Monday, January 31, 2005

Marxískt erfðaveldi? Suður-Kóreski fjölmiðlamaðurinn sem það er haft eftir, að Norður-Kórea sé "marxískt erfðaveldi" ætti að prófa að fletta upp á "marxisma" í orðabók. Norður-Kórea hefur lítið með marxisma að gera og þykist ekki einu sinni lengur hafa hann að leiðarljósi. 1977 vék marxismi formlega sem leiðarstjarna Hins lýðræðislega alþýðulýðveldis Kóreu og við tók opinber hugmyndafræði Kim Il-sungs, Juche. Juche-erfðaveldi er nafngift sem ég gæti vel fallist á, en að kalla Norður-Kóreu marxískt ríki er ekkert annað en dylgjur. Það er út af málflutningi sem þessum sem marxismi fær á sig slæmt orð. Þegar harðstjórar sveipa sig hinum rauða fána.

Öryggisráðið, Vestmannaeyjagöng, Palestína og "eiturlyf"



Í fyrradag bloggaði ég um íslensk stjórnmál en hef bloggað svo mikið síðan að ég ætla mér að linka á það sem ég skrifaði, ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum.

~~~~~~~~~~~~



Svo ég tjái mig um tvö mál sem hafa verið til umræðu upp á síðkastið, þá er best að hafa það knappt:

* Íslendingar eiga ekkert erindi í öryggisráð SÞ. Fyrir utan hvað það er dýrt, þá yrðu þeir varla annað en taglhnýtingar Bandaríkjastjórnar þar eins og annarsstaðar. Halldór Ásgrímsson gerir nóg ógagn í Stjórnarráðinu og Davíð í utanríkisráðuneytinu þótt þeir séu ekki í öryggisráðinu líka.

* Þegar ég heyrði fyrst talað um göng til Vestmannaeyja fór ég að hlæja af því ég hélt að þetta væri brandari. Mér fannst brandarinn ágætur til að byrja með, en er orðinn þreyttur á honum núna.

~~~~~~~~~~~~



Palestínumenn sagðir munu taka við öryggisgæslu í fimm borgum bráðlega.

~~~~~~~~~~~~



Tveir menn handteknir með "lítilræði af hassi". Hassreykingar: Glæpur án fórnarlambs. Kannabis: Jurt sem vex villt úti í náttúrunni. Bann við hassreykingum: Rangt.

Sunday, January 30, 2005

Íraq, Nepal, Palestína og meira um róttæka pólítík á Íslandi



1. Palestína



Abbas og Sharon ætla að funda 8. febrúar. Ég bíð með eftirvæntingu. Ekki mikilli bjartsýni, verð ég að viðurkenna, en áhuga. Ég hef nákvæmlega enga trú á friðarvilja Sharons, en hvernig sem þessi fundur fer, þá hlýtur hann að hafa eitthvað merkilegt í för með sér. Meistari Avnery skrifar grein um þetta þar sem hann lýsir tilfinningum manna þessa stundina.

~~~~~~~~~~~~~~~~



2. Meira um róttæka pólítík á Íslandi





Spurt var:

Hvað koma fyrir?

Fara allir vinstrimenn yfir á miðju með tímanum,

meðan hægri menn fara lengra og lengra til hægri?




Það er nú vel þekkt sú almenna tilhneiging til að fólk verði minna róttækt með aldrinum eða, réttara sagt, sé róttækt þegar það er ungt en hætti svo að nenna þessu. Ég hef ekki tæmandi svör á reiðum höndum en held að þarna séu a.m.k. þrír faktorar að verki: (a) Fólk verður þreytt á mjög miklu pólítísku starfi sem skilar yfirleitt frekar litlum árangri og (b) fólk sættir sig við að heimurinn sé eins og hann er - ófullkominn og ekki alltaf sanngjarn. Þar má bæta við (c) að stundum fylgir fólk einhverjum leiðtogum að málum, þeir bregðast vonum þess, og einhvers konar uppgjafartilfinning fyllir fólk. Án efa eru fleiri þættir sem spila stóra rullu, en þetta er þar á meðal.

Þáttur (a) er sá sem ég hef mest velt fyrir mér. Ef pólítískt starf ber ekki árangur hlýtur maður að kafa ofan í ástæðurnar fyrir því. Ástæðurnar geta verið býsna fjölbreyttar, og ekki allar sem hinn ungi róttæklingur hefur á valdi sínu. Byltingarsinnaður málflutningur á t.d. erfitt uppdráttar í á tímum hagsældar, þegar auðvelt er fyrir valdastéttina að friðþægja undirstéttina svo hún haldist nokkurn veginn ánægð. Þá er jarðvegurinn ekki frjór fyrir miklar breytingar. Annað getur verið að hreyfing sé annað hvort ekki nógu vel skipulögð, ellegar þá of innhverf, til að koma máli sínu til skila. Þá er líka vel þekkt hvernig hugsjónir og málamiðlanir fara illa saman og mikillar klofningstilhneigingar gætir oft meðal þeirra sem berjast af hugsjón.

Um þætti (b) og (c) er í sjálfu sér ekki svo mikið að segja. Auðvitað getur maður spurt sig hvers vegna fólk ætti að vera að sætta sig við að heimurinn sé ófullkominn og ósanngjarn og um leið hvort þetta - að fólk sætti sig við það - sé ekki einmitt attitjúdið sem veldur því að hann er það áfram. En það hlýtur líka að viðurkennast, til dæmis, að fólk verður ófúsara til að taka áhættu þegar það t.d. eignast börn eða er farið að vinna sig upp metorðastiga þjóðfélagsins. Því er ekki að neita. Um þátt (c) hefur verið komist svo að orði, að þegar heil hreyfing snúist um einn mann eða fáa menn, þá sé einfalt að spilla henni: Það þurfi bara að spilla þessum eina eða þessum fáu. Með öðrum orðum, í hreyfingu má enginn vera ómissandi og blind undirgefni eða trú á leiðtoga eða kennivald má ekki sjást.

~~~~~~~~~~~~~~~~



3. Íraq, Nepal





Af kosningum í Íraq. Talað um 60% kjörsókn og 27 fallna á kjördag. Súnní-arabar hafi tekið lítinn þátt. Það verður fróðlegt að fylgjast með næstu vikurnar og mánuðina. Í allri manns róttækni-bölsýni leynist þrátt fyrir allt óskhyggja um að nú fari góðir tímar í hönd. Nokkuð sem ég efast stórlega um, en get þó ekki neitað því að ég vona það. Nema hvað. Allavega, þá talar Styrmir Gunnarsson um það í Reykjavíkurbréfi dagsins, að þeir sem neiti að taka þátt í kosningunum og reyni með ofbeldi að hindra þær eigi "ekki skilið að kallast uppreisnarmenn" heldur séu bara morðingjar. Um leið og þetta má kannski segja um suma uppreisnarmennina (t.d. lið þessa svokallaða "Zarqawis"), að þeir séu umfram annað afturhaldssamir og ruddalegir asnar, þá verður það að sama skapi ekki sagt um andspyrnuna sem slíka, sem heyr réttmæta þjóðfrelsisbaráttu. Um leið er ósanngjarnt að segja að "þeir eigi ekki skilið að kallast uppreisnarmenn" sem eru á móti þessum kosningum ... því þrátt fyrir allt eru þessar kosningar bara sjónarspil. Tilvonandi ríkisstjórn Íraqs mun í fyrsta lagi ekki hafa alvöru umboð til að framfylgja vilja þjóðarinnar, að Bandaríkjaher fari úr landi, þar sem hún mun ekki hafa stjórn á landinu án hans. Auk þess mun hún ekki njóta stuðnings Bandaríkjahers til að vinna gegn hagsmunum bandarísku valdastéttarinnar, svo sem með því að halda áfram þjóðnýtingu olíulindanna.

Í Nepal standa líka kosningar fyrir dyrum. Þar þarf að rekja smá forsögu: Þegar konungsfjölskyldan var myrt (sumir segja af vestrænum sérsveitarmönnum) tók yngri bróðir konungs, Gyanendra, við krúnunni. Hann kvaðst verða að "tryggja stöðugleika í landinu" svo hann leysti um þjóðkjörið þingið, sem þó hafði ekki mikið vald. M.ö.o. sá hann það sem sjálfsagt hlutverk krúnunnar að fara einhliða með framkvæmdavaldið í krafti hersins. "Stríð fólksins" sem maóistar hófu 1996 var þá vel á veg komið, þótt enn ættu maóistar í vök að verjast. síðan hafa þeir sótt mjög á, og vantar nú bara herslumuninn að yfirtaka ríkisvaldið, kollsteypa einveldinu og reyna að setja á laggirnar alþýðulýðveldi.

Nú fyrir skemmstu skipaði Gyanendra konungur kanslara (hann er að vísu kallaður "forsætisráðherra" en ég kalla hann kanslara, sem er samsvarandi titill í einveldi), Deuba að nafni. Deuba kanslari hefur umboð konungsins til að leita sátta við maóista og til að undirbúa kosningar nýs þings, sem mun hafa takmarkað vald og vera háð konungi. Maóistarnir hafa ekki viljað tala við Deuba vegna þess að hann hefur aðeins umboð til að reyna að "semja frið" en ekki til að koma til móts við kröfur maóista, sem fela m.a. í sér að konungdæmið verði aflagt. Kosningarnar, sem brátt stendur til að verði haldnar, ætla maóistar að sniðganga, og er viðbúið að ofbeldi verði áberandi af þeirra hálfu og jafnvel að lítið verði varið í þær. Þess má reyndar geta að bandarískir ráðamenn hafa sagt að í Nepal "standi Bandaríkin við hlið lýðræðisins gegn hryðjuverkamönnunum" og meina þá að þau styðji einvaldskonunginn gegn maóistunum, sem njóta stuðnings meirihluta þjóðarinnar!

Kosningarnar í Nepal verða skrípaleikur svo maóistarnir neita að taka þátt í þeim, neita að viðurkenna þær, og munu sennilega reyna að hleypa þeim upp. Vegna þess að þessar kosningar verða einmitt ekki annað en skrípaleikur, þá þykir mér þessar ráðstafanir Prachanda & Co. hreint ekki óeðlilegar.

Þá er spurningin: Hvað með kosningarnar í Íraq? Getur framsækin pólítísk hreyfing í Íraq tekið þátt í þeim? En viðurkennt þær? Mitt svar er: Já, hún getur viðurkennt þær og tekið þátt, en hún getur líka sniðgengið þær og reynt að hindra þær. Það fer eftir atvikum. Hreyfing sem tekur ekki þátt á þeim forsendum að kosningarnar séu afskræming á lýðræði, andvana fæddur pólítískur ónytjungur og heimastjórnargríma fyrir nakta heimsvaldastefnu bandaríska auðvaldsins hefur út af fyrir sig rétt fyrir sér, og ef hún kýs að berjast gegn því að kosið verði innan þessa skrípa-ramma, þá er hún að berjast fyrir málstað sem er réttur, sem slíkur. En á hinn bóginn, þá má líka hugsa sér að framsækin hreyfing meti stöðuna þannig, að rétt sé að taka þátt í þessu, kosningum og, ef hún nær brautargengi, þá geti hún beitt sér fyrir framsæknum stefnumálum. Þegar málaliðar bandarísku heimsvaldastefnunnar ráðist gegn henni komist hreyfingin um leið í stöðu nokkurs konar fórnarlambs og verði séð sem sá aðili sem vondu heimsvaldsinnarnir réðust á og eignast samúð þjóðarinnar og umheimsins í næstu lotu þjóðfrelsisbaráttunnar.

Með öðrum orðum, framsækin hreyfing í Íraq hlýtur að gera það upp við sig sjálf hvaða afstöðu hún tekur og á hvaða forsendum. Því er hins vegar ekki að neita að "sunni supremacist" stríðsmenn sem kenna sig við þennan Zarqawi (sem ég veit ekkert hvort er til eða ekki) eru sannarlega ekkert annað en morðingjar - þeirra málstaður á líka lítið skylt við framsækni, þegar þeir eru aðallega að lumbra á öðrum Íröqum og leiðtogum shííta. Einmitt þess vegna spyr ég mig, hvort þeir séu í alvörunni það sem þeir segjast vera. Nú leikur enginn vafi á því að hrottafengnir afturhaldsseggir eru til í alvörunni og út af fyrir sig er mjög trúverðugt að þeir séu til í Íraq eins og annars staðar. En það er tortryggilegt hvað spjót þessara "Zarqawi" manna virðast einkum beinast að öðrum Íröqum og hvernig þeirra verk virðast aðallega vinna í þá átt að kljúfa samstöðu írösqu þjóðarinnar gegn bandarísku heimsvaldastefnunni. Já, ég spyr mig, en í rauninni þykir mér sennilegast að bakdyramegin hafi útsendarar Bandaríkjamanna sjálfra hönd í bagga til að veikja andspyrnuna og láta hana líta verr út í augum umheimsins. Þetta "power base" er of girnilegt fyrir ágjarna siðblindingja til að láta það ónotað.

~~~~~~~~~~~~~~~~



4. Að lokum:



Talandi um Íraq, þá er hérna stuttur mp3-fæll þar sem Condolezza Rice og Colin Powell lýsa því yfir, bæði tvö, að Saddam eigi engin gereyðingarvopn og hafi ekki burði til að koma sér þeim upp. Það sé vegna viðskiptabannsins góða. Sagt í febrúar og júlí 2001.

~~~~~~~~~~~~~~~~

Grein um hina óhugnanlegu tölvukubba-ígræðslu sem verið er að hrinda af stokkunum í Bandaríkjunum í "öryggisskyni". Það verður hægt að fylgjast með öllum, allsstaðar. Auðvitað "bara notað á illmenni" - múslima og annan slíkan lýð. Síðan færast stjórnarandstæðingar inn í mengið "illmenni" og - ef grunur minn reynist réttur - einnig gyðingar innan ekki svo margra ára.

~~~~~~~~~~~~~~~~

Grein um óþekktar jarðhræringar við Andaman- og Nicobar-eyjar. Sumir vilja meina að nýafstaðið tsunami hafi aðeins verið byrjunin á ennþá meiri og harkalegri náttúruhamförum.

~~~~~~~~~~~~~~~~

Hvernig er eiginlega hægt að hitta með leysigeisla beint í augað á flugstjóra um borð í þotu á ferð, þegar sá sem heldur á leysigeislabendlinum stendur á jörðu niðri? Ég næ því ekki.

Saturday, January 29, 2005

Vinstri-grænir, sósíalisminn og fleira í íslenskri pólítík: Sleggjan reidd til höggs



Þetta byrjaði sem andsvar mitt í kommentum, en er efni í sjálfstæða færslu:
Ég hef stundum spurt mig (og aðra): Hvað mundu VG gera ef þeir hefðu hreinan meirihluta? Hvað mundi gerast á fyrsta kjörtímabili? Hvað mundi gerast á 20 árum af hreinum VG-meirihluta?


Já, ég spyr mig að þessu. Hvað ef? Nú á ég ekki von á að til þess komi nokkurn tímann að VG verði með hreinan meirihluta í sveitarstjórnar- eða landsmálum. Spurningin er góð og gild fyrir því. Reyndar vildi ég sjá henni svarað formlega og ítarlega af landsfundi VG, hvorki meira né minna.



Ég hef borið þetta undir þónokkra VG-menn án þess að hafa fengið almennileg svör. Ég hef spurt ónefnda forystumenn í ungliðahreyfingunni og þeir hafa yfirleitt kinkað kolli og tekið undir að þetta væri góð spurning, án þess svosem að geta svarað henni sjálfir. Ég hef líka spurt ónefndan forystumann í VG að þessu einu sinni, nánar tiltekið með tilliti til þess hvort efnahagskerfið yrði áfram kapítalískt (að miklu leyti) eftir 20 ára hreina VG-stjórn og hvernig væri t.d. með stéttabaráttuna. Ég fékk þá þau svör að stéttabaráttan væri nú ekki á dagskrá hjá VG og að ekki yrði gerð nein aðför að kapítalisma sem slíkum þótt ríkisrekstri yrði gert mun hærra undir höfði og yrði líka fjölbreyttari.



VG er ekki kommúnistaflokkur, ekki marxískur flokkur og það er skilgreiningaratriði hversu mikinn sósíalistaflokk er hægt að kalla hann. Alþýðuflokkurinn var upp úr stríði vinstra megin við það sem VG er í dag. Upp úr stríði var Alþýðuflokkurinn að tala um þjóðnýtingu á ýmsum atvinnuvegum, nauðsyn ríkiseinokunar á utanríkisverslun og fleira, meðan Sósíalistaflokkurinn var með háleitar hugmyndir um lýðræðislega leið Íslands til austurevrópsks sósíalisma. Í þá daga var Alþýðuflokkurinn kallaður sósíaldemókrataflokkur og Gylfi Þ. Gíslason skrifaði bókina Jafnaðarstefnuna, þar sem hann hikaði ekki við að telja upp, meðal brautryðjenda, Marx, Luxemburg, Lenín og fleiri í sömu andrá og Stauning, Bernstein eða Jón Þorkelsson. Sósíaldemókratar ársins 1949 voru m.ö.o. vinstra megin við Vinstri-græna ársins 2005. Sósíalistaflokkurinn langt til vinstri. Í millitíðinni hefur miðjan færst langt til hægri.

Hvernig flokkur er Vinstrihreyfingin - grænt framboð? Sósíalistaflokkur? Ég er ekki viss. Alla vega má færa a.m.k. jafnsterk rök fyrir að þeir séu sósíaldemókratar. Og nei, Samfylkingin er ekki sósíaldemókratískur flokkur. Hún er smáborgaralegur hentistefnuflokkur málefnafátækra tækifærissinna (ath. "smáborgaralegur" í hinum marxíska skilningi orðsins). Ég hugsa reyndar að hún væri kannski gildandi sem frjálslyndasti flokkur Íslands, og út af fyrir sig er það ágætt. VG er að minnsta kosti ekki meðal þeirra flokka sem keppa um þann titil. Kannski að það mætti kalla hann smáborgaralegan græningjaflokk? Franskur kommúnisti spurði mig einu sinni hvort VG væru endurskoðunarsinnar -- og þegar ég gat ekki einu sinni sagt að þeir væru það varð ég hugsi.



Samfylkingin er frjálslyndur en málefnafátækur, tækifærissinnaður og smáborgaralegur hentistefnuflokkur sem styður meiri einkavæðingu og lifir samlífi við nýríka stórburgeisa, Baug og aðra. Ekki er hún að gagnrýna mikið gífurlega samþjöppun auðs og valda hér síðustu árin. Hún virðist samt standa m.a. fyrir mikið pólítískt frelsi, en efnahagslegum jöfnuði virðast ekki vera gerð góð skil. Hún boðar að með hennar ríkisstjórn við stýrisvöl þjóðarskútunnar verði tilberar auðvaldsins áfram aldir undir handarjaðri þjóðfélagsins, og gott ef hún boðar ekki sk. sósíalisma andskotans: Einkavæðum gróðann, þjóðnýtum tapið. Í öðrum málum er hún óljós eða sundurleit og ekki gott að festa fingur á neina hugsjón eða heildarstefnu.



Frjálslyndi flokkurinn byrjaði sem eins-máls-flokkur, sem var að hefna hrakfara Sverris Hermannssonar á pilsfaldakapítalistum íslenska auðvaldsins og sparka í rassgatið á kvóta-slúbbertunum. Nú er kvótakerfið að mínu mati stærsta einstaka vandamál Íslendinga og af einstökum innanríkismálum væri þjóðnýting kvótans efst á blaði hjá mér. Afnám kvótakerfisins og upptaka sanngjarns fiskveiðistjórnunarkerfis er því hið verðugasta innanríkismál til að láta flokk snúast um, og við hefur bæst stefna sem er að mörgu leyti ágæt.

Framsóknarflokkurinn er skólabókardæmi um hentistefnuflokk tækifærissinnaðra smáborgara, spilltra skriffinnsku-síð-SÍSara, ungs fólks sem vill komast til metorða í flokki sem hefur metorðin ein á dagskrá og er meira að segja með merki sem er líkast grænum kýrrassi. Flokkur sem hafði ýmislegt ágætt til málanna að leggja í frumbernsku en hefur allt frá millistríðsárunum farið mjög niður á við. Undantekningin er Steingrímur Hermannsson, sem er í sérklassa.

Um Sjálfstæðisflokkinn þarf ekki að fjölyrða, flokkinn sem er blanda af burgeisavaldi, kvótaspillingu, einkavinavæðingar-öfgamönnum, sýndarmennskulýðræði, heildsalavaldi, hermöngurum og stríðsæsingamönnum og virðist hafa þá stefnu í verkalýðsmálum að vinnandi fólk megi éta það sem úti frýs, ætti ekki að mega skipuleggja sig í verkalýðsfélög og að auðvaldið eigi að hafa skilyrðislausan rétt til að slógdraga það og loka inni í einangrunarklefum þá sem mögla. Þetta er búið grímu svokallaðs "lýðræðis" og "frelsis", sem er ekkert annað en nauðgun á þessum orðum og hugmyndunum sem þau standa fyrir. Þökk sé þróttmiklum áróðri og hugvitssamlegum umbunum gleypir þó stór hluti þjóðarinnar við þessu og veitir flokknum atkvæði og er jafnvel flokksbundið. Sjálfstæðisflokkurinn má samt kallast stéttvísasti flokkur Íslands, því hann gerir þó vel við sína.



Af þessari úttekt má sjá að ég er ekki ánægður með neinn af núverandi flokkum landsins. Ég hef andúð á stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðuflokkarnir hafa allir eitthvað til síns ágætis þótt allir hafi þeir galla líka. Ef það væru kosningar á morgun mundi ég kjósa Vinstri-græna, því þótt forsjárhyggja og umburðarlyndi gagnvart stéttakúgun sé mér ekki að skapi, þá komast þeir næst því að eiga við mig.



Í stuttu máli sagt, þá tel ég vera brýna þörf fyrir nýtt vinstriafl í íslenskum stjórnmálum, vinstriafl sem væri framsækið og stéttvíst og væri ekki bara skjöldur heldur sverð í stéttabaráttunni. Ég vil sjá stjórnmálaafl sem er reiðubúið að taka ærlega til hendinni á Íslandi og er í senn raunverulega sósíalískt og raunverulega lýðræðislegt og lýðræðissinnað. Afl sem gæti fylkt lýðræðislega þenkjandi og frjálslyndum jafnaðarmönnum saman í hamalt sem mundi byggja upp samfélagshætti í anda pólítísks og efnahagslegs lýðræðis, mannréttinda, jafnaðar, mannlegrar reisnar og réttlætis. Afl sem skyti rótum meðal þeirra sem höllum fæti standa, afl sem gæti sameinað uppgefna og stórskulduga launaþræla í krepptum hnefa ef því væri að skipta. Framsækið þjóðfélagsafl fyrir fólk, hugumstóra pólítíska dráttarvél, með almannahagsmuni og framsýni við stýrið.



Ef einhver hefur áhuga á að vera með í að sjóða saman slíkt stjórnmálaafl, þá má hinn sami hafa samband: vangaveltur@yahoo.com.

Friday, January 28, 2005

Dick Cheney með ósmekklegt uppistand í Auschwitz.

~~~~~~~~~~

Hamassamtökin vinna sigur í sveitarstjórnarkosningum á Gaza. Öfugt við það sem margir halda eru Hamas meira en bara einhver samtök brjálæðinga með byssur. Hamas er stjórnmálaflokkur, og Hamas-menn sjá aðþrengdum fátæklingum á Gaza fyrir lífsnauðsynjum. Það má segja að pólítískir innviðir Gaza séu að miklu leyti Hamas að þakka. Svo er vopnaður armur Hamas, Izz'adin al-Qassam-herdeildirnar, sem annars vegar heldur uppi vörnum fyrir Palestínumenn gegn hernáminu, og hins vegar heldur uppi árásum á Ísraela, þar á meðal á óbreytta ísraelska borgara.

Ísraelar segjast draga úr viðbúnaði hersins á Gaza. Ég er skeptískur, en áhugasamur.

~~~~~~~~~~

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafin í Íraq:
Yfirkjörstjórn í Írak segir að 14 miljónir af 27 geti komist á kjörstað á sunnudag.



George Bush Bandaríkjaforseti, gerir ráð fyrir því að þeir leiðtogar sem Írakar kjósa sér á sunnudag vilji að bandaríski herinn verði áfram í landinu. Bush segir í viðtali við blaðið New York Times að herinn verði kallaður heim fari nýkjörin stjórn fram á það. Verið sé að kjósa ríkisstjórn í sjálfstæðu ríki.


Einmitt. Sénsinn að Bandaríkjaher fari bara heim til sín án þess að mögla eftir að hafa kostað hátt á annað hundrað milljörðum dollara til þessa stríðs. Og sénsinn að þeir verði beðnir um það. Hvernig hefði Quisling farið að án þýskra hermanna? Ef stór hluti írösqu þjóðarinnar er andvígur því að leppstjórn Bandaríkjanna sé við stjórnvölinn, þá er hún vægast sagt óörugg í sessi -- á allt sitt undir áframhaldandi veru hernámsliðsins.
Össur Skarphéðinsson og Samfylkingin bauna ótæpilega á Halldór Ásgrímsson fyrir það hvernig ákvörðunin um að styðja Íraqsstríðið var tekin.

Hvers vegna bauna þau ekki á Davíð Oddsson?

Þau hljóta að vera að undirbúa það, að gera sér dælt við Sjálfstæðisflokkinn eftir næstu kosningar. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn gætu myndað býsna sterka meirihlutastjórn. Ég sé varla fram á að með þessu áframhaldi verði vinstristjórn næsta kjörtímabil, heldur ný Viðeyjarstjórn. Jamm, það líst mér ekki vel á.



Það er annars annað sem margir virðast horfa framhjá: Það er rangt að ákvarðanir um stríðsrekstur, stuðning við stríðsrekstur eða efnahagsþvinganir séu teknar ólöglega eða ólýðræðislega. Það er forkastanlegt að svona ákvörðun sé tekin í trássi við skýra andstöðu ótvíræðs og yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Það er líka rangt að einstök ríki taki einhliða að sér að "framfylgja" (ólöglega) samþykkt öryggisráðs SÞ, sem að öllu jöfnu þarf að taka sérstaka ákvörðun um að grípa til vopna, það gerist ekki átómatískt.



Það sem er rangt við þetta stríð er stríðið sjálft!





Það er nú það, þegar öllu er á botninn hvolft. Hvað er rangt við morð af ásetningi og í ábataskyni? Er það ánatinn? Skiptir máli hvort það er framið með snöru eða lurki eða rörtöng? Skiptir máli hvort fórnarlambið var dónalegt við pabba gerandans 12 árum áður?

(a) Það er rangt að fara í stríð við aðra.

(b) Það er rangt að ræna náttúruauðlindum af öðrum.

Hvað er flókið við þetta? Þarf að skera þetta út í pappa handa ónefndum þöngulhausum? Þarf fjólubláa risaeðlan Barney að dansa þetta fyrir þá?

Íraqsstríðið er skólabókardæmi um heimsvaldastríð. Valdastétt Bandaríkjanna ásælist það sem valdastétt Íraqs á og ræðst því á Íraq. Bandarískir skattborgarar borga vígtólin, bandarískir fátæklingar sjá um skítverkin, írasqir fátæklingar falla unnvörpum í valinn, fórnað á altari heimsvaldastefnunnar, írasqa valdastéttin makar krókinn eftir á með því að beygja sig fyrir Bandaríkjastjórn og spila með í að nýta olíulindirnar og halda heimamönnum í skefjum.

Kosningar? Bah! Þessar ksoningar verða hlægilegur, nei, sorglegur, tragikómískur skrípaleikur, sett á svið, til hvers?

Til þess að það verði til írösq ríkisstjórn (les: leppstjórn) sem getur "löglega" veitt bandarískum fyrirtækjum heimild til olíuvinnslu og annars starfs í landinu. Aðallega samt olíuvinnslu.

Mig dreymdi óvenjulega síðustu nótt



Í morgun - þ.e.a.s. að morgni fimmtudags 27. - vaknaði ég með orð klingjandi í kollinum. Ég mundi lítið af draumnum sem mig hafði verið að dreyma áður en ég vaknaði, en þetta eina orð. Í draumnum hafði ég endurtekið það, aftur og aftur, til þess að vera viss um að muna það. Ekki hvarflaði það að mér, reyndar, að reyna að muna það þegar ég vaknaði, enda vissi ég ekki í draumnum að ég væri sofandi, en af einhverjum ástæðum var mér mikið í mun að gleyma ekki þessu orði. Þessu nafni: Skanderbeg.



Ég vaknaði, og þetta var brakandi ferskt í huga mér. Skanderbeg. Skanderbeg. Mannsnafn. Það vill svo til að ég vissi hver Skanderbeg var: Hann var Albani, sem á miðöldum barðist frækilega fyrir frelsi Albana og gegn ásælni Tyrkja. Ég sá hans getið fyrir meira en ári í bókinni Heimsvaldastefnan og byltingin eftir Enver Hoxha, og var búinn að steingleyma honum.



Fyrst mig var nú að dreyma þetta hlaut ég að fara á Wikipedia og fletta Skanderbeg upp. Hér er grein um hann. Þetta var hinn merkilegasti maður og virðist alveg verðskulda þann sóma sem honum hefur verið sýndur. Að vísu var SS-sveit sem kenndi sig við hann í stríðinu, hann verðskuldaði það nú kannski ekki. Nafnið er víst ekki albanskt að uppruna, það er samansett úr Alexander -> Iskander -> Skander og bey, sem var aðalstitill hjá Ottómönum, og varð að beg í meðförum Albana. Skanderbeg þýðir þannig Alexander herra eða Alexander lávarður og vísar til Alexanders mikla, en réttu nafni hét Skanderbeg víst Gjergj Kastrioti.



Jamm, merkilegt þetta.

Thursday, January 27, 2005

Olíuþurrð ... mannréttindi ... Palestína



Var að fá í hendurnar The Oil Age is Over - What to Expect as the World Runs Out of Cheap Oil, 205-2050 eftir Matt Savinar - sjá Life After the Oil Crash. Þessi bók mun ég lesa þegar ritgerðarmálin eru komin á þurrt.



Enn frekari aðför að mannréttindum boðuð í Bretlandi:
British officials proposed sweeping new powers yesterday to control and monitor suspected terrorists without charge or trial, including house arrests, electronic tagging and curfews.


...það eru arabar og múslimar í dag (hinir) - en það megið þið bóka, að stjórnarandstæðingar lenda í menginu "suspected terrorists" fyrr en varir.



Ég fylgist átekta með því sem lítur út fyrir að vera aðdragandi friðarviðræðna milli Ísraela og Palestínumanna. Spurningin er bara, ef Sharon segist vera ánægður með Abbas, hverjum er Abbas þá að gera gott? Sharon? Palestínsku þjóðinni? Er hugsanlegt að hann sé að gera báðum gott? Ég er efins. Ef Sharon er ánægður, þá er maður óneitanlega hugsi.

Wednesday, January 26, 2005

Merkisfrétt eða ósönn frétt?



Getur verið að þessi frétt sé sönn? Að Kínverjar hafi fundið risastórar olíulindir í Kína? Ég er mjög efins, þótt ég vildi alveg að þetta væri satt. Ef þetta væri satt, hvers vegna hefðum við þá ekki heyrt meira um það í fréttum? Og hvers vegna væri þá olíuverðið ekki orðið lægra? Undarleg frétt, samt. Ef sönn væri, þýddi þetta að Peak Oil færðist aftur um einhver ár.

King George, gíslataka í Íraq, um Nepal og eitthvað fleira



Lesið greinina „King George“ eftir Uri Avnery. Ansi hreint góð grein, eins og við mátti búast af honum.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Frétt: Bandaríski gíslinn Roy Hallams í haldi hjá írösqum andspyrnumönnum:
„I'm asking for help because my life is in danger because it's been proved that I work for American forces.“ ... [H]e says he wants help from Arab leaders but not from President Bush. ... „I'm not asking for any help from President Bush because I know of his selfishness and unconcern to those who've been pushed into this hellhole, ... I am asking for help from Arab rulers, especially (Libyan) President Muammar Gaddafi, because he is known for helping those who are suffering.“


~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Í Nepal heldur þráteflið áfram. Kanslarinn (það er ekki hægt að kalla hann forsætisráðherra) Deuba hefur umboð konungsins til að halda kosningar (sem eiga að vera fljótlega) og til að reyna að ná sáttum við maóistana. Hann hefur hins vegar ekki umboð til að koma til móts við Prachanda og félaga, eins og með því að taka upp lýðræðislega stjórnarhætti, svo þeir vilja ekki tala við hann og hóta illu í kring um kosningarnar. Það kæmi manni ekki á óvart að það yrði mikið barist í kring um þær. Prachanda segir að maóistar muni samþykkja samningaviðræður við mann sem hafi umboð til þess að ganga að kröfum þeirra. Það segir nokkuð um stjórnmálahlutföllin í Nepal, að meðan maóistar hafa feiknamikið umleikis (ég hef ekki prósentutölur), þá er einn af stærstu flokkunum á þinginu flokkur sem kennir sig við marx-lenínisma. Prachanda kallar þá svikara, ég veit fyrir víst ekki hvað er hæft í því, en ég held að þeir séu beinn arftaki gamla stalínistaflokksins, ef það gefur nokkra vísbendingu... Maóistar taka ekki þátt í þinginu og varla að margir stuðningsmenn þeirra kjósi þá í kosningunum, en þó eru marxlenínistar, að mig minnir, með næst-stærsta þingflokkinn. Þingið er næsta valdalítið, og Deuba, sem er kallaður forsætisráðherra en er líkari gamaldags kanslara, sækir umboð sitt ekki til þess heldur beint til konungsins. Eftir morðin á konungsfjölskyldunni 2001 færði krúnan mjög út völd sín, framkvæmdavaldið, á kostnað þingsins. Það eru annars uppi samsæriskenningar um fjöldamorðin. Sagt að vestrænar sérsveitir hafi myrt konungsfjölskulduna og Birendra krónprinsi kennt um, til að koma Gyanendra að sem konungi, sem er þekktur fyrir óbilgirni (les: ruddaskap og harðfylgi) gagnvart uppreisnarmönnunum.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

„I was a bombadier in WW 2. When you are up 30,000 feet you do not hear the screams or smell the blood or see those without limbs or eyes. It was not til I read Hersey's Hiroshima that I realized what bomber pilots do.“
-- Howard Zinn

Monday, January 24, 2005

Í Fréttablaðinu í dag, bls. 30, er viðtal við okkur Davíð um Hið íslenska tröllavinafélag. Ágætlega heppnað, verð ég að segja.
Merkilegt er að sjá hvernig fylgismenn Íraqsstríðsins þræta fyrir að nokkuð hafi verið óeðlilegt við ákvörðunartökuna á Íslandi. Í fyrsta lagi er það í hæsta máta ólýðræðislegt að tveir menn ákveði að skuldbinda Ísland til stuðnings við stríð. Lýðræði er aðferð. Ef lýðræðislegri aðferð er ekki beitt til að taka ákvörðun getur hún varla kallast lýðræðisleg, eða hvað? Tveggja manna ákvörðun er ekki lýðræðisleg.



Jón Einarsson skrifar á Tímann:
„Á þeim tímum sem við lifum á ... er athyglisvert að menn skuli hafa til þess samvisku að sóa peningum í rándýrar pennavinaauglýsingar í útlendum stórblöðum. Þessir peningar hefðu getað dugað til að bora brunna í Afríku. Þessir peningar hefðu getað greitt fyrir lyf og læknishjálp til þurfandi í sunnanverðri Afríku. Þessir peningar hefðu getað gert gagn í hjálparstarfinu vegna flóðanna í suðaustur-Asíu.“


Þetta er nú góð spurning. Ef þessar milljónir sem auglýsingin í NYT kostaði hefðu getað bjargað mörgum mannslífum, hvað hefði þá mátt bjarga mörgum mannslífum með peningunum sem Íraqsstríðið hefur kostað? Eða, hvað hefði mátt þyrma mörgum mannslífum með því að verja þeim í annað en morð? Nei, ég bara spyr.



Á hinu pólítíska fótboltamóti halda menn með sínu liði. Sá sem er með manni í liði hefur alltaf rétt fyrir sér, sá sem er í hinu liðinu alltaf rangt. Hvernig getur Jón Einarsson annað en þverneitað því sem alþjóð sér, að Guðni Ágústsson sé tvísaga? Hvernig getur hann annað?

Mekilegast finnst mér samt hvernig það er eins og hægrimenn skilji ekki í því, að fólk geti verið á móti stríði. Íraqstríðið er ekki einhver boxhanski til að lumbra á pólítískum andstæðingum: Það er stríð. Það er verið að myrða fólk og Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson veita þessu hroðaverki pólítískan stuðning. Þriðja særsta borg Íraqs var jöfnuð við jörðu fyrir skemmstu. Tugþúsundir liggja í valnum. Ztyrmir Gunnarsson ritaði í gær: „[Össur og Ingibjörg] leggja mikla áherzlu á að berja á stjórnarflokkunum út af Íraksstríðinu.“ Ég er enginn sérstakur aðdáandi Össurar eða Ingibjargar, en ég tek því sem hrienni og beinni móðgun ef því er haldið fram að andstæðingum stríðsins gangi það eitt til, að berja á stjórnarflokkunum. Þetta lýsir kannski innræti zumra betur en annarra.



Ég tek samt undir með Styrmi í Reykjavíkurbréfi gærdagsins, ef Samfylkingin kallar sig jafnaðarflokk, hvar er þá jafnaðarmennskan? Hvers vegna gerir Samfylkingin þá ekki athugasemdir við þá geysilegu auðsöfnun á fárra hendur sem undanfarið hefur tröllriðið Íslandi?



(Og sjáið bls. 30 í Fréttablaðinu í dag.)

Sunday, January 23, 2005

Í Morgunblaðinu í dag (sunnudag) er viðtal við Magnús Þorkel Bernharðsson, um Íraq. Hið áhugaverðasta viðtal, verð ég að segja. Það er nýkomin út bók eftir hann, hana mun ég kaupa og lesa um leið og ég hef tækifæri til (eftir ca. tvær vikur).

Og talandi um Morgunblaðið í dag, þá segir Styrmir Gunnarsson í Reykjavíkurbréfi sínu:
Er ágreiningur milli [Össurar og Ingibjargar] um utanríkismál? Varla. Bæði leggja mikla áherzlu á að berja á stjórnarflokkunum út af Íraksstríðinu. Bæði eru gamlir herstöðvaandtæðingar og erfitt að taka mikið mark á þeim, þegar þau ræða um íslenzk öryggismál af þeim sökum.


Það er nefnilega það. Það er erfitt að taka mark á þeim sem eru ósammála Styrmi Gunnarssyni um að Íslendingum beri að sýna Bandaríkjastjórn fulla fylgispekt. Erfitt að taka mark á þeim sem vilja ekki hafa skotmark fyrir eldflaugaárásir á Miðnesheiði. Erfitt að taka mark á þeim sem vilja hvorki þekkja sverð né blóð. Ég held að kominn sé tími til þess, að Styrmir Gunnarsson komi upp í skotgröfinni. Kalda stríðinu er lokið. Stalín er dauður. Rauða hættan heyrir sögunni til. Það er hrein tímaskekkja, að Atlantshafsbandalagið sé eitthvað varnarbandalag (sem ég efast reyndar um að það hafi nokkurn tímann verið). Hafa Íslendingar ástæðu til að vera með í hernaðarbandalagi? Lengst af hafa Íslendingar ekki átt sökótt við neinn og enginn átt sökótt við okkur. Þannig vil ég hafa það. Kæri mig ekki um að vera tjóðraður við heimsvaldastríðsvagna erlendra ríkja.

~~~~~~~~~~~~



Ekki nóg með að Styrmir sjái ástæðu til að "skjóta sendiboðann" í afvopnunarmálum, heldur sér hann einnig sérstaka ástæðu til að ausa Hvítasunnusöfnuðinn lofi. Hvað er eiginlega í gangi? Hvaða sigurgöngu er þessi söfnuður eiginlega að ganga? Hvaða glígja er fyrir augunum á svona mörgum samborgurum mínum, að þeir gleypi öngla þessara nöttkeisa? Bókstafstrú ætti ekki að fyrirfinnast annars staðar en á forngripasafni. Sem bókstafstrúarvini er erfitt að taka mark á Styrmi Gunnarssyni þegar hann ræðir um Hvítasunnusöfnuðinn. Hin daglega Biblíutilvitnun í hausnum á Dagbókinni gleður mig heldur ekki sérstaklega. Tilvitnun dagsins í dag er reyndar ein af þeim betri, og tvímælalaust sú sem ég hef oftast vitnað í:
Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. (Hebreabréfið, 11:1)
Páll postuli hefur þarna lög að mæla: Já, trú er órökstudd sannfæring. Það er ótrúlegt að fullorðið fólk sem hefur meira að segja gengið í skóla skuli aðhyllast þessa forneskju.

~~~~~~~~~~~~



Fyrst ég er að gera mér trú og bókstafstrú að umtalsefni, þá er einmitt góð hugvekja þess efnis á Vantrú í dag. Þetta er ekki meinlaus tískubylgja, þetta er skaðlegur faraldur og okkur sem erum ósmituð ber skylda til að róa gegn þessari óværu.

~~~~~~~~~~~~



Á bls. 39 ritar Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn um veiðiþjófnað og utanvegaakstur. Byssubullur og ökuníðingar eru smánarblettur. Ölvaðir menn í torfæruakstri og hermannaleik, limlestandi rjúpur með ólöglegum skotvopnum og skiljandi þær eftir liggjandi í blóði sínu. Smánarblettur.

Friday, January 21, 2005

Auglýsing Þjóðarhreyfingarinnar birtist víst í New York Times í dag! Sjá frétt mbl.is ... spurning hvort maður getur orðið sér úti um eintak til minja um þennan merkisdag.

Pólítísk nátttröll og önnur tröll



Ég minni í síðasta sinn á stofnfund Hins íslenska tröllavinafélags sem verður haldinn í kvöld klukkan 20:00 í Snarrót, Garðastræti 2. Nánari upplýsingar hér.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Valgerði Sverrisdóttur ofbýður víst umræðan um Íraqsstríðið. Mér ofbýður hins vegar stríðið sjálft. Mér ofbýður að Halldór og Davíð skuli voga sér að bendla Íslendinga við stríð, og vera svo ekki einu sinni menn til að standa við það eftir á. Mér finnst með ólíkindum hvað hér á Íslandi er eins og menn í opinberum stöðum þurfi aldrei að standa reikningsskil gjörða sinna.



Svo Valgerði ofbýður Íraqsstríðið, já. Ég get ekki sagt að ég kenni mikið í brjósti um hana. Hún má kallast vel sloppin ef þetta eru allar afleiðingarnar af því að veita pólítískan stuðning árásarstríði.

Hvaða vitleysa er þetta annars með að það "sé enginn listi"?? Allir vita að þessi listi er ekki aðalatriðið. Þetta er sk. red herring (=athyglinni beint frá aðalatriðinu) hjá hinum svonefnda Framsóknarflokki, þar sem hver étur upp eftir öðrum að það "sé enginn listi" ... (a) auðvitað er listi, Ísland er á honum, (b) aðalatriðið er ekki að Ísland á listanum heldur hvernig Ísland komst á hann: Með því að styðja ólögmætt - og óréttlætanlegt - árásarstríð gegn Íraq.

Hver man nú sakirnar sem Ribbentropp og Göring voru dæmdir fyrir í Nürnberg?



Ég verð nú að viðurkenna að ég hálf hlakka til að sjá hinn svonefnda Framsóknarflokk, þetta nátttröll íslenskra stjórnmála, í næstu kosningum. Sjá hann bíða sögulegt afhroð og Halldór Ásgrímsson eins og geithafur í framan að segja að hann bara skilji þetta ekki. Hvað er eiginlega málið með þennan flokk? "Framsókn"? Sókn fram til hvers? Hvaða hugsjónir á þessi svonefndi Framsóknarflokkur? Að hverju stefnir hann? Hvers virði er hann?



Ráðamenn Íslands mundu gera vel með því að rifja upp að þeir eru ekki herrar íslensku þjóðarinnar, þeir eru þjónar hennar. Við erum vinnuveitendurnir. Af hverju erum við ekki búin að reka þetta lið?

Tuesday, January 18, 2005

Þetta verður massíft áhugaverður fundur. Ég kemst ekki á hann sjálfur en skora á aðra að gera það.



~~~~~~~~~~~~~~~

Þetta er ágæt byrjun.



~~~~~~~~~~~~~~~

Það eru fleiri en ein skýring á lofti varðandi atburðina 11. september 2001. Hin opinbera samsæriskenning stjórnvalda er ekki trúverðug, og sjálfstætt starfandi rannsóknaraðilar hafa fundið marga hnökra á henni, spurt margra spurninga sem ekki hefur verið svarað - og ekki verður séð að verði yfir höfuð svarað í samræmi við hina opinberu sögu - auk þess sem sennilegri tilgátur hafa verið settar fram, sumar allvel eða mjög vel rökstuddar. (Þessi hérna er ekki ein af þeim þótt hún sé sennilega með þeim frumlegri!)
Þessi Charles Graner, böðull frá Abu Ghraib, dæmdur í 10 ára fangelsi. Rumsfeld og Bush ættu að sitja með honum í klefa. Ef þetta væri tafl, þá væri bara verið að fórna peði.



Abu Mazen ætlar að funda með leiðtogum herskárra hreyfinga. Það er nú gott í sjálfu sér og ég óska honum alls hins besta. Hins vegar held ég að í planinu, sem Abu Mazen býður upp á, felust einkum friðkaupastefna gagnvart Ísrael, friðþæging við hernámsliðið. Mun Abu Mazen gangast undir það hlutverk sem Sharon vill að hann hafi, að berja niður palestínsku andspyrnuna? Ég vona ekki ... en það kemur víst í ljós.

Monday, January 17, 2005

Hið íslenska tröllavinafélag verður stofnað í Snarrót (Garðastræti 2) á föstudagskvöld klukkan 20. Þeir sem hafa áhuga eru velkomnir. Nánari upplýsingar má nálgast hér.



Lítið á erlendu linkana á heimasíðunni hjá Nýju afli. Þetta er svei mér undarlegur félagsskapur sem þeir bendla sig við. Tómir hægriflokkar og múslima- og innflytjendaandúðarflokkar. Þarna er kannski komið hið pólítíska sameiningartákn fyrir íslenska rasista? Einkennilegt, þykir mér.



Á Nizkor.org eru fullyrðingar helfararafneitara teknar fyrir og þeim svarað. Þarf verk og krefst þolinmæði, en heilbrigðari nálgun en hin ótrúlega afturhaldspólítík borgaralegra stjórnmálamanna í mörgum Evrópulöndum, að banna einfaldlega helfararafneitun og efa um helförina. Banna fólki með lögum að hafa skoðanir og tjá þær? Það er últra-afturhald og ekkert annað. Ef helfararafneitarar á annað borð hafa rangt fyrir sér hlýtur að vera hægt að hrekja það sem þeir segja. Það styrkir þá bara og gerir þá að píslarvottum að meina þeim málfrelsi. Nizkor.org vinna m.ö.o. þarft verk og gott.



Þið ættuð að líta á Kaffi Hljómalind við Laugaveg. Þar er búið að opna samvinnukaffihús. Ég ætti að líta þangað líka. Þetta virðist vera hið áhugaverðasta og lofsverðasta framtak. Samvinnurekstur er rekstrarform sem ég vildi sjá meira af. (Ég þarf samt varla að taka fram að ég hef lítinn áhuga á skrifræðislegri miðstýringu eins og í SÍS!) Nei, en samvinnuhugsjónin er ekki dauð úr öllum æðum.



Mér finnst að Siggi pönk ætti að koma sér upp kommentakerfi.



Mætið á föstudaginn!

Hið íslenska tröllavinafélag



Á föstudaginn verður stofnað Hið íslenska tröllavinafélag. Tröllavinir og aðrir áhugasamir eru velkomnir. Fundarboð er hér að neðan.











Fundarboð á stofnfund Hins íslenska tröllavinafélags



Stofnfundur Hins íslenska tröllavinafélags verður haldinn í

grasrótarbækistöðinni Snarrót í Garðastræti 2, föstudaginn

21. janúar klukkan 20:00.

Allir áhugasamir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Ykkur

er velkomið að taka með ykkur gesti.



Þetta verður almennilegt félag, svo að hér er fundardagskrá:



1. Stofnfundur settur.

2. Hið tilvonandi félag kynnt lauslega fyrir fundargestum.

3. Drög að lögum og stofnskrá lögð fyrir fundinn.

4. Félagið stofnað af þeim sem vilja taka þátt.

5. Bráðabirgðastjórn kosin.

6. Bráðabirgðaritari tekur saman stofnfélagaskrá.

7. Stofnfundi slitið.



Þeir sem ekki vilja vera í félaginu víkja af fundi.



8. Fyrsti aðalfundur settur og fundarstjóri valinn.

9. Lög félagsins rædd og samþykkt.

10. Fyrsta stjórn kjörin og tekur við af bráðabirgðastjórn.

11. Ákveðið árgjald fyrir starfsárið 2005.

12. Kjörnar stjórnlaganefnd, árshátíðarnefnd, fréttabréfs-

nefnd og vettvangsferðanefnd.

13. Önnur mál.

14. Fundi slitið og tappar dregnir úr flöskum.



Fólk er beðið um að mæta allsgáð og tímanlega. Kaffi verður

á boðstólum, en aðra drykki (áfenga eða óáfenga) kemur fólk

með sjálft.



Fyrir hönd undirbúningsnefndar,



Vésteinn
Þá, sem ekki vita um hvað málið snýst þegar minnst er á Peak Oil, skora ég á að fara á þessa síðu og lesa sér til um það. Peak Oil er sennilega alvarlegasta vandamál mannkynsins, og eitt það alvarlegasta við það er að fyrirbyggjandi aðgerðir gera varla meira en að krafsa í yfirborðið.

~~~~~~~~~~~~~~~



Undur og stórmerki! Guðni Ágústsson skýrir frá því að ákvörðunin um stuðning Íslands við Íraqsstríð hafi verið tekin af Halldóri og Davíð og engum öðrum. Ekki að það hafi ekki allir vitað, en merkilegt að Guðni skuli láta hafa þetta eftir sér.

~~~~~~~~~~~~~~~



Eru Palestínumenn "bara arabar"? Önnur góð grein: "Bush's Cambodia: Syria in the Crosshairs" ... og skv. þessari frétt er verið að verðlauna menn sem bera ábyrgð á pyndingum í Abu Ghraib. Hið hnattræna pyndingagúlag Bandaríkjamanna - óhugnanleg sem sú tilhugsun er - er á leiðinni.

Sunday, January 16, 2005

Lítið á Gagnauga og lesið þar bráðmerkilega nýjustu greinina, um Bechtel. Síðan eru fréttir: Niðurhalið er komið í lag fyrir áhugafólk um heimildamyndir og annað áhugavert. Vikulegar kvikmyndasýningar eru auglýstar, umræðufundir og óformlegir leshringir, allt þrennt í Snarrót. Allt saman hið áhugaverðasta.
Hmm ... þetta þykir mér athyglisverð frétt. Það verður fróðlegt að sjá viðbrögð herskárri hópa Palestínumanna. Það kæmi mér á óvart samt, að Abbas og Qurei leggi til atlögu við þá með vopnum. PLO gæti sennilega marið sigur á endanum, en fórnirnar yrðu miklar. Og Abbas og Qurei yrðu sennilega sjálfir meðal fyrstu fórnarlambanna.
Það er grein eftir mig á Múrnum í dag og það er líka grein eftir mig á Vantrú í dag!



Sharon hótar hörðu ef Abbas efnis ekki til borgarastríðs meðal Palestínumanna. Eða, réttara sagt, Sharon lofar hörðu. Hvers vegna snýst umræðan um að Palestínumenn verði að leggja niður vopn? Barátta þeirra er barátta þjóðar fyrir frelsi sínu. Umræðan ætti að snúast um að Ísraelar dragi allt sitt lið út af herteknu svæðunum og fari að leita friðar í góðri trú. Orðið "terror" hefur verið gengisfellt af þeim sem stjórna orðræðunni á Vesturlöndum. Það er étið gagnrýnislaust upp eftir ráðamönnum, sem nota það einfaldlega gegn óvinum sínum. Það er ekki hryðjuverk, þegar menn verjast innrásarher. Árásir írasqra borgara á bandaríska hermenn í Íraq eru þannig ekki hryðjuverk, og heldur ekki árásir palestínskra borgara á ísraelska hermenn á herteknu svæðunum. Þetta kallast skæruhernaður eða andspyrna, en terrorismi er það ekki.

Nú eru menn ekki á eitt sáttir, hvað skuli kallast terrorismi og hvað ekki. Það virðist þó vera viðtekið að í því felist að með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi valdi terroristarnir almenningi ótta, sem þeir nýti sér síðan í pólítískum eða hugmyndafræðilegum tilgangi. Er það ekki nákvæmlega það sem vestrænar ríkisstjórnir (einkum Bandaríkjastjórn) eru að gera? Það er alið á hræðslu fólk til þess að réttlæta svokallað "stríð gegn hryðjuverkum" sem felur einkum í sér árásarstríð gegn öðrum ríkjum og aðför að mannréttindum heima fyrir. Menn tala um "alþjóðleg hryðjuverk" eins og þau séu helsta ógnin sem mannkynið stendur frammi fyrir í heiminum í dag. Það er einfaldlega ekki satt. Hryðjuverk eru ekki einu sinni ofarlega á listanum yfir alvarlegar ógnir. Á hverju ári falla milli 2000 og 4000 manns í hryðjuverkaárásum. Hvað ætli margir láti lífið í umferðarslysum í New York einni? Hvað ætli margir svipti sig lífi? Hvað ætli margir falli fyrir malaríu eða úr hungri? Hvað dóu margir vegna gróðurhúsaáhrifa á síðasta ári? Hveru margir féllu í Íraqsstríðinu?

Saturday, January 15, 2005

Sharon neitar að tala við Abbas nema sá síðarnefndi hefji fyrst innbyrðis borgarastyrjöld meðal Palestínumanna. Það er nú það eina sem þá vantar, bræðravíg, ha? Það kæmi Ísraelum reyndar vissulega vel að kljúfa raðir Palestínumanna. Það er verkefnið sem Abbas á að leysa af hendi núna: Rjúfa samstöðuna. Í þessu sambandi vil ég benda fólki á að lesa þessa grein.

Þetta er ljóta vitleysan. Það er alveg á hreinu hvað þarf að vera fyrsta skref til friðar í Mið-Austurlöndum: Ísraelska ríkisstjórnin þarf að vilja frið. Sharon er ekki friðarboði, ekki aldeilis. Gleymum ekki því, hverjir halda hverjum í herkví. Það eru Ísraelar sem halda Palestínumönnum í herkví, ekki öfugt. Það eru Ísraelar sem eru að flæma þá burt af landi sínu. Ísraelar halda upi útgöngubönnum og ferðabönnum, hindra allt frá skólahaldi til sorphirðu og meina mönnum vatn og lífsviðurværi. Það er vandamálið.

Friday, January 14, 2005

Hið íslenska tröllavinafélag



Spurt var:
Hvað ætla menn að aðhafast í þessu félagi? Safna tröllasögum? Skrá og kortleggja klettadranga með GPS-hnitum? Vera með leiðsögn um tröllaslóðir? Hittast og borða góðan mat? Sækja um trúfélagaskráningu?




Svarað er:

Úr Stofnskrá hins íslenska tröllavinafélags:
Hið íslenska tröllavinafélag (HÍT) er félagsskapur áhugafólks og

velunnara trölla. HÍT hyggst beita sér fyrir hvers konar starfsemi

sem getur orðið til þess að bæta samskipti manna og trölla, draga úr

gagnkvæmum fordómum þar á milli, efla vöxt og viðgang trölla á Íslandi

og vernda þau vistkerfi sem tröll hafast við í. Enn fremur hyggst

félagið stuðla að rannsóknum á tröllum og lifnaðarháttum þeirra og

útgáfu á efni því tengdu.
Eftir viku verður stofnfundur Hins íslenska tröllavinafélags. Þeir sem vilja vera með mega hafa samband: vangaveltur@yahoo.com og fá nánari upplýsingar.
Það er grein eftir mig á Vantrú í dag.

-=-=-=-=-=-=-=-=-=-=-=-

Frétt dagsins: 7 Ísraelar féllu í árás herskárra Palestínumanna á Karni-varðstöðina á Gaza. Ha'aretz segir reyndar að þeir hafi ekki verið 7 heldur 6. Það er sennilega rétt. Þeir á Ha'aretz kalla árásina enn fremur hryðjuverkaárás. Það er nú ekki rétt hjá þeim. Þetta hefði verið hryðjuverkaárás ef hún hefði verið í Eilat eða Tel Aviv eða annarri ísraelskri borg, en þegar þjóð veitir innrásarher viðnám kallast það ekki hryðjuverk, þótt það sé gert með vopnum. Þarna voru semsagt að verki skæruliðar, ekki hryðjuverkamenn.

Ísraelar hafa nú þegar lokað Gazaströnd af, og það má búast við grimmilegum hefndum fyrir þetta tilræði. Óbreyttir borgarar verða drepnir - og fleiri skæruliðar búnir til. Þetta er sérstaklega óheppileg tímasetning vegna þess hvernig Abu Mazen er að reyna að miðla málum, fá herskáar hreyfingar til að slíðra sverðin, og funda með Sharon.

-=-=-=-=-=-=-=-=-=-=-=-

Það er alvarlegt mál hvernig aðstoðarmenn Sistanis æðstaklerks shííta í Íraq falla hver af öðrum. Tveir myrtir á skömmum tíma, og ekki langt síðan einn eða tveir aðrir voru myrtir líka. Færð hafa verið rök fyrir því að Ayatollah Sistani gæti verið mikilvægasti maður heims um þessar mundir -- í þeim skilningi, að úrslit Íraqsstríðsins gætu oltið á honum. Sistani hefur óskaplegan fjölda fylgismanna og nýtur mikillar virðingar. Þótt hann sé á móti hernáminu er hann hæglátur og trúr shííta-íslam, sem þýðir að hann, sem kennimaður, skiptir sér ekki af veraldlegum stjórnmálum ef hann kemst hjá því. Það er virðingarvert; stjórnmál og trú eiga ekki að fara saman. Sistani sýndi samt vald sitt fyrir nokkrum mánuðum, þegar hann gafa merki og hundruð þúsunda stuðningsmanna hans flykktust út á götur til (að mestu leyti) friðsamlegra mótmæla -- sem lauk jafn snarlega og þau hófust. Það geta margir hafið mótmælafund, en það er kúnst að segja nokkur hundruð þúsund manns að þetta sé orðið gott, nú skuli menn fara heim til sín. Síðan er skemmst að minnast þess, hvernig Sistani leysti Moqtada al-Sadr úr herkví í Najaf. Sadr var innikróaður, mönnum hanns fór fækkandi og Bandaríkjaher sótti stíft ... en átti þó erfitt að sækja að honum inni í Imam Ali moskunni, þar sem slíkt hefði kostað almennan trylling meðal shííta - og annarra múslima - fyrir utan það að Sadr hefði orðið píslarvottur í fremstu röð. Sistani kom á svæðið og með honum mannsöfnuður sem nam tugþúsundum, og hann leysti málið.

Hver ætli sé að drepa frá honum aðstoðarmennina? Ekki veit ég það fyrir víst (þótt herskáir súnnítar komi óneitanlega upp í hugann) en hver sem er að verki hlýtur að vera að reyna að stefna Íraq í almenna ringulreið, reyna að efna til borgarastríðs. Eru það asnarnir sem þykjast fylgja hinum svokallaða Zarqawi? Eða ætli þetta séu bandarískar leynisveitir, í divide et impera-leik? Eða ætli Zarqawi sé kannski á mála hjá Bandaríkjamönnum?

Thursday, January 13, 2005

Hmm ... merkilegt ef satt er. Skipulögðu al-Qaeda-liðar árásina á íslensku málaliðana? Ekki hef ég forsendur til að játa því eða neita, en hljómaði ekki lýsingin á þessari teppakaupaferð eins og hún væri farin með skömmum fyrirvara? Eða ætli þessir al-Qaeda-menn hafi haft innanbúðar-upplýsingar? Dularfullt.

Ég held annars að það sé vafasamt að tala um al-Qaeda-menn á þennan hátt. Eftir því sem ég kemst næst eru al-Qaeda nefnilega mjög lauslega gyrt samtök og halda hvorki félagaskrá, né eru miðstýrð, né annað slíkt. Fyrir utan grunsamlega sterk tengsl við leyniþjónustu Bandaríkjanna.



Reiðir, ungir menn í múslimaheiminum eru margir. Þeir eru afl sem gæti valdið valdastéttinni miklum usla ef þeir færu rétt að. Það sem væri hættulegast fyrir forréttindastöðu valdastéttarinnar væri að þessi öfluga róttæknibylgja væri ydd með broddi marxisma og öreigabyltingar.

Annars vegar væri slíkt raunveruleg ógn við forréttindastöðu valdastéttarinnar ... hins vegar er þessi grúi ungra reiðra Serkja "power base" sem hægt er að nýta. Eða, ef ekki nýta, þá altént draga tennurnar úr róttækninni með því að koma afturhaldssamri hugmyndafræði á borð við íslamisma á oddinn.

Mér finnst einhvern veginn liggja í augum uppi hvað þetta væri borðleggjandi leið fyrir valdastéttina. Í aðra röndina er grafalvarlegri ógn við forréttindi þeirra afstýrt eða a.m.k. milduð til muna - í hina röndina er komið verkfæri sem getur afsakað inngrip Bandaríkjahers á olíuauðugustu svæðum heims. Fyrst ég fatta þatta, þá hljóta atvinnuklækjarefir CIA að fatta þetta, ekki satt? Munurinn er sá að ég hef í fyrsta lagi engar bjargir til að nýta mér þetta "power base", né hef ég mikilla hagsmuna að gæta í olíuvinnslubransanum, hergagnaiðnaðinum eða öðru slíku. Það hefur hins vegar valdastétt Bandaríkjanna og bandalagsríkja þeirra.



Í stuttu máli sagt, þá mundi það meira en meika sens að valdastétt voldugasta ríkis heims vildi sitja báðumegin við skákborðið til þess að geta haft eins mikil áhrif á valdataflið og hún gæti. Þegar í húfi er jafn mikilvæg náttúruauðlind og olía Mið-Austurlanda -- grundvallarauðlindin, ekki bara fyrir hagkerfið heldur afkomu mannkyns á næstunni -- þá skyldi mig undra að þeir gerðu þetta ekki.



~~~~~~~~~~~~~~~~



Erekat er svartsýnn vegna Abu Mazens. Ansi er ég hræddur um að hann sé þarna nálægt sannleikanum í bölsýni sinni.
Bandaríkjastjórn hefur gefist upp á að finna gereyðingavopn í Íraq. Ég held að það sé þá útrætt. Gereyðingarvopnin voru ósönn átylla fyrir ólöglegri innrás. Hin sanna ástæða fyrir innrásinni: Olía. Bush segir að innrásin hafi samt verið "þess virði" og það er ekki að undra, hrein uppgrip fyrir valdastétt Bandaríkjanna.



Var að bæta við hlekk hér til hliðar, á Sambar for Pins and Flags, þar sem er ágætt úrval af merkjum og dóti.



Írasqa andspyrnan höfðar til liðsmanna innrásarliðsins um að leggja niður vopn. Vonandi gera þeir það.



Aðskilnaðarsinnar í Aceh ítreka boð um vopnahlé ... ætli Indónesíuher sé í fullri sókn gegn þeim þessa dagana? Ekki að það kæmi á óvart, þannig séð, en fjandinn, það þykir mér níðingslegt, að nota þetta tækifæri til að lúskra á aðskilnaðarsinnunum. Sem ég segi, þá kæmi það því miður ekki á óvart. Indónesíuher er með ljóta ferilsskrá.

Tuesday, January 11, 2005

Pentagon eru, sem áður segir, að velta fyrir sér að setja upp dauðasveitir til að myrða leiðtoga andspyrnunnar. Það er nú aldeilis framsækin leið til að kljást við pólítísk vandamál, að myrða einfaldlega pólítíska forystu andstæðinganna, ha? Sjá þessa grein. "Myrða þetta bara, ha? Kenna þessu lexíu með því að myrða þetta, ha?"



Andspyrnan í Íraq samanstendur ekki af glæpamönnum og illþýði eins og sumir vilja vera láta. Þarna er á feðrinni pólítískt vandamál, sem er ólögleg og óafsakanleg herseta bandarísks innrásarliðs. Meira að segja í alþjóðalögum er þjóðum tryggður rétturinn til að verjast erlendu innrásarliði, þótt það sé gert með vopnavaldi. Á sama hátt og andspyrna Palesínumanna gegn ísraelska hernámsliðinu er lögleg, þá er andspyrna Íraqa gegn bandaríska hernámsliðinu það líka. Þarna er á ferðinni sjálfsvörn þjóðar.



"Já, það blasir við að það eina sems töðvar þessa forhertu og heilaþvegnu atvinnuglæpamenn og samviskulaust bjúgsverðum-sveiflandi illþýði er að myrða það bara. Kalt mat. Myrða þetta."



Ætli Halldór Ásgrímsson styðji stofnun morðsveita gegn pólítískum leiðtogum þjóðfrelsishreyfingarinnar? Mér þætti fróðlegt að vita það. Kannski getur hann ekki annað, landstjóraleppur bandarískra heimsvaldasinna á Íslandi, þessum fylgihnetti Bandaríkjastjórnar. Ætli Íslendingar geti nokkuð andmælt, hersetin þjóð í 54 ár?



Hmm ... meðan íbúar hernumdu svæðanna í Palestínu hafa verið hersetnir síðan 1967 og, eins og Jón Valur Jensson benti réttilega á í nýlegri grein, íbúar Tíbet síðan 1959. En Íslendingar hafa verið hersetnir síðan 1951!

Monday, January 10, 2005

Bandaríkjastjórn íhugar "El Salvador-valkostinn" í Íraq: Að koma upp dauðasveitum í Íraq, mönnuðum af Kúrdum og shíítum, til að myrða leiðtoga súnní-andspyrnunnar. Sagt að Allawi lítist bráðvel á þessa hugmynd. Það var honum líkt.



Af nepölsku byltingunni er það að frétta, að ríkisstjórnin segist bjóða maóistum til samninga, en Prachanda formaður maóistaflokksins segir að þeim séu boðnir smánarlegir kostir og muni ekki ganga til friðarviðræðna nema þær verði háðar á sanngjarnan hátt.



Indverjar gera stóran olíusamning við Írani og Rússa. Hmm ... ætli Íranir séu að eignast bandamann?



Norður-Kóreustjórn lætur til skarar skríða gegn síðu hári.
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag segir Styrmir að Abu Mazen ætli að reyna að „draga úr öfgaverkum róttækari samtaka Palestínumanna“. Já, þetta orðalag get ég vel fellt mig við. Þegar Abu Mazen hefur riðið á vaðið er vonandi að Ísraelar dragi úr öfgaverkum róttækari samtaka Ísraela líka.
Eins og við mátti búast vann Abbas þessar forsetakosningar. Ég dreg enga dul á að mér hefði þótt betra að sjá Mustafa Barghouti vinna þær, en mér finnst kannski merkilegast að þessar kosningar voru demonstrasjón á því að Palestínska heimastjórnin er frekar lýðræðislegt fyrirbæri. Hvað sem ýmsum göllum hennar líður, þá er það óneitanlega jákvætt.



Úr frétt RÚV:

George Bush Bandaríkjaforseti lýsti í gærkvöld yfir ánægju með kosningarnar, sagði þær veigamikinn áfanga að sjálfstæðu ríki Palestínumanna. Hann bauð Abbas að leggja honum lið í baráttunni fyrir friði, og skoraði á Ísraela að auka mannréttindi á Gasaströnd og svæðunum vestan Jórdanar.


Skoraði á Ísraela að „auka mannréttindi“? Merkilegt orðalag. Mannréttindi eru afstæð, fyrir það fyrsta. Í öðru lagi væri nær að skora á Ísraela að draga úr mannréttindabrotum í Palestínu, eða jafnvel hætta þeim alveg. Æi, þetta er kannski bara óheppileg þýðing.

Sunday, January 9, 2005

Fýluferð í Kringluna og eitthvað



Fór í gær í Kringluna með móður minni. Rakst þar á þetta og þetta fræga fólk. Ætlaði annars að kaupa skó. Fann eina skó sem litu ágætlega út en þeir voru óþægilegir. Næstu skór voru ekki til í minni stærð og þeir þriðju voru óþægilegir líka. Afgreiðsludaman, sem var ekki í spariskapinu sínu, spurði hvort ég vildi fá ECCO-skó. Ég sagðist ekki vilja sjá þá. Hún spurði hvort mér þættu þeir óþægilegir og ég ítrekaði að ég vildi ekki sjá þá. Er það ekki afdráttarlaust svar? Þegar hún hélt samt áfram að bjóða mér þá og svo einhverja aðra svipaða og eitthvað, þá nennti ég þessu ekki lengur. Skókaup bíða betri tíma.

~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~



Næst fórum við í Hagkaup. Ég vissi ekki fyrr en rétt áðan að það væri til eitthvað sem héti ýsa.is. Keyptum meðal annars kaffi. Mér er, almennt séð, lítið yndi af því að kaupa kaffi (þótt ég láti mig reyndar hafa það), vegna þess hverjar aðstæður kaffibænda í þriðja heiminum. Nú eru til sölusamtök þriðjaheims-kaffibænda, sem koma sínum vörum milliliðalaust á markað á Vesturlöndum. Það er því hægt að kaupa „óarðrænt“ kaffi sem maður getur drukkið með góðri samvisku. Þetta kaffi skilst mér að sé m.a. hægt að fá á kaffistofunni í hinu nýja safnaðarheimili Neskirkju. Maður þarf nú að tékka á því, trúleysinginn. Smekkur fyrir mannúðlegum hressingardrykkjum lætur trúflokkalandamæri ekki stöðva sig. Ég ætla einhvern tímann að líta í kaffi í Neskirkju. Neskaffi.

~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~



Heima hjá mér:

Ég: Má ég fá mér brauðsneið?

Móðir mín: Já, auðvitað máttu það.

Ég: Má ég setja smjör og álegg á hana?

Móðir mín: Nema hvað, þarftu að spyrja?

Ég: Má ég það ekki?

~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~



Mér finnst ársuppgjör almennt séð leiðinleg.
Ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum, þá eru forsetakosningar í Palestínu í dag. Mér finnst merkilegt - og mjög gott - hvað Palestínumönnum gengur, þrátt fyrir allt, að hafa lýðræði í heiðri. Nú þekkist lýðræði varla í arabalöndunum. En það þekkist í Palestínu.

Og ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum, þá eru nokkrir Ísleningar á svæðinu: Ögmundur Jónasson, Eiríkur Jónsson og Borgþór Kjærnested. fylgist með á heimasíðu Ögmundar og á heimasíðu Félagsins Íslands-Palestínu.

Í bili vil ég benda sérsaklega á tvær greinar á heimasíðu Ögmundar: "Rændur lífinu - en ærunni ekki "og "Minnir óþægilega á nasismann"

Friday, January 7, 2005

Já, ég strengdi áramótaheit eins og margir. Eða eins konar áramótaheit. Og nei, ég ætla ekki að deila því með umheiminum hér á þessu bloggi.

~~~~~~~~~~~





Á mínu heimili erum við ennþá áskrifendur að Andrési Önd á dönsku. Áðan kom nýjasta tölublað. Það var nú skrítið. Þetta var jólablað, sem kom inn um lúguna. Það voru tvær eða þrjár sögur þar sem jólasveinninn kemur við sögu og dagsett 20. desember. Ætli Danir hafi svissað yfir í júlíanska tímatalið án þess að láta aðra vita?

Í einni sögunni hringir jólasveinninn í Jóakim. Þá eru nissarnir hans í verkfalli og krefjast þess að fá fleiri smákökupásur og meira kakó á vinnutíma. Í kröfugöngu ber einn þeirra ber meira að segja skilti þar sem stendur "Al magt til nisserne" - Alræði jóladverganna. Mér finnst þetta nú drepfyndið, þrátt fyrir sterkan and-verkalýðssinnaðan brodd í sögunni. Verkfallsnissarnir eru svo leiðinlegir að setja fram ósanngjarnar kröfur um að frú Jólasveinn baki miklu meira af kökum en hún á auðvelt með, og allt bitnar það á blessuðum börnunum, sem fá ekki gjafirnar sínar í tæka tíð. Ætli Pat og Carol McGreal, sem eru höfundar sögunnar, séu á mála hjá vinnuveitendasambandinu?



Annars er þetta blað líka merkilegur vitnisburður um Evrópusamrunann. Það er á dönsku og gefið út í Danmörku. Forlagið er samt Egmont í Malmö, Svíþjóð! Blaðinu er síðan pakkað í Hollandi og sent út frá Sviss. Ja, lífið er skrítið, ég segi nú ekki annað.
Setningar sem maður heyrir sjaldan:

„Tja, virkjanir eru nú góðar og atvinnulífa á Austurlandi veitir ekki af þeirri vítamínsprautu sem álver í Reyðarfirði væri, en fórnarkostnaðurinn er of hár ef þarf að drekkja hálendinu.“

„Kárahnjúkar eru vissulega ótrúlega fallegt og merkilegt svæði, en ég tel það þess virði að fórna því fyrir virkjun svo hægt sé að reisa álver: Austfirðir þarfnast sárlega iðnaðar og atvinnu.“

„Reyðarfjörður og Kárahnjúkar eru ljótir og asnalegir og mér er alveg sama í sjálfu sér hvort landinu þar er raskað eða ekki, en ég er samt á móti virkjuninni og þessu álveri, sem mundu gera illt verra.“


Fólk virðist skiptast í tvö lið: Annars vegar eru þeir sem eru á móti virkjun og álveri og finnst Kárahnjúkar og Reyðarfjörður vera dýrmætt svæði sem ekki megi spilla. Hins vegar eru þeir sem finnst allt í lagi að spilla svæðunum við Kárahnjúka og í Reyðarfirði og finnst virkjanir og álver vera frábært mál. Hvar eru hinar skoðanirnar? Hvað með þá sem er alveg sama um náttúruna en eru samt á móti álverinu? Hvar eru þeir sem finnst bæði iðnaður og náttúra vera af hinu góða en telja annað betra en hitt? Það fer ekki mikið fyrir þeim.

~~~~~~~~~~

Þessir tónlistarmenn sem komu saman ekki löngu fyrir jól og tóku upp tónlist til styrktar þjáðu fólki í Darfur í Súdan voru svo smekklegir að velja lag sem heitir "Do they even know it's Christmas?". Íbúar Súdan eru múslimar. Taka fleiri en ég eftir vestrænum menningarhroka í þessu vel meinta prodjekti?

~~~~~~~~~~

Hmm ... þetta hlýtur að teljast vera af hinu góða. Þetta líka, býst ég við.

~~~~~~~~~~

Vantrú: Fyrst með fréttirnar. Annars er grein eftir mig á Vantrú í dag.

~~~~~~~~~~

Lýðræði er ekki tveggja manna tal. Satt er það.

Thursday, January 6, 2005

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag (bls. 47) er vitnað í áróðursgrein gegn Palestínumönnum, af heimasíðu SUS. Þar er talað um stöðu samkynhneigðra í Palestínu. Eftir því sem ég kemst næst er stöðu samkynhneigðra í Palestínu mjög ábótavant, eins og reyndar í flestum öðrum arabalöndum. Ég skil samt ekki hvers vegna höfundurinn, Friðjón R. Friðjónsson, hnýtir í því samhengi í Palestínumenn sem slíka eða vini þeirra á Íslandi. M.a. segir hann:

Íslenskir aðdáendur Palestínu þegja yfir þessu, aðdáendur morðingjanna, fólk eins og Sveinn Rúnar Hauksson og Björk Vilhelmsdóttir kalla á Íslendinga að styðja þessi morðóðu stjórnvöld.


Kommon, er þetta sanngjarnt? Er það sanngjarnt að kalla fólk "aðdáendur morðingja" ef það styður þjóð í frelsisbaráttu? Eða ætli til séu heimildir fyrir því að téð fólk hafi tekið afstöðu með illri meðferð á samkynhneigðum eða tekið afstöðu með hryðjuverkamönnum? Og "morðóðu stjórnvöld"?



Það er eitt sem ég tel ástæðu til að leggja áherslu á. Deilurnar í Palestínu eru hvorki fyrst og fremst átök milli Ísraelsstjórnar og Palestínsku heimastjórnarinnar, né milli ísraelsku þjóðarinnar og palestínsku þjóðarinnar. Það sem er á seyði er að Ísraelsstjórn herjar á palestínsku þjóðina. Ísraelsstjórn nýtur stuðnings Bandaríkjastjórnar og er að reka erinda valdastéttarinnar í Ísrael og Bandaríkjunum. Hinn almenni Ísraeli á ekki hagsmuna að gæta, að ísraelsk stjórnvöld herji á nágranna hans. Hinn almenni Ísraeli hefur hagsmuni af því að lifa í friði við nágranna sína, friði sem annars vegar stjórnvöld og hins vegar öfgafullir zíonistar leitast stöðugt við að spilla.

Á hinn bóginn er palestínska þjóðin, fátæk og undirokuð, tvístruð milli margra landa og að miklu leyti á vergangi. Hverjir eru bandamenn hennar? Í reyndinni á hún sér fáa virka bandamenn. Palestínska heimastjórnin hefur ekki staðið sig eins vel og hún ætti að gera við að reka erinda síns fólks -- fyrir utan að hún er ekki einu sinni fulltrúi allra Palestínumanna (flóttamenn eru undanskildir). PLO eru hins vegar kallaðir fulltrúar palestínsku þjóðarinnar sem slíkrar. Þeir sem eru raunverulegir vopnabræður Palestínumanna eru stéttarbræður þeirra um víða veröld. Næstum allir Palestínumenn teljast tvímælalaust til stéttar eignalausra vinnandi manna, eins og reyndar flestir aðrir arabar, eins og flestir Ísraelar og reyndar eins og langflest fólk í veröldinni.

Þannig að svona lítur dæmið út: Valdastétt Ísraels og Bandaríkjanna herjar á palestínsku þjóðina og þrengir að henni á alla lund. Á sama tíma líður ísraelskur almenningur einnig þjáningar: Skelfingu vegna árása herskárra Palestínumanna, tortryggni gagnvart nágrönnum sínum, bágt atvinnuástand, mannfórnir í formi fallinna hermanna og fleira. Palestínsku heimastjórninni ráða, sem stendur, menn sem reka erinda umbjóðenda sinna með minna harðfylgi en þeir ættu að gera, en hafa á hinn bóginn lítið svigrúm, enda í raun upp á náð og miskunn Ísraela og Bandaríkjamanna komnir og því í erfiðri stöðu. Fyrir utan það eru mjög margir Palestínumenn ekki búsettir á yfirráðasvæði Palestínsku heimastjórnarinnar og hún rekur því ekki erinda þeirra að nauðsynjalausu. Í umheiminum standa margar ríkisstjórnir með Bandaríkjastjórn og Ísraelsstjórn í þessum hernaði. Fæstar gera það opinberlega, en flestar gera það þó í raun. Ríkisstjórnir arabalandanna líka. Ef ekki beint, þá með aðgerðaleysi. Víðast hvar í veröldinni stendur almenningi ógn og skelfing af framferði Ísraelsstjórnar og þjáningum fórnarlamba hennar, en fær þó lítið aðhafst, ýmist vegna þess að hann skorti stéttarkennd, vegna þess að hann sé tvístraður, eða vegna þess að hann eigi sér ekki sjálfstæðan málsvara.



Friðjón R. Friðjónsson hallar réttu máli í grein sinni, hvort sem það er af yfirlögðu ráði eða ekki. Það er miður. Svo orð mín skiljist örugglega rétt vil ég taka þetta fram: Ég óska frelsis fyrir þjóðir Ísraels og Palestínu og annarra landa og þar sem fólk er kúgað eða þjáist, þá óska ég þess að kúguninni eða þjáningunni verði aflétt tafarlaust. Til að sú niðurstaða fáist þarf að skoða hlutina í samhengi, sjá hverjir eru í alvörunni fórnarlömb og hverjir eru í alvörunni sökudólgar og allt þar á milli.

Wednesday, January 5, 2005

Forsetakosningar palestínsku heimastjórnarinnar eru á sunnudaginn. Mahmoud Abbas (Abu Mazen) mun vinna þær, ég held það sé engin spurning. Hann ku vera með um 60% fylgi en Mustafa Barghouti tæp 30%. Ég, fyrir mitt leyti, held að það yrði mikið gæfuspor fyrir Palestínumenn að fá Mustafa Barghouti fyrir forseta. Marwan Barghouti, hinn fjarskyldi frændi hans, leiðtogi Tanzim-arms Fatah og pólítískur fangi í Ísrael, hefði kannski verið betri, en kannski verið of umdeildur. Mustafa Barghouti held ég hins vegar að hafi til að bera það sem palestínsku þjóðina vantar: Forystuhæfileika, lýðræðislegan hugsunarhátt, réttsýni, friðfýsi og óbilgirni. Ég held að hann gæti unnið mikil gæfuverk ef hann fengi umboð til þess. Ekki það, að hann hefur þegar unnið mikil gæfuverk með Palestínsku læknishjálparnefndunum, þar sem hann er formaður.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Talandi um Palestínumenn, þá þykir mér ástæða til að benda á þessa grein Snorra G. Bergssonar. Hún er um samúð sumra Íslendinga með málstað nasista og andúð þeirra á gyðingum. Greinin er býsna góð, og ég hvet fólk til að lesa hana. Meðal annars kemur fram í henni þessi ógeðfellda tilvitnun í Morgunblaðið, þar sem Valtýr Stefánsson ritar:

Oftast er málið sett þannig fram, að þeir, sem orðið hafa fyrir ,,grimdaræði nazistanna" sjeu dýrðlingar einir, sem ekkert hafi til saka unnið annað en það að vera af öðrum þjóðflokki en nazista-,,böðlarnir". Nú er það vitað að þýska þjóðin stendur í fremstu röð um mentun og alla menningu. Þess vegna verður Gyðingahatur þeirra mönnum algerlega óskiljanlegt, ef því er trúað að hinir ofsóttu hafi ekkert til saka unnið. Hjer er ekki tilætlunin að bera blak af þýskum stjórnvöldum hvorki fyrir meðferðina á Gyðingum nje á pólítískum andstæðingum sínum. En hafa þá Gyðingarnir í Þýskalandi ekkert unnið til saka?


Úff ...

Maður spyr sig stundum hvernig sé ástatt með múslima og Bandaríkjastjórn í dag.

Það mætti fylgja heimildaskrá með þessari grein, eða vísun á stað þar sem finna mætti heimildirnar.

Magnað



Í gluggakistu í herbergi mínu kom ég fyrir nokkrum döllum með mold, potaði þar niður nokkrum reyniberjum, fræjum að hvítri papriku, einhverjum kartöflum, nokkrum afleggjurum af trjám og fleiru. Paprikuplönturnar komu fljótt upp, sú fyrsta náði nokkurri stærð (ca. 6 cm hæð, 10 cm þvermáli) og hætti svo að vaxa, og þær allar. Ekki veit ég hvers vegna það var, en grunar að kuldinn eigi hlut að máli. Trjá-afleggjararnir hafa flestir brumað smávegis, þar af einn töluvert. Ég vona að mér takist að koma þeim á legg.

En um daginn skaut planta upp kollinum. Í fyrstu sýndist mér á laufunum að það væri kartöflugras, en brátt kom í ljós að svo er ekki. Asnalega sem það hljómar, þá veit ég ekki hvaða planta þetta er. Hún hefur vaxið með ógnarhraða. Er orðin næstum því 40 cm á hæð og eru ekki nema 8 dagar, að því er me´r telst til, síðan hún fyrst skaut upp kolli. Merkilegt kvikindi.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Eftir að nýja sjónvarpið kom hef ég horft aðeins á það. það hefur, m.ö.o., haft í för með sér tímasóun af minni hálfu. Ég sá t.d. sjónvarpsstöðina FOX í fyrsta sinn. Ég trúði því varla að það væri satt, að ein sjónvarpsstöð geti verið eins og FOX hafði verið lýst fyrir mér, en hún gat það nú samt. Svei mér þá, þvílíkt og annað eins.

Annar þáttur sem ég horfði á fyrir ekki svo löngu síðan er 70 mínútur. Gengur þessi þáttur ekki út á neitt annað en að selja litlum krökkum auglýsingar? Ekki spennir hann bogann hátt þegar fyndni, smekkvísi eða hæfileikar eru annars vegar, svo mikið er víst.

Ég held það sé kominn tími til að skrúfa aftur niður í sjónvarpinu, sem ég hafði tekið mér svo ánægjulega hvíld frá.
Hefur Abu Musab Al-Zarqawi verið handtekinn? Það er sagt í þessari frétt. Ekki veit ég það. Ég veit ekki einu sinni hvort hann er til í alvörunni.

Tuesday, January 4, 2005

Sjónvarpsraunir



Ég hugsa að það hafi verið 1986 eða 1987, að ég sat í sófa á efri hæðinni heima hjá mér, og var að horfa á sjónvarpið, sem stóð á borði og sneri að sófanum. Skyndilega ... án þess að nokkur mannlegur kraftur kæmi þar nálægt ... datt sjónvarpið fram fyrir sig, hlunkaðist í gólfið og var örent. Það sem verra var, það lenti ofan á uppáhalds He-Man-karlinum mínum, Man-At-Arms. Hann sakaði reyndar ekki. Í minningunni var borðið þannig á ganginum að það var í raun ekki gengt um hann. Þar sem ég var ekki nema 5 eða 6 ára þegar þetta var, þá hygg ég að einhver smáatriði hafi skolast til. En allavega var sjónvarpið ónýtt.

Farið var á stúfana og nýtt sjónvarp keypt, þetta líka glæsilega Luxor-tæki. Það var meira að segja hægt að fá fjarstýringu með því (sem við fengum okkur reyndar aldrei) og það var nýmóðins "tölvuheili" sem tók heila eilífð að ræsa sig eða stilla sig eða eitthvað. Það tók lengst þegar uppáhalds þátturinn manns var í þann mund að byrja. Í fyllingu tímans varð komist fyrir tæknilega örðugleika með þetta sjónvarp og það þjónaði tilgangi sínum eins og til var ætlast ... allt þar til nú í haust.

Myndin hafði lengi verið óskýr, stöðvarnar brenglaðar og horfnir nokkrir takkar af því, sem ónefndur heimilismaður braut af í brjálæðiskasti. Innviðirnir voru svo rykugir að eldhætta var líklega veruleg, í skraufþurru timburhúsinu. En það var allavega hægt að horfa á það. Þangað til í haust.

Nýja sjónvarpið gaf semsé upp öndina. Það var aðeins 17 eða 18 ára gamalt. Ágætis ending, býst ég við. Það kom karl á sendibíl og sótti það -- og rak upp stór augu. Luxor-tæki hafa víst ekki verið flutt til Íslands í ansi mörg ár. Kannski tuttugu.

Það var svosem ekki mikill asi á heimilismönnum að kaupa nýtt. Sjaldan horft á sjónvarp hér á bæ. Samt var það nú gert, í desember, en gamla gafst endanlega upp í september eða október.



Af hverju eru annars öll nýleg rafmagnstæki grá á litinn? Er það eitthvað flottara? Hvað ef ég kæri mig ekki um grá tæki? Hvað ef ég vil frekar svört?
Riziq Ziad Musleh, 17 ára Palestínumaður, var skotinn til bana af Ísraelsher, þegar hann var að hengja upp kosningaplaköt með mynd af dr. Mustafa Barghouti, forsetaframbjóðanda og lækni. Skotinn af mönnum Sharons, Sharons sem lofaði því hátíðlega að kosningum Palestínumanna yrði leyft að fara fram með eðlilegum hætti. Skyldi þetta vera hugmynd Sharons um "eðlilegan hátt"?



~~~~~~~~~~~~~~~~

Er ekki með ólíkindum hvað vér Íslendingar erum gleymnir? Man einhver eftir bófunum sem höfðu tugi milljarða af íslensku þjóðinni með verðsamráði um olíu? Eigum við ekki bara að láta þá sleppa? Jú ... þeir lofa að gera þetta ekki aftur.

Sunday, January 2, 2005

100.000 saklausir framsóknarmenn deyddir?



Hann Halldór Ásgrímsson getur talað fjálglega um að dauði tugþúsunda Íraqa sé nú ásættanlegur fórnarkostnaður og að 500.000 mannslíf eða fleiri, sem viðskiptabannið kostaði, hafi nú verið réttlætanlegt gjald fyrir að halda Saddam „kölska“ Hussein í skefjum svo hann legði nú ekki undir sig heiminn. Hvað eru 600.000 mannslíf milli vina? Flestir muna hvað Stalín á að hafa sagt um svona tölur. Ætli svipað verði ekki haft eftir Halldóri, nema með betri heimildir fyrir því? Tja, ég spyr mig.

Ég spyr mig. Hvað ef þetta hefðu ekki verið 600.000 írasqir borgarar?

Hvað ef þetta hefðu verið 600.000 framsóknarmenn, sem lífið hefði verið murkað úr með stórvirkum vinnuvélum?

Hefði Halldóri verið jafn sama um þjáningar, örkuml og dauða líklegra kjósenda sinna?

Ég spyr mig.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Ég vil annars taka ofan fyrir Hallgrími Helgasyni fyrir dúndurgrein í Fréttablaðinu. Reiðir sleggjuna hátt til höggs og lætur slögin dynja á brellublesum landsins.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Það er grein eftir mig á Vantrú í dag.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Merkileg grein um mann sem fer frá Líbanon til Íraqs að berjast gegn Bandaríkjamönnum. Veitir nokkra innsýn í hugarheim mannanna sem Bandaríkjastjórn brennimerkir sem "foreign fighters" ... áhugaverð lesning og umhugsunarefni.

Þegar ég las hana fattaði ég eitt sem ég hafði ekki fattað áður: Það eru töluverð líkindi, annars vegar með þessum mönnum sem koma frá öðrum löndum til að berjast í Íraq -- eða Afghanistan eða Checheníu, ef út í það er farið -- og, hins vegar, með Brigada Internacional sem barðist með her spænska lýðveldisins í borgarastyrjöldinni, gegn falangistum Francos og öxulveldanna. Her lýðveldissinna er almennt í hávegum hafður í minningunni, alþjóðleg sveit hugsjónamanna sem barðist fyrir þjóðfrelsi og lýðræði, en "foreign fighters" eru gerðir að einhvers konar óargadýrum í huga okkar í Íraqsstríðinu og reyndar í Afghanistan og Checheníu líka. Auðvitað er munur á þeim, en þeir eiga það þó sameiginlegt að standa í réttmætri baráttu gegn öflum afturhalds, heimsvaldastefnu og fasisma.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Lesið úttekt From the Wilderness á ástandi heimsmála og hvað er fyrirsjáanlegt á nýja árinu. Ágæt úttekt þar á ferð.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Hvað er næst á dagskrá eftir Íraq? Venezuela er einn af sennilegri möguleikunum. Í þessari grein er tekið undir það.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Ofstækismaðurinn Daniel Pipes styður fangabúðir fyrir suma þjóðfélagshópa. Hver veit, honum gæti orðið að ósk sinni á árinu.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Meira um bandaríska hægriöfgamenn.