Thursday, September 21, 2006

Um íslam II, taktík og strategía fyrir andstæðinga heimsvaldastefnunnar

Í allri umræðu um fjandskap milli Vesturlanda og heimshlutans sem gjarnan er kenndur við íslam, þá er ákveðin þversögn sem mér finnst sýra allt. Það er þversögnin um íslam. Sumir hafa illan bifur á íbúum heimshlutans sem gjarnan er kenndur við íslam og beina spjótum sínum m.a. að íslam og hvað íslam sé villimannleg trú. Á meðan eru hinir, sem hafa meiri samúð með íbúum nefnda heimshluta, sem ítrekað falla í þá gryfju að bera í bætifláka fyrir íslam. Er íslam aðaldeiluefnið?

NEI!

Í fyrsta lagi vil ég að það komi fram að íslam er í mínum augum jafn mikil staðleysa og önnur trúarbrögð og þar sem ég tel að trúarbrögð séu bjánaleg og komi illu til leiðar, þá er ég ekki minna á móti íslam en öðrum trúarbrögðum. Íslam er síst skárri en kristni, gyðingdómur, hindúismi, búddatrú eða aðrar ranghugmyndir sem milljónir manna hampa sem einhverju hrikalega merkilegu.

Það er stundum talað um að íslam séu trúarbrögð friðar og eitthvað slíkt. Það tel ég vera blaður. Kristni eru ekki trúarbrögð friðar heldur, svo það komi fram, þótt hún komist kannski ögn nær því en íslam. Það fer um mig þegar ég heyri fólk tala um hvað íslam séu falleg trúarbrögð. Ég hef séð fallega skreyttar moskur og fagurlega skrautskrifaða bænatexta – það er fallegt – en trúarbrögðin sem þetta snýst í kring um eru það ekki, að mínu hógværa mati. Sandkornið þarf ekki að vera fallegt þótt perlan sé það. "Love the sinner, hate the sin" segja krysslingar. Ég get verið á móti trúarbrögðum þótt mér þyki vænt um þann sem er svo óheppinn að aðhyllast þau. Geta trúarbrögðin verið aukaatriði þegar þau skipa stóran sess í ídentíteti fólk í átökum? Já og nei – sameiginlegt ídentítet skiptir vitanlega miklu í baráttu á borð við baráttuna gegn vestrænni heimsvaldastefnu. Íslam er að því leyti óheppilegt sameiningartákn, að í fyrsta lagi eru minnihlutahópar sem búa innan um múslima sem eru fyrir vikið ekki með í samfylkingunni, í í öðru lagi er erfitt að mynda bandalög við Vesturlandabúa sem hafa annars samúð með málstaðnum, ef íslam er sameiningargrundvöllurinn.

Það er mikið reynt að stilla Vesturlöndum og íslam upp sem andstæðum. Sú skipting er bull og vitleysa, afturhaldssöm og afvegaleiðandi. Hún er samt ekki alveg út í bláinn: Vesturlönd eru langstærsta og frekasta blokk heimsvaldasinnaðra ríkja, og olíuauðurinn er það sem helst er bitist um, en hann er, sem kunnugt er, að mjög miklu leyti á svæðum byggðum múslimum. Hinar sönnu andstæður fara hins vegareftir stéttalínum: Annars vegar er yfirstétt Vesturlanda og leppar hennar, yfirstétt arabalandanna og annarra landa sem verða fyrir barðinu á heimsvaldastefnunni. Hins vegar er vinnandi fólk, bæði á Vesturlöndum og í löndunum sem eru vitlausu megin við vestrænu heimsvaldastefnuna.

Yfirstéttirnar hafa vit á að standa saman. Stéttarvitundin liggur í augum uppi fyrir þeim. Hvar er hún hjá okkur sem stöndum á móti? Hún er til, en hún þarf að sækja ærlega í sig veðrið ef hún á að ná einhverjum árangri að heitið geti.Af taktískum ástæðum þykir mér það kolrangt að ráðast harkalega á íslam, eins og Jótlandspósturinn og páfinn hafa gert. Ég ítreka, af taktískum ástæðum. Sem slík eru trúarbrögð gagnrýni verð, sama hver eiga í hlut. En vegna þess að almenn séð sæta lönd, byggð múslimum, ásælni af hálfu ríkisstjórna landa sem eru ekki byggð múslimum, þá þykir mér rétt að beina skeytunum annað, gegn sameiginlegum andstæðingi. Með öðrum orðum: Vestræna heimsvaldastefnan er skotspónninn sem athyglin ætti að beinast að.

Misskiljið mig ekki, þetta er alls ekki einfalt. Pólitísk ítök múslimaklerka beina þjóðfrelsisbaráttunni í afturhaldssaman farveg. Lög sharía búa konum kröpp kjör. Það má spyrja hvaða mál sé brýnast, þjóðfrelsisbarátta, barátta fyrir sekúlar samfélagi, barátta fyrir kvenfrelsi eða barátta fyrir einhverju öðru. Baráttan sem ætti að vera efst á baugi að mínu mati er vitanlega barátta fyrir lýðræði og sósíalisma. Meðan hún er ekki á dagskrá þarf hins vegar að taka afstöðu til hinna málanna, þótt þau séu takmarkaðri að eigindlegu umfangi. Þar mundi ég setja baráttuna fyrir þjóðfrelsi í fyrsta sæti. Það er líka í henni sem við Vesturlandabúar getum lagt mest af mörkum með því að setja þrýsting á ríkisstjórnir hér heima fyrir.

Segjum að vinnandi stéttir landanna, sem gjarnan eru kennd við íslam, setji þjóðfrelsisbaráttuna á oddinn og vinni þá baráttu. Þegar ytri óvinum sleppir hljóta sjónir að beinast að innri óvinum. Þá leiðir af sjálfu sér að óréttlæti heima fyrir er næsta mál á dagskrá, hvort sem það er kvenfrelsi, sekúlarísering eða lýðræði og sósíalismi.

Að lokum vil ég ítreka að ef menn hafa á annað borð samúð með andófinu gegn heimsvaldasinnaðri ásælni Vesturveldanna, þá ættu menn ekki að falla í þá gryfju að láta umræuna snúast um íslam. Íslam er góður skotspónn fyrir vestræna afturhaldsseggi og slæmur málstaður fyrir framsækið þenkjandi Vesturlandabúa. Framsækið þenkjandi Vesturlandabúar ættu að beina umræðunni frá íslam og að heimsvaldastefnunni, stríðsrekstrinum, olíuhagsmununum og ruddaskapnum sem valdastéttin gerir sig seka um í Írak, Palestínu, Saúdi-Arabíu og öðrum löndum sem gjarnan eru kennd við íslam.

Þótt maður sé alfarið andvígur trúarbrögðum -- og materíalísk heimssýn sé kjölfesta í strategíunni -- þá er það sannkallaður dogmatismi að ríghalda svo í harða andúð að maður verði ósveigjanlegur og geti ekki hagað seglum eftir vindi. Við ættum, af taktískum ástæðum, ekki að beina spjótum okkar að íslam eða því sem heimamönnum er kært. Það er fólkið sem byggir umræddan heimshluta sem við ættum að samsama okkur við. Málstaður okkar ætti að vera réttindi þess – eins og okkar – til að lifa með frelsi og reisn.

Wednesday, September 20, 2006

Íran, Ungverjaland, íslam o.fl.

Ahmadinejad virðist hafa gert merka ferð til New York. Hvers vegna ættu Íranir ekki að rannsaka kjarnorku? Hafa Bandaríkjamenn ekki gert það? Bush endurtekur enn eina ferðina að Sýrland og Hezbollah séu leppar Írans. Hvað með það ef Hezbollah er leppur Írans? Er Ísrael ekki leppur Bandaríkjanna? Gilda ekki sömu reglurnar? (Auðvitað ekki: Þumalputtareglan er að sá sterkari má, sá veikari þarf að hlýða.)
Andskotans þvættingur. "Land mitt vill frið" segir Bush. Auðvitað, almenningur vill frið, og ráðamenn vilja að ÍRanir og aðrir sem eru óþekkir hætti þessu karpi og gefist upp án mótspyrnu. "Við viljum frekar diplómatíska lausn" segir Bush. Auðvitað, frekar að semja um skilyrðislausa uppgjöf heldur en að þurfa að knýja hana fram með vopnavaldi. Eftir situr að auðvitað vill Bandaríkjastjórn helst þau átök, þar sem hún hefur mest forskot.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Gyurcsany forsætisráðherra Ungverjalands hlýtur að vera eitthvað mesta fífl í forsætisráðherrastól í Evrópu, og er þó hörð samkeppni um þann eftirsótta titil. Maður skyldi ætla að (a) ef menn ætla að beita svikum og prettum til að ná sínu fram í pólitík, þá væru þeir nógu klókir til að láta ekki hafa neitt ftir sér og (b) ef menn verða uppvísir að lygum, hroka og öðru sem fólki finnst almenn neikvætt, þá ættu þeir að hætta strax, frekar en að snúa hnífnum í sárinu.
Það er ekki laust við að mér verði hugsað til fólksins sem ég þekki í Ungverjalandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er svei mér margt að ske í Thaílandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sem nýr nágranni Hallgrímskirkju tek ég undir umkvartanir Hnakkusar vegna óhljóðanna í klukkunum. Reyndar tek ég undir megnið af restinni líka. Ætli sé hægt að kæra Hallgrímskirkju fyrir hljóðmengun? Ég bý hálfan kílómetra frá, en samt er þetta mér til ama. Mikið hlýtur að vera gaman að búa nær.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í því samhengi rifjast annað upp. Ætli það hafi svo mikið sem einn einasti íslamski hryðjuverkamaður framið sjálfsmorðsárás til þess að komast til himna þar sem hans bíði herdeild af hreinum meyjum? Ég leyfi mér að efast um það. Það sem ég held að reki menn til herskárra verka, þar á meðal sjálfsmorðsárása, eru aðrar hvatir en handanheimagredda. Tal um himnaríki er bara myndlíking til að segja að guð kunni að meta það ef einhver fórnar sér fyrir málstaðinn. Er nokkuð óeðlilegt við slíka myndlíkingu? Ég meina, fyrirfinnst hún ekki í flestum trúarbrögðum? Og í hreyfingum um tiltekinn málstað, eru píslarvottar ekki hvarvetna lofaðir og dáðir? Dást menn ekki að heilögum Stefáni, sem leið píslarvætti fyrir sannfæringu sína? Dá menn ekki Giordano Bruno, Che Guevara eða Samson?

Það er gömul saga og ný að trúarbrögð og aðrir málstaðir umbuna fólki fyrir að vera reiðubúið að undirgangast píslarvætti, og mér finnst það vera evrósentrískt og hrokafullt viðhorf að gera múslimum upp frumstæðari hvatir en "okkar" mönnum sem eru í tölu píslarvotta.

Sjálfsmorðsárásir eða aðrar herskáar aðferðir eru svo allt annar handleggur. Ég er ekkert hrifinn af þeim, en þær eru ekkert verri heldur en loftárás. Munurinn liggur í því að sprengjuflugmaðurinn þarf ekki að horfast í augu við skotmörk sín og stofnar sjálfum sér ekki í mikla hættu. Að því leytinu er það ótrúlegur tvískinnungur að fordæma sjálfsmorðsárásarmenn en líta á sprengjuflugmenn sem eitthvað annað en morðingja, í besta falli firrt handbendi kaldrifjaðra stjórnmálamanna. Sheikh Ahmed Yassin, andlegur leiðtogi Hamas-samtakanna, sem var myrtur ekki alls fyrir löngu, orðaði það líklega best þegar hann sagði að sjálfsmorðssprengjan væri F-16 sprengjuþota fátæka mannsins. Það er ekkert flóknara en það.
En það er grundvallarmunur -- eðlismunur -- á ofbeldi kúgarans og ofbeldi sem hinn kúgaði grípur til í örvæntingu. Það er ekki hægt að setja samasemmerki milli þess að bandaríski eða ísraelski herinn drepi 10 manns, eða að palestínskir eða íraskir andspyrnumenn geri það. Það eru gerólíkar aðstæður sem etja manni út í ofbeldi, eftir því hvort menn eru að berjast fyrir hagsmunum elítunnar heima hjá sér, eða fyrir því að þjóð manns fái að ráða sér sjálf.

Meira um það á morgun.

Friday, September 15, 2006

„frændur okkar í heimskautsslöndunum unaðslegu“ -- frábærlega orðað. Ég vona að ég komist á þetta spjall um inúíta á mánudaginn.

Tuesday, September 12, 2006

Áfram um 9/11 og fleira

Jón Karl leggur orð í belg [1, 2] í athugasemdum við þarsíðustu færslu. Jón segist ekki hafa neina kenningu um 9/11. Sama segi ég. Ég hef efasemdir, en ég get ekki sagt að ég hafi neina kenningu. Hvaða forsendur hef ég svosem til að byggja kenningu á? Það eru ýmsar tilgátur um atburði þessa dags, og hin opinbera er ekki ein af þeim trúverðugri að mínu hógværa mati. Það sem ég get byggt á er hið pólitíska umhverfi fyrir og eftir 9/11 og það, saman við hvað bandarísk stjórnvöld eru lítið traustvekjandi, er mér meira en nóg til að efast um að atburðarásin hafi verið eins og fjölmiðlar lýsa henni.
Hvort það voru sprengjur eða ekki, hvort það fór flugvél í Pentagon eða ekki, ég veit ekki svarið. Það má vel ræða það fram og aftur, vonandi leiðir það að vitrænni niðurstöðu. Ég hef sjálfur sveiflast milli mögulegra svara -- og ég játa það fúslega -- en í rauninni eru þetta tæknilegir díteilar sem er ástæðulaust að telja að einhver spilaborg standi og falli með. Það sem er hins vegar hvorki tæknilegur díteill spekúlasjón er hið pólitíska umhverfi fyrir og eftir 9/11, þörfin sem bandarísk stjórnvöld höfðu fyrir átyllu til að skerða mannréttindi, auka valdstjórn og réttlæta árásarstríð. Það er aðalatriðið -- og þegar við bætist að Bandaríkjastjórn hefur augljóslega gerst sek um vítaverða yfirhylmingu (og það er engin „kenning“), þá sé ég ekki ástæðu til að trúa orði sem frá henni kemur um þetta mál.
Jón Karl segir enn fremur: „Það gengur heldur ekki að vera eilíft að nota skítkast á þá sem þykir skýringarnar eitthvað misjafnar. Ég er hundleiður á þessu "samsæriskenninga" bulli. ... Þeim sem líður betur geta sossum notað einhver fúkyrði yfir þá sem dirfast að efa hinn heilaga sannleik býst ég við.“ Ég tek undir þetta: Skítkast þjónar engu vitrænu. Ef frásögn af atburði er komin á helgistall af hálfu stjórnvalda, þá er ástæða til tortryggni. Og samsæriskenningatal?
Opinbera lýsingin er samsæriskenning, fjandinnhafiþað!
~~~ ~~~
„[Þ]að verður aldrei hægt að afsanna allar samsæriskenningar, því samsæriskenningar eru lífseigur andskoti.skrifaði Matti. Það er satt og rétt í sjálfu sér. Í því samhengi skiptir máli að greina milli þess sem má flokka undir samsæriskenningar og þess sem má ekki flokka undir samsæriskenningar. Beggja vegna „víglínunnar“ eru settar fram samsæriskenningar. Það sem er, að mínu mati, ekki hægt að flokka undir slíkt er (a) hið pólitíska umhverfi 9/11, (b) möguleiki innanbúðarmanna til að valda þessu, (c) ófyrirleitin notkun stjórnvalda á þessum hörmungum og (d) virk yfirhylming hins opinbera. Ef þetta fernt -- sem ég ítreka að ég leyfi mér að halda fram að sé satt -- vekur ekki tortryggni, hvað vekur manni þá tortryggni?
~~~ ~~~
Að lokum um 11. september, Jóhannes Björn skrifar um 11. september: Blikur á lofti.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég held að ég geti tekið undir það sem Hreinn Hjartahlýr skrifaði á dögunum: „Er hægt að vera stoltur af því að vera Íslendingur? Nei, ekki venjulega. Þó liggur það við stundum, til dæmis:
Íslendingar hafa fremur samúð með Hizbollah en Ísraelum“.
Þessi frétt kemur í sjálfu sér ekki svo á óvart. Í fljótu bragði gætu sumir ætlað að fólk, íslenskt og annað, væri almennt heimskt. Það er ekki svo. Ráðamenn gera hins vegar og segja margt miður skynsamlegt. Það er að vísu til ráð við því. Það ráð kallast lýðræði. Fólk, íslenskt og annað, hefði gott af því að búa við aðeins meira af slíku.

Wednesday, September 6, 2006

Umræða um 11. september

Áframhald af umræðum í kommentakerfi um 11. september:
Ég vildi að það væru gerðar meiri rannsóknir og það sem fyrst, og af óháðum aðiljum. Það væri mikill léttir fyrir alla ef það gæti einfaldlega komið í ljós hvað akkúrat gerðist þennan dag, og í aðdraganda hans, og það gæti sparað mikinn debatt og orku. Það er nú eitt í sjálfu sér, að það skuli ekki vera höggvið á hnútinn. Ef bandarísk stjórnvöld væru saklaus í þessu máli, hvers vegna hafa þau þá ekki rannsakað það betur? Hvers vegna í ósköpunum hafa þau tregðast við í stað þess að sinna þessu betur? Er skrítið að maður spyrji sig hvort þau hafi eitthvað að fela? Þegar við bætist að opinbera sagan meikar ekki sens, er það þá skrítið?
Bruni, jafnvel langvarandi bruni, hefur aldrei, svo ég viti fellt stálgrindarháhýsi. Misskiljið mig ekki: Að teknu tilliti til þess að brunavarnarlag á stálbitum hefur væntanlega kubbast burtu í árekstrinum, og að teknu tilliti til þess að þótt hitinn af eldinum gæti kannski dugað til að veikja burðarstálið nægilega til að fella háhýsin sem flugvélarnar fóru á, þá treysti ég mér ekki til að fullyrða neitt um að sprengiefni hljóti að hafa komið við sögu þar. Mín afstaða gagnvart þeirri spurningu er einfaldlega sú að mér finnst allt í lagi að umræðan fari fram, ef það er eitthvað sem á eftir að draga fram í dagsljósið.
Sprengiefni í WTC7, um það held ég að gegni öðru máli. Aftur, þá treysti ég mér ekki til að fullyrða neitt; þetta eru spekúlasjónir. Það fór engin flugvél í WTC7, þannig að þar hefur einangrunin haldist á burðarvirkinu, býst ég við. Það er varla það flókið að koma sprengiefni þannig fyrir að það sé öruggt fyrir bruna, ef maður á annað borð ætlar sér það. Larry Silverstein sagði að þeir hefðu ákveðið að "pull it". Það var gripið á lofti sem demolition-mál, en mér finnst reyndar glannalegt að fullyrða að það tengist endilega. Ég veit ekki til þess að Silverstein sé neitt sérstaklega vel að sér um niðurrif húsa, og þetta orðalag væri ekki svo skrítið ef maður hugsar um að kalla slökkviliðsmennina út úr byggingunni -- en það voru víst engir slökkviliðsmenn í henni þannig að varla hefur hann átt við það. Nú, við hvað átti hann þá? Þetta viðtal var tekið nokkru eftir árásirnar. Það getur verið að hann hafi verið undir álagi, en eitthvað hlýtur hann að hafa átt við með orðum sínum.
Valdinu er ekki treystandi, ég held að það þurfi ekki að fletta mörgum blöðum um það, en er öðrum betur treystandi? Fyrir mitt leyti, þá treysti ég engum eins og einhverju kennivaldi í þessu máli, en spurningar sem eru settar fram hafa gildi í sjálfu sér. Það á ekki að skipta máli hver spyr spurningarinnar, annað hvort er spurningin góð eða ekki.

Saturday, September 2, 2006

Eitt og annað...

Initiatives de Resistance Internationaliste eru herskár, and-heimsvaldasinnaður hópur í Kanada. Hann hefur gert a.m.k. tvær árásir gegn hagsmunum heimsvaldasinna. Umfjöllun um þennan hóp í fjölmiðlum hefur verið næstum því engin. Kersplebedeb segir frá þeim.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Wayne Price skrifar: Lessons of the Israeli-Lebanese War for the Anarchist Movement. Ágæt lesning, þótt sumar örvarnar hitti ekki í skotskífuna. Price segir að þjóðir séu ekki til, hann talar um marxista, lenínista og sósíalista af vandlætingu og segir að „leið anarkismans“ (hvað sem það nú er) sé eina leiðin til friðar og gæfu í Miðausturlöndum. Það kemur svosem ekki á óvart, að anarkisti skuli skrifa það. Samt sem áður, þá hef ég alveg lesið vitlausari greinar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þar sem heimsvaldasinnar eða nýlenduherrar takast á við þjóðfrelsishreyfingar sem eru leiddar af hugmyndafræðilegu afturhaldi á borð við þjóðernissinna eða trúarleiðtoga, hvað á þá hinn góði og framsýni kommi til bragðs að taka? Ber að styðja forystu hinnar kúguðu þjóðar, burtséð frá hugmyndafræði hennar? Eða ber að andæfa öllu afturhaldi, sama hvort það er relatíft afturhald eða ekki? Eða ber að einblína á að stofna framsækna alþjóðasinnaða og verkalýðssinnaða frelsishreyfingu? Sá sem getur svarað þessu svo vel sé fær hlýtt handtak að launum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef verið að hlusta mikið á Johnny Cash undanfarið. Það er kynngimagnað að hlusta á tónleikadiskinn frá San Quentin-fangelsinu. Risastór hópur fanga -- kúgaðra manna sem eru sviptir öllu -- verður svo innblásinn og „empowered“ af að hlusta á tónlist þessa mikilmennis, að hann hefði getað startað óeirðum með því að smella fingri. Hann gerði það ekki, en stemmningin ... andrúmsloftið hefur verið gneistandi.