Þegar ég var drengur var ég alltaf vonsvikinn yfir því að gatan sem ég bjó við, Hólatorg í vesturbæ Reykjavíkur, væri ekki höfð með á gatnakorti Símaskrárinnar. Ástæðan er sú að við Hólatorg eru ekki nema fjögur hús, og gatan stutt eftir því, en austan við hana er önnur gata, svipað stutt, sem ber hið langa nafn Kirkjugarðsstígur. Eftir mörgum gömlum Símaskrám að dæma er Sólvallagata því beint framhald af Kirkjugarðsstíg, en litla Hólatorg bara ekki til. Núorðið fær Hólatorg að fljóta með, en er alltaf eins og troðið inn á milli og sést ekki nógu vel. Þessi galli kveikti áhuga minn á gatnakortum Símaskrárinnar.
Þegar byggðin í Grafarholti var reist fyrir nokkrum árum, rak ég svo augun í annað Hólatorg þar, á mótum Þúsaldar, Kristnibrautar og Ólafsgeisla. Það var þá eina götunafnið í borginni sem var til á tveim stöðum, þótt reyndar standi engin hús við nýja torgið. Mig minnir að ég hafi sent borgaryfirvöldum athugasemd, en kannski ætlaði ég bara að gera það. Símaskráin segir að torgið heiti ennþá Hólatorg, en síðast þegar ég ók þarna hjá sá ég skilti þar sem stóð Sólartorg. Mér létti.
Breytingar á byggðinni á höfuðborgarsvæðinu hafa verið hraðar undanfarin ár. Breytingarnar á gatnakortum símaskrár hafa ekki alltaf verið á sama tempói. Sólar/Hólatorg í Grafarholti er dæmi um að kortið sé einhverjum árum á eftir sinni samtíð. Kortið af Kópavoginum er hins vegar töluvert á undan henni. Við fjölskyldan fórum um daginn í heimsókn í Kórahverfi. Þar sem leiðir okkar liggja sjaldan um þær slóðir, höfðum við Símaskrána góðu meðferðis og fórum eftir kortinu. Það var allt annað en auðvelt.
Þar sem Arnarnesvegur sker Reykjanesbraut segir kortið að sé mislægt hringtorg. Fínt, við fundum það. Kortið sagði að stysta leiðin fyrir okkur væri út úr hringtorginu í austurátt. Þar var vegatálmi úr steypuklumpum og handan við þá var hesthúsahverfi, þar sem ætti að vera þjóðbrautin inn í Lindahverfi og þaðan áfram í Sali og Kóra. Við snerum því til baka, suður Reykjanesbraut, og ætluðum krókaleið sem kortið sagði að við gætum farið, eftir Hnoðraholtsbraut og svo inn á Arnarnesveg. Nú, Hnoðraholtsbraut er blindgata. Gott ef hún heitir ekki meira að segja eitthvað annað. Við enduðum með að fara norður á Fífuhvammsveg og þá leiðina. Stærðarinnar krókur og verulegar tafir. Þökk sé snillingunum sem skipuleggja Kópavog og láta kortagerðarmanni Símaskrár upplýsingar í té. Mér var skapi næst að senda Gunnari Birgissyni gangstéttarhellu í pósti og gefa honum til að nota sem hornstein að nýjum bæjarskipulagi.
En kortið getur líka verið á undan sinni samtíð í miðbæ Reykjavíkur. Á kortinu í Símaskrá 2009 var komin gata upp að tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu, og torg með: Reykjavegur og Reykjatorg, áttu herlegheitin að heita. Þar sem þessi ágæti vegur og torg voru, samkvæmt kortinu, var í reyndinni gríðarlega stór afgirt gryfja með vinnuvélum og drasli. Hvers vegna voru þá torgið og vegurinn komin inn á kortið? Þau eru altént horfinn aftur út núna. Í staðinn er kortagerðarmaðurinn búinn að þróa Mýrargötureit og byggja þar hús, sem ég sá ekki síðast þegar ég átti leið hjá.
Eðli málsins samkvæmt sé ég aðallega þær villur sem varða mitt eigið hverfi, miðbæinn. Gaman væri að vita hvort eitthvað svipað er í öðrum hverfum. Það er pirrandi að geta ekki treyst kortinu.
Monday, July 26, 2010
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment