Wednesday, July 28, 2010

Skjalaleki og mannslíf í hættu

Bandarísk stjórnvöld hafa gagnrýnt skjalalekann mikla á Wikileaks m.a. fyrir að hann geti stofnað lífi bandarískra hermanna í hættu. Kallið mig harðbrjósta -- en hvað með það? Hermenn hernámsveldis í herteknu landi -- eins og vestrænir hermenn í Afganistan -- eru lögmæt skotmörk fyrir andspyrnuna. Þeir eru hernaðarleg skotmörk og réttdræpir sem slíkir. Öfugt við óbreyttu borgarana sem þeir sjálfir keppast við að drepa. Setur lekinn líf bandarískra hermanna í hættu? Það getur verið. En þeir eru líka réttdræpir. Það er bandaríski herinn sem setur líf hermannanna í hættu með því að senda þá til Afganistan. En bandaríski herinn setur líf afganskra borgara í enn meiri hættu með glæpsamlegum hernaði sínum. Það eru ekki Afganar heldur bandaríski herinn sem er í órétti í Afganistan. Því fyrr sem afgönsku andspyrnunni tekst að hrekja hernámsliðið af höndum sér, þess betra. Andspyrna gegn hernámsliði er réttmætur málstaður. Herkostnaðurinn og mannfórnirnar eru á ábyrgð hernámsliðsins.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um hernað og Afganistan: Mogginn birti á sunnudaginn eitt af þessum reglulegu viðtölum sínum við "íslenska hermanninn" -- í þetta skipti strák í danska lífverðinum, sem hefur verið að berjast í Írak og Afganistan. Það er best að halda tvennu til haga: (1) Ekkert persónulegt, en þótt hann sé Íslendingur, þá er hann jafn réttdræpur í Afganistan, og jafn réttmætt skotmark fyrir andspyrnuna eins og hver annar böðull heimsvaldastefnunnar; (2) Það er siðlaust að setja hermennsku fram sem eðlilegt starf eða eðlilegan lífsstíl. Það er ekki eðlilegt starf eða lífsstíll að fást við það að drepa fólk, sama þótt það sé réttlætt með því að þetta sé jú vont, brúnt fólk og eigi bara skilið að vera drepið.

No comments:

Post a Comment