Thursday, December 9, 2010
Wikileaks og hótanir
Óþarfur fornleifauppgröftur í Vonarstræti 12
Þegar Skúli Thoroddsen sýslumaður ákvað að byggja húsið, sem til skamms tíma stóð að Vonarstræti 12, þá keypti hann fyrst lóðina af langalangafa mínum, Indriða Einarssyni, sem bjó í Tjarnargötu 3c, við hliðina. Það hús hefur líka verið flutt, og stendur í dag á horni Garðastrætis og Grjótagötu (sunnanmegin).
Ég man ekki með vissu hvar ég heyrði það, en einhver sagði mér hvernig lóðin Vonarstæti 12 varð til. Já, varð til. Þarna er mér sagt að hafi verið dálítil vík norður úr Reykjavíkurtjörn frameftir nítjándu öld. Indriði langalangafi hafi svo haft það fyrir sið að aka einum hjólbörum af mold í víkina á hverjum degi, sér til heilsubótar. Og þegar víkin var á endanum orðin full af jarðvegi, þá seldi hann Skúla hana og Skúli byggði húsið.
Þannig að ég spái því að það finnist ekki annað í húsgrunninum en jarðvegurinn sem Indriði ók í hann, og þar undir gamall tjarnarbotn.
En það er kannski best að maður fullyrði sem minnst út frá munnmælasögum.
Monday, December 6, 2010
Verð á gulli, og góðum og vondum pennum
-- -- -- --
Ég fór í dag í Eymundsson og Mál og menningu til að leita mér að sæmilega góðum skriffærum. Nánar tiltekið var ég að leita að einnota svörtu kúlutússi með hæfilega miklu blekflæði til þess að strikið gráni hvorki, né það komi klessur. Í hvorri búð fann ég eina gerð af pennum sem mér fannst passa mér, þótt úrvalið sé mikið á báðum stöðum. Í Eymundsson kostuðu sumir af þessum pennum -- ég er að tala um einnota penna -- vel á annað þúsund, en voru samt ekki nógu góðir. Sá sem ég var ánægðastur með í Eymundsson kostaði undir 150 kr. stykkið. Kræst, hvað vandlátur pennakaupandi þarf að hafa fyrir því að finna almennilega penna.
Sunday, December 5, 2010
Vísa um ólíkan kvikmyndasmekk
Ef Rósa um myndir þenkir, þá
þung mín heyrist stuna:
Horfa vil ég aðeins á
Apaplánetuna.
Saturday, December 4, 2010
Landspítali: 40 ára gömul tæki
Wednesday, December 1, 2010
Kjarasamningar lausir frá og með deginum í dag
Launagreiðendur, hvort sem það eru ríkið, sveitarfélögin eða Samtök atvinnulífsins, segja nú eins og alltaf að ekki sé hægt að hækka laun. Gott ef kjarabætur mundu ekki bara setja allt á annan endann. Auk þess vilja launagreiðendur gera langan samning -- þriggja ára, minnir mig að SA hafi sagt. Ég yrði hissa ef nokkur einasti maður yrði raunverulega ánægður með samningana sem munu á endanum koma út úr þessu. Ég yrði þó enn meira hissa ef almennt launafólk tæki upp á því að fara að taka þátt, sem þó er forsenda fyrir öllum sigrum verkalýðsins.
Monday, November 29, 2010
Dræm kosningaþátttaka
Þvílíkt bull. Ég hygg að núgildandi stjórnarskrá eigi sér ekki svo marga aðdáendur. Hins vegar held ég að dræm kosningaþátttaka skýrist einfaldlega af því að fólk búist ekki við svo góðum árangri af stjórnlagaþinginu að því finnist margra klukkutíma undirbúningsvinna borga sig. Nú undirbjó ég mig vel sjálfur, og kaus, en hins vegar eru væntingar mínar til þingsins afar jarðbundnar. Það var reyndar þess vegna sem ég ákvað að bjóða mig ekki fram sjálfur.
Það er ekki stjórnarskráin sem segir til um hvernig þjóðfélagið er rekið og ég held að flestir átti sig ágætlega á því. Það eru nefnilega til mörg dæmi um lönd þar sem góð stjórnarskrá hefur ekki komið í veg fyrir alvarlega misbresti í stjórnarfari. Það má nefna Bandaríkin, Indland og Sovétríkin sem dæmi.
Lóðið er nefnilega að góðar stjórnarskrár valda ekki sjálfar breytingum, heldur festa þær í sessi eftir að þær eru þegar orðnar, oft í byltingu.
Slíka stjórnarskrá fyrir Ísland hlakka ég til að sjá, en ég býst ekki við henni út úr stjórnlagaþinginu, hvernig svo sem það verður mannað.
Áttatíu ár frá stofnun Kommúnistaflokks Íslands
Allir velkomnir!
Að auki er grein eftir sjálfan mig á Egginni í dag: Áttatíu ár frá stofnun Kommúnistaflokks Íslands
Thursday, November 4, 2010
Ríkisstjórn Frakka völt vegna andófs
Wednesday, November 3, 2010
Happadagur
Friday, October 15, 2010
Grein og ræða
Wednesday, October 13, 2010
Tuesday, October 12, 2010
Friday, October 8, 2010
Ópólitíska byltingin
Þessar klisjulegu alhæfingar eru samt ekki bara bjánalega, heldur eru þær líka hættulegar. Man einhver hver sagði "lýðræðið er rotnandi hræ"? Það var Mússólíní. Sá gat sko stjórnað, stétt með stétt, án "kjaftakvarna þingræðisins", af festu og einurð og ég veit ekki hvað. Fasisma á ekki að nota sem stuð-orð til að gagnrýna stöðumælavörðin sem sektar mann. Fasismi er raunverulegt fyrirbæri. Þeir sem horfa eftir trampandi stígvélum, örvakrossum eða mönnum með einglyrni munu ekki sjá fasismann, en þeir sem leita að stéttareðli hans eða pólitísku hlutverki -- þeir eru fljótir að sjá hann, svamlandi rétt undir yfirborðinu, bíðandi færis til að rísa upp og koma á röð og reglu.
Fasismi er misskilinn og hefur að sumu leyti fengið óverðskuldaða umfjöllun. Ef menn sjá fyrir sér svart-hvítar biðraðir af fólki í fangabúningum eða brúnstakka að smalla rúðum hjá skartgripasölum eða veðlánurum, þá er þetta ekki eitthvað sem "venjulegur" almenningur þarf að óttast. Fangabúðirnar og ofsóknirnar voru ekki ætlaðar millistéttinni, "venjulegu" fólki sem vinnur bara vinnuna sína, borgar bara skuldirnar sínar og kýs bara Flokkinn. Nei, þær voru í fyrsta lagi ætlaðar andófsöflunum og í öðru lagi óvinsælum minnihlutahópum. Óvinum fólksins, með öðrum orðum. Fólki sem skar sig úr.
Ólafur Þ. Stephensen nefndi það í leiðara í gær eða fyrradag, að það væri óhætt að loka eyrunum fyrir kröfum öfgaaflanna -- anarkistanna, kommúnistanna og nasistanna. Nú er ég reyndar vanur að loka eyrunum fyrir kröfum Ólafs Þ. Stephensens, en þarna birtist ljóslifandi tilraun hægriaflanna til að (a) spyrða róttæklinga saman við mannhatara, (b) nota öfga-samanburðinn til að afskrifa skoðanir anarkista og kommúnista og (c) gefa til kynna að "venjulegt fólk" hafi ekkert að gera í slagtogi við svona lið, eins og þessa nasista og þessa anarkista og svoleiðis.
Látum það liggja milli hluta að það eru anarkistar og vinstri-róttæklingar sem hafa öðrum fremur haldið fasistum í skefjum, allt frá upphafi og fram á þennan dag. Látum það líka liggja milli hluta að það voru anarkistarnir sem héldu við hefð and-fasismans á mánudaginn með því að brenna einn nasistafánann. Látum það líka liggja milli hluta þótt kröfur nasista séu hunsaðar eins og þær eiga að vera.
Það er ámælisvert af Ólafi að ætla að þagga róttæklinga niður með því að gefa í skyn að það sé ekki svo mikill munur á þeim og nasistunum. Sýnu verra er það þó sem margir aðrir gera, að taka undir þá skoðun með fasistunum, að "allir stjórnmálamenn séu eins" eða að eitthvað ópólitískt kjaftæði sé eina leiðin. Það er bara bull, hættulegt bull, og það er með hættulegu bulli af þessu tagi, sem leiðin til raunverulegs fasisma er vörðuð.

Það er hættulegt að útbreiða þá hugsun að vilja enga pólitík, bara stétt með stétt, og engar þingræðiskjaftakvarnir heldur bara röggsemi og festu. Má ég þá heldur biðja um krata sem vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.
Thursday, October 7, 2010
Þorum að berjast og þorum að sigra
--- --- --- ---
Mótmælin núna eru ekkert grín. Þau eru sprottin af réttlátri reiði, sárum vonbrigðum og örvæntingu. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið undir væntingum. Annað hvort vegna getuleysis eða viljaleysis. Það er svo sem ekki við öðru að búast af höfuðstoð auðvaldsins, krötum.
Það er ábyrgðarhlutur að kenna sig við vinstri. Í þeim málum, sem mestu skipta fyrir fólkið hér og nú, hefur ríkisstjórninni mistekist vegna þess að hún hefur hegðað sér til hægri: Stutt við hagsmuni auðvaldsins en látið alþýðuna hafa reikninginn. Mér er sama þótt einróma hægrisinnaður kór íslenskra fjölmiðla kalli þennan óskapnað „vinstristjórn“, og þótt stjórnin sjálf taki undir það – verkið lofar meistarann og það á að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms er hægristjórn með vinstrigrímu. Það er meinið.
Það blasir ekkert heppilegra stjórnarmynstur við að óbreyttu. Alþingi mun ekki geta hrist fram aðra ríkisstjórn, nema þá ennþá hægrisinnaðri. Það yrði ennþá verra, þrátt fyrir allt. Þannig að þetta er ekkert spurning um að Bjarni Ben fái bara næst tækifæri til að spreyta sig. Hann gæti rétt reynt það og séð hvort mótmælin mundu ekki hætta.
Í búsáhaldabyltingunni voru valkostirnir skýrari. Þá var hægt að krefjast þess að þáverandi ríkisstjórn færi einfaldlega frá, og vinstriflokkarnir svokölluðu gætu þá fengið tækifæri til að reyna að leysa málin. Nú hafa þeir fengið það, og sýnt hvers þeir eru ekki megnugir. Já, eða ekki viljugir, nema hvort tveggja sé. Vera má að það hlakki í einhverjum, en ekki mér. Ég gnísti tönnum.
Vandamál okkar stafa af kapítalismanum og innan ramma hans er engin lausn til, sem almenningur getur sætt sig við. Auðvaldið er komið í blindgötu og annað hvort verðum við með auðvaldinu í blindgötunni, eða við segjum skilið við það og höldum okkar leið án þess. Ég er að tala um að gera byltingu og að byggja upp sósíalískt þjóðskipulag. Það er eina leiðin til þess að laga það sem laga þarf í þessu þjóðfélagi.
Fólk gerir ekki byltingar nema þegar öll önnur sund eru lokuð. Núverandi ríkisstjórn er óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því að sósíalísk bylting geti komist á dagskrá. Það er að segja, sósíalismi verður ekki valkostur fyrr en fólk sér með eigin reynslu að kratisminn er villuljós. Vandinn liggur í því að greina hismið frá kjarnanum. Ef fólk setur samasemmerki milli núverandi ríkisstjórnar og sósíalisma, þá er hægrisveifla því miður rökrétt antitesa við mistökum hennar. Ef það verður bylting í miðri hægrisveiflu, þá er voðinn vís. Þá er sjálfsprottin óreiða skárri.
Hlutverk sósíalista í dag er það sama og alltaf, að segja sannleikann um ástandið, um horfurnar, vandamálin og lausnirnar. Okkur er ærið verk á höndum. Ég veit ekki hvaða framhald verður á mótmælunum á Austurvelli í þessari viku, en ég veit að það sér ekki fyrir endann á spennunni í þjóðfélaginu. Ég veit líka að friðurinn í landinu er ekki öruggur.
Nú þurfa sósíalistar að fylkja liði sem aldrei fyrr. Við þurfum að passa okkur á keldum tækifærisstefnu, einangrunarstefnu og stéttasamvinnustefnu. Við megum ekki láta spyrða okkur saman við krata eða lýðskrumara. Við þurfum að setja sjálfan sósíalismann á dagskrá og berjast fyrir honum þangað til við sigrum. Þorum að berjast og þorum að sigra.
Wednesday, October 6, 2010
Lækjartorg klukkan 17 í dag
Tuesday, October 5, 2010
Ríkið í sinni hreinustu mynd
Í fyrsta lagi: Viðbúnaður af þessu tagi -- að verja ráðamenn og ráðastétt, með valdi ef til þarf -- þetta er sjálfur kjarninn í eðli og hlutverki ríkisvaldsins. Þetta er það síðasta sem ríkið neitar sér um vegna kostnaðar. Þannig að ég get hughreyst Geir Jón, ef hann les þetta, og ef það er hægt að kalla það hughreystingu, með því að það verða alltaf til fjárveitingar til þess að halda úti þeirri valdstjórn sem þarf og/eða er hægt, þegar ólga er í þjóðfélaginu. Á meðan það er á annað borð starfandi ríkisvald á Íslandi, þá verða til fjárveitingar.
Í öðru lagi: Löggan tefldi í gær fram hér um bil öllu sem hún á, þykist ég vita. Sjálf valdbeitingin var kannski tiltölulega lítil miðað við aðstæður, en miðað við hvernig allt leit út, þá hefði verið í hæsta máta óábyrgt af löggunni að hafa ekki viðbúnaðinn á hæsta plani. Ég reikna með að það hafi ekki margir lögreglumenn setið heima og horft á spólu í gærkvöldi.
Það leiðir hugann að því, hvert raunverulegt vald löggunnar hérna er. Það eru ekki til nema nokkur hundruð löggur í landinu. Og enginn her. Það þyrfti ekki mikið skipulag til þess að koma á óöld sem væri ekki séns fyrir lögguna að ráða við. Ég meina, hvað eru mörg möguleg skotmörk í miðbænum, fyrir herskáa stjórnarandstæðinga?
Friðurinn í landinu er tæpur og fer eftir fólkinu sjálfu og engum öðrum. Það segir manni aftur að ríkisstjórnin getur ekki hunsað kröfur fólksins ef það er komið út í horn. Þannig að það er beinlínis hættulegt fyrir ríkisstjórnina -- ég meina sjálft fólkið í henni -- að hunsa svona mótmæli. Annars á einhver eftir að meiða sig alvarlega.
Örlög nasistafánans á Austurvelli
Monday, October 4, 2010
Stjórnarskipti? Kosningar?
Saturday, October 2, 2010
Þykjustusakleysingjar
"Geir Jón segist ekki skilja tilgang svona mótmæla." (RÚV)
Right. Ætli Geir Jón sé svo grænn að hann skilji ekki tilgang mótmælanna á Austurvelli?
Friday, October 1, 2010
Skríll á Austurvelli?
Ekki vegna þess að skríll sé ekki til. Heldur ekki vegna þess að skrílslæti hafi aldrei sést í mótmælum. Heldur vegna hræsninnar. Vegna þess hvað þessum upphöfnu meinleysingjum finnst sjálfsagt að kalla meðbræður sína skríl. Að dæma fjöldann á einu bretti, afskrifa þar með það sem fólki gengur til og vera kominn með skálkaskjól til að geta setið áfram heima hjá sér í sjálfumglöðu yfirlæti og með góða samvisku, þótt þjóðfélagið sé á heljarþröm.
Thursday, September 30, 2010
Öfga hvað?
Er Sóley Tómasdóttir öfga-femínisti á sama hátt og Steingrímur J. Sigfússon er öfga-sósíalisti? Nei, nefnilega ekki. Margt hefur verið sagt um Sóleyju, og meðal annars oft af ósanngirni, en ég hef aldrei heyrt neinn efast um að hún sé sannur femínisti. Steingrímur hefur hins vegar "ekki kosið að orða það þannig" að hann sé sósíalisti, og hann hefur heldur ekki kosið að hegða sér þannig eftir að hann komst til valda. Þess vegna skýtur það skökku við að kalla hann öfga-sósíalista, og femínisma Sóleyjar er enginn greiði gerður með því að líkja honum við sósíalisma Steingríms.
Þá ætti það að vera komið á hreint.
Wednesday, September 29, 2010
Burt með draslið!
Í alvöru talað: Ef þetta sendiráð álítur sjálft sig vera skotmark hryðjuverkamanna, þá er fáránlegt að það skuli vera inni í miðju íbúðahverfi. Er það að reyna að skýla sér á bak við óbreytta borgara, eða hvað?
Af aðalfundi VG í Reykjavík
Heiður og sök foringjans
Annað: Segjum að Vinstri-græn, en ekki Sjálfstæðisflokkurinn, hefðu verið í hrunstjórninni ásamt Samfylkingu og allt hefði farið eins og það fór. Ætli Sjálfstæðismenn hefðu allir sem einn greitt atkvæði gegn því að ákæra Steingrím J. Sigfússon? Ætli það.
Tuesday, September 28, 2010
Fífl og asnar á Alþingi
Gull sprengir skalann
Aðalfundur VGR
Að gefnu tilefni: Norður-Kórea
Monday, September 27, 2010
Könnun Fréttablaðsins og mín túlkun
Það þarf nú ekki prófessor í stjórnmálafræði til að fatta þetta, ég hélt að þetta vissu allir.
Í borgarstjórnarkosningunum í vor rústaði Besti flokkurinn öllum hinum flokkunum. Hann var hannaður til þess að gera það og þeir voru (augljóslega) ekki hannaðir til að standast svona áhlaup. Sigur Besta var (augljóslega) öskur kjósenda á breytingar.
Það skal enginn halda því fram að vond frammistaða Vinstri-grænna í ríkisstjórn hafi ekki spillt fyrir flokknum í þessum kosningum. Fólk sem kaus VG í síðustu þingkosningum, og varð svo fyrir vonbrigðum með frammistöðuna, sneri eðlilega margt hvert baki við flokknum í næstu kosningum. Og mun gera það áfram. Þetta fólk kvarnast vinstra megin út úr flokknum og út úr fylginu.
Mín túlkun er einföld: Íslendingar eru í hrönnum að gefast upp á borgaralegum stjórnmálum. Hér höfum við ákveðin mál sem er einfaldlega ekki hægt að leysa nema til komi almennileg pólitísk forysta sem þorir að leggja í fjármálaauðvaldið. Slíkri forystu held ég að margir væru tilbúnir til að fylgja og hún gæti valdið straumhvörfum í íslenskum stjórnmálum.
Og meira en það: Hún gæti valdið byltingu í íslenskum stjórnmálum. Og bylting er einmitt það sem þetta land þarfnast. Sósíalísk bylting.
Hinn gríski Gylfi
Stéttarfélög á almennum vinnumarkaði í Grikklandi ætla ekki að taka þátt í aðgerðum með opinberum starfsmönnum þann 7.október til að mótmæla efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar.Það mætti halda að hinn týndi tvíburabróðir Gylfa Arnbjörnssonar sé forseti ASÍ í Grikklandi. Ákveðið en kurteislega orðuð bréf geta mögulega haft áhrif á einhverja stjórnmálamenn, en öfugt við þau eru verkföll ekki bara tjáningarmáti heldur líka baráttuaðferð. Munurinn er deginum ljósari, nema í augum örgustu krata. Það sér hver sem vill sjá, að ef verkföllin hafa ekki skilað tilætluðum árangri ennþá, þá hafa þau ekki verið nógu sterk. Hvað er svarið við því? Draga úr þeim? Það er ýmislegt sem er ólíkt í Grikklandi og á Íslandi, en þarna er að minnsta kosti eitt sem við eigum sameiginlegt: Handónýt forysta á almenna vinnumarkaðnum.Talsmaður félaganna segir að þrátt fyrir að þau hafi staðið fyrir margs konar aðgerðum til að sýna andstöðu sína í verki, hafi eigi að síður verið farið að fyrirmælum Evrópusambandsins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í efnahagsmálum. Frekari verkföll skili því líklega engum árangri og óljóst sé hvers konar aðgerðir gegn stjórnvöldum geti skilað árangri.
Sunday, September 26, 2010
Enginn marxisti
Thursday, September 23, 2010
Grjót og byssukúlur
RÚV greinir frá, leturbreytingar mínar:
Fyrr í dag skaut ísraelskur öryggisvörður Palestínumann til bana í Austur-Jerúsalem. Maðurinn var í hópi palestínskra mótmælenda sem tókst á við bókstafstrúarmenn við landtökubyggð gyðinga. Öryggisvörðurinn segist hafa skotið af því að Palestínumaðurinn hafi kastað steinum í bíl hans.
"Save As: Love"
Tuesday, September 21, 2010
Landsdómur
Monday, September 20, 2010
Nímenningar
Gleraugnagreining á hruninu
Ég vil þá, til samanburðar, í leiðinni leggja til að efnahagshrunið verði líka skoðað með stéttagleraugum. Kannski að þá kæmi líka eitthvað áhugavert í ljós? Ætli það geti t.d. verið, sem marga grunar, að kapítalistar hafi verið í meirihluta þess fólks sem sigldi hagkerfinu í strand? Það væri gaman að vita það.
Ef það á að breyta einhverju hérna, læra af reynslunni og byrgja brunninn, hvort ætli sé þá gagnlegra að skoða gerendur hrunsins sem karla eða sem kapítalista? Hvort ætli sé betra til að glöggva okkur á hruninu, kynhormón eða hagfræði?
Friday, September 17, 2010
Biskupinn í Fréttablaðinu í dag
Landsdómur: Erfitt fyrir alla?
Wednesday, September 15, 2010
Réttarríkið Ísland
Tuesday, September 14, 2010
Sleppið Björgvini
Friday, September 10, 2010
Hreinsunin mikla
Thursday, September 9, 2010
Random heiður
Best of both worlds
Thursday, July 29, 2010
Egill: „Samsæri útlendinga“
Það er svo laukrétt sem hann segir, að bankamennirnir og sægreifarnir sem settu Ísland á hausinn eru upp til hópa alíslenskir. Hvaða lærdóm má draga af því? Að íslenskt auðvald sé varasamt en erlent auðvald sé aufúsugestur? Ég hefði haldið að auðvaldið sem slíkt væri frekar varasamt og það sé ekki aðalatriði hvaða ríkisfang það hefur. En Egill er að eigin sögn ekki-marxisti þannig hann það má ganga út frá því að hann skilji ekki stéttabaráttuna og sé fyrirmunað að skilja að stéttaskipting gengur þvert á þjóðernislínur og ríki. Hann sér þetta bara í Íslendingum og útlendingum og finnst hjákátlegt að einhver óttist fjárfesta bara vegna þess að þeir séu útlendingar. Og þetta er mest metni fjölmiðlamaður Íslands. En hughreystandi.
Wednesday, July 28, 2010
Hvað er það sem Ásgeir skilur ekki?
Hvers vegna voru kaupin ekki stöðvuð fyrr? Ja, annars vegar finnst Samfylkingunni bara frábært að erlent auðvald kaupi upp auðlindir landsins. Hins vegar er ekki hægt að keppa við kúlulán eins og Magma fékk. Ef það er í lagi að borga bara seinna, þá getur Magma boðið hvað sem er. Ef fjárfestingin skilar arði, þá er hann (kannski) notaður til að borga en ef hún skilar ekki tilskildum arði, þá lýsir fyrirtækið sig bara gjaldþrota og Ross Beaty og Ásgeir Margeirsson dansa áhyggjulausir í burtu og snúa sér að öðrum fjárfestingum. Ég er hræddur um að ríkið ætti erfitt með að leika það eftir.
Skjalaleki og mannslíf í hættu
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um hernað og Afganistan: Mogginn birti á sunnudaginn eitt af þessum reglulegu viðtölum sínum við "íslenska hermanninn" -- í þetta skipti strák í danska lífverðinum, sem hefur verið að berjast í Írak og Afganistan. Það er best að halda tvennu til haga: (1) Ekkert persónulegt, en þótt hann sé Íslendingur, þá er hann jafn réttdræpur í Afganistan, og jafn réttmætt skotmark fyrir andspyrnuna eins og hver annar böðull heimsvaldastefnunnar; (2) Það er siðlaust að setja hermennsku fram sem eðlilegt starf eða eðlilegan lífsstíl. Það er ekki eðlilegt starf eða lífsstíll að fást við það að drepa fólk, sama þótt það sé réttlætt með því að þetta sé jú vont, brúnt fólk og eigi bara skilið að vera drepið.
Tuesday, July 27, 2010
Opið veiðileyfi á Norður-Kóreu
En ég ætla samt að leyfa mér að gagnrýna. Ekki vegna þess að ég trúi því að norður-kóresk stjórnvöld séu æðisleg, heldur vegna þess að þau njóta ekki sannmælis -- eða, réttara sagt, það er römm slagsíða á fjölmiðlaumræðunni. Hér eru tvær staðreyndir sem aldrei má gleyma þegar menn hugsa um Kóreu: (1) Norður-Kórea er höfuðsetin af umsvifamesta heimsvaldaríki sögunnar, sem hefur tugþúsundir hermanna og vígvéla við suður-landamærin. (2) Það er auðvelt fyrir okkur Vesturlandabúa að gleyma Kóreustríðinu, en fyrir Kóreumenn er það allt annað en auðvelt.
Ætli Norður-Kórea sé svona hervædd vegna þess að geðbiluðum einræðisherra finnist bara svona gaman að horfa á hersýningar? Ætli það. Það er ekkert grín fyrir lítið land að halda heimsvaldastefnu og hernaðarmætti Bandaríkjanna í skefjum.
Þegar verða átök eða skærur í kring um Kóreu, þá er alltaf sjálfgefið að Norður-Kórea eigi upptökin. Af hverju er það svona sjálfsagt? Er ekki augljóst að Norður-Kórea hefur enga hagsmuni af nýju stríði? Er ekki augljóst að kokhreysti erlendra talsmanna hennar er til þess ætluð, að hræða andstæðingana frá því að ráðast á þá? Hvers vegna er orðræðan þannig að á Vesturlöndum séu það "öryggis- og varnarmál" þegar talað er um sprengjuflugvélar og eldflaugar, en að Norður-Kórea hljóti að ætla sér til árása með sömu tækjum? Er það ekki bara vegna þess að við erum góð en þau eru vond?
Í fréttum er sagt frá 8000 manna heræfingu Bandaríkjamanna og leppa þeirra í Suður-Kóreu, á og við Kóreuskaga. Svo er sagt að það sé Norður-Kórea sem hafi í hótunum. Fyrirgefið, en er hægt að hóta öðru ríki með meira afgerandi hætti en að halda stóra heræfingu við landamæri þess? Vel að merkja eru þessar heræfingar fastir liðir; við tökum sjaldan eftir því í fréttum að Bandaríkjamenn séu að flexa sig þarna sunnan við landamærin, en því skal alltaf haldið til haga að Norður-Kórea skuli bregðast við því, og er tilefnið þá oft ekki látið fylgja með. Við megum hóta þeim, en vei þeim ef þeir svara í sömu mynt.
Ef 99% fólks trúir hverju sem er upp á óvininn, og óvinurinn ýtir undir það með digurbarka og kokhreysti, er þá ekki freistandi að "hjálpa" atburðarásinni til að sveigjast í rétta átt? Nýjasta dæmið er þetta suður-kóreska herskip sem sökk undan ströndum Norður-Kóreu. Látum það vera, hvað það var að gera þar til að byrja með, en hver segir að Norður-Kórea hafi sökkt því? Bandarísk og suður-kóresk stjórnvöld? Er það bara þar með útrætt?
Tanaka Sakai spyr spurninga á vef Japan Focus. Var bandarískur kafbátur í felum neðansjávar á Kóreuhafi, án vitundar suður-kóreska hersins, sökkti suður-kóreska herskipinu því hann hélt að það væri norður-kóreskt, og svo var Norður-Kóreumönnum kennt um til að fela skandal og láta þá líta illa út? Ja, hvað ef?
Monday, July 26, 2010
Kortin í Símaskránni
Þegar byggðin í Grafarholti var reist fyrir nokkrum árum, rak ég svo augun í annað Hólatorg þar, á mótum Þúsaldar, Kristnibrautar og Ólafsgeisla. Það var þá eina götunafnið í borginni sem var til á tveim stöðum, þótt reyndar standi engin hús við nýja torgið. Mig minnir að ég hafi sent borgaryfirvöldum athugasemd, en kannski ætlaði ég bara að gera það. Símaskráin segir að torgið heiti ennþá Hólatorg, en síðast þegar ég ók þarna hjá sá ég skilti þar sem stóð Sólartorg. Mér létti.
Breytingar á byggðinni á höfuðborgarsvæðinu hafa verið hraðar undanfarin ár. Breytingarnar á gatnakortum símaskrár hafa ekki alltaf verið á sama tempói. Sólar/Hólatorg í Grafarholti er dæmi um að kortið sé einhverjum árum á eftir sinni samtíð. Kortið af Kópavoginum er hins vegar töluvert á undan henni. Við fjölskyldan fórum um daginn í heimsókn í Kórahverfi. Þar sem leiðir okkar liggja sjaldan um þær slóðir, höfðum við Símaskrána góðu meðferðis og fórum eftir kortinu. Það var allt annað en auðvelt.
Þar sem Arnarnesvegur sker Reykjanesbraut segir kortið að sé mislægt hringtorg. Fínt, við fundum það. Kortið sagði að stysta leiðin fyrir okkur væri út úr hringtorginu í austurátt. Þar var vegatálmi úr steypuklumpum og handan við þá var hesthúsahverfi, þar sem ætti að vera þjóðbrautin inn í Lindahverfi og þaðan áfram í Sali og Kóra. Við snerum því til baka, suður Reykjanesbraut, og ætluðum krókaleið sem kortið sagði að við gætum farið, eftir Hnoðraholtsbraut og svo inn á Arnarnesveg. Nú, Hnoðraholtsbraut er blindgata. Gott ef hún heitir ekki meira að segja eitthvað annað. Við enduðum með að fara norður á Fífuhvammsveg og þá leiðina. Stærðarinnar krókur og verulegar tafir. Þökk sé snillingunum sem skipuleggja Kópavog og láta kortagerðarmanni Símaskrár upplýsingar í té. Mér var skapi næst að senda Gunnari Birgissyni gangstéttarhellu í pósti og gefa honum til að nota sem hornstein að nýjum bæjarskipulagi.
En kortið getur líka verið á undan sinni samtíð í miðbæ Reykjavíkur. Á kortinu í Símaskrá 2009 var komin gata upp að tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu, og torg með: Reykjavegur og Reykjatorg, áttu herlegheitin að heita. Þar sem þessi ágæti vegur og torg voru, samkvæmt kortinu, var í reyndinni gríðarlega stór afgirt gryfja með vinnuvélum og drasli. Hvers vegna voru þá torgið og vegurinn komin inn á kortið? Þau eru altént horfinn aftur út núna. Í staðinn er kortagerðarmaðurinn búinn að þróa Mýrargötureit og byggja þar hús, sem ég sá ekki síðast þegar ég átti leið hjá.
Eðli málsins samkvæmt sé ég aðallega þær villur sem varða mitt eigið hverfi, miðbæinn. Gaman væri að vita hvort eitthvað svipað er í öðrum hverfum. Það er pirrandi að geta ekki treyst kortinu.
Hugvit, sannkallað hugvit
Friday, July 16, 2010
Mótmælum ESB kl. 17 á Lækjartorgi
Mótmæli gegn ESB kl. 17 á Lækjartorgi
Látið orðið berast.
Tuesday, July 13, 2010
Atli, Magma, VG og ríkisstjórnin
Thursday, July 8, 2010
Stjórnlagaþing og stjórnarskrá
Hvers vegna ætli frammistaða ríkisstjórnarinnar sé ekki betri en hún er? Kannski vantar viljann til að ganga gegn sérhagsmunum auðvaldsins -- en svo mikið er víst að getuna til þess skortir. Borgarastéttin stjórnar ríkisstjórninni nefnilega meira en ríkisstjórnin stjórnar borgarastéttinni. Það er borgarastéttin sem heldur uppi hinu borgaralega ríkisvaldi, og borgaralegt ríkisvald býður ekki upp á róttækar breytingar innan frá. Í mesta lagi svo miklar breytingar sem þarf til þess að það þurfi ekki að gera róttækar breytingar.
Að því sögðu er ekki sama hvernig borgaralega ríkisvaldið er rekið þangað til því verður steypt. Maður þarf að nota það sem maður hefur, og minnast þess að byltingin slær ekki kapítalismann niður og reisir upp sósíalískt þjóðfélag í einu höggi, heldur fer hún fram í þróun og stökkum, stundum hægt en stundum hratt, og á flestum vígstöðvum. Maður gerir ekki byltingu með því að breyta stjórnarskránni, en breytingarnar geta þó verið í rétta átt.
Íslenska stjórnarskráin og ríkið eru skondin fyrirbæri, byggð á Danmörku nítjándu aldar, sem var bæði tæknilega frumstæðari og mun fjölmennari en Ísland tuttugustu og fyrstu aldar, og konungsríki ofan í kaupið. Semsagt hannað fyrir þjóðfélag gerólíkt því sem við búum í. Umræðan skautar líka framhjá aðalatriðinu, völdunum í landinu. Til dæmis er þrískipting valdsins bara blaður. Það er auðvaldið sem ræður. Eða óháður Seðlabanki eða óháð Fjármálaeftirlit? Ekki óháð auðvaldinu, svo mikið er víst.
En með breytingum á stjórnarskrá (og öðrum lögum) má styrkja mannréttindi, styrkja lýðræði, þar með talið fullveldi ríkisins og yfirráð ríkisins yfir auðlindum og öðrum grunnstoðum hagkerfisins og þar með samfélagsins.
Nýja Ísland fæðist hins vegar ekki á fundum stjórnlagaþings.
Tuesday, June 29, 2010
Drengurinn heitir...
Í dag birtast á Egginni Ræður tvær af flokksráðsfundi VG, eftir sjálfan mig. Lesið þær.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þið sem óttist krabbamein af völdum farsíma, andið rólega. Geislavarnir ríkisins greina frá: Venjuleg farsímanotkun eykur ekki líkur á heilaæxlum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Utanríkisráðuneytið greinir frá: Tveir friðargæsluliðar til Kabúl. Nú? Er Ísland ennþá að hjálpa til við hernám Bandaríkjanna?
Monday, June 21, 2010
Thursday, May 27, 2010
Bezti vs. íhaldið
Auglýsingar Sjálfstæðisflokksins
Það er líka fyndið að íhaldið skuli allt að því forðast að nefna nafn flokksins síns í sínum eigin áróðri, jafnvel í 80 blaðsíðna blaði um daginn. Það blað, btw., fór ég með á pósthús og endursendi til Sjálfstæðisflokksins ásamt bréfi og vænum múrsteini. Ég lét viðtakanda greiða burðargjaldið.
Thursday, May 20, 2010
Dylgjur, lygar og útúrsnúningar
Saturday, May 8, 2010
natus est filius meus
Tuesday, May 4, 2010
Monday, May 3, 2010
Af afsprengjum mínum
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég sat um daginn á spjalli með félaga mínum í borðstofunni heima. Það var nálægt kvöldmatarleyti. Allt í einu drukknaði samtal okkar í ærandi trommuleik -- upphafinu á Dyer's Eve, síðasta laginu á ...and Justice for All með Metallicu. Það var fröken Eldey Gígja Vésteinsdóttir, fimmtán mánaða gömul, sem hafði kveikt á græjunum, valið lagið, hækkað og ýtt á 'play'. Ég er mjög stoltur af henni.
Wednesday, April 28, 2010
Öskufall og samfélagsólga
Tuesday, April 20, 2010
Friday, April 9, 2010
Veiddi rottu
Monday, March 29, 2010
Þetta helst...
Ég er ekki ánægður með frammistöðu ríkisstjórnarinnar í flestum stærri málum. Ekki er ég heldur ánægður með spuna hægrimanna allra flokka um "órólegu deildina". Tilgangurinn með slíku tali er að auka spennuna innan VG. Nú síðast í dag er það leiðari Fréttablaðsins. Hrifning mín á því blaði var nú aldrei mikil, en fer ekki vaxandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eggin.is birtir ræðu Þorvaldar Þorvaldssonar frá Austurvelli í fyrradag.
Lesið líka Söguendurskoðun og fullveldi eftir Þórarin Hjartarson og Byltingarástand í Grikklandi eftir Jón Karl Stefánsson.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Evrópuráðið varar Alþjóða heilbrigðismálastofnunina við því að kannski verði faraldursviðvaranir hunsaðar næst vegna þess að svínaflensan hafi verið hæpuð, 65.000 dauðsföllum spáð á Bretlandi en raunin varð 360 dauðsföll. Ég velti því nú fyrir mér hvort það sé ekki til marks um að viðbrögðin hafi einmitt verið rétt. Stærstu ógnirnar verða óneitanlega smáar ef það er brugðist rétt við þeim, er það ekki?
Saturday, March 20, 2010
Strauss-Kahn og kreppan
Saturday, March 13, 2010
Ræða á Austurvelli
Gott fólk.
Ég hef starfað á geðdeild undanfarin níu ár. Á meðan íslenska hagkerfið óx hraðast og féll hraðast, gekk lífið sinn vanagang á deild 14 á Kleppi. Þangað kom aldrei neitt góðæri, heldur var deildin rekin með sparsemi og ráðdeild og lágum launum.
Lífið gekk sinn vanagang, þangað til nú í desember. Þá fengum við þær fréttir að það ætti að loka. Allir fengu uppsagnarbréf í janúar, sagt upp frá og með fyrsta maí nk. Ég trúi því mátulega, sem okkur er sagt, að ástæðurnar séu hugmyndafræðilegar. Ég hygg hins vegar að þarna láti hinn fjársvelti Landspítali undan kröfum um að spara – mikið og fljótt.
Krafan um sparnað kemur vitanlega að ofan, frá norrænu velferðarstjórninni okkar, sem fer að vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Hefur einhver heyrt um land sem hefur byggt upp norrænt velferðarkerfi undir leiðsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Nei – vegna þess að það land er ekki til. Erindi sjóðsins er ekki að hjálpa okkur að byggja upp velferð, heldur að hjálpa kröfuhöfum að innheimta skuldir. Hollráðin sem frá honum koma ganga út á að einkavæða ríkiseignir, draga út útgjöldum ríkisins og loks að greiða fyrir erlendri fjárfestingu. Með öðrum orðum, að innviðir samfélagsins verði settir á uppboð fyrir fjárfesta. Að spyrja hvernig við mundum spjara okkur án Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er álíka gáfulegt og að spyrja hvernig fíkill mundi spjara sig án handrukkara.
Hér er ein vísa eftir sjálfan mig:
IceSave bæði og ESB
undan þeim stynur þjóðin.
Eg vil negla upp á tré
Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Við megum aldrei gleyma að við búum í stéttskiptu þjóðfélagi og þessu landi er stjórnað af valdastétt sem er ekki kosin heldur ræður í krafti eignarhalds og yfirráða yfir fjármagni.
Þessi valdastétt heitir fjármálaauðvald. Það skipulagði fjármálakerfi landsins eftir sínum hagsmunum og tryggði þannig eigin völd nógu vel til að halda velli þrátt fyrir hrun og þótt við þykjumst hafa gert byltingu. Fjármálaauðvaldið er alþjóðlegt í eðli sínu: Bankajöfrar á Íslandi og í t.d. Bretlandi eða Hollandi eiga meira sameiginlegt hverjir með öðrum heldur en vinnandi fólki í þessum löndum. Við, vinnandi fólk, höfum verið féflett af sameiginlegum óvini, fjármálaauðvaldinu, og erum náttúrlegir bandamenn.
Fjármálaauðvaldið fær sitt áður en heimilin fá skuldaleiðréttingar, kröfur þess ganga fyrir velferðarkerfinu og eru meira að segja verðtryggðar! Þarf frekari vitnanna við, um það hver ræður í þessu landi? Follow the Money!
Ríkisstjórnin sem er við völd er gott dæmi um það að sérhver ríkisstjórn er framkvæmdanefnd ríkjandi stéttar. Ríkjandi stétt bindur ekki bara hendur ríkisstjórnarinnar, heldur setur henni beinlínis fyrir verkefni.
Ég er í sjálfu sér á móti öllum borgaralegum ríkisstjórnum, en þær eru samt ekki allar eins. Ef við fellum hina gölluðu núverandi ríkisstjórn í dag, þá munum við í staðinn fá aðra ríkisstjórn, enn verri. Þá væri verr af stað farið en heima setið. Ef það á að taka til í alvöru í þjóðfélaginu þarf að verða til pólitískt afl sem er fært um það.
Ríkisstjórnin dugar ekki gegn auðvaldinu vegna þess að hún er sköpuð til að þjóna því. Allt kerfið er hannað í þágu valdastéttarinnar og það er varla á valdi einnar stjórnar að sporna gegn því – en ég sé ekki heldur að hún reyni. Það er nefnilega ekki sögulegt hlutskipti krata að setja skorður á auðvaldið, heldur á alþýðuna.
Baráttan núna þarf að beinast gegn hinni hægrisinnuðu kreppupólitík sem auðvaldið rekur í gegn um ríkisstjórnina og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ef við viljum setja baráttunni markmið, eða skilgreina skotmörk, þá er af nógu að taka: Baráttan gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og gegn verðtryggingunni, fyrir skuldaleiðréttingum, fyrir velferðarkerfinu og fyrir félagslegu eignarhaldi á auðlindunum, svo ég nefni fáein dæmi.
Pólitískt afl, sem er fært um að bylta þjóðfélaginu og koma raunverulegum völdum í hendur almennings, verður ekki til af sjálfu sér. Það þarf skipulagða og markvissa baráttu til. Hagsmunir skuldaöreiga og okurlánaauðvalds eru ósamrýmanlegir. Annað hvort verður að víkja. Það stendur því upp á okkur sjálf, grasrótina og almenning, að berjast gegn auðvaldinu á öllum sviðum. Ávöxturinn verður ríkulegur ef við höfum betur, enda getur enginn mótað samfélagið okkar betur en við sjálf.
Takk fyrir.
Ég skal verða fjármálaráðherra
Ég lýsi mig hér með reiðubúinn.
Fyrstu verk mín þegar ég er tekinn við fjármálaráðuneytinu verða þessi: Að reka Alþjóðagjaldeyrissjóðinn úr landi, að leiðrétta stökkbreyttan höfuðstól húsnæðislána, að þjóðnýta fjármálastofnanir: banka, tryggingafélög og lífeyrissjóði; að hækka örorkubætur, lækka virðisaukaskatt á nauðsynjavörum, framselja fyrrum eigendur og stjórnendur Landsbankans til Hollands eða Bretlands, setja lög um hámarkslaun og hækka taxta verkalýðsfélaganna einhliða.
Síðan mundi ég fá mér hádegismat.
Monday, March 8, 2010
Um hvað var verið að kjósa?
Ég mætti og kaus "nei" vegna þess að í fyrsta lagi samþykki ég ekki þennan tiltekna samning -- og vegna þess í öðru lagi að ég samþykki heldur engan annan samning sem felur það í sér að íslenskur almenningur taki á sig skuldir fjármálaauðvaldsins. Ég mun ekki una þeirri niðurstöðu að innviðir íslensks samfélags verði skornir niður til að borga fyrir svikamyllur útrásarhrappanna. Ég hygg að ég sé ekki einn um að hafa haft þetta í huga þegar ég krossaði skýrt og ákveðið við "nei".
Nánari skýringar: Hugleiðingar um IceSave og stéttabaráttuna.
IceSave og stéttabarátta
Saturday, March 6, 2010
Dagur 6
IceSave og stéttabaráttan
Wednesday, February 24, 2010
Vandinn er kerfið, ekki persónurnar
Tuesday, February 23, 2010
Forsendur IceSave og völdin í landinu
Ég get alveg unað við lagatæknilega fundna niðurstöðu sem sýknar íslenska alþýðu af svikum fjármálaauðvalds með íslenskt ríkisfang. En það í besta falli tvísýn leið. Þetta er nefnilega ekki spurning um lög, heldur um völd. Þetta er pólitísk spurning og hún er þessi: Hverjir fara með völdin í þessu þjóðfélagi? Svarið á ekki að þurfa að koma neinum á óvart: Fjármálaauðvaldið ræður ennþá ríkjum. Hagsmunir þess og hagsmunir almennings eru ósættanlegir og þegar öllu er á botninn hvolft verður annað hvort að víkja. Annað hvort fer drjúgur hluti þjóðarinnar á hausinn -- og þá verður allt vitlaust -- ellegar að fjármálafyrirtækin verða látin gjalda sjálf fyrir eigið sukk. Á meðan fjármálaauðvaldið ríkir, þá er farið eftir hagsmunum þess. Þá mun almenningur halda áfram að borga brúsann en sökudólgarnir sleppa tiltölulega vel.
Þjóðfélagið er stéttskipt og ríkjandi stefna er ávallt stefna ríkjandi stéttar. Að kalla ríkisstjórnina "vinstristjórn" er merkingarlaust, tómt orð á meðan fjármálaauðvaldið markar ennþá stefnuna. Af hverju heldur fólk að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið séu inni í dæminu? Fyrst og fremst sem bakhjarlar fjármálaauðvaldsins. Stéttabaráttan á Íslandi í dag stendur öðru fremur milli skuldara og okurlánara. Okurlánararnir þekkja sína hagsmuni og skipuleggja sína baráttu vel. Það verða skuldararnir líka að gera.
Monday, February 22, 2010
Geðdeild, gyðingar og spilling
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Gyðingar í Malmö hrekjast burtu vegna ofsókna, segir Óli Tynes. Það er auðvitað rétt, sem hann hefur eftir borgarstjóranum Ilmar Reepalu, að gyðingaofsóknir séu "skiljanlegar" í ljósi þess hvernig Ísrael hegðar sér í nafni gyðinga, en það er óþolandi þegar menn gera ekki greinarmun á zíonisma og gyðingum sem slíkum og réttmætur and-zíonismi snýst upp í ranglátan and-semítisma. En það eru víst til fávitar í öllum hópum. AntiFa í Svíþjóð hafa einmitt stundum mætt á mótmæli gegn Ísrael, sem nýnasistar hafa boðað til, lamið nýnasistana og hrætt þá í burtu og komið í veg fyrir að þeir gætu blandað gyðingahatri saman við and-zíonisma, og síðan --þegar þeir eru flúnir burt -- hefur AntiFa haldið sín eigin mótmæli gegn Ísrael, og þá á eðlilegum forsendum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Finnur einhver lykt af spillingu þegar Sveinbjörnsson segir flatar afskriftir vera "óraunhæfar"? En það bull. Óraunhæft fyrir hvern? Hvers vegna eru afskriftir fyrir stórfyrirtæki í lagi en ekki fyrir heimili? Hér er mergur málsins: Tilvistarskilyrði fjármálaauðvaldsins og tilvistarskilyrði fólksins í landinu eru komið í ósættandi mótsögn sem harðnar bara og harðnar. Auðvitað vill fjármálaauðvaldið ekki gefa neitt eftir sisona. En það mun gera það á endanum, þótt það kosti baráttu. Þá væri víst strategískt viturlegra að gefa strax eftir óverjanleg vígi, og vona það besta. En nei, þrjóskan og eigingirnin vega þyngra. Eitt mikilvægasta verkefni okkar tíma er að sigrast á fjármálaauðvaldinu.
Sunday, February 21, 2010
Nýtt Ísland: Höldum þessu til haga
En það er best að halda til haga tilvitnunum "úr samþykkt NÍ", sem hafa verið teknar af heimasíðu þeirra:
"* Regluverkið verði tekið til mikillar endurskoðunar. Smá sem stór brot verði skilgreind í hertari refsiramma þar sem það á við. Harðari og skilgreindari refsirammi smá sem stórra afbrota, veiti refsingu við hæfi, þannig verður lög og regla framfylgt betur í siðuðu þjóðfélagi. Lög og reglur nái yfir alla á Íslandi, líka stjórnmálamenn.
* Dreifingu og innflutningi fíkniefna og glæpasatarfsemi verði lýst stríð á hendur. Lögin skilgreind betur og harðari refsingar e áður þekkist. Lýðreglu verði komið á ásamt sérstakri lögreglu sem vinnur í lí nafnleysi manna að því að útrýma almennri glæpastarfsemi á Íslandi. [...]
* Fangelsi gerð rammgirtari og fleiri fangelsi byggð. Skylduvinna og ábótakerfi fyrir fanga verði komið upp við afplánun."
Svo er hér annar moli sem best er að týnist ekki:
"Samstarfshópur NÍ og austurríska JRDE í Vínarborg skilar fljótlega af sér skýrslu um ágæti svokallaðar Lýðreglu fyrir hag hins almenna borgara."
Hvað er þetta dularfulla "JRDE"? Ég hef leitað með Gúgli og ekkert fundið, og þekkir hr. Gúgl þó marga. Er "lýðregla" kannski íslensk þýðing á þýska orðinu Freikorps?
Tuesday, February 16, 2010
Það er aldrei....
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Tveir heiðursmenn dæmdir í fangelsi fyrir að gera sitt til að hindra að maður sé sendur út í dauðann. Hvað er hægt að segja? Fáránlegur og ranglátur dómur en kannski í fullu samræmi við fáránlegt og ranglátt kerfi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvernig er það, geta menn ekki sammælst um að lýðræði í lífeyrissjóðum sé vond hugmynd?
Friday, February 12, 2010
Tólfti febrúar
Lítil skref fyrir eina manneskju, en risastökk fyrir mannkyn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eigendur niðursetningafyrirtækja skulu njóta trausts, segir RÚV. Trausts hverra? Jóhannes í Bónus og Ólafur í Samskip njóta ekki míns trausts, svo mikið er víst.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stór. Er það ekki sikk?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þórður birtir tíunda hluta, og síðasta að sinni, af æsilegri frásögn sinni af miður ánægjulegum samskiptum við Guðmund Hjörvar Jónsson, lögregluþjón í Borgarnesi. Mæli með þessari lesningu þótt löng sé.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hringhenda sem ég orti á dögunum:
Setur hryggð að okkur oft,
auðvald tryggðir seldi.
Höldum dygðum hátt á loft:
Hamri, sigð og eldi.
Saturday, February 6, 2010
Styrkjum félagsþjónustuna
Hringhenda
Ljótur blettur á oss er,
illsku-grettur Sjóður.
Alþjóð flettir fé og mer,
fáum léttir róður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ef einhver er búinn að gleyma hvað er að gerast hjá VG í Reykjavík, þá skal ég minna ykkur á það:
Gerum hreint um borg og bý,
í bláa spyrnum fæti:
Kjósið Véstein annað í
eða þriðja sæti!
Friday, February 5, 2010
Lítil vísa eftir sjálfan mig
þannig flétta ég óðinn:
Nú skal höggva, nú er lag,
niður með Gjaldeyrissjóðinn!
Thursday, February 4, 2010
AGS er innheimtustofnun
Tilgangurinn með veru AGS á Íslandi er ekki að hjálpa íslenskum almenningi með því að bæta þjóðfélagið. Tilgangurinn er að innheimta skuldir, að "ráðleggja" ríkinu um hvernig það eigi að fara að því að bera drápsklyfjarnar. Meðölin: Skera niður útgjöld til félagslegrar þjónustu; opna landið fyrir "erlendri fjárfestingu" alþjóðlegs fjármálaauðvalds; selja eignir hins opinbera, þar með taldar auðlindir. Með öðrum orðum, gefa í í áframhaldandi frjálshyggjustefnu.
"Hugsið ykkur hvað væri gaman," sagði Hannes Hólmsteinn um árið, "ef við gæfum bara í." Þeir sem hafa gaman af að gefa í í frjálshyggjuvæðingunni ættu að vera ánægðir með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Stúdentapólitíkin og ég
Einn góðan veðurdag fyrir nokkrum árum, þegar ég var kominn heim úr skólanum, var hringt í mig frá Vöku. Þar var á ferðinni gamall bekkjarbróðir sem skoraði á mig að fara nú og kjósa Vöku. Til þess valdi hann vanhugsuð orð. Nógu vanhugsuð til þess að reka mig á lappir og arka út í Árnagarð aftur til þess að kjósa Röskvu. Ekki semsé vegna þess að ég hefði einhvern áhuga á Röskvu, heldur vegna þess að Vaka styggði mig.
Ég var ekki lengi að hugsa mig um þegar mér var boðið að vera með í að stofna Háskólalistann einu eða tveim árum seinna. Þegar ég fór að kynna mér hvernig þetta leit út, blasti við hvað stúdentapólitíkin á Íslandi er hallærisleg og bjánaleg, en það sem verra er: grunnrist. Það eina sem ég sá áhugavert við hana var að leggja til atlögu við hana sem slíka með það fyrir augunum að brjóta upp sandkassakerfi aukaatriðanna. Það var líka tilgangurinn með stofnun Háskólalistans, og gekk í sjálfu sér ágætlega á tímabili, þótt ekki ynnist fullur sigur. Ég tók rétt nógu mikinn þátt í listanum til þess að geta verið stoltur af að hafa verið með.
Stúdentapólitík hentar mjög vel fyrir grínframboð. Ég tók þátt í einu slíku, Alþýðulistanum. Þar hélt ég fram harðlínu and-endurskoðunarstefnu á einum málfundi fyrir erlenda stúdenta. Það var gaman. Gaman að snúa út úr og fíflast. Svo sneri ég við blaðinu, fór aftur að styðja H-lista opinberlega og lýsti í leiðinni frati á Alþýðulistann og að hann hefði nú að fullu gengið til liðs við auðvaldið og væri orðinn þess helsti þjónn.
Núna býður Skrökva fram í kosningum. Eins og Óli Gneisti, þá mundi ég kjósa hana ef ég gæti. Á meðan stúdentapólitíkin er of innihaldslaus til þess að fólk nenni að kjósa í kosningunum, hvað þá annað, þá eru grínframboðin ágæt ástæða til að mæta.
Bjarni og sakleysið
Wednesday, February 3, 2010
„Eru að missa þolinmæðina“
Það er margt í íslenskum stjórnmálum sem ég get reytt hár mitt yfir. Eitt af því sem ergir mig mest að hvað stjórnarandstaðan er lufsuleg og ótrúverðug. Já, og að Sjálfstæðisflokkurinn skuli sækja í sig veðrið í skoðanakönnunum.
Díses kræst, þetta eru sjálf öflin sem leiddu okkur út í svaðið!
Monday, February 1, 2010
Stöðvum niðurníðslustefnu skipulagsauðvaldsins
Saturday, January 30, 2010
Deild 14 lokað í vor
Tuesday, January 26, 2010
Það á að vera frítt í strætó fyrir alla, alltaf
Monday, January 25, 2010
Ég gef kost á mér í forvali VG 6. febrúar
Til að geta kosið í forvalinu þarf að vera skráður í flokkinn ekki seinna en á miðvikudaginn, 27. janúar, vera orðinn fullra 16 ára og eiga lögheimili í Reykjavík. Það er einföld aðgerð: Maður fer á Vg.is, þar er hnappur hægra megin á síðunni, þar sem stendur "Ganga til liðs við VG" og þið útfyllið það. Það tekur svona eina og hálfa mínútu. Þá eruð þið komin í flokkinn og getið tekið þátt í forvalinu 6. febrúar næstkomandi.
Með von um stuðning.