Thursday, December 9, 2010

Óþarfur fornleifauppgröftur í Vonarstræti 12

Nú þegar gamla Vonarstræti 12 hefur verið flutt um set, stendur til að grafa eftir fornleifum í gamla húsgrunninum áður en annað verður gert við hann. Ég efast um að nokkuð finnist.

Þegar Skúli Thoroddsen sýslumaður ákvað að byggja húsið, sem til skamms tíma stóð að Vonarstræti 12, þá keypti hann fyrst lóðina af langalangafa mínum, Indriða Einarssyni, sem bjó í Tjarnargötu 3c, við hliðina. Það hús hefur líka verið flutt, og stendur í dag á horni Garðastrætis og Grjótagötu (sunnanmegin).

Ég man ekki með vissu hvar ég heyrði það, en einhver sagði mér hvernig lóðin Vonarstæti 12 varð til. Já, varð til. Þarna er mér sagt að hafi verið dálítil vík norður úr Reykjavíkurtjörn frameftir nítjándu öld. Indriði langalangafi hafi svo haft það fyrir sið að aka einum hjólbörum af mold í víkina á hverjum degi, sér til heilsubótar. Og þegar víkin var á endanum orðin full af jarðvegi, þá seldi hann Skúla hana og Skúli byggði húsið.

Þannig að ég spái því að það finnist ekki annað í húsgrunninum en jarðvegurinn sem Indriði ók í hann, og þar undir gamall tjarnarbotn.

En það er kannski best að maður fullyrði sem minnst út frá munnmælasögum.

3 comments:

 1. Það er nú svo sem ekki sjálfgefið að lega Tjarnarinnar hafi verið sú sama frá landnámi og fram á 19.öld...

  ReplyDelete
 2. Hvað er annars málið með þessa húsaflutninga? Hvers vegna fá ekki húsin að standa þar sem þau eru?

  ReplyDelete
 3. @ Stefán: Jájá, Tjörnin hefur breyst, aðallega minnkað við það að landið hefur risið smávegis og menn og náttúra fyllt upp í.

  @ Einar: Af því þau eru fyrir. Er það nú spurning.

  ReplyDelete