Monday, November 29, 2010

Dræm kosningaþátttaka

Það eru ekki svo margar vikur síðan ég varð fyrst var við það að núgildandi stjórnarskrá Íslands ætti sér aðdáendur. Þessir aðdáendur, varðhundar pólitískrar stöðnunar í landinu, keppast nú við að klappa hver öðrum á bakið í bloggum og víðar. Þeir segja að arfaslök kosningaþátttaka á laugardaginn var sýni að landsmenn séu barasta þrælánægðir með stjórnarskrána eins og hún er.

Þvílíkt bull. Ég hygg að núgildandi stjórnarskrá eigi sér ekki svo marga aðdáendur. Hins vegar held ég að dræm kosningaþátttaka skýrist einfaldlega af því að fólk búist ekki við svo góðum árangri af stjórnlagaþinginu að því finnist margra klukkutíma undirbúningsvinna borga sig. Nú undirbjó ég mig vel sjálfur, og kaus, en hins vegar eru væntingar mínar til þingsins afar jarðbundnar. Það var reyndar þess vegna sem ég ákvað að bjóða mig ekki fram sjálfur.

Það er ekki stjórnarskráin sem segir til um hvernig þjóðfélagið er rekið og ég held að flestir átti sig ágætlega á því. Það eru nefnilega til mörg dæmi um lönd þar sem góð stjórnarskrá hefur ekki komið í veg fyrir alvarlega misbresti í stjórnarfari. Það má nefna Bandaríkin, Indland og Sovétríkin sem dæmi.

Lóðið er nefnilega að góðar stjórnarskrár valda ekki sjálfar breytingum, heldur festa þær í sessi eftir að þær eru þegar orðnar, oft í byltingu.

Slíka stjórnarskrá fyrir Ísland hlakka ég til að sjá, en ég býst ekki við henni út úr stjórnlagaþinginu, hvernig svo sem það verður mannað.

No comments:

Post a Comment