Thursday, July 29, 2010

Egill: „Samsæri útlendinga“

Egill Helgason bloggaði um daginn um hvað það væri fáránlegt að til sé fólk sem heldur „að það sé í gangi samsæri útlendinga um að hirða allt af Íslendingum“. Í hans augum er það auðvitað til marks um heimóttarskap og útlendingahræðslu að halda að útlendingum sé ekki sama um Ísland. En viti menn, ætli erlendir kapítalistar hafi ekki áhuga á því að græða á Íslandi eins og öðru? Ætli þeim sé svo sama um Ísland að þeir hirði ekki um að arðræna það eins og önnur lönd? Prófið að segja það við áliðnaðinn, Ross Beaty eða spönsk útgerðarfyrirtæki. Nei, þetta er hreinræktuð óskhyggja í Agli. Heimsvaldaauðvald sækir sér arð hvert sem hann er að finna. Lönd eru ekki undanþegin þótt þau séu lítil eða fátæk. Það er nefnilega hægt að þéna furðulega mikið á því að arðræna fólk, þótt það líti ekki út fyrir að vera ríkt. Salómonseyjar, Fijieyjar, Falklandseyjar, Haítí og Ísland eru engar undantekningar. Þetta snýst ekki um það hvort húsmóðir í Kanada man eftir eldgosi eða hruni þegar hún heyrir minnst á Ísland, heldur hvort það gefur eitthvað í aðra hönd að kaupa upp brunarústirnar. Evrópusambandinu líst alla vega vel á siglingaleiðir og fiskimið og aðrar auðlindir. Það er líka ekki skrítið: Ef íslenska auðvaldið getur auðgast á þeim, þá getur hvaða auðvald sem er líka hagnast á því ef það fær tækifæri til þess.

Það er svo laukrétt sem hann segir, að bankamennirnir og sægreifarnir sem settu Ísland á hausinn eru upp til hópa alíslenskir. Hvaða lærdóm má draga af því? Að íslenskt auðvald sé varasamt en erlent auðvald sé aufúsugestur? Ég hefði haldið að auðvaldið sem slíkt væri frekar varasamt og það sé ekki aðalatriði hvaða ríkisfang það hefur. En Egill er að eigin sögn ekki-marxisti þannig hann það má ganga út frá því að hann skilji ekki stéttabaráttuna og sé fyrirmunað að skilja að stéttaskipting gengur þvert á þjóðernislínur og ríki. Hann sér þetta bara í Íslendingum og útlendingum og finnst hjákátlegt að einhver óttist fjárfesta bara vegna þess að þeir séu útlendingar. Og þetta er mest metni fjölmiðlamaður Íslands. En hughreystandi.

No comments:

Post a Comment