Tuesday, July 27, 2010

Opið veiðileyfi á Norður-Kóreu

Ríkisstjórn Norður-Kóreu er einn af þeim aðilum sem vestræn orðræða hefur gert að svo hreinræktuðum skúrkum að það þarf ekki að efast um ásakanir gegn þeim. Það er hægt að halda því fram opinberlega að þeir drýgi hvaða glæp sem er, í trausti þess að enginn efist, spyrji spurninga eða gagnrýni.

En ég ætla samt að leyfa mér að gagnrýna. Ekki vegna þess að ég trúi því að norður-kóresk stjórnvöld séu æðisleg, heldur vegna þess að þau njóta ekki sannmælis -- eða, réttara sagt, það er römm slagsíða á fjölmiðlaumræðunni. Hér eru tvær staðreyndir sem aldrei má gleyma þegar menn hugsa um Kóreu: (1) Norður-Kórea er höfuðsetin af umsvifamesta heimsvaldaríki sögunnar, sem hefur tugþúsundir hermanna og vígvéla við suður-landamærin. (2) Það er auðvelt fyrir okkur Vesturlandabúa að gleyma Kóreustríðinu, en fyrir Kóreumenn er það allt annað en auðvelt.

Ætli Norður-Kórea sé svona hervædd vegna þess að geðbiluðum einræðisherra finnist bara svona gaman að horfa á hersýningar? Ætli það. Það er ekkert grín fyrir lítið land að halda heimsvaldastefnu og hernaðarmætti Bandaríkjanna í skefjum.

Þegar verða átök eða skærur í kring um Kóreu, þá er alltaf sjálfgefið að Norður-Kórea eigi upptökin. Af hverju er það svona sjálfsagt? Er ekki augljóst að Norður-Kórea hefur enga hagsmuni af nýju stríði? Er ekki augljóst að kokhreysti erlendra talsmanna hennar er til þess ætluð, að hræða andstæðingana frá því að ráðast á þá? Hvers vegna er orðræðan þannig að á Vesturlöndum séu það "öryggis- og varnarmál" þegar talað er um sprengjuflugvélar og eldflaugar, en að Norður-Kórea hljóti að ætla sér til árása með sömu tækjum? Er það ekki bara vegna þess að við erum góð en þau eru vond?

Í fréttum er sagt frá 8000 manna heræfingu Bandaríkjamanna og leppa þeirra í Suður-Kóreu, á og við Kóreuskaga. Svo er sagt að það sé Norður-Kórea sem hafi í hótunum. Fyrirgefið, en er hægt að hóta öðru ríki með meira afgerandi hætti en að halda stóra heræfingu við landamæri þess? Vel að merkja eru þessar heræfingar fastir liðir; við tökum sjaldan eftir því í fréttum að Bandaríkjamenn séu að flexa sig þarna sunnan við landamærin, en því skal alltaf haldið til haga að Norður-Kórea skuli bregðast við því, og er tilefnið þá oft ekki látið fylgja með. Við megum hóta þeim, en vei þeim ef þeir svara í sömu mynt.

Ef 99% fólks trúir hverju sem er upp á óvininn, og óvinurinn ýtir undir það með digurbarka og kokhreysti, er þá ekki freistandi að "hjálpa" atburðarásinni til að sveigjast í rétta átt? Nýjasta dæmið er þetta suður-kóreska herskip sem sökk undan ströndum Norður-Kóreu. Látum það vera, hvað það var að gera þar til að byrja með, en hver segir að Norður-Kórea hafi sökkt því? Bandarísk og suður-kóresk stjórnvöld? Er það bara þar með útrætt?

Tanaka Sakai spyr spurninga á vef Japan Focus. Var bandarískur kafbátur í felum neðansjávar á Kóreuhafi, án vitundar suður-kóreska hersins, sökkti suður-kóreska herskipinu því hann hélt að það væri norður-kóreskt, og svo var Norður-Kóreumönnum kennt um til að fela skandal og láta þá líta illa út? Ja, hvað ef?

3 comments:

  1. og hverjir hófu Kóreustríðið? hverjir þrömmuðu úr norðri og hófu slátrun á sunnan mönnum?

    hvernig hefur almenningur í Norður Kóreu það? hversu margar milljónir hafa farist úr hungri vegna þess að einræðisstjórnin vill eyða öllu í að fjármagna herinn?

    þú ert að verja þjóðarmorð útaf þinni pólitískutrú. ertu kannski einn af þeim sem telur að gúlakið og þjóðarmorð Rússa í Úkraínu séu bara lýgi? þú ert alveg jafn vitlaust og liðið sem segir að Helferðin hafi verið lýgi.

    ReplyDelete
  2. Er ég að verja þjóðarmorð? Þú getur bara sjálfur verið vitlaus.

    ReplyDelete
  3. Helferðin er þá væntanlega reið Hermóðs? Ég er nokkuð sannfærður um að sú för átti sér ekki stað.

    ReplyDelete