Thursday, February 4, 2010

Stúdentapólitíkin og ég

Ekki nenni ég að blanda mér inn í stúdentapólitík núna, mörgum árum eftir að ég kláraði sjálfur, en úr því að Óli Gneisti skrifar um hana langar mig að gera það líka.

Einn góðan veðurdag fyrir nokkrum árum, þegar ég var kominn heim úr skólanum, var hringt í mig frá Vöku. Þar var á ferðinni gamall bekkjarbróðir sem skoraði á mig að fara nú og kjósa Vöku. Til þess valdi hann vanhugsuð orð. Nógu vanhugsuð til þess að reka mig á lappir og arka út í Árnagarð aftur til þess að kjósa Röskvu. Ekki semsé vegna þess að ég hefði einhvern áhuga á Röskvu, heldur vegna þess að Vaka styggði mig.

Ég var ekki lengi að hugsa mig um þegar mér var boðið að vera með í að stofna Háskólalistann einu eða tveim árum seinna. Þegar ég fór að kynna mér hvernig þetta leit út, blasti við hvað stúdentapólitíkin á Íslandi er hallærisleg og bjánaleg, en það sem verra er: grunnrist. Það eina sem ég sá áhugavert við hana var að leggja til atlögu við hana sem slíka með það fyrir augunum að brjóta upp sandkassakerfi aukaatriðanna. Það var líka tilgangurinn með stofnun Háskólalistans, og gekk í sjálfu sér ágætlega á tímabili, þótt ekki ynnist fullur sigur. Ég tók rétt nógu mikinn þátt í listanum til þess að geta verið stoltur af að hafa verið með.

Stúdentapólitík hentar mjög vel fyrir grínframboð. Ég tók þátt í einu slíku, Alþýðulistanum. Þar hélt ég fram harðlínu and-endurskoðunarstefnu á einum málfundi fyrir erlenda stúdenta. Það var gaman. Gaman að snúa út úr og fíflast. Svo sneri ég við blaðinu, fór aftur að styðja H-lista opinberlega og lýsti í leiðinni frati á Alþýðulistann og að hann hefði nú að fullu gengið til liðs við auðvaldið og væri orðinn þess helsti þjónn.

Núna býður Skrökva fram í kosningum. Eins og Óli Gneisti, þá mundi ég kjósa hana ef ég gæti. Á meðan stúdentapólitíkin er of innihaldslaus til þess að fólk nenni að kjósa í kosningunum, hvað þá annað, þá eru grínframboðin ágæt ástæða til að mæta.

2 comments:

  1. Þetta með alþýðulistan er mjög fyndið.

    ReplyDelete
  2. Ég man eftir því úr fyrsta ári mínum í háskólanum einu sinni að á kappræðum milli fulltrúa vöku og röskvu þá spurði ég báða frambjóðendur hver væri munurinn á framboðin, þar sem þeir hefðu báðir talað fyrir nákvæmlega sömu hlutum. Þegar hvorugt þeirra gat svarað í hverju munurinn á framboðunum lægji þá ákvað ég að kjósa aldrei í stúdentapólitíkina. Sé aldrei eftir þeirri ákvörðun.

    ReplyDelete