Thursday, October 7, 2010

Þorum að berjast og þorum að sigra

Þessi grein birtist áður á vefritinu Smugunni 6. október.
--- --- --- ---

Mótmælin núna eru ekkert grín. Þau eru sprottin af réttlátri reiði, sárum vonbrigðum og örvæntingu. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið undir væntingum. Annað hvort vegna getuleysis eða viljaleysis. Það er svo sem ekki við öðru að búast af höfuðstoð auðvaldsins, krötum.

Það er ábyrgðarhlutur að kenna sig við vinstri. Í þeim málum, sem mestu skipta fyrir fólkið hér og nú, hefur ríkisstjórninni mistekist vegna þess að hún hefur hegðað sér til hægri: Stutt við hagsmuni auðvaldsins en látið alþýðuna hafa reikninginn. Mér er sama þótt einróma hægrisinnaður kór íslenskra fjölmiðla kalli þennan óskapnað „vinstristjórn“, og þótt stjórnin sjálf taki undir það – verkið lofar meistarann og það á að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms er hægristjórn með vinstrigrímu. Það er meinið.

Það blasir ekkert heppilegra stjórnarmynstur við að óbreyttu. Alþingi mun ekki geta hrist fram aðra ríkisstjórn, nema þá ennþá hægrisinnaðri. Það yrði ennþá verra, þrátt fyrir allt. Þannig að þetta er ekkert spurning um að Bjarni Ben fái bara næst tækifæri til að spreyta sig. Hann gæti rétt reynt það og séð hvort mótmælin mundu ekki hætta.

Í búsáhaldabyltingunni voru valkostirnir skýrari. Þá var hægt að krefjast þess að þáverandi ríkisstjórn færi einfaldlega frá, og vinstriflokkarnir svokölluðu gætu þá fengið tækifæri til að reyna að leysa málin. Nú hafa þeir fengið það, og sýnt hvers þeir eru ekki megnugir. Já, eða ekki viljugir, nema hvort tveggja sé. Vera má að það hlakki í einhverjum, en ekki mér. Ég gnísti tönnum.

Vandamál okkar stafa af kapítalismanum og innan ramma hans er engin lausn til, sem almenningur getur sætt sig við. Auðvaldið er komið í blindgötu og annað hvort verðum við með auðvaldinu í blindgötunni, eða við segjum skilið við það og höldum okkar leið án þess. Ég er að tala um að gera byltingu og að byggja upp sósíalískt þjóðskipulag. Það er eina leiðin til þess að laga það sem laga þarf í þessu þjóðfélagi.

Fólk gerir ekki byltingar nema þegar öll önnur sund eru lokuð. Núverandi ríkisstjórn er óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því að sósíalísk bylting geti komist á dagskrá. Það er að segja, sósíalismi verður ekki valkostur fyrr en fólk sér með eigin reynslu að kratisminn er villuljós. Vandinn liggur í því að greina hismið frá kjarnanum. Ef fólk setur samasemmerki milli núverandi ríkisstjórnar og sósíalisma, þá er hægrisveifla því miður rökrétt antitesa við mistökum hennar. Ef það verður bylting í miðri hægrisveiflu, þá er voðinn vís. Þá er sjálfsprottin óreiða skárri.

Hlutverk sósíalista í dag er það sama og alltaf, að segja sannleikann um ástandið, um horfurnar, vandamálin og lausnirnar. Okkur er ærið verk á höndum. Ég veit ekki hvaða framhald verður á mótmælunum á Austurvelli í þessari viku, en ég veit að það sér ekki fyrir endann á spennunni í þjóðfélaginu. Ég veit líka að friðurinn í landinu er ekki öruggur.

Nú þurfa sósíalistar að fylkja liði sem aldrei fyrr. Við þurfum að passa okkur á keldum tækifærisstefnu, einangrunarstefnu og stéttasamvinnustefnu. Við megum ekki láta spyrða okkur saman við krata eða lýðskrumara. Við þurfum að setja sjálfan sósíalismann á dagskrá og berjast fyrir honum þangað til við sigrum. Þorum að berjast og þorum að sigra.

No comments:

Post a Comment