því miður. En þar sem ég var búinn að skoða margt af því helsta, þá var ég fljótur að sýna Rósu það líka. Síðan fórum við á gistihúsið. Þetta gistihús var dálítið spes. Það er semsé heimavistarskóli á vetrum, en gistihús á sumrum, og allt innréttað eins og frekar óvistlegur austurevrópskur heimavistarskóli. Morgunmaturinn var ekki sérlega góður heldur. En það var ekki dýrt.
Seytjánda ágúst fórum við af stað og tókum kláf upp í Ljubljana-kastala. Hann er ansi hreint flottur. Þar ægir öllu saman, rómverskum hleðslum, rómönskum byggingarstíl, hinum og þessum síðari tíma stílum og síðan hrikalegum steinsteypukassa frá áttunda áratugnum. Við fórum upp í útsýnisturninn, þaðan sem sér yfir um þriðjung Slóveníu í góðu skyggni. Fengum okkur líka öl, og litum inn í gallerí þar sem má kaupa slóvenskt handverk. Þar á meðal voru hefðbundnar framhliðar á býflugnakassa. Þær voru alveg æðislegar; mótífin voru eitt og annað úr reynsluheimi og ævintýrum fólks í gamla daga; þar á meðal kóngurinn sem situr við borðið sitt, sem svignar af gullpeningum, með skegg svo sítt að það nær niður á borð. Einnig „útför veiðimannsins“, mótíf sem kom fyrir í nokkrum útgáfum, þar sem veiðimaðurinn er dauður og dýrin eru að bera hann til grafar: Gaupa með prestakraga, rebbi heldur á krossi, hérinn og úlfurinn halda á líkbörunum og fleiri veiðidýr fylgja á eftir, eitt klætt sem meðhjálpari og annað með Biblíuna og eitt þerrar hvarmana með vasaklút. Eitt mótífið sýndi Kölska haldandi andlitinu á konu niður að hverfisteini – það táknar hina hvössu tungu sem konur nota víst til að slúðra með – og svo var eitt þar sem björn var að stela býflugnabúi, býflugurnar flugu sjóðvitlausar í kring um hann en býflugnabóndinn skaut á hann með haglabyssunni sinni. Svakalega skemmtilegar, naívar og sjarmerandi myndir.
Þar sem lestin okkar átti að fara upp úr hádegi stöldruðum við ekki svo lengi við í kastalanum, en á leiðinni þaðan komum við samt við á Pr’ Skelet til þess að fá okkur einn Gorski Skrat – fjalladverg – kokteil sem samanstendur af 1 melónuvodka, 1 amaretto, 1 malibu, dass af grenadine, ananassafa og ísmolum, og smakkast hreint ljómandi vel. Og síðan héldum við á lestarstöðina, en næst ætluðum við til Podgorica.
Lestin til Podgorica fór semsagt upp úr hádegi. Júgóslavneskar lestir eru ekki beint fljótar í förum, og auk þess er lestakerfið býsna götótt, þannig að við þurftum að fara í gegn um Zagreb og Beograd – það er að segja í risastóran krók – og ferðalagið tók 19 klukkutíma! Við ókum og ókum, átum, lásum, spjölluðum, sváfum, en þessi ferð virtist engan endi ætla að taka. Nokkru eftir miðnætti þurftum við að skipta um lest. Karl og kona frá Serbíu stóðu sig eins og hetjur í að útskýra fyrir okkur á serbókróatísku að við ættum ekki að fara út þarna heldur þarna – og í leiðinni sagði karlinn okkur að við skyldum kíkja til Lovcen í Svartfjallalandi; kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Á lestarstöðinni í Novi Beograd stigum við út og biðum í hrollkaldri nóttinni eftir lestinni okkar. Hún kom fljótlega, og upp í hana fórum við, og í henni gátum við loks lagt okkur, og var ekki vanþörf á.
Við vöknuðum frekar árla morguns þann átjánda ágúst og vorum þá búin að skröltast alla nóttina í þessari mjög svo nýtískulegu lest. Við ókum í gegn um fjallgarð, ýmist um göng eða einstigi, þar sem útsýnið var í einu orði sagt stórfenglegt. Alveg stórfenglegt. Hrikaleg fjöll, öskuljós að lit, snarbrattar hlíðar og hamrarnir uppeftir öllu og allt saman vaxið runnum og smátrjám á stangli, en hyldjúpir dalir kljúfa fjöllin í rætur niður og gljúfur og gil rista þau þver og endilöng, en lækjarsprænur skoppa niður eftir giljunum og ár bugðast eftir dalbotnunum.
Við störðum hugfangin út um gluggana og tókum myndir. Síðan nálguðumst við Podgorica – sem fyrrum hét Titograd, höfuðstað Svartfjallalands. Borgin sú er á stærð við Reykjavík og nágrenni – nálægt 180.000 íbúar, en tæplega 700.000 í landinu öllu, sem er nálægt 30.000 ferkílómetrum að stærð. Leiðin lá í gegn um skítug, lágreist og gisin úthverfi, lestarteinarnir voru ekki girtir af. Ég ætla ekki einu sinni að lýsa klósettinu.
Þegar við stigum út í Podgorica var semsagt skammt liðið á morgun laugardagsins 18. ágúst. Klukkan var á áttunda tímanum. Við litum í kring um okkur á brautarpallinum; járnbrautarstöðin var lítil og lág og virtist þarfnast viðhalds. Þjóðernissinnað veggjakrot var sýnilegt út um allt. Við fórum inn, vorum svöng svo við litum inn á matsölustað sem var þarna á lestarstöðinni. Lögregluþjónn og lestarvörður sátu og drukku kaffi, grindhoraður þjónn á miðjum aldri, með mjög stórt yfirvararskegg, fékk okkur matseðil en við fundum ekkert þar sem okkur leist á. Við sáum inn í eldhúsið, þar sem stóðu nokkrar gríðarstórar grýtur sem bullsauð í, allt frekar skítugt og fátæklegt. Við þökkuðum fyrir okkur og fórum út.
Við áttum pantað herbergi á Hótel Europa, sem við vissum ekki hvar var. Planið var því að fá okkur að éta og finna svo hótelið og gera svo eitthvað annað. Við byrjuðum á því að spyrja í hvaða átt miðbærinn væri, og gengum svo þangað. Litum inn í nokkrar búðir á leiðinni til að biðja um plan grada (kort af bænum) og spurðum líka til vegar nokkrum sinnum. Í hvert skipti spurði fólk okkur hvaðan við værum, og var alltaf jafn hissa – „Hvers vegna Svartfjallaland??“ vorum við spurð oftar en einu sinni. Gjaldmiðillinn í Svartfjallalandi er evra, eftir aðskilnaðinn frá Serbíu 2006. Við sáum lókal bjór, sem kostaði eina evru eða svo, og keyptum hann til að smakka – hann heitir Niksicko, og er alveg ljómandi góður, alveg hreint ljómandi. Á leiðinni niður í bæ gengum við fram á dálitla búð, þar sem við keyptum okkur ýmislegt matarkyns, en okkur var farið að svengja. Eftir dálitla göngu (kannski 2 kílómetra) komum við að lystigarði, þar sem við settumst á bekk og tókum til matar okkar. Rúgbrauðið sem ég hafði keypt reyndist vera eins konar jólakaka, með einhverjum hrísgrjónum í, ekki vond, svosem, en ekki heldur það sem mann langaði að éta eintómt klukkan níu að morgni í steikjandi hita á bekk í Podgorica. Svo ég henti henni. Í lystigarðinum sáum við eðlu, pínulitla og græna, sem stóð fyrst og góndi upp í loftið en þaut svo í burtu þegar hún varð þess áskynja að það var verið að horfa á hana. Maurarnir urðu líka hressir yfir jólakökumylsnunni sem hraut niður á gangstéttina. Við sáum einn maurinn taka stykki af skorpunni, sem var á stærð við nögl á litla fingri, og rogast með það, fyrst framaf gangstéttarbrún, og síðan upp eftir þverhníptri hliðinni á gangstéttarhellunni. Það var mögnuð sjón, pínulítið kvikindið með að minnsta kosti fimmtíufalda þyngd sína í eftirdragi upp lóðréttan hamarinn – rétt eins og ég væri að tosa sendiferðabíl upp brúnina á Almannagjá.
Þegar ég var í Ungverjalandi um árið, þá sá ég furðulega margar verslanir sem seldu kvenföt og kvenskó af lakara taginu. Ég furðaði mig samt ennþá meira yfir fjölda brúðarkjólaleiga. Í Podgorica eru það apótekin sem varla er þverfótandi fyrir. Alveg hreint ótrúlega mörg. Á einu fjölbýlishúsinu sáum við þrjú hlið við hlið á jarðhæðinni, og eitt eða tvö til hliðanna.
Við spurðum konu til vegar, í hvaða átt Hótel Europa væri, og hún benti til suðausturs og sagði að það væri við hliðina á rútustöðinni, sem væri við hliðina á lestarstöðinni, sem við vorum að koma frá. Jæja, við snerum þá við og gengum þangað, og eftir drjúgan spöl spurðum við aftur til vega, og höfðum þá farið allt of langt. Við snerum þá aftur við, fundum rútustöðina, og spurðum þjón á veitingahúsi til vegar, og þá sáum við hvar Hótel Europa var.
Hótelið var skínandi fínt. Hverfið sem þar er í er allt drabbað niður – og húsin af miklum vanefnum byggð. Nema þetta hafi verið fátækrahverfi frá upphafi. Kassafjalir og bárujárn; þetta minnti helst á Mexíkóborg eða eitthvað. Ryk og drasl. En alveg hreint skínandi huggulegt hótel. Það var nú ekki ókeypis, en bæði snyrtilegt og rúmgott herbergi, og ég hugsa að við höfum fengið hreppstjórasvítuna, þar sem við fengum svalir sem vissu út yfir laufskálann á framhliðinni, með ægifagurt útsýni yfir ryðgaða lestarvagnana á lestarstöðinni við hliðina. Loftkælingin var með sterkara móti. Rósa lagði sig, en ég settist út á svalirnar með bjór í annarri og bók í hinni, á nærbrók einni fata. Vegna sterkrar sólar var ekki hægt að sitja á garðhúsgögnunum nema breiða blaut handklæði á þau fyrst. Það fór nú bara ansi vel um okkur, þannig að okkur lá lítið á.
Það leið á daginn og það fór að rökkva. Við hugsuðum okkur til hreyfings, enda var okkur farið að svengja. Við röltum út af hótelinu og ætluðum að finna okkur veitingastað – það gat varla verið erfitt. Það vildi svo til að við vorum mun fljótari að finna krá, litla svakalega „lókal“ krá þarna rétt við hlið hótelsins. Þar sem við vorum líka þyrst, ákváðum við að tékka á henni. Fórum inn. Kráin var tvískipt; aðalstofa fyrir innan og forskáli fyrir framan. Við fórum á barinn, ég pantaði „dva pivo, molim“ og svo settumst við út í horn, við borð sem þar var.
Lókal fólkið á lókal barnum sá langar leiðir að við vorum útlendingar – það var dálítið horft á okkur. Fljótlega kom karl af næsta borði og gaf sig á tal við okkur. Hann var forvitinn um hver við værum og hvaðan og hvers vegna og allt það. Hann reyndist sjálfur vera eigandi apóteks, og var á djamminu með tveim eða þrem aðstoðarmönnum sínum. Við skröfuðum og skröfuðum. Hann var á sjöunda eða áttunda glasi. Hann sagði okkur hvað hann væri hrifinn af gengilbeinunni. Líka hvað Svartfellingar hefði stórt hjarta – „hér er pláss fyrir alla“ sagði hann, og nefndi til dæmis að einn félaga hans, hann Slavko, væri Serbi. Þriðjungur landsmanna væru Serbar, og það gerði ekkert til, hér væri nefnilega pláss fyrir alla, allir velkomnir í þessu litla landi með stóra hjartað. Hann spurði hverrar trúar ég væri. Ég sagðist vera trúleysingi. „Nú? Jæja, það er allt í lagi líka,“ sagði hann, „hér eru allir vinir. Hér í Svartfjallalandi eru allir orþódoxar, í serbnesku rétttrúnaðarkirkjunni, allir!“ sagði hann. Ég spurði hvort það væru ekki 12% landsmanna Albanar – væru þeir ekki múslimar? Lyfsalinn hristi hausinn og fussaði. „Tölum ekki um þá,“ sagði hann. Við Rósa kímdum.
Næst á dagskrá var tónlistaratriði. Karl lék á skemmtara og kona söng og sló tambúrínu. Þetta var svartfellskt popp, sterklega innblásið af þjóðlagahefð. Svartfellingar halda enn þétt í gamla menningu, eldri en nágrannaþjóðir þeirra sem voru meira eða minna undir Tyrkjum og Austurríkismönnum, með tilheyrandi menningarblöndun. Tónlistina sjálfa hefði ég satt að segja tæpast þekkt frá annarri þjóðlegri tónlist frá Balkanskaga – og textarnir voru áþekkir milljón öðrum textum líka. Lyfsalinn knái þýddi þá yfir á ensku jafnóðum, eftir bestu getu – þeir voru yfirleitt á þá leið að skáldið elskaði konu svo mikið að það hefði getað dáið fyrir hana, hún vildi ekkert með hann hafa og hvað gat hann þá gert? – semsagt, mjög skemmtileg tónlist, fjörug og melankólísk.
Slavko og lyfsalinn og þeir buðu okkur upp á umgang til að sýna gestrisni sína. Áður en við náðum að bjóða þeim upp á umgang, buðu þeir okkur upp á annan umgang. Þannig að við buðum þeim upp á tvo umganga – og þeir okkur síðan aftur og svo við þeim. Þá sættumst við á að segja þetta gott. Við höfðum þá drukkið sjö drykki og þeir einhverju fleiri.
Klukkan var á ellefta tímanum að kvöldi þegar við komum út af kránni. Það rifjaðist upp fyrir okkur að við áttum ennþá eftir að snæða kvöldmat, svo við ákváðum að kíkja bara niður í bæ. Gengum þangað sem ég held alveg örugglega að sé aðaltorgið. Það er umkringt fjölbýlishúsum í júgóslavneskum stíl – ekki nein fagurfræðileg stórvirki þar á ferð, en óneitanlega mun vistlegra en kassafjalaskúrarnir í hverfinu þar sem hótelið okkar var. Við fórum á hálfgerðan handborgarastað og keyptum okkur handborgara. Sami staður var jafnframt bakarí (þar sem var hægt að fá mjög snotra Barbie-afmælistertu fyrir börn) og einnig var þar bjórkælir. Ég bað um Niksicko, en afgreiðslustúlkan bað mig vinsamlegast um að fara í bolinn minn – það samræmdist víst ekki dresskódinu að vera ber að ofan, þótt hitasvækjan væri lítt bærileg. Jæja, ég gerði það, fékk minn bjór, við keyptum þessa handborgara og settumst út á bekk.
Sígaunarnir komu aðvífandi. Hópur af sígaunastrákum á unglingsárum, á BMX-hjólunum og í hvítu íþróttagöllunum. Ég veit ekki hvað það er með mig og sígauna, en þetta var í annað skiptið sem ég tala við sígauna (fyrra skiptið var í Bosníu-Herzegóvínu árið áður), hann talaði þessa fínu þýsku eins og sá fyrri og hann reyndi líka að snuða mig. Armin hinn bosníski náði af okkur nokkrum dínörum, sem mér var svosem sama um (vorkenndi meira Kananum í næsta klefa sem missti bakpokann sinn) og þessi – tja, eftir að ég sagði honum að ég nennti ekki heim til hans að tala við pabba hans og gista, þá sníkti hann af mér tvær eða þrjár evrur. Ekkert mál – ég átti svosem skítnóg af þessum evrum – en mikið finnst mér betl eitthvað leiðinlegt. Þeir sígaunar sem ég hef kynnst hingað til hafa ekki verið þjóð sinni til sóma.
Eftir að hafa stutt fordóma mína gegn sígaunum með reynslu númer tvö, þá fórum við á Hótel Evrópu og lögðumst til svefns.

Thursday, June 5, 2008

Ferðasaga 2007, II. hluti

Vegna lengdar birti ég þessa frásögn í nokkrum hlutum. Fyrsti hluti birtist á mánudaginn var, hér er annar hluti og restin birtist fljótlega.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~


Áttunda ágúst fórum við fyrst og skoðuðum frægan klukkuturn, þar sem beinagrind hringir bjöllu á heila tímanum og síðan opnast tvær lúgur þar sem allir postularnir kíkja út, ein á eftir öðrum. Ansi hreint flott. Svo fórum við og fengum okkur að éta á veitingahúsi; ég fékk mér gúllassúpu sem var aðallega búin til úr fitu. Við fórum svo á „Kommúnistasafnið“, sem er eitt lélegasta safn sem ég hef augum litið. Gott og vel, ég skil að margir Tékkar líti til fortíðarinnar með beiskju yfir mörgu, en þetta safn stillti dæminu upp eins og sósíalismi væri heimskur og illur í heild sinni. Allt var á sömu bókina lært: „Karl Marx setti fram róttækar hugmyndir um samfélagsmál, og þegar reynt var að framkvæma þær dóu tugmilljónir manna“ – „Lenín var valdaræningi sem sveifst einskis til að halda í illa fengin völdin“ – „Kommúnistarnir nýttu sér örvæntingu fólks til þess að gabba það og ógna því til að kjósa sig“ – og svo framvegis. Af safninu mátti til að mynda skilja að þáttur kommúnista í andspyrnuhreyfingunni gegn nasismanum hafi einungis verið ætlaður til að ræna völdum eftir stríðið, og að fólki hafi ýmist staðið stuggur af þeim eða verið svo heimskt að trúa áróðrinum. Aðeins ein hlið var kynnt til sögunnar, og hvergi nefnt t.d. að hin sósíalíska Tékkóslóvakía hafi séð íbúum sínum fyrir ókeypis menntun og heilbrigðisþjónustu, lækkað ungbarnadauða eða gert annað gott. Framfarir í landbúnaði eða iðnaði fengu dóma vegna mengunar og kemísks áburðar, sem enginn hugsaði út í þá vegna þess að mestu skipti að fólk fengi nauðsynjavörur. Í stuttu máli var áróðurinn óþekkjanlegur frá áróðri ríkisstjórnar Tékkóslóvakíu í Kalda stríðinu, nema hvað hann var með öfugum formerkjum. Margt má finna að stjórnskipan Tékkóslóvakíu í Kalda stríðinu, en einhliða heimsvaldasinna-áróður er kannski versta leiðin til þess.
Ég skrifaði heila, þéttskrifaða blaðsíðu í gestabókina, þar sem ég húðskammaði aðstandendur þessa heimskulega safns fyrir einhliða áróður, og bætti því við að mér þætti gaman að vita hvaða útsendarastofnun afturhalds eða heimsvaldastefnu hefði skipulagt það og fjármagnað. Ég gæti best trúað því að sendiráð Bandaríkjanna eða eitthvað sé þar á bak við. Rósa var stórhneyksluð líka.
Við komum út af safninu og settumst á pöbb, þar sem við drukkum bjór á íslensku verði. Á þarnæsta borði sátu nokkrir nýnasistar, einn í „Antiantifa“ stuttermabol.
Svo gengum við norður í gamla gyðingahverfið, þar sem búa víst fáir gyðingar í seinni tíð, en þar sáum við m.a. elstu starfandi sýnagógu í Evrópu, sem var reist árið 1240 ef mig misminnir ekki. hún lét svosem ekki mikið yfir sér, en þetta mun var sýnagógan þar sem góleminn á að liggja sofandi á háaloftinu – gólem sem einhver miðaldarabbíni bjó til að magnaði upp með seið, og fór síðan og lagði hálfa borgina í rusl og rústir áður en rabbínanum tókst að hafa hemil á honum. Hann á að liggja á háaloftinu í sýnagógunni og bíða þess að gyðingar Prag þarfnist hans – ekki ósvipað Holgeiri danska sem á að bíða undir Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn. Þess má geta að þegar Þjóðverjar tóku Tékkóslóvakíu og leiddu gyðinga hennar til slátrunar, þá lét gamli góleminn ekki á sér kræla.
Eftir að hafa fengið okkur meira að éta fórum við í búðarholu þar sem við keyptum smávegis, vatn og bjór og snakk og þannig, sem kostaði alveg ótrúlega mikið. Síðan héldum við á hótelið og lögðumst til svefns.
Þann níuna ágúst fórum við enn út í bæ, skoðuðum Karlsbrúna glæsilegu og litum síðan í lystigarð Albrechts von Wallenstein, herforingjans frækna sem vann sér mikinn orðstír í Þrjátíu ára stríðinu, og tapaði meðal annars fyrir Gústaf II Adolf Svíakonungi í Orrustunni við Lützen. Sá garður var sko ekkert slor. Þar vildi svo til að það voru að hefjast tónleikar, með þjónbúningum, söng og dansi, og horfðum við á nokkur lög. Við fórum því næst á tónleika í kirkju einni við austursporð Karlsbrúarinnar, þar sem Árstíðirnar eftir Vivaldi voru á dagskrá. Við vorum alveg ánægð með tónleikana og þannig, en það er samt satt sem segir í Lonely Planet bókinni, að þótt framboðið sé mikið af tónleikum, þá eru gæðin misjafnari. Ég hef með öðrum orðum alveg farið á betri tónleika og með færari hljóðfæraleikurum. En þetta var samt ósköp notalegt og svona. Að tónleikunum loknum fórum við á hótelið til að sofa, en komum við í minjagripabúð þar sem við versluðum m.a. kristal (er það ekki skylda?) – ég gekk út með forláta öskubakka, sem ég hlakka til að fara að nota einhvern tímann í framtíðinni þegar ég mun búa í húsnæði þar sem má reykja.
Tíunda ágúst skoðuðum við Prag-kastala (Prazký Hrad), sem Lonely Planet segir að sé stærsta kastalakomplex í heimi. Stór er hann, en ég trúi því ekki að flatarmálið sé meira en í Tower of London eða Kreml. Ætli Forboðna borgin í Beijing teljist með? Hún er víst engin smásmíð heldur. Í kastalanum sá ég svertingja, og það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að hann var með ör á kinnunum, svipuð örum á manni sem ég var að vinna með – svo ég spurði hann hvort hann væri nokkuð frá Nígeríu. Það stóð heima. Við enduðum með að spjalla heillengi við hann. Hann var þarna að dreifa auglýsingabæklingum, en var annars menntaður skipulagsfræðingur (er það ekki annars íslenska orðið fyrir „civil engineering“?) og vildi gjarnan komast eitthvað þar sem hann gæti unnið við sérgrein sína. Við bentum honum á að tækifærin væru fleiri og launin betri á Íslandi eða í Skandinavíu heldur en í Tékklandi. Annars hefði ég haldið, eftir lýsingum að dæma, að það væri nóg að gera fyrir skipulagsfræðinga í Lagos eða Abuja í Nígeríu, en það er önnur saga.
Kastalinn er drulluflottur, það verður ekki af honum tekið. Við skoðuðum gríðarlega fallega dómkirkju sem er inni í honum, og þar var reyndar að hefjast messa. Mér sýndist messan vera kaþólsk; annars minnti mig að Tékkar væru upp til hópa kalvínistar. Jæja, skítt með það. Auk dómkirkjunnar skoðuðum við minni kirkju, sem var ósköp snotur líka, og hluta af höll sem eitt sinn hýsti konunga. Síðan þurftum við að haska okkur, þar sem verið var að loka. Það rigndi óskaplega mikið, og í fyrsta skipti í mörg ár hafði ég gleymt að taka hattinn minn með mér. Við leituðum skjóls á krá á leiðinni niður í bæ, ætluðum að bíða af okkur veðrið og fá okkur að éta og drekka í leiðinni. Eftir langa bið þar hafði veðrinu enn ekki slotað, svo við drifum okkur bara. Þegar við komum á hótelið pöntuðum við leigubíl morguninn eftir, þar sem við ætluðum að yfirgefa borgina.
Að morgni ellefta ágúst tókum við semsagt leigubíl á lestarstöðina. Af einskærri heppni náðum við lest sem gekk beina leið frá Prag til Århus. Á leiðinni spjölluðum við fyrst við einhvern ungan Tékka sem var í klefanum, og þegar hann fór út komu miðaldra hjón inn. Þau voru áhugaverðir ferðafélagar, svo ekki sé meira sagt. Þau voru frá Bólívíu, karlinn prófessor í lögfræði og konan sjóntækjafræðingur, og áttum við langt og ítarlegt spjall við þau um stjórnmálaástandið í Suður-Ameríku, ekki síst um Hugo Chavez og Evo Morales. Mikið var gott að heyra hvernig þau litu á málin – yfirveguð og alveg laus við sleggjudóma. Bara hreinskilnislegt mat. Þau voru alveg á því að það væri þörf fyrir róttækar breytingar, en hins vegar fannst þeim Evo Morales ekki vera á réttri leið. Hann hefði alveg viljann til að gera hið rétta, en væri bara of óskipulagður; vissi ekki nógu vel hvað hann væri að gera og önnur höndin vissi ekki hvað hin hefðist að. Hann væri ekki með nógu góðar áætlanir, og óskipulegt fálm hans í umbótaátt gerði því miður alls ekki það gagn sem til væri ætlast. Óöryggi í hagkerfinu og óvissa um morgundaginn gerði enn fremur illt verra. Þetta var í aðalatriðum það sama og ég áleit fyrir, og mér þótti mjög fróðlegt að heyra þetta frá þeim. Það var hvergi komið að tómum kofanum – þegar við spurðum þau út í suður-amerísk tollabandalög vildi meira að segja svo til að karlinn var nýbúinn að skrifa bók um þau! Rósa lét þau fá netfang sitt og heimilisfang og bað þau að skrifa sér, sem þau sögðust mundu gera, því hún hefur hug á að rannsaka stjórnmálaástand Suður-Ameríku og þau höfðu mikinn áhuga á að hjálpa henni, t.d. með því að nálgast heimildir og annað, og jafnvel skjóta yfir hana skjólshúsi ef hún kæmi einhvern tímann til La Paz. Þessi heiðurshjón fóru út í Berlín, en við héldum för okkar áfram.
Lestin kom á áfangastað í Århus um 9-leytið um kvöldið og við tókum strætó heim til Rósu. Þar var Særós dóttir hennar fyrir, og urðu fagnaðarfundir. Við fengum okkur að eta og drekka, en fórum allsnemma í háttinn, enda dauðþreytt eftir langa lestarferð.
Þann 11. ágúst ók Rósa Særós í heimavistarskólann þar sem hún verður í vetur. Ég hékk heima á meðan, slappaði af úti í garði og las í Hvað ber að gera eftir Lenín. Tók því m.ö.o. rólega mestallan daginn, og umpakkaði farangri mínum.
Ég tók því líka rólega 12. ágúst; við hengum bara heima, lásum og höngsuðum.
Þann 13. ágúst skildust leiðir. Ég fór með morgunlest til Hamborgar, en Rósa fór í fundarferð með félagi stjórnmálafræðinema í Århus í sumarbústað á Samö. Ég kom á Hamburg Dammtor þegar skammt var liðið á síðdegið, og ætlaði að taka næturlest þaðan seint um kvöldið. Til að drepa tímann fann ég mér krá, þar sem ég las bækur og blöð og drakk mig fullan á meðan. Drukkinn Þjóðverji var svo hrifinn af því að ég væri í leðurbuxum í þessum heita, eins og heimamaður, að hann bauð mér ískaldan Korn.
Um kvöldið kom svo lestin, ég fann svefnklefann sem ég hafði látið taka frá. Las í bók til að byrja með og lagðist svo til svefns. Ég get ekki sagt að ég hafi sofið vel, enda var þetta fyrsta ferð mín með næturlest og ég ekki orðinn „sjóaður“ í þeim – en nokkurn svefn fékk ég þó.
Ég kom til München eldsnemma að morgni 14. ágúst, á sjöunda tímanum. Þar sem hérumbil allt var lokað, fann ég mér krá, þar sem ég hékk í á að giska 9 klukkutíma. Þar komst ég á netið, drakk nokkra bjóra og kláraði Hvað ber að gera, og byrjaði síðan á Opið land eftir Eirík Bergmann Einarsson. Á endanum fór ég og fann mér gistingu, á „European Youth Hostel“ við Senefelderstrasse. Var þar á dormi með amerískum stjórnmálafræðinema og stelpu sem var hnerrandi og snörlandi alla nóttina. Ég var því fegnastur að smitast ekki. Hélt áfram að lesa Opið land. En um kvöldið fór ég á dönerstað ekki langt frá gistihúsinu og fékk mér vel að éta.
Fimmtánda ágúst tékkaði ég mig út og skoðaði mig um í München. Skoðaði ansi fínt torg með gosbrunni, síðan borgarhlið og göngugötu og síðan dómkirkjuna. Hún er helvíti nett; tröllaukin að stærð en alls ekki of hlaðin skrauti. Það er sagt að það sé alltaf hvass strengur umhverfis háan turninn, og því get ég vel trúað. Í dómkirkjunni fetaði ég í fótspor Kölska, en sagt er að á meðan á byggingunni stóð hafi hann komið, áður en hún var vígð, og hlegið að byggingameistaranum fyrir að hafa gleymt að gera glugga. Sá sagði honum þá einhver fleyg orð og Kölska varð svo mikið um að svart fótsporið sést enní gólfinu – úr svörtum marmara, reyndar. En í þá daga var altari kirkjunnar svo stór, að glugginn fyrir aftan það sást ekki, og séð frá staðnum þar sem Kölski stóð, og séð að altarinu, þá sést einmitt enginn af hinum gluggunum heldur. Merkilegt, ha?
Eftir að ég var búinn að skoða dómkirkjuna, hélt ég áleiðis á aðaláfangastað dagsins. Förinni var heitið á Hofbräuhaus – hirðbrugghúsið sem frægt er af söngnum góða, „In München steht ein Hofbräuhaus, eins, zwei, g’suffa!“ Ég var frekar fljótur að finna húsið, sem hýsir stærsta bjórgarð heims, og ég hef fyrir satt að þar megi koma fyrir 8000 manns. Ég fann mér sæti, hlýddi á undurfagra Blasmusik og pantaði mér ein Mass Dunkles, og svo annan til. Sat svo í makindum og las í bók í þessum helgisal lífshamingjunnar, og skrifaði nokkur póstkort.
Eftir þetta fór ég á Deutsches Museum, á eyju í ánni Isar. Þar skoðaði ég sjóminjadeildina og iðnsögudeildina og síðan jarðsögu- og námuvinnsludeildina. Meira náði ég ekki að sjá fyrir lokun, en fannst þetta ansi flott, það sem ég náði að soða.
Eftir þetta fór ég til að svipast um eftir öðru, höfuðstöðvum Kommúnistaflokks Þýskalands. Ég hafði fundið heimilisfangið á netinu morguninn áður. Það kostaði langa leit að finna þetta. Fyrst tók ég lest, gekk svo langa leið, settist svo inn á pöbb og fékk mér einn svalandi á meðan ég spurði til vegar, og gekk síðan kippkorn og spurðist nokkrum sinnum til vegar á leiðinni – og fann loks staðinn. Fjölbýlishús. Það stóð „KPD“ á dyrabjöllunni á þriðju eða fjórðu hæð, og ég hringdi henni. Beið. Hringdi svo aftur. Beið lengur. Þegar ég nennti ekki að bíða lengur fór ég á veitingastað við hliðina og fékk mér rísottó með rækjum. Maturinn var góður en ég þurfti að bíða óskaplega lengi eftir afgreiðslu, mat og reikningi.
Að matnum étnum fór ég aftur á European Youth Hostel og sótti farangur minn, og fór síðan á lestarstöðina. Þar fann ég bókabúð sem átti til íslensk-þýska þýsk-íslenska vasaorðabók. Ég keypti hana, enda týndi ég minni fyrir löngu síðan. Sú sem ég keypti var s.s. Langenscheidt-bókin litla, sem er alveg hreint helvíti góð; ég mæli óspart með henni umfram aðrar þýskar vasaorðabækur sem ég hef notað, bæði fyrirferðarlítil og innihaldsrík. Svo fékk ég mér að éta og eitthvað og hékk og las á meðan ég beið eftir lestinni sem ég ætlaði að taka til Ljubljana. Þegar hún kom varð mér varla um sel; þetta var semsagt næturlest, og ekki beint beysin í samanburði við þá sem ég tók nóttina þaráundan – júgóslavneskur gripaflutningavagn, liggur mér við að segja. Við sváfum sex saman í jafnmörgum kojum í klefa sem var ekki stærri en 2x2 metrar að flatarmáli. Frá dýnunni minni upp í rúmbotninn fyrir ofan voru varla nema 70 sentimetrar. Þessi nótt var frekar erfið, svo ég taki eki dýpra í árinni. Ég las smá í bælinu til að byrja með, eins og ég er vanur, og reyndi svo að sofna. Það gekk afar hægt að festa blund, en að lokum náði ég við illan leik að sofna og svaf í á að giska tvo tíma. Stutt og illa.

Monday, June 2, 2008

Ferðasaga, ágúst 2007, I. hluti

Vegna lengdar verður þessari sögu póstað í nokkrum hlutum. Ég býst við að pósta næsta hluta á miðvikudag eða fimmtudag.

Ferðasaga, ágúst 2007
Ég flaug til Kaupmannahafnar þriðjudagsmorguninn 31. júlí, ásamt fríðu föruneyti. Þar á meðal voru Óli og Pétur tröllavinir, og þónokkur hópur að auki. Við hittum Þorstein, skipuleggjanda ferðarinnar, við Hovedbanegården. Við Óli urðum samferða honum og Fríðu, kærustu hans, á stúdentagarð þar sem við höfðum fengið inni fyrir lítið fé, og eftir að hafa losað okkur við farangurinn og tekið því rólega með bjór í hönd, skruppum við niður í bæ, átum, drukkum og vorum glaðir, og fórum síðan snemma að sofa.

Morguninn eftir, 1. ágúst, fórum við eldsnemma á fætur. Bróðir Þorsteins keyrði stóran hluta af farangrinum okkar á rútubílastöðina, þangað sem við fórum svo líka, og þar safnaðist svo allur hópurinn saman, sem var að fara á Wacken. Það voru á að giska 60 manns. Við ókum af stað, sem leið lá til Holtsetalands, með viðkomu í landamærabúð nærri Flensborg, þar sem við versluðum áfengi fyrir helgina. Þegar nær dró Wacken blasti við óhemjulega löng bílaröð, og það tók rútuna okkar heila eilífð að silast þar í gegn. Við gengum meðfram henni stóran hluta leiðarinnar, drukkum og reyktum og byrjuðum partíið snemma. Tveir vel hífaðir Þjóðverjar urðu á vegi okkar, með stóreflis drykkjarhorn, og báðu okkur um áfengi – alveg sama hvað – í hornið. Þeir fengu blöndu af bjór og rommi, og gott ef það var ekki slatti af lakkríslíkjör með í kaupbæti. Síðan var hornið látið ganga hringinn á meðan við trölluðum sönginn sem þekktastur er í Línu langsokki.

Þegar til Wacken kom biðum við ekki boðanna, sóttum farangurinn í rútuna og héldum af stað í armbandaafgreiðsluna. Það tognaði verulega á hópnum. Ég var með þeim fyrstu; kom að afgreiðslunni þar sem miðinn var rifinn og við fengum hin fögru armbönd, sem veita aðgang að hátíðinni sjálfri. Skemmtilegt var, að við hliðina á afgreiðslunni fann ég 700 ml viskíflösku, óátekna, sem lá þar munaðarlaus. Ég ættleiddi hana í snatri!

Helgi, sem hér eftir verður kallaður Bubbi, hafði komið á tjaldstæðið snemma um morguninn með vinkonu sinni, og tekið frá væna spildu fyrir tjaldbúðir Íslendinganna. Nú var slegið upp tjöldum; ég var í tjaldi með Óla, og í næsta tjaldi var Kristinn, sem hafði farið tvisvar áður á Wacken. Einnig voru sett upp tvö feiknastór partítjöld, hlið við hlið, þannig að þau spönnuðu alls 6x9 metra. Það var margra manna verk, en sóttist frekar hratt. Ég tók að mér að skreyta tjaldið með myndum af drekum og einhyrningum, einföldum húsreglum, sem var lítið farið eftir, og svo voru Svíar boðnir sérlega velkomnir með stórri áletrun. Ekki má gleyma Járngrími, lukkutrölli Hins íslenska tröllavinafélags (HÍT), en hann prýddi suðurhlið tjaldsins. Gunnfáni HÍT var einnig með í för eins og fyrri daginn, og var reistur upp á þverstöng á mjög löngum greinum sem ég „fann“ í nærliggjandi skjólbelti. Enginn hafði haft rænu á að taka íslenska fánann með, en sem betur fer fann einn úr hópnum hann til sölu á metalmarkaðnum.

Dagarnir fyrir Wacken höfðu verið þurrir, en vikurnar þar á undan hafði rignt svo mikið að elstu menn mundu ekki annað eins. Á einni viku rigndi svo mikið að það nam víst 360 lítrum á fermetra. Jörðin varð auðvitað gegnsósa og litlu munaði að það þyrfti að aflýsa hátíðinni. En guðir þungarokksins voru oss hliðhollir, og það stytti upp í tæka tíð. Efsta laginu af jarðvegi var hreinlega mokað af tónleikasvæðinu, síðan voru settir 5000 fermetrar af einhverjum dúk, og svo tugir tonna af hálmi þar ofan á. Þyrlur – já, þyrlur – voru notaðar í lágflugi til þess að blása vatninu af tjaldstæðunum, sem samt voru blaut, en þó ekki svo að til vandræða væri. En þvílík býsn af vatni. Þetta miðvikudagskvöld drukku menn sig fulla en fóru frekar snemma að sofa, eða, í það minnsta ég.

Fimmtudaginn 2. ágúst fór ég á fætur þegar ég vaknaði, í svitabaði, drakk 1,5 lítra af vatni og opnaði mér síðan bjór. Þar sem ég sat í partítjaldinu komu tveir og stungu upp á því að við kíktum á Blitzkrieg, sem voru að fara að byrja á Black Stage. Ég var nú til í það. Við fórum því, fengum okkur að éta, og horfðum svo á Blitzkrieg. Svo fengum við okkur meira að éta og drekka, og horfðum svo á Rose Tattoo. Þegar Rose Tattoo voru svona hálfnaðir, svona um kvöldmatarleytið, þá fann ég að ég var búinn að fá nóg og þurfti að fara heim í búðir. Eftir það man ég ekki neitt, og missti m.a. af Sodom, en það voru helstu vonbrigði hátíðarinnar fyrir mitt leyti.

Mér er sagt að ég hafi komið í partítjaldið, hlammað mér þar í útilegustól og setið niðurlútur drykklanga stund. Um það vitna ljósmyndir. Mér er ennfremur sagt að ég hafi staulast inn í tjald fyrir miðnætti, en sjálfur veit ég ekki annað en að ég vaknaði morguninn eftir, háttaður í svefnpokanum mínum. Fór á fætur, drakk aðra flösku af vatni, og settist svo í partítjaldið og saup á bjór. Þennan dag tók ég því rólegar en þann fyrri, drakk á hæfilegum hraða og gætti þess að éta með og drekka vatn inn á milli. Niðurstaðan varð sú að ég var alveg mátulega drukkinn allan daginn og fram á nótt.

Föstudaginn 3. ágúst sá ég fyrst Suidakra, og þegar þeir voru búnir ætlaði ég á Amorphis. Ekki vildi betur til en svo að það kviknaði í skraufþurrum hálminum og af hlaust mikið bál. Það var ekki mér að kenna. Biksvartur reykur vall upp og fólk vék fyrir slökkviliðinu, sem var fljótt á staðinn. Fyrir vikið raskaðist dagskráin; ég held samt að ég hafi séð Amorphis skömmu seinna, en hins vegar var mér sagt að þeir hefðu þurft að hætta við. Nú þekki ég ekki til þeirra, þannig að ég er ekki dómbær á það, en hins vegar hefði dagskráin ekki riðlast ef þeir hefðu bara hætt við – og fyrst hún riðlaðist, þá liggur mér við að álykta að ég hafi séð þá.

Næst sá ég Napalm Death, Therion, Possessed og Grave Digger. Eftir það leit ég á metalmarkaðinn, keypti eitthvað smávegis, og fór svo í tjaldbúðirnar. Á leiðinni þangað rakst ég á nokkra spánska metal-kommúnista, og fór vel á með okkur. Þaðan fór ég aftur þegar Lacuna Coil voru að byrja, og sá þau, síðan Blind Guardian, Dimmu Borgir, Schandmaul, Iced Earth (sem ég hafði líklega mesta ánægju af að sjá á hátíðinni), Kampfar, Die Apokalyptischen Reiter og Samael. Ég át einnig eitt spjót af grilluðu svínakjöti, og var fyrir vikið með niðurgang næsta sólarhringinn. Þegar ég kom í tjaldbúðirnar aftur, á þriðja tímanum um nóttina, var ég í mínu besta stuði, og sat og skrafaði og eitthvað þangað til ég fór í háttinn.

Að morgni laugardags 4. ágúst drakk ég enn flösku af vatni. Þennan dag var ég ekki í skapi til að drekka. Það voru ekki timburmenn sem réðu því, heldur frekar ástandið á maganum á mér eftir svínakjötið kvöldið áður. Ég drakk vatn í staðinn, og át það sem ég hafði lyst á. Nokkru fyrir klukkan eitt fór ég á Sacred Reich, en tók því síðan rólega í tjaldbúðunum fram undir kvöldmat, en þá fór ég og sá Swallow the Sun, Norther, Destruction, Type O Negative (sem komu mér best á óvart á hátíðinni), Benedictum, Immortal og Moonsorrow. Eftir stutt innlit í tjaldbúðirnar fór ég aftur á svæðið og sá þá Unheilig, Cannibal Corpse og Haggard, og fór svo að sofa.

Sunnudaginn 5. ágúst fórum við Óli á fætur með fyrra fallinu, eins og aðrir, og pökkuðum saman dótinu okkar og tjaldinu. Þar sem Óli var að fara beint til Íslands og var með lítinn farangur, þá féllst hann á að taka með eina tösku fyrir mig, íþróttatösku með skítugum fötum, Wacken-gallanum mínum og svo dóti sem ég hafði keypt mér. Pétur tók að sér að ferja fána HÍT heim. Viskíflöskuna góðu gaf ég, til að spara mér burðinn (fyrir utan að ég var með pela líka), og síðan skildi leiðir. Ég fór, ásamt Bubba og vinkonu hans, til þess að komast í strætó til Itzehoe, en hitt liðið fór með rútunni til Kaupmannahafnar. Við þurftum að bíða hrikalega lengi, í þvögu af sveittum Þjóðverjum, en komumst á endanum um borð í einn strætóinn. Fórum semsé til Itzehoe, keyptum okkur þar lestarmiða og fórum til Hamborgar (Altona), þaðan sem við tókum svo aðra lest til Berlínar.

Í Berlín hittum við nokkra stráka sem höfðu verið ferðafélagar Bubba og vinkonu hans á interraili áður en þau komu á Wacken. Við fórum saman þangað sem Bubbi átti bókaða gistingu – það reyndist vera búddista-pönkara-anarkistahola á götuhorni, og leist ekki öllum í hópnum á blikuna. Ekki var pláss fyrir okkur hina fimm, svo við fengum okkur bjór, tókum svo lest á farfuglaheimili við Zoologischer Garten, en þar reyndist líka allt vera fullt. Þaðan hringdum við á nokkur hostel, og fundum loks eitt, í hinum enda bæjarins. Tókum lestina, að því er við héldum, þangað, en enduðum með að þurfa að ganga á að giska 5 km frá lestinni – og vera auk þess á leið á rangt hostel. Ferðin var samt ekki til einskis, því að við hliðina á því hosteli var hið myndarlegasta, tja, ég býst við að það kallist fríríki. Hústökufólk hafði tekið þar hús og stærðar lóð í kring, sest þar að, margir á hjólhýsum, og víggirt allt í kring, m.a. með sundurklipptum innkaupakerrum. Fríríkið heitir „Köpi“ – stytting á Köpenickerstrasse, þar sem það er, í húsi númer 88. Ég dró strákana með þarna inn, og þar var mjög athyglisvert um að litast; pönkarar að æfa sig á trommur, rottur sem skutust um, stjórnleysingjalubbar hangandi út um gluggana og heilt stóð af bardagahundum sem beið eftir að vera sigað á óboðna gesti.

Þótt við hefðum villst, var ekki öll von úti, því það var stutt að fara á næstu lestarstöð, og þaðan á stöð sem var við hliðina á A&O hostelinu sem við áttum bókað pláss á. Ég pantaði mér eins manns herbergi, þreif svo af mér mesta útileguskítinn, og svo átum við og fórum að sofa. Daginn eftir, 6. ágúst, skrapp ég út í bæ, saup smá bjór og las í bók og hitti svo strákana við Jüdisches Museum. Það var vopnaleit við innganginn, og sjálfskeiðungurinn tekinn af mér! Skoðuðum safnið hátt og lágt og skrifuðum (á þýsku) svo í gestabókina að við vildum jafnrétti og mannúð, og værum því á móti nasistum og á móti zíonistum, og styddum frjálsa Palestínu.

Ég kvaddi strákana og fór á Hauptbahnhof til að hitta Rósu. Hún var að koma frá Árósum, í gegn um Hamborg, og urðu þar fagnaðarfundir. Ég keypti mér interrail-miða, sem leyfir 10 ferðadaga að eigin vali á 22 daga tímabili, 7.-28. ágúst. Við fórum svo á hostelið, og hún gisti með mér á eins manns herberginu um nóttina.

Daginn eftir fórum við á Hauptbahnhof og tókum lest til Chemnitz. Þar gengum við niður í bæ og skoðuðum hið geysistóra og tignarlega minnismerki um Karl Marx, tókum myndir, keyptum spennandi minjagripi, átum ís og drukkum bjór og skrifuðum póstkort. Fórum svo aftur í lestina, og ókum til Prag, þangað sem við komum seint um kvöldið. Á lestarstöðinni þar hittum við harkara sem reddaði okkur gistingu á hóteli, og við ákváðum bara að taka því. Hótelið var lítið en vel í sveit sett. Verðið var ekki lágt, en viðráðanlegt. Við bókuðum fjórar nætur.

Pyntaður

Jæja, þá hefur maður prófað vatnspyntingar. Það var fróðlegt. Drukknunartilfinningin yfirþyrmandi; mjög óþægilegt. En fróðlegt.