Monday, September 27, 2010

Hinn gríski Gylfi

Rúv greinir frá:
Stéttarfélög á almennum vinnumarkaði í Grikklandi ætla ekki að taka þátt í aðgerðum með opinberum starfsmönnum þann 7.október til að mótmæla efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar.

Talsmaður félaganna segir að þrátt fyrir að þau hafi staðið fyrir margs konar aðgerðum til að sýna andstöðu sína í verki, hafi eigi að síður verið farið að fyrirmælum Evrópusambandsins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í efnahagsmálum. Frekari verkföll skili því líklega engum árangri og óljóst sé hvers konar aðgerðir gegn stjórnvöldum geti skilað árangri.

Það mætti halda að hinn týndi tvíburabróðir Gylfa Arnbjörnssonar sé forseti ASÍ í Grikklandi. Ákveðið en kurteislega orðuð bréf geta mögulega haft áhrif á einhverja stjórnmálamenn, en öfugt við þau eru verkföll ekki bara tjáningarmáti heldur líka baráttuaðferð. Munurinn er deginum ljósari, nema í augum örgustu krata. Það sér hver sem vill sjá, að ef verkföllin hafa ekki skilað tilætluðum árangri ennþá, þá hafa þau ekki verið nógu sterk. Hvað er svarið við því? Draga úr þeim? Það er ýmislegt sem er ólíkt í Grikklandi og á Íslandi, en þarna er að minnsta kosti eitt sem við eigum sameiginlegt: Handónýt forysta á almenna vinnumarkaðnum.

No comments:

Post a Comment