Tuesday, December 30, 2014

Seth who?

Ekki veit ég hver eða hvað Seth Meyers er, né af hverju það er merkilegt að hann haldi upp á afmælið sitt á Íslandi. Ég hef oft haldið upp á afmælið mitt á Íslandi, án þess að Vísir hafi séð ástæðu til að slá því upp sem frétt.

Monday, December 29, 2014

Ráð við "hættulegu grjótkasti"

Ísraelskir hermenn munu hafa drepið ungan Palestínumann sem kastaði grjóti í brynvarinn bíl. Já, í brynvarinn bíl. Þetta heitir morð á íslensku. Ekki það, að ég skil vel að Ísraelarnir vilji ekki verða fyrir grjótkasti. Og það er líka einfalt að komast hjá því: drullið ykkur burt með hernámið og þann yfirgang, ofbeldi, morð, skemmdarverk og ótal aðra glæpi sem því fylgja.

Grjót er ekki máttugt vopn gegn skriðdrekum eða brynbílum. En það er yfirlýsing. Yfirlýsing um að maður sé ekki bugaður og neiti að gefast upp. Það er náttúrlega það sem zíonistarnir þola ekki. Þeim finnst eini eini góði indjáninn vera dauði indjáninn. Svo má kannski líka þola þá sem eru flúnir nógu langt í burtu. Út fyrir svæðið milli Efrat og Nílar, sem guð gaf þeim fyrir 3000 eða 4000 árum, samkvæmt bók sem þeir skrifuðu sjálfir.

Friday, December 26, 2014

"Vestræn gildi á borð við lýðræði og frjálshyggju"

Ríkisútvarpið greinir frá "hugmyndafræðilegri herferð" í einni af þessum skrítnu fréttum sínum um Kína. Ef einhver hefur lesið Edward Said, getur hann kannski kannast við einskonar óríentalisma í þessari frétt, hvað austurlandabúar séu framandi og furðulegir:
Það er forseti Kína, Xi Jinping, sem á aðalheiðurinn af herferðinni, en hann hefur frá því hann tók við embætti í fyrra, haldið sósíalískum gildum á lofti og gert hvað hann getur til þess að efla stuðning almennings við Kommúnistaflokkinn.
Það er náttúrlega besta máli í sjálfu sér, að halda sósíalískum gildum á lofti, en eitthvað er nú skrítinn þefur af þessari frétt, "auður og völd" eru þarna meðal gilda, a.m.k. eins og Ríkisútvarpið útleggur fréttina. Er þetta þýðingarvilla?
Ráðamenn halda því þó enn fram að vestræn gildi á borð við lýðræði og frjálshyggju séu ekki viðeigandi í Kína
Vestræn gildi á borð við lýðræði og frjálshyggju? (A) Ég fylgdist bæði með þegar Xi Jinping var kosinn forseti og þegar Barack Obama var kosinn forseti. Ef þetta væri keppni í lýðræði, þá hefði Obama alla vega ekki unnið þá keppni. En það er skrítið að hafa það eftir ráðamönnum í Beijing að lýðræði sé framandi gildi fyrir Kínverjum. Síðast þegar ég vissi töldu þeir sig nefnilega stunda lýðræði, þótt það væri að vísu með öðru formi en á Vesturlöndum. (B) Er frjálshyggja "vestrænt gildi"? Loks hnaut ég um þetta:
Í dagblaðinu kemur fram að með herferðinni vilji borgaryfirvöld í Wuhan reyna að tryggja sér nafnbótina: Siðfáguð, þjóðleg borg. Hana fá þær borgir sem standast siðferðislegar kröfur yfirvalda. 
Er þetta ekki svipað og þegar Garðabær, Seltjarnarnes og Reykjanesbær eru að keppast við að uppfylla amríska drauminn og fá verðlaun Heimdallar fyrir sveitarfélag ársins?

Wednesday, December 24, 2014

Frekjurnar sem vilja ræna jólunum

Ég skrifaði grein, hún heitir „Leyfum ekki frekjum að ræna jólunum“. Hún birtist á Vísi í gær: Leyfum ekki frekjum að ræna jólunum og á Vantrú í dag: Leyfum ekki frekjum að ræna jólunum. Njótið! Og gleðileg jól!

Monday, December 22, 2014

„Ég er ekki rasisti, en...”

Maður sem ég þekki lauslega sagði um daginn þessi fleygu orð í mín eyru: „Ég er ekki rasisti -- en hver andskotinn er að svertingjum!? Þeir eru svo klikkaðir! Og svo heimskir!“

Saturday, December 20, 2014

Óhefðbundin jól??

Gott dæmi um óhefðbundin jól væri ... rjúpa á aðfangadag
Ríkisútvarpið greinir frá. Hvaða bull er þetta? Hvernig getur rjúpa talist óhefðbundin á aðfangadag? Hefur það farið framhjá fréttamanninum að rjúpnaveiði hefur verið takmörkuð til muna vegna þess hvað stofninn hefur minnkað? Það -- lítið framboð -- er væntanlega ástæðan fyrir því að það eta hana fáir á jólum, og þeir sem ekki skjóta sjálfir þurfa að punga út þúsundum fyrir hvern fugl ef þeir kaupa hann á svörtum markaði. Það má vel gera ráð fyrir að karlmaður eti tvo ef ekki þrjá fugla, þannig að augljóslega er hún ekki á borðum flestra ... en óhefðbundin?

Sunday, December 7, 2014

Gift kona kaþólskur prestur?

1) Kaþólska kirkjan bannar konum að vera prestar.
2) Kaþólska kirkjan bannar prestum að giftast.

Thursday, November 27, 2014

Íslamska ríkið, hvað ber að gera?

Íslamska ríkið fer mikinn og gustar af því þannig að fýluna leggur a.m.k. hingað norður til Danmerkur þar sem ég sit og skrifa. Hér í Aarhus er m.a.s. moska þar sem froðufellandi íslamistar vinna unga menn á sitt band og senda þá á blóðvöllinn. Ég skal játa að ég skil ekki hvers vegna enginn hefur unnið alvarleg ofbeldisverk á þessari mosku og svínunum sem ráða í henni, en látum það liggja milli hluta.

Íslamska ríkið er skilgetið afkvæmi Vesturveldanna. Í aðra ættina er það beint afkvæmi þeirra, og í hina ættina óbeint. Beint, vegna þess að vestræn, einkum bandarísk, öfl hafa beinlínis hjálpað þeim að koma sér á laggirnar með m.a. vopnasendingum og þjálfun, hafa magnað þá upp til að ráða niðurlögum Assads og Baath-flokksins í Sýrlandi. Þeim virðist sem betur fer ekki verða kápan úr því klæðinu, þökk sé stuðningi Rússa og Kínverja og þökk sé tryggð og hreysti sýrlenska hersins og stykri forystu Assads. Og óbeint vegna þess að ólgan sem ÍS sprettur upp úr er meira og minna ruðningsáhrif af Íraksstríðinu, auk þess sem þorparaöfl við Persaflóa leika tveim skjöldum.

Það má heldur ekki gleyma gildi þess að eignast ógurlegan nýjan óvin á svæðinu, sem réttlætir frekari hernað og hermdarverk. Í löndum eins og Sýrlandi og Írak eiga aldrei eftir að ríkja öfl sem eru höll undir Vesturlönd, nema þá í krafti ofbeldis og kúgunar. Á meðan ekki er hægt að brjóta andstöðu fólksins niður með ofbeldi og "friða" löndin þannig, er það því hagur Vesturveldanna að stuðla frekar að upplausn, sundrungu og innbyrðis erjum, þannig að fólkið geti ekki sameinast og veitt heimsvaldastefnunni viðnám. Þá er auðveldara að ráðskast með það. Deila og drottna.

Loftárásir Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra eiga ekki eftir að brjóta ÍS á bak aftur. Þær eiga eftir að valda ómældum hörmungum fyrir óbreytta borgara og þær eiga líka sumpart eftir að styrkja ÍS með því að draga þarna víglínu milli vestrænnar heimsvaldastefnu annars vegar og ÍS hins vegar. Þá munu ungir, róttækir múslimar þyrpast í raðir ÍS og halda að þeir séu að berjast gegn heimsvaldastefnunni.

Ekki bætir það úr skák að réttlætingarnar byggjast á mörgum lögum af hræsni og skinhelgi. Dæmi: IS er stutt af Erdogan Tyrkjavaldi, en Tyrkland er í Nató og á að heita bandamaður Vesturlanda, til að berja á Kúrdum og veraldlega sinnuðum stjórnvöldum Sýrlands. IS er líka stutt af ýmsum, of ríkum, öflum bókstafstrúarmanna við Persaflóa þótt ruddaríkin þar eigi líka að heita bandamenn Vesturvelda. Og Saúdi-Arabar eiga að vera með Vesturveldunum í liði, þótt þeir séu kannski afturhaldssamasta aflið af öllum á svæðinu -- og er þá Íslamska ríkið sjálft kannski eina undantekningin. Eða lítur þannig út í fjölmiðlum; þar er mikið gert úr því þegar Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi hálsheggur gísl -- en þegar íslamska ríkið á Arabíuskaga, Saúdi-Arabía, hálsheggur tugi manns á ári, þá er lítið fjallað um það. Enda bandamenn Vesturvelda.

Það fór um mig hrollur nú síðsumars þegar Bandaríkjamenn kynntu fríðan flokk ríkja sem mundu taka þátt í loftárásum á Íslamska ríkið. Oft var tekið fram í fréttum að það "þætti sterkt" fyrir Obama að hafa Saúdi-Araba og fleiri arabalönd þar á meðal, það gæfi aðgerðinni betra yfirbragð. Ætli arabinn á götunni sé sama sinnis? Ætli þeir séu svo hrifnir af kúgunarvaldi Persaflóafursta?

Fólki getur fundist það sem því sýnist um Bashar al-Assad í Sýrlandi og stjórn hans. Ég fyrir mitt leyti trúi ekki öllu sem ég les í íhaldspressu Vesturlanda, þótt ég viti vel að margt sé að í landinu. Alla vega, það er aukaatriði. Assad og ríkisstjórn hans og her eru (a) tvímælalaust betri kostur en Íslamska ríkið og (b) einu öflin sem geta í alvörunni sigrað það. Skilyrðin fyrir því eru að utanaðkomandi öfl eins og Tyrkir og Flóafífl hætti að styðja Íslamska ríkið og að Sýrlendingar fái stuðning í staðinn. Menn þurfa ekki að elska Assad til að geta valið þann kost, það er einfaldlega skásti kosturinn. Það þýðir ekki að það verði fagurt á að líta; það verður það svo sannarlega ekki, en það eru engir aðrir kostir betri í stöðunni.

Monday, November 24, 2014

Palestína: friður verður aldrei byggður á yfirgangi

Mads Gilbert bannað að fara aftur til Gaza, um aldur og ævi, og öryggisástæðum borið við. Þegar ísraelsk yfirvöld segja "öryggisástæður", þá þýðir það yfirleitt annað hvort að það er geðþótti sem ræður, eða eitthvað annað sem hljómar of illa til að segja það. Ástæðan í tilfelli Gilberts er augljóslega að hann lætur ekki duga að hlynna að særðum, heldur ber líka vitni um það í vestrænum fjölmiðlum hvers vegna ástandið er svona, ber vitni um níðingshátt og grimmd Ísraela.

Um leið berast fréttir af því að ísraelsk yfirvöld ætli aftur að fara að rústa heimilum í hefndarskyni þótt einhverjir embættismenn hafi "dregið árangur þess í efa", eins og Vísir orðar það. Hefndaraðgerðir, með öðrum orðum. Áhrif þeirra er ekki að fæla herskáa Palestínumenn frá því að beita ofbeldi, heldur að reita aðra Palesínumenn enn meira til reiði og framkalla þannig ennþá meira ofbeldi af þeirra hálfu -- sem Ísraelar munu svo nota til að réttlæta fjöldamorð með stórvirkum vinnuvélum næst þegar hægriöfgamenn þurfa að píska upp stuðningsmóðursýki sjálfum sér til handa eða hafa meiri peninga af Bandaríkjunum.

Vandamálið í samskiptum Ísraela og Palestínumanna er í grunninn til ekki flókið. Vandamálið er að Ísraelar halda mestum hluta Palestínu hernumdum, en hafa herkví um afganginn. Fyrir utan þá hluta sem þeir hafa þjóðernishreinsað og innlimað. Skæruhernaður Palestínumanna verður ekki brotinn á bak aftur með hervaldi. Það verður því ekki friður á meðan harðlínuzíonistar (trúar- og þjóðernisöfgamenn) fá að halda ranglæti sínu áfram.

Thursday, November 20, 2014

Skuldaleiðrétting - eða félagsvæðing?

Skuldaleiðréttingin mikla, sem fer fram þessa dagana ef trúa má fréttum, er mjög umdeild. Ég er ósammála báðum meginpólunum. Ég tel ekki rétt að hið opinbera fjármagni þetta, en ég tel heldur ekki rétt að láta bara myllusteininn hanga um háls þjóðarinnar. (Ég sagði stundum á síðasta kjörtímabili, að ég væri mikið á móti ríkisstjórninni, en ég væri ennþá meira á móti stjórnarandstöðunni. Það hefur núna snúist við.)

Efnahagsmálahópur VG
Á misserunum eftir hrun tók ég töluverðan þátt í baráttu fyrir skuldaleiðréttingu. Aðallega innanflokks í VG, þar sem lítill hópur starfaði að því en var skjaldaður af flokkseigendafélaginu á svotil hverjum einasta fundi. Það má segja, með smá einföldunum, að barátta okkar hafi snúist um að leiðrétta forsendubrestinn sem varð í hruninu, t.d. með afnámi verðtryggingar, sem tæki gildi snemma árs 2008, þ.e. væri afturvirkt. Lógíkin var að bankar og lífeyrissjóðir ættu enga heimtingu á kröfum sem tilstofnuðust vegna forsendubrests og þar sem þeir hefðu hvort sem er aldrei reiknað með þeim peningum væri það í raun ekki missir fyrir þá að fá þá ekki. Þessar skuldir væru bara tilbúningur og hægt að fella þær niður með lögum. Það var stungið upp á ýmsum aðferðum sem ég ætla ekki að útlista nánar að sinni, en allar þessar tillögur mættu stífri andstöðu flokkseigendafélagsins.

Heyrði ég oft sagt að efnaðasta fólkið ætti ekki að fara að fá gefins peninga, hvers lags sósíalismi væri það? Svarið við því er auðvitað að það á að eiga við stéttaskiptingu með pólitík sem vinnur gegn arðráni, eða, ef maður er krati, með skattkerfi, en ekki nota hamfarir til að refsa öllum í hóp. Þvert á móti, það hefði átt að kasta bjarghring til allra, og ef einhverjir í hópnum hefðu helst átt skilið að drukkna hefði átt að taka þá umræðu í öðru samhengi.

Á landsfundinum 2009 var ég í efnahagsmálahópi, þar sem reyndist vera meirihluti reyndist vera fyrir leiðréttingartillögum. Hópurinn bar fram ályktunartillögu sína þegar fundurinn afgreiddi ályktanir, og reyndist það vera eina ályktunin sem Steingrímu J. Sigfússon tók til máls um í eigin persónu. Hún var var samþykkt með breytingartillögu Steingríms, m.ö.o. slógdregin og innihaldslaus.

Okkar hópi var mikil alvara, enda vægast sagt mikið í húfi. Japl-og-jaml-tillögur sem komu sem eins konar málamiðlun frá flokkseigendafélaginu -- málamiðlun milli hagsmuna heimilanda og hagsmuna fjármálaauðvaldsins -- fólust í einhverjum frystingum og frestunum og 110% leiðum sem fólk þekkir, og gengu allar út á að afskrifa sem minnst. Ástæðan, sem formælendurnir töluðu aldrei um, var auðvitað að afskriftir mundu rýra eignastöðu bankanna og ógna þannig rekstrargrundvelli þeirra. Þessar hálfkáks-hugmyndir fengu ekki stuðning okkar hóps, enda ber í fyrsta lagi ekki að greiða ranglátar skuldir og í öðru lagi er það bara blekking að halda formlega lifandi einhverjum kröfum sem allir vita að verða aldrei innheimtar.

Þessu þarf að halda til haga: Sá vinstriróttæki hópur sem ég starfaði í á fyrstu árum hinnar svokölluðu vinstristjórnar, barðist fyrir skuldaleiðréttingu, en þessi skuldaleiðrétting sem nú fer fram er ekki það sem við börðumst fyrir, og við eigum hvorki heiður né skömm af henni.

Alþýðufylkingin
Í þá daga var ennþá til vinstrivængur í VG. Hann yfirgaf flokkinn meira og minna fyrir síðustu Alþingiskosningar, og tvístraðist í mörg lítil framboð. Þorvaldur Þorvaldsson og ég reyndum allt sem við gátum til að halda þessu fólki saman, m.a. í gegn um félagið Rauðan vettvang, og þótt það hafi ekki (enn) borið tilætlaðan árangur, nýttist starf efnahagsmálahópsins í frekari úrvinnslu og stefnumótun um varanlegri lausnir, eftir því sem leið frá sjálfu hruninu og skuldaleiðréttingin færðist afturfyrir önnur meira "dagsaktúel" mál og varð um leið tæknilega flóknari og flóknari eftir því sem tíminn leið.

Í staðinn fyrir að láta umræðuna leiðast inn í myrkviði tækni- og lagarefja og blaðurs, vildum við marka skýra stefnu, boðskap sem stefndi í alvörunni annars vegar frá vandamálaunum og hins til varanlegra lausna. Félagsvæðing var svarið sem við fundum, (sjá nánar í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar): Í stuttu máli eigum við að koma á félagslegu fjármálakerfi, byggðu á samfélagslegu eigin fé, sem er ekki rekið í gróðaskyni heldur hjálpar fólki að eignast heimili á kostnaðarverði. Án vaxta. Vextirnir eru nefnilega miklu meira vandamál heldur en verðtryggingin; hún væri frekar lítið mál ef vextirnir væru ekki.

Félagsvætt fjármálakerfi væri ekki bara meiri búbót en skuldaleiðrétting, hún væri í raun á við margar skuldaleiðréttingar þar sem hún mundi að miklu leyti koma í veg fyrir nýjar fjármálabólur og -hrun. Félagsvæðing er ekki það sama og sósíalismi. Hún er skref í áttina. Hvorki meira né minna. Í áttina frá kapítalisma og áttina til sósíalisma. Stórt skref í rétta átt, með öðrum orðum.

Þið sem þetta lesið eruð líkleg til að hafa kosið aðra flokka, jafnvel starfa í þeim. Það hindrar ykkur ekki í að lesa stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar og mynda ykkur skoðun á henni. Hún er stutt og skýr og hún á eftir að koma fram í umræðunni aftur -- og aftur og aftur.



Tuesday, November 18, 2014

Laun lækna: Hverju reiddust goðin þá?

Góð kona* sem ég þekki gerðist fráhverf sósíalismanum þegar hún frétti að læknar í Sovétríkjunum hefðu lækkað í launum eftir því sem hlutfall kvenna í stéttinni hækkaði. Voru hálaunastétt 1920 en ekki lengur 1950.

Íslenskir læknar hafa lækkað jafnt og þétt í launum á síðustu árum eða áratugum. Hlutfall kvenna hefur á sama tíma hækkað í stéttinni. Samkvæmt því ætti sá sem er óhrifinn af þróuninni að gerast fráhverfur kapítalismanum. Ekki satt?

* Nafngreini ekki fyrir siða sakir. Hún gefur sig fram ef hún vill.

Sessunautar í stafrófsröð

Ef svo ólíklega fer að Íslamska ríkið náið þeim ítökum að önnur lönd fari að viðurkenna það og það komist þá á lista yfir viðurkennd ríki, þá verður Ísland næst á eftir því í stafrófinu, og næst á undan Ísrael. Þá mun ég leggja til að skipt verði um nafn á Íslandi, við gætum kallað okkur Snæland. Yrðum þá mitt á milli Slóveníu og Salómonseyja, sem eru viðkunnalegri sessunautar.

Hrundar glansmyndir

Ég var tólf ára þegar Jón Páll Sigmarsson dó. Þegar ég var barn, var hann hetja mín og vina minna. Þegar hann dó frétti ég að hann hefði notað stera, og það var útskýrt fyrir mér hvað sterar væru og að hjartaáfalla væri algeng afleiðing af notkun þeirra. Þar hrundi glansmynd.

Næsta glansmynd hrundi nokkrum árum seinna. Ég var seytján og hékk gjarnan á kaffihúsi þar sem ég tefldi, spilaði og byrjaði að reykja og drekka kaffi. Eitt kvöld valt þar inn Hermann Gunnarsson, kófdrukkinn og spurði hvort þarna væru seldar sígarettur. "Nei", sagði vertinn, og Hemmi valt þá út aftur, með þessa þulu á vörunum: "andskotans djöfulsins helvítis andskotans djöfull". Eftir stóð ég, gapandi og með brostin augun, og aðra hrunda glansmynd frá bernskuárum.

Og núna fréttir maður af Bill Cosby. Ég hef, frá því ég var barn og fram á síðustu daga, haldið, og margsagt það fjölda fólks, að hann, sjálfur Fyrirmyndarfaðir, væri líklega besti maður í heimi. Alla vega síðan Freddie Mercury dó. Eðli málsins samkvæmt er svona yfirlýsing ekki bókstaflega meint, en núna eru komnir of miklir brestir í þá glansmynd til að ég muni endurtaka hana aftur.

Monday, November 17, 2014

Öfgahægriflokkur sem er á móti ESB

Í frétt Ríkisútvarpsins um heimkomu Vojislav Seselj til Belgrad segir að hann sé "leiðtogi öfgahægriflokks sem vill að Serbía hætti við aðildarumsókn sína að Evrópusambandinu." Flokkurinn hans, Radikali flokkurinn, er gott betur en það. Þetta er ekki einhver anti-ESB flokkur hægripopúlista, þetta er nánast ígildi nasistaflokks. Þetta er öfgafullur þjóðernisflokkur sem hatar múslima og Króata en þó alveg sér í lagi Albana.

Sumarið 2008, þegar Radovan Karadzic var tekinn fastur, var ég staddur í Mostar í Bosníu-Hercegóvínu, og ákvað að drífa mig til Belgrad til að verða vitni að mótmælunum sem vænta mátti þar. Þar voru haldnir miklir útifundir hægriöfgamanna, og greinilega að andstaða við Evrópusambandið var þeim ekki efst í huga. Gríðarstór fáni með andliti Seseljs blakti yfir fundinum, ásamt fleiri táknum þjóðernissinna, menn gengu í bolum með myndum af Radovan Karadzic og Ratko Mladic herforingja, og aðalslagoðr fundarins var "Kosovo je srtse Srbije" - Kosovo er hjarta Serbíu. Þá skörtuðu margir chetnika-höttum eða öðrum einkennisklæðum serbneskra þjóðernis- og konungssinna.

Þetta er ekki einhver borgaralegur fullveldisflokkur, heldur flokkur sem er nátengdur stríðsglæpamönnum úr Bosníustríðinu og snoðkollahreyfingunni. Það er rétt hjá Ríkisútvarpinu að titla hann öfgahægriflokk -- en það er villandi að láta hljóma eins og hann sé aðallega á móti Evrópusambandinu. Eiginlega hljómar það líkast því að andstaða við Evrópusambandið eigi að hljóma eins og öfgastefna. Varla er það undirliggjandi boðskapur frá Ríkisútvarpinu?

Enn logið upp á Alþýðufylkinguna

DV greinir frá því að Tolli Morthens hafi lært að búa til mólótofkokkteila í Alþýðufylkingunni.
Það er lygi, við höfum aldrei kennt Tolla Morthens að búa til mólótoffkokkteila!

Monday, November 10, 2014

Logið upp á Alþýðufylkinguna

Það skal að gefnu tilefni tekið fram, að sú Alþýðufylkingin sem ég er í hefur aldrei haldið um stjórnartaumana í Jemen!

Tuesday, September 23, 2014

Hrafn skeit á gólfið

Ætli þetta hafi verið Hrafn Gunnlaugsson?

Wednesday, August 20, 2014

Fangabúðirnar í Garðastræti

Fyrr á árinu bloggaði ég um útþenslustefnu kínverska drekans í Þingeyjarsýslu. Þeir kalla það ekki herstöð, en skarpskyggnir Íslendingar vita að útlendingar eru varhugaverðir og kalla herstöðvar sínar jafnan tilbeiðsluhús, glæsihótel eða þá norðurljósaathugunarstöðvar. (Það er hins vegar allt í lagi með herstöðvar sem eru bara kallaðar herstöðvar, að áliti skarpskyggnra Íslendinga, sbr. þá sem var á Miðnesheiði.) Ekki skil ég ábyrgðarleysi Framsóknarflokksins, að aðhafast ekki meðan gula hættan hreiðrar um sig í Reykjadalnum.

En hvað um það, ég ætlaði ekki að skrifa um herstöðina í Reykjadal, heldur fangabúðir í Garðstræti, Reykjavík. Og þá meina ég ekki húsaþyrpinguna í garði rússneska sendiráðsins.

Næst þegar þið gangið Garðastræti í Reykjavík, athugið þá Garðastræti 41, þar sem kínverska sendiráðið hefur Efnahags- og viðskiptaskrifstofu. Þar má ganga niður að spennistöð sem er milli Garðastrætis 41 og 43 og kíkja norður og niður yfir vegginn: þar sést stór tennisvöllur, umlukinn hárri, mannheldri girðingu. Ef þið eigið ekki leið hjá getið þið séð þetta á Borgarvefsjá, þar sem skuggarnir sýna glöggt stærð mannvirkisins. Hvað er þetta eiginlega? Hefur einhver séð Kínverja í tennis þarna? Ég bara spyr.

Ég er með kenningu. Kínverjana vantaði fangabúðir, ef Njarðvíkurskóli stæði ekki til reiðu næst þegar Falun Gong kæmu til landsins. Og þá kemur öfuga verkfræðin: Hvernig réttlæta menn það að byggja fangabúðir inni í Reykjavík, og það á Garðastætinu, þessari meinleysislegu götu?

Menn láta nágrannana auðvitað fara fram á það. Og maður fær þá til þess með því að slá nokkra tennisbolta í gegn um rúður á gróðurhúsi þeirra (sem sést ekki á loftmynd fyrir laufþekju).

Þannig að Kínverjarnir byrjuðu á tennisvellinum.

Nú, granninn kvartar eins og sjá mátti fyrir, sendiráðið lofar að leysa málið -- og byggja 5 metra háa fangabúðagirðingu í kring um tennisvöllinn. Ég fylgdist með í rauntíma og fannst skrítið að breyta gamla bílastæði Síldarútvegsnefndar í tennisvöll -- en það meikaði meiri sens þegar 5m há girðing bættist við.

Byggingarfulltrúi hefði aldrei samþykkt hana ef nágranninn hefði ekki beðið um þetta. Í girðingunni er svo hægt að geyma a.m.k. 200 manns, við þröngan kost. Lögregluyfirvöld geta ekkert gert þar sem Vínarsáttmálinn undanskilur sendiráð og -lóðir lögum og rétti gestgjafalandsins. Þannig að þarna eru fangabúðirnar, faldar sjónum ókunnugra milli krónmikilla trjáa Suðurgötu og Garðastrætis, og bíða eftir kínverskum stjórnarandstæðingum.

(Völlurinn er þarna í alvörunni og girðingin mikla var reist eftir á, en best er að taka fram að kenningin um tilganginn er frá mér komin og ekki annað en tilgáta sem gengur grunsamlega vel upp.)

Saturday, August 9, 2014

Varað við pyntingaskýrslu

Í Bandaríkjunum óttast menn að útgáfa skýrslu um pyntingar bandarísku leyniþjónustunnar í Miðausturlöndum muni leiða af sér ofbeldisfull mótmæli. Vara þess vegna við að hún verði gefin út. Einhver mundi draga aðrar ályktanir. Hvernig væri að hætta að pynta fólk?

Friday, August 8, 2014

Vill Katrín Jakobsdóttir viðskiptaþvinganir??

Þetta er skrítin frétt. Er ég að misskilja eitthvað, er fréttamaður ríkisútvarpsins að hafa rangt eftir eða er Katrín Jakobsdóttir komin út í móa? Vill KJ að Rússar beiti Íslendinga viðskiptaþvingunum?

Thursday, August 7, 2014

Hvað eru geiturnar margar?

Samkvæmt þessari frétt ríkisútvarpsins eru um 400 íslenskar geitur mögulega í hættu, eða um fjórðungur af stofni sem telur um 900 dýr.

Hver andskotinn! Ég var á máladeild, en ég er nokkuð viss um að þarna er rangt farið með eitthvað -- og einhver hefði átt að koma auga á það en gerði ekki.

Tuesday, August 5, 2014

Að skeina sig á litlu lambi

Á umbúðum Lambi-klósettpappírs er mynd af litlu, ljúfu lambi. Og á umbúðum Andrex-klósettpappírs er mynd af ómótstæðilega sætum hvolpi. Sem vekur hugrenningartengsl um mýkt og þægindi -- sem fylgja því væntanlega að skeina sig á þessum mjúku dýrum.
Jæja, ósmekklegt gæti dýraverndunarsinnum þótt þetta, en ég sá nokkuð nýtt í gær. Tvennt meira að segja. Búðin Kiwi á Vesterbro Torv hér í Århus selur íkorna-klósettpappír. Hvað er yndislegra til að skeina sig á heldur en íkorni? Kannski næsta tegund: álfta-klósettpappír. Hvernig í andskotanum skeinir maður sig á álft?

Lespíur og múslimir

Rosalega er fólk trúverðugt sem þykist hafa vit á einhverju sem það er á móti, og kann ekki að stafsetja orðið: lespía, múslimur, moskva, femenistar, komonisti, manrétnidi.

Eða eins og kerlingin sagði, "sko, ég er enginn rasmismi, en..."

Monday, August 4, 2014

Skrítið mat á skrítnum sendiherraskipunum

RÚV greinir frá skipun Geirs Haarde og Árna Þórs Sigurðssonar sem sendiherra. Nú getur vel verið að það sé röng aðferð að skipa frv. stjórnmálamenn sendiherra (látum það liggja milli hluta), en það er út af fyrir sig ágætt að Árni skipti um starfsvettvang. Skrítnara finnst mér mat Katrínar Jakobsdóttur, sem segir að það sé „kannski fyrst og fremst sérstakt í ljósi þess að Geir á auðvitað í máli við íslensk stjórnvöld fyrir Mannréttindadómstólnum.“ Eru það allir meinbugirnir sem Katrín sér á því að Geir verði sendiherra Íslands!?
(Ef einhver skilur ekki hvað ég meina, þá var Geir einn höfuðpaurinn í stóra Hruns-málinu fyrir nokkrum árum.)

Hættu að ljúga, Hanna Birna

Hanna Birna situr við sinn keip. Hvaða hag ætti hún að hafa af þessu máli? Hún ætti að spyrja hann að því, aðstoðarmanninn sem fannst það góð hugmynd að leka þessu þarna skjali. Hins vegar þætti mér gaman að vita hvaða hag hún hefur af að ljúga um málið. Tony Omos "var eftirlýstur af lögreglu á þessum tímapunkti" segir Hanna. Það er löngu komið fram að það er lygi. Af hverju lýgur hún? Og hverju öðru lýgur hún þá? Ef hún átti einhvern tímann von um að koma út úr þessu máli með hreint mannorð, þá er sú von úti og það fyrir löngu. Því lengur sem hún dregur afsögnina óumflýjanlegu, þess sársaukafyllri verður hún fyrir hana sjálfa. Verði henni að góðu.

Sunday, August 3, 2014

Benjamin Netanyahu er vitfirringur. RÚV hefur það eftir honum að
"Hernaðaraðgerðum verði haldið áfram þar til öryggi íbúa Ísraelsríkis væri tryggt."
Hvernig tryggja fjöldamorð á Gazaströnd "öryggi íbúa Ísraelsríkis"? Hvernig? Ætlar hann að láta drepa alla, eða hvað?

Hanna Birna búin

Það er aulalegt þegar stjórnmálamenn þekkja ekki sinn vitjunartíma heldur hanga á ráðherrastólnum eins og hundur á roði og kunna ekki að skammast sín heldur halda að þeir geti bara beðið þangað til demban gengur yfir. En demban sem núna stendur á Hönnu Birnu er ekki eitthvað sem gengur bara yfir. Ef hún hefði haft vit á að víkja strax tímabundið á meðan málið væri rannsakað, þá hefði hún hugsanlega átt afturkvæmt. Úr því sem komið er, er það of seint. Því lengur sem hún dregur hið óumflýjanlega, þess erfiðara verður það og pínlegra. Hún er búin.

Hanna Birna, segðu af þér

Mig dreymdi í nótt að Hanna Birna hefði sagt af sér.
Það var ágætur draumur.
Hún ætti endilega að láta verða af því.

Monday, July 28, 2014

Enginn er verri þótt hann sé múlatti

Ég sé ekki hvað er neikvætt við að kalla Barack Obama múlatta. Ekki að það skipti neinu máli að hann sé það, en ég sé ekki hvaða máli það skiptir að segja að hann sé það. Og ef Davíð Oddsson er á móti múlöttum, þá er það spes, þar sem hann mun sjálfur vera afkomandi hins fræga múlatta á Djúpavogi.

Saturday, June 7, 2014

Skýrsla fagráðs kaþólsku kirkjunnar

Á Vísir.is segir frá því að "Lögmaður eins af fórnarlömbunum í Landakotsmálinu ætlar að höfða mál á hendur kaþólsku kirkjunni fái umbjóðandi hans ekki afrit af þeim hluta skýrslu fagráðs kirkjunnar er varðar hann." Þar er einnig haft eftir kirkjunni
 að "skýrsla fagráðs kaþólsku kirkjunnar á Íslandi sé ætluð til innri nota fyrir stjórn kirkjunnar en ekki til almennrar dreifingar. Á þeim grundvelli hafi stjórn kaþólsku kirkjunnar ákveðið að verða ekki við beiðni um að fá sendan almenna hluta skýrslunnar."

Ég verð að segja að mér þykir þetta skrítið og hljómar eins og geðþóttaákvörðun. Vegna þess að ég á eintak af skýrslunni. Prentað eintak sem ég fékk hjá kaþólsku kirkjunni.

Ég gekk í Landakotsskóla fjóra vetur, man mjög vel eftir séra Georg og Margréti Müller og skrifaði síðbúin minningarorð um MM fyrir nokkrum árum, um það leyti sem þessi umræða um skötuhjúin var að koma upp á yfirborðið. Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar hafði samband við mig og bað mig að koma og segja frá. Það gerði ég. Og m.a. vegna þess, og persónulegra kynna mína af þessu óþverrapari, vildi ég gjarnan sjá skýrsluna.

Þannig að ég hafði samband við kaþólsku kirkjuna, nánar tiltekið Hjálmar Blöndal, lögmann hennar, og bað um eintak. Hann sagði að það væru til nokkur eintök og að ég mætti alveg fá eitt þeirra. Fékk ég það daginn eftir, las það dagana eftir það og síðan hefur soðið á mér af reiði í hvert sinn sem mér verður hugsað til hennar.

Ég ætla ekki að fara út í hvað mér væri skapi næst að gera, en það var semsagt ekki prinsippmál kirkjunnar að halda þessari skýrslu frá sjónum almennings -- altént ekki þegar hún var nýútkomin árið 2012. Já, og svo er hún líka á netinu.

Friday, May 30, 2014

Framsókn kjáir við Kölska

Datt þessi í hug áðan:

Framsókn skúrkum leggur lið,
leikur sér að eldinum,
Framsókn kjáir Kölska við
með kleprana í feldinum.

Lesið annars borgarmálastefnuskrá Alþýðufylkingarinnar: Sósíalismi í einu sveitarfélagi og ef þið búið í Reykjavík, setjið x við R á morgun.

Thursday, May 29, 2014

Framboðslisti og borgarmálastefnuskrá xR

Skoðið borgarmálastefnuskrá Alþýðufylkingarinnar, hún er sú róttækasta og sú sem sker sig mest úr í félagslegum lausnum á verkefnum borgarinnar:

Sósíalismi í einu sveitarfélagi

Og sjáið líka framboðslistann okkar:

Framboðslisti Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík 2014

Velferð er vinna: xR

Ég vek athygli á grein um stefnu Alþýðufylkingarinnar í velferðarmálum:

Alþýðufylkingin: Velferð er vinna - x-R

XR: Stelum Frelsisstyttunni

Eða... ekki styttunni sjálfri, heldur stefnunni sem er greypt í fótstall hennar. Lesið grein um stefnu Alþýðufylkingarinnar í mannréttindamálum:

Gefið mér ykkar þreyttu, fátæku og kúguðu sem þrá að draga andann frjálsir


...og Reykvíkingar, munið að setja x við R á sunnudaginn!


Wednesday, May 28, 2014

Alþýðufylkingin fyrir skaðaminnkun fyrir fíkla

Ég vek athygli á því að flokkurinn minn, Alþýðufylkingin, samþykkti á dögunum ályktun til stuðnings skaðaminnkunar-þingsályktun Pírata:

Ályktun um skaðaminnkunarstefnu í eiturlyfjamálum

Auðvitað á að leyfa mosku

Það er ljóta ruglið sem Framsókn hefur komið sér í með þessum örvitalegu athugasemdum um moskuna. Glæsilegur oddviti sem þeir hafa valið sér og vonandi trampast þessa flokksafskræmi núna niður í flór sögunnar í eitt skipti fyrir öll.
 
Auðvitað á að leyfa íslenskum múslimum að byggja sér mosku, það eru bara þeirra réttindi. Ef menn ímynda sér að þar verði skipulögð hryðjuverk eða leyniskyttur verði uppi í mínarettunni, þá þurfa menn að leita sér hjálpar. Kommon!
 
Nú ætla ég hvorki að taka upp hanskann fyrir íslam per se né önnur trúarbrögð -- en er það ekki eftirtektarvert, að þegar sjálfmiðaðir vesturlandabúar gagnrýna t.d. illa meðferð á konum í íslömskum samfélögum -- þ.e.a.s. gagnrýna karlrembu og kynbundið ofbeldi -- þá beina þeir spjótunum að íslam en hvorki að karlrembunni sem slíkri né ofbeldinu sem slíku. Kjarni þessara viðhorfa, það sem umræðan snýst um, er ekki mannréttindi heldur óttinn við hina.

Ef íhaldssöm viðhorf eða herská menning eru vandamálið, þá á ekki að gera einhver trúarbrögð að sökudólgi -- en ef maður færi eftir því, lægi beinast við að gagnrýna í leiðinni íhaldssöm viðhorf og karlrembu á heimaslóðunum í leiðinni, ásamt herskárri menningu og kynbundnu ofbeldi. Ætli það sé það sem menn óttast?

XR: Höldum í Reykjavíkurflugvöll

Það er ekki af hugsjón einni saman sem Alþýðufylkingin styður að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni; aðalástæðan er sú praktíska: Hann er þarna, það er ekki fundinn annar staður og þar sem það þarf að vera flugvöllur í Reykjavík, þá er tja.. í það minnsta ópraktískt að ætla að flytja hann. Lesið nánar:

Og ekki gleyma að kjósa R-lista Alþýðufylkingar á sunnudaginn, þið sem hafið kosningarétt í Reykjavík. Um önnur stefnumál okkar má lesa í borgarmálastefnuskránni: 

Monday, April 14, 2014

Ósjálfbær borgarsamfélög, fundur á miðvikukvöld


Ég vek athygli á þessum fundi næsta miðvikukvöld: 

Ólafur R Dýrmundsson með framsögu á fundi Alþýðufylkingarinnar um umhverfismál
Alþýðufylkingin boðar til fundar um umhverfismál, byggðamál og fæðuöryggi miðvikudaginn 16. apríl kl. 20 í Friðarhúsi Njálsgötu 87.
Gestur fundarins og framsögumaður er Ólafur Dýrmundsson ráðunautur. Hann nefnir erindi sitt "Ósjálfbær borgarsamfélög í fjötrum markaðsvæðingar nýfrjálshyggjunnar - Hugleiðingar og ábendingar varðandi Reykjavík.
Á eftir erindi hans verða umræður um umhverfismál í víðum skilningi.
Kaffi á könnunni.

Sjá þetta og fleira á heimasíðu Alþýðufylkingarinnar -- þar má sérstaklega benda á borgarmálastefnuskrána: Sósíalismi í einu sveitarfélagi.

Thursday, March 27, 2014

Sósíalismi í einu sveitarfélagi

Ekki er úr vegi að vekja athygli á því að Alþýðufylkingin hyggur á framboð í sveitarstjórnarkosningunum í vor, að minnsta kosti í Reykjavík. Sjá nánar: Þorvaldur Þorvaldsson leiðir lista Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík -- borgarmálastefnuskráin okkar er ekki af verri endanum og ber titilinn Sósíalismi í einu sveitarfélagi.

Wednesday, March 26, 2014

Vorvísa

Við fluttum í vetur á hlýrri slóðir, til Århus í Evrópusambandinu. Hér grasið vægast sagt grænna en á Íslandi og það fæst Emmentaler-ostur í kjörbúðinni í hverfinu okkar. Ekki nóg með það, heldur setja menn niður kartöflur í mars og taka þær upp um það leyti sem Íslendingar setja sínar niður. Hér brumar hvert tré og við höfum getað borðað úti í garði í góða veðrinu. Þannig að ég setti saman vísu um daginn -- fyrir svona tíu dögum síðan:

Vönd er skipting veðurfars,
varla brosir nokkur.
Þó almennt sé nú miður mars
var maí í dag hjá okkur.